Færsluflokkur: Vefurinn
6.6.2009 | 03:13
Hvernig þú færð aðra til að líka við þig
Allir vilja að örðum líki vel við sig. Hundruð þykkra doðranta hafa verið skrifaðar um efnið en yfirleitt eru þær svo flóknar að fólk gleymir þeim jafnóðum. Þess vegna ákvað ég að taka saman í eins stuttu máli og hægt er, þá þætti sem reynslan hefur sýnt að gerir fólk vinsælla en nokkuð annað. Ef þú tileinkar þér þessar einföldu ráðleggingar mun fólki líka við þig. Prófaðu bara í næsta skipti sem þú hittir einhvern. Ég ábyrgist að þetta virkar. Ef ekki færðu peningana þína aftur:)
Til að fólki líki við þig skaltu:
1. Sýna öðru fólki einlægan áhuga.
2. Brosa
3. Muna eftir hvað fólk heitir.
4. Spyrja spurninga....og þegja svo
5. Spyrja um það sem aðrir hafa áhuga á
6. Slá fólki einlæga gullhamra
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 03:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
1.6.2009 | 09:34
Tískugúrúinn Bruno með rassinn í andlitið á MNM
Sjón er sögu ríkari, Hér er myndbandið af atvikinu.
http://www.dailymotion.com/video/x9gc1z_brunoeminem
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2009 | 01:47
Óvenjuleg starfsþjálfun kínverskra hermanna
Kínverskir hermenn eru þjálfaðir á óvenjulegan hátt eins og sést á þessum myndum. Störfin sem þeim er gert að vinna eru líka óvenjuleg, eins og sést á myndbandinu sem krækt er við hér. Þar sjást kínverskir hermenn skjóta tíbetska flóttamenn sem leggja lífið í sölurnar til að komast í námunda við leiðtoga sinn Dali Lama. Dali Lama er eins og kunnugt er væntanlegur til landsins eftir nokkra daga.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 01:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.5.2009 | 16:47
Sýndar-forsetakosningarnar í Íran
Íranar undurbúa nú forsetakosningar sem fara eiga fram 12. júní n.k. Kosningarnar eru þær tíundu síðan Reza Pahlavi keisara var steypt af stóli 1979 og byltingarvarðaráð og æðstu klerkar tók við yfirstjórn landsins.
Meira en hundrað kandídatar létu skrá sig til leiks en byltingarvarðaráðið hefur útilokað þá alla frá þátttöku nema fjóra en fresturinn til að lýsa yfir framboði rann út 20. maí. Allir eru þessir fjórir frambjóðendur innanbúðarmenn hjá ráðinu þannig að þegar er búið að koma í veg fyrir að hægt sé á nokkurn hátt að kalla kosningarnar frjálsar.
Tveir þeirra eru kallaði "umbótasinnar" en það eru Mehdi Karroubi fyrrum forseti þingsins (Majlis) og Mir-Hossein Mousavi sem var síðasti forsætisráðherra Íran 1979-1989, en það embætti er nú aflagt sem slíkt.
Hinir tveir eru kallaðir íhaldsmenn en það eru þeir Mahmoud Ahmadinejad núverandi forseti sem sækist eftir endurkjöri og Mohsen Rezaei, fyrrum foringi í byltingavarðarráðinu.
Í tilefni kosninganna hefur Byltingarvarðaráðið látið loka fyrir aðgang Írana að fésbókinni þar sem margir óháðir frambjóðendur voru búnir að koma sér upp síðum og var vettvangur fyrir fólk til að skrafa á um pólitík.
Langlíklegastur til að vinna kosningarnar er talinn lýðskrumarinn Mahmoud Ahmadinejad sem enn notar hvert tækifæri til að ýja að því að Íranar munu koma sér upp kjarnavopnum á næstu misserum.
Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur gefið Írönum þar til í enda árs til að bregðast við áskorunum sínum um að koma á móts við óskir vesturveldanna um að hverfa frá öllum slíkum áformum.
En miðað við upplýsingar sem þegar hafa komið fram munu Íranar einmitt um það leyti hafa nægilegt magn af auðguðu úraníum til að búa til kjarnorkusprengju. Mahmoud Ahmadinejad hefur þegar montað sig af því að Íran eigi þegar flaugar sem flogið getta alla leið til Ísrael.
Í Ísrael ríkir almennur ótti við áform Írana og samkvæmt nýlegri könnun sem gerð var þar í landi sagðist allt að 25% Ísraela íhuga að flytja úr landi, komi Íranar sér upp kjarnavopnum.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2009 | 03:10
Smáfólkinu í Afríku nauðgað.... aftur
Í mörgum Afríkulöndum er að finna ættbálka smávaxins fólks sem kalla sjálfa sig ýmsum nöfnum eins og Aka, Baka, Mbuti og Twa. Hver þessara ættbálka er samsettur af ættflokkum sem einnig bera sérstök heiti. Að auki eru til á hinum mörgu Afríkumálum ýmis nöfn yfir þetta smáfólk á meðal hverra hæstu karlmenn verða aldrei hærri en 150 cm. Þá búa ættbálkar smáfólks í Taílandi, Malasíu, á Indónesíu, á Filippseyjum, á Papúa Nýju Geníu, í Brasilíu og í Bólivíu og bera þeir allir sérstök heiti, rétt eins og við köllum okkur Íslendinga.
Vesturlandabúar þ.á.m. Íslendingar, kjósa enn að kalla þetta fólk Pygmýja sem er komið úr grísku og fyrir utan að vera sú stærðaeining sem lýsir fjarlægðinni á milli olnboga og hnúa er nafn á einhverjum dvergum sem bjuggu í Eþíópíu og/eða á Indlandi og fornskáldið Hómer lýsir fyrstur manna.
Sjálfu finnst smávaxna fólkinu þetta orð óviðeigandi og vilja láta kalla sig því nafni sem það nefnir sig sjálft.
Að kalla smáfólkið Pygmýja, er ekki ósvipað því þegar fáfrótt fólk talar um Grænlendinga sem Eskimóa.
Eins og tugir annarra netmiðla, flytur Mbl.is um þessar mundir fréttir af hópi smáfólks í Austur-Kongó, sem er af Aka ættbálknum og býr í þorpinu Kisa í Walikalen. MBL.is kallar þá Pygmýja. Smáfólk þetta, sem annað, kemst ekki oft í heimsfréttirnar og t.d. var lítið sem ekkert um það fjallað þegar að styrjöldin í Kongó stóð sem hæst og pyntingar, nauðganir og fjöldamorð á Aka og Baka fólkinu, voru daglegt brauð. Heimurinn kærði sig kollóttann þótt einhverjir "villimenn" dræpu aðra "villimenn" í Kongó.
Nú gerðist það fyrir nokkrum vikum að einhverjir hjátrúarfullir og fáfróðir villimenn, sem starfa fyrir ríkjandi stjórnvöld í Kongó, réðust einu sinni enn á smáfólkið. Í þetta sinn í þeim eina tilgangi að nauðga gömlum konum og kornabörnum í þorpinu og síðan höfðingjanum sjálfum. Hluti þessarar "manndómsvígslu" var að gera skömm höfðingjans sem mesta og því var hinum nauðgað að konu sinni og öðrum þorpsbúum ásjáandi.
Nú er allur heimurinn orðin vitni að skömm hans og þetta þykir góður fréttamatur og fullboðlegt í dag, þótt þetta hafi gerst og komið fyrst fram fyrir nokkrum vikum.
Einhver gerði sér grein fyrir því að það sem þykja mundi fréttnæmt væri að villimennirnir trúðu því, eftir því sem sagt er, að þeir mundu hljóta við þessi voðaverk "yfirnáttúrlega krafta". Sá hluti sögunnar varð að fyrirsögn fréttarinnar.
Flestar þær greinar sem ég hef séð um málið, (þær skipta tugum) eru nánast algjörlega eins, orðrétt uppétnar eftir hverjum þeim sem fyrstur skrifaði fréttina um þessi gömlu tíðindi.
Engin þeirra gerir minnstu tilraun til að skýra baksvið þessarar fréttar eða kynna fyrst og fremst fyrir okkur þolendurnar voðaverkanna sem í henni er lýst. Gerendur slíkra óhæfuverka eiga hvort eð er svipaða sögu að baki, hverrar þjóðar sem þeir kunna að vera.
Og Engin greinin getur þess t.d. að þessum sérstaka ættbálki tilheyrir fólk sem í er að finna elstu mannlegu litningana. Þeir eru því elsta "gerð" mannvera sem til er í heiminum. Það var frá sömu slóðum og eru og hafa verið hefðbundin heimkynni þeirra, að lítill hópur fólks tók sig upp fyrir ca. 200.000 árum og hélt norður á bóginn. Af honum er mannkynið komið.
Aka fólkið er enn á einskonar millistigi jarðræktar og safnarastigs. Það neytir 63 mismunandi tegunda jurta, 20 skordýrategunda, hunangs frá 8 mismunandi tegundum býflugna og kjöts af 28 tegundum dýra.
Þess er heldur ekki getið að feður af Aka ættbálknum, verja meiri tíma með afkvæmum sínum en nokkrir aðrir feður í heiminum. Börn þeirra eru innan seilingar þeirra 47% af deginum og þeim hefur verið lýst sem bestu feðrum í heimi. Þeir taka upp börn sín, knúsa þau og leika við þau, fimm sinnum oftar en aðrir feður í hinum ýmsu samfélagsgerðum heimsins. Það er álitið að ástæða þess sé hin sterku bönd sem eru á milli eiginmanns og eiginkonu í samfélgi þeirrra.
Alla daga hjálpast hjónin að við veiðar, fæðusöfnun og eldamennsku og deila auk þess frítíma sínum með hvort öðru. Það eru sterk samsvörun milli þess tíma sem hjónin verja saman og þess tíma sem karlmaðurinn ver til að veita börnum sínum umhyggju.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 03:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.4.2009 | 02:00
Heldri bloggarar
Ég hef lengi verið að hugsa um að skrifa pistil um Félag heldri bloggara á blog.is en einhvern veginn ekki komið mér að því fyrr en nú. Ég hef sterkan grun um að ástæðan fyrir þessu framtaksleysi sé sú, að þetta ágæta félag er ekki til.
Það ætti að vera til og gæti orðið til, en mér vitanlega hefur það ekki verið stofnað enn.
Félag heldri bloggara gæti starfað mjög svipað og önnur menningarfélög. Félagar kæmu saman einu sinni tvisvar á ári, til að sýna sig og sjá aðra, hvetja hvern annan til dáða og klappa hverjum öðrum á bakið.
Eða kannski er þetta bara gömul hugmynd sem ég greip út úr ljósvakanum, og sem löngu er búið að afgreiða sem dauðadæmt rugl.
13.4.2009 | 13:17
Fuglar sem byggja og búa í þorpum
Á Norður-Höfða Suður-Afríku er að finna kyndugan smáfugl sem ég veit ekki hvort á eitthvað íslenskt heiti. Á ensku er hann kallaður Sociable Weaver og á latínu Philetairus socius. Nafnið er gefið fuglinum vegna þess háttar hans að vefa sér hreiður og bústaði í félagi við aðra fugla af sömu tegund. Íslenska nafnið mætti því alveg vera "Félagsvefari".
"Félagsvefarinn" er svo sem ekki mjög merkilegur á að líta. Það sem gerir hann verulega frábrugðin öðrum fuglum er að hann býr sér svo stóran bólstað að allt að 300 fuglar geta hafst þar við. Í raun vefa fuglarnir sér einskonar fuglaþorp í greinum trjáa, sem hvert hefur í kringum 50 íbúðir og jafn margar dyr.
Þorpið getur verið allt að eitt tonn á þyngd, 40 fermetrar í rúmmál og dæmi eru til um að tréð hafi sligast undan þunga þorpsins og brotnað. Að neðan verðu liggja inn í þorpið göng sem gerð eru úr stífum stráum sem liggja öll inn á við til að gera snákum og öðrum óvinum erfitt fyrir að komast inn í þorpið.
Hver íbúðarhola er hnefastór og fóðruð með mjúkum stráum og hárum. Yfir þorpið reisa fuglarnir vatnshelt þak þannig að í þorpsholunum er ætíð þurrt.
Allt árið í kring erfiða "Félagsvefararnir" við að byggja, bæta og breyta bústöðum sínum. Þessi óvenjulegu en þægilegu hýbýli laða gjarnan að aðra fugla þannig að vefararnir eru sjaldnast einir í þorpunum. Þar má sjá bæði smá-fálka jafnt sem rauðhöfðaðar finkur á ferli.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.4.2009 | 20:17
"persónukjör" er orðið persónulíkjör
Það er augljóst á öllu að allir flokkarnir sem eiga fulltrúa á þingi eru mjög smeykir við að losa um hald sitt á því ferli sem gengur undir nafninu lýðræði hér á landi. Krafa fólks í Búsáhaldabyltingunni um minna flokksræði, var, eins og ég skildi hana, m.a. krafa um að hægt yrði að kjósa einstaklinga í stað lista eða flokka til þings.
Sú hugmynd um "persónukjör" sem er að veltast um í þinginu þessa dagana, er andvana svar við þeirri kröfu. Liðið lík og ekkert lík því sem verið var að mælast til. Nær að kalla hana "Frumvarp um persónulíkjör."
Frumvarpið er minniháttar breytingartillaga á ríkjandi fyrirkomulagi. Þess vegna sýti ég það litið þótt hún komist ekki í gegnum þingið. Samkvæmt henni og ríkjandi fyrirkomulagi þarftu ætíð að kjósa lista eða flokk, ekki einstaklinga.
Þess vegna er hugtakið "persónukjör", eins og að er notað af alþingismönnum um þessar mundir, afar villandi. Nær væri að þeir notuðu orðið "persónuröðun" Þ.e. fólk fær að velja röð manna á listanum sem það kýs.
Ef þú ert ekki fylgjandi neinum flokki en gætir samt sem áður hugsað þér að kjósa einstaklinga sem í framboði eru á mismunand listum, verður þú að skila auðu eða hreinlega leiða kosningarnar hjá þér.
Til nánari glöggvunar er eftir farandi lesning góð.
Hugtakið persónukjör getur verið misvíðfeðmt og virðist rófið í þeim efnum vera eftirfarandi og er þá kostunum raðað eftir því hvað þeir ganga langt:
P0: Frambjóðendum er skipað á framboðslista og í þeirri röð sem framboðin, flokkarnir, kjósa t.d. að loknum prófkjörum. Kjósendur velja lista en fá engu breytt um röð frambjóðenda. Þessi leið felur því ekki í sér persónukjör en er tilgreind sem grunnviðmiðun.
P1: Kjósendur velja sem fyrr lista en geta haft áhrif á röðun frambjóðenda á þeim sama lista með umröðun, útstrikun eða með því að draga einhverja sérstaklega fram með krossamerkingum. Misjafnt er hver eru áhrif þessara breytinga allt frá því að vera óveruleg upp í að þau geti verið afgerandi sé þátttaka nægileg.
P2: Listum er stillt upp í óskaröð framboða allt eins og í P0 en röðunin er aðeins til leiðbeiningar kjósendum. Beinar merkingar þeirra ráða því alfarið hverjir veljast af listunum á þing.
P3: Nú er listum stillt upp óröðuðum þannig að kjósendur ráða því alfarið hverjir á listunum komast á þing og fá enga leiðsögn til þess á kjörseðlinum eins og í P2.
P4: Næsta skref í persónukjöri er að kjósendur megi tína til frambjóðendur af fleiri en einum lista. Þar sem það er leyft fylgir því að jafnaði pólitísk ábyrgð í þeim skilningi að vali á frambjóðanda fylgir að listi hans fær tilsvarandi hlutdeild í atkvæði kjósandans. Þetta er þó ekki algilt.
P5: Frambjóðendur standa ekki á listum heldur bjóða sig fram sem einstaklingar. Víðast hvar er frambjóðendunum þó heimilt, ef ekki skylt, að gera grein fyrir flokkstengslum sínum á kjörseðlinum. Segja má að fyrirkomulag einmenningskjördæma falli undir þessa gerð persónukjörs. Einnig eru dæmi um fjölmenningskjördæmi með persónukjöri af þessu tagi.
Tekið úr grein af Visir.is sem má lesa alla hér
Af þessum kostum er ég hallastur undir P5. Best er þá að notast við fjölmenningskjördæmi (nema umtalverð fækkun verði á þingmönnum) og það ætti hreinlega að banna að sýna flokkstengsli á kjörseðlinum. Mér er ljóst að til þess að svo geti orðið þarf að breyta stjórnarskránni og kosningarlögunum í framhaldi af því. Þess vegna bind ég vonir við að stjórnlagaþing komi saman sem fyrst og að breytingatillögur þess verði til þess að hnekkja flokksræðinu og alvöru lýðræði komi í staðinn.
Að lokum; Ég staldraði við listann yfir "innlendar fréttir" neðst ásíðu mbl.is. Þær voru þessar;
- Samfylking áfram stærst
- Kannabisræktun stöðvuð
- Engin sátt í Breiðavíkurmáli
- Enn óvíst um sumarönn
- Eigið fé Strætó bs. neikvætt um 57% af eignum
- Ekki fallist á bjórdrykkju að afloknum akstri
- Máttu nýta sér kerfisvillu í netbanka
- 4 ára fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning
- Um 300 sagt upp í hópuppsögnum
- Loftnetsmastur á hliðina
Mér varð strax ljóst að þær átti að lesa í samhengi. Samfylkingin er áfram stærst vegna þess að kannabisræktin var stöðvuð. Enginn sátt um Breiðavikurmál og enn óvíst um sumarönnina þar. Eigið fé Strætó bs. neikvætt um 57% af eigum og þess vegna ekki fallist á bjórdrykkju að afloknum akstri.
Það mátti nýta sér kerfisvillu í netbanka (og stela milljónum) en maður fær 4 ára fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning. Um 300 var sag upp í hópuppsögnum sem lagði loftnetsmastur á hliðina, og ég er ekki undrandi á því.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.3.2009 | 23:09
Góðar fréttir og slæmar fréttir
Æ, það er víst enginn maður með mönnum eða kona með konum, hér á bloggslóðum þessa dagana, nema að þú hafir lýst því yfir að þú ætlir að gefa kost á þér á einhverjum framboðslistanum fyrir komandi alþingiskosningar. Pistlarnir eru fullir af frösum og þeirra vinsælastur og jafnframt leiðinlegastur er "að axla ábyrgð" . Hann er á allra vörum. Sumir vilja ólmir axla ábyrgð með einhverjum hætti en aðrir vilja að einhverjir aðrir geri það. Frasinn er orðin svo altækur og almennur að hann er fyrir löngu hættur að hafa nokkra meiningu. Þess vegna er líka gott að nota hann, þá er maður eins og aðrir.
Satt að segja veit ég ekki hvernig ástandið er raunverulega á Fróni þessa dagana, en ef dæma má af fréttum og þeim glugga sem bloggið er inn í þjóðarsálina, hefur hið pólitíska landslag lítið breyst.
Það minnir mig á söguna um herdeildina úr útlendingahersveitinni sem reið á úlföldum sínum glaðbeitt út í Sahara eyðimörkina til að veita nokkrum uppreisnarmönnum eftirför. Eftir nokkra daga reið án þess að verða uppreisnarmannanna var, kallaði liðsforinginn menn sína saman og ávarpaði þá. "Ég hef góðar fréttir að færa ykkur en líka slæmar fréttir" sagði hann. "Slæmu fréttirnar eru að við erum rammvilltir og matarlausir og höfum ekkert nema úlfaldaskít að éta. Góðu fréttirnar eru hins vegar að það er nóg til af honum."
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.1.2009 | 11:51
Tvífari Obama
Hann heitir Ilham Anas, er 34 ára og er frægur á Jakarta, þar sem Obama forseti Bandaríkjanna eitt sinn bjó. Og nú berst frægð hans víða um heiminn.
Hann hefur komið fram í sjónvarpsþáttum, gert auglýsingar sem Obama og fengið ýmis gylliboð út á útlitið eitt. ´
Sjálfur er Anas fæddur og uppalinn í Bandung á vestur Jövu. Hann segist ánægður með að geta unnið sér inn peninga með þessum hætti en hann geri ekki hvað sem er.
"Ég tek öllum tækifærum sem mér bjóðast svo fremi sem þau stríða ekki gegn samvisku minni og persónulegu siðgæði" er haft eftir honum. Hann segist jafnframt vera frekar feiminn og eiga erfitt með að vera í sviðsljósinu.
Í Indónesíu er mikill áhugi fyrir Obama sem bjó þar í nokkur ár eftir að móðir hans Ann Dunham, gekk að eiga Indónesískan mann Lolo Soetoro eftir að hún hafði skilið við faðir Obama sem var frá Kenýa.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)