Færsluflokkur: Vefurinn
20.9.2008 | 11:42
Breyttasti maður heims
Tilgangurinn er ekki að vekja með ykkur viðbjóð þótt það sé e.t.v. óumflýjanlegt hjá sumum. Þegar ég var að kanna hverjir hefðu gengist undir flestar "fegrunar-lýtaaðgerðir" fann ég umfjöllun um þennan mann. Raunverulegar öfgar okkar tíma eru svo ótrúlegar að þær taka öllum skáldskap fram
Hann er sagður vera "breyttasti" maður heims. Saga hans er eiginlega óskiljanleg, sérstaklega þegar þú íhugar ábyrgð tannlæknanna og skurðlæknanna sem hljóta að hafa samþykkt að gera þessa breytingar á honum. Hér til vinstri er mynd af Dennis áður en breytingarnar hófust.
Hann heitir Dennis Avner og er rúmlega 50 ára gamall. Hann á heima í Nevada, USA og er komin af Indíánum. Indíánanafn sitt segir hann vera "Veiðiköttur". Fyrir utan eiginnafn sitt er hann þekktur undir nöfnunum; Kattarmaðurinn, Kötturinn, Tígur og Tígurmaðurinn.
"Ég er Hjúrani og Lakkóta Indíáni og ég fylgi gamalli Hjúrana hefð með að umbreyta sjálfum mér í verndardýr þeirra, tígurinn."
Denis hóf umfangsmiklar breytingar á líkama sínum þegar hann var 23 ára, eftir að hafa verið sagt af indíánahöfðingja einum; "Fylgdu vegi tígursins".
Dennis hefur greitt miklar fúlgur og gengið í gegnum mikinn sársauka til að breyta líkama sínum í þeim tilgangi að líkjast tígursdýri. Þeir sem hafa áhuga á að sjá fleir myndir af þessum furðulega Indjána geta skoðað þær á heimasíðu hans hér .
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.9.2008 | 04:24
Elsti bloggarinn
Þetta ku vera einn af elstu, ef ekki sá al-elsti, bloggari í heimi. Hann heitir Donald Crowdis og skrifar bloggið "Don to Earth" sem er virkilega skemmtilegt aflestrar. Hann á heima í Kanada og er níutíu og fjögra ára gamall. Konan hans er á elliheimili en sjálfur býr hann enn heima hjá sér að mér skilst. Don er afar vinsæll bloggari en nú fyrir stuttu brá svo við að hann hætti að blogga.
Eftir dúk og disk kom svo stutt yfirlýsing frá honum þar sem hann sagðist ekki vera dauður, heldur hefði hann þurft að sinna mikilvægum fjölskyldumálum. Þið getið lesið þessa sérkennilegu yfirlýsingu hér ásamt öðrum pistlum hans Dons. Einn þeirra fjallar að hluta til um afa hans sem bjó í Kanada á nítjándu öld.
Mín stefna er að verða svona krúttlegur eins og þessi kall.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 04:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.9.2008 | 12:39
Klikkað klukk
Það verður varla lengur undan skorast. Annars verða allir löngubúnir að fá leið á leiknum og farnir í "yfir" eða parís. Hér kemur sem sagt mitt klukk.
Fjögur störf sem ég hef unnið;
Upp og útskipun við höfnina í Keflavík
Þjónn á Hótel Hafnia í Þórshöfn í Færeyjum
Lögreglumaður í Vestmanneyjum
Útvarpsstjóri við Útvarp Suðurlands
Fjórir staðir sem ég hef búið á;
Norðfirði
Dýrafirði
Fuglafirði (Færeyjum)
Bedford (Kanada)
Fjórar kvikmyndir sem ég hef dálæti á;
Fjórar bækur sem ég les reglulega;
Dawn-breakers (Upphafsaga Bahai trúarinnar)
The Decline and fall of the Roman Empire (Gibbon)
Bænabókin mín
Þekking og blekking (Níels Dungal)
Fjórir sjónvarpsþættir sem ég hef horft á;
The Ascent of man (J.Bronowski)
Stiklur (Ómar Ragnarsson)
Fjórar netsíður sem ég les reglulega;
Fjórir réttir sem mér finnast góðir;
Cecar sallad
Hamborgarahryggur með öllu
Poppkorn
Harðfiskur með smjöri
Fjórir staðir sem ég hef komið á;
Key West Flórída
Baldur Kanda
Elat Israel
Bjarnarey
Fjórir staðir sem ég vildi hafa komið á;
Auswitsch
Bora Bora
Nýja sjáland
Bókasafn Vadíkansins
Fjórir bloggarar sem ég klukka;
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.9.2008 | 18:58
Tintagel; þar sem Arþúr konungur er sagður getinn
Í Cornwall verður ekki þverfótað fyrir stöðum sem tengjast sögu Bretlands og ekki hvað síst þeirri sögu sem Bretar sjálfir eru hvað hrifnastir af, goðsögninni um Arþúr konung.
Á norðurströnd Cornwall er að finna tanga einn sem ber nafnið Tintagel. Nafnið merkir "virki" á fornu máli íbúa Cornwall. Á tanganum er að finna rústir kastala sem sagan segir að hafi verið eitt af virkjum Gorlusar hertoga af Cornwall. Hann átti fagra konu sem hét Ígerna og dvaldist hún í Tintagel. Gorlus átti í útistöðum við Úþer Rauðgamm (Pendragon) sem reyndi að brjóta undir sig England og Cornwall.
Til að ræða sættir bauð Gorlus Úþer að koma til Tintagel og gerði honum þar veislu. Þegar Úþer sér Ígernu verður hann örvita af ást. Hann brýtur í framhaldi alla friðarsamninga við Gorlus sem varðist sem hann mátti í Dimilioc, öðrum kalstala sem hann átti ekki langt frá Tinagel. Úþer kallaði til sín seiðkarlinn Merlín og biður hann um að hjálpa sér að ná fundum, ef ekki ástum Ígernar. Merlín gerir Úþer líkan Gorlusi og í því gerfi sængar hann hjá Ígerni og getur með henni frægasta son Bretlands, Aarþúr konung. Þá sömu nótt var Gorlus veginn og Úþer tók Ígernu sér fyrir konu.
Þær kastalarústir sem nú má sjá á Tintagel eru að mestu frá 1230 þegar að Ríkharður Prins af Cornwall byggði sér þarna virki. Hann byggði samt á eldri grunni sem talinn er vera frá 1141 og Reginald nokkur Jarl er sagður hafa lagt. Fornleifar nokkrar hafa fundist á staðnum, frá fimmtu öld þær elstu. Um er að ræða leirkersbrot frá Túnis og diskabrot frá Karþagó. - Árið 1998 fannst á staðnum steinhella ein og af henni mátti lesa orðið ARTONOU sem gæti verið skírskotun til Arþúrs, en orðið merkir "björn" á fornri tungu Kelta.
Niður við sjávarmál undir tanganum, er að finna hellisskúta einn og sá kenndur við Merlín. Í einni af fjölmörgum útgáfum sögunnar um Arþúr, tekur Merlín Arþúr í fóstur skömmu eftir fæðingu og felur hann um stundarsakir í þessum helli.
27.8.2008 | 11:33
Bloggarar - fjórða valdið
Á þingi Demókrata í Denver sem haldið er um þessar mundir hefur "fjórða valdið" þ.e. bloggarar víðs vegar að úr Bandaríkjunum komið sér fyrir í stórum sal til að blogga um þingið.
Hér er að finna viðtal við nokkra af þessum bloggurum sem gefur smá innsýn inn í hlutverk þessa nýja afls í þjóðfélögum heimsins.
Á Íslandi virðist vera einhver tregða í gangi þegar kemur að því að viðurkenna mikilvægi bloggsins. Í USA segja fréttaskýrendur að það sem ráði úrslitum fyrir Obama sé hversu feykilega vel hann er skipulagður þegar kemur að netinu og blogginu. Jafnvel á litla Íslandi opnaði Obama netsíðu, svo dæmi séu tekin. -
Pólitíkusar á Íslandi ganga léttir í skerfum fram hjá Blogginu flestir hverjir og oft heyrist að þar séu aðeins samankomið úrvalið af íslenskum sérvitringum og kjaftakerlingum sem er kannski ekki nema von þegar að sumir bloggarar vara jafnvel sjálfir við því að þeir séu teknir of alvarlega. -
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.8.2008 | 17:52
Hvernig er talað um íslenska handbolta-liðið í erlendu pressunni.
Það er alveg klárt að Spánverjar eru alveg í rusli eftir tapið fyrir Íslendingum. Hér kemur skemmtilegt sýnishorn af þeim fjölda greina sem nú er að finna á netinu og í öðrum fjölmiðlum um frammistöðu íslenska liðsins gegn Spánverjum. Þessi er skrifuð af Breta sem gerir sitt besta til að segja samviskusamlega frá leiknum.
Ótrauðir möluðu Íslendingar Spánverja 36-30, niðurstaða sem komu mjög á óvart í undanúrslitum í handbolta og gefur þeim tækifæri á fyrstu gullverðlaunum sínum á Ólympíuleikum þegar þeir leika við Frakka á sunnudag sem fyrirfram eru taldir sigurstranglegri.
Spánverjar, bronsverðlaunahafar í Sydney og í Atlanta, sofnuðu á verðinum gegn allsherjar árás íslendinganna og náðu sér aldrei á strik gegn mótherjum sínum sem snúið hafa þessu móti á haus með eyðandi stórsigrum sínum.
Afskrifaðir áður en keppnin hófst, bæta Íslendingarnir nú Spánverjum við vaxandi fjölda höfuðleðra sem þeir hafa safnað í belti sér á þessum Ólympíuleikum í Bejiing, þar á meðal Rússa, heimsmeistara Þjóðverja og Pólverja.
Leikmenn þurrkuðu tárin úr augunum um leið og þeir þökkuðu örfáum stuðningsmönnum sínum sem lagt höfðu land undir fót til Kína, frá þessari litlu eyþjóð sem aðeins telur 300.000 íbúa.
Íslendingar rotuðu mikilfenglega andstæðinga sína með því að hefja leikinn á að skora fimm mörk, þar af áttu Snorri Guðjónsson og ALexander Petersson tvö hver.
Rueben Garabaya maldaði í móinn fyrir Spánverja gegn Norðmönnunum (Norsemen) sem héldu áfram uppteknum hætti með stöðugum árásum sem leiddu til að staðan var 8-4 eftir 10 mínútur.
Spáni tókst um tíma að hægja á leiknum og aðeins frækileg framganga Björgvins Gústafssonar varnaði þeim að jafna leikinn á þrettándu mínútu þegar staðan var 8-7.
Þeim tókst að jafna 9-9 þremur mínútum seinna en þá var Carol Prieto vísað af leikvell í tvær mínútur fyrir að láta sig falla og íslendingar notfærðu sér liðsmuninn og skoruðu tvö mörk í viðbót.
Gústafsson bjargaði síðan nokkrum sinnum og muldi þannig sjálfstraust þeirra Spánverja sem reyndu að koma sínu liði yfir.
Önnur markaruna kom Íslandi í 13-9 áður en Spánn gátu endurskipulagt sig og komist í 13-13 með marki frá Prieto.
Í hálfleik var staðan 17-15 Íslandi í vil og eftir hálfleik náðu þeir að halda þeim mun nokkuð vel.
Varnarboltinn Sigfús Sigurðsson sem vegur 114 kg jók þann mun í fjögur mörk á fertugustu mínútu með því að slöngva "massívum" líkama sinum eftir endilöngum vellinum og klína boltanum í spánska netið.
Þegar hér var komið í´sögu var ljóst að hlutlausir áhorfendur fjölmennustu þjóðar heimsins voru orðnir dyggir aðdáendur liðsins frá einni af þeirri fámennustu sem tekur þátt í leikunum og hrópið "Iceland, Jia you" (áfram Ísland) ómaði um gjörvallt húsið.
Forystan jókst upp í sex mörk á síðustu 10 mínútunum og Íslendingarnir guldu hvert örvæntingarfullt spánskt mark með marki þar til að flautað var til leiks loka.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
4.8.2008 | 20:51
Trúir þú á skrímsli.....eða villisvín?
Af og til, sérstaklega um sumarmánuðina þegar svo kölluð gúrkutíð hjá fréttamönnum gengur í garð, berast fréttir af skrímslum. Íslendingar eru auðvitað löngu hættir að trúa á tilvist ómennskra óvætta en hafa samt gaman að því að velta fyrir sér þessum fyrirbærum. Allavega eru fjölmiðlarnir okkar ekki alveg ónæmir fyrir þessum fréttum s.b. frétt um skrímsli sem fannst á Montauk ströndinni í Bandaríkjunum fyrir skömmu. Óskar Þorkels. bloggvinur minn benti mér á fyrstu myndina af þessu hræi löngu áður en byrjað var að blogga um hana. En hér koma nýjar myndir af því og það fer ekki milli mála að hvað sem skepnan heitir, er hún karlkyns.
Það sem gerir margar af þessum fréttamyndum svo "áhugaverðar" er hversu óskýrar flestar þeirra eru og fólk getur því gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn. Samt eru alltaf einhverjir sem taka þessum "fréttum" alvarlega, þrátt fyrir að oftast nær komi í ljós að um falsanir og gabb hafi verið að ræða. Ég fann myndir af nokkrum af frægustu "skrímslunum" og við skulum byrja á "Stórfót" sem býr í Bandaríkjunum og heill iðnaður hefur sprottið upp í kring um. Ekki ber að ruglast á honum og Jetti, snjómanninum ógurlega sem býr í Himalajafjöllum. Þessi fræga kvikmynd af Stórfót var tekin af P. Patterson nokkrum árið 1967 og enn hefur ekki verið sannað að sé fölsuð ;)
Frægasta skrímsli allra tíma er samt Nessi, Lagarfljótsormur þeirra í Skotlandi. Nokkrar ljósmyndir hafa náðst hefur af henni í Loch Ness vatni, enda þarf nokkuð til svo að ferðamannastraumurinn þangað haldist og goðgögnin deyi ekki út. Hér eru tvær bestu myndirnar af Nessí.
Auðvitað reka á land víðs vegar um heiminn leifar af hvölum og það þarf ekki mikið til að þau verði af ógnvænlegum skrímslum eins og þetta ferlíki sem rak á fjörur í Fortune Flóa á Nýfundnalandi 2001.
Sæskrímsli hverskonar hafa verið vinsælt söguefni frá örófi og það hefur ekki skemmt fyrir þeim þegar myndir eins og þessar birtast í heimspressunni. Hér ku vera á ferð risastór kolkrabbi sem rak á land í St. Augustine, Florida, árið 1896.
Þá varð til nýtt heiti á sæskrímsli þegar þetta ferlíki rak á land í Tasmaníu árið 1997. Það var kallað "Globster" eða "Leðjan". Hér reyndust þó aðeins um rotnandi hvalsleifar vera að ræða.
Á netinu úir og grúir af skrímslasögum og óvættum. Í Mexíkó hræðist fólk ekkert meir en hið ógurlega Chupacabras sem er einskonar Skolli eða jafnvel Skuggabaldur. Í suðurríkjum Bandaríkjanna eru margir sannfærðir um að svokallaður Lirfumaður (Mothman) sé á sveimi.
Íslendingar voru hér áður fyrr litlu betri og Suggabaldur og Skolli, Finngálkn og Fjörulalli, nykur og sækýr, eru allt sér-íslensk heiti á sér íslenskum skrímslum.
Víttt og breitt um heiminn búa skrímslin og það væri til þess að æra óstöðugan að telja þau upp hér. Málið er náttúrulega að flest reynast þó, þegar upp er staðið, öllu skaðlausari en sjálfur maðurinn.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
29.7.2008 | 12:43
Ef veitingahús störfuðu eins og Microsoft:
Stuttu áður en allt fór í klessu hér á blogginu sendi góðkunningi minn Davíð Kristjánsson á Selfossi mér þennan texta. Kannski hefur hann sé fyrir þessar hremmingar með diskastæðuna hjá blog.is?
Kúnni: Þjónn!
Þjónn: Góðan daginn, ég heiti Jón og ég er hér til að aðstoða þig. Er eitthvað vandamál á ferðinni?
Kúnni: Já, það er fluga í súpunni!
Þjónn: Ó, reyndu aftur. Kannski verður flugan ekki þá.
Kúnni: Jú, flugan er enn þarna!
Þjónn: Kannski er það hvernig þú ert að nota súpuna; reyndu að borða hana með gaffli.
Kúnni: Flugan er þarna enn!
Þjónn: Kannski er súpan ósamhæf við skálina. Hvernig skál notarðu?
Kúnni: súpuskál!!!
Þjónn: Kannski er það uppsetningarvandamál. Hvernig var skálin sett upp?
Kúnni: Þú komst með hana á bakka! Hvað hefur það að gera með fluguna?
Þjónn: Manstu allt sem þú gerðir áður en þú varðst var við fluguna?
Kúnni: Já, ég gekk inn, settist við þetta borð og pantaði súpu dagsins!
Þjónn: Einmitt - hefurðu hugleitt að uppfæra yfir í nýjustu súpu dagsins?
Kúnni: Eruð þið með margar súpur dagsins?
Þjónn: Já, elskan mín góða
þær breytast á klukkutíma fresti.
Kúnni: Nú - og hvernig súpa er súpa dagsins núna?
Þjónn: Það er tómatsúpa.
Kúnni: Fínt! Láttu mig fá tómatsúpu þá og reikninginn
ég er að verða of seinn.
(Þjónninn fer og kemur aftur með súpuskál og reikning)
Þjónn: Gjörðu svo vel - hér er súpa dagsins og reikningurinn.
Kúnni: En
þetta er uxahalasúpa?
Þjónn: Já, tómatsúpan var ekki tilbúin.
Kúnni: Jæja þá
ég er orðinn glorsoltinn. Ég held að ég geti borðað hvað sem er núna.
Kúnni: Þjóóóónn!!! Það er mýfluga í súpunni minni!!!
Reikningurinn:
Súpa dagsins: 500,- kr.
Uppfærsla á súpu dagsins 250,- kr.
Aðgangur að þjónustu og aðstoð 10.000,- kr.
Ath. Fluga í súpu dagsins er innifalin án sérstakrar gjaldtöku, en verður lagfærð í súpu dagsins á morgun
25.7.2008 | 22:42
Vinsælasti bloggari í heimi
Ég hef látið það vera fram að þessu að blogga um blogg eða aðra bloggara. Ég blogga heldur aldrei um fréttir enda fullt af kláru fólki í þeim bransa. En til að setja okkur íslenska bloggara í samhengi við það sem best gerist "út í heimi" langar mig að segja frá vinsælasta bloggaranum í veröldinni samkvæmt Heimsmetabók Guinness.
Hann heitir Yusike Kamiji og bloggar á Japönsku en þrátt fyrir það verð ég að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvers eðlis aðdráttaraflið er, en Þið getið dæmt um það fyrir ykkur sjálf hér.
Tölurnar sem tengdar eru blogginu hans eru hreint ótrúlegar og komu honum í heimsmetabókina.
Flestar heimsóknir á dag; 230.755
Flettingar á dag; 5-6 millj. að meðaltali, komst hæst í 13.171.039 þann 12 Apríl s.l.
Þann 17. Apríl fékk hann 56.061 athugasemdir við eina færsluna.
Víst er að Japan sker sig úr mörgum löndum hvað varðar notkun bloggsins. Sjónvarpsstjörnur nota bloggið til að auglýsa þættina sína og framkomur í spjallþáttum o.s.f.r. Svo nota þeir tækifærin þegar þau gefast í sjónvarpinu til að minnast á bloggin sín.
5.7.2008 | 00:58
Mikilvægustu myndir sem nokkru sinni hafa verið teknar
Hubble Deep Field myndir. Þú hefur aldrei fyrr séð það sem þú sérð á þessu myndbandi.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)