Færsluflokkur: Vefurinn
14.1.2009 | 19:32
Bloggsöknuður
Ég hef aðeins bloggað í rúmt ár og miðað við þá sem lengst hafa skrifað á blog.is er ég algjör nýgræðingur. En á þessum skamma tíma hefur áhugi minn og að vissu leyti umhyggja fyrir þessum anga menningarinnar, vaxið til muna. Bloggið hefur samt breyst ótrúlega mikið á þessu eina ári og mest á síðustu mánuðum. -
Auðvitað bloggar fólk af mismunandi ástæðum, en það er eins og að margir hafi hreint og beint fundið köllun sína í bloggheimum eftir að himnarnir hrundu í höfuðið á íslenskri alþýðu. Um leið og bloggið og bloggefnið varð þrengra og einlitara (að mínum dómi), geystust fram á ritvöllinn með gustó, fjöldi dágóðra penna með hið alþekkta og rammíslenska besserwisser heilkenni í farteskinu í bland við messíanskan eldmóð.
En þindarlaus pólitísk gagnrýni, endalaus álitsgjöf á mönnum og málefnum þar sem margir éta upp eftir hvor öðrum ágreiningsefnin, fara illa í minn pólitískt-óharðnaða maga. Í kjölfarið finnst mér eins og bloggumræðan hafi líka sett ofan. Athugasemdirnar koma yfirleitt frá sömu hópunum (the usual suspects) sem raðað hafa sér upp samkvæmt gömlu flokksfylkingunum á bloggsíðum "sinna manna/kvenna".
Frá mínum lága bæjarhóli séð eru persónulegu bloggin miklu fyrirferðarminni en áður og umtalsvert færri. Í staðinn hefur fréttabloggurum fjölgað til muna. Þessi þróun hefur orðið til þess að ég (og þar er ég sjálfsagt í miklum minni hluta) heimsæki mun færri bloggsíður en ég gerði áður.
Nýlegt bann á birtingu blogga á forsíðu blog.is sem ekki fylgja þjóðskrárnöfn höfunda, gerir mörg skemmtileg blogg næstum því ósýnileg og sum þeirra eru því miður horfin með öllu.
Það verður að segjast eins og er að um mörg þeirra léku ferskustu vindarnir. Ég sakna þeirra og ég sakna þess að sjá hressilegar fyrirsagnir á bloggforsíðunni sem ég er ekki þegar búinn að lesa á fréttasíðu MBL.is
Þá er að verða mun algengara að fólk nýti sér "skilaboðakerfið" til að auglýsa færslur sínar. Almennt talað finnst mér að það eigi að spara kerfið fyrir "sérstök" skilaboð þannig að maður hætti ekki að nenna að lesa þau. Ef samkomulag er milli bloggvina um annað er það auðvitað sjálfsagt, en að ganga að skilaboðaskjóðunni sem sjálfsögðu auglýsingakerfi hugnast mér lítt.
Vefurinn | Breytt 15.1.2009 kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
5.1.2009 | 15:42
Breskt fjölmiðlafóður
Því lengur sem ég dvelst hér í Bretlandi, verða mér ljósara hversu gegnsýrt þetta samfélag er af ýmsum, að mínu mati, neikvæðum þjóðfélagsþáttum sem Ísland er verndað fyrir, einkum að ég tel, vegna mannfæðar sinnar.
Sem dæmi má taka eina birtingarmynd hinnar alræmdu stéttarskiptingar Breta sem sést á hinni endalausu og stöðugu leit að fólki sem hægt er að nota sem umfjöllunarefni í þau óteljandi slúður og "tísku" blöð sem gefin eru út í landinu á hverjum degi. Þótt á Íslandi þrífist slúðurdálkar, eru þeir jafnan fullir af erlendu slúðri frekar en íslensku og eru einkum notaðir sem uppfyllingarefni frekar en aðalefni.
Hvergi í heiminum er "gula pressan" og sorpritaútgáfa jafn umfangsmikil og þurftafrek og í Bretlandi enda veltur afkoma þúsunda ljósmyndara, textapikkara, fótósjoppara og umbrotsfólks á því að réttur fjöldi nakinna konubrjósta og "réttra" nafna birtist í tenglum við þindarlaust gasprið. Áður var aðeins kónga og aðalsfólki landsins til að dreifa, en á síðastliðnum 30 árum hefur það allt breyst.
Sú mikla eftirspurn eftir slúðri sem netmiðlar, dagblöð og tímarit skapa, hefur orðið til þess að þróast hefur einskonar gagnkvæmt afkomu-samband milli þeirra sem langa til að verða frægir og þeirra sem þurfa að skaffa ákveðinn fjölda dálksentímetra á dag eða í viku af einhverju "bitastæðu". Oft bíða blaðaljósmyndarar sallarólegir í bílum sínum á kvöldin, þangað til hringt er í þá og þeim sagt af einhverjum slúðurberanum að nú sé liðið á leiðinni út úr klúbbnum eða partýinu. En hverjir skyldu það þá helst vera sem eftirsóttastir eru af mynda og fréttahaukum landsins?
Margir trúðu því á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar að stéttaskiptingin í Bretlandi væri á undanhaldi. Ríka og fræga fólkið var þá oft lágstéttarfólk sem fékkst rokk og popp tónlist, fótbolta eða kvikmyndaleik.
En nú þegar börn þessa fólks er að vaxa úr grasi, bregður svo við að þau taka stað foreldra sinna í sviðsljósinu, í flestum tilfellum ekki vegna hæfileika sinna, heldur bara af því að þau eiga fræga foreldra sem leyfa þeim að vera úti seint á kvöldin til að hanga í partýum með vafasömum wannabeeum og púðra hvítt á sér nefið.
Venjulega eru þetta ungar stúlkur sem heita nöfnum eins Peaches, Pixie eða Fifi Trixibelle (Bob Geldorfsdætur), Coco (Stingsdóttir) eða Kelly (Ozzadóttir). Um leið og stúlkum þessarar nýju elítu vaxa brjóst, eru þær komnar á for, inn og baksíður slefblaðanna og inn í runkminnið á öllum sem að þeim sem eftir þeim sækjast.
Auðvitað má segja að Bretar séu í þessu efni aðeins að herma eftir Könum, en í Bandaríkjunum er löng hefð er fyrir því að synir og dætur leikara og listafólks, feti í fótspor foreldra sinna. En það mega Kanar eiga að þeir gera þá kröfu til síns leikara-aðals að hann hafi snefil af hæfileikum til að eiga viðurkenningu og vinsældir skilið. Engin mundi t.d. brigsla þeim leikkonum Gwyneth Paltrow, Liv Tyler og Angelinu Jolie um hæfileikaleysi, þótt þær eigi allar fræga og ríka feður.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.12.2008 | 00:27
Skókast í Írak
Meðal Araba er skókast tákn um mikla vanvirðu. Á sínum tíma þegar að styttan af Saddam Hussein var rifinn af stalli árið 2003 í Bagdad, sýndu Írakar vanvirðingu sína og vanþóknun með því að kasta skónum sínum í fallna styttuna.
Skókast er forn leið til að sýna vanþóknun sína í mið-austurlöndum og kann að eiga rætur sínar að rekja til Gamla testamentisins þar sem segir frá óvinum Júda í Sálmunum 60:10 ; Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
Skórinn er auðvitað tákn fyrir lægst setta hluta líkamans (fætur) og þegar skó er kastað að einhverjum á arabískum menningarsvæðum táknar táknar það að sá sem að er kastað sé auvirðilegur. Á þeim svæðum er einnig mikil vanvirða að sýna sólana á skó sínum, eins og með því að setja fæturna upp á borð.
Í dag var skó kastað að George W. Bush forseta bandaríkjanna þar sem hann var á blaðamannafundi ásamt forsætisráðherra Íraks. Bush sýndi hversu liðugur hann er við að bregða sér undan skeytum og skórnir sem hann sagði að hefðu verið númer 10 snertu hann ekki.
Í afgreiðslugólfinu á Aal-Rashid Hótelinu í Badgdad hefur verið lögð stór mósaík andlitsmynd af George Bush og þar neyðast allir gestir til að ganga á ásjónu hans. Þetta var auðvitað gert í háðungarskini við forsetann.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2008 | 00:22
Gagnrýni óskast
Fyrir sex mánuðum heyrði ég Tom Corneill syngja og spila í fyrsta sinn. Hann var meðal sex annarra flytjenda á einskonar popp/þjóðalaga-kvöldi sem ég lét tilleiðast að sækja. Á meðal þeirra laga sem hann flutti var lagið "I go to pieces" sem hann hafði þá nýlokið við að semja og er mjög persónulegt en Tom er ungur upprennandi listamaður hér í Bath. Eftir að hann hafði lokið spilamennskunni þetta kvöld, gaf ég mig á tal við hann og þannig hófst samvinna okkar.
Hér að neðan er myndbandið af I go to pieces sem verður formlega flutt í fyrsta sinn á Laugardag Í Chapel Art Centre hér í Bath ásamt lögunum af hljómdisk með sama nafni. Mig langar með birtingu og frumflutningi þessa lags og myndbands hér að kanna aðeins viðbrögðin hjá ykkur lesendur góðir og biðja ykkur gera mér og Tom þann greiða að vera ósparir á gagnrýni eða lof á myndbandið, lagið og flutninginn, þ.e. að segja nákvæmlega það sem ykkur finnst. Með fyrirfram þökkum.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
6.12.2008 | 01:07
Glöggt er gests augað, mótmæli án markmiðs?
Fyrir rúmri viku hlustaði ég á útvarpsþátt á BBC sem fjallaði um ástandið á Íslandi. Fréttamaður fór um götur Reykjavíkur með hljóðnemann og tók viðtöl þar sem fólk lýsti áhyggjum sínum og sumir hverjir reiði yfir gangi mála á landinu bláa.
Margir báru sig illa en fleiri virtust nálgast málin af miklu æðruleysi. Fréttamaðurinn mætti á mótmælafund í miðbænum og tók upp frekar lágvær mótmælahrópin. Það sem virtist koma honum mest á óvart var hversu friðsamlega öll mótmæli gengu fyrir sig, þrátt fyrir talsverðan fjölda mótmælenda og mjög sýnilega viðveru lögreglu sem yfirleitt virkar eins og bensín á eld á æsta mótmælendur. Engir brotnir eða útbrenndir búðargluggar eða áflog milli mótmælenda og löggæslunnar eins og títt er í borgum annarra Evrópulanda þegar íbúar þeirra taka sig til við að mótmæla einhverju, jafnvel þótt tilefnið sé miklu minna en Íslendingar hafa til þess um þessar mundir.
Honum var einnig tíðrætt um hversu pólitísk samtök landsins, verkalýðshreyfingar og neytendasamtök tæki lítinn sem engan sýnilegan þátt í mótmælunum. Stjórnmálamönnum væri nánast bönnuð formleg aðkoma að þeim og þau væru leidd af þjóðlagasöngvara. Hann sagði það vera einsdæmi að 7000 mótmælendur söfnuðust saman um hverja helgi sem hefðu það eitt sameiginlegt að vera óánægðir með gang mála í landinu. Hann sagðist sjá að svona mótmælafundir gætu þjónað þeim tilgangi að virka sem ventill fyrir uppsafnaða óánægju og reiði, en án skilgreinds markmiðs og ákveðinna krafa, þjónuðu mótmælin jafnvel betur en nokkru öðru, þörfum þeirra sem þeim er beint gegn.
Þótt ég sé stoltur að tilheyra þjóð sem seint verður espuð til ofbeldisverka og hefur að mestu lifað í friði í rúm 700 ár, sá ég samt hvað fréttamaðurinn breski var að fara.
Í ljósi síðustu kannanna sem sýna að VG eru með 32% fylgi virðist sem þorri íslendinga segi eitt en geri allt annað.
Segjum t.d. að krafan sem flestir mótmælendur eru sammála um sé; að ríkjandi stjórn eigi að fara frá. Ef svo er, hvers vegna mæta þá ekki þessar tugþúsundir sem núna styðja VG í mótmælin?
Ef að krafan er að koma seðlabankastjórnaum frá, (sem 90% þjóðarinnar vilja samkvæmt skoðanakönnunum) hvers vegna mæta þau ekki öll (þ.e. þau af 90% sem eiga heimangengt) í mótmælin?
Það mætti halda að allir séu ekki alveg þar sem þeir eru séðir þegar kemur að því að túlka skoðanir sínar og tilfinningar yfir í einhverskonar verk, jafnvel þótt þær séu ekki veigameiri en að mæta á mótmælafund.
Jafnvel þótt annað hvert blogg á blog.is og rúmlega það, sé gremjukast út í og úthrópun þeirra sem rústuðu fjárhag þjóðarinnar, fer fáum sögum af raunverlegum lausnum á vandamálunum. Og auðvitað er það ekki hlutverk fjölmiðlafólks að gera það heldur, enda skemmta valdhafar sér konunglega við á hverjum degi að snúa út úr fyrir því og tala niður til þess.
Ég hef grun um að þrátt fyrir óánægjufylgið við VG um þessar mundir sé engin raunveruleg samstaða um það með þjóðinni að VG sé til þess fallið að stýra henni í gegnum heimskreppuna sem núna vofir yfir og hefur alls ekki skollið á með fullum þunga enn. Spurningin er því sú, hverjir geta og vilja takast á við það vandaverk.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 01:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
5.12.2008 | 00:48
Smá aðventu-jólablogg
Eins og allir vita eru jólin haldin til að minnast fæðingar Jesú Krists. Flestir vita líka að ekki er vitað hvenær ársins nákvæmlega Kristur fæddist. Þess er hvergi getið í Nýja testamentinu né í öðrum heimildum. Talið er að frumkristnir hafi ekki haldið upp á fæðingardag frelsarans með nokkrum hætti. Hinsvegar voru í ýmsum löndum á þeim tíma er Kristni var að breiðast út, haldnar hátíðir í desember og í janúar sem áttu uppruna sinn að rekja til ýmissa fornra trúarbragða austurlanda. Þeirra stærst og útbreiddust var án efa sólstöðuhátíðin 25. des. sem Rómverjar héldu upp á og kölluðu Saturnalíu og var haldin til heiðurs Satúrnusi, landbúnaðarguði þeirra.
Reyndar bera sólstöður á vetri að meðaltali upp á 21. des, en samt sem áður náðu hátíðarhöldin í sambandi við daginn hápunkti sínum þann 25 des. Sólstöður eru þegar sól er lengst í norður eða suður frá miðbaug og dagurinn þá annaðhvort stystur eða lengstur. Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur á norðurhveli. Rómverjar til forna, gerðu 25. des að þjóðhátíðardegi sínum og kölluðu hann fæðingardag hinnar ósigrandi sólar. Var þá mikið um dýrðir, sungið dansað og drukkið, ekki ósvipað og við gerum nú á jólum.
Á sama tíma var líka haldin hátíð í bæ sem var kölluð Juvenalaía. Hún var fyrst og fremst tileinkuð ungviði Rómverja, börnunum. Þriðja hátíðin sem einkum efri stéttar Rómverjar héldu upp á á þessari mestu hátíðaönn ársins, var afmælisdagur guðsins Mithra sem var sólguð og barnguð, var fæddur af steini þann 25. des.
Ekki er ólíklegt að kirkjufeðurnir hafi á fjórðu öld komið sér saman um að yfirtaka hin fornu blót og gera þau að kristilegum hátíðum og auka þannig líkurnar á að fólk tæki kristna trú. Alla vega var það Júlíus páfi fyrsti sem ákvað að þann 25. des skyldi haldinn hátíðlegur fæðingardagur frelsarans. Þetta reyndist snjallræði fyrir kirkjuna því Kristur hafði þá hvort eð er tekið á sig nokkuð svipaða mynd og þeir Guðir höfðu, sem hinir heiðnu tilbáðu. Fyrst voru jólin kölluð "fæðingarhátíð" en ekki Kristsmessa og sem slík bárust þau skjótt um álfur. Árið 432 var fæðingarhátíðin upptekin í Egyptalandi og til Englands barst hún í lok sjöttu aldar.
Norrænir menn héldu einnig sína vetrarsólstöðuhátíð og blótuðu þá bæði Þór og Óðin og héldu miklar veislur sem kenndar voru við jólagleði. Á tímabili var hátíðin bönnuð af hinu kirkjulega valdi vegna óspekta og ofáts sem á henni viðgekkst. Í lok áttundu aldar var farið að kenna hina fornu blótahátíð Jólanna á Norðurlöndum við Kristsmessu en gamla nafnið Jól fékk að halda sér.
Margir þeirra siða sem enn eru í heiðri hafðir í jólahaldi norrænna manna má rekja beint til blótanna til forna. Nægir í því sambandi að nefna jólahafurinn sem útbúin er úr stráum bæði í Svíþjóð og Noregi sem sérstakt jólatákn. Þá er í raun verið að gera eftirmynd af hafri Þórs. Í meðförum geitarfárra Íslendinga varð hafurinn að ketti, eða hinum íslenska jólavargi, jólakettinum.
Segja má að jólin hafi í þau rétt 1500 ár sem um þau getur í heimildum verið í stöðugri þróun. Á stundum lagðist hið kirkjulega vald gegn þeim og reyndi að banna þau, en á öðrum tímum hafa þau notið fylgis þess jafnt sem allrar alþýðu. Jólum er fagnað á mismunandi vegu í hverju landi og jólasiðir margir og mismunandi.
Bæði gríska og rússneska rétttrúnaðarkirkjan halda upp á fæðingarhátíð Krists 13 dögum eftir 25. desember eða 7. Janúar og halda sig þannig við gamla Júlíanska dagatalið.
Íslendingar halda einir þjóða upp á jól í 13 daga og fara þannig beggja bil og halda í heiðri að hluta til siðum þeirra sem fara eftir gamla Júlíansaka dagatalinu og því sem flestar vestrænar þjóðir nota, hinu Gregoríska. En eins og fólk rekur eflaust minni til var það Gregoríus Páfi þrettándi, sem bjó til þrettándann okkar með því að gera leiðréttingu á Júlíanska dagtalinu þann 24. febrúar árið 1582 og færði árið fram um 13 daga.
Jólasveinninn
Eitt helstamerki þess nú til dags um að jólin séu að nálgast, er að sjá jólasveina á stjái. Margt hefur verið um jólasveininn sagt og fjallað síðustu áratugina, en fæst af því sannleikanum samkvæmt. Heilu kvikmyndirnar hafa verið framleiddar og sýningar uppfærðar þar sem persóna hans hefur verið notuð á frekar óprúttinn hátt. Fyrirtæki sem eygja sér gróðamöguleika með því að bendla nafn sitt við hans, gera það óhikað og eigna mér þá ýmissa eiginleika sem í raun eru honum framandi og alls-óskildir.
Segja má að Íslendingar sjálfir hafi gengið hvað lengst í því að rugla fólk í ríminu, því hér á landi er Jólasveinninn ekki einn heldur fjöldi ómennskra óknyttadrengja sem hafast við á fjöllum og eru getnir af tröllum.
(Tröll hafa ætíð í mínum huga verið tákn hins lægra eðlis og hins dýrslega í fari mannsins, þó það sé nánast orðið hól að segja manninn dýrslegan á þessum síðustu og verstu tímum þegar maðurinn hagar sér oft miklu ver en dýr mundi nokkru sinni haga sér.)
En svo við byrjum á byrjuninni þá var hinn eini sanni jólasveinn, eða öllu heldur upphaflega fyrirmynd hans, fæddur 6. desember í gríska þorpinu Patra í litlu Asíu, snemma á fjórðu öld og nefndur Nikulás. Foreldrar hans voru Kristnir og faðirinn efnaður kaupmaður þar um slóðir. Allt frá fæðingu er sagt að hann hafi borið af öðrum börnum í kristilegu hátterni og sú saga sögð af honum að þegar hann var skilinn frá móður sinni eftir fæðingu hans, hafi hann staðið upp í vöggunni og lofað Guð.
Sem ungabarn er sagt að hann hafi neitað að sjúga brjóst móður minnar á föstudögum þegar öllum sannkristnum mönnum var ætlað að fasta. Strax sem unglingi þótti honum miður að sjá fátækt meðbræðra sinna og bera það saman við ríkidæmi föður síns. Hann tók að gefa fátækum af auði og erfðafé sínu eins og ég mátti. Langfrægast þessara góðverka var þegar honum var sagt frá manni einum sem bjó ekki langt frá borginni og var svo fátækur að sýnt þótti að dætur hans þrjár sem orðnar voru gjafvaxta, myndu fljótlega neyðast til að vinna fyrir sér á götum borgarinnar, þar sem honum mundi aldrei verða mögulegt að reyða fram það fé sem nauðsynlegt var í þá tíð að gefa í heimamund með dætrum sínum, til að gifta þær og tryggja þeim þannig heiðvirða framtíð. Faðir Nikulásar hafði skilið eftir sig talsvert fé sem Nikulás reyndi eftir megni að ráðstafa til fátækra. Meðal muna í fórum hans voru þrír afar verðmætir gullknettir.Hann tók því til ráðs að laumast að húsi fátæka mannsins og dætra hans þriggja, þrjár nætur í röð og skildi í hvert sinn eftir einn gullknattanna. Hann gerði þetta á laun til að særa ekki stolt mannsins né gera dætur hans skuldbundnar sér. Þannig varð fátæka manninum kleift að gefa dætur sínar ásamt góðum heimamundi í sæmandi hjónaband.
Þrátt fyrir launungina komst samt þessi saga í hámæli og löngu seinna eftir að Nikulás hafði verið sæmdur nafnbótinni dýrlingur, gerðu veðlánarar hann að verndardýrlingi sínum og hnettina þrjá að merki sínu. Þess vegna má sjá enn í dag þrjá knetti hanga fyrir utan búðir veðlánara í flestum löndum heims, þar sem þeir þrífast á annað borð.
Snemma á ævinni ákvað Nikulás að gerast þjónn Guðs og helga sig útbreiðslu trúar hans. Hann var m.a. viðstaddur í Níkeu árið 325 þegar Konstantínus keisari safnaði saman öllum helstu kennimönnum kristinnar trúar til að samræma kenningar kirkjunnar.
Konstantín átti kristna móður, sem hét Helena en sjálfur var hann ekki viss hvoru megin hann stóð, Krists eða heiðinna goða. Það var hann sem gerði sunnudag að hvíldardegi kristinna manna árið 321 en þeir höfðu haldið laugardaginn helgan fram að því.
Seinna átti Nikulás við hann nokkur samskipti því hann fór stundum með ofríki gegn þegnum sínum.
Einu sinni hneppti hann í fangelsi þrjá unga prinsa sem ekkert höfðu sér til sakar unnið annað enn að vera af tignum ættum. Gekk Nikulás þá fram fyrir skjöldu og fékk þá með fortölum lausa. Reyndar hélt Konstantín því fram seinna að Nikulás hefði komið til hans í draumi og beðið drengjunum vægðar og aðeins eftir það, hefði hann ákveðið að láta þá lausa. Vegna þessa atviks og annarra var Nikulás þegar fram liðu stundir gerður að verndardýrlingi barna og kórdrengja.
Nikulás gekk undir biskups-vígslu og skömmu eftir þann atburð varð uppskerubrestur í umdæmi hans. Hann fékk þá því framgengt að kaupskip nokkur sem voru á leið til Alexandríu hlaðin matvælum, lönduðu þeim í Myru heimaborg sinni. Hann lofaði skipstjórum skipanna því að þeim yrði endurgoldið þegar þeir kæmu til Alexandríu af biskupinum þar. Allt gekk þetta eftir eins og Nikulás hafði fyrir sagt. Af þessum sökum varð ankerið eitt af táknum hans, því sjómenn urðu einnig til að ákalla nafn hans þegar erfiðleikar steðjuðu að þeim.
Sjómenn í hafnarborginni Bari á Ítalíu voru svo sannfærðir um mátt hans til að halda yfir þeim hlífðarskildi í stormi og stórsjó að þeir létu færa jarðneskar leifar líkama hans frá Myru, heimabæ hans, þar sem þær höfðu verið jarðsettar, til borgarinnar Bari. Þetta gerðist árið 1089. Um leið og þeir fluttu beinin, létu þeir smyrja þau með ilmolíum. Þannig gerðist það að þegar þau voru flutt í land í Bari fann fólk af þeim góða lykt. Af þessum sökum var hann nokkru seinna gerður að verndardýrlingi þeirra sem fást við ilmvatna og ilmefna gerð.
Í margar aldir var Heilagur Nikulás í hugum flestra Evrópubúa aðeins einn af fjölmörgum dýrlingum sem ákallaðir voru í neyð. Hollendingar sem voru miklir sjófarar og kaupmenn voru hvað duglegastir við að halda nafni Nikulásar á lofti.
Englendingar urðu samt fyrstir til að farið var að tengja Nikulás fæðingarhátíð Jesús Krists. Kom það til af því hversu nálægt fæðingardagur hans, sem gjarnan var mynnst af börnum og sjófarandi kaupmönnum, var upphafi aðventunnar að kristmessu. Þar var farið að kalla hann faðir Kristsmessu snemma á 19. öld.
Með Hollenskum innflytjendum barst Nikulásar dýrkunin til Bandaríkjanna og í upphafi þessarar aldar var farið að teikna hann á kort og auglýsingar í þeirri mynd sem flesti Þekka hann í dag. Í dag er hann þekktur undir nokkrum nöfnum eins og Santa Claus, Saint Nicholas, Father Christmas. Kris Kringle eða bara "Santa".
Rauði liturinn á Kápunni hans er auðvitað litur fórnarinnar en klæðnaðurinn, rauð hvít brydduð húfan, rauður stakkur stakkurinn með giltum hnöppum og hvítum skinnbryddingum, svart leður belti með gylltri sylgju, rauðar buxur og svört stígvéli, hefur þróast smá saman.
(þó hef ég óljósan grun um að hann hafi einnig verið valin af því að fyrirtækið sem fyrst varð til þess að nota ímynd hans í áróðri sínum, hafði einmitt valið þennan lit í vörumerki sitt.)
Fljótlega spunnust upp sögur í Bandaríkjunum um allt annan uppruna Nikulásar en raunin var á. Það er alls ekki víst a hinum upprunalega Nikulási hefði geðjast að hugmyndinni um að búa í stórri smíðaskemmu á norðurpólnum við að smíða gjafir með aðstoð fjölda álfættaðra hjálparsveina. Eða þá að eitt af hlutverkum hans væri að rækta hreindýrategund sem getur flogið.
Jólatré
Um uppruna jólatrésins er flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn til dæmis í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar.
Einnig er til fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um miðjuna. Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.
Í jólaskapi eftir Árna Björnsson eru eftirfarandi upplýsingar um jólatréð að finna.
Jólatréð eins og við þekkjum það er ekki mjög gamalt í heiminum.
Elstu heimildir um skreytt tré í heimahúsum á jólum er frá Suður Þýskalandi á 16. Öld en ekki eru nema tvö hundruð ár síðan síðan farið var að festa kerti á þessi grenitré. Allra fyrstu jólatré munu hafa sést á íslandi í kringum 1850, en þó helst hjá dönskum eða danskmenntuðum fjölskyldum. Algeng urðu þau ekki , fyrr en komið var fram yfir síðustu aldamót.Það er mjög skiljanlegt, af hverju siðurinn festi ekki fyrr rætur á Íslandi. Hér var víðast hvar engin grenitré að hafa, og flestar aðrar vörutegundir hefur þótt nauðsynlegra að flytja inn. Auk þess tók sigling oft svo langan tíma , að örðugt hefði reynst að halda þeim lifandi. Þetta gerðu þó sum félög til þess að halda jótrésskemmtanir fyrir börn , og milli 1890 1900 má sjá auglýst bæði jólatré og jólatrésskraut. Fyrir meira en hundrað árum hafa menn sumstaðar byrjað á því að búa til gervijólatré.
Var þá tekinn mjór staur , sívalur eða strendur, og festur á stöðugan fót. Á staurinn voru negldar álmur eða boraðar holur í hann og álmunum stungið í. Þær voru lengstar neðst, en styttust upp eftir og stóðu á misvíxl. Þær voru hafðar flatar í endann, og á honum stóðu kertin. Venjulega var staurinn málaður grænn eða hvítur og vafið um hann sígrænu lyngi. Síðan voru mislitir pokar hengdir á álmurnar og eitthvert sælgæti sett í þá. Þessi heimatilbúnu jólatré voru mest notuð , þar til fyrir nokkrum áratugum, þegar farið var að flytja grenitré inn í stórum stíl. Á síðustu árum hafa svo íslensk jólatré komið á markaðinn í æ ríkari mæli
Jólatréð hefur í heila öld verið eitt helsta tákn jólanna um heim allan. Það er þó tiltölulega nýtt af nálinni í núverandi mynd. Talið er að jólatré hafi borist til norðurlanda skömmu eftir 1800. Árið 1862 nefnir Jón Árnason sögu um reynitré og brunnu ljós á greinum þess alla jólanótt sem slokknuðu ekki hversu mjög sem vindur blés.
Árið 1952 fékk Reykjavík í fyrsta sinn stórt jólatré að gjöf frá Ósló. Var það sett upp á Austurvelli, og hefur sú venja haldist síðan. Í fyrstu var jafnan kveikt á trénu síðasta sunnudag fyrir jól, en sú dagsetning færðist framar eftir því sem almennur jólaundirbúningur hófst fyrr. Síðan hafa margar erlendar borgir sent vinabæjum sínum á Íslandi jólatré.
Fyrstu auglýsingar um innflutt jólatré birtust þegar árið 1896 en þau tóku samt ekki að seljast í stórum stíl fyrr en eftir 1940.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
28.11.2008 | 17:55
Hámark veisluhaldanna
Það þekkja það flestir að þurfa að fara í veislur sem þeir vildu frekar ekki hafa þurft að sækja. Það sem fer hér á eftir eru nokkrar útgáfur að sömu aðferðinni sem margir nota þegar þeim leiðist í veislum eða vilja lýsa vanþóknun sinni á öðrum gestum eða jafnvel gestgjafanum sjálfur. Það sem er svo merkilegt við þessa aðferð er að hún er nánast eins og sú leið sem notuð er oft til að sýna hversu mjög viðkomandi nýtur veisluhaldanna.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.11.2008 | 14:53
Óvenjuleg Störf
Ég hef komið víða við á minni ævi, sem enn er ekkert sérstaklega löng, hvað störf varðar. Stundum hef ég verið svo heppinn að get valið það sem ég vann við og stundum, með ódauðlegum orðum John Wayne, "þurfti maður að gera það sem maður þurfti að gera".
Hér koma samt dæmi um störf og starfsaðferðir sem ef Guð og lukkan lofar, ég kem aldrei til með að vinna.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.11.2008 | 12:36
Skrifað í sandinn mikla...blog.is
Það þekkja vitanlega allir sem komnir eru til vits og ára orðatiltækið að skrifa í sandinn. Það á við um eitthvað sem er tímabundið og forgengilegt eða um eitthvað sem enginn veit líkt og það sem Kristur á að hafa ritað í sandinn forðum.
Íslendingar hafa margir skrifað í sandinn, sérstaklega upp á síðkastið, þótt þeir vildu kannski frekar hafa skrifað það sem á veggnum stendur. Sandströndin mikla sem svo margir pára sitt, heitir blog.is
Á Íslandi hefur af augljósum ástæðum aldrei þróast nein sandstrandarmenning. Við höfum því að mestu farið varhluta af listgreinum sem aðeins eru iðkaðar þar sem nógu er af sandi og tíma. Sýnishorn af slíkri óvenjulega forgengilegri list er að finna hér að neðan.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2008 | 00:08
Afmæli
Þessa dagana, 27- 28. Nov. er eitt ár síðan að ég byrjaði að blogga og ýtti fyrst á "vista og birta" og "skoða síðu" takkana og sá fyrsta bloggið mitt á blog.is birtast þann 29.
280 misgóðum færslum og rúmlega 58.000 góðum gestum síðar er ég enn að, þótt þetta hafi í upphafi átt að vera einhverskonar tilraunastarsemi. Fyrstu mánuðina komu hér fáir enda tekur tíma að grundvalla blogg.
Um leið og ég þakka lesendum og bloggvinum "samvistirnar", "samræðurnar" og "samstöðuna" á þessu tímabili bíð ég í smá blogg-veislu af tilefni dagsins. Ég ætla sem sagt að birta nokkur blogg í dag með jöfnu millibili en ég lofa því jafnframt að þau verða ekki þungmelt.
Hér í lokin, endurbirti ég fyrsta bloggið sem mér finnst bara ágætt enn, þrátt fyrir ellina. Góðar stundir.
Shakespear og Biblían
Þegar að þýðingu The King James Biblíunnar var lokið árið 1610 var William Shakespear 46 ára.
Sumir halda fram að William hafi komið nálægt þýðingu hennar og sett mark sitt á hana með því að fela nafn sitt í 46. Sálmi.
Fertugasta og sjötta orð sálmsins er "shake" og fertugasta og sjötta orð talið frá enda sálmsins er "spear". Ekki á að telja viðbótarorðið "selah" með, enda seinni tíma viðbót.
Dæmið sjálf;
Psalm 46... 1God 2is 3our r4efuge 5and 6strength, 7a 8very 9present 10help 11in 12trouble. 13Therefore 14will 15not 16we 17fear, 18though 19the 20earth 21be 22removed, 23and 24though 25the 26mountains 27be 28carried 29into 30the 31midst 32of 33the 34sea; 35Though 36the 37waters 38thereof 39roar 40and 41be 42troubled, 43though 44the 45mountains 46shakewith the swelling thereof. Selah. There is a river, the streams whereof shall make glad the city of God, the holy place of the tabernacles of the most High. God is in the midst of her; she shall not be moved: God shall help her, and that right early. The heathen raged, the kingdoms were moved: he uttered his voice, the earth melted. The LORD of hosts is with us; the God of Jacob is our refuge. Selah. Come, behold the works of the LORD, what desolations he hath made in the earth. He maketh wars to cease unto the end of the earth; he breaketh the bow, and cutteth the 46spear 45in 44sunder; 43he 42burneth 41the 40chariot 39in 38the 37fire. 36Be 35still, 34and 33know 32that 31I 30am 29God: 28I 27will 26be 25exalted 24among 23the 22heathen, 21I 20will 19be 18exalted 17in 16the 15earth. 14The 13LORD 12of 11hosts 10is 9with 8us; 7the 6God 5of 4Jacob 3is 2our 1refuge. Selah.Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)