Færsluflokkur: Vefurinn
7.10.2009 | 01:09
Íslendingar "ótrúlega ruddalegir"
Skýrsla Sameinuðu Þjóðanna um í hvaða löndum sé best að búa í heiminum, hefur laðað að sér ótrúlegan fjölda athugasemda á vef BBC (have your say) þar sem fólk hvaðanæva úr heiminum lætur í ljós skoðanir sínar á málinu.
Fróðlegt er að lesa hvað fólk hefur að segja um Ísland sem var í fjórða sæti á listanum, en þess ber að gæta að stuðst var við hvernig ástandið var í löndunum 2007.
Í athugasemdum sínum byrjar fólk oft á að útnefna það land sem það vildi helst búa í og af þeim löndum sem eru í efstu sætunum hefur Kanada án efa vinninginn.
Hér koma nokkrar athugasemdir sem lúta að Íslandi úr hinum heljarlanga athugasemdahala á BBC .
Ísland.....Vegna þess að mér finnst það einangrað og að því er virðist ríkja sterk samfélagskennd. Owen, London
Noregur eða Ísland? Vitið þið hvað bjórinn kostar þarna? Will Story
Ég bjó á Íslandi í níu ár og ég skil ekki hvers vegna Ísland þykir góður staður til að búa á. Landslagið er auðn, veðrið er stormasamt, grátt og regnið fellur lárétt, (hljómar ótrúlega en það er satt.) Fólkið er ótrúlega ruddalegt og kann ekki lágmarks kurteisi. Heilbrigðiskerfið þar fær þig til að skilja hversvegna Ameríkanar eru svona hræddir við það sem Obama er að reyna að koma á í Bandaríkjunum. Eiginmaður minn og barn eru í heimsókn á Íslandi þessa dagana en ég vildi ekki fara. Jennie, Hampstead, QC, CANADA
Noregur? Ástralía? Ísland? Á þetta að vera brandari. Noregur er leiðinlegur, Ástralía of heit og af langt í burtu frá öllu öðru og Ísland er blankt. - Ég mundi ekki vilja búa utan Evrópu. Mér líkar ágætlega við Bretland en hefði ekki á móti því að búa dálítið sunnar. Katherine, Cheshire
Ísland? Land hvers efnahagur hefur algerlega hrunið á síðastliðnu ári finnst mér ekki vera eftirsóknaverður staður að búa á. Walter, Buckinghamshire
Ég hélt að Ísland væri gjaldþrota. Paul M, Staffs, UK
Aðeins efnahagslega, ólíkt Bretlandi sem er siðferðislega, pólitískt séð, samfélagslega og efnahagslega gjaldþrota. Steve HadenoughSouth Shields, United Kingdom
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
5.10.2009 | 10:25
Davíð svarar í sömu minnt
Naflaskoðun Bloggara heldur áfram og það er gott. Nú rýnum við í lóna hver í kapp við annan með Sæmundarhætti, út af því að Davíð Oddsson sagði bloggurum til syndanna í Mogga í gær.
Davíð var að æfa sig í að veifa sprotanum og pissaði dálítið yfir fætur háværa pistlahöfunda. Það hafi tilætluð áhrif. -
Margir efuðust um að Davíð mundi nokkuð skipta sér af blogginu þótt hann yrði ritstjóri, sérstaklega hægra liðið sem var sama hvort eð er.
Nú hefur Davíð tekið af allan vafa um það mál og þurfti ekki lengi að bíða. -
Sumir væla áfram yfir nafnleysingjunum á blogginu. Það fer skelfilega í taugarnar á íslensku smáborgarasálinni að vita ekki hver segir hvað og geta ekki flett fólki upp og tékkað ferilinn og allt það.
En það eru ekki nafnlausu bloggararnir sem Davíð er að agnúast út í sérstaklega, enda hefur hann aðgang að kennitölum allra sem hér blogga allavega. Hann hreytir ónotum í alla bloggara sem geisa með gífuryrðum út á ritvöllinn. Margir þeirra hafa beint spjótum sínum Davíð persónulega í gegnum tíðina og nú svarar hann í sömu minnt og gefur forsmekkinn að því sem koma skal.
Sumir þeirra sem vegið hafa hvað harðast að Davíð hafa þegar forðað sér af blog.is. Þeir eru í betri stöðu núna til að svara fyrir sig enda logar bloggheimar á eyjunni...eða alla vega smá varðeldar.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.10.2009 | 01:44
Dvergar í Kína byggja sér þorp
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.10.2009 | 01:00
The Long Goodbye
Atgerfisflótti af moggablogginu heldur áfram. Talsverður fjöldi af bloggurum sem blogga reglulega og taka það sem þeir skrifa alvarlega, haf tilkynnt um að þeir séu farnir eitthvert annað. Margir til Eyjunnar.is. sem er helsta flóttamanna hælið á Íslandi fyrir "eðalbloggara" sem ekki vilja samvisku sinnar vegna, skrifa á vefsvæði hvers æðsti maður heitir Davíð Oddsson. -
Nú á eftir að koma í ljós hvernig þeir þrífast á bloggsvæði Eyjunnar, sem er talsvert minna sótt en blog.is og hefur að ég held miklu minni samfélagskennd. Sumir hafa ekki útilokað að snúa aftur á blog.is og ég tel að svo verði raunin, einkum ef fólk fer að finna sig í sporum The Kinks þegar þeir komu til Íslands forðum og sömdu lokaðir inn á hótel herbergi einhversstaðar í Reykjavík; "I´m on an Island, and I got nowere to go".
Kveðjubloggin eru skemmtileg aflestrar og margir kveðja bloggarana eins og þeir séu að hverfa til annarrar plánetu. samt get ég alveg skilið "söknuðinn" því blog.is er á margan hátt eins og samfélag.
Einhverjir hafa bent á að skelegg skrif á blog.is gætu virkað sem gott mótvægi við þeimbreytingum sem Davíð kann að standa fyrir á mbl.is og að ef áður hafi verið þörf fyrir gagnrýnin skrif á blog.is þá sé nú nauðsyn. - Bloggarar á förum svara þessu að þarna spili líka inn í að mbl.is hafi tekjur af skrifum þeirra og burtséð frá þeim og almennum stuðning við svæðið, sé þeim ekki stætt lengur á að blogga hér.
Ég hef það fyrir víst að margir aðrir í viðbót við þá sem eru þegar farnir séu að undirbúa flutning, sumir jafnvel úr röðum þeirra sem hafa verið í efstu sætum yfir fjölmennustu bloggin.
Miðað við daglegar tölur yfir nýjar skráningar á blog.is hefur þeim ekki fækkað og eflaust verða einhverjir til að rísa upp og fylla í skarð þeirra sem farnir eru eða eru á förum.
PS: Þetta er auðvitað blogg um bloggara og þess vegna mjög í stíl við svo kallaðan "Sæmundarhátt" á bloggi
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
29.9.2009 | 02:04
Kiðlingur með mannshöfuð
Flestir Íslendingar eru með meðvitaðir um að í mörgum Afríkulöndum ríkir mikil fáfræði meðal almennings. fátækt, sjúkdómar, tíðar styrjaldir og samfélagsleg upplausn valda því að sum staðar ríkir jafn mikil fáfræði og algeng var í Evrópu á miðöldum.
Stundum rata inn í heims-pressuna fréttir sem eru svo talandi fyrir menntunarleysið og hindurvitnin sem af henni leiða, að fólk hlýtur að staldra við og spyrja hvort hér sé virkilega alvöru frétt á ferðum.
Í nokkrum dagblöðum heimsins birtist í gær frétt af fæðingu kiðlings í Lower Gweru í Zimbabve, sem sagður hafa mennskt höfuð.
Þorpsbúar sögðu samkvæmt fréttinni að kiðið sem reyndar dó tveimur tímum eftir fæðingu, hafi verið svo hræðilegt að jafnvel hundarnir hafi ekki viljað koma nálægt því. Af því að það leit svo hræðilega út var hræið síðan brennt.
"Þetta er sannkallað kraftaverk",er haft eftir Themba Moyo einum þorpsbúanum.
Eigandi geitarinnar hringdi á lögreglu og myndir voru teknar af dauðum kiðlingnum sem litu út fyrir að vera illa vanskapað kið eða hrein og klár fölsun.
"Þetta er í fyrsta sinn sem geitin mín gerir þetta. Ég á fimmtán geitur og flestar eru afkomendur þessarar geitar. Hún hefur oft fætt tvíbura" er haft eftir eigandanum.
Zimbabwe Guardian fylgir þessari frétt eftir með annarri grein og segir;
Zimbabwe Guardian skýrir frá að landsstjórinn í Midland, Jason Machaya sé þeirrar skoðunar að skepnan sem fæddist sé afleiðing þess að maður og geit höfðu samræði.
"Þetta er mjög alvarlegt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé svo illan hlut. Þetta er mjög skömmustulegt" þusaði í honum.
"Höfuðið er mannshöfuð en restin af líkamanum geit. Það er auðsætt að fullorðin maður er ábyrgur. Ill öfl hafa fengið hann til að missa sjálfstjórnina. Við heyrum oft um tilfelli þar sem maður hefur samræði við dýr en þetta er í fyrsta sinn sem úr verður vera með mennskt útlit"
Og eins og þessi saga sé ekki nógu fáránleg bætir einhver blaðamaðurinn þessu við fréttina;
Hálfur maður, hálf geit, skepnur eins og skógarpúkar og satýrar eru vinsælar í grískri og rómverskri goðafræði. James McAvoy lék hinn fræga skógarpúka herra Tumnus í stórmyndinni sem byggð var á sögu CS Lewis Narnia krónikurnar.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.9.2009 | 17:30
Skriftin gæti komið upp um þig
Nýjar rannsóknir á rithandarsýnum leiða í ljós að hægt er að sjá á rithönd viðkomandi hvort hann er að segja sannleikann eða ekki. Skýringin er fólgin í að heilinn erfiðar meira við að finna upp " lygi" en við að segja sannleikann og truflar þannig skriftina.
Tilraunin fór þannig fram að 34 nemendur í Háskólanum í Haífa í Ísrael voru beðnir um að skrifa stutta málsgrein þar sem þeir lýstu atburði eftir minni og síðan að "skálda" upp aðra málsgrein.
Sjálfboðaliðarnir notuðu þráðlausan tölvupenna sem nam mismunandi þrýsting á pennaoddinn. Síðan var það sem ritað var greint af tölvu.
Vísindamennirnir komust að því að þeir sem skrifuðu ósannindi ýttu fastar á pennann, notuðu lengri pennastrokur og skrifuðu hærri stafi en þeir sem rituðu sannar málsgreinar.
"Við vitum að fólk hikar meira þegar það segir ósatt og sum fyrirtæki nota þá staðreynd þegar þau láta fylgjast með fólki þegar það fyllir út í krossaspurningar í skoðandakönnunum á netinu." sagði Prófessor Richard Wiseman, sálfræðingur við Háskólann í Hertfordshire.
Niðurstöður þessara prófanna hafa þegar verið kynntar í The Journal of Applied Cognitive Psychology.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.9.2009 | 13:48
Bloggarar að blogga um blogg
Upp á síðkastið hefur borið meira á því en venjulega hvað bloggarar moggabloggsins eru uppteknir af sjálfum sér. Segja má að margir þeirra hafi síðustu daga tekið upp svo kallaðan Sæmundarhátt á sínum bloggum. Ástæða þess kann að vera, a.m.k. að hluta, að einhver bankamaður og annar pólitíkus kvörtuðu hástöfum fyrir skömmu við fjölmiðla landsins undan bloggurum, hvað þeir væru dómharðir og ósanngjarnir.
Strax eftir þau ummæli fóru málsmetandi bloggarar á kreik til að meta þetta enda bloggarar kannski upp með sér að skrif þeirra hefðu svona mikil áhrif en vildu jafnframt kryfja til mergjar hvort þeir sem blogguðu undir fullu nafni væru marktækari en þeir sem gerðu það ekki.
Í framhaldi af þeirri naflaskoðun birtist einhver úttekt á því í DV hverjir væru verstu og bestu bloggarar landsins. Um þá úttekt birtu a.m.k, tveir bloggarar umfjöllun og mynduðust um leið við að gera einhverja könnun á því meðal lesenda sinna hvort þeir væru þessum listum sammála eða ekki. Þar kom m.a. fram sú skoðun að sum blogg væru ekki blogg heldur heimilda-utanumhald. Í framhaldi af því birtu bloggarar sem nefndir voru til sögunnar í DV, blogg um sig og sín blogg og hvort þau væru blogg eða ekki.
Þá brast á sú nýlunda á fyrir stuttu að bloggari sem var nýhættur að blogga hóf annað blogg og helgaði tvö fyrstu bloggin bloggara sem ekki bloggar undir nafni.
Nú hef ég í þessu bloggi ekki nefnt nein nöfn, en þeir bloggarar sem lesa blogg annarra bloggara að einhverju marki vita nákvæmlega við hverja ég á. Er ekki tími til kominn að bloggarar hætti nú þessu bloggarabloggi og snúi sér að því að blogga um annað? Það mætti nefnilega halda að það sé hlaupinn einhver gúrka í bloggara landsins sem auðvitað er fjarri lagi. Það er bara þannig stundum að það sem er tungunni tamast er hjartanu kærast.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.9.2009 | 11:54
Er hægt að stöðva bloggróg?
Eins og mál hafa þróast er bloggið eini fjölmiðillinn sem almenningur á svo til óheftan aðgang að til að tjá sig á almannafæri. Sumir eru smeykir við að standa með fullu nafni og kennitölu að baki skoðana sinna á þessum vettvangi og skrifa því undir dulnefni, minnugir þess að reynslan sýnir að það geti verið viturlegt að fara leynt, sérstaklega þar sem þröngur hópur valdhafa er í aðstöðu til að beita sér óvægilega gegn fólki sem ekki er þeim þóknanlegt í málflutningi sínum.
Auðvitað býr þessi óheftanalegi miðill við vissa annmarka og neikvæðu hliðar hans eru flestum augljósar. Það er til dæmis ekki hægt að stöðva þá sem eru ákveðnir í að misnota hann til að koma höggi á þá sem þeim er illa við og slúður og missagnir vaða uppi.
Baktal og rógur, sem reyndar er viðamikill hluti af efni flestra nútíma fjölmiðla og það sem gjarnan er réttilega flokkað undir slúður, er viðtekin og sjálfsagður fylgifiskur nútíma fjölmiðla-menningar. -
Þeir sem kjósa að lifa lífi sínu "í sviðsljósinu" verða fyrir fjölmörgum slíkum slúður-árásum af hendi fjölmiðla og þeir sem ekki hafa nægilegan harðan skráp til að standa slíkt af sér eiga í raun ekkert erindi í inn í þá ljónagryfju sem fylgir því að vera "opinber" persóna.
Nýlega hafa nafnlausir bloggarar legið undi ámæli frá stjórnmálamanni og þekktum peningamanni fyrir að hafa vegið að þeim og mannorði þeirra með athugasemdum við bloggfærslur og/eða í sjálfum pistlunum. - Þessum opinberu persónum finnst skiljanlega súrt í broti að vita ekki deili á þeim sem óhróðrinum dreifa og finnst þess vegna þeir ekki geta borið almennilega hönd yfir höfuð sér. Það þýðir; kært viðkomandi fyrir róg.
Vitandi að það er ekkert sem getur stöðvað aðgang almennings að internetinu og að fólk tjái sig á því eins og því einu sýnist, verða opinberar persónur að gera sér grein fyrir því að orðstír þeirra er algerlega komin undir heiðarleika og jafnvel traustverðugleika almennings. Það hlýtur að vekja þeim ugg í brjósti, vitandi um alla breyskleika sína eins og mannlegt er.
Þess vegna er ekki undarlegt þótt einhverjir reyni að snúa málum sér í hag þegar tækifæri býðst, með því að ásaka bloggara um að vera orsök vandræða sinna og segja þá t.d. ábyrga fyrir óvinsældum sínum og því vantrausti sem fólk hefur fengið á þeim. Þetta má t.d. heimfæra upp á fyrrverandi viðskiptamálráðherra.
Hann lýsti því yfir að hann hafi verið ofsóttur af nafnlausum bloggurum sem eyðilagt hafi fyrir honum orðstír hans. Þótt að ég sé persónulega á því að það hafi ekki verið úr háum söðli að detta fyrir þennan ákveðna einstakling, finnst mér hann allrar samúðar verður. Slæmt hátterni á aldrei að verðlauna og verður að fordæma.
En jafnframt verður að minna hann og aðra sem tekist hafa á hendur stjórn þjóðarskútunnar, að niðrí lest mala rotturnar og þær eru jafn miklir ferðlangar á þessari sjóferð og þeir sjálfir og eiga jafn mikið, ef ekki meira, undir því að þeir geti staðið af sér ágjöfina upp á þilfarinu, svo líkingin sé pínd til hins ýtrasta.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.8.2009 | 02:13
Michael Jackson bloggar hér!
Ég veit ekki af hverju Michael Jackson kaus að senda mér þetta skeyti og biðja mig um að þýða það og birta það hér á blogginu.
Kannski er það vegna þess að hann veit að ég er svo frjálslyndur. Það er næstum sama hvaða vitleysa er í gangi, ég lep það upp og birti eitthvað um það hér á blogginu, svo fremi sem mér finnst fyrirsögnin geta verið flott.
Eða kannski er það vegna þess að ég var aldrei yfir mig hrifinn af Jackó þótt mér fyndist hann góður sjómaður og nú er hann að gera lokatilraunina til að vinna mig á sitt band.
Alla vega ætla ég að verða við bón hans í þetta sinn og birta skeytið frá honum sem er það fyrsta sem hann hefur sent frá sér, eftir því sem ég best veit, eftir að hann lést.
Kæru vinir.
Allar fréttir um að ég sé enn í tölu lifenda eru stórlega ýktar. Það er alveg rétt sem fram hefur komið í fréttum að ég sofnaði og hef ekki vaknað aftur.
Ástæðan fyrir að ég sendi þetta skeyti er að mig langar að koma sérstökum skilaboðum til ykkar.
En fyrst langar til að koma því á framfæri við alla íslenska aðdáendur mína og bara alla Íslendinga að gefast ekki upp þótt móti blási. Ég vil að þeir viti að þeir eiga alla mína samúð á þessum síðustu og erfiðustu tímum. Ég veit nefnilega af eigin reynslu hvað það er þegar manni finnst útlitið vera heldur dökkt. Ég hef fundið fyrir því á eigin skinni get ég sagt ykkur. Og hvernig það er að vera smáður af fólki sem ekkert þekkir mann. Ég var líka, eins og þið, neyddur til að borga háar upphæðir fyrir hluti sem ég átti enga sök á. Og ég veit svo sannarlega hvað það er að vera blankur en þykjast eiga peninga, eftir að hafa verið rændur af einhverjum fjármálaspekingum. Ég tala því af reynslu.
Þá eru það skilaboðin sem mér fannst að ég yrði að senda ykkur eftir að ég heyrði hversu hræðilegt útlitið hjá ykkur er eftir bankahrunið og allt það.
Þannig er að ég fann snemma fyrir því að mér líkaði ekki við andlitið á mér. Ég gekkst því undir all-margar lýtaaðgerðir. En það var alveg sama hversu mikið mér var breytt, ég var aldrei alveg ánægður með útlitið. Á endanum endaði ég uppi með ónýtt nef framan í mér og mér var sagt af lýtalækninum mínum að ef hann hreyfði meira við því mundi það detta alveg af.
Nú veit ég að útlitið hjá mörgum ykkar á Íslandi er svart, eins og það var hjá mér og meira að segja svo slæmt hjá sumum ykkar að þið eruð að hugsa um að flýja land.
Það finnst mér óheillaráð. Útlitið er nefnilega ekki allt. Ég reyndi að flýja mitt útlit og endaði uppi næstum neflaus.
Þið verðið að sætta ykkur við það sem þið eruð og vera ánægð með það sem Guð hefur gefið ykkur.
Vona svo að þið séuð dugleg við að hlusta á lögin mín og núna er mér alveg sama þótt þið halið þeim niður ólöglega.
Bestu kveðjur
Michael Jackson
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.6.2009 | 11:28
52 mönnum bjargað um borð í íslenskt skip úr sökkvandi kafbát
Ég starfaði í Vestmannaeyjum um árabil við leiðsögn hjá Ferðaþjónustu Páls Helgasonar. Til Eyja komu m.a. margir þýskir hópar, mikið eldra fólk sem komið var á eftirlaun. Þrátt fyrir undrin öll sem Eyjarnar hafa upp á að bjóða, komust Þjóðverjarnir mest við að heyra söguna af því þegar Skaftfellingur VE-33 bjargaði 52 mönnum af áhöfn þýsks kafbáts 19. ágúst árið 1942. Skipið var þá gert út af Helga Benediktssyni föður Páls, en sjálfur var Páll meistari í að segja söguna þannig að ekki var þurr hvarmur í rútunni þegar komið var að flaki skipsins þar sem það stóð í gamla slippnum Í Eyjum. Á vefsíðunni Heimaslóð er að finna greinagóða lýsingu af þessum atburðum og fer hún hér á eftir í tilefni dagsins að sjálfsögðu.
Aðfaranótt 19. ágúst árið 1942, rétt eftir miðnætti, hélt Skaftfellingur úr höfn í eina af sínum fjölmörgu ferðum til Fleetwood, að þessu sinni með farm af ísfiski. Páll Þorbjörnsson, skipstjóri, og Andrés Gestsson, háseti, áttu vakt aðfaranótt 20. ágúst. Mikil bræla var og austanátt þegar bandarísk sjóflugvél flaug yfir Skaftfelling í tvígang, rétt fyrir kl. fjögur að morgni, og gaf þeim morse-merki. Andrés varð var við merkið og lét skipstjórann vita, en ekki tókst þeim að ráða úr skilaboðunum. Þeir sáu aftur á móti mjög fljótlega að eitthvað var í sjónum framundan. Þeir töldu fyrst að um björgunarbát með segl væri að ræða, en svo sáu þeir að fyrirbærið virtist stinga sér í ölduna líkt og skip gera - eða kafbátar. Enda var sú raunin að um þýskan kafbát var að ræða. Skipverjar kafbátsins voru þá á þilfari hans, og veifuðu þeir til Skaftfellings með rauðum fána. Aðrir skipverjar voru ræstir, fokkan (lítið segl) var dregin niður og íslenskur fáni dreginn að húni. Fyrstur upp á dekk af þeim sem voru á frívakt, var fyrsti vélstjóri skipsins, Jóhann Bjarnason, en Páll skipaði honum að hlaða byssurnar. Skaftfellingur var búinn þremur vopnum: 5 skota riffli og 90 skota vélbyssu, auk skammbyssu sem skipstjórinn hafði.
Þegar skipverjum Skaftfellings varð ljóst að skotið hafði verið á kafbátinn, þannig að hann gat ekki kafað og hann orðinn verulega laskaður, þá fóru þeir að huga að því að bjarga skipverjum, sem voru milli vonar og ótta, um borð í Skaftfelling. Reynt var fyrst að slaka til þeirra björgunarfleka sem átti að geta borið 10-12 manns, en flekinn slitnaði frá Skaftfellingi. Á meðan þeir reyndu að finna nýja leið til þess að ná Þjóðverjunum um borð byrjuðu þeir að stinga sér í sjóinn og synda að Skaftfellingi. Aðstæður við björgunina breyttust þá á svipstundu, og menn kepptust við að hífa Þjóðverjana um borð. Reynt var í fyrstu að leita á mönnum og afvopna þá ef með þyrfti en eftir því sem leið á björgunina varð það erfiðara.
Skipherra kafbátsins var síðastur um borð í Skaftfelling, en hann og tveir aðrir sökktu kafbátnum áður en þeir fóru frá borði, svo að hann endaði ekki í óvinahöndum. 52 skipverjum var bjargað um borð í Skaftfelling, en sögum ber ekki saman um, hvort um borð hafi upphaflega verið 54 eða 60. Samkvæmt skipaskrá kafbátsins voru sextíu menn um borð, en samkvæmt vélstjóra þýska kafbátsins, Reinhart Beier, voru eingöngu tveir sem lokuðust inni í skipinu þegar það sökk. Vandast málið enn frekar þegar athugað er að samkvæmt frásögn Andrésar Gestssonar var að minnsta kosti einn maður gestkomandi í kafbátnum:
- [...] Ég man eftir því að annar þeirra var flugmaður sem kafbátsmenn höfðu bjargað. [...]
Samkvæmt skráningum voru þeir tveir sem létust, Kurt Seifert og Karl Thiele.
Þjóðverjunum var komið um borð í tvo breska tundurspilla sem stöðvuðu Skaftfelling á för sinni. Þjóðverjarnir voru fluttir til Reykjavíkur og þeir hafðir þar í kanadískum fangabúðum um hríð.
U-464
Kafbáturinn sem sökk þessa nótt, 20. ágúst 1942, var þýskur U-kafbátur (Underseeboot) af gerð XIV, nefndur U-464. Eingöngu tíu slíkir kafbátar voru smíðaðir, en þeir fengu viðurnefnið mjólkurkýr (milchkuh). Þeirra hlutverk var að flytja hergögn og vistir til kafbáta af gerð VII og IX. Fyrsta mjólkurkýrin var U-459, en U-464 var án efa sú skammlífasta. Bygging á bátnum hófst þann 18. mars 1941 og var sjósetningin þann 30. apríl 1942. Skipstjóri bátsins var kapteinleutenant Otto Harms.
U-464 fór tvær ferðir á sinni tíð, en fyrri ferðin, sem stóð frá 30. apríl 1942 til 1. ágúst 1942, var æfingaferð með 4. flotadeildinni, sem var æfingafloti fyrir kafbáta. Seinni ferðin hófst þann 1. ágúst 1942 og stóð til 20. ágúst, þegar sjóflugvél af Catalina-gerð frá bandarísku VP-73 flughersveitinni varpaði fimm djúpsprengjum á hann. Djúpsprengjurnar löskuðu skipið að ofanverðu þannig að það gat ekki kafað, en þó hefði skipið átt að geta siglt áfram á um 8 sjómílna hraða (hann komst upphaflega á um 10 sjómílna hraða).
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)