Færsluflokkur: Bloggar
27.11.2008 | 20:41
Svindl, svik og prettir
Hann varð frægur fyrir svindl sín og pretti á fyrrihluta síðustu aldar og vann sér m.a. til sinnar vafasömu "frægðar" að selja Eiffel turninn í París og svindla talverða upphæð út úr einum þekktasta glæpamanni allra tíma; Al Capone.
Victor Lustig var fæddur í Bóhemíu 1890. Það fer fáum sögum af uppvexti hans eða æskuárum. Honum skýtur upp í mið-Evrópu skömmu eftir heimstyrjöldina síðari, að því er virðist þegar fullharðnaður glæpamaður.
Fyrsta svindl Lustigs var svo kölluð "peninga-prentvél." Hún minnir um margt á viðskiptahætti íslenskra banka í seinni tíð. Vélin sem Lustig seldi venjulega fyrir 30.000 dollara, stórfé á þeim tíma, var svartur kassi. Þegar hann sýndi kassann, kvartaði hann mikið yfir því hversu hæggeng vélin væri því það tæki hana sex tíma að prenta einn hundrað dollara seðil. Það virtist ekki letja gráðuga viðskiptavini Lustigs sem eftir að hafa keypt vélina horfðu á hana spýta úr sér tveimur hundrað dollara seðlum yfir næstu tólf tímana. En eftir það komu úr henni aðeins auðir pappírssneplar. Þegar að kaupendur vélarinnar gerðu sér loks grein fyrir að þeir höfðu verið illilega gabbaðir, var Lustig auðvitað hvergi að finna.
Á árunum eftir heimstyrjöldina fyrri, voru miklir uppgangstímar í Frakklandi. Dag einn árið 1925, las Lustig blaðagrein um hversu erfitt það væri fyrir yfirvöld að standa straum af viðhaldi Eiffel turnsins. Turninn hafði ekki verið málaður nýlega og leit afar illa út. Hjá Lustig fæddist hugmynd sem hann hrinti fljótlega í framkvæmd.
Hann lét útbúa fyrir sig bréfsefni með haus ríkisins og sendi síðan eigendum sex járn og stál endurvinnslu fyrirtækjum boð um að hitta sig á tilteknum tíma á einu flottasta hóteli París borgar Hotel de Crillon. Lustig kynnti sig fyrir þeim sem skrifstofustjóra póst og fjarskipta ráðuneytisins. Hann sagði hinum sex virtu fyrirtækjaeigendum að þeir hefðu verið valdir til að bjóða í ákveðið verkefni á vegum stjórnvalda, vegna þess hve gott orð fór af þeim og starfsemi þeirra. Að svo mæltu hóf Lustig að skýra hversu erfitt væri fyrir yfirvöld að standa straum af viðhaldi Eiffel turnsins og nú væri svo komið að ákveðið hafi verið að rífa turninn og selja efnið í brotajárn. Það yrði að ganga að þessu fljótt og snurðulaust því annars mundi almenningur e.t.v. reyna að koma í veg fyrir verkið og þess vegna væri líka nauðsynlegt að halda málinu leyndu. Lustig sagði að sér hefði verið falin umsjá verkefnisins og að finna fyrirtæki sem gæti unnið verkið.
Árið 1925 var þessi hugmynd kannski ekki eins fjarri raunveruleikanum og hún virðist í dag. Eiffel turninn var reistur í miðborg Parísar árið 1889 fyrir heimssýninguna sem þar var haldin sama ár. Honum var ekki ætlaður varanlegur staður þar sem hann stendur og yfirgnæfir aðrar byggingar og merk minnismerki eins og Sigurbogann og Gotnesku dómkirkjuna. Ætlunin var að taka turninn niður árið 1909 og endurbyggja hann á minna áberandi stað.
Lustig gaf sér góðan tíma til að mæla út hver fyrirtækjaeigendanna væri líklegastur til að bíta á agnið en bað um að tilboðum yrði skilað daginn eftir fundinn. Þá þegar hafði Lustig ákveðið fórnarlambið. Andre Poisson var greinilega þeirra óreyndastur og virtist ekki eiga heima meðal hinna kaupsýslumannanna. Að landa slíkum samningi og nú var í boði mundi lyfta honum upp um nokkur sæti í viðskiptaheiminum.
Þrátt fyrir að eiginkona Poissons hefði ákveðnar efasemdir um hvernig staðið var að útboðinu, náði Lustig að róa hana. Hann fullvissaði Poisson hjónin en frekar þegar hann trúði þeim fyrir því að hann hefði ákveðnar "umfram væntingar" til útboðsins þar sem hann mundi velja það fyrirtæki sem væri til í að umbuna hinum sjálfum fyrir vikið. Poisson var vanur að eiga við lágt setta undirmenn sem auðvelt var að múta til að hagræða verkefnum og því fannst honum Lustig hljóma afar sannfærandi.
Að svo búnu voru Lustig afhentir peningarnir fyrir "brotajárnið" og múturnar að auki. Með peningana í ferðatösku tók hann næstu lest til Vínar ásamt "ritara" sínum Robert Arthur Toubillion (fransk-amerískum svindlara) sem einnig var þekktur undir nafninu Dan Collins.
Þrátt fyrir að vera svona illa svikinn fannst Poisson svo skammarlegt að hann hafði látið blekkja sig, að hann kærði ekki Lustig til lögreglunnar. Mánuði síðar snéri Lustig aftur til Parísar og reyndi sama leikinn aftur við sex aðra kaupsýslumenn. Í þetta sinn þóttist einn þeirra greina óhreint mjöl í pokahorninu og kallaði til lögreglu. Bæði Lustig og Collins tókst samt að komast hjá handtöku.
Það leið ekki á löngu uns Lustig ákvað að reyna fyrir sér í Bandaríkjunum. Hann fékk hinn fræga gangster Al Capone til að fjárfesta 50.000 dollara í verðbréfum. Lustig tók peningana og geymdi þá í bankahólfi í tvo mánuði. Að svo búnu tók hann þá aftur út og afhenti Al Capone þá. Hann sagði viðskiptin hafa farið illa en tekist fyrir harðfylgi að bjarga upphaflegu fjárfestingunni. Al var svo hrærður yfir heiðarleika Lustigs að hann gaf honum 5000 dollara.
Árið 1934 var Lustig handtekinn af bandarísku alríkislögreglunni fyrir peningafals. Degi fyrir réttarhöldin yfir honum flýði hann úr fangelsinu í New York þar sem hann var hýstur. Hann náðist 27 dögum seinna í Pittsburgh. Hann játaði sekt sína fyrir dómi og dæmdur til 20 ára fangelsisvistar í Alcatraz. Eftir 14 ára fangavist fékk hann slæma lungnabólgu og lést af henni í fangelsissjúkrahúsinu 11. Maí 1947.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2008 | 13:32
Í ísnum
Einþáttungur
Persónur:
Hann
Hún
Ókunnur maður.
Karlmannsrödd.
Sviðið er afar þröngur íshellir einhverstaðar á Grænlandsjökli. Upp úr snjónum fyrir ofan hellinn sést í brak úr lítilli flugvél.
Hann Mér er kalt
Hún Já. Það er komið að því. Við erum að deyja
Hann Eins og það sé einhver afsökun. Maður er alla ævina að deyja, en það þýðir ekki að manni eigi alltaf að vera svona skít kalt.
Hún Mikið ertu heimskur.
Hann Þú ert bara búin að missa móðinn.
Hún Ég sem hélt að þú værir raunsæismaðurinn.
Hann Á maður ekki að fyllast einhverri ró þegar að dauðinn horfir í augun á manni.
Hún Nei, það gerist ekki fyrr en maður horfir óhræddur til baka.
Hann Ertu þá að stara í glyrnurnar á honum núna.
Hún (Brosir) Já ætli það ekki. Allavega er ég ákaflega róleg.
Hann Fari það í helvíti. Djöfull er kalt. Eigum við ekki að syngja eitthvað.
Hún Ég get ekki sungið meira.
Hann (Byrjar að blístra en getur það ekki) Geturðu þá ekki komið nær.
Hún Til hvers.
Hann Reyna að halda á hvert öðru hita.
Hún Er það ekki fullreynt. Nei. Ég er tilbúin held ég.
Hann Þú varst alltaf tilbúin, nema þegar að ég var tilbúinn. Þá varstu annað hvort farinn eða hreint ekki byrjuð að hafa þig til.
Hún Já og allt það. Við erum búin að fara svo oft yfir þetta. Það er ekkert eftir ósagt.
Þögn
Hann Á hvað ertu að horfa
Hún Bara á snjóinn...snjókornin.
Hann Þau eru allt of mörg greinilega. Eru þau ekki öll eins.
Hún (Hlær) Eins! Þú gekkst í skóla var það ekki. Last bækur.
Hann Jú mikið rétt. Bækur og blöð, allt um frost og snjó.
Hún Æ góði láttu ekki svona. Það vita allir að engin tvö snjókorn eru eins.
Hann Og það sérð þú núna alveg greinilega er það ekki.
Hún Ég sé að þetta er búið.
Hann Er ekkert sem skiptir máli lengur.
Hún Það sem skiptir máli, kemur okkur ekki lengur við.
Hann Þú ert sem sé búin að gefast upp.
Hún Þetta er ekki einu sinni spurning um uppgjöf, heldur að horfast í augu við það sem er.
Hann Er þér ekki lengur kalt.
Hún Auðvitað er mér kalt. Sérðu ekki að ég er að deyja úr kulda.
Hann Er ekki sagt að hugurinn sé það fyrsta sem fer.
Hún Það er svo margt sem er sagt.
Hann Mér finnst ég aldrei hafa hugsað skýrar.
Hún Það er örugglega merki þess að hugurinn er að fara.
Hann Sem þýðir að allt þetta getur bara blekking.
Hún Ég er þreytt. Ég vil ekki að tala meira.
(Það heyrist marra í snjónum)
Hann Hvað er þetta?
Hún Hvað?
Hann Þetta hljóð
Hún Hvaða hljóð, ég heyri bara í vindinum.
Hann Nei, ég heyrði eitthvað.
Hún Hugurinn er að fara eins og ég sagði.
Mannsrödd (Í fjarlægð) Halló, er einhver þarna.
Hann Heyrðir þú þetta ekk?
Hún (Hrópar af veikum mætti) Halló, við eru hér.
Hann(Hrópar líka) Heyrirðu í okkur. Halló.
Mannsrödd (Nálgast) Halló, er einhver hér.
Hún (Hrópar hærra) Halló, Halló.
Hann(Hrópar hásri röddu) Við eru hér.
Mannsrödd (Röddin fjarlægist) Halló er einhver hérna. Halló. Halló
Hann Við erum hér. Ekki fara. Hér. (Reynir að standa á fætur)
Hún Ha. Hall. (Röddin brestur)
Hann (Byrjar að kjökra)
Þögn
Hún Er hann farinn
Hann (Í gegnum kjökrið) Hvað veit ég um það.
Hún Af hverju grætur þú?
Hann Ég er ekkert að gráta. Ég var að reyna að kalla. (Reynir aftur að kalla) Halló!
Hún Hann er farinn
Hann Heyrðir þú ekki örugglega í honum líka.
Hún Hvaða máli skiptir það núna.
Hann Þetta var ekki nein ímyndun hjá mér.
Hún Og hvaða máli skiptir það.
Hann (Reiður) Þú ert ekki dauð enn. Það er svona hugsunarháttur sem drepur okkur.
Hún Hvað erum við eiginlega búin að vera hérna lengi?
Hann (Lítur á úrið sitt) Það er kominn sjötti.
Hún Sjötti.... Manstu þarna þegar að þú sofnaðir og þegar þú vaknaðir aftur hélstu að þig væri að dreyma.
Hann Já, hvenær var það, í gær.
Hún Manstu hvað þú varst hræddur.
Hann Hræddur. Hvenær.
Hún Nú þegar þú vaknaðir og hélst að þig væri að dreyma.
Hann Ég var ekki hræddur, bara dáldið skelkaður. Það er svo vont þegar maður veitt ekki muninn á svefni og vöku.
Hún Jæja skelkaður þá. En þú varst nálægt því að örvænta.
Hann Einmitt. Örvænta, Það hlýtur að hafa verið þarna rétt á eftir að þú öskraðir þig hása. Það var nú ekki gáfulegt.
Hún Ég var að reyna að láta vita af okkur.
Hann Já þegar vitað var að enginn var nálægur til að heyra í okkur. Þú varst bara hrædd. Viðurkenndu það bara.
(Þögn)
Hún Ég, ég , nenni þessu ekki lengur.
Hann Viltu ekki koma til mín.
Hún Var raunverulega einhver þarna uppi áðan.
Hann Nei það held ég ekki. Við erum grafin í fönn einhvers staðar langt upp á Grænlandsjökli.
Hún En heyrðum við ekki örugglega bæði það sama.
Hann Hvað heyrðir þú.
Hún Mann hrópa Halló. Er einhver þarna.
Hann Ég held að ég hafi bara heyrt einhvern hrópa Halló.
Hún En ef þetta er eitthvað rugl, þá er það ansi svipað hjá okkur báðum og svo gerðist það líka samtímis.
Hann Ég trúi bara ekki að við höfum verið svona nálægt því að bjargast.
Hún Stundum er lífið lygilegt.
Hann Djöfull ertu æðrulaus yfir þessu kona. Kannski vorum bara hársbreidd frá því að bjargast.
Hún Já, kannski.
Hann Viltu gera mér greiða.
Hún Ég nenni ekki að færa þér kaffi elskan.
Hann Aaaaa, vorum við ekki búin að ákveða að tala ekki meira um mat.
Hún Kaffi er ekki matur. Hvað viltu annars að ég geri fyrir þig.
Hann Viltu ekki koma. Ég held að ég vilji sofna.
Hún Þú ert að deyja.
Hann Ég ætla bara að sofa svo lítið.
Hún Þá ætla ég að sofa líka.
(Þau hjúfra sig upp að hvert öðru og sofna) (Sviðið myrkvast en birtir svo strax aftur. Við hlið þeirra hjóna liggur ókunnur maður, glaðvakandi.
Hann (Opnar augun fyrst og trúir þeim varla) Hva, hver ert þú? (Maðurinn segir ekkert en brosir breitt) Hvaðan komst þú, hvernig komstu? (Teygir sig og snertir manninn, sprettur svo til þegar að hann finnur að hann er raunverulegur og hrópar.) Hver ertu?
Hún (Vaknar upp við hrópið) Hvað, hver er þetta? Er hann raunverulegur?
Maður Us suss, ekki vera hrædd. Hvað hafið þið svo sem að hræðast.
Hann Eru fleiri á leiðinni.
Maður Nei, ég er einn.
Hún Ertu kominn til að bjarga okkur.
Maður Já, til að bjarga ykkur. (Hlær)
Hann Ertu á einhverju farartæki sem getur tekið okkur öll.
Maður Nei. Ekki beint.
Hún Nú, hvernig komstu þá.
Maður Ég kom eins og vindurinn og smaug svo í gegnum snjóinn líkt og frostið.
Hann Nú þú ert sem sé bara sameiginleg ofskynjun.
Hún Eða kannski er hann dauðinn.
Hann Dauðinn er ekki persóna.
Hún Jæja þá persónugerfingur hans.
Hann Erum við sem sagt dáin.
Maður Nei, ekki alveg, en við dauðans dyr.
Hún Ertu sem sagt kominn til að taka okkur héðan.
Maður Nei, það ætla ég ekki að gera.
Hann Hvað þá
Maður Hvert ætti ég svo sem að taka ykkur.
Hann Nú, þangað sem dáið fólk fer.
Maður Það fer ekki neitt.
Hún Ertu að segja að eftir að við deyjum verðum við áfram hérna.
Maður Það má segja að ég sé að segja það já.
Hann Mér er hætt að vera kalt.
Hún Já ég veit, en samt.
Hann Ertu þá bara að látra okkur vita að við séum að deyja. Við vissum það nú fyrir.
Maður Nei þið bara hélduð það. Nú eftir að ég kom vitið þið það fyrir víst.
Hún Ég var alveg viss.
Maður Jæja þá er komið að þessu
Hann (Hlægjandi) Hverju,að deyja.
Maður Já
Hún Mér finnst ég vera meira lifandi en nokkru sinni eftir að við lentum hérna. Bara hress.
Hann Ég líka. Svefninn hefur endurnært okkur.
Maður Þetta er í bara dauða-tifinningin sem er að koma yfir ykkur. Dauðateygjurnar eins og sumir kalla það.
Hann Það getur bara ekki verið, ég er svo fjári hress.
Hún Ef þetta er að deyja, er það ekki svo slæmt.
Maður Þetta er að deyja.
(Þögn og rýmið utan um þau hverfur)
Hann Erum við dáin.
Maður Já
Hann (Hlær) Þetta er nú bara fyndið.
Hún Ég ætla að prufa að klípa mig. Ef ég er dáin get ég ekki fundið til, er það. (Klípur sig, finnur ekkert, klípur sig aftur og svo hann) Finnur þú eitthvað.
Hann Þetta er nú ekkert að marka. Við erum svo dofin af kulda að við finnum ekkert fyrir svona smá klípum.
Hún Einmitt. Og ef við erum dáin, hvað ert þú að hangsa hér. Er ekki nóg af fólki að deyja þessa stundina sem þú átt að vera að sinna.
Maður Ég er að fara. Ætlaði bara að vera viss um að þið væruð búin að átta ykkur.
Hann Átta okkur. Á hverju eigum við að átta okkur.
Maður Á að þið séuð dáin.
Hún Bíddu nú við. Það er eitthvað í gangi hérna sem ég ekki skil. Við erum sem sagt dáin, en finnst við vera lifandi eða hvað.
Maður Þið eruð dáin.
Hann Auðvitað. Erum við sem sagt núna í lífinu eftir dauðann.
Maður Já.
Hún Og hvar er þá þarna eh, himnaríki.
Maður (Hlægjandi) Afsakið, en ég fer alltaf að hlægja þegar fólk spyr að þessu.
Hann Hvað er svona hlægilegt, erum við kannski ekki nógu góð fyrir himnaríki.
Maður Heldurðu að þú sért á leiðinni til helvítis kannski (Hlær meira)
Hann Af hverju ertu þá að hlægja
Hún Heldurðu að við séum einhverjir kjánar.
Maður (Stendur upp og gengur rólega af sviðinu) Nei, nei, þið misskiljið þetta eins og flestir. Þið eruð ekki að fara neitt, ekki á neinn stað. Finnið þið ekki hvað allt er,,, segjum óraunverulegt. Eins og í draumi..
Hún Er okkur sem sagt að dreyma.
Maður Nei skynjun ykkar er eins og í draumi en þið eruð dáin.
(Þau horfa bæði á eftir manninum um stund)
Hún (Byrjar að hlægja og stendur upp og gengur af sviðinu) Veistu, ég held að ég nenni ekki að hanga lengur hér.
Hann (Stendur upp og fer á eftir henni) Bíddu, bíddu ég er að koma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.11.2008 | 22:08
ZANA; frumkvendið ógurlega frá Georgíu
Um miðja nítjándu öld fönguðu veiðimenn í Ochamchir héraði í Georgíu "villta konu". Eftir að hafa gengið kaupum og sölum í nokkurn tíma, endaði hún upp sem eign aðalsmanns sem hét Edgi Genaba en hann bjó í þorpi nokkru sem heitir Tkhina. Þessi villta kona hafði mörg einkenni frummanna.
Hún var afar þrekin yfir herðar, brjóst og lendar og með miklu sverari handleggi og fingur en venjulegir menn. Hörund hennar var dökkt og hún var alþakin dökkrauðu hári. Höfuðhár hennar var þykkur ókembanlegur rauður makki sem náði langt niður á breitt bakið. Andlitið var breiðleitt, ennið lágt og kinnbeinin afar há, nef hennar flatt og nasaholur útvíðar. Hún var stórmynnt og með hvítar stórar tennur. Kjálkarnir voru svo öflugir að hún lék sér að því að brjóta með þeim hörðustu gerð af hnetum.
Konan sem nefnd var Zana af þeim sem fönguðu hana, var svo hættuleg og ofbeldisfull að henni var komið fyrir í búri þar sem hún var látin hafast við í þrjú ár uns hún vandist umgengni við venjulegt fólk. Hún gróf sér holu í búrinu og hafðist við í henni og hagaði sér að öllu leiti til að byrja með eins og villidýr.
Matnum var kastað inn í búrið til hennar en henni þóttu þrúgur afar góðar og svo er að skilja að henni hafi einnig þótt vín gott því hún drakk af því ótæpilega þegar henni var gefið það og lá svo sofandi eftir í marga tíma. Eins og Colin Wilson bendir á í bók sinni The Encyclopedia of Unsolved Mysteries er Þetta er líklega ástæðan fyrir því hversu Zana eignaðist mörg ósamfeðra börn. Zana var að endingu "tamin" og gert að vina einföld störf eins og að mala bygg. Hún lærði aldrei stakt orð af mannamáli en tjáði sig með umli og öskrum þegar eitthvað virtist pirra hana. Hún virtist þola kuldann ótrúlega vel en gat aftur á móti ekki hafst við í upphituðum vistarverum.
Zana lifði meðal þorpsbúa í mörg ár án þess að á henni sæjust nokkur ellimörk. Hún hélt tönnum sínum og hár hennar gránaði ekki. Afl hennar virtist ofurmannlegt. Hún lék sér að því að lyfta með annarri hendi 80 kílóa þungum sekkjum og ganga með þá í sitt hvorri hendi upp allbratta hæð þar sem milla þorpsins stóð. Á hlaupum gat hún haldið í við hvaða hest sem var og hún synti oft í ískaldri ánni.
Á nóttum eigraði hún um nærliggjandi hæðir og bar þá lurk í hendi sem hún notaði til að berja frá sér hunda og önnur dýr sem urðu á vegi hennar. Hún át allt sem að kjafti kom og átti það til að sveigja niður á jörð greinar sem báru ávexti, á meðan hún úðaði þeim í sig. Hún virtist hugfangin af steinum og lék sér stundum að því að berja þeim saman svo þeir sprungu í tvennt. Henni var illa við allan klæðnað og fór yfirleitt um nakin. Flestir voru hræddir við Zönu en húsbónda sínum hlýddi hún ætíð.
Börn Zönu dóu flest þegar hún reyndi að baða þau upp úr helkaldri ánni sem rann fram hjá , þorpinu þar sem hún dvaldist. Eftir að fullreynt þótti að Zana væri óhæf til að ala önn fyrir börnum sínum, hófu þorpsbúar að taka frá henni börnin strax eftir fæðingu og ala þau upp sem sín eigin. Fjögur börn hennar, tveir drengir og tvær stúlkur, þroskuðust eðlilega og gátu ólíkt móður sinni tjáð sig eins vel og hvert annað fólk. Elsti sonur hennar hét Dzhanda og elsta stúlkan Kodzhanar. Yngri drengurinn var nefndur Khwit og yngri stúlkan Gamasa. Öll eiga þau afkomendur sem búa víðsvegar um Abkhazia hérað enn í dag.
Snemma kom upp sá kvittur að eigandi Zönu, óðalsbóndinn Edgi Genaba væri sjálfur faðir Gamasa og Khwit þrátt fyrir að vera gefið eftirnafnið Sabekia í manntölum frá þessum tíma.
Zana lést árið 1890 og var þá grafin í fjölskyldugrafreit bóndans þar sem yngstu börn hennar hvíla líka. Yngsti sonur hennar Khwit, dó ekki fyrr en árið 1954.
Saga Zönu var skrásett af Professor Porchnev sem tók viðtöl við fólk sem enn mundi eftir Zönu en það elsta sagðist vera meira en hundrað ára gamalt. Professor Porchnev tók einnig viðtöl við barnabörn Zönu sem áttu það sameiginlegt að vera öll mjög dökk á húð og hár. Eitt þeirra, karlmaður Shalikula að nafni, hafði svo sterklega kjálka að hann lyft með munninum fullorðnum manni sitjandi á stól.
Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að finna líkakleyfar Zönu en þær tilraunir hafa ekki enn borið árangur. Dmitri Bayanov gerði þrjár tilraunir á árunum 1971-1978 og tókst aðeins að finna höfuðkúpu Khwit, yngsta sonar Zönu. Rannsóknir M.A. Kolodievea við Moscow State University Institute of Anthropology leiddu í ljós að höfuðkúpan er í mörgum atriðum afar frábrugðin öðrum Abkhazis kúpum sem í safninu eru að finna. Í vestur Kákassus fjöllum er talið að lifað hafi ætt frummanna sem nefnd er Abnauayu. Það er álit sumra að Zana hafi verið síðasti eftirlifandi einstaklingur þeirrar mannsættar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.11.2008 | 19:45
Bretinn kemur til að passa okkur.... fyrir okkur sjálfum?
Mikið verður skemmtilegt (eða hitt þó heldur) að fá Bretaherinn aftur til landsins. Í þetta sinn verður það sjálfur Konunglegi Breski Flugherinn sem fær það hlutverk á næstunni að vernda litlu þjóðina í norðri fyrir sjálfri sér.
Ég segi fyrir sjálfri sér vegna þess að eini yfirlýstur óvinur NATO á þessu svæði eru hryðjuverkamenn og þá nafnbót hlutu Íslendingar (Proxy íslenskar peningastofnanir) fyrir skömmu. Það voru reyndar Bretar sjálfir sem veittu nafnbótina og tóku sér þannig rétt til að meðhöndla eignir íslenska ríkisins í Bretlandi eins og þeim þóknast.
Svo er íslenski utanríkis-"ráðherrann" svo kurteis að hún vill ekki styggja þessa öðlinga / Darlinga í Bretlandi meira en nauðsyn krefur og vill endilega borga þeim þessar 25 milljónir sem eftirlitsflugið kostar í stað þess að afþakka það.
Og nú er Bretinn sem sagt á leiðinni þótt ekki sé enn búið að gefa út skipunina eins og kemur fram á vefsíðu konunglega breska flughersins un annexíu verkefni hans á vegum NATO.
Bretar kunna vel til verka þegar kemur að barráttu við hryðjuverkamenn og hafa sýnt það og sannað t.d. í Afganistan þar sem þeir berjast við önnur hryðjuverkasamtök kölluð Alqaida.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.11.2008 | 01:36
Barack Hussein Obama
Heimsbyggðin er enn að átta sig á stórtíðundunum sem berast nú frá Bandaríkjunum. Þar hefur frjálslyndasti öldungadeildarþingmaður Demókrata verið kosin fertugasti og fjórði forseti Bandaríkjanna.
Fyrir utan að vera frjálslyndur er hann þeldökkur sem setur hann í þá sérstöku sögulegu stöðu að geta hafa verið einkaeign alla vega sjö þeirra fjörutíu og þriggja hvítra karlmanna sem gengt hafa á undan hinum því embætti sem hann hefur nú verið kosinn til að gegna. Fyrir fjörutíu árum þegar Obama var sjö ára hefði hann ekki fengið þjónustu á mörgum veitingastöðum í Bandaríkjunum og hefði þurft að nota sér salerni á bensínstöðum í suðuríkjum Bandaríkjanna.
En Barack Hussein er ekki bara þeldökkur, hann er líka að hálfu Afrískur og á ömmu og ættmenni á lífi sem búa í þeirri hrjáðu álfu. Hann ber auk þess nafn einnar helstu og þekktustu hetju Íslam. Hussein Ali var nafn annars sona Fatímu dóttir Múhameðs stofnanda Íslam. Hann var í miklu uppáhaldi hjá afa sínum og margar sögur fara af hversu líkir þeir voru. Hann dó píslavættisdauða ásamt sjötíu og tveimur köppum sínum í orrustu við Karbala í Írak, en mikil helgi hvílir á hinum og nafni hans, sérstaklega meðal Shia múslíma.
Hversu sögulegar þessar kosningar eru er varla hægt að segja til um núna með einhverri vissu, til þess eru við allt of nálægt atburðinum. En víst er að hann er ekki hægt að ofmeta. Sú staðreynd ein að Obama náði kjöri, hvert sem framhaldið verður, á eftir að valda grundvallarbreytingum á hugarfari og sjálfsmynd þeldökkra í Bandaríkjunum og víða um heim. Eða eins og Jesse Jackson, fyrrum forsetaframbjóðandi og blökkumannaleiðtogi í Bandaríkjunum komst að orði eftir að Obama hafði tryggt sér sigurinn, "Ef það gat gerst í Bandaríkjunum, getur það gerst í Bretlandi og öðrum Evrópulöndum og hvar sem er".
Fjölþjóðleg fjölskylda Baracks Obama
Foreldrar og fósturfaðir
Móðir Obama; Stanley Ann DUNHAM var fædd 27. Nóvember 1942í Wichita, Kansas og lést 7. Nóvember 1995 af legkrabbameini. Hún hóf háskólanám sitt við Háskólann á Hawaii árið 1960. Þar hitti hún fyrri mann sinn; Barack Hussein OBAMA eldri. Hann og Stanley Ann DUNHAM voru gefin saman árið 1960 á Hawaii og áttu saman Barack Hussein OBAMA yngri, f. 4. Ágúst 1961.
Barack Hussein OBAMA eldri var fæddur 1936 í Nyangoma-Kogelo, Siaya Héraði í Kenya. Hann lést í bílslysi í Nairobi í Kenyaárið 1982. Hann skildi eftir sig þrjár eiginkonur, sex syni og eina dóttur. Öll börn hans búa í Bretlandi eða í Bandaríkjunum nema eitt. Einn bræðranna lést árið 1984 og er grafinn í þorpinu Nyangoma-Kogelo, Siaya héraði í Kenya.
Systkini
Fjölskyldusaga Obama yngri er dálítið flókin. Svo virðist sem faðir hans hafi þegar verið giftur þegar hann gekk að eiga Stanley Ann móður hans. Hann átti konu í Kenýa, Kezia að nafni. Að sögn Stanley Ann höfðu þau Obama eldri og Kezia verið gefin saman af öldungum þorps þeirra en engin skjöl voru til að sanna það. Með Kezia átti Obama eldri tvö börn, Roy og Auma, sem bæði starfa núna við félagsþjónustuna í Berkshire í Englandi.
Það hefur verið til þess tekið eftir að Obama yngri tryggði sér forsetaefnisútnefninguna að hálf bróðir hans Roy er trúaður múslími. Hann er sagður hafa snúið baki við lífsstíl veturlandabúa eftir bitra reynslu og horfið aftur til trúar föður síns og afa og Afrískra gilda.
Þegar Obamavar tveggja ára skildu foreldrar hans. Faðir hans fluttist til Connecticut til að halda áfram menntun sinni. Þegar að Obama eldri lauk námi sínu við Harvard og héllt til baka til Kenýa var þriðja kona hans Ruth (Bandarísk) í för með honum. Sú ól honum tvo syni og einn að þeim lést í mótorhjólaslysi. Obama eldri hélt áfram að hitta Kezia fyrstu konu sína eftir komu sína heim.
Þegar Obama yngri var sex ára giftist móðir hans Lolo Soetro, frá Indónesíu. Árið 1967 þegar að óeirðir miklar brutust út þar í landi, missti Soetro námspassann sinn og þau hjónin urðu að flytjast til Jakarta. Þar var hálf-systir Obama, Maya Soetro fædd.
Fjórum árum seinna sendi Stanley Ann son sinn til Bandaríkjanna til að búa hjá Afa sínum og Ömmu.
Barack Obama yngri útskrifaðist frá Columbia Háskóla og síðan Harvard Law School, þar sem hann hitti konuefni sitt Michelle Robinson. Þau eiga tvær dætur; Malia og Sasha.
Afar og ömmur
Föður afi Obama yngri hét Hussein Onyango OBAMA og var fæddur árið 1895 en lést árið 1979. Áður en hann gerðist ráðsettur matreiðslumaður fyrir trúboða í Nairobi, ferðaðist hann víða og barðist m.a. fyrir Bretland í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann heimsótti Evrópu og Indland og bjó um tíma í Zanzibar þar sem hann yfirgaf Kristna trú og gerðist múslími. Hussein Onyango OBAMA átti margar konur. Fyrsta kona hans Helima bar honum engin börn. Með annarri konu sinni Akuma eignaðist hann Söru Obama, Barrack Hussein Obama eldri og Auma Obama.
Þriðja kona Onyangos var Sarah og er sú sögð vera amma Obama foretaefnis. Hún sér að mestu leiti um fjölskylduna eftir að Akuma lést langt um aldur fram.
Móðurafi Obama yngri hét Stanley Armour DUNHAM og var fæddur 23. Mars 1918 í Kansas og lést 8. Febrúar 1992 í Honolulu á Hawaii. Hann er jarðsettur í Punchbowl National Grafreitinum í Honolulu, Hawaii.
Móðuramma Obama hét Madelyn Lee PAYNE og var fædd 1922 í Wichita, Kansas. Hún er nýlátin en bjó í Oahu á Hawaii.
Stanley Armour DUNHAM og Madelyn Lee PAYNE voru gefin saman 5. May 1940.
Bloggar | Breytt 7.11.2008 kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.11.2008 | 20:26
Fimmti Bítillinn
Þegar talað er um fimmta Bítillinn er átt við einhvern þeirra sem sagður er eiga þann heiðurstitil skilinn vegna tengsla sinn við merkustu hljómsveit allra tíma The Beatles. Til mikillar gremju Brian Epsteins, var það sjálfsagt bandaríski plötusnúðurinn Murray the K sem fyrstur gerði tilkall til titilsins á grundvelli vinskapar síns við Bítlana í fyrstu heimsókn þeirra til Bandaríkjanna árið 1964. -
En aðrir ættu titilinn miklu fremur skilið þeirra á meðal, Stu Sutcliffe sem lést nokkru áður en hljómsveinin var heimsfræg, Pete Bestsem var trommuleikari hljómsveitarinnar áður en Ringo Starr gekk til liðs við hana, Neil Aspinall sem var vinur, aðstoðarmaður og framkvæmdastjóri sveitarinnar á hljómleikaferðalögum hennar eða George Martin sem var útsetjari og upptökustjóri á hljómplötum hennar.
Að auki hefur verið nefndur til sögunnar úr allt annarri átt og löngu eftir á, knattspyrnumaðurinn George Bestsem var fyrstur knattspyrnumanna til að verða að poppstjörnu. Hann safnaði löngu hári, var frá Manchester (næstum því Liverpool) og gekk um í bítlaregalíu eins og hún tíðkaðist á sjöunda áratug síðustu aldar.
Í Bretlandi og jafnvel víðar, á orðatiltækið "fimmti bítillinn" við um einhvern sem missir af velgengni einhvers sem hann hafði verið hluti af. Þetta á vissulega við um bæði Stu Sutcliffe og Pete Best í bókstaflegri merkingu.
LBC útvarpsþætti árið 1989 kom hlustandi með þá eftirtektarverðu tillögu að fimmti Bítillinn væri Volkswagen bjallan utan á Abbey Road plötualbúminu. Kannski luma einhverjar lesendur á enn betri tillögum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
31.10.2008 | 11:38
Skrýtnar og skemmtilegar myndir
Embla
Askur
Einhjól
Það er allt á hvlofi heima hjá mér.
Draumakot snúllunnar.
Vélræn tíska
Nýjasta útilegugræjan
Skýjaborgir
Ummm Humar
Giftingahringir píparans
Með keðju,
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
30.10.2008 | 19:19
Gremja Íslendinga
Það þarf ekki annað en að líta aðeins yfir skrif bloggara síðustu vikurnar til þess að sjá að þjóðin er að fara á límingunum. Mótmælafundir og fréttir af skoðanakönnunum, sem sýna að íslendingar eru fullir af gremju, staðfesta þetta líka.
Á meðan allar þjóðir heimsins með Bandaríkin og Bretland í fararbroddi reyna hvað þær geta til að lækka vexti með það fyrir augum að koma hjólum efnahagslífsins aftur í gang og til að mæta árhrifum alheimslegrar peningakreppu, hækka Íslendingar sína stýrivexti þannig að þeir eru nú hæstir á Íslandi af öllum löndum heimsins. Íslendingar eru sem sagt þegar byrjaðir að borga það sem útherjar þeirra töpuðu í útlöndum.
Hinum almenna borgara líður eins og manni í umferðarhnút. Hann veit að hann er hluti af vandamálinu en getur ekkert aðhafst til að greiða úr því. Sumir heimta nýja löggu til að stjórna umferðinni, aðrir heimta ný umferðarlög, enn aðrir vilja láta skipa nýjan umferðarstjóra. En allar kröfur um nýja löggu, lög og umferðarstjóra eru virtar að vettugi og það eina sem þjóðin getur er að liggja á flautunni. Stjórnvöld eru vissulega ekki öfundsverð af því að reyna að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti en þau virðast neita að horfast í augu við þá einföldu staðreynd að þeir eru að starfa í umboði þjóðarinnar, ekki bankakerfisins eða verðbréfamarkaðarins.
Það hefur lengi loðað við óhefta auðhyggju að þar dregur hver til sín eins mikið og eins ört og hægt er. Hjá langflestum auðmönnum eru peningarnir ekki aðalmálið, heldur leikurinn. Þeir eiga miklu meiri peninga enn þeir fá nokkru sinni komið í lóg á sinni æfi með persónulegri neyslu. Því nota þeir peninga til að halda skor í keppninni við hvern annan.
Auðhyggjumenn virka eins og blóðtappar í líkama heimsins. Fjármagnið er blóðið sem á að flytja næringu og súrefni til allra hluta líkamans og allir hlutar þessa alheimslega líkama þurfa að vera heilbrygðir og starfandi, annars mun allur líkaminn þola fyrir það fyrr eða síðar.
Lengi vel hafa auðhyggjumenn komist upp með að sanka að sér auði og haft að engu alvarlegar afleiðingar öfga þeirrar auðsöfnunar og öfga fátæktarinnar sem verður til umleið á stórum hluta heimsins. Afríka, Asía og suður Ameríka hafa lengst af verið þau svæði heimsins sem minnst af lífsblóði heimsins hefur flætt um. Íslendingar kærðu sig lengi vel kollótta um afkomu þessara landsvæða, eins og aðrir.
Nú fær Ísland aftur eftir næstum því aldar langt hlé að finna fyrir blóðleysinu. Þeir sem mergsugu landið, en þar er einmitt blóðið framleitt, gera hvað þeir geta til að bjarga eigin rassi, svo þeir geti haldið áfram leiknum, þegar úr rætist.
En áður en gripið er til aðgerða til að þetta komi ekki fyrir aftur þarf að grípa til ákveðinna neyðaraðgerða.
Ef íslendingar ætluðu sér að bregðast við eins og aðrar þjóðir þar sem að kreppir og þær eru fáar þar sem svo er ekki, mundu eftirfarandi aðgerðir vera í fullu samræmi.
Hér koma sex tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum til næstu sex mánaða eru þessar;
1. Lækka stýrivexti strax niður í 4.5% og eftir tvo mánuði niðir í 4.0%
2. Neita að borga Icesave skuldir umfram 16.000 pund eins og tryggingarsjóðurinn gerði ráð fyrir og láta reyna á það fyrir dómsstólum ef Bretar gera kröfur um annað.
3. Ekki þiggja neitt lán sem veitt er með skilyrðum um íhlutun í efnahagsstjórn landsins eða er með hærri vöxtum en 4.5%
4. Hætta að flytja inn allar vörur sem ekki eru nauðsynlegar til afkomu fólksins í landinu.
5. Kaupa aðeins íslenska vöru.
6. Taka upp Evru sem gjaldmiðil eftir sex mánuði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
26.10.2008 | 12:08
The capital of Iceland
Klukkan var færð aftur um klukkustund í nótt. Ég er því aftur kominn á sama tímaról og Ísland. Ég veit samt ekki nákvæmlega hvenær þetta gerðist, þ.e. hvort að klukkan eitt í nótt hafi hún verið færð aftur til 24:00 eða klukkan 24:00 í nótt; hafi hún verið færð aftur til baka til 23:00.
Með þessu fyrirkomulagi var sem sagt gærdagurinn einni stundu lengri eða að dagurinn í dag verður einni stundu lengri.
Ég held að ég hafi verið spurður þessarar spurningar þrisvar í gærkveldi af náungum sem allir ætluðu að vera svolítið fyndnir á minn kostnað.
Spurningin er sem sagt, What is the capital of Iceland?
Svar; Four and a half pounds.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
22.10.2008 | 14:47
Bestu vinir....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)