Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Eru sjálfsvíg "smitandi" ?

Lucy Gordon ein efnilegasta leikkona Breta framdi sjálfsvíg um nótt eina fyrir nokkrum dögum. Lucy bjó ásamt kærastanum sínum í leiguíbúð í París og það var hann sem fann hana þegar hann vaknaði um morguninn hangandi í reipi sem hún hafði bundið utan um bjálka í loftinu. Lucy var lucygordonfourfeathersint28 ára þegar dún dó, jafngömul og mótleikari hennar í kvikmyndinni "Fjórar fjaðrir"(2002) Heath Ledger þegar hann lést, einnig á válegan hátt,  í búð sinni í New York á síðasta ári.

Lucy hafði nýlokið við að leika  kvikmyndinni Serge Gainsbourg, vie héroïque, sem er um ævi og starf franska tónlistarmannsins Serge Gainsbourg. Þar fór hún þar með hlutverk hinnar bresku ástkonu Serge, Jane Birkin. (Frægasta lag hans er án efa "Je t'aime... moi non plus," 1969,  þar sem Serge og Jane stynja saman eins og í ástaratlotum en lagið var upphaflega tekið upp með Brigitte Bardot.)

heathLedgerSvipað og hjá Heath Ledger var ferill Lucy rétt að byrja. Eftir farsælan feril sem fyrirsæta hóf hún að leika í kvikmyndum. Árið 2007 lék hún fréttakonuna í Spiderman og 2008 fór hún með stórt hlutverk í hinni stórgóðu mynd Frost.

Samkvæmt heimildum frá foreldrum og vinum, virtist allt leika í lyndi hjá Lucy. Skýringar á framferði hennar liggja ekki á lausu. Það eina sem komið hefur fram er að nýlega fékk hún slæmar fréttir að heiman. Vinur hennar hafði framið sjálfsvíg. Vangaveltur fólks ganga út á hvort þessar fréttir hafi haft svona mikil á hrif á Lucy að hún hafi ákveðið að taka sitt eigið líf.

Læknar og sáfræðingar hafa lengi haldið því fram að sjálfsvíg geti verið "smitandi", sérstaklega á meðal ungs fólks. Mikið er til af dæmum um að ungmenni fremji sjálfsvíg í "öldum" og oft verði fréttir af sjálfsvígum til að aðrir herma eftir.

werther_color-798085Þetta er alls ekki nýtt fyrirbrigði. Þvert á móti er þetta kallað "Werther heilkennið" eftir skáldsögu Goethe  Die Leiden des jungen Werther  (Sorgir hins unga Werther) sem kom út árið 1774. Í kjölfarið bókarinnar áttu sér stað fjöldi sjálfsvíga meðal ungmenna í Evrópu og í sumum löndum var bókin bönnuð til að vernda hina viðkvæmu.

Miðað við rannsóknir sem hafa verið gerðar í Bandaríkjunum er tvisvar til fjórum sinnum meiri hætta á að unglingar á aldrinum 15-19 ára verði fyrir smitáhrifum af fréttum um sjálfsvíg. Þá er það einkum athyglisvert að sumar kannanir hafa getað sýnt fram á tengsl milli þess hversu oft fréttir eru sagðar af sjálfsvígum og tíðni sjálfsvíga í kjölfarið. Til dæmis kom í ljós þegar að frægur aðili Austurríki framdi sjálfsvíg með  skotvopni og um það var fjallað ýtarlega í slúðurblaði einu, mátti rekja sjálfsvígsölduna sem á eftir fylgdi til sömu slóða og dreifing blaðsins var sem mest. 

Þá er einnig ljóst að sjálfsvíg þekktra einstaklinga er fjórtán sinnum líklegra til að verða til þess að aðrir hermi eftir en þegar óþekktir einstaklingar eiga í hlut. 

Þrátt fyrir að sjálfsvígsöldur meðal unglinga fái yfirleitt meiri umfjöllun en önnur sjálfsvíg, eru þau tiltölulega lítill hluti af heildarmyndinni. Fjárhagslegar aðstæður, aldur og heilsa eiga mun meiri þátt en eftirherma eða "smit".

Á Vesturlöndum hefur t.d. sjálfsvíg ungra manna farið hraðfækkandi frá 1970 og er á það bent að almenn velmegun  eigi sinn þátt í því. Það sama er að segja um sjálfvíg kvenfólks, þótt munurinn sé minni.


Hefur ekki baðað sig í 35 ár

Kailash_Kalau_SinghHann heitir  Kailash ‘Kalau’ Singh og er frá litlu þorpi skammt frá hinni "helgu borg" Varanasi á Indlandi. Hann er 63. ára og faðir sjö dætra. Hann hefur ekki þvegið sér eða baðað sig í 35 ár vegna þess að honum langar til að eignast son. (Af þessari nýlegu mynd að dæma er hér kannski komin góð aðferð til að halda sér ungum. Singh lítur ekki út eins og 63 ára gamall maður)

Madhusudan, einn af nágrönnum Singh, segir að sjáandi nokkur hafi mælt svo fyrir um að ef Singh baðaði sig ekki, mundi honum auðnast að geta sveinbarn með konu sinni.

younggirlsMargir Indverjar óttast um afkomu sína ef þeir eignast ekki syni til að sjá fyrir þeim í ellinni. Greiða verður heimamund með stúlkum þegar þær giftast og allt sem þær vinna sér inn, rennur til fjölskyldu bónda þeirra. Stúlkubörn eru því álitin byrði frekar en blessun.

Í 35 ár hefur herra Singh ekki baðað sig, en þrátt fyrir þessa einlægu viðleitni hefur hún ekki borið árangur. Herra Singh á enn engan son.

Óhreinlætið hefur verið honum dýrkeypt. Fyrrum átti hann matvöruverslun en fór á hausinn með hana þegar kúnnarnir hættu að koma vegna þess hversu illa hann lyktaði. Í dag vinnur hann sem daglaunamaður á ökrunum í kringum þorpið þar sem hann býr. Fjölskylda hans hefur líka útskúfað honum fyrir að vilja ekki undirgangast hefðbundin böð í ánni Ganges, jafnvel ekki eftir dauða bróður hans fyrir fimm árum.

Þótt nágranni Singh segi að svona sé sagan, segist hann sjálfur ekki muna hvernig óhreinlætiseiðurinn er til kominn. Stundum segist hann gera þetta í þágu þjóðarinnar. "Ég mun enda eið minn þegar öll vandmál þjóðarinnar hafa verið leyst" er haft eftir herra Singh.

2749296559_f386b365c3Þótt Singh neiti að baða sig upp úr vatni eða þvo sér, iðkar hann eldböð. Eldbað fer þannig fram að hann stendur á einum fæti nálægt litlum eldkesti, reykir maríjúana og fer með bænir til drottins Shiva. Hann segir að eldsböð séu alveg jafn góð og vatnsböð því eldurinn drepi allar bakteríur og veirur.

Herra Singh þrífur að sjálfsögðu heldur ekki tennur sínar.

Miðað við ástandið á honum er í sjálfu sér ekki undravert að hann hafi ekki eignast sveinbarn. Það sem er undravert er að hann hafi yfirleitt getið af sér börn.


Hvernig vinkona á móðir að vera dóttur sinni?

1316901660_9e65407e9bHversu mjög hafa ekki hefðbundin tengsl mæðra við dætur sínar raskast í nútíma samfélagi þar sem æskudýrkun eru hin nýju trúarbrögð. Þau trúarbrögð eru kennd í fjölmörgum drasl-sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, tímaritum og dagblöðum þar er hin fullkomna kvenlega ímynd birtist sem ungt og magurt kynferðislegt rándýr.

Það er ekki nóg að ungar stúlkur hljóti varnalegan sálarkaða af þessum heilaþvotti því mikill fjöldi mæðra ungra stúlkna hefur tekið trúna og fórna þar með þörfum dætra sinna fyrir það sem þær skynja sem sínar eigin þarfir. Þær virðast trúa því að æsku-elexírinn sé raunverulega til og að ekkert standi á móti því að þær taki hann inn í hvaða formi sem þeim þóknast.

article-1183868-04FAF579000005DC-958_196x661article-1183868-04FAF8F2000005DC-95_196x661article-1183868-04FAF8FA000005DC-891_196x661Bótoxaðar í framan eins og hrædd harðsoðin egg og í g-streng sem þær eiga í erfiðleikum með að finna þegar þær afklæðast eða fara á salernið, reyna þær að herma eftir öllu  sem er ungt.

Þetta eru konurnar sem segjast vera "bestu vinkonur" dætra sinna og "deila öllu með þeim."  - Ekki af því að dæturnar séu sérstaklega andlega bráðþroska, heldur vegna þess að mæðurnar virðast þurfa að sanna fyrir sér og öðrum að þær hafi sjálfar hætt að þroskast og séu enn 17 ára inn í sér.

Klæðaburður þeirra og farðanotkun bendir  til að þær hafi ekki áttað sig á að hverju aldurskeiði tilheyrir ákveðin stíll. Ég er ekki endilega að tala um Bridget Jones naríur, heldur að klæðnaðurinn sé í einhverju samhengi við aldur og vaxtarlag. Þær hafa heldur ekki áttað sig á því að hverju aldurskeiði fylgir ákveðið hlutverk sem er nauðsynlegt að rækja til að samfélagið lendi ekki í upplausn.

article-1183868-04FAF929000005DC-425_196x653article-1183868-04FAF91E000005DC-107_196x653article-1183868-04FAF943000005DC-996_196x653Stúlkur þurfa fyrirmyndir, sallarólegar mæður og frænkur sem geta hlustað, talað af reynslu og sýnt þeim stuðning án þess að vera með stöðugan samanburð í gangi.

Mæður verða að skilja að þeirra æskufegurð og blómatími er liðinn.  Og jafnvel þótt þær séu einhleypar og eigi eitt eða tvö hjónabönd að baki, ættu þær í samræðum sínum við dætur sínar að forðast klisjur eins og; "Já, gvuð ég veit, þetta er alveg eins hjá mér. Karlmenn...þeir gera mann brjálaðan"

Rétt eins og unglingsárin séu ekki nógu erfið fyrir stúlkur nú til dags, án þess að þurfa að horfa á miðaldra mömmur sínar á yfirvofandi breytingarskeiði, reyna að haga sér og tala við þær eins og eldri systur þeirra frekar en mæður og leiðbeinendur.

Mér finnst það hafa færst mikið í vöxt síðustu ár að konur vilja hvorki horfast í augu við aldurskeið sín eða þau hlutverk sem þeim fylgja. Í staðin reyna þær eins og vampírur að sjúga blóð hinna ungu til að halda sér gangandi. Og þetta er því miður smitandi. Ungar stúlkur sem gjarnan skrifa til kvennadálkahöfunda greina í auknum mæli frá þeim óskum sínum að vilja helst aðeins ala af sér stúlkubörn svo þær geti eignast vinkonur til lífstíðar. 


Grísa-Ólympíuleikarnirnir í hættu vegna svínaflensunnar?

pig_olympics_2sfwAuðvitað óttast maður að svína-flensan komi til með að hafa áhrif á  grísa-ólympíuleikana sem halda á í ár í St. Louis í Bandaríkjunum. (Ekki rugla saman við Nag-grísa leikana frægu)

Síðast voru leikarnir haldnir 2006 í Rússlandi og þar áður 2005 í Kína.

Á síðustu leikum tóku þátt 12 grísir frá sjö löndum og þá var keppt í grísakapphlaupi, grísakappsundi og grísabolta. Reglur grísaboltans eru afar áþekkar og þær sem notast er við í mennskum fótbolta.

Um hálsinn á hverju grís er bundinn númeraður smekkur og síðan er það rekið inn á leikvanginn, venjulega rýtandi.

98687774_6bd77b4905Sigursælustu grísirnir í Moskvu voru Mykola frá Úkraníu, Nelson frá Suður-Afríku og heimagrísinn Kiostik.

Fyrst var keppt í stuttu hlaupi en þá voru grísirnir reknir áfram af húsbændum sínum sem pískuðu þá áfram.

Þá tók við Grísaboltinn. Skipt var í tvö lið, fimm grísir í hvoru liði og þeir eltust við bolta sem ataður var lýsi. 

Grísasundið var ný keppnisgrein á síðustu leikum, en þá var reynt að fá  grísina til að synda frá einum enda til annars í lítilli laug. Þeir höfðu samt meiri áhuga á að snefsnast utan í hvor öðrum og flækja sig í böndunum sem skildu að brautirnar í lauginni.

Pig swimming

Alexei Sharshkov, sem er varaforseti íþróttagrísa sambandsins sem telur innan sinna vébanda um hundrað grísaeigendur, fullvissaði áhorfendur um að engin grísanna mundi verða etin í bráð. Ætlunin væri að nota þá til undaneldis til að framleiða fleiri afburða keppnisgrísi.

"Hvernig er hægt að borða keppenda sem er frægur um allan heim" sagði hann í viðtali.


Kettir eru drullusokkar

fat20cat_2Já, þar hafið þið það svart á hvítu, kettir eru drullusokkar. Ef að köttur væri maður, mundi hann láta þig kaupa bjórinn allt kvöldið og  sofa síðan hjá konunni þinni. -

Ef köttur væri glæponi (og flestir þeirra eru það) mundi hann láta þig um að grafa göngin, sprengja peningaskápinn, bera út seðlana, stinga síðan af með þá og lát lögregluna hirða þig.

Ef kettir væru lífverðir, mundu þeir sitja með krosslagðar fætur, malandi upp í turninum og horfa á fólk drukkna í sjónum við ströndina. (þeir eru jafn hræddir við vatn og blóðsugur eru við dagsbirtu - tilviljun?)

Þegar þú situr í stofunni og ert að horfa á sjónvarpið og kötturinn kemur inn með dauðan fugl í kjaftinum eða rúllar hálfdauðri mús á undan sér inn ganginn, og einhver hálfvitinn segir; "Ó sjáðu, hann er að færa þér gjöf",  þá hefur hann rangt fyrir sér. 

cats+with+sunglassesKettir færa fólki ekki gjafir. þeir kaupa ekki blóm eða bjóðast til að hjálpa til með að borga húsaleiguna. Köttum er skítsama um fólk. Ef þeir gætu fundið leið til ýta öllu fólki niður í gjósandi gíg og um leið verið vissir að þeir gætu sjálfir opnað  dósirnar með kattamatnum, mundu þeir gera það. -

En hvers vegna eru þeir að koma með dauð smádýr inn í húsið? Jú, þeir vilja að þú matreiðir þau fyrir sig. Og á meðan þú ert að því, áttu líka að sauma handa þeim litlar músskinsbuxur og setja spörfuglsfjaðrirnar í hattinn þeirra. Drullusokkar!

myspace-cats-images-0005Hálfvitarnir halda einnig fram að kettir séu gáfaðir. Höfrungar eru kannski gáfaðir en ekki kettir. Hér er einfalt próf til að sannreyna það. Lokaðu útidyrunum og öllum gluggum. Lokað líka kattarlúgunni. Settu aukalykilinn af útidyrunum upp á stól í eldhúsinu og segðu kettinum frá því. Farðu svo út og læstu útihurðinni á eftir þér og fljúgðu burtu í þriggja mánaða frí til Flórída. Þegar þú kemur aftur, Hvort er líkalegast;

að þú finnir útidyrnar opnar upp á gátt og að það sé búið að stela öllum þínum eigum, -

eða; að í anddyrinu  þér mæti hópur ánægðra en breima læða, -

eða; undir stól í eldhúsinu finnir þú beinagrind af ketti?

 


Heldri bloggarar

bloggersÉg hef lengi verið að hugsa um að skrifa pistil um Félag heldri bloggara á blog.is en einhvern veginn ekki komið mér að því fyrr en nú. Ég hef sterkan grun um að ástæðan fyrir þessu framtaksleysi sé sú, að þetta ágæta félag er ekki til.

Það ætti að vera til og gæti orðið til, en mér vitanlega hefur það ekki verið stofnað enn.

Félag heldri bloggara gæti starfað mjög svipað og önnur menningarfélög. Félagar kæmu saman einu sinni tvisvar á ári, til að sýna sig og sjá aðra, hvetja hvern annan til dáða og klappa hverjum öðrum á bakið.

Eða kannski er þetta bara gömul hugmynd sem ég greip út úr ljósvakanum, og sem löngu er búið að afgreiða sem dauðadæmt rugl.


Íslendingar taka gleði sína á ný

article-1081683-02EE7F5100000578-812_468x286Það er alltaf gott að fá góðar fréttir að heiman. Vissulega, svona rétt fyrir og eftir að landið fór á hausinn (eins og útendingar tala um það) voru tíðindin fá sem virkilega glöddu litla stolta íslenska hjartað. Drungi virtist leggjast yfir þjóðina, af fréttum að dæma og sumum var svo misboðið að þeir fóru út að berja búsáhöldin sín í mótmælaskyni.

Nú hafa Íslendingar greinilega heldur rétt betur úr kútunum. 88% þjóðarinnar segist samkvæmt nýjustu könnunum vera mjög ánægt með líf sitt. Margt bendir til að þetta sé satt og landið, þjóðin og þingið sé aftur búin að finna fjölina sína eins og þeir segja í handboltanum. Kunnuglegt karp í þingsölum, dægurhjalið á blogginu og Silfur Egils aftur orðið leiðinlegt.

Spurning hvort nokkuð hafi bjátað á hjá fólki yfirleitt, ég meina svona innast inni þar sem þeir eru mest hamingjusamir, þegar þeir sögðu allt vera að fara fjandans til. Satt að segja efast ég um að hamingjusveiflurnar geti verið svona djúpar og háar á stuttum tíma. Nem að Íslendingar séu svo æðrulausir að þeir halda hamingju sinni sama hvað á gengur. Það er örugglega langlíklegasta skýringin. Já Einmitt.

Lengi lifi Ísland, hamingjusamasta þjóð í heimi


Að hagnast á raunum annarra

Jake og Julie móðir hans 2004Jake Myerson er í dag rétt um tvítugt. Þegar hann var unglingur reykti hann kannabis í miklum mæli. Móðir hans þoldi ekki ástandið á drengnum og rak hann burtu af heimlinu. Um tíma var hann útigangur en fékk svo inni á heimili vinar síns.  Nú hefur Julie móðir hans skrifað bók um líf og neyslu Jakes og hvernig hann rústaði lífi sínu og fjölskyldunnar. Bókin heitir "The lost Child".  

Þegar að Jake las handrit móður sinnar, sá hann að í bókinni er hann niðurlægður með ýmsum hætti. Hann lagðist því gegn útgáfu hennar. Móðir hans telur aftur á móti að bókin geti orðið til að hjálpa fólki sem á við svipuð vandamál að stríða.

Fjölmiðlar í Bretlandi velta fyrir sér hvort hér sé enn einu sinni verið að gera einkamál fjölskyldu að fjölmiðalmat í gróða skini þar sem peningarnir eru raunverulega aðalatriðið en afsökunin sé almannaheill.

Meira hér

 


Eldri feður eignast heimskari börn

Gamall faðirEftir því sem vísindin færa okkur meiri þekkingu breytist samfélag okkar, næstum því án þess að við tökum eftir því.

Fólk talar um að ýmis viðmiðunarmörk á æviferlinum hafi raskast og breyst þannig að fólk geti í dag t.d. átt fyrri og seinni starfsferil og stofnað fyrri og seinni fjölskyldu o.s.f.r.

Eftir því sem langlífi verður algengara, gerir fólk kröfur til þess að lifa lífi sínu sínu eftir eigin vali og skipulagi, frekar en náttúrulegu vali eins og áður virtist ráða. 

En eitthvað hefur náttúran sjálf  verið sein að átta sig á þessum nýungum í lífshlaupi hins vestræna nútíma-manns því í ljós hefur komið að það er ekki bara aldur mæðra sem getur ógnað heilsu afkvæma þeirra, heldur er hætta á að börn eldri feðra verði ekki eins gáfuð og börn yngri manna.

Að auki eru börn eldri karlmanna (eldri en 40 ára) líklegri til að fá allskonar sjúkdóma, bæði andlega og líkamlega. Helsta ástæðan er sögð að stökkbreytingar í litningum sæðis karla, hlaðast upp með aldrinum og  valdið þessum einkennum í börnunum þeirra.

Slíkar eru alla vega niðurstöður rannsókna sem nú eru kynntar okkur. hér, hér og hér


Skautar, skíðasleðar og paradís

Þegar nýbyggingar fóru að rísa ört í Keflavík upp úr 1960 varð bærinn frægur fyrir alla drullupollana sem mynduðust við jarðrask og framkvæmdir í bænum. Þegar ég var átta ára, árið 1962, gekk í garð kaldasti vetur sem ég hef upplifað og allir pollar í bænum botnfrusu og héldust frosnir í margar vikur. Þetta var veturinn sem ég fór í fyrsta sinn á skauta.

natoTil að byrja með stalst ég á skauta eldri systur minnar, en sá fljótlega að það mundi ekki ganga til lengdar, hún alveg brjáluð yfir því að ég "skældi" skautana og svo voru þeir líka hvítir.

Eftir talvert þref í mömmu, fékk ég loks svarta skauta, (notaða að sjálfsögðu) og þá hófust æfingarnar fyrir alvöru. Upp úr flestum stærri pollunum stóðu steinsnibbur sem gerðu alvöru skautamennsku á þeim erfiða.

Þá var líklega ekki byrjað að úða vatni á fótboltavöllinn eins og gert var í seinni tíð svo ekki var annað til ráða enn að paufast upp "í heiði";  fram hjá vatnstönkunum báðum sem stóðu fyrir ofan bæinn, framhjá brennustæðunum okkar þar sem við hlóðum veglega kesti fyrir hvert á gamlárskvöld og áfram í vesturátt alla leið upp að "Vötnum." Það sem við kölluðum "Vötn" voru reyndar tvær litlar tjarnir skammt ofan við Keflavíkurkaupstað og var önnur þeirra, sú stærri,  innan flugvallargirðingarinnar og því á yfirráðasvæði Kanans.

Í daglegu tali var greint á milli tjarnanna og  þá talað um Litlu og Stóru Vötn. Rétt nafn þessara tjarna ku vera Róselsvötn og eru þau kennd við sel sem í fyrndinni stóð þarna í grenndinni.

Það var auðvitað mest spennandi að skauta á "Stóru Vötnum", því þá var maður líka að brjóta lögin með því að fara inn fyrir girðinguna. Á góðum degi eftir skóla var saman komin þarna tjörnunum þorri krakka bæjarins á skautum og skíðasleðum. (Þotur þekktust ekki) Sumir áttu hvorugt en drösluðu upp eftir með sér pappakössum sem þeir rifu niður í ræmur og skelltu undir magann um leið og þeir skutluðu sér á svellið eftir langt tilhlaup.


Skíðasleðarnir virkuðu illa í mjúkum snjó, en á svelli eða hjarni voru þeir frábærir. Það var líka kostur við þá að það mátti setja á þá yngri bróður eða systur, (sem maður var oftast neyddur til að hafa með) og koma þeim fyrir í sætinu framan á sleðanum. 

SkíðasleðiSkíðasleðar voru afar vinsælir þennan vetur, sérstaklega í skrúðgarðinum í Keflavík, sem var einn af fáum stöðum þar sem brekku var að finna í kaupstaðnum.  Skíðasleðana mátti líka tengja saman í lestar þegar brunað var niður á móti, en þá þurfti oft lítið út af bera til að allir lentu ekki í "klessu" eins og það var kallað.

Upp úr "Stóru Vötnum" stóðu tveir nokkuð stórir steinar. Þeir sem voru komnir upp á lag með að standa almennilega á skautunum, spreyttu sig á því að stökkva yfir steinanna einn af öðrum, en bilið á milli þeirra var of langt til að það væri hægt að stökkva yfir þá báða. Þrátt fyrir að það væri augljóst, gerðu margir tilraunir til þess, þar á meðal ég. 

Á svelliÉg uppskar aðeins auman skrokk, marða fótleggi og tvö göt á hausinn. Í seina skiptið fékk ég gat á hnakkann sem blæddi talsvert úr, án þess að ég yrði þess var. Því varð móðir mín þegar heim var komið löngu seinna, að þýða lambhúshettuna varlega af hausnum á mér með volgu vatni.

Eins og fyrr segir, þurfti að skríða undir flugvallargirðinguna til að komast upp að Stóru Vötnum. Þegar þangað var komið var aðeins stuttur spölur til paradísar fyrir gutta eins og mig og félaga mína. Paradís þessi var samsett úr gömlum aflóga herflugvélum og í daglegu tali nefnt "flugvélahaugarnir."

FlugvélahaugarStundum enduðu skautaferðirnar á því að það var laumast yfir á hauganna og gramsað þar í "kanaflugvéladóti" fram í myrkur. Af og til óku fram hjá flugvélunum gráir pallbílar með gulum sírennuljósum sem voru okkur algjör nýlunda. Þá var nauðsynlegt fyrir þann sem settur hafði verið "á vaktina" að gefa merki svo allir gætu falið sig á meðan bílinn ók framhjá, (líklega á leið til Rockville.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband