Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
13.2.2009 | 10:04
"Góð hugmynd að eignast barn" segir 13 ára faðir
Þegar börn eignast börn, er mál málanna hér í Bretlandi í dag. Alfie Patten er þrettán ára og kærastan hans, Chantelle Steadman er fimmtán ára. Í síðustu viku urðu þau foreldrar. Litla stúlkan þeirra heitir Maisie Roxanne.
Alfie sem ekki hefur hugmynd um hvað bleyjur kosta en álítur að þær hljóti að vera dýrar, sagði blaðamönnum að honum hefðu fundist það "góð hugmynd að eignast barn."
"Ég var ekkert að pæla í því hvort við hefðum efni á því.
Ég fæ ekki einu sinni vasapeninga.
Pabbi gefur mér stunum 10 pund. Þegar að mamma frétti af þessu hélt ég að það yrðu vandræði.
Við vildum eiga barnið en höfðum áhyggjur af því hvernig fólk mundi bregðast við."
Alfie er ekki hár í loftinu eða 1.25 m. Hann Svaf hjá og barnaði Chantelle þegar hann var enn aðeins tólf ára.
Kristnir hópar sem leggjast gegn fóstureyðingu hafa borið lof á hugrekki barnanna við að ákveða að eignast barnið.
Mál Alfie og Chantelle hafa enn á aftur vakið athygli á þeirri staðreynd að foreldrar á táningsaldri eru miklu fleiri í Bretalandi heldur en öðrum vestrænum löndum.
Fréttin í SUN
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.2.2009 | 18:57
Ég og Mímí
Ég sat þögull og starði ofan í kaffibollan minn. Ekki af því mig langaði ekki að segja eitthvað, heldur af því að ég vissi ekki hvar ég átti að byrja. Konan hinum megin við borðið tók þögn mína greinilega á þann veg að ég hefði viljugur gerst "góður hlustandi" og héllt ótrauð áfram að láta dæluna ganga.
"Auðvitað hefur maður oft fengið að heyra það; - Mímí! Ha, það lýsir þér rétt. Eins eigingjörn og þú ert nú, ha. - Veistu, ég held að fólk sé nú bara að segja þetta. Nafnið býður bara upp á það. Reyndar heiti ég nú Margrét, en það kalla mig allir Mímí. Svo getur það líka verið bara öfundsýki. Sumum finnst örugglega að ég eigi ekki skilið að hafa það sem ég hef, þú veist, bara tuttugu og átta ára og flott...he he... að reka líka tvær flottar verslanir og allt það. En það hefur sko kostað sitt. Það eru heldur ekki margir karlmenn sem sætta sig við að vera tekjuminni en konan. Ég veit ekki hvað ég er búin að deita marga sem segjast hafa einhverjar rosa tekjur og svo kemur í ljós að þeir eiga ekki bót fyrir boruna á sér. Ég þoli ekki karla sem villa á sér heimildir. Þegar upp er staðið hafa þeir nákvæmlega ekkert að bjóða. Ég hitti til dæmis einn um daginn. Vá, þvílíkur looser. Ég var nýkomin úr fitusogi og var svolítið aum um mjaðmirnar. Það er alveg rosalegt hvernig hvað maður getur safnað á sig þótt maður borði eiginlega ekki neitt, eða þú veist....(Hún setti putta upp í kokið á sér)... Læknirinn sagði reyndar að þetta væri genatískt. Jæja, þessi vildi endilega bjóða mér út eitthvað, Grikkland eða eitthvað. Heyrðu, þegar hann heyrði að ég væri ekki alveg til í að sýna mig á g-strengnum enn varð hann bara fúll. Og þegar hann heyrði að ég ætti búðirnar þá spurði hann hvort ég væri ekki til í að borga í ferðinni. Ég sem hélt að hann væri að bjóða mér. Jæja, svo kom í ljós að hann var líka með einhverri annarri......Heyrðu, sérðu eitthvað hérna fyrir ofan efri vörina. Nei, kannski sést það ekki, ég reyndi nú að sminka yfir það. Gvuð, ég varð alveg brjáluð þegar ég sá þetta. Ég hef látið sprauta í varirnar áður, en núna kom bara stórt gat þar sem hann setti nálina. Sérðu eitthvað...En ef þú sérð ekkert er þetta örugglega í lagi.... Ég fór um daginn til spákonu. Ég er svo mikið fyrir svona allskonar andlega hluti. Og veistu, hún sagðist sjá að ég mundi eignast barn fljótlega. Hvernig gat hún vitað það að ég hef einmitt verið að pæla í að eignast barn? Maður verður ekkert yngri skilirðu ha ha. Málið er að maður vill ekkert vesen auðvitað, og þess vegna er ég að hugsa um að kaupa mér bara sæði úr einhverjum sæðisbankanum. Gallinn er að maður fær ekki að sjá sæðisgjafann skilurðu, þannig að maður veit aldrei hvernig hann leit út. Ég mundi sko ekki vilja einhvern ljótan. Eiginlega finnst mér að ljótir karlar ættu ekki að fá að gefa sæði. Ímyndaðu þér sjokkið maður, ef barnið væri bara eitthvað lukkutröll. En ég vil helst eignast tvö börn, því ef eitthvað kemur fyrir annað þá hefur maður alla vega hitt. Þú tryggir ekki eftir á he he he....."
Nú hringdi gemsinn minn og ég svaraði. Mímí þagnaði og leit í kringum sig. Um leið og ég lauk samtalinu sem var stutt, hélt hún áfram. Ég notaði tækifærið og smelti af henni mynd.
29.1.2009 | 22:09
Af hremmingum íslensks sendiherra
Eitt sinn var ungum manni boðin sendiherrastaða í Frakklandi. Hann þáði þá upphefð með þökkum og flutti með fjölskyldu sína til Parísar og tók upp aðsetur í stóru og flottu einbýlishúsi sem utanríkisráðuneytið átti.
Ungi maðurinn átti konu og tvær litlar stúlkur. Fljótlega eftir að hann tók við embættinu byrjuðu Íslendingar í allskonar "mikilvægum" erindagjörðum að heimsækja hann og oftar en ekki drógust þeir fundir á langinn og enduðu oftar en ekki með að dregin var fram einhver tegund af frönsku víni sem þarna voru svo ódýr og góð og skálað var fyrri landinu og þjóðinni sem kúrði heima á klakanum.
Eftir nokkra mánuði af stöðugum gestakomum og löngum kvöldum þar sem smakkað var á wiskey og líkjörum þegar að franska vínið þraut, var fjölskylda unga sendiherrans orðin dauðuppgefin á ástandinu.
Hann hafði lofað dætrum sínum að fljótlega eftir komuna til Frakklands mundi hann taka þær í ökuferð og fara með þær í stærsta og frægasta dýragarð í Evrópu, þar sem dýr víða úr heiminum gengu um frjáls á gríðarstóru afgirtu landsvæði sem hægt var að aka um og skoða dýrin.
Vegna veisluhaldanna hafði lítið orðið af efndum.
Snemma einn Laugardag komu dæturnar að máli við föður sinn og tóku af honum eindregið loforð um að morguninn eftir mundu þau stíga upp í flotta svarta sendiráðsbílinn sem reyndar enn hafði ekki gefist tími til að merkja sendiráðinu og aka út fyrir París og heimsækja dýragarðinn.
Það sama kvöld komu nokkrir digrir íslendingar í heimsókn og fyrr en varði var slegið upp veislu. Seint um nóttina gekk ungi sendiherrann til hvílu og fannst hann rétt hafa lagt höfuðið á koddann þegar tvær litlar dömur byrjuðu að toga hann út úr rúminu. Pabbi, pabbi, komdu, þú lofaðir manstu...
Hann vissi að honum var engrar undankomu auðið, dreif sig því í sturtu og innan klukkustundar voru þau öll lögð af stað, hann með frúnna í framsætinu og dæturnar tvær í aftursætinu. Af og til hnusaði eiginkonan út í loftið, opnaði gluggann og veiddi loks tyggigúmmí upp úr handtöskunni sem hún lét bónda sinn hafa.
Eftir einnar klukkustundar akstur komu þau að dýragarðinum. Þau óku inn í hann eftir að hafa greitt aðgangsgjaldið og lituðust um. Við veginn stóðu skilti sem lýstu þeim dýrum sem helst var að vænta að sjá á hverjum stað og á öllum þeirra stóðu varnaðarorð um að ekki mætti að stöðva bílinn nema í stuttan tíma í senn, ávalt bæri að vera með bílrúðurnar uppskrúfaðar og stranglega væri bannað að gefa dýrunum einhverja fæðu.
Fyrst sáu þau strút hlaupa með ofsahraða yfir veginn fyrir framan bílinn og það varð til þess að ákveðið var að aka löturhægt. Stúlkurnar komu þvínæst auga á hlébarða en hann var of langt í burtu til að hann sæist vel. Allt í einu óku þau fram á þrjá gíraffa sem stóðu þétt upp við veginn og hreyfðu sig ekki þótt bifreiðinni væri ekið alveg upp af þeim. Ungi sendiherrann stöðvaði bifreiðina og öll virtu þau fyrir sér tignarleg dýrin nokkra stund sem stundum teigðu hálsa sína í átt að rúðum bílsins eins og þeir byggjust við að fá eitthvað góðgæti úr þeirri átt. -
Rafmagnsvindur voru á bílrúðunum og áður en sendiherrahjónin fengu nokkuð við gert, hafði önnur stúlknanna rennt niður rúðunni á annarri afturhurðinni. Samstundis skaut einn gíraffinn höfðinu inn um gluggann. Litlu stúlkurnar æptu af hræðslu þegar að löng tunga Gíraffans leitaði fyrir sér að einhverju matarkyns inn í bílnum. Um leið og telpurnar æptu eins og himinn og jörð væru á enda komin, greip skelfing um sig í framsætunum líka.
Móðurinn fann takkann sem stýrði rúðunum fram í bílnum og ýtti á hann þannig að rúðan halaðist upp til hálfs og herti þannig að hálsi gíraffans. Um leið ók sendiherrann af stað og neyddi þannig gíraffagreyið til að hlaupa meðfram bílnum þar sem hann sat fastur í glugganum. Brátt tók grænt slý að renna frá vitum gíraffans sem lyktaði eins og blanda af súrheyi og hænsnaskít.
Ópunum í aftursætinu linnti síst þegar stór gusa af slýinu gekk upp úr gíraffanum og yfir telpurnar. Sendiherrann snarstansaði bílinn en aðeins þá gerði hann sér gein fyrir að gíraffinn var enn fastur við bifreiðina. Hann ýtti aftur á rúðuhnappinn og gíraffinn tók á stökk tafsandi og frísandi á braut.
Ástandið í bílnum var vægast sagt skelfilegt. Telpurnar voluðu í aftursætu útbíaðar í grænu slýi sem ferlegan fnyk lagði af. Frúin reyndi hvað hún gat til að þurrka framan úr þeim með klút sem hún hafði fundið í hanskahólfinu og nú heltist þynnkan af fullum krafti yfir sendiherrann.
Sendiherrann ákvað að það væri ekki stemming fyrir frekari dvöl í dýragarðinum og hraðaði sér út úr honum. Þegar út á hraðbrautina kom var ljóst að það þurfti að stoppa sem fyrst og reyna að hreinsa stúlkurnar betur og bílsætin því bíllinn lyktaði eins og flór. Brátt komu þau að bensínstöð þar sem þau stönsuðu og tóku til óspilltra málanna við að hreinsa það sem hreinsast gat. En lyktin var svo megn að á endanum ákváðu þau að fækka fötum og setja þau í ruslapoka sem síðan fór í skottið.
Þegar þau héldu af stað aftur, sátu telpurnar á gammósíunum og undirbolum, frúin á brjóstahaldinu einu að ofan og sendiherrann sjálfur á nærbuxunum.
Þau höfðu ekki ekið nema stuttan spöl þegar að sendiherrann sér í bakspeglinum hvar lögreglubíll með blikkandi ljósum er kominn upp að honum. Hann vék bílnum út í vegkantinn og beið rólegur eftir að lögregluþjónarnir stigu út. Annar þeirra gekk beint að bílnum og benti sendiherranum að stíga út úr sínum bíl. Sendiherrann talaði ágætlega frönsku og taldi víst að hann mundi getað spjarað sig gagnvart lögreglumönnunum. En hann hafði áhyggjur af því að hann kynni að vera undir áhrifum ennþá.
Hvað get ég gert fyrir ykkur, spurði hann hæverskur og sté út úr bílnum og reyndi að brosa.
Við sáum að þegar þér ókuð út frá Bensínstöðinni þá gáfuð þér ekki stefnuljós, svaraði sá sem nær var.
Það kann vel að vera, ég var eitthvað stressaður að komast heim, svaraði sendiherrann.
Lögreglumaðurinn fitjaði upp á nefið. Hm, það er mjög sterk lykt af yður. Hafið þér verið að drekka, spurði hann svo.
Ha, nei, ekki drekka, sko, nei, ekki síðan í gærkveldi.
Lögreglumennirnir litu hvor á annan. Já einmitt það, svaraði svo annar þeirra. Væri þér sama þótt þú kæmir með okkur snöggvast inn í lögreglubílinn.
Ja, ég er nú með fjölskylduna með mér og svo er ég sko sendiherra og nýt ákveðinnar friðhelgi sem slíkur,svaraði sendiherrann og lagði höndina á brjóst sér eins og hann væri að þreifa eftir veski sínu sem hann bar venjulega í jakkavasanaum. Æ, sagði hann svo, ég setti jakkann í skottið, sko í plastpokann skiljiði.
Lögreglumennirnir skimuðu inn í bílinn þar sem telpurnar sátu skjálfandi og sendiherrafrúin reyndi að halda veskinu fyrir brjóstum sér.
En það er alveg satt að ég er sendiherra frá Íslandi hélt sendiherrann áfram, og, og þetta með lyktina, ég get alveg skýrt hana. Það var sko þannig að við stoppuðum bílinn og þá rak Gíraffi inn hausinn og ældi yfir okkur öll, sko og þaðan er lyktin komin. Svo fórum við öll úr fötunum á bensínstöðinni.
Lögreglumennirnir litu aftur hvor á annan og virtust allt í einu taka ákvörðun. Gjörið svo vel að stíga frá bílnum sagði annar þeirra skipandi röddu og lagði um leið hönd á skammbyssuna sem hann bar við mitti sér. Leggist á hnén og setjið hendurnar fyrir aftan bak.
Sendiherrann rak upp hláturroku...sko, ég er að segja sannleikann, það var gíraffi sem ældi á okkur og þess vegna er passinn minn í skottinu..
Ekkert múður, niður á hnén.........Um leið og hann lagðist á hnén fann hann handjárnin smellast um úlnliði hans.
Viku síðar fékk ungi sendiherrann ákærubréf frá lögreglunni. Hann var sakaður um ölvun við akstur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.1.2009 | 02:04
Teiknimynda Kalli
Árið 1998 kom út bók hjá Great Plains Publications í Winnipeg sem heitir á frummálinu (Ensku) Cartoon Charlie: The Life and Art of Animation Pioneer Charles Thorson. Bókin er eftir Gene Waltz og fjallar um hæfihlaup og list Charles Thorson sem var fæddur í Winnipeg, Kanada, árið 1890 og gefið nafnið Karl Gústaf Stefánsson.
Foreldrar Karls voru þau Sigríður Þórarinsdóttir og Stefán Þórðarson (síðar Thorson). Frá Reykjavík fluttust þau til Vesturheims 1887. Þar tók Stefán upp ættarnafnið Thorson. Synir þeirra Stefáns og Steinunnar eru Joseph Þórarinn Thorson sem síðar varð ráðherra í sambandsstjórn Kanada og bræður hans Karl (Charles Thorson) og Stefán (Stephan).
Karl Gústaf, eða Charlie eins og hann var kallaður af flestum sýndi fljótlega merki um talsverða listræna hæfileika og var líklega tekinn í læri hjá húsamálara og steinglerssmið einum sem hét Friðrik Sveinsson og kallaður var Fred Swanson. Fyrsta opinberlega teiknimyndin eftir hann birtist á forsíðu Heimskringlu 4. mars 1909 var einmitt af Friðriki sem var fóstursonur Ólafs Ólafssonar frá Espihóli sem fluttist til Kanada 1873.
Kannski hefur áhugi Karls eitthvað tengst því að lærimeistari hans Friðrik átti fríða dóttur sem hét Rannveig. Alla vega voru þau Rannveig og Karl gefin saman á heimili foreldra Rannveigar í Gimli 11. október 1914.
Þau höfðu þá þegar einast son sem nefndur var Karl eftir föður sínum. En hamingjan var þeim ekki hliðholl því Rannveig dó af berklum 19. október 1916 og ári seinna dó Karl sonur þeirra af barnaveiki.
Karl teiknaði ýmiss konar skopmyndir og auglýsingar, bæði fyrir Heimskringlu, blað íhaldsmanna, og Lögberg sem frjálslyndir stóðu að. Það var svo árið 1922 að hann var ráðinn til að teikna pólitískar skopmyndir fyrir blaðið Grain Growers Guide sem um það leiti var prentað í 75.000 eintökum.
Karl leysti þar af hólmi hinn fræga Arch Dale, sem var orðinn að goðsögn í lifanda lífi, en Dale sneri aftur ári síðar. Karl hvarf þá til starfa fyrir dagblaðið Manitoba Free Press og seinna meir teiknaði hann ósköpin öll af myndum í auglýsingabæklinga og vörulista, m.a. fyrir Eatons og Brigdens.
Næstu árin voru róstusöm hjá Karli og það var ekki fyrr en hann hitti og giftist ungri stúlku sem hét Ada Albina Teslock, sem var pólskum ættum, ein níu systra, að líf hans róaðist. Ada var afar fögur, með kolsvart hár og með afar hvíta húð, grönn og lífleg. Fegurð hennar var slík að sagt var að engir karlmenn gætu staðist á móti því að horfa á eftir henni á þegar hún fór um götur. Þrátt fyrir fegurð hennar, eða kannski vegna hennar, endaði hjónaband þeirra fljótlega. Þau eignuðust einn son, Stephen.
Ógiftur enn á ný, hékk Karl á kaffihúsum og teiknaði. Uppáhalds kaffihúsið hans hét Wevel Cafe (Winnipeg). Þar hitti Karl hina fögru Kristínu Sölvadóttir sem þjónaði þar til borðs. Karl fór á fjörurnar við Kristínu en hún hafði heyrt af honum kvennabósasögurnar og svo var hann líka helmingi eldri. Í tilraunum sínum til að ná ástum Rannveigar teiknaði hann hana oft og sendi henni teikningarnar. "Allt þetta mun verða þitt ef þú villt mig" stóð á einni skopteikningunni sem hann sendi henni.
Kristínu leist ekki á blikuna og forðaði sér frá Winnipeg til Niagarafossa til að greiða úr tilfinningum sínum. Þau skrifuðust á, en um hvað er ekki vitað. Að lokum snéri Kristín aftur til lands forfeðra sinna, Íslands. Hvort hún á hér á landi einhverja afkomendur er mér ekki kunnugt um en ef einhverjir vita betur, væri fróðlegt að heyra af því.
Árið 1934 hófst það skeið í lífi Kalla sem hann er hvað þekktastur fyrir. Fjörutíu og fjögurra ára gamall réðst hann til starfa fyrir Walt Disney, heillaður af tækninni sem færði gestum kvikmyndahúsanna teiknimyndina um Litlu grísina þrjá. Dvöl hans hjá Disney varð ekki ýkja löng, aðeins tvö ár.
Engu að síður lét Karl eftir sig ekki ómerkari fígúrur en sjálfa Mjallhvíti sem lenti í svo mögnuðu ævintýri með dvergunum sjö. Munnmæli segja að Kristín Sölvadóttir, hafi verið fyrirmyndin að Mjallhvíti og þannig urðu til sögurnar um að Mjallhvít væri íslensk og frá Winnipeg. Kristín Sölvadóttir
Kalli var líka aðalmaðurinn í að teikna indíánastrákinn Hiawatha og meira og minna allar persónurnar í mynd Disneys um drenginn. En vegna þess að hann hvarf frá störfum fyrir stórfyrirtækið áður en kvikmyndirnar voru sýndar, er hans hvergi getið.
Eftir Disney-árin vann Karl m.a. fyrir Harman-Ising og MGM.
Frægasta fígúran sem Charlie skapaði algjörlega sjálfur eftir að hann yfirgaf Disney er án efa Bugs Bunny. Teyminu sem falið var að teikna kanínuna , var stýrt af manni sem kallaður var Bugs. Vinnuheiti Karls á kanínunni var því "Bugs Bunny." sem a lokum festist við fígúruna. En það má kalla írónískt að á íslensku var hann kallaður Kalli kanína.
Karl mun vera eini "íslendingurinn" sem fengið hefur teikningu eftir sig birta á bandarísku frímerki þótt hann fengi aldrei heiðurinn af því opinberlega, frekar en öðru sem hann vann fyrir Disney.
Charles Thorson lést árið 1967.
Ævintýrið um Mjallhvíti er um margt merkilegt og á netinu er ágætis sálfræðipæling sem leggur út frá sögunni sem ég linka hér við; Mjallhvít
Fyrst til að vekja athygli á því að Mjallhvít Disneys hafi verið teiknuð af íslensk-ættuðum manni og að fyrirmynd hans hafi einni verið íslensk stúlka var eftir því sem ég best veit Gréta Björg Úlfsdóttir.
Ég læt hér fylgja að lokum tvær teiknimyndir eftir Karl sem allir sem komnir eru til vits og ára eiga að kannast við úr bernsku sinni.
Það var Davíð Kristjánsson góðvinur minn á Selfossi sem vakti athygli mína á þessum merka Íslandssyni og þeim möguleika að andlit einnar þekktustu teiknimyndarpersónu heimsins væri einnig af íslenskri konu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.1.2009 | 20:16
Ljóshnettir á ljósmyndum
Í heimsókn hjá vini mínum fyrir skömmu, tók hann mynd af mér þar sem ég var "að vega mann og annan". Hann sendi mér myndina nokkru seinna og sagði að þetta hefði verið versta myndin sem hann tók allt kvöldið og hann skildi ekkert í öllum þessum deplum á henni.
Hann tók sama kvöld fjölda mynda af fólkinu sem þarna var statt og engin þeirra var eins meingölluð og af mér. Gallinn er eins og auðsætt er að það er fullt af einhverskonar deplum á myndinni sem ég hefði haldið að kæmu frá skítugri linsu eða einhverju álíka. En af því að á hinum myndunum var enga depla að sjá, getur það varla verið.
Ég hef lesið um þetta fyrirbæri og trúi ekki einu orði af því sem fólk segir um svona hnetti eða "orbs" eins og fyrirbærið er kallað upp á enskuna, en fann samt frásögn ljósmyndara sem reyndi að afsanna að þetta væri yfirnáttúrulegt fyrirbæri eins og margir halda fram. Frásögn hans er að finna hérna.
Ég er enn á því að þetta séu algjörlega náttúruleg fyrirbæri en kann ekki að skýra málið frekar en Dave Juliano.
Vinir og fjölskylda | Breytt 17.1.2009 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
13.1.2009 | 19:05
Fædd tveimur dögum eftir dauða móður sinnar
Fyrrum skautastjarna í Bretlandi fæddi barn tveimur dögum eftir að hún hafði verið úrskurðuð látin af völdum heilablóðfalls.
Jayne Soliman var úrskurðuð heiladauð en hjarta hennar var haldið gangandi þar til að hægt var að bjarga dóttur hennar Ayu (þýðir kraftaverk á kórísku) með keisaraskurði.
Jayne sem var 41. árs þegar hún lést, var komin 25 vikur á leið þegar hún fékk heilablóðfall á heimili sínu á Englandi.
Henni var flogið til John Radcliffe sjúkrahússins í Oxford þann 7. janúar. Dóttir hennar kom í heiminn tveimur dögum seinna og vó þá um eitt kíló.
Fyrstu 48 tímana var dælt í lungu hennar miklu magni af sterum til að hjálpa þeim að þroskast.
Faðirinn Mahmoud Soliman, var viðstaddur fæðinguna.
Útför móðurinnar Jayne Soliman fór fram á laugardaginn s.l. að viðstöddu fjölmenni.
Soliman, áður Jayne Campbell, var Bretlandsmeistari í frjálsum skautadansi árið 1989 og var þá talin sú sjöunda besta í heiminum.
Vinir og fjölskylda | Breytt 14.1.2009 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.1.2009 | 10:38
Saga af fíl og ungum dreng
Daníel Harper ólst upp í Suður Afríku. Hann ferðaðist víða um Afríkulönd með föður sínum sem var mikill áhugamaður um fiðrildi og safnaði þeim. Dag einn þegar Daníel var 11 ára var hann staddur við fljót í Rhodesíu þar sem nú heitir Zimbabwe. Þar sem hann gekk fram á fílskálf sem orðið hafði viðskila við hjörð sína. Kálfurinn var illa haldin þar sem hann lá út af við fljótið, því út úr hægri fæti hans stóð nokkuð stór tréflís.
Daníel tók vasahnífinn sinn og hóf að grafa flísina út úr fæti fílsins sem greinilega hafði setið þarna nokkurn tíma. Fílskálfurinn var greinilega of máttfarinn til að veita neina mótspyrnu, alla vega bærði hann varla á sér. Loks tóks Daniel að losa flísina og hreynsa sárið að mestu.
Þegar að Daníel hafði gert það sem hann gat settist hann niður við hlið kálfsins sem mændi á hann nokkra stund þar sem hann lá en lokaði svo augunum eins og hann vildi sofna.
Daginn eftir þegar Daníel vitjaði fílsins var hann horfinn.
Þegar Daníel Harper varð fullorðinn gerðist hann blaðaljósmyndari. Hann ferðaðist víða um lönd og tók myndir á átakasvæðum heimsins og komst oft í hann krappann. Þrítugur varð hann fyrir byssukúlu sem laskaði á honum hægri fótinn. Daníel náði sér að fullu en ákvað eftir það að taka sér frí og ferðaðist þá til Chicagoborgar í Bandaríkjunum.
Þar heimsótti hann hinn stóra og vinsæla dýragarð borgarinnar. Þegar hann kom að gerðinu þar sem fílarnir voru geymdir, tók einn þeirra strax á rás í áttina til hans. Þetta var fullorðin karlfíll sem lyfti rananum á hlaupunum og orgaði hátt. Þegar hann kom að sterklegu grindverkinu hóf hann að stappa niður hægri fæti og áfram gengu drunurnar út um ranann.
Daníel horfði á fílinn og hugsaði með sér hvort það gæti verið að þarna væri kominn fílskálfurinn sem hann hafði hjálpað fyrir næstum tuttugu árum áður inn í myrkviðum Afríku. Fíllinn hélt áfram að stappa niður hægri fæti, mæna á hann og baula eins og hann vildi segja honum eitthvað. Því lengur sem Daníel hugsaði um atvikið því sannfærðari varð hann. -
Að lokum stóðst Daníel ekki lengur mátið og tók undir sig stökk. Í einu vetfangi var hann kominn yfir girðinguna og nálgaðist nú fílinn alls óhræddur. Um leið og hann lenti hætti fíllin að öskra en teygði upp ranann eins og hann væri að heilsa gömlum vini. Daníel gekk að honum og fíllinn vafði rananum um mitti hans, hóf hann á loft og lamdi honum margsinnis af heljar-afli utan í grindverkið.
Í dag er uppáhalds fæða Daníels rauðrófusafi sem hann drekkur í gegnum sogrör á sjúkrahúsinu þar sem hann er vistaður.
10.1.2009 | 02:38
Rutka Laskier, rödd úr fortíðinni, Laila El-Haddad rödd dagsins í dag
Án þess að nokkur vissi af því hélt Rutka Laskier, 14 ára pólsk stúlka dagbók frá 24. Janúar til 24. Apríl 1943. Dagbókin er um sextíu síður og var ekki kynnt opinberlega fyrr en 2006.
Rudka bjó í Bedzin í Póllandi og var flutt í Ágúst mánuði það sama ár til Auschwitz þar sem hún og foreldrar hennar létu lífið í gasklefum Nazista.
6. Feb. 1943 skrifaði Rutka þetta;
Eitthvað hefur brotnað inn í mér. Þegar ég geng fram hjá þjóðverja, dregur allt sig saman inn í mér. Ég veit ekki hvort það er af ótta eða hatri. Mig langar að kvelja þá, konur þeirra og börn, þeirra sem sem slepptu hundum sínum á okkur, berja þá og kirkja þá af afli, smátt og smátt. Hvenær kemur sá dagur sem Nica talaði um..Það er eitt málið.
Annað málið er, að ég held að ég sé orðin að konu. Það þýðir að í gær þegar ég var að baða mig og vatnið lék um mig, þráði ég hendur einhvers að strjúka mér...Ég veit ekki hvað það var, ég hef aldrei fyrr haft slíkar tilfinningar...
...Oh, Ég gleymdi því mikilvægasta. Ég sá hermann rífa nokkra mánaða gamalt barn úr örmum móður þess og mola höfuð þess með að berja því upp við rafmagnsstaur. Heili barnsins slettist á viðinn. Móðurinn sturlaðist.
Laila El-Haddad er ung tveggja barna móðir sem bloggar þegar hún getur frá Gaza strönd þar sem hún er búsett.
9. Janúar 2009 skrifaði Laila þetta;
Fyrst hristist húsið, svo brotna gluggarnir og þá..óttinn..óttinn. Og þegar þú sérð öll þessi börn sem liggja á sjúkrahúsinu. Sum þeirra geta teiknað og það sem þau teikna er ótrúlegt.
Sex ára drengur sem býr í sama húsi og ég teiknaði mynd af dreng sem var lifandi og af öðrum sem var dáinn. Hann sagði að dáni drengurinn væri vinnur sinn sem Ísraelar hefðu drepið.
Feður geta ekki verndað börn sín. Mæður gera sitt besta til að láta ekki börnin sjá óttann.
Faðir minn sagði að í dag hefðu fleiri fluguritum verið dreift til að reyna að kúga íbúana sem þegar eru örþreyttir, soltnir og skelfdir.
"Til íbúa þessa svæðis. Vegna starfsemi hryðjuverkamanna í nágrenni við hús ykkar og sem beint er gegn Ísraelsríki verður Ísraelski Varnarherinn að grípa til tafarlausra aðgerða í grennd við íbúahverfi ykkar. ....Ykkur er skipað að yfirgefa svæðið þegar í stað. "
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.1.2009 | 17:03
"Won't somebody please think of the children?"
Það hlýtur að orka tvímælis að bjóða börnum virka þátttöku í mótmælafundum, jafnvel þeim sem ætlað er að vera friðsamlegir.
Engin veit hvenær átök kunna að brjótast út eins og nýleg dæmi sanna.
Þrátt fyrir augljósan ávinning þess að geta sýnt í "verki" að málið varði börnin líka, (sem er þekkt fyrirbæri til samúðar-öflunar í Bandaríkjunum og mörgum ríkjum Evrópu og ein þekktasta klysjan úr þáttunum um Simpson fjölskylduna er einmitt "Won't somebody please think of the children?" ) hefur notkun barna og ungmenna í pólitískum tilgangi á sér afar neikvætt yfirbragð enda hefur það einkum verið stundað í ráðstjórnar og einræðisríkjum.
Meðal þjóða þar sem þjóðfélagslegt róstur hefur orðið að vopnuðum átökum hafa börn, einkum á seinni tímum, verið óspart notuð til átaka.
Enska orðið yfir fótgönguliða "Infantry" er dregið af franska orðinu yfir barn. Tengining varð til vegna þess að yfirmenn vildu að fótgönguliðar þeirra væru undirgefnir og hlýddu boðum yfirmanna líkt og börn. Börn eru vissulega óvanari sjálfstæði og því tilleiðanlegri en fullorðið fólk.
Sameinuðu þjóðirnar áætla að rúmlega 200.000 börn undir fimmtán ára að aldri séu undir vopnum í heiminum í dag. Flest þeirra tilheyra uppreisnarhópum og vígasveitum líkum þeim sem finna má í Eþíópíu, Afganistan og Burma.
Víst er að þrettán ára drengur eða stúlka hefur ekki líkamakrafta á við fullorðin einstakling en þau hafa fullt vald á AK-47 og M-16 léttavopnum.
Það eru sem betur fer engar horfur á því um þessar mundir að þjóðfélagsólgan á Íslandi leiði til svipaðs ástands og gert hefur börn að hermönnum í öðrum löndum heimsins og því hægt að segja að ég máli þessa tengingu við notkun barns á friðsamlegum mótmælafundi, sterkum litum.
En því má svara á móti að í upphafi skyldi endirinn skoða.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
27.12.2008 | 14:59
Af kjölturökkum og frönskum flóm
Eftir sólrík Jól suður í Cornwall þar sem rjómi með smjörkekkjum er snæddur á jólum, ásamt hnausþykkum og dísætum ávaxtajólakökum, er ég kominn aftur heim og rétt að huga aðeins að blogginu aftur.
Ég þakka öllum þeim sem sendu mér jólakveðjur og sendi þeim bestu hátíðarkveðjur til baka.
Ég skemmti mér vel yfir jóladagana við lestur bókar sem fjallar um uppruna hugtaka, flestra enskra, en sum hver þó þekkt annarsstaðar, jafnvel á Íslandi.
Ég fann í bókinni og staldraði við skemmtilega umfjöllun um kjölturakka. (á ensku lapdog) Oft er talað um einhvern sem dekrað er við sem sem kjölturakka og einnig um þá sem láta stjórnast af öðrum þ.e. eru algjörlega í vasa einhvers.
En eins og oft áður fylgdi böggull skammrifi og það var ekki tekið út þrautalaust að vera kjölturakki.
Á miðöldum voru flær og lýs algengar óværur, svo algengar að háir jafnt sem láir þurftu að sætta sig óþægindin sem óværunni fylgdi. Hefðarfrúr margar áttu þá "kjölturakka", þ.e. einhverja tegund af smáhundi sem þær létu liggja í kjöltu sinni og jafnvel á nöktum lærum sínum. Óværan, sem geðjaðist betur að blóði húsdýra en manna, hraðaði sér þá yfir í feld rakkans og seinna þegar hann var settur út, tók hann lýsnar og flærnar með sér.
Þá er getið um þann einkennilega sið heldri manna í Frakklandi á sautjándu öld að ganga með um hálsinn í örlitlu búri, fló sem hann hafði fengið hjá ástmey sinni eða heitmey. Ól viðkomandi óværuna á blóði sínu með því að þrýsta smágjörðu búrinu að brjósti sér svo flóin næði að sjúga hann og blandast þannig blóðhans blóði ástmögur sinnar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)