Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Sagan af Jósef litla.

Fyrir skömmu birti ég jólasögu fyrir unglinga og nú er komið að börnunum. Sagan er skrifuð fyrir tvær litlar tátur á sínum tíma, en kannski hafa fleiri gaman að henni.

Ysta gistihúsið í bænum iðaði af mannlífi.  Ekki bara af kaupmönnum á leið til Jerúsalem, heldur fjölmörgum gestum sem flestir sögðust hafa búið í Betlehem í eina tíð eða aðra.

Það var komið kvöld og Jósef litli sat á tröppunum sem lágu upp á þak hússins og horfði á móður sína bera fram hvert fatið af öðru hlaðið ólífum, döðlum og brauði sem hvarf jafn hraðan ofaní glorsoltna ferðalangana. Í forgarðinum fyrir utan biðu eiginkonurnar í þéttum hóp ásamt börnum sínum og skröfuðu saman. Þær voru nýrisnar upp frá bænum og biðu nú þess óþreyjufullar að eiginmenn þeirra lykju sér af svo að þær gætu líka satt hungur sitt. Börnin stóðu álút og þreytt og einstaka kjökraði um leið og það togaði í yfirhöfn móður sinnar. Jósef hafði aldrei séð jafnmargt fólk á ferðinni fyrr og hann hafði heyrt pabba sinn segja að það ætti að vera í lögum að telja skyldi fólk á hverju ári því þá mundi hann ekki þurfa að kvarta yfir nokkrum sköpuðum hlut. Jósef skildi varla hvað pabbi hans átti við enda aðeins átta ára gamall. En svo hafði málið skýrst talsvert þegar að hann heyrði einn af ferðamönnunum hneykslast á keisaranum í Róm sem hét víst Ágústus og þeirri áráttu hans að vilja vita nákvæmlega hvað margir byggju í heiminum. "Hann gerir þetta bara til að vita betur hve mikið hann getur látið ónytjunginn Heródes skattleggja þjóðina" heyrði hann gestinn segja. Jósef hafði oft heyrt minnst á þennan Heródes. Hann var konungur Gyðinga, en mamma hans hafði samt sagt að Heródes gæti varla verið sannur konungur fyrst hann léti keisarann í Róm ráða yfir sér. Jósef horfði hugfanginn á allt fólkið og velti því fyrir sér hvort hann sjálfur ætti nokkurn tíma eftir að ferðast til ókunnugra staða.

Þegar að leið á kvöldið færðist smá saman ró yfir litla gistiheimilið og gesti þess. Eftir að konurnar og börnin höfðu borðað gekk hver og einn til sinnar úthlutuðu hvílu og matsalurinn var orðinn að risastórri flatsæng þar sem a.m.k. fjórar fjölskyldur sváfu. Jóel faðir Jósefs hafði gott lag á því að koma öllum fyrir og fáir kvörtuðu yfir þrengslunum. Til að nýta allt gistirými til fullnustu hafði hann búið um Jósef litla og móður hans upp á þaki gistihússins. Sjálfur sagðist hann ætla að sofa út við dyr forgarðsins því þannig kæmist enginn hvorki inn né út án þess að hann yrði þess var. Jósef fannst þetta svo spennandi að hann gat varla sofnað.

Stjörnubjartur himininn og svöl kvöldgolan hafði örvandi áhrif á hann. Móðir hans var aftur á móti varla lögst útaf þegar að hún var byrjuð að hrjóta. Jósef horfði upp í himininn og reyndi eftir megni að telja allar stjörnurnar sem hann sá. Allt í einu virtist honum sem ein stjarnan hreyfði sig. Út við sjóndeildarhringinn sá hann hvar ein af stjörnunum virtist sigla hraðbyri í áttina að honum. Gapandi af undrun stóð Jósef á fætur og horfði í forundran á það sem í fyrstu virtist aðeins lítill ljósdepill, verða að skínandi bjartri stjörnu sem honum fannst stöðugt nálgast. Hann var í þann mund að fara að vekja móður sína til að sýna henni þetta merkilega fyrirbæri og leita hjá henni skýringa þegar að hann heyrði að bankað var á dyr forgarðsins. Hann fylgdist með föður sínum rísa úr fletinu við dyrnar og opna. Inn í forgarðinn komu tvær manneskjur, kona sitjandi á asna og maður sem teymdi undir henni. Tal þeirra barst vel í kvöldkyrrðinni til hans;

"Afsakið hversu seint við erum á ferðinni, en við erum búin að leita okkur að gistingu í allt kvöld. Öll gistihús í bænum eru sögð full og þið eruð okkar seinasta von." Sagði maðurinn "Við erum komin alla leið frá Júdeu til að láta skrásetja okkur því hér er ég fæddur."

Jósef horfði á föður sinn klóra sér í höfðinu og  horfa vandræðalega á gestina. Skyndilega var eins og hann tæki ákvörðun, byrsti sig og setti hendurnar á mjaðmir sér eins og hann gerði alltaf þegar hann var að þrefa við kaupmennina um vöruverð á markaðstorginu.

"Heitmey þín segirðu, svo þið eruð ekki gift" spurði hann svo með þjósti.

"Hún er heitmey mín" endurtók maðurinn.

"Ja sveiattan" hrópaði faðir hans, "ekki skal mig undra þó ykkur hafi verið vísað á dyr alls staðar annarstaðar. Hvernig dirfist þú að ferðast um með þessa konu í þessu líka ástandi."

Faðir hans benti nú með vandlætingarsvip á konuna sem sat á asnanum. Jósef horfði á konuna og reyndi að gera sér grein fyrir hvað pabbi hans meinti. Hann sá ekkert óeðlilegt við hana annað en hún var svolítið feit.

"Nei" hélt faðir hans áfram, "þið fáið enga gistingu hér". Hann veifaði höndunum og pataði þangað til að gestirnir snéru aftur út um hliðið og lokaði því að baki þeirra.

Jósef fyldist með þeim þar sem hann stóð á þakinu og sá hvar þau stöldruðu við og maðurinn horfði í kringum sig. Konan virtist segja eitthvað við hann og skyndilega snéru þau aftur við og héldu í átt að fjárhúsinu sem byggt hafði verið utaná lítinn helli í fjallshlíðinni skammt frá gistihúsinu. Jósef sá hvar maðurinn leiddi asnann inn í fjárhúsið og skömmu seinna hvar ljósglætu, greinilega frá litlum olíulampa, lagði frá útihúsunum.  Jósef velti því fyrir sér hvort hann ætti að fara niður og vekja pabba sinn sem búinn var að hreiðra um sig aftur við forgarðsdyrnar, og segja honum að hinir óvelkomnu gestir væru búnir að koma sér fyrir í fjárhúsinu.

 Hann var svo til búinn að ákveða að gera það þegar að hann tók eftir því að stjarnan sem hann hafði séð hreyfast skömmu áður í áttina að sér, var nú komin á fleygiferð og stefndi rakleiðis að honum fannst í átt að sér. Hræðsluópið sem var á leið úr barka hans stoppaði í kokinu á honum því allt í einu staðnæmdist stjarnan, beint fyrir ofan fjárhúsin. Þó að Jósef væri aðeins átta ára og hefði aldrei gengið í skóla vissi hann að svona höguðu stjörnur sér ekki. Ósjálfrátt fylltist hann eftirvæntingu og óseðjandi forvitni og hann vissi að ekkert skipti máli annað en það að komast niður af þakinu og upp að fjárhúsinu því þar væru að gerast undur og stórmerki.

Hann læddist nú niður stigann, niður í dagstofuna, tipplaði á milli  umlandi gestanna sem  sváfu þar á gólfinu og smeygði sér inn í eldhúsið. Á eldhúsinu var lítill gluggi sem Jósef hafði oft leikið sér að að smjúga í gegnum. Það gerði hann því léttilega og áður en varði var hann kominn að fjárhúsinu. Hann var í þann mund að gægjast innfyrir, á milli gysinna viðarborðanna sem húsið var byggt úr, þegar að hann heyrði mannamál. Jósef snéri sér við og sá sér til mikillar undrunar hvar grillti í nokkra menn sem  komu hlaupandi niður fjallshlíðina í myrkrinu. Þeir báru langa stafi og af því vissi Jósef að þeir voru fjárhirðar.

Jósef var viss um að þeir væru þarna komnir til að reka konuna og manninn út úr fjárhúsunum. Þeir höfðu örugglega séð til ferða þeirra og hugsuðu þeim nú þegjandi þörfina. En þegar þeir komu nær sá hann að fjárhirðarnir voru alls ekki reiðir. Þeir voru brosandi og í stað þess að ryðjast inn í fjárhúsið, stóðu þeir eins og varðmenn við hrörlegar dyrnar og töluðust við í hljóði. Þeir virtust engu skeyta um Jósef sem þó var viss um að þeir hefðu séð sig.

Jósef snéri sér því aftur við og kíkti í gegnum rifuna. Í daufri skímunni frá litlum lampa sá hann hvar konan lá á bakinu og maðurinn bograði yfir henni með uppbrettar ermar. Á maganum á konunni var hvítur klútur. Kaldur sviti spratt út á enni Jósefs því honum sýndist maðurinn vera að gera eitthvað hræðilegt og andlit konunnar bar vott um að henni leið ekki vel. Ópið sem staðnæmst hafði í kokinu á honum nokkru fyrr var í þann mund að losna þegar að ennþá fleiri undur og stórmerki gerðust. Í eini svipan hélt maðurinn á barni. Barnið byrjaði að kjökra en þagnaði þegar það var lagt ofaná magann á konunni og hún vafði það í dúkinn sem lá ofaná henni. Gleðisvipur lék nú um andlit konunnar og maðurinn horfði hreykinn á bæði barn og móður. Þegar að hjarðsveinarnir heyrðu barnsgrátinn greip um sig á meðal þeirra mikill fögnuður. Þeir dönsuðu við hvern annan og hlógu. Brátt steig maðurinn út úr fjárhúsinu og bauð þeim að koma inn. Þeir stigu inn í fjárhúsið lotningarfullir og alvarlegir eins og þeir væru að fara inn í bænahús og Jósef sá hvar þeir krupu við jötuna þar sem konan hafði lagt barnið.

Jósef fylgdist með öllu þessu opin eygður og reyndi að átta sig á því sem var að gerast. En hann gat bara ekki fundið neinar  sennilegar  skýringar á öllu því sem hann hafði séð. Eins og til að rugla hann enn frekar í ríminu fannst honum nú sem hann heyrði bjölluhljóm. Augun ætluðu bókstaflega út úr höfðinu á honum þegar að út úr myrkrinu birtust þrír úlfaldar hver með sína bjöllu um hálsinn.

Reyndar hafði Jósef oft séð úlfalda áður, en aldrei hafði hann séð jafn tígulega búna menn eins og þá sem á baki þessum úlföldum riðu. Jósef varð samstundis ljóst að þetta hlutu að vera ákaflega tignir menn, jafnvel konungar. Um leið og þeir komu að fjárhúsinu létu þeir dýrin leggjast á framfæturna og stigu af baki. Hver um sig tók upp úr farangri sínum einhvern hlut sem var vafinn í dýrindis efni og síðan héldu þeir einn á eftir öðrum inn í fjárhúsið.

Í gegnum rifuna á fjárhúsinu sá Jósef hvar fjárhirðarnir viku fyrir mönnunum þremur sem krupu í þögulli lotningu fyrir framan jötuna og lögðu hlutina sem þeir höfðu tekið með sér til fóta barnsins. Eftir nokkra stund stóðu þeir upp og mæltu nokkur orð til konunnar á máli sem Jósef skildi ekki. Því næst komu þeir út og stigu á bak farskjótum sínum og riðu aftur út í myrkrið.

Jósef stóð agndofa og horfði á eftir þeim. Fljótlega komu fjárhirðarnir líka út og hurfu á braut upp fjallið þaðan sem þeir komu. Stjarnan sem skinið hafði skært yfir höfðum þeirra á, meðan að öllu þessu fór fram dofnaði smásaman og varð ein af óteljandi ljósdeplum á síðnæturhimninum.

Jósef var þess fullviss að eitthvað afar merkilegt var að gerast.  Myndi einhver nokkurn tíma geta skýrt öll þessi fyrirbæri fyrir honum. Mundu pabbi hans og mamma trúa einu orði af þessu öllu saman ef hann segði þeim frá því sem fyrir augu hans hafði borið? Jósef sá í gegnum rifuna að maðurinn og konan voru strax farin að búa sig til brottfarar. Mundi hann einhvern tíma komast að því hver þau væru. Og hvað með þetta barn sem Jósef var nú réttilega búinn að álykta að hann hefði séð fæðast. Mundi hann nokkurn tíma heyra frá því aftur.

Jósef snéri sér við og ákvað að halda aftur heim áður enn allir vöknuðu. Hann var varla búin að taka fyrsta skrefið þegar hann heyrði konuna inni í fjárhúsunum segja skýrt og greinilega: 

"Jósef minn, geturðu aðeins komið hérna".  

Jósef stirðnaði upp. Gat verið að konan hafi vitað af honum allan tímann og ekki bara vitað af honum heldur einnig hvað hann héti? Átti hann að svara.

"Jósef, ertu sofnaður" heyrði hann konuna segja aftur.

Hann var í þann mund að svara þegar að hann heyrði manninn segja:

"Nei María mín ég er ekki sofnaður, ég er bara að horfa á barnið og velta fyrir mér hvað við eigum að nefna hann".  

"Hann á að heita Jesús" svaraði konan.

Jósef litla var létt. Nei þau vissu ekkert af honum hugsaði hann. Eins og fætur toguðu hljóp hann til baka að litla gistihúsinu og áður en varði var hann kominn undir brekánið við hlið móður sinna upp á þakinu. Þegar að Jósef vaknaði seint um morguninn var hann ekki viss um hvort atburðir næturinnar hefðu í raun og veru gerst eða hvort hann hafði dreymt þá. Bæði móðir hans og faðir voru svo upptekin við að sinna gestunum sem margir voru á förum, að Jósef fann hvergi tækifæri til að segja þeim neitt um það sem hann taldi sig hafa séð.

Í raun var hann heldur ekki viss hvort hann ætti að segja þeim neitt. Hver mundi trúa að hann hefði séð stjörnu koma fljúgandi og staðnæmast fyrir ofan fjárhúsið, að hann hefði séð fjárhirða dansa af kæti um miðja nótt, að hann hefði séð konu fæða barn og mann taka á móti því, og hver mundi trúa að hann hefði séð þrjá konunga ríðandi á úlföldum koma með gjafir handa barninu. Nei, líklegast var best að þegja. Og svo var þetta kannski bara allt draumur.

Jósef greip brauðhleif úr eldhúsinu og hélt út á götuna fyrir framan litla gistihúsið. Fjöldi fólks streymdi hjá í báðar áttir. Hann settist niður við vatnsbrunninn skammt frá og horfði á iðandi mannfjöldann. Mitt í fjöldanum sá hann þá kunnuglega sjón.  Maður kom gangandi í áttina að honum, leiðandi asna og á asnanum sat kona sem hélt á reyfabarni. Jósef stóð upp og beið þar til þau voru komin alveg upp að honum. Jú ekki var um að villast, þetta voru þau. Brosandi gekk hann að konunni sem nú hafði greinilega komið auga á hann líka. Jósef rétti henni brauðhleifinn sinn þegjandi án þess þó að vita hversvegna. Konan tók brauðhleifinn og kinkaði til hans kolli. Og eins og fyrir tilviljun snéri hún barninu í fangi sér þannig að Jósef horfði nú beint í andlit þess. Um leið opnaði barnið augun og  geislandi bros þess leið Jósef aldrei úr minni.


Gervi-framtíð

Árið 2005 var haldin mikil sögusýning í Ameríska náttúrugripasafninu þar sem afrek Charles Darwins voru tíunduð og gerð góð skil. Dagbækur og áhöld Darwins voru þarna til sýnis en merkilegastur sýningargripa þótti skjaldbaka ein, sem höfð var í búri við útganginn á sýningunni.

galapagos-tortoiseSkjaldbakan  hafði verið flutt frá Galapagos eyjum sérstaklega fyrir sýninguna og það sem merkilegt þótti við hana var að hún var svo gömul að hún var nýfædd þegar að Darwin var á eyjunum við rannsóknir sínar.

Fjölmörg skólabörn sóttu sýninguna og af öllum sýningargripunum þótti þeim mest koma til skjaldbökunnar.

Í ljós kom að flest þeirra ályktuðu að skjaldbakan væri ekki ekta skjaldbaka heldur róbót. Skjaldbakan hreyfði sig lítið og þegar þeim var sagt að skjaldbakan væri raunverulega ekta eldgömul skjaldbaka, lýstu þau yfir furðu sinni. Hvers vegna að flytja gamla skjaldböku alla þessa leið til að loka hana inn í búri þar sem hún hreyfði sig lítið sem ekkert, þegar að líkan eða róbót hefði dugað jafn vel eða betur?

Aðalatriðið í sambandi við skjaldbökuna virtist gjörsamlega fara fram hjá þeim, eða að skjaldbakan hafði verið á lífi á sömu slóðum og Darwin gerði frumrannsóknir sínar sem leiddu til þess að ein mikilvægasta vísindalega kenning allra tíma, var sett fram.  

Það sem hreifir við mér í þessu sambandi er að það eru greinilega að alast upp kynslóðir víða í heiminum þar sem ekki skiptir máli hvort hlutirnir eru ekta eða gervi, svo fremi sem þeir komi að sama gagni. Hvers virði er að eitthvað sé lifandi ef eitthvað dautt  getur þjónað sama tilgangi?  

paro-robotic-healing-seal-1Þetta leiðir hugann að því hvernig í auknum mæli farið er að nota róbóta til að vera gæludýr fyrir gamalmenni og börn. Frægastur þessara róbóta er eflaust Paro, einskonar stóreygður selur sem bregst við augnahreyfingum eiganda síns og hvernig hann strýkur á vélselnum feldinn. Augnaráð vélselsins getur verið angurvært, samúðarfullt eða fullt óvissu. Um hann getur farið hrollur eða velsældar hrísl.  Náið samband við róbótana myndast auðveldlega og bæði börn og gamalmenni nota orðið ást yfir tilfinningar sínar gagnvart róbótunum.

Spurningin er hvað sú ást er sem byggist á einhliða tilfinningalífi og endurspeglun þess í vélrænum hlut.

simoneÍ kvikmyndinni Simone þar sem Al Pacino leikur kvikmyndastjóra sem er gefið forrit sem býr til svo eðlilega sýndarveruleika-persónur að ekki er hægt að sjá muninn á þeim og alvöru leikurum, er spunnið út frá sýndarveruleika-þemanu á all-sannfærandi hátt. Í myndinni tekst Al jafnvel að plata þúsundir sem koma til að sjá leikkonuna sem hann skapaði halda tónleika, þannig að allir halda að hún sé raunveruleg manneskja af holdi og blóði. Til þess beitir Al þrívíddatækni líkt og notuð er í Star Wars og fleiri kvikmyndummyndum við fjarskipti, sem reyndar er komin á það stig að það sem var vísindaskáldskapur í kvikmyndinni er orðið raunverulegt í dag. 

Betales VirtualMeð þessari tækni munu ýmsir draumar rætast sem áður voru óhugsanlegir. Það væri t.d. hægt að efna til hljómleika með Bítlunum þar sem þeir spiluðu sem þrívíddarpersónur. Mundi það breyta nokkru fyrir alla þá sem áttu þann draum heitastan að sjá þá spila saman einu sinni enn, og svo aftur og aftur og ....? 


Jólasaga fyrir unglinga

Það var fátt meira gaman þegar ég var ungur drengur en að halda jól með fjölskyldunni minni. Spenningurinn var stundum yfirþyrmandi. Jólafötin, jólaskórnir, jólamaturinn, jólatréð og bara allt var frábært.  En svo gerðist það, ég er ekki alveg viss hvenær eða hvernig, en að jólin hættu að vera....ja,  það sem þau höfðu verið. Ekkert virtist passa lengur, jólasálmarnir voru leiðinlegir, jólamessan óþolandi, Jólamaturinn svo "same old" og gjafirnar ekki nógu dýrar, allir eitthvað svo stressaðir og, og .....ég var orðin unglingur. Allt virtist vera miðað við yngstu krakkana (ég á 7 yngri systkini), ekkert fyrir unglinginn. Uhu.

Ég settist niður og reyndi að skrifa sögu fyrir unglinga. Hún var í þróun í nokkur ár og fékk sitt endanlega form einhvern tíman um 1990. Þegar ég las hana aftur um daginn þótti mér hún bera þess merki að vera samin á þremur áratugum. Hér er hún og hún heitir þrátt fyrir allt afar þjóðlegu nafni, eða;

Kerti og Spil

 

Það var aðfangadagur jóla. Húsið nötraði af urri frá ryksugu og hrærivéla-mótorum í bland við jólasálmana í útvarpinu. Þeir félagarnir Benni og Einsi sátu inni í herbergi Benna og hámuðu í sig Mackintosh og reyktu. Benni hafði stolið stórri dollu af þessu gómsæta gúmmulaði, frá mömmu sinni, fyrr um morguninn, úr skápnum í þvottahúsinu sem var úttroðinn af allskyns niðursuðudósum og sælgæti sem faðir hans hafði komið með heim úr síðustu siglingu. Samkvæmt mömmu Benna átti allt sem í skápnum var að borðast á jólunum. Alla vega var það viðkvæðið, þegar Benni bað um
eitthvað úr skápnum. Jæja jólin voru hvort eð er svo til komin, hugsaði Benni um leið og hann stakk dolluni inn á sig og laumaðist með hana inn í herbergið. Skömmu síðar birtist svo Einsi. Heima hjá honum var allt á öðrum endanum, og ástandið öllu verra en venjulega því allir gríslingarnir, bræður hans og systur voru inni og létu eins og sérþjálfaðir terroristar um alla íbúðina á meðan mamma hans reyndi án árangurs að hirða upp eftir þau draslið. Einsi var því dauðfeginn að komast yfir til Benna, sem átti sitt eigið herbergi þar sem þeir gátu reykt í friði og spjallað saman. Einsi og Benni voru vinir, og höfðu lagt lag sitt saman frá því að þeir mundu eftir sér. Fyrstu árin áttu þeir heima í sömu blokk, en svo fluttu foreldrar Benna í einbýlishús og nú þegar þeir voru komnir vel á fimmtánda ár duldist hvorugum hversu mikill munur var í raun og veru á högum þeirra, þó þeir mættu ekki hvor af öðrum sjá í öllum frístundum. Ef þeir hefðu verið að hittast núna í fyrsta sinn hefðu þeir áreiðanlega ekki orðið eins góðir vinir og raunin var á. Á meðan að foreldrar Einsa bjuggu enn við ómegð og fátækt í lítilli blokkaríbúð, höfðu foreldrar Benna efnast. Þau höfðu efni á því að senda einkason sinn í einkaskóla samtímis því að Einsi gekk í sinn hverfisskóla. Benni fékk úthlutað vasapeninga vikulega, Einsi átti aldrei aur. Samt var smekkur þeirra í klæðaburði og tónlist áþekkur, því báðir voru þeir eins pönkaðir og þeir þorðu að vera án þess að eiga það á hættu að gert væri að þeim gys. Þeir hlustuðu báðir aðeins á þungarokk og gáfu skít í allt sem hét hipphopp, house eða rapp. Reyndar var það stórfurðulegt, þegar tillit er tekið til þess hve ákaft þeir reyndu að árétta sjálfstæði sitt með klæðaburði sínum og töktum, hversu ákaflega líkir þeir voru öðrum unglingum á sama reki.

En þarna sátu þeir sem sagt, með gúlana fulla af gotti og reyktu úr Camel pakkanum hans Einars. Þrátt fyrir öll blankheitin, æxluðust mál einhvernvegin alltaf á þann veg að það var Einsi sem alltaf átti fyrir sígarettum. Báðir voru þeir orðnir of gamlir, eða of cool, til að sýna óþreyju eftir að jólahátíðin gengi í garð. Báðir búnir að tapa hinni barnslegu eftirvæntingu, sem bundin er við góðan mat , falleg ný föt,og
fjölmarga litskrúðuga pakka sem komið er fyrir undir upplýstu jólatré. "Veistu hvað þú færð frá þeim gömlu?" spurði Einsi um leið og hann lokaði Sippónum og reyndi um leið að gera hringi. "Blessaður, það verður eitthvað ferlega ömurlegt eins og venjulega. Einhver helvítis jogginggalli eða eitthvað álíka hálfvitalegt" svaraði Benni. "Ég þoli ekki mjúka pakka" sagði Einsi. "Á öllum jólum sem ég man, hef ég ekki fengið annað en ógeðslega mjúka pakka, nema þegar ég fékk smokka-pakkann frá þér í fyrra."
"Þeir hafa nú kannski orðið mjúkir á endanum" svaraði Benni og glotti. Einsi fattaði ekki brandarann strax, en svo fór hann allt í einu að hlægja, þessum einkennilega hlátri sem mútur á byrjunarstigi valda, hann hljómar eins og verið sé að starta Skóda í fimmtán stiga gaddi. Þeir héldu áfram að masa um ömurlegar jólagjafir sem þeir höfðu fengið í gegnum árin og gerðu að þeim óspart grín. Tíminn leið, Mackintosh dósin tæmdist og sígarettu reykurinn varð þéttari í herberginu. Klukkan var farin að ganga sex þegar allt í einu var bankað á herbergishurðina og hún síðan opnuð. Í gættinni birtist andlit móður Benna . "Benni minn, ætlarðu ekki að fara að klæða þig fyrir matinn? Þarf Einar ekki að fara að tygja
sig heim? Voðaleg reykingafýla er þetta. Opnið nú glugga strákar." Svo steig hún inn í herbergið og byrjaði að bjástra við að opna gluggann sjálf. Einsi greip leðurjakkann sinn og stóð á fætur. "Ég sé þig á morgun, hringdu í mig í kvöld og segðu mér hvað þú fékkst." Svo drap hann í sígarettunni, krumpaði tóman pakkann og henti honum í barmafullan öskubakkann. Aldrei þessu vant, fylgdi Benni vini sínum nú til dyra, og horfði um stund á eftir honum út í létta snjódrífuna. Helvíti, hugsaði hann með sér, ég gleymdi að kaupa handa honum jólagjöf, jæja ég geri það bara seinna. Aðfangadagskvöld gekk í garð á heimili Benna með kalkúnilm og grenilykt um allt húsið, jólamessu á sjónvarpsskerminum , uppljómaða stofu og veglega skreytt jólatré í henni miðri, sem samt varla sást í fyrir pakkahrúgu sem bókstaflega flaut út um allt stofugólfið. Þegar búið var að troða því næst ósnertum kalkúninum inn í ísskáp ásamt
megninu af fjölbreyttu beðlæti. og setja óhreina diska og föt í uppþvottavélina, réðust Benni og foreldrar hans á pakkahrúguna. Þau rifu upp pakkana einn af öðrum og stöfluðu innihaldi þeirra við hlið sér. Móðirin hafði orð á því að þau þyrftu að hraða sér, því von væri á foreldrum hennar í stutta heimsókn ásamt honum Þórði móðurbróður hennar, sem dúkkað hafði skyndilega upp á heimili gömlu hjónanna og gert sig líklegan til að dveljast hjá þeim um jólin. Benni hafði aldrei hitt þennan Þórð,
aðeins heyrt af honum einhverjar furðu sögur sagðar í hvíslingum. Benni velti því fyrir sér hversvegna fólk talaði alltaf í hvíslingum þegar það ræddi um fólk sem var veikt eða skrítið. "Hann er svo undarlegur í háttum hann Þórður" heyrði Benni móður sína eitt sinn hvísla," að ég held að engin kona hafi þýðst hann".
 
Benni var í óða önn að flytja góssið sem hann fékk í jólagjöf úr stofunni inn í herbergið sitt, þegar að dyrabjallan glumdi. Benni fór til dyra en varð svo að hörfa aftur inn í forstofuna því gangurinn fyllist af jólapökkum sem móðir hans og faðir hófu strax að ferja inn í stofuna. "Gleðileg jól öll," söng amma hans og svo tóku við faðmlög og varalitur á báðar kinnar. Aðeins Þórður stóð í fordyrinu, án þess að segja orð og beið eftir því að sér yrði boðið inn. Hann var teinréttur örugglega tveggja metra hár, með brúnan flókahatt á höfði og í síðum brúnum frakka. Benni kinkaði til hans kolli og forðaði sér svo aftur inn í stofuna. Hann beið eftir að masandi fólkið kæmi á eftir honum en það gerðist ekki í bráð. Aðeins Þórður birtist í stofudyrunum. Benni gaut til hans augunum og velti því fyrir sér hvort maðurinn væri vangefinn eða bara undarlegur. Þórður sem hvorki hafði farið úr frakkanum eða skónum né tekið af sér hattinn. Hann stóð bara og starði um stund á Benna. Benni tók eftir því hvernig snjórinn á skóm Þórðar bráðnaði og lak ofan í þykkt ullarteppið á stofunni. "Hann er stórskrýtinn hugsaði Benni. "Þú munt vera Benedikt" sagði Þórður allt í einu. Benni hrökk næstum því í kút. Rödd Þórðar var svo rám og djúp að hún minnti Benna helst á röddina í Axel Rose þegar hann spilaði plöturnar hans hægt aftur á bak í leit að földum skilaboðum. "Já ég er Benni" svaraði hann svo. " Ég heiti Þórður Sumarliðason og er bróðir hennar ömmu þinnar, komdu sæll Benedikt" rumdi í kallinum um leið og hann steig inn í stofuna í átt að Benna með útrétta hendi. Benni sem ætlaði að fara að heilsa Þórði þrátt fyrir að honum væri brugðið, kippti að sér hendinni ósjálfrátt þegar hann sá hendi Þórðar. Hún var náhvít og þakin einhverju ókennilegu hreistri. Þórður tók auðvitað eftir viðbrögðum Benna, því hann dró að sér höndina og settist um leið niður á stól við hlið hans tók niður hattinn og sagði. "Fyrirgefðu, ég gleymi alltaf þessu árans exemi, en það er víst ekki smitandi". Benni horfði forviða á Þórð, því undan hattinum kom í ljós þykkt grátt og sítt hár sem bundið var í tagl í hnakkanum. "Þetta er sannarlega furðulegur fýr" hugsaði Benni en þorði ekki að segja neitt. Ómurinn frá samræðum ömmu hans og afa við foreldra hans barst nú fram af ganginum og að herbergi Benna. Ömmunni var víst nóg boðið við að sjá kjaftfullan öskubakkann á borðinu í herbergi hans, því hún kom nú ásamt hinum býsnandi inn í stofuna. Um leið og hún birtist stóð Þórður á fætur og sagði með dunandi hárri röddu sem fékk alla til að þagna. " Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil. Sú var nú tíðin að það þóttu ágætar gjafir. Nú þykja ekkert gjafir nema þær séu tugþúsunda virði, gerðar úr plasti og hægt sé að stinga þeim í samband. Aldrei hafa jólin verið eins vel upplýst og á heimilunum nú til dags og samt hefur aldrei fyrr ríkt á þeim jafn mikið myrkur og nú."Þegar Þórður þagnaði, settist hann aftur niður og horfði spekingslega út í loftið. Eldra fólkið starði á hann agndofa eins og það væri að bíða eftir einhverju meiru, en ekkert kom. Benni heyrði svo afa sinn pískra eitthvað um að nú væri sér nóg boðið og ömmu sína þagga niður í honum og hefja síðan aftur taut sitt um óhollustu reykinga.


Benni ákvað að hringja í Einsa og brá sér í símann. Ásta elsta systir Einsa svaraði.
Halló.
Hæ Ásta, er Einsi heima spurði Benni.
Í símanum varð vandræðaleg þögn.
Þetta er Benni, má ég tala við Einsa ítrekaði Benni.
Heyrðu Benni, veistu ekki hvað kom fyrir, veistu ekki að Einar er á spítala? svaraði Ásta.
Á spítala, hváði Benni vantrúaður. Hvað er hann að gera á spítala?
Hann lenti undir bíl á leiðinni frá þér. Læknarnir segja að hann sé með brotinn hrygg, þeir segja að.....
Hvaða helvítis lygi er þetta í þér Ásta, leyfðu mér að tala við Einsa eða þú skalt hafa verra af, nördið þitt, hrópaði Benni í síman.
Ég er að segja þér alveg satt, heyrði hann Ástu segja sem var nú byrjuð að vola. Mamma og pappi eru bæði á sjúkrahúsinu og ég er ein hérna heima
með krakkana. Ég skal biðja mömmu um að hringja í þig þegar þau koma heim.
Bless.
Benni lagði tólið á og horfði stjarfur fram fyrir sig. Án þess að segja orðvið masandi fólkið í stofunni fór hann inn í herbergið sitt, rótaði í öskubakkanum þar til hann fann stóran stubb sem hann kveikti síðan í. Hann tók ekki eftir Þórði sem hafði staðið upp úr stól sínum og komið á eftir honum. Í annarri hendinni hélt Þórður á litlum pakka sem vafin var inn í brúnan umbúðapappír. Þennan pakka lagði Þórður á borðið í herbergi Benna og sagði svo um leið og hann fór út.

Handa þér drengur minn, handa þér.
Benni horfði orðlaus á eftir Þórði og brátt heyrði hann ömmu sína og Afakveðja. Brátt voru þau á braut og Þórður með þeim. Nokkrum mínútum síðar kom mamma hans inn til hans.

Þú varst ekki mikið að kveðja afa þinn og ömmu, eða þakka þeim fyrir allar gjafirnar, lét hún móðinn mása. Svo rak hún augun í pakkan á skrifborðinu og spurði.

Hvaða pakki er þetta, ekki kom Þórður með þetta?
Benni leit upp og svaraði: Mamma, Einsi lenti í bílslysi í kvöld þegar hann fór frá okkur. Hann liggur á sjúkrahúsi. Ásta sagði að hann væri með brotinn hrygg.
Hvað segirðu barn, með brotinn hrygg. Þetta er hræðilegt, að lenda í bílslysi á sjálfum jólunum. Það á ekki af þessari fjölskyldu að ganga,
eitt eftir annað, hvílíkt ólán.

Meira heyrði Benni ekki af því sem móðir hans sagði, því síminn hringdi og hann þaut upp til að svara honum. Í símanum var móðir Einsa sem með mæðulegri röddu staðfesti allt sem Ásta hafði sagt honum, og upplýsti jafnframt að Einsi væri á gjörgæslu og berðist nú fyrir lífi sínu. Að símtalinu loknu fór Benni aftur inn til sín og læsti að sér. Hann lét nýja geisladiskinn á geislaspilarann sinn og lagðist upp í rúmið sitt. Einhvern tímann seint um nóttina sofnaði hann loksins og svaf langt fram á jóladag. Þegar hann vaknaði aftur var gjöfin frá Þórði gamla það fyrsta sem hann rak augun í. Hann reis upp við dogg og teygði sig eftir pakkanum og reif hann upp. Í ljós kom hvítur kertisstúfur og gamall og lúinn
spilastokkur. Hann brosti með sjálfum sér að þessum einföldu munum, en mundi svo eftir Einsa og hentist á fætur og í símann. Það var móðir Einsa sem svaraði.

Nei, ekkert nýtt að frétta, nema að myndataka staðfesti að hann væri mænuskaddaður og að hann lægi enn á gjörgæslu.

Benni lagði á og fór inn í eldhús til að fá sér Chereeos. Foreldrar hans voru ekki heima, líklega farin til kirkju. Hann kveikti á sjónvarpinu, en slökkti fljótt á því aftur. Honum datt í hug að hringja í einhverja félaga sína en kom sér ekki til þess. Loks ákvað hann að reyna að taka til í herberginu sínu og
koma einhverju af nýja dótinu sem hann hafði fengið í jólagjöf, fyrir. En honum varð ekkert úr verki, svo hann settist niður á gólfið, reif upp spilastokkinn sem hann hafði fengið frá Þórði og ætlaði að fara leggja þennan eina kapal sem hann kunni. Um leið og hann náði spila-stokknum úr, kom í ljós samanbrotið bréf. Hann fletti bréfinu í sundur og las. Hann las bréfið þrisvar yfir áður en hann áttaði sig á innihaldi þess, þó það væri ritað með skýrri skrift. Þegar hann loks skildi bréfið, lá við að
hann færi að skellihlæja. Hvílíkt bull. Þessi Þórður var sko alveg snargeggjaður ef hann hélt að einhver tæki þessa vitleysu alvarlega. Samt greip hann bréfið aftur sem hann hafði krumpað saman í vantrú, og las það í fjórða sinn.
Kæri Benedikt.
Ég veit að þér þykir eflaust lítið til gjafar minnar koma í samanburði við allar hinar sem ég er vissum að þú færð. Samt er hún í höndum þess sem með hana kann að fara ómetanlega verðmæt. Bæði kertið og spilin eru æfa forn og þeim fylgir undra náttúra sem ég kann ekki að skýra. Ég get aðeins sagt
þér hvernig hún virkar. Náttúra kertisins er sú að hver sem horfir í loga þess, læknast af öllum sjúkleika hversu alvarlegur sem hann kann að vera. Spilin eru þess eðlis að ef þú leggur þau í hring fyrir einhvern, eða með einhvern í huga, segja þau nákvæmlega til um æfi þess hins sama. Þeir
annmarkar eru á ofureðli beggja að þau er aðeins hægt að nota einu sinni á hálfrar aldar fresti. Um þessar mundir eru rúmlega fimmtíu ár síðan gripirnir voru notaðir síðast. Þá sá ég fyrir í spilunum framtíð mína og hver átti að fá þessa gripi næst og hvenær.

Vertu sæll Benedikt.
Þórður Sumarliðason.

Þrátt fyrir hversu fáránlegt innihald bréfsins virtist Benna, fann hann hjá sér ómótstæðilega löngun til að sannreyna það. Ef til vill voru það kringumstæðurnar. Var það algjör tilviljun að hann fékk þessa gjöf
nákvæmlega þegar hann þurfti svo sannarlega á henni að halda, ef að allt reyndist rétt sem karlinn hafði skrifað. Úr huga hans hvarf aldrei hugsunin um að á sjúkrahúsi lá besti vinur hans fyrir dauðanum. Svo hafði Þórður verið svo dularfullur. Hvað um það hugsaði Benni, það var svo
sem nógu auðvelt að sannreyna spilin. Hann hugsaði málið augnablik, tók svo ákvörðun og lagði spilin í stóran hring á gólfið. Hann var varla búinn að sleppa síðasta spilinu, þegar sitthvað fór að gerast og svo hratt að hann varð að hafa sig allan við til að geta fylgst með. Á einhvern
undursamlegan hátt lyftust spilin frá gólfinu og í hverju spili sá Benni svipmynd úr lífi Einsa. Hann sá hvernig móðir Einsa rembdist við að koma honum í heiminn, hvernig hann skreið um skítugt eldhúsgólfið í blokkinni heima hjá sér, hvernig hann át sand úr sandkössum dagheimilisins, skítugur
og með hor í nefinu. Hann fylgdist með hvernig Einsi stækkaði og hvar hann hljóp um göturnar klæddur í föt af systkinum sínum, stundum jafnvel af Ástu, og loks sá hann sjálfan sig kynnast Einsa í barnaskóla. Benna varð allt í einu ljóst hversu mikið Einsi þurfti að hafa fyrir hlutum sem honum
sjálfum þóttu auðveldir. Hann sá að Einsi byrjaði snemma að stela peningum, hvar sem hann gat, til þess að endrum og eins þóttst geta splæst, og hvernig hann smá saman sætti sig við að hafa minna úr að moða en flestir kunningjar hans, að ekki sé minnst á Benna sjálfan. Að lokum sá hann Einsa
hlaupa út frá sér kvöldið áður, of seinan til að taka strætó, of blankan til að taka leigubíl, of stoltan til að biðja um að sér yrði ekið. Hann sá Einsa hverfa undir grænan upphækkaðan Cheroky jeppa og hvernig sippóinn hans þeyttist inn í húsgarð hinumegin við götuna og hverfa þar í skafl.
Síðasta spilið sýndi aðeins gráa móðu. Svo féllu spilin niður á gólfið í eina hrúgu.
Benni sat á gólfinu og nötraði allur af geðshræringu. Hann var lengi að jafna sig, en varð á sama tíma ljóst hvað hann varð að gera. Eftir nokkra stund klæddi hann sig í flýti, stakk kertinu í vasann á leðurjakkanum og hraðaði sér út. Það var jóladagur og enga strætisvagna að fá. Benni hljóp við fót og
stefndi í átt að Borgarsjúkrahúsinu. Móður og másandi hratt hann upp hurðinni á bráðamóttökunni. Bak við öryggisglerjað afgreiðsluborð sat sloppklædd kona sem mændi á hann ósamúðarfullum augum. Benni reyndi að útskýra í fljótheitum að hann þyrfti nauðsynlega að hitta vin sinn sem lægi
fyrir dauðanum á gjörgæsludeild og hann ætlaði að hjálpa honum. Afgreiðslukonan blikkaði bara augunum og hristi höfuðið. Nei, það kom ekki til greina að hún hleypti honum inn þangað sem Benni lá. Jafnvel foreldrar drengsins sagði hún höfðu aðeins fengið að líta til hans augnablik
í fylgd með lækni. Benna varð fljótt ljóst að þessari kjellu yrði ekki haggað. Hann var í þann mund að yfirgefa móttökuna, þegar að maður í hvítum slopp birtist fyrir innan afgreiðsluborðið og sagði eitthvað við afgreiðslukonuna sem Benni heyrði ekki vegna öryggisglersins. Eitthvað í
fari mannsins fannst honum samt kunnuglegt. Hann sá afgreiðslustúlkuna kinka kolli til mannsins, og kalla síðan til hans. "Heyrðu þarna drengur, læknirinn segir að það sé óhætt að þú komir inn fyrir
í nokkrar mínútur." Svo þrýsti hún á hnapp sem staðsettur var úr sjónmáli og dyrnar að bráðadeildinni opnuðust. Benni var ekki lengi að skjótast inn fyrir þar sem hann bjóst við að hitta lækninn. En hann var hvergi sjáanlegur. Benni hafði tekið eftir því á töflu í anddyrinu að gjörgæslan var á annarri
hæð sjúkrahússins. Í stað þess að bíða eftir lækninum ákvað hann að halda þangað á eigin spýtur. Hann fann fljótt stiga sem lá upp á aðra hæð og síðan dyr sem á stóð Gjörgæsla. Benni flengdi upp dyrunum og skaust inn á gjörgæsluganginn, beint í flasið á holdugri hjúkrunarkonu sem riðaði við
og hefði eflaust dottið á afturendann ef Benni hefði ekki náð að grípa hana. "Hvað ert þú að vilja hér ungi maður," spurði hjúkkan og togaði niður sloppinn sem eitthvað hafði aflagast við áreksturinn. Benna kom ekkert til hugar sem hljómað gæti sennilega í eyrum hjúkkunnar svo hann lét reyna á
hálfan sannleikann. Hann fálmaði eftir kertisstúfnum og sýndi hjúkkunni og sagði. " Það eru jól, og vinur minn liggur hér fyrir dauðanum. Hann lenti í bílslysi í gær og ég verð að fá að hitta hann. Ég ætla að kveikja á þessu kerti fyrir hann og..." Konan brosti nú við Benna og sagði svo góðlátlega. Jæja góði, fylgdu mér þá og ég skal sýna þér hvar hann liggur. Konan gekk rösklega inn ganginn og Benni á eftir. Innan nokkurra sekúndna stóð Benni við rúm vinar síns, þar sem hann lá með lokuð augun og andaði óreglulega. "Kveiktu þá á kertinu vinur" sagði hjúkkan, og svo skulum við bara koma. Ég skal svo líta eftir því. " En hann verður að sjá logann svaraði Benni svolítið annars hugar en áttaði sig svo og bætti við. "Ég á við að mér finnst eins og hann viti af mér hérna en geti bara ekki opnað augun hjálparlaust. Getur þú ekki fengið hann til að opna þau, þó ekki væri nema augnablik" Hjúkkan virtist klökkna
við viðkvæmi Benna, því nú teygði hún sig yfir Einar og opnaði augnalok hans með þumlunum. Samtímis kveikti Benni á kertinu. Kertisloginn flökti og Benni tók eftir því hvernig hann speglaðist dauflega í sjáöldrum Einsa. "Jæja, þá er þessu lokið" sagði hjúkkan og gerði sig líklega til að fara.
Hún lagði höndina á öxl Benna eins og til að stýra honum út. "Má ég ekki sitja stundarkorn hérna einsamall við hlið hans" Konan kinkaði kolli, og fór út. Benni settist niður á stól sem stól við
hliðina á rúminu og hugsaði með sér. Þannig var þetta þá, aðeins spilin virkuðu, kertið var greinilega gagnlaust. En svo tók hann eftir því að Einsi hreyfði fæturna. Benni stóð upp og
leit framan í vin sinn. Einsi opnaði augun, leit á Benna og sagði: "Hvar er ég". Það tók Benna aðeins nokkur augnablik að útskýra í stórum dráttum fyrir Einsa hvað hafði gerst, á meðan Einsi starði á hann gapandi. Þegar Benni þagnaði, leit Einsi í kring um sig og spurði. "Hvar eru fötin mín. " Svo
stökk hann á fætur og fór að leita að þeim. Auðvitað voru engin föt í herberginu, svo þeir ákváðu að fara fram á gang. Fyrir þeim vakti fyrst og fremst að komast út, án þess að þurfa að útskýra hvað gerst hafði. Það var alltof ótrúlegt hvort sem var, og læknarnir mundu örugglega vilja halda
Einsa á sjúkrahúsinu öll jólin, bara til að rannsaka hvað gæti hafa gerst. Einar var bara klæddur í þunnan slopp sem opin var að aftan. Þeir komust klakklaust út af gjörgæsludeildinni og voru í þann mund að leggja af stað niður stigann, þegar stór brúnn frakki kom svífandi niður stigaopið. Benni
leit upp fyrir sig og sá hvar maðurinn í hvíta sloppnum sem hann hafði séð niðri í móttökunni nokkru fyrr, stóð fyrir ofan þá og brosti. Svo snéri hann sér við og Benni sá í hendingu að hann var með sítt grátt hár, bundið í tagl í hnakkanum.


Einsi var ekki seinn að koma sér í frakkann á hlaupunum. Áður en varði voru þeir komnir niður á fyrstu hæð og þeir stefndu beint á dyr sem merktar voru Neyðarútgangur. Þeir spyrntu hurðinni upp og hlupu út í snjóinn sem þyrlaðist upp undan fótum þeirra. "Hvert erum við að fara, ég drepst úr kulda á löppunum ef ég fæ ekki skó" hrópaði Einsi móður af hlaupunum. " Eigum við ekki bara að koma heim til mín," hrópaði Benni á móti," við getum spilað póker ef þú nennir, ég fékk þessi fínu spil í jólagjöf".

 


Rúnar Júlíusson - Kveðja

Það þekktu allir Rúnar í Keflavík, ekki bara í sjón, heldur af viðkynnum. Hann var og verður í hugum landsmanna um einhverja ókomna tíð, holdgerfingur alls þess sem var og er Keflvískt. Hann talað Keflvísku, hafði Keflvíska útlitið, Keflvíska kúlið eins og það er kallað í dag eftir að "töffið" varð eitthvað súrt og hann hafði Keflvísku taktanna í tónlistinni. Er nokkur furða þótt hann hafi verið fúll þegar að nafninu á bæjarfélaginu var breytt í Reykjanesbær. Myndirnar tala.......og texti lagsins.


Smá aðventu-jólablogg

Musteri SaturnusarEins og allir vita eru jólin haldin til að minnast fæðingar Jesú Krists. Flestir vita líka að ekki er vitað hvenær ársins nákvæmlega Kristur fæddist. Þess er hvergi getið í Nýja testamentinu né í öðrum heimildum. Talið er að frumkristnir hafi ekki haldið upp á fæðingardag frelsarans með nokkrum hætti. Hinsvegar voru í ýmsum löndum á þeim tíma er Kristni var að breiðast út, haldnar hátíðir í desember og í janúar sem áttu uppruna sinn að rekja til ýmissa fornra trúarbragða austurlanda. Þeirra stærst og útbreiddust var án efa sólstöðuhátíðin 25. des. sem Rómverjar héldu upp á og kölluðu Saturnalíu og var haldin til heiðurs Satúrnusi, landbúnaðarguði þeirra.

Reyndar bera sólstöður á vetri að meðaltali upp á 21. des, en samt sem áður náðu hátíðarhöldin í sambandi við daginn hápunkti sínum þann 25 des. Sólstöður eru þegar sól er lengst í norður eða suður frá miðbaug og dagurinn þá annaðhvort stystur eða lengstur. Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur á norðurhveli. Rómverjar til forna, gerðu 25. des að þjóðhátíðardegi sínum og kölluðu hann fæðingardag hinnar ósigrandi sólar. Var þá mikið um dýrðir, sungið dansað og drukkið, ekki ósvipað og við gerum nú á jólum.

Á sama tíma var líka haldin hátíð í bæ sem var kölluð Juvenalaía. Hún var fyrst og fremst tileinkuð ungviði Rómverja, börnunum. Þriðja hátíðin sem einkum efri stéttar Rómverjar héldu upp á á þessari mestu hátíðaönn ársins, var afmælisdagur guðsins Mithra sem var sólguð og barnguð, var fæddur af steini þann 25. des.

Júlíus l PáfiEkki er ólíklegt að kirkjufeðurnir hafi á fjórðu öld komið sér saman um að yfirtaka hin fornu blót og gera þau að kristilegum hátíðum og auka þannig líkurnar á að fólk tæki kristna trú. Alla vega var það Júlíus páfi fyrsti sem ákvað að þann 25. des skyldi haldinn hátíðlegur fæðingardagur frelsarans. Þetta reyndist snjallræði fyrir kirkjuna því Kristur hafði þá hvort eð er tekið á sig nokkuð svipaða mynd og þeir Guðir höfðu, sem hinir heiðnu tilbáðu. Fyrst voru jólin kölluð "fæðingarhátíð" en ekki Kristsmessa og sem slík bárust þau skjótt um álfur. Árið 432 var fæðingarhátíðin upptekin í Egyptalandi og til Englands barst hún í lok sjöttu aldar.

Norrænir menn héldu einnig sína vetrarsólstöðuhátíð og blótuðu þá bæði Þór og Óðin og héldu miklar veislur sem kenndar voru við jólagleði. Á tímabili var hátíðin bönnuð af hinu kirkjulega valdi vegna óspekta og ofáts sem á henni viðgekkst. Í lok áttundu aldar var farið að kenna hina fornu blótahátíð Jólanna á Norðurlöndum við Kristsmessu en gamla nafnið Jól fékk að halda sér.

jolahafurMargir þeirra siða sem enn eru í heiðri hafðir í jólahaldi norrænna manna má rekja beint til blótanna til forna. Nægir í því sambandi að nefna jólahafurinn sem útbúin er úr stráum bæði í Svíþjóð og Noregi sem sérstakt jólatákn. Þá er í raun verið að gera eftirmynd af hafri Þórs. Í meðförum geitarfárra Íslendinga varð hafurinn að ketti, eða hinum íslenska jólavargi, jólakettinum.

Segja má að jólin hafi í þau rétt 1500 ár sem um þau getur í heimildum verið í stöðugri þróun. Á stundum lagðist hið kirkjulega vald gegn þeim og reyndi að banna þau, en á öðrum tímum hafa þau notið fylgis þess jafnt sem allrar alþýðu. Jólum er fagnað á mismunandi vegu í hverju landi og jólasiðir margir og mismunandi.

Bæði gríska og rússneska rétttrúnaðarkirkjan halda upp á fæðingarhátíð Krists 13 dögum eftir 25. desember eða 7. Janúar og halda sig þannig við gamla Júlíanska dagatalið.

jolakotturÍslendingar halda einir þjóða upp á jól í 13 daga og fara þannig beggja bil og halda í heiðri að hluta til siðum þeirra sem fara eftir gamla Júlíansaka dagatalinu og því sem flestar vestrænar þjóðir nota, hinu Gregoríska. En eins og fólk rekur eflaust minni til var það Gregoríus Páfi þrettándi, sem bjó til þrettándann okkar með því að gera leiðréttingu á Júlíanska dagtalinu þann 24. febrúar árið 1582 og færði árið fram um 13 daga.

Jólasveinninn

Eitt helstamerki þess nú til dags um að jólin séu að nálgast, er að sjá jólasveina á stjái. Margt hefur verið um jólasveininn sagt og fjallað síðustu áratugina, en fæst af því sannleikanum samkvæmt.  Heilu kvikmyndirnar hafa verið framleiddar og sýningar uppfærðar þar sem persóna hans hefur verið notuð á frekar óprúttinn hátt. Fyrirtæki sem eygja sér gróðamöguleika með því að bendla nafn sitt við hans, gera það óhikað og eigna mér þá ýmissa eiginleika sem í raun eru honum framandi og alls-óskildir.Gríla með Leppalúða og Jólakötturinn

Segja má að Íslendingar sjálfir hafi gengið hvað lengst í því að rugla fólk í ríminu, því hér á landi er Jólasveinninn ekki einn heldur fjöldi ómennskra óknyttadrengja sem hafast við á fjöllum og eru getnir af tröllum.

(Tröll hafa ætíð í mínum huga verið tákn hins lægra eðlis og hins dýrslega í fari mannsins, þó það sé nánast orðið hól að segja manninn dýrslegan á þessum síðustu og verstu tímum þegar maðurinn hagar sér oft miklu ver en dýr mundi nokkru sinni haga sér.)

En svo við byrjum á byrjuninni þá var hinn eini sanni jólasveinn, eða öllu heldur upphaflega fyrirmynd hans, fæddur 6. desember í gríska þorpinu Patra í litlu Asíu, snemma á fjórðu öld og nefndur Nikulás. Foreldrar hans voru Kristnir og faðirinn efnaður kaupmaður þar um slóðir. Allt frá fæðingu er sagt að hann hafi borið af öðrum börnum í kristilegu hátterni og sú saga sögð af honum að þegar hann var skilinn frá móður sinni eftir fæðingu hans, hafi hann staðið upp í vöggunni og lofað Guð. 

Boyana_AngelSem ungabarn er sagt að hann hafi  neitað að sjúga brjóst móður minnar á föstudögum þegar öllum sannkristnum mönnum var ætlað að fasta. Strax sem unglingi þótti honum miður að sjá fátækt meðbræðra sinna og bera það saman við ríkidæmi föður síns. Hann tók að gefa fátækum af auði og erfðafé sínu eins og ég mátti. Langfrægast þessara góðverka var þegar honum var sagt frá manni einum sem bjó ekki langt frá borginni og var svo fátækur að sýnt þótti að dætur hans þrjár sem orðnar voru gjafvaxta, myndu fljótlega neyðast til að vinna fyrir sér á götum borgarinnar, þar sem honum mundi aldrei verða mögulegt að reyða fram það fé sem nauðsynlegt var í þá tíð að gefa í heimamund með dætrum sínum, til að gifta þær og tryggja þeim þannig heiðvirða framtíð. Faðir Nikulásar hafði skilið eftir sig talsvert fé sem Nikulás reyndi eftir megni að ráðstafa til fátækra. Meðal muna í fórum hans voru þrír afar verðmætir gullknettir.Hann tók því til ráðs að laumast að húsi fátæka mannsins og dætra hans þriggja, þrjár nætur í röð og skildi í hvert sinn eftir einn gullknattanna. Hann gerði þetta á laun til að særa ekki stolt mannsins né gera dætur hans skuldbundnar sér. Þannig varð fátæka manninum kleift að gefa dætur sínar ásamt góðum heimamundi í sæmandi hjónaband.

Þrátt fyrir launungina komst samt þessi saga í hámæli og löngu seinna eftir að Nikulás hafði verið sæmdur nafnbótinni dýrlingur, gerðu veðlánarar hann að verndardýrlingi sínum og hnettina þrjá að merki sínu. Þess vegna má sjá enn í dag þrjá knetti hanga fyrir utan búðir veðlánara í flestum löndum heims, þar sem þeir þrífast á annað borð.

596px-Gentile_da_Fabriano_063Snemma á ævinni ákvað Nikulás að gerast þjónn Guðs og helga sig útbreiðslu trúar hans. Hann var m.a.  viðstaddur  í Níkeu árið 325 þegar Konstantínus keisari safnaði saman öllum helstu kennimönnum kristinnar trúar til að samræma kenningar kirkjunnar.

Konstantín átti kristna móður, sem hét Helena en sjálfur var hann ekki viss hvoru megin hann stóð, Krists eða heiðinna goða. Það var hann sem gerði sunnudag að hvíldardegi kristinna manna árið 321 en þeir höfðu haldið laugardaginn helgan fram að því.

Seinna átti Nikulás við hann nokkur samskipti því hann fór stundum með ofríki gegn þegnum sínum.

 Einu sinni hneppti hann í fangelsi þrjá unga prinsa sem ekkert höfðu sér til sakar unnið annað enn að vera af tignum ættum. Gekk Nikulás þá fram fyrir skjöldu og fékk þá með fortölum lausa. Reyndar hélt Konstantín því fram seinna að Nikulás hefði komið til hans í draumi og beðið drengjunum vægðar og aðeins eftir það, hefði hann ákveðið að láta þá lausa.  Vegna þessa atviks og annarra var Nikulás þegar fram liðu stundir gerður að verndardýrlingi barna og kórdrengja. 

Heilagur Nikulás BiskupNikulás gekk undir biskups-vígslu og skömmu eftir þann atburð varð uppskerubrestur í umdæmi hans. Hann fékk þá því framgengt að kaupskip nokkur sem voru á leið til Alexandríu hlaðin matvælum, lönduðu þeim í Myru heimaborg sinni. Hann lofaði  skipstjórum skipanna því að þeim yrði endurgoldið þegar þeir kæmu til Alexandríu af biskupinum þar. Allt gekk þetta eftir eins og Nikulás hafði fyrir sagt. Af þessum sökum varð ankerið eitt af táknum hans, því sjómenn urðu einnig til að ákalla nafn hans þegar erfiðleikar steðjuðu að þeim.

Sjómenn í hafnarborginni Bari á Ítalíu voru svo sannfærðir um mátt hans til að halda yfir þeim hlífðarskildi í stormi og stórsjó að þeir létu færa jarðneskar leifar líkama hans frá Myru, heimabæ hans, þar sem þær höfðu verið jarðsettar, til borgarinnar Bari. Þetta gerðist árið 1089. Um leið og þeir fluttu beinin, létu þeir smyrja þau með ilmolíum. Þannig gerðist það að þegar þau voru flutt í land í Bari fann fólk af þeim góða lykt. Af þessum sökum var hann nokkru seinna gerður að verndardýrlingi þeirra sem fást við ilmvatna og ilmefna gerð.

Í margar aldir var Heilagur Nikulás í hugum flestra Evrópubúa aðeins einn af fjölmörgum dýrlingum sem  ákallaðir voru í neyð. Hollendingar sem voru miklir sjófarar og kaupmenn voru hvað duglegastir við að halda nafni Nikulásar á lofti.

Faðir KristmessaEnglendingar urðu samt fyrstir til að farið var að tengja Nikulás fæðingarhátíð Jesús Krists. Kom það til af því hversu nálægt fæðingardagur hans, sem gjarnan var mynnst af börnum og sjófarandi kaupmönnum, var upphafi aðventunnar að kristmessu. Þar var farið að kalla hann faðir Kristsmessu snemma á 19. öld.

Með Hollenskum innflytjendum barst Nikulásar dýrkunin til Bandaríkjanna og í upphafi þessarar aldar var farið að teikna hann á kort og auglýsingar í þeirri mynd sem flesti Þekka hann í dag. Í dag er hann þekktur undir nokkrum nöfnum eins og Santa Claus,  Saint Nicholas, Father Christmas. Kris Kringle eða bara "Santa".

Rauði liturinn á Kápunni hans er auðvitað litur fórnarinnar en klæðnaðurinn, rauð hvít brydduð húfan, rauður stakkur stakkurinn með giltum hnöppum og hvítum skinnbryddingum, svart leður belti með gylltri sylgju,  rauðar buxur og svört stígvéli,  hefur þróast smá saman.st-claus

(þó hef ég óljósan grun um að hann hafi einnig verið valin af því að fyrirtækið sem fyrst varð til þess að nota ímynd hans í áróðri sínum, hafði einmitt valið þennan lit í vörumerki sitt.)

Fljótlega spunnust upp sögur í Bandaríkjunum um allt annan uppruna Nikulásar en raunin var á. Það er alls ekki víst a hinum upprunalega Nikulási hefði geðjast  að hugmyndinni um að búa í stórri smíðaskemmu á norðurpólnum við að smíða gjafir með aðstoð fjölda álfættaðra hjálparsveina. Eða þá að eitt af hlutverkum hans væri að rækta hreindýrategund sem getur flogið.

Jólatré

JólatréUm uppruna jólatrésins er flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn til dæmis í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar.

Einnig er til fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um „miðjuna“. Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.


Í jólaskapi eftir Árna Björnsson eru eftirfarandi upplýsingar um jólatréð að finna.

Jólatréð eins og við þekkjum það er ekki mjög gamalt í  heiminum.
Elstu heimildir um skreytt tré í heimahúsum á jólum er frá Suður Þýskalandi á 16. Öld en ekki eru nema tvö hundruð ár síðan síðan farið var að festa kerti á þessi grenitré. Allra fyrstu jólatré munu hafa sést á íslandi í kringum 1850, en þó helst hjá dönskum eða danskmenntuðum fjölskyldum. Algeng urðu þau ekki , fyrr en komið var fram yfir síðustu aldamót.Það er mjög skiljanlegt, af hverju siðurinn festi ekki fyrr rætur á Íslandi. Hér var víðast hvar engin grenitré að hafa, og flestar aðrar vörutegundir hefur þótt nauðsynlegra að flytja inn. Auk þess tók sigling  oft svo langan tíma , að örðugt hefði  reynst að halda þeim lifandi. Þetta gerðu þó sum félög til þess að halda jótrésskemmtanir fyrir börn , og milli 1890 – 1900 má sjá auglýst bæði jólatré og jólatrésskraut. Fyrir meira en hundrað árum hafa menn sumstaðar byrjað á því að búa til gervijólatré.

Gamalt íslensk JólatréVar þá tekinn mjór staur , sívalur eða strendur, og festur á stöðugan fót. Á staurinn voru negldar  álmur eða boraðar holur í hann og álmunum stungið í. Þær voru lengstar neðst, en styttust upp eftir og stóðu á misvíxl. Þær voru hafðar flatar í endann, og á honum stóðu kertin. Venjulega var staurinn málaður grænn eða hvítur og vafið um hann sígrænu lyngi. Síðan voru mislitir pokar hengdir á álmurnar og eitthvert sælgæti sett í þá. Þessi heimatilbúnu jólatré voru mest notuð , þar til fyrir nokkrum áratugum, þegar farið var að flytja grenitré inn í stórum stíl. Á síðustu árum hafa svo íslensk  jólatré komið á markaðinn í æ ríkari mæli 

Jólatréð hefur í heila öld verið eitt helsta tákn jólanna um heim allan. Það er þó tiltölulega nýtt af nálinni í núverandi mynd. Talið er að jólatré hafi borist til norðurlanda skömmu eftir 1800. Árið 1862 nefnir Jón Árnason sögu um reynitré og brunnu ljós á greinum þess alla jólanótt sem slokknuðu ekki hversu mjög sem vindur blés.

Venjulegt jólatréÁrið 1952 fékk Reykjavík í fyrsta sinn stórt jólatré að gjöf frá Ósló. Var það sett upp á Austurvelli, og hefur sú venja haldist síðan. Í fyrstu var jafnan kveikt á trénu síðasta sunnudag fyrir jól, en sú dagsetning færðist framar eftir því sem almennur jólaundirbúningur hófst fyrr. Síðan hafa margar erlendar borgir sent vinabæjum sínum á Íslandi jólatré.

Fyrstu auglýsingar um innflutt jólatré birtust þegar árið 1896 en þau tóku samt ekki að seljast í stórum stíl fyrr en eftir 1940.

 


Fleira smálegt

links

"Það sem gerir þig ánægða(n), það er fjársjóður þinn. Þar sem fjársjóður þinn er þar er hjarta þitt. Þar sem hjarta þitt er þar er hamingja þín."  

Heilagur Ágústínus (354-430)

The naked Icelanders

"Þegar þú öðlast persónuleika, þarftu ekki á nektinni að halda".

Mae West, (1892-1980 Bandarísk leikkona)

149syllabus9crystal2

Sveitin er staður sálarinnar, borgin er staður líkamans.

(Bahai ritningargrein)

yogazo0

Aleinn með sjálfum mér

Trén beygja sig til að gæla við mig

Skugginn faðmar hjarta mitt

Candy Polgar

a279_Hallgrimur

Trúarbrögð mín eru einföld. Það er engin þörf á hofum, engin þörf fyrir flókna heimsspeki. Hugur okkar og hjarta er hofið; heimspekin er velvilji. Dalai Lama


Gvendur Þribbi og Dóra Hjörs.

ZKCAGE20WUCA92LP1YCAXO3V2CCANVFTR1CAM29TLMCA15QX56CAEBFRA5CAQO29NYCAEXZNA3CANM0AQBCA3X68MXCAIH8VSOCAC1LSI8CAMBXDH1CA29O2Y3CAQ6YIDGCARHJ6W0Þegar ég var að alast upp í Keflavík (1960+) bjuggu í bænum ýmsir kynlegir kvistir. Sumir þeirra, eins og Guðmundur Snæland, kallaður Gvendur Þribbi af því hann var einn þríbura, voru alkunnar persónur í bæjarlífinu og settu á það sinn sérstaka svip. Mér var sagt að Gvendur Þribbi væri heimsfrægur munnhörpusnillingur og ég trúði því, sérstaklega eftir að ég heyrði hann eitt sinn spila í barnatíma útvarpsins. Þótt Gvendur væri yfirleitt ölvaður var hann mikið snyrtimenni og sjentilmaður. Í seinni tíð gekk yfirleitt um í einkennisbúningi og með húfu í stíl sem minnti um margt á klæðnað Stuðmanna þegar Þeir voru upp á sitt besta eða jafnvel stíl drengjanna í Oasis. Hann var ekki ólíkur þeim sem myndin er af hér að ofan, en gott væri ef einhver lumaði á mynd af snillingnum, að fá hana senda.

Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn á heimili foreldra minna á Hringbrautinni, þáði þar kaffi og spilaði fyrir okkur krakkana á munnhörpurnar. Hann hafði venjulega nokkrar slíkar á sér. Ég gat samt aldrei áttað mig á lögunum sem hann spilaði. Ég bað hann einu sinni að spila "Hafið bláa hafið" en eftir hálftíma trillur á munnhörpuna gafst ég upp á að hlusta eftir laglínunni. Kannski var Gvendur allt of djassaður fyrir mig. Gvendur angaði ætíð sterklega af Old spice og ég var aldrei viss um hvort sú angan kæmi frá vitum hans eða bara andlitinu en sjálfsagt hefur það verið bæði.

db_The_Harmonica_Player10Gvendur gaf mér tvær munnhörpur en ég gat ekki fengið mig til að spila mikið á þær vegna þess hversu mikið þær lyktuðu af kogara og rakspíra í bland. Ég átti þær fram eftir aldri en veit ekki hvað af þeim varð.

Munnhörpur voru þróaðar í Evrópu snemma á nítjándu öld. Christian Friederich Ludwig Buschmann er oftast eignuð uppfinning þessa hljóðfæris en margar gerðir af munnhörpum virtust spretta upp bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum á svipuðum tíma.

Á Ensku er munnharpa nefnd "Harmonica". En eins og allir vita er harmónikka allt annað hljóðfæri á Íslandi eða það sem nefnd er accordion upp á enskuna. Hvernig nikkan fékk þetta nafn munnhörpunnar hér á landi eins og í Finnlandi og á mörgum austur-Evrópu tungum, er mér ókunnugt um. Fyrstu harmónikkurnar fóru að berast til landsins upp úr 1874. Þá var notað orðið dragspil yfir fyrirbærið.

hansgretelÁ Sólvallargötu skammt vestan Tjarnargötu, stóðu á sínum tíma húsakynni sem í minningunni voru einskonar blanda af gömlum torfbæ og kofatildri. Garðurinn í kring var afgirtur og í þessum óhrjálegu húsakynnum bjó gömul einsetukona sem mér var sagt að héti Dóra Hjörs. Hún var alla vega aldrei kölluð annað í mín eyru.

Í þau fáu skipti sem ég sá Dóru, var hún klædd í sítt pils með strigasvuntu bundna framan á sig og með skuplu á höfðinu. Hvernig sem á því stóð, hafði Dóra í hugum okkar krakkanna á sér ímynd nornarinnar í ævintýrinu um Hans og Grétu. Ég man ekki eftir neinum stað í Keflavík sem fékk hjartað til að berjast í brjóstinu eins ört og þegar farið var fram hjá kotinu hennar. Það sem kynti undir þessa hræðslutilfinningu voru sögur sem oftast voru eflaust skáldaðar upp á staðnum um krakka sem lent höfðu í því að ná í bolta sem skoppað hafði inn í garðinn hennar þar sem hún ræktaði kartöflur, rabarbara og rófur. Hvað nákvæmlega gerðist var aldrei fullkomlega ljóst, en það var eitthvað hræðilegt. Venjulega var hlaupið á harðaspretti fram hjá húsinu og ekki litið til baka fyrr en þú varst komin vel fram hjá. 

Dag einn var ég á gangi annars hugar og vissi ekki fyrri til en ég var kominn alveg upp að girðingunni í kringum garð Dóru. Ég var í þann mund að taka sprettinn þegar að hún birtist skyndilega beint fyrir framan mig. Ég stóð eins og þvara, lamaður af ótta. Hún fálmaði undir svuntu sína og dró fram brúnan bréfpoka, opnaði hann og rétti hann að mér. Ef hún sagði eitthvað heyrði ég það ekki. Ég sá að í pokanum var kandís. Eins og í leiðslu tók ég einn molann og hélt svo áfram að gapa framan í gömlu konuna. Hún tróð pokanum aftur undir svuntuna og rölti svo í hægðum sínum inn í bæinn.

Það þarf ekki að taka það fram, að það trúði mér ekki nokkur maður, þegar ég reyndi að segja þessa sögu í krakkahópnum. En eftir þetta gekk ég óhræddur fram hjá húsi Dóru Hjörs og skimaði jafnvel eftir henni ef ég átti leið þar fram hjá.

 

 

 

 

 


Í ísnum

 Fyrir nokkrum árum fundust á vesturströnd Grænlands tvær álftir, saman frosnar í jöklinum. Rannsóknir leiddu í ljós að álftaparið hafði frosið til dauða fyrir meira en 20.000 árum. Á leið þeirra yfir Atlantshafið frá Norður Ameríku til Evrópu, virðist annar vængur kvenfuglsins hafa laskast svo þau urðu að nauðlenda á Grænlandsjökli. Álftirnar voru svo vel varðveittar að hamir þeirra voru stoppaðir upp og eru nú til sýnis í náttúrugripasafninu í Kulusukk.  

Einþáttungur

Persónur:

Hann

Hún

Ókunnur maður.

Karlmannsrödd. 

Sviðið er afar þröngur íshellir einhverstaðar á Grænlandsjökli. Upp úr snjónum fyrir ofan hellinn sést í brak úr lítilli flugvél.  

 

Hann Mér er kalt 

Hún Já. Það er komið að því. Við erum að deyja 

Hann Eins og það sé einhver afsökun. Maður er alla ævina að deyja, en það þýðir ekki að manni eigi alltaf að vera svona skít kalt. 

Hún Mikið ertu heimskur. 

Hann Þú ert bara búin að missa móðinn. 

Hún Ég sem hélt að þú værir raunsæismaðurinn. 

Hann Á maður ekki að fyllast einhverri ró þegar að dauðinn horfir í augun á manni.  

Hún Nei, það gerist ekki fyrr en maður horfir óhræddur til baka. 

Hann Ertu þá að stara í glyrnurnar á honum núna. 

Hún (Brosir) Já ætli það ekki. Allavega er ég ákaflega róleg. 

Hann Fari það í helvíti. Djöfull er kalt. Eigum við ekki að syngja eitthvað. 

Hún Ég get ekki sungið meira. 

Hann (Byrjar að blístra en getur það ekki) Geturðu þá ekki komið nær. 

Hún Til hvers. 

Hann Reyna að halda á hvert öðru hita. 

Hún Er það ekki fullreynt. Nei. Ég er tilbúin held ég. 

Hann Þú varst alltaf tilbúin, nema þegar að ég var tilbúinn. Þá varstu annað hvort farinn eða hreint ekki byrjuð að hafa þig til. 

Hún Já og allt það. Við erum búin að fara svo oft yfir þetta. Það er ekkert eftir ósagt. 

Þögn 

Hann Á hvað ertu að horfa 

Hún Bara á snjóinn...snjókornin. 

Hann Þau eru allt of mörg greinilega. Eru þau ekki öll eins. 

Hún (Hlær) Eins! Þú gekkst í skóla var það ekki. Last bækur.   

Hann Jú mikið rétt. Bækur og blöð, allt um frost og snjó. 

Hún Æ góði láttu ekki svona. Það vita allir að engin tvö snjókorn eru eins. 

Hann Og það sérð þú núna alveg greinilega er það ekki. 

Hún Ég sé að þetta er búið. 

Hann Er ekkert sem skiptir máli lengur. 

Hún Það sem skiptir máli, kemur okkur ekki lengur við. 

Hann Þú ert sem sé búin að gefast upp. 

Hún Þetta er ekki einu sinni spurning um uppgjöf, heldur að horfast í augu við það sem er. 

Hann Er þér ekki lengur kalt. 

Hún Auðvitað er mér kalt. Sérðu ekki að ég er að deyja úr kulda. 

Hann Er ekki sagt að hugurinn sé það fyrsta sem fer. 

Hún Það er svo margt sem er sagt. 

Hann Mér finnst ég aldrei hafa hugsað skýrar. 

Hún Það er örugglega merki þess að hugurinn er að fara. 

Hann Sem þýðir að allt þetta getur bara blekking. 

Hún Ég er þreytt. Ég vil ekki að tala meira. 

(Það heyrist marra í snjónum) 

Hann Hvað er þetta? 

Hún Hvað? 

Hann Þetta hljóð 

Hún Hvaða hljóð, ég heyri bara í vindinum. 

Hann Nei, ég heyrði eitthvað. 

Hún Hugurinn er að fara eins og ég sagði. 

Mannsrödd (Í fjarlægð) Halló, er einhver þarna. 

Hann Heyrðir þú þetta ekk? 

Hún (Hrópar af veikum mætti) Halló, við eru hér. 

Hann(Hrópar líka) Heyrirðu í okkur. Halló. 

Mannsrödd (Nálgast) Halló, er einhver hér. 

Hún (Hrópar hærra) Halló, Halló. 

Hann(Hrópar hásri röddu) Við eru hér. 

Mannsrödd (Röddin fjarlægist) Halló er einhver hérna. Halló. Halló  

Hann Við erum hér. Ekki fara. Hér. (Reynir að standa á fætur) 

Hún Ha. Hall. (Röddin brestur) 

Hann (Byrjar að kjökra) 

Þögn 

Hún Er hann farinn 

Hann (Í gegnum kjökrið) Hvað veit ég um það. 

Hún Af hverju grætur þú?

Hann Ég er ekkert að gráta. Ég var að reyna að kalla. (Reynir aftur að kalla) Halló! 

Hún Hann er farinn 

Hann Heyrðir þú ekki örugglega í honum líka. 

Hún Hvaða máli skiptir það núna. 

Hann Þetta var ekki nein ímyndun hjá mér. 

Hún Og hvaða máli skiptir það. 

Hann (Reiður) Þú ert ekki dauð enn. Það er svona hugsunarháttur sem drepur okkur. 

Hún Hvað erum við eiginlega búin að vera hérna lengi? 

Hann (Lítur á úrið sitt) Það er kominn sjötti. 

Hún Sjötti.... Manstu þarna þegar að þú sofnaðir og þegar þú vaknaðir aftur hélstu að þig væri að dreyma. 

Hann Já, hvenær var það, í gær. 

Hún Manstu hvað þú varst hræddur. 

Hann Hræddur. Hvenær. 

Hún Nú þegar þú vaknaðir og hélst að þig væri að dreyma. 

Hann Ég var ekki hræddur, bara dáldið skelkaður. Það er svo vont þegar maður veitt ekki muninn á svefni og vöku. 

Hún Jæja skelkaður þá. En þú varst nálægt því að örvænta. 

Hann Einmitt. Örvænta, Það hlýtur að hafa verið þarna rétt á eftir að þú öskraðir þig hása. Það var nú ekki gáfulegt. 

Hún Ég var að reyna að láta vita af okkur. 

Hann Já þegar vitað var að enginn var nálægur til að heyra í okkur. Þú varst bara hrædd. Viðurkenndu það bara. 

(Þögn) 

Hún Ég, ég , nenni þessu ekki lengur. 

Hann Viltu ekki koma til mín. 

Hún Var raunverulega einhver þarna uppi áðan.   

Hann Nei það held ég ekki. Við erum grafin í fönn einhvers staðar langt upp á Grænlandsjökli. 

Hún En heyrðum við ekki örugglega bæði það sama. 

Hann Hvað heyrðir þú. 

Hún Mann hrópa Halló. Er einhver þarna. 

Hann Ég held að ég hafi bara heyrt einhvern hrópa Halló. 

Hún En ef þetta er eitthvað rugl, þá er það ansi svipað hjá okkur báðum og svo gerðist það líka samtímis. 

Hann Ég trúi bara ekki að við höfum verið svona nálægt því að bjargast. 

Hún Stundum er lífið lygilegt. 

Hann Djöfull ertu æðrulaus yfir þessu kona. Kannski vorum bara hársbreidd frá því að bjargast. 

Hún Já, kannski. 

Hann Viltu gera mér greiða. 

Hún Ég nenni ekki að færa þér kaffi elskan. 

Hann Aaaaa, vorum við ekki búin að ákveða að tala ekki meira um mat. 

Hún Kaffi er ekki matur. Hvað viltu annars að ég geri fyrir þig. 

Hann Viltu ekki koma. Ég held að ég vilji sofna. 

Hún Þú ert að deyja. 

Hann Ég ætla bara að sofa svo lítið. 

Hún Þá ætla ég að sofa líka.

(Þau hjúfra sig upp að hvert öðru og sofna) (Sviðið myrkvast en birtir svo strax aftur. Við hlið þeirra hjóna liggur ókunnur maður, glaðvakandi. 

Hann (Opnar augun fyrst og trúir þeim varla) Hva, hver ert þú? (Maðurinn segir ekkert en brosir breitt) Hvaðan komst þú, hvernig komstu? (Teygir sig og snertir manninn, sprettur svo til þegar að hann finnur að hann er raunverulegur og hrópar.) Hver ertu? 

Hún (Vaknar upp við hrópið) Hvað, hver er þetta? Er hann raunverulegur? 

Maður Us suss, ekki vera hrædd. Hvað hafið þið svo sem að hræðast. 

Hann Eru fleiri á leiðinni. 

Maður Nei, ég er einn. 

Hún Ertu kominn til að bjarga okkur. 

Maður Já, til að bjarga ykkur. (Hlær) 

Hann Ertu á einhverju farartæki sem getur tekið okkur öll. 

Maður Nei. Ekki beint. 

Hún Nú, hvernig komstu þá.  

Maður Ég kom eins og vindurinn og smaug svo í gegnum snjóinn líkt og frostið. 

Hann Nú þú ert sem sé bara sameiginleg ofskynjun. 

Hún Eða kannski er hann dauðinn. 

Hann Dauðinn er ekki persóna. 

Hún Jæja þá persónugerfingur hans. 

Hann Erum við sem sagt dáin. 

Maður Nei, ekki alveg, en við dauðans dyr. 

Hún Ertu sem sagt kominn til að taka okkur héðan. 

Maður Nei, það ætla ég ekki að gera. 

Hann Hvað þá 

Maður Hvert ætti ég svo sem að taka ykkur.  

Hann Nú, þangað sem dáið fólk fer. 

Maður Það fer ekki neitt. 

Hún Ertu að segja að eftir að við deyjum verðum við áfram hérna. 

Maður Það má segja að ég sé að segja það já. 

Hann Mér er hætt að vera kalt. 

Hún Já ég veit, en samt. 

Hann Ertu þá bara að látra okkur vita að við séum að deyja. Við vissum það nú fyrir. 

Maður Nei þið bara hélduð það. Nú eftir að ég kom vitið þið það fyrir víst. 

Hún Ég var alveg viss. 

Maður Jæja þá er komið að þessu 

Hann (Hlægjandi) Hverju,að deyja.  

Maður  

Hún Mér finnst ég vera meira lifandi en nokkru sinni eftir að við lentum hérna. Bara hress. 

Hann Ég líka. Svefninn hefur endurnært okkur. 

Maður Þetta er í bara dauða-tifinningin sem er að koma yfir ykkur. Dauðateygjurnar eins og sumir kalla það. 

Hann Það getur bara ekki verið, ég er svo fjári hress.  

Hún Ef þetta er að deyja, er það ekki svo slæmt. 

Maður Þetta er að deyja. 

(Þögn og rýmið utan um þau hverfur) 

Hann Erum við dáin.  

Maður  

Hann (Hlær) Þetta er nú bara fyndið. 

Hún Ég ætla að prufa að klípa mig. Ef ég er dáin get ég ekki fundið til, er það. (Klípur sig, finnur ekkert, klípur sig aftur og svo hann) Finnur þú eitthvað. 

Hann Þetta er nú ekkert að marka. Við erum svo dofin af kulda að við finnum ekkert fyrir svona smá klípum. 

Hún Einmitt. Og ef við erum dáin, hvað ert þú að hangsa hér. Er ekki nóg af fólki að deyja þessa stundina sem þú átt að vera að sinna. 

Maður Ég er að fara. Ætlaði bara að vera viss um að þið væruð búin að átta ykkur. 

Hann Átta okkur. Á hverju eigum við að átta okkur. 

Maður Á að þið séuð dáin. 

Hún Bíddu nú við. Það er eitthvað í gangi hérna sem ég ekki skil. Við erum sem sagt dáin, en finnst við vera lifandi eða hvað. 

Maður Þið eruð dáin. 

Hann Auðvitað. Erum við sem sagt núna í lífinu eftir dauðann. 

Maður Já. 

Hún Og hvar er þá þarna eh, himnaríki. 

Maður (Hlægjandi) Afsakið, en ég fer alltaf að hlægja þegar fólk spyr að þessu. 

Hann Hvað er svona hlægilegt, erum við kannski ekki nógu góð fyrir himnaríki. 

Maður Heldurðu að þú sért á leiðinni til helvítis kannski (Hlær meira) 

Hann Af hverju ertu þá að hlægja 

Hún Heldurðu að við séum einhverjir kjánar. 

Maður (Stendur upp og gengur rólega af sviðinu) Nei, nei, þið misskiljið þetta eins og flestir. Þið eruð ekki að fara neitt, ekki á neinn stað. Finnið þið ekki hvað allt er,,, segjum óraunverulegt. Eins og í draumi.. 

Hún Er okkur sem sagt að dreyma. 

Maður Nei skynjun ykkar er eins og í draumi en þið eruð dáin.

(Þau horfa bæði á eftir manninum um stund)

Hún (Byrjar að hlægja og stendur upp og gengur af sviðinu) Veistu, ég held að ég nenni ekki að hanga lengur hér. 

Hann (Stendur upp og fer á eftir henni) Bíddu, bíddu ég er að koma.


Engiltár

Fyrir mörgum árum skrifaði ég stutta sögu fyrir litla stúlku sem núna er löngu orðin fullorðin kona. Þegar ég las hana aftur fyrir skömmu fannst mér hún eiginlega alveg geta verið fyrir börn á öllum aldri, jafnvel fullorðin börn. Sagan sem gerði tilætlað gagn á sínum tíma, hefur í mörg ár ferðast milli tölvanna sem ég hef átt og nú síðast dvaldist hún á einum minniskubbnum mínum þar sem hún átti sér litla von um að verða aftur lesin. Ég veit að það er algjört bloggtabú að birta nokkuð svona langt og ég lái ykkur ekkert þótt þið nennið ekki að lesa. En fyrir þá sem hugsa enn eins og börn hafa þolinmæði eins og afar og ömmur, here goes.

Engiltár

engill 1Hátt yfir iðagrænum dal, á dálitlum skýhnoðra, sem vafði sig purpura hnígandi sólar, sat engill og grét. Tárin streymdu í stórum glærum perlum niður bústna og kringluleita vanga hans, og féllu svo til jarðar í löngum taumum. Líkt og dýrindis festar endurvörpuðu þau  óteljandi litum síðustu geislum sumarkvölds-sólarinnar, og urðu þannig til að vekja athygli lítillar stúlku sem stóð og horfði út um glugga efst í gömlum turni úr steini, sem reis þétt upp við bergið í enda dalsins. Engillinn var alveg viss um að enginn sæi til hans þar sem hann sat í háloftunum yfir þessum ákaflega afskekta og að hann hélt, óbyggða dal. Sorg hans og tregi höfðu slæpt hann svo og sljóvgað, að honum hafði yfirsést varðturninn gamli, sem reyndar hafði kænlega verið valinn staður, þar sem hann rann saman við bergið og duldist í samlitum gráma þess. Og hvern hefði grunað að þarna byggi stúlka, sem á hverju kvöldi í tæp tvö ár, hafði horft út um gluggann á sólsetrin fögru, milli fjallanna háu sem umluktu dalinn. Og nú þar sem hún stóð og dáðist af samspili ljóssins og vatnsins, sá hún hvar eitthvað féll niður í döggvott grasið á flötinni fyrir framan turninn. Hún trúði varla eigin augum  því ofan af himninum hrundu í löngum glitrandi taumum perlulaga eðalsteinar. Í undran sinni og hrifningu hrópaði hún upp yfir sig, klappaði sama höndum og hló.           turninn Í gegnum eigin ekkasog greindu ákaflega næm eyru engilsins hljóð, sem fengu gullfiðraða vængi hans til að blaka sér svolítið ósjálfrátt og stöðvaði samstundis grát hans. Var þetta virkilega óp, óp úr barka dauðlegrar veru, alls ekki svo fjarri heldur ómögulega nærri. Firna fráum augum  leit hann eftir dalnum og um hlíðar fjallanna og fann samstundis gamla varðturninn. Hann kom einnig auga á stúlkuna, sem enn stóð við gluggann og horfði opnum munni, stórum sægrænum augum, beint á hann, að honum fannst. Engiltaugarnar tóku viðbragð og á svipstundu var hann búin að færa sig lengra inn á skýið. Hann vonaði heitt og innilega, að hún hefði ekki séð hann. En tárin höfðu greinilega komið upp um hann. Hvernig hafði hann annars getað verið svona kærulaus. Afar varfærnislega gerði hann örlítið gat á mitt skýið, til þess að geta fylgst með stúlkunni. Þegar hann loks áræddi að gægjast í gegn, sá hann að hún var horfin. Svo birtist hún aftur skömmu síðar, valhoppandi út um dyr turnsins og hóf að safna saman engiltárunum í hugvitsamlega samanhnýtta hvíta svuntu sína. Öðru hvoru leit hún upp og skimaði í kring um sig og englinum fannst að stúlkan hlyti að vita af honum þar sem hann fylgdist með henni í gegnum gægjugatið. Loks lauk stúlkan við að tína upp öll tárin og hraðaði sér með feng sinn inn í turninn aftur og lokaði rammgerðri hurðinni vandlega á eftir sér. Um leið stökk sólin endanlega á bak við fjöllin og nóttin lagðist eins og dimmblá blæja yfir dalinn. Englinum var orðið ljóst að honum var verulegur vandi á höndum. Orsakir grátsins og táraflóðsins, bliknuðu verulega í samanburði við þær ógöngur sem hann hafði nú ratað í. Það að skorta örlæti, var að vísu ástæða til hryggðar, því örlæti var dyggð sem allir englar þurftu að hafa tileinkað sér. En nú hafði hann með óvarkárni sinni, hugsanlega brotið ófrávíkjanleg lagafyrirmæli almættisins sjálfs, sem að allir englar, háir jafnt sem lágir urðu að lúta og kváðu á um að enginn engill mætti geranokkuð það sem gæfi mannfólkinu ástæðu til að trúa eða efast um að þeir væru til. Þetta voru lög sem aðeins almættið sjálft gat veitt undanþágu frá, að viðlagðri hegningu sem ákvörðuð skyldi hverju sinni af tíu þúsund píslarvottum. Það lá við að engillinn færi aftur að vola við tilhugsunina um mögulegar afleiðingar augnabliks óvarfærni sinnar, þá hann fann sér fyrr um daginn, stað til að brynna músum á. Hann harkaði samt af sér og hóf að hugsa ráð sitt. Ef hún hefði ekki séð hann var jú mögulegt að hana mundi ekki gruna að dýrgripirnir sem hún hafði undir höndum væru engiltár. En hvað mundi henda ef hún kæmist að dularnáttúru þeirra, leyndarmáli sem engir aðrir en Guð og englar vissu. Ef hún mundi uppgötva það, þó af tilviljun væri, yrðu afleiðingarnar hræðilegar. Því neytti einhver engiltára, yrði sá hinn sami samstundis eilífur. Eilíf tilvera á jörðinni, klædd takmörkunum holds og blóðs, hversu eftirsóknarverð sem hún kunni að virðast fávísum mönnunum við fyrstu sýn, var sannarlega písl og kvöl sem enginn átti skilið.

diamondsEngillinn þorði ekki að hugsa þá hugsun til enda. Ef slík ógæfa hlytist af óvarkárni hans, mundi öll sköpunin gráta miklum harmagráti.  Hann reyndi að sefa kvíða sinn með því að hugsa um hve hverfandi litlar líkur væru á því að stúlkan færi að leggja sér tárin til munns, sérstaklega ef hún gerði sér grein fyrir vermæti þeirra sem aðalsteina. Hann vissi samt að þá áhættu gat hann ekki tekið og að hann yrði að ná tárunum til baka tafarlaust, hvað sem það kostaði. Hefðu tárin aðeins fengið að liggja kyrr til morguns, hefðu þau gufað upp eins og döggin á grasinu fyrir geislum morgunsólarinnar. En um leið og mennskar hendur snertu þau, misstu þau þann eiginleika sinn og urðu að varanlegu föstu efni. Hann varð að láta til skarar skríða strax og ná eilífðar-elexírnum, engiltárunum sínum aftur, en umfram allt, vera varkár og flana ekki að neinu.  

En hver var þessi stúlka og hvað var hún að gera þarna alein að því er virtist í óbyggðunum, þar sem ekki hafði sést til mannaferða í margar aldir og hvaðan kom hún eiginlega. Engillinn velti þessum spurningum fyrir sér um stund og ákvað svo að leita svara.  Hann hóf sig á loft og með örfáum öflugum vængjatökum flaug hann niður að turninum og settist hljóðlega á sylluna fyrir utan gluggann þar sem hann hafði fyrst séð stúlkuna. Ofur varlega leit hann svo inn um gluggann. Inni í turnherberginu var ákaflega dimmt, en hann sá samt að það var autt og tómt. Á miðju gólfi  var stigaop og upp um það lagði föla flöktandi gula birtu. Engillinn smeygði sér varlega inn um gluggann og gægðist niður opið. Klunnalegur tréstigi teygði sig frá skörinni og niður á steinlagt gólfið fyrir neðan og í skímunni frá kertisstúf sem brann á hrörlegu eikarborði, sá hann hvar stúlkan sat og horfði hugfangin á engiltárin sem lágu í stórri hrúgu fyrir framan hana á borðinu. Birtan frá kertinu brotnaði á þeim og varpaði dansandi myndum á andlit hennar.

Engillinn virti stúlkuna gaumgæfilega fyrir sér og reyndi eftir mætti að draga einhverjar ályktanir af útliti hennar. Hún leit ekki út fyrir að vera meira en tólf ára gömul. Ljósir hrokknir lokkar léku um axlir hennar og römmuðu inn undurfrítt andlitið, sem geislaði af fádæma sakleysi rósrauðra vara og rjóðra kinna, undir skærum sægrænum augum sem endurspegluðu eitthvað allt annað. Kjóllinn sem hún klæddist, var úr dökkbláu flaueli, ákaflega einfaldur að sniðum og féll vel að fagurlimuðum og fíngerðum líkama hennar. Um mitti hennar var hnýtt mjallhvít bróderuð svunta og berir fætur hennar hurfu ofan í mjúka skinnskó, bláa að lit með ísaumaðri perluskel á ristum.

Englinum duldist ekki að þessi litla stúlka hlaut að vera mjög sérstök og ef til vill af tignum ættum. Útlit hennar og fas, bar augljósan vott um smekkvísi og glæsileika. En hvað var hún að gera hér?

Hann kom ekki auga á neitt sem skírði það á einhvern hátt. Umhverfi hennar var í hrópandi mótsögn við útlit hennar. Við hlið borðsins stóð stórt gamalt rúm og yfir það var lagt þykkt ullarteppi. Utan þess, borðsins og stólsins sem hún sat á, voru engin önnur húsgögn í víðu hringlaga herbergi turnsins. Ekkert matarkyns sá hann heldur í þessari frumstæðu vistarveru.

Engillinn settist hljóðlega niður á skörina og gætti þess vel að ekki sæist til hans neðan frá, og hugsaði sinn gang. Trúlega yrði hann að bíða þar til stúlkan sofnaði og freista þess þá að ná tárunum. Svo hófst biðin. Hann beið í margar klukkustundir án þess að stúlkan sýndi þess nokkur merki að syfju sækti að henni. Hún hafði að vísu fært sig úr stólnum upp í rúmið, en þar sat hún bara og lék sér að tárunum, sem hún þreyttist aldrei á að handfatla og skoða. Þótt engillinn væri í eðli sínu, mjög þolinmóður og vanur eilífðartíma, tók þessi bið mikið á hann og þegar skammt var í dögun og stúlkan enn glaðvakandi, gafst hann upp á að bíða og ákvað að breyta um aðferð. Eins og allir englar kunni hann ýmislegt fyrir sér sem mennirnir mundu kalla yfirnáttúrulega kunnáttu. Hann gat meðal annars breitt um útlit að vild. Einmitt þann eiginleika ákvað hann að hagnýta sér. Hann stóð upp, hóf sig á loft og flaug út um gluggann.            

einhirningurÞegar hann lenti fyrir framan dyr turnsins, leit hann ekki lengur út eins og engill, heldur einhyrningur, mjallhvítur á litinn, með gullið fax og tagl. Hornið sem stóð út úr miðju enni hans, notaði hann til að drepa á dyrnar. Eftir nokkra bið, opnuðust þær í hálfa gátt. Stúlkan rak upp stór augu þegar hún sá einhyrninginn, en sýndi samt engin merki um hræðslu, og ekki heldur þegar hann ávarpaði hana á mannamáli.

"Komdu sæl stúlka litla og afsakaðu ónæðið á þessum óvenjulega tíma sólahringsins. En ég er vera eins og þú sérð, sem eðli mínu samkvæmt mundi aldrei raska ró nokkurrar manneskju af ófyrirsynju. Þar af leiðandi getur þú varla efast um að erindi mitt sé brýnt, og þar eð það varðar þig sjálfa, bið ég þið um að hlýða á mál mitt.“

Stúlkan svaraði einhyrningnum engu, en horfði á hann eins og hún skildi ekki orð af hinni háfleygu þulu sem hann hafði romsað út úr sér. "Ég varð fyrir smá óhappi“hélt einhyrningurinn áfram og ákvað að einfalda mál sitt eftir mætti.„Ég tapaði í gærkvöldi, einhversstaðar hér í grenndinni ákaflega verðmætum sjóði eðalsteina, og mér datt sí svona í hug að þú stúlka góð, hefðir ef til vill fundið hann.“ Einhyrningurinn leit á stúlkuna stórum spyrjandi augum, og vonaðist eftir jákvæðum viðbrögðum.„verið getur að vegleg verðlaun séu í boði handa þeim, sem á einhvern hátt getur aðstoðað mig við að endurheimta hinar týndu gersemar.“ bætti hann svo við. Stúlkan sneri sér hægt við í dyrunum og leit í átt að rúmi sínu þar sem engiltárin lágu í bing á ullarteppinu. Svo vatt hún sér aftur að einhyrningnum og sagði hvatvíslega.

"Eitthvað er nú bogið við þessa sögu þína ágæti einhyrningur. Ef þú hefðir vængi eins og hesturinn Pegasus eða værir fugl eins og Fönix, gæti ég ef til vill lagt trúnað á sögu þína. Sannleikurinn er sá að í gærkveldi féllu af himni ofan, niður á flötina hérna fyrir framan, nokkrar stjörnur. Ég hef enga ástæðu til að ætla, að þær tilheyri þér frekar en mér. Þú getur hæglega hafa séð mig safna þeim saman, ágirnst þær og ákveðið að reyna að komast yfir þær með einhverju móti."

Það lá við að englinum félli allur ketill í eld. Svo undrandi varð hann yfir að vera vændur um að segja ósatt að hann stóð hvumsa um stund. Þegar stúlkan gerði sig líklega til að loka hurðinni og ljúka þar með samtalinu, áttaði hann sig og sagði með semingi.

"Ég skal viðurkenna að vissulega er hægt að líta á málavöxtu eins og þú gerir, og að þú hefur að sönnu engar sannanir fyrir því að fjársjóðurinn á rúminu þínu sé með réttu mín eign. En sé það næg sönnun, að þínu mati, að ég geti flogið, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að ég haldi fyrir þig smá flugsýningu."

Einhyrningar geta ekki flogið“, svaraði stúlkan um hæl.

"Vertu ekki svona viss um það stúlka góð“ sagði einhyrningurinn og byrsti sig. Í sannleika undraðist hann hversu kotroskin og framhleypin stúlkan var.„Ég get auðveldlega sannað að ég get flogið, en það vekur furðu mína að ung stúlka eins og þú, og að því er virðist reynslulítil, skulir dirfast að standa upp í hárinu á jafn merkilegu fyrirbæri og ég er. Einhyrningar eru nefnilega ákaflega sjaldséðar skepnur og einstakar af allri gerð. Væri því ekki tilhlýðilegt að lítil stúlka, sem sér og ræðir við einhyrning í fyrsta sinn, sýndi honum og erindi hans, meiri virðingu en raun ber vitni?“ Engillinn var að vonast eftir að vekja með stúlkunni vitund um hversu sérstæðar aðstæðurnar væru og hún yrði þar af leiðandi hógværari í samskiptum sínum við hann. En sú litla lét sér fátt um finnast og svaraði fullum hálsi;

"Þú sagðir að þú gætir flogið og ef þú getu það skulum við ræða málin, annars eru frekari umræður tilgangslausar."

Engillinn gerði sér grein fyrir að frekari undanfærslur voru gagnslausar. Þetta var ekkert venjulegt stúlkubarn sem hann átti í útistöðum við. Hann efaðist stórlega um að þó hann flygi fyrir hana, myndi hún trúa sögu hans. Hér þurfti eitthvað meira að koma til. Hann sté nokkur skref aftur á bak og sagði;

"Horfðu nú á og taktu vel eftir því sem þú sérð“.

Á örfáum augnablikum tók engillinn á sig fjölmargar myndir. Hann ummyndaðist fyrst í hinn vængjaða Pegasus, síðan fuglinn Fönix, þá í risavaxinn svan, á eftir fylgdi hans eigin raunverulega engilmynd, silfurlitaður dreki, Svinx og fuglmenni af ýmsu tagi. Loks breytti hann sér aftur í mynd einhyrningsins og stóð að því búnu hljóður og reyndi að lesa úr svip stúlkunnar áhrif stórkostlegra sjónhverfinga sinna. En úr honum varð ekkert ráðið. "Ein af þessum myndum sem ég sýndi þér er mín sanna mynd, en allar gátu ímyndirnar flogið, svo að um þá getu mína þarftu ekki lengur að efast“mælti einhyrningurinn. Stúlkan kinkaði kolli, opnaði dyrnar upp á gátt og sagði;

"Ég held það sé best að svo komnu máli, að þú komir inn, hver sem þú ert. Þetta var sannarlega tilkomumikil sýning hjá þér og sannfærði mig um að hugsanlega geti steinarnir fögru verið þín eign.“

Einhyrningurinn þáði boðið samstundis og brokkaði inn í turninn. Stúkan lokaði dyrunum að baki honum, settist svo við borðið með kaupmanns svip og sagði;"Því miður á ég ekkert matarkyns í kotinu til að bjóða þér, svo við getum snúið okkur beint að efninu. Þú minntist á að fundarlaun væru í boði handa þeim sem aðstoðaði þig við að endurheimta gersemarnar.“

Já fyrir alla muni, ljúkum þessu af sem fyrst. Eins og þig sjálfsagt grunar eftir að hafa séð hversu ég er megnugur, er ekki ómögulegt að ég gæti orðið við einhverri ósk þinni. Lát oss því heyra hvers þú óskar þér að launum fyrir fjársjóðinn. “ svaraði einhyrningurinn.

"Eitt er það sem ég ágirnist og þrái öðru fremur. En svo þú skiljir fullkomlega hvað ég fer fram á, og hvers vegna, verður þú að hlýða á sögu mína.“ sagði stúlkan.

Þetta samþykkti einhyrningurinn umyrðalaust því hann var forvitinn mjög um hagi þessarar undarlegu stúlku. Hann lagðist á gólfið og bjó sig undir að hlusta, og hún hóf frásögn sína.            

"Fljótlega eftir að ég fæddist, varð foreldrum mínum ljóst að þau höfðu eignast harla óvenjulegt barn. Faðir minnvar skósmiður og móðir mín saumakona en þau bjuggu í litlu sjávarþorpi og lifðu eins og milljónir annarra, venjulegu, og frá sjónarhóli mennta- og aðalstéttanna sem stjórnuðu landinu, ákaflega ómerkilegu lífi. Móðir mín tók þegar eftir því að þrátt fyrir að ég hafnaði alfarið móðurmjólkinni og fengist ekki til að neyta annarrar fæðu, óx ég og dafnaði eins og önnur börn. Fyrst í stað, reyndi hún samt að þröngva ofan í mig mat af ótta við að ég dæi úr hugnir. Þegar henni varð ljóst að fæðuleysið hafði engin áhrif á vöxt minnog viðgang, hætti hún öllum tilraunum til að halda að mér fæðu. Sjálf fann ég aldrei fyrir hungri, en fannst ég verða þróttlaus ef sólar naut ekki við í langan tíma. Smá saman fékk ég vissu fyrir því að ég nam alla þá næringu sem ég þurfti, beint úr sólarljósinu. Vel má vera að ég hefði getað átt álíka ævi og önnur börn á mínu reki, ef ekki hefði önnur og öllu einkennilegri sérkenni komið í ljós í fari mínu, eftir því sem ég varð eldri. Eins og hálfs árs var ég orðin altalandi, ekki aðeins á móðurmálið heldur einnig fjórtán önnur tungumál. Að sjálfsögðu var ég læs og skrifandi á þau öll. Tónlist og aðrar listgreinar lágu það vel fyrir mér, að fljótlega urðu þær í mínum augum barnalegar dægradvalir og leikir. Hugur minnog atgervi var slíkt að ég útheimti stöðugt erfiðari viðfangsefni til að kljást við og var á þeim sviðum algerlega óseðjandi. Þegar ég var aðeins fimm ára, og ég orðin alkunn fyrir ýmis afrek á sviðum lista og vísinda um gjörvallan heim, bættist við afburðargetu mína sá eiginleiki að geta séð fyrir óorðna atburði. Fyrst birtustu þeir mér í draumum, en síðar líkt og þeir lifðu fyrir augu mín. Samhliða þeirri þróun, hvarf þörfin til að sofa, jafnvel hvílast, því ég virtist ætíð hafa næga orku til alls. Afleiðing alls þessa var að dagar og nætur urðu samfella ómerkilegra atburða og leiðindi tóku að sækja að mér. Brátt var svo komið að ég þoldi illa við með öðru fólki. Mér fannst það allt vera heimskt og klunnalegt, ómenntað og gróft. Jafnvel færustu vísindamenn og hugsuðir stóðu mér engan veginn snúning og urðu sér að atlægi í návist minni. Ég fór að fyrirlíta allt samferðafólk mitt. Allan ófullkomleika þess, heimsku og galla. Auðvitað vakti afstaða mín og viðhorf, andúð fólks á sjálfri mér sem jókst í samræmi við  getu mína til að sýna fram á yfirburði mína á öllum sviðum. Ég var hötuð og forsmáð, fyrirlitin og öfunduð. Jafnvel foreldrar mínir sem lengst allra sýndu mér ást og alúð, misstu þolinmæðina, gáfu mér þennan klæðnað og vísuðu mér á brott. Um tíma þvældist ég um eiminn og þegar ég náði tíunda aldursári var ástandið orðið algerlega óviðunandi, því ég óttaðist stöðugt um líf mitt. Stærilætisleg framkoma mín og óbilgirni höfðu aflað mér margra óvina og sumir töldu mig réttdræpa ófreskju. Aðeins forsjálni mín forðaði mér frá að verða óvinum mínum að bráð. Að auki við þá eiginleika sem ég hef þegar upp talið, bættist við aðlaðandi útlit og fríðleiki. Hvar sem ég fór vakti ég óskipta athygli. Jafnvel þar sem enginn þekkti mig í sjón, þó þeir hefðu eflaust heyrt mín getið. Þegar hér er komið við sögu, rann það upp fyrir mér hversu gáfur mínar og vitsmunalegir burðir voru í miklu ósamræmi við siðferðilegt atgervi og andlega þroska minn. Ég hafði vissulega reynt að tileinka mér þær dyggðir sem nægt hefðu venjulegri mannveru til að komast í gegnum lífið án stöðugra árekstra við með bræður sína. Afburða manneskju eins og mér, nægðu þær ekki. Sú var í raun ástæðan fyrir því hversu illa mér gekk að lynda við venjulegt fólk og andúð þess var svo rík í minngarð. Ég ákvað að hverfa úr samfélagi manna, draga mig í hlé og freista þess í einrúmi að ráða bót á vandamáli mínu. Ég leitaði uppi þennan afskekkta og óbyggða dal og með aðsetur í þessum forna varðturni hóf að iðka íhugun og sjálfsaga, sem ef til vill yrði til þess að ég sæi mér fært um síðir, að snúa aftur til samfélags manna. Hér hef ég dvalist í því næst tvö ár og stundað hinar andlegu íþróttir af kostgæfni og kappi, án teljandi árangurs, verð ég samt að segja. Þú ágæti einhyrningur, eða hvað sem þú í reyndinni kannt að vera, ert fyrsta veran, fyrir utan fugla og dýr, sem ég hef heyrt eða séð í allan þann tíma. nú þegar þú hefur heyrt sögu mína og veist hvernig í öllu liggur, get ég vel viðurkennt fyrir þér, að mér kom aldrei til hugar að þessir fögru steinar sem duttu af himnum í gærkveldi væru stjörnur. Um gerð þeirra get ég samt ekkert fullyrt þó ég hafi brotið um þá heilann í alla nótt. Þeir líta út eins og tár einhverrar himneskrar veru. En þarna liggja þeir og þú getur tekið þá með þér, ef þú getur uppfyllt ósk mína. Ég leyfi sjálfri mér að efast um að þú getir það, þrátt fyrir að þú hafir sannað að þú ráðir yfir umtalsverðum hæfileikum. Þú sannaðir samt ekki að þú getir framkvæmt eitthvað sem aðeins máttarvöld ofar mínum skilningi kunna að geta. Það sem ég sækist eftir er fullkomnun og það sem mig skortir til að geta talist fullkomin er eilíft líf. Ósk mín er sú að þú sjáir svo um, að ég hljóti eilíft líf".

Einhyrningurinn sem legið hafði tiltölulega rólegur og hlustað, varð svo mikið um orð stúlkunnar að hann stökk nú á fætur, frísandi og fnæsandi eins og hver annar stóðhestur. Hann hlaut að vera óheppnasti engill frá upphafi tíma. rétt þegar lausn vanda hans var innan seilingar, og stúkan búin að samþykkja að skila honum tárunum aftur, hvers eðlis hún hafði komist svo óþægilega nærri að uppgötva, bað hún um að launum nákvæmlega það sem hann hafði verið að reyna að afstýra að hún fengi. Hann var kominn í sjálfheldu sem ekki yrði auðvelt að sleppa úr. Honum leist svo á þess stúlku, að ekki mundi ganga að bjóða henni eitthvað annað. En hvernig gat hann veitt henni eilíft líf á jörðinni. Jörðin var aðeins byrjunarreitur, ekki endastöð, og að vera dæmdur til eilífrar jarðvistar, var eins og að vera getin, og svo skikkaður til að fæðast aldrei og verða að eyða öllu lífi sínu innan takmarka móðurlífsins. Það mátti sannarlega ekki vera hlutskipti nokkurrar manneskju, þrátt fyrir að hún óskaði þess sjálf. Á meðan hugur engilsins leitaði lausna með leifturhraða í öllum viskubrunnum alheimsins og ráðfærði sig við ótal véfréttir og vættir á nokkrum augnablikum, beið stúlkan óþolinmóð eftir svari.

Svo laust svarinu niður í huga hans með slíku afli, að hann var viss um að sjálft almættið hafði skorist í leikinn. Lausnin var svo augljós að hann hálf skammaðist sín fyrir að finna hana ekki strax. Stúlkan hafði beðið um eilíft líf, og eilíft líf skyldi hún fá. Eilíft líf eins og allir aðrir menn áttu í vændum, en ekki eins og tárin gátu gefið. Eilíft líf sem komið undir ræktun andlegra dyggða og eiginleika sem nýtast mundi í samskiptum hennar við aðra menn. Vissulega mundi ýmislegt í fari stúlkunnar breytast. Ef hann gerði stúkunni mögulegt að öðlast eilíft líf, mundi hún missa alla þá yfirburði sem hún hafði haft yfir aðrar mannverur, og verða að venjulegri tólf ára stúlku.

"Samþykkt“ hrópaði hann svo að bergmálaði í turninum.Samþykkt, samþykkt, samþykkt. Eilíft líf er þér hér með veitt, ásamt öllum þeim eigindum sem þú þarf á að halda til að þú getir gert það að hamingjuríku lífi. Lánaðu mér nú svuntuna þína til að bera í fjársjóðinn minn og ég geti haft mig á brott. Engillinn var svo ánægður með þessi málalok að hann langaði til að dansa. Stúlkan virtist líka vera hæst ánægð með kaupin, því hún hló svo að spékopparnir í kinnum hennar dýpkuðu um helming. stúlka og einhurningur"Ég hef eignast eilíft líf, eilíft líf, eilíft líf.“ sönglaði hún um leið og hún sópaði engiltárunum saman í svuntu sína, batt hana saman á hornunum og smeygði henni upp á gullið horn einhyrningsins.„Vertu blessaður ágæti einhyrningur, eða hvað sem þú raunverulega ert, og þakka þér kærlega fyrir,“sagði hún svo og opnaði dyrnar og hleypti einhyrningnum út. Í þann mund brutust fyrstu geislar morgunsólarinnar upp yfir fjöllin og fyllti dalinn af sólstöfum."Ég sé enga ástæðu til að dveljast lengur á þessum stað“, sagði stúlkan allt í einu,„og það er langur vegur til byggða. Má ég ekki sitja á baki þínu þar til leiðir skiljast, svona í kaupbæti, ágæti einhyrningur?“"Hoppaðu þá á bak og ég skal reiða þig út úr dalnum, en þá verð ég líka að snúa aftur,“ svaraði einhyrningurinn. Stúlkan stökk á bak honum umyrðalaust og saman héldu þau út eftir dalnum, og skildu eftir sig slóð í morgundögginni. Ég er svo hræðilega svöng, hugsaði litla stúlkan um leið og hún teygði sig í stórt rautt epli, sem óx á voldugri eik á leið þeirra. Það er einkennileg tilfinning að vera svöng“ sagði hún um leið og hún beit í eplið og hottaði á einhyrninginn.

Aðfangadagskvöld allra heilagra messu.

halloween-eveSenn líður að messu allra heilagra sem haldin er samkvæmt hefðum þann 1. Nóvember og í kjölfar hennar; "Allra sálna hátíðin" sem er haldinn 2. Nóvember.

Aðfangadagskvöld allra heilagra hátíðarinnar sem haldin er 31. Október er að sjálfsögðu betur þekkt undir ameríska nafninu Halloween.

Bæði messa Allra heilagra og Dagur allra sálna eru kaþólskir helgidagar, en aðfangadaginn ber upp á hátíð sem á rætur sínar að rekja alla leið aftur til forn Kelta og nefndist þá Samhain hátíðin. Samhain (trúlega samstofna íslenska orðinu "sumar")  var lokadagur sumars þar sem tvær megin árstíðirnar vetur og sumar mætast. 

Það var Gregory IV páfi (827-844) sem flutti dag Allra heilagra, sem var sameiginlegur dagur allra dýrlinga sem ekki áttu sér þegar sérstakan dag, frá 13 Maí til 1. Nóvember og hafði þá líklega í huga að velja dag sem ekki var helgidagur fyrir eins 13. Maí sem var forn Rómverskur helgidagur kenndur við Lúmeríuhátíðina.

lakshmi_litAðfangadagskvöld allra heilagra messu (Halloween) sem hefur til skamms tíma verið kallað á íslensku "Hrekkjavaka" svipar mikið til Jónsmessunætur og þrettánda dags jóla. Sem kunnugt er er það sá tími þegar álfar og huldfólk og aðrar vættir eru á sveimi öðrum tímum fremur og menn eru líklegri til að sjá þær og hafa við þær samskipti. 

Á "hrekkjavökunni" eru draugar og yfirnáttúrulegar verur sagðar á ferð og mörk þess sem er raunverulegt og óraunverulegt færast úr stað. Haldið er upp á kvöldið í Bandaríkjunum, Kanada, Írlandi, Puerto Rico, Japan, Nýja Sjálandi, Bretlandi og sumstaðar í Ástralíu. Í Svíþjóð er Allraheilagra messa haldin hátíðleg fyrsta laugardag í Nóvember.

73620-004-729B98ABÍ Bandaríkjunum ber Hrekkjavökuna upp á svipaðan tíma og grasker verða fullþroska. Úr þeim er gjarnan gert ljósker og skrumskælt andlit skorið út úr kerinu. Þá er einnig siður barna að klæðast grímubúningum og fara hús úr húsi til að snýkja sér sælgæti.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband