Færsluflokkur: Bloggar

Sagan af Jósef litla.

Fyrir skömmu birti ég jólasögu fyrir unglinga og nú er komið að börnunum. Sagan er skrifuð fyrir tvær litlar tátur á sínum tíma, en kannski hafa fleiri gaman að henni.

Ysta gistihúsið í bænum iðaði af mannlífi.  Ekki bara af kaupmönnum á leið til Jerúsalem, heldur fjölmörgum gestum sem flestir sögðust hafa búið í Betlehem í eina tíð eða aðra.

Það var komið kvöld og Jósef litli sat á tröppunum sem lágu upp á þak hússins og horfði á móður sína bera fram hvert fatið af öðru hlaðið ólífum, döðlum og brauði sem hvarf jafn hraðan ofaní glorsoltna ferðalangana. Í forgarðinum fyrir utan biðu eiginkonurnar í þéttum hóp ásamt börnum sínum og skröfuðu saman. Þær voru nýrisnar upp frá bænum og biðu nú þess óþreyjufullar að eiginmenn þeirra lykju sér af svo að þær gætu líka satt hungur sitt. Börnin stóðu álút og þreytt og einstaka kjökraði um leið og það togaði í yfirhöfn móður sinnar. Jósef hafði aldrei séð jafnmargt fólk á ferðinni fyrr og hann hafði heyrt pabba sinn segja að það ætti að vera í lögum að telja skyldi fólk á hverju ári því þá mundi hann ekki þurfa að kvarta yfir nokkrum sköpuðum hlut. Jósef skildi varla hvað pabbi hans átti við enda aðeins átta ára gamall. En svo hafði málið skýrst talsvert þegar að hann heyrði einn af ferðamönnunum hneykslast á keisaranum í Róm sem hét víst Ágústus og þeirri áráttu hans að vilja vita nákvæmlega hvað margir byggju í heiminum. "Hann gerir þetta bara til að vita betur hve mikið hann getur látið ónytjunginn Heródes skattleggja þjóðina" heyrði hann gestinn segja. Jósef hafði oft heyrt minnst á þennan Heródes. Hann var konungur Gyðinga, en mamma hans hafði samt sagt að Heródes gæti varla verið sannur konungur fyrst hann léti keisarann í Róm ráða yfir sér. Jósef horfði hugfanginn á allt fólkið og velti því fyrir sér hvort hann sjálfur ætti nokkurn tíma eftir að ferðast til ókunnugra staða.

Þegar að leið á kvöldið færðist smá saman ró yfir litla gistiheimilið og gesti þess. Eftir að konurnar og börnin höfðu borðað gekk hver og einn til sinnar úthlutuðu hvílu og matsalurinn var orðinn að risastórri flatsæng þar sem a.m.k. fjórar fjölskyldur sváfu. Jóel faðir Jósefs hafði gott lag á því að koma öllum fyrir og fáir kvörtuðu yfir þrengslunum. Til að nýta allt gistirými til fullnustu hafði hann búið um Jósef litla og móður hans upp á þaki gistihússins. Sjálfur sagðist hann ætla að sofa út við dyr forgarðsins því þannig kæmist enginn hvorki inn né út án þess að hann yrði þess var. Jósef fannst þetta svo spennandi að hann gat varla sofnað.

Stjörnubjartur himininn og svöl kvöldgolan hafði örvandi áhrif á hann. Móðir hans var aftur á móti varla lögst útaf þegar að hún var byrjuð að hrjóta. Jósef horfði upp í himininn og reyndi eftir megni að telja allar stjörnurnar sem hann sá. Allt í einu virtist honum sem ein stjarnan hreyfði sig. Út við sjóndeildarhringinn sá hann hvar ein af stjörnunum virtist sigla hraðbyri í áttina að honum. Gapandi af undrun stóð Jósef á fætur og horfði í forundran á það sem í fyrstu virtist aðeins lítill ljósdepill, verða að skínandi bjartri stjörnu sem honum fannst stöðugt nálgast. Hann var í þann mund að fara að vekja móður sína til að sýna henni þetta merkilega fyrirbæri og leita hjá henni skýringa þegar að hann heyrði að bankað var á dyr forgarðsins. Hann fylgdist með föður sínum rísa úr fletinu við dyrnar og opna. Inn í forgarðinn komu tvær manneskjur, kona sitjandi á asna og maður sem teymdi undir henni. Tal þeirra barst vel í kvöldkyrrðinni til hans;

"Afsakið hversu seint við erum á ferðinni, en við erum búin að leita okkur að gistingu í allt kvöld. Öll gistihús í bænum eru sögð full og þið eruð okkar seinasta von." Sagði maðurinn "Við erum komin alla leið frá Júdeu til að láta skrásetja okkur því hér er ég fæddur."

Jósef horfði á föður sinn klóra sér í höfðinu og  horfa vandræðalega á gestina. Skyndilega var eins og hann tæki ákvörðun, byrsti sig og setti hendurnar á mjaðmir sér eins og hann gerði alltaf þegar hann var að þrefa við kaupmennina um vöruverð á markaðstorginu.

"Heitmey þín segirðu, svo þið eruð ekki gift" spurði hann svo með þjósti.

"Hún er heitmey mín" endurtók maðurinn.

"Ja sveiattan" hrópaði faðir hans, "ekki skal mig undra þó ykkur hafi verið vísað á dyr alls staðar annarstaðar. Hvernig dirfist þú að ferðast um með þessa konu í þessu líka ástandi."

Faðir hans benti nú með vandlætingarsvip á konuna sem sat á asnanum. Jósef horfði á konuna og reyndi að gera sér grein fyrir hvað pabbi hans meinti. Hann sá ekkert óeðlilegt við hana annað en hún var svolítið feit.

"Nei" hélt faðir hans áfram, "þið fáið enga gistingu hér". Hann veifaði höndunum og pataði þangað til að gestirnir snéru aftur út um hliðið og lokaði því að baki þeirra.

Jósef fyldist með þeim þar sem hann stóð á þakinu og sá hvar þau stöldruðu við og maðurinn horfði í kringum sig. Konan virtist segja eitthvað við hann og skyndilega snéru þau aftur við og héldu í átt að fjárhúsinu sem byggt hafði verið utaná lítinn helli í fjallshlíðinni skammt frá gistihúsinu. Jósef sá hvar maðurinn leiddi asnann inn í fjárhúsið og skömmu seinna hvar ljósglætu, greinilega frá litlum olíulampa, lagði frá útihúsunum.  Jósef velti því fyrir sér hvort hann ætti að fara niður og vekja pabba sinn sem búinn var að hreiðra um sig aftur við forgarðsdyrnar, og segja honum að hinir óvelkomnu gestir væru búnir að koma sér fyrir í fjárhúsinu.

 Hann var svo til búinn að ákveða að gera það þegar að hann tók eftir því að stjarnan sem hann hafði séð hreyfast skömmu áður í áttina að sér, var nú komin á fleygiferð og stefndi rakleiðis að honum fannst í átt að sér. Hræðsluópið sem var á leið úr barka hans stoppaði í kokinu á honum því allt í einu staðnæmdist stjarnan, beint fyrir ofan fjárhúsin. Þó að Jósef væri aðeins átta ára og hefði aldrei gengið í skóla vissi hann að svona höguðu stjörnur sér ekki. Ósjálfrátt fylltist hann eftirvæntingu og óseðjandi forvitni og hann vissi að ekkert skipti máli annað en það að komast niður af þakinu og upp að fjárhúsinu því þar væru að gerast undur og stórmerki.

Hann læddist nú niður stigann, niður í dagstofuna, tipplaði á milli  umlandi gestanna sem  sváfu þar á gólfinu og smeygði sér inn í eldhúsið. Á eldhúsinu var lítill gluggi sem Jósef hafði oft leikið sér að að smjúga í gegnum. Það gerði hann því léttilega og áður en varði var hann kominn að fjárhúsinu. Hann var í þann mund að gægjast innfyrir, á milli gysinna viðarborðanna sem húsið var byggt úr, þegar að hann heyrði mannamál. Jósef snéri sér við og sá sér til mikillar undrunar hvar grillti í nokkra menn sem  komu hlaupandi niður fjallshlíðina í myrkrinu. Þeir báru langa stafi og af því vissi Jósef að þeir voru fjárhirðar.

Jósef var viss um að þeir væru þarna komnir til að reka konuna og manninn út úr fjárhúsunum. Þeir höfðu örugglega séð til ferða þeirra og hugsuðu þeim nú þegjandi þörfina. En þegar þeir komu nær sá hann að fjárhirðarnir voru alls ekki reiðir. Þeir voru brosandi og í stað þess að ryðjast inn í fjárhúsið, stóðu þeir eins og varðmenn við hrörlegar dyrnar og töluðust við í hljóði. Þeir virtust engu skeyta um Jósef sem þó var viss um að þeir hefðu séð sig.

Jósef snéri sér því aftur við og kíkti í gegnum rifuna. Í daufri skímunni frá litlum lampa sá hann hvar konan lá á bakinu og maðurinn bograði yfir henni með uppbrettar ermar. Á maganum á konunni var hvítur klútur. Kaldur sviti spratt út á enni Jósefs því honum sýndist maðurinn vera að gera eitthvað hræðilegt og andlit konunnar bar vott um að henni leið ekki vel. Ópið sem staðnæmst hafði í kokinu á honum nokkru fyrr var í þann mund að losna þegar að ennþá fleiri undur og stórmerki gerðust. Í eini svipan hélt maðurinn á barni. Barnið byrjaði að kjökra en þagnaði þegar það var lagt ofaná magann á konunni og hún vafði það í dúkinn sem lá ofaná henni. Gleðisvipur lék nú um andlit konunnar og maðurinn horfði hreykinn á bæði barn og móður. Þegar að hjarðsveinarnir heyrðu barnsgrátinn greip um sig á meðal þeirra mikill fögnuður. Þeir dönsuðu við hvern annan og hlógu. Brátt steig maðurinn út úr fjárhúsinu og bauð þeim að koma inn. Þeir stigu inn í fjárhúsið lotningarfullir og alvarlegir eins og þeir væru að fara inn í bænahús og Jósef sá hvar þeir krupu við jötuna þar sem konan hafði lagt barnið.

Jósef fylgdist með öllu þessu opin eygður og reyndi að átta sig á því sem var að gerast. En hann gat bara ekki fundið neinar  sennilegar  skýringar á öllu því sem hann hafði séð. Eins og til að rugla hann enn frekar í ríminu fannst honum nú sem hann heyrði bjölluhljóm. Augun ætluðu bókstaflega út úr höfðinu á honum þegar að út úr myrkrinu birtust þrír úlfaldar hver með sína bjöllu um hálsinn.

Reyndar hafði Jósef oft séð úlfalda áður, en aldrei hafði hann séð jafn tígulega búna menn eins og þá sem á baki þessum úlföldum riðu. Jósef varð samstundis ljóst að þetta hlutu að vera ákaflega tignir menn, jafnvel konungar. Um leið og þeir komu að fjárhúsinu létu þeir dýrin leggjast á framfæturna og stigu af baki. Hver um sig tók upp úr farangri sínum einhvern hlut sem var vafinn í dýrindis efni og síðan héldu þeir einn á eftir öðrum inn í fjárhúsið.

Í gegnum rifuna á fjárhúsinu sá Jósef hvar fjárhirðarnir viku fyrir mönnunum þremur sem krupu í þögulli lotningu fyrir framan jötuna og lögðu hlutina sem þeir höfðu tekið með sér til fóta barnsins. Eftir nokkra stund stóðu þeir upp og mæltu nokkur orð til konunnar á máli sem Jósef skildi ekki. Því næst komu þeir út og stigu á bak farskjótum sínum og riðu aftur út í myrkrið.

Jósef stóð agndofa og horfði á eftir þeim. Fljótlega komu fjárhirðarnir líka út og hurfu á braut upp fjallið þaðan sem þeir komu. Stjarnan sem skinið hafði skært yfir höfðum þeirra á, meðan að öllu þessu fór fram dofnaði smásaman og varð ein af óteljandi ljósdeplum á síðnæturhimninum.

Jósef var þess fullviss að eitthvað afar merkilegt var að gerast.  Myndi einhver nokkurn tíma geta skýrt öll þessi fyrirbæri fyrir honum. Mundu pabbi hans og mamma trúa einu orði af þessu öllu saman ef hann segði þeim frá því sem fyrir augu hans hafði borið? Jósef sá í gegnum rifuna að maðurinn og konan voru strax farin að búa sig til brottfarar. Mundi hann einhvern tíma komast að því hver þau væru. Og hvað með þetta barn sem Jósef var nú réttilega búinn að álykta að hann hefði séð fæðast. Mundi hann nokkurn tíma heyra frá því aftur.

Jósef snéri sér við og ákvað að halda aftur heim áður enn allir vöknuðu. Hann var varla búin að taka fyrsta skrefið þegar hann heyrði konuna inni í fjárhúsunum segja skýrt og greinilega: 

"Jósef minn, geturðu aðeins komið hérna".  

Jósef stirðnaði upp. Gat verið að konan hafi vitað af honum allan tímann og ekki bara vitað af honum heldur einnig hvað hann héti? Átti hann að svara.

"Jósef, ertu sofnaður" heyrði hann konuna segja aftur.

Hann var í þann mund að svara þegar að hann heyrði manninn segja:

"Nei María mín ég er ekki sofnaður, ég er bara að horfa á barnið og velta fyrir mér hvað við eigum að nefna hann".  

"Hann á að heita Jesús" svaraði konan.

Jósef litla var létt. Nei þau vissu ekkert af honum hugsaði hann. Eins og fætur toguðu hljóp hann til baka að litla gistihúsinu og áður en varði var hann kominn undir brekánið við hlið móður sinna upp á þakinu. Þegar að Jósef vaknaði seint um morguninn var hann ekki viss um hvort atburðir næturinnar hefðu í raun og veru gerst eða hvort hann hafði dreymt þá. Bæði móðir hans og faðir voru svo upptekin við að sinna gestunum sem margir voru á förum, að Jósef fann hvergi tækifæri til að segja þeim neitt um það sem hann taldi sig hafa séð.

Í raun var hann heldur ekki viss hvort hann ætti að segja þeim neitt. Hver mundi trúa að hann hefði séð stjörnu koma fljúgandi og staðnæmast fyrir ofan fjárhúsið, að hann hefði séð fjárhirða dansa af kæti um miðja nótt, að hann hefði séð konu fæða barn og mann taka á móti því, og hver mundi trúa að hann hefði séð þrjá konunga ríðandi á úlföldum koma með gjafir handa barninu. Nei, líklegast var best að þegja. Og svo var þetta kannski bara allt draumur.

Jósef greip brauðhleif úr eldhúsinu og hélt út á götuna fyrir framan litla gistihúsið. Fjöldi fólks streymdi hjá í báðar áttir. Hann settist niður við vatnsbrunninn skammt frá og horfði á iðandi mannfjöldann. Mitt í fjöldanum sá hann þá kunnuglega sjón.  Maður kom gangandi í áttina að honum, leiðandi asna og á asnanum sat kona sem hélt á reyfabarni. Jósef stóð upp og beið þar til þau voru komin alveg upp að honum. Jú ekki var um að villast, þetta voru þau. Brosandi gekk hann að konunni sem nú hafði greinilega komið auga á hann líka. Jósef rétti henni brauðhleifinn sinn þegjandi án þess þó að vita hversvegna. Konan tók brauðhleifinn og kinkaði til hans kolli. Og eins og fyrir tilviljun snéri hún barninu í fangi sér þannig að Jósef horfði nú beint í andlit þess. Um leið opnaði barnið augun og  geislandi bros þess leið Jósef aldrei úr minni.


Gervi-framtíð

Árið 2005 var haldin mikil sögusýning í Ameríska náttúrugripasafninu þar sem afrek Charles Darwins voru tíunduð og gerð góð skil. Dagbækur og áhöld Darwins voru þarna til sýnis en merkilegastur sýningargripa þótti skjaldbaka ein, sem höfð var í búri við útganginn á sýningunni.

galapagos-tortoiseSkjaldbakan  hafði verið flutt frá Galapagos eyjum sérstaklega fyrir sýninguna og það sem merkilegt þótti við hana var að hún var svo gömul að hún var nýfædd þegar að Darwin var á eyjunum við rannsóknir sínar.

Fjölmörg skólabörn sóttu sýninguna og af öllum sýningargripunum þótti þeim mest koma til skjaldbökunnar.

Í ljós kom að flest þeirra ályktuðu að skjaldbakan væri ekki ekta skjaldbaka heldur róbót. Skjaldbakan hreyfði sig lítið og þegar þeim var sagt að skjaldbakan væri raunverulega ekta eldgömul skjaldbaka, lýstu þau yfir furðu sinni. Hvers vegna að flytja gamla skjaldböku alla þessa leið til að loka hana inn í búri þar sem hún hreyfði sig lítið sem ekkert, þegar að líkan eða róbót hefði dugað jafn vel eða betur?

Aðalatriðið í sambandi við skjaldbökuna virtist gjörsamlega fara fram hjá þeim, eða að skjaldbakan hafði verið á lífi á sömu slóðum og Darwin gerði frumrannsóknir sínar sem leiddu til þess að ein mikilvægasta vísindalega kenning allra tíma, var sett fram.  

Það sem hreifir við mér í þessu sambandi er að það eru greinilega að alast upp kynslóðir víða í heiminum þar sem ekki skiptir máli hvort hlutirnir eru ekta eða gervi, svo fremi sem þeir komi að sama gagni. Hvers virði er að eitthvað sé lifandi ef eitthvað dautt  getur þjónað sama tilgangi?  

paro-robotic-healing-seal-1Þetta leiðir hugann að því hvernig í auknum mæli farið er að nota róbóta til að vera gæludýr fyrir gamalmenni og börn. Frægastur þessara róbóta er eflaust Paro, einskonar stóreygður selur sem bregst við augnahreyfingum eiganda síns og hvernig hann strýkur á vélselnum feldinn. Augnaráð vélselsins getur verið angurvært, samúðarfullt eða fullt óvissu. Um hann getur farið hrollur eða velsældar hrísl.  Náið samband við róbótana myndast auðveldlega og bæði börn og gamalmenni nota orðið ást yfir tilfinningar sínar gagnvart róbótunum.

Spurningin er hvað sú ást er sem byggist á einhliða tilfinningalífi og endurspeglun þess í vélrænum hlut.

simoneÍ kvikmyndinni Simone þar sem Al Pacino leikur kvikmyndastjóra sem er gefið forrit sem býr til svo eðlilega sýndarveruleika-persónur að ekki er hægt að sjá muninn á þeim og alvöru leikurum, er spunnið út frá sýndarveruleika-þemanu á all-sannfærandi hátt. Í myndinni tekst Al jafnvel að plata þúsundir sem koma til að sjá leikkonuna sem hann skapaði halda tónleika, þannig að allir halda að hún sé raunveruleg manneskja af holdi og blóði. Til þess beitir Al þrívíddatækni líkt og notuð er í Star Wars og fleiri kvikmyndummyndum við fjarskipti, sem reyndar er komin á það stig að það sem var vísindaskáldskapur í kvikmyndinni er orðið raunverulegt í dag. 

Betales VirtualMeð þessari tækni munu ýmsir draumar rætast sem áður voru óhugsanlegir. Það væri t.d. hægt að efna til hljómleika með Bítlunum þar sem þeir spiluðu sem þrívíddarpersónur. Mundi það breyta nokkru fyrir alla þá sem áttu þann draum heitastan að sjá þá spila saman einu sinni enn, og svo aftur og aftur og ....? 


Fjögur spakmæli

Í hvert sinn sem ég heyri spakmæli af einhverju tagi, velti ég því fyrir mér í hvaða samhengi það var fyrst sagt og hvernig það varð síðan fleygt. Það fylgir nefnilega ekki alltaf sögunni en getur jafnvel breytt merkingunni algjörlega. Í enskri tungu eru flest spakmæli eftir rithöfunda og fer William Shakespeare þar fremstur í flokki.

Sum spakmæla hans og orðatiltæki eru orðin svo rótgróin tungunni að margir gera sér ekki grein fyrir að um "spakmæli" er að ræða þegar þeir nota það.  Mark Twain er líklega fremsti spakmælahöfundur Bandaríkjanna en spakmæli hans eru nánast auðþekkjanleg á húmornum. Eins er um breska rithöfundinn Oscar Wilde sem skipar annað sæti spakmælahöfunda af bresku bergi. 

Hér að neðan eru fjögur spakmæli og lesendur geta spreytt sig á, ef þeir vilja, að giska á hverjir séu höfundar þeirra;

"Hugsunin verður að orðum. Orðin verða að verkum. Verkin verða að vana. Vanin mótar manngerð þína. Gættu því vel að hugsun þinni. Láttu hana spretta af ást sem er fædd af umhyggju fyrir öllum verum." 

"Hvert okkar er einvængja engill. Við getum ekki flogið án þess að umfaðma einhvern."

"Ást fær ekki jörðina til að ferðast um geiminn. Ást er það sem gerir ferðlagið þess virði að fara í það." 

"Ástin líkt og fljótið mun finna sér nýjan farveg í hvert sinn sem hún mætir fyrirstöðu."


Gagnrýni óskast

Fyrir sex mánuðum heyrði ég Tom Corneill syngja og spila í fyrsta sinn. Hann var meðal sex annarra flytjenda á einskonar popp/þjóðalaga-kvöldi sem ég lét tilleiðast að sækja. Á meðal þeirra laga sem hann flutti var lagið "I go to pieces" sem hann hafði þá nýlokið við að semja og er mjög persónulegt en Tom er ungur upprennandi listamaður hér í Bath.  Eftir að hann hafði lokið spilamennskunni þetta kvöld, gaf ég mig á tal við hann og þannig hófst samvinna okkar.

Hér að neðan er myndbandið af I go to pieces sem verður formlega flutt í fyrsta sinn á Laugardag Í Chapel Art Centre hér í Bath ásamt lögunum af hljómdisk með sama nafni. Mig langar með birtingu og frumflutningi þessa lags og myndbands hér að kanna aðeins viðbrögðin hjá ykkur lesendur góðir og biðja ykkur gera mér og Tom þann greiða að vera ósparir á gagnrýni eða lof á myndbandið, lagið og flutninginn, þ.e. að segja nákvæmlega það sem ykkur finnst. Með fyrirfram þökkum.

 


Jólasaga fyrir unglinga

Það var fátt meira gaman þegar ég var ungur drengur en að halda jól með fjölskyldunni minni. Spenningurinn var stundum yfirþyrmandi. Jólafötin, jólaskórnir, jólamaturinn, jólatréð og bara allt var frábært.  En svo gerðist það, ég er ekki alveg viss hvenær eða hvernig, en að jólin hættu að vera....ja,  það sem þau höfðu verið. Ekkert virtist passa lengur, jólasálmarnir voru leiðinlegir, jólamessan óþolandi, Jólamaturinn svo "same old" og gjafirnar ekki nógu dýrar, allir eitthvað svo stressaðir og, og .....ég var orðin unglingur. Allt virtist vera miðað við yngstu krakkana (ég á 7 yngri systkini), ekkert fyrir unglinginn. Uhu.

Ég settist niður og reyndi að skrifa sögu fyrir unglinga. Hún var í þróun í nokkur ár og fékk sitt endanlega form einhvern tíman um 1990. Þegar ég las hana aftur um daginn þótti mér hún bera þess merki að vera samin á þremur áratugum. Hér er hún og hún heitir þrátt fyrir allt afar þjóðlegu nafni, eða;

Kerti og Spil

 

Það var aðfangadagur jóla. Húsið nötraði af urri frá ryksugu og hrærivéla-mótorum í bland við jólasálmana í útvarpinu. Þeir félagarnir Benni og Einsi sátu inni í herbergi Benna og hámuðu í sig Mackintosh og reyktu. Benni hafði stolið stórri dollu af þessu gómsæta gúmmulaði, frá mömmu sinni, fyrr um morguninn, úr skápnum í þvottahúsinu sem var úttroðinn af allskyns niðursuðudósum og sælgæti sem faðir hans hafði komið með heim úr síðustu siglingu. Samkvæmt mömmu Benna átti allt sem í skápnum var að borðast á jólunum. Alla vega var það viðkvæðið, þegar Benni bað um
eitthvað úr skápnum. Jæja jólin voru hvort eð er svo til komin, hugsaði Benni um leið og hann stakk dolluni inn á sig og laumaðist með hana inn í herbergið. Skömmu síðar birtist svo Einsi. Heima hjá honum var allt á öðrum endanum, og ástandið öllu verra en venjulega því allir gríslingarnir, bræður hans og systur voru inni og létu eins og sérþjálfaðir terroristar um alla íbúðina á meðan mamma hans reyndi án árangurs að hirða upp eftir þau draslið. Einsi var því dauðfeginn að komast yfir til Benna, sem átti sitt eigið herbergi þar sem þeir gátu reykt í friði og spjallað saman. Einsi og Benni voru vinir, og höfðu lagt lag sitt saman frá því að þeir mundu eftir sér. Fyrstu árin áttu þeir heima í sömu blokk, en svo fluttu foreldrar Benna í einbýlishús og nú þegar þeir voru komnir vel á fimmtánda ár duldist hvorugum hversu mikill munur var í raun og veru á högum þeirra, þó þeir mættu ekki hvor af öðrum sjá í öllum frístundum. Ef þeir hefðu verið að hittast núna í fyrsta sinn hefðu þeir áreiðanlega ekki orðið eins góðir vinir og raunin var á. Á meðan að foreldrar Einsa bjuggu enn við ómegð og fátækt í lítilli blokkaríbúð, höfðu foreldrar Benna efnast. Þau höfðu efni á því að senda einkason sinn í einkaskóla samtímis því að Einsi gekk í sinn hverfisskóla. Benni fékk úthlutað vasapeninga vikulega, Einsi átti aldrei aur. Samt var smekkur þeirra í klæðaburði og tónlist áþekkur, því báðir voru þeir eins pönkaðir og þeir þorðu að vera án þess að eiga það á hættu að gert væri að þeim gys. Þeir hlustuðu báðir aðeins á þungarokk og gáfu skít í allt sem hét hipphopp, house eða rapp. Reyndar var það stórfurðulegt, þegar tillit er tekið til þess hve ákaft þeir reyndu að árétta sjálfstæði sitt með klæðaburði sínum og töktum, hversu ákaflega líkir þeir voru öðrum unglingum á sama reki.

En þarna sátu þeir sem sagt, með gúlana fulla af gotti og reyktu úr Camel pakkanum hans Einars. Þrátt fyrir öll blankheitin, æxluðust mál einhvernvegin alltaf á þann veg að það var Einsi sem alltaf átti fyrir sígarettum. Báðir voru þeir orðnir of gamlir, eða of cool, til að sýna óþreyju eftir að jólahátíðin gengi í garð. Báðir búnir að tapa hinni barnslegu eftirvæntingu, sem bundin er við góðan mat , falleg ný föt,og
fjölmarga litskrúðuga pakka sem komið er fyrir undir upplýstu jólatré. "Veistu hvað þú færð frá þeim gömlu?" spurði Einsi um leið og hann lokaði Sippónum og reyndi um leið að gera hringi. "Blessaður, það verður eitthvað ferlega ömurlegt eins og venjulega. Einhver helvítis jogginggalli eða eitthvað álíka hálfvitalegt" svaraði Benni. "Ég þoli ekki mjúka pakka" sagði Einsi. "Á öllum jólum sem ég man, hef ég ekki fengið annað en ógeðslega mjúka pakka, nema þegar ég fékk smokka-pakkann frá þér í fyrra."
"Þeir hafa nú kannski orðið mjúkir á endanum" svaraði Benni og glotti. Einsi fattaði ekki brandarann strax, en svo fór hann allt í einu að hlægja, þessum einkennilega hlátri sem mútur á byrjunarstigi valda, hann hljómar eins og verið sé að starta Skóda í fimmtán stiga gaddi. Þeir héldu áfram að masa um ömurlegar jólagjafir sem þeir höfðu fengið í gegnum árin og gerðu að þeim óspart grín. Tíminn leið, Mackintosh dósin tæmdist og sígarettu reykurinn varð þéttari í herberginu. Klukkan var farin að ganga sex þegar allt í einu var bankað á herbergishurðina og hún síðan opnuð. Í gættinni birtist andlit móður Benna . "Benni minn, ætlarðu ekki að fara að klæða þig fyrir matinn? Þarf Einar ekki að fara að tygja
sig heim? Voðaleg reykingafýla er þetta. Opnið nú glugga strákar." Svo steig hún inn í herbergið og byrjaði að bjástra við að opna gluggann sjálf. Einsi greip leðurjakkann sinn og stóð á fætur. "Ég sé þig á morgun, hringdu í mig í kvöld og segðu mér hvað þú fékkst." Svo drap hann í sígarettunni, krumpaði tóman pakkann og henti honum í barmafullan öskubakkann. Aldrei þessu vant, fylgdi Benni vini sínum nú til dyra, og horfði um stund á eftir honum út í létta snjódrífuna. Helvíti, hugsaði hann með sér, ég gleymdi að kaupa handa honum jólagjöf, jæja ég geri það bara seinna. Aðfangadagskvöld gekk í garð á heimili Benna með kalkúnilm og grenilykt um allt húsið, jólamessu á sjónvarpsskerminum , uppljómaða stofu og veglega skreytt jólatré í henni miðri, sem samt varla sást í fyrir pakkahrúgu sem bókstaflega flaut út um allt stofugólfið. Þegar búið var að troða því næst ósnertum kalkúninum inn í ísskáp ásamt
megninu af fjölbreyttu beðlæti. og setja óhreina diska og föt í uppþvottavélina, réðust Benni og foreldrar hans á pakkahrúguna. Þau rifu upp pakkana einn af öðrum og stöfluðu innihaldi þeirra við hlið sér. Móðirin hafði orð á því að þau þyrftu að hraða sér, því von væri á foreldrum hennar í stutta heimsókn ásamt honum Þórði móðurbróður hennar, sem dúkkað hafði skyndilega upp á heimili gömlu hjónanna og gert sig líklegan til að dveljast hjá þeim um jólin. Benni hafði aldrei hitt þennan Þórð,
aðeins heyrt af honum einhverjar furðu sögur sagðar í hvíslingum. Benni velti því fyrir sér hversvegna fólk talaði alltaf í hvíslingum þegar það ræddi um fólk sem var veikt eða skrítið. "Hann er svo undarlegur í háttum hann Þórður" heyrði Benni móður sína eitt sinn hvísla," að ég held að engin kona hafi þýðst hann".
 
Benni var í óða önn að flytja góssið sem hann fékk í jólagjöf úr stofunni inn í herbergið sitt, þegar að dyrabjallan glumdi. Benni fór til dyra en varð svo að hörfa aftur inn í forstofuna því gangurinn fyllist af jólapökkum sem móðir hans og faðir hófu strax að ferja inn í stofuna. "Gleðileg jól öll," söng amma hans og svo tóku við faðmlög og varalitur á báðar kinnar. Aðeins Þórður stóð í fordyrinu, án þess að segja orð og beið eftir því að sér yrði boðið inn. Hann var teinréttur örugglega tveggja metra hár, með brúnan flókahatt á höfði og í síðum brúnum frakka. Benni kinkaði til hans kolli og forðaði sér svo aftur inn í stofuna. Hann beið eftir að masandi fólkið kæmi á eftir honum en það gerðist ekki í bráð. Aðeins Þórður birtist í stofudyrunum. Benni gaut til hans augunum og velti því fyrir sér hvort maðurinn væri vangefinn eða bara undarlegur. Þórður sem hvorki hafði farið úr frakkanum eða skónum né tekið af sér hattinn. Hann stóð bara og starði um stund á Benna. Benni tók eftir því hvernig snjórinn á skóm Þórðar bráðnaði og lak ofan í þykkt ullarteppið á stofunni. "Hann er stórskrýtinn hugsaði Benni. "Þú munt vera Benedikt" sagði Þórður allt í einu. Benni hrökk næstum því í kút. Rödd Þórðar var svo rám og djúp að hún minnti Benna helst á röddina í Axel Rose þegar hann spilaði plöturnar hans hægt aftur á bak í leit að földum skilaboðum. "Já ég er Benni" svaraði hann svo. " Ég heiti Þórður Sumarliðason og er bróðir hennar ömmu þinnar, komdu sæll Benedikt" rumdi í kallinum um leið og hann steig inn í stofuna í átt að Benna með útrétta hendi. Benni sem ætlaði að fara að heilsa Þórði þrátt fyrir að honum væri brugðið, kippti að sér hendinni ósjálfrátt þegar hann sá hendi Þórðar. Hún var náhvít og þakin einhverju ókennilegu hreistri. Þórður tók auðvitað eftir viðbrögðum Benna, því hann dró að sér höndina og settist um leið niður á stól við hlið hans tók niður hattinn og sagði. "Fyrirgefðu, ég gleymi alltaf þessu árans exemi, en það er víst ekki smitandi". Benni horfði forviða á Þórð, því undan hattinum kom í ljós þykkt grátt og sítt hár sem bundið var í tagl í hnakkanum. "Þetta er sannarlega furðulegur fýr" hugsaði Benni en þorði ekki að segja neitt. Ómurinn frá samræðum ömmu hans og afa við foreldra hans barst nú fram af ganginum og að herbergi Benna. Ömmunni var víst nóg boðið við að sjá kjaftfullan öskubakkann á borðinu í herbergi hans, því hún kom nú ásamt hinum býsnandi inn í stofuna. Um leið og hún birtist stóð Þórður á fætur og sagði með dunandi hárri röddu sem fékk alla til að þagna. " Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil. Sú var nú tíðin að það þóttu ágætar gjafir. Nú þykja ekkert gjafir nema þær séu tugþúsunda virði, gerðar úr plasti og hægt sé að stinga þeim í samband. Aldrei hafa jólin verið eins vel upplýst og á heimilunum nú til dags og samt hefur aldrei fyrr ríkt á þeim jafn mikið myrkur og nú."Þegar Þórður þagnaði, settist hann aftur niður og horfði spekingslega út í loftið. Eldra fólkið starði á hann agndofa eins og það væri að bíða eftir einhverju meiru, en ekkert kom. Benni heyrði svo afa sinn pískra eitthvað um að nú væri sér nóg boðið og ömmu sína þagga niður í honum og hefja síðan aftur taut sitt um óhollustu reykinga.


Benni ákvað að hringja í Einsa og brá sér í símann. Ásta elsta systir Einsa svaraði.
Halló.
Hæ Ásta, er Einsi heima spurði Benni.
Í símanum varð vandræðaleg þögn.
Þetta er Benni, má ég tala við Einsa ítrekaði Benni.
Heyrðu Benni, veistu ekki hvað kom fyrir, veistu ekki að Einar er á spítala? svaraði Ásta.
Á spítala, hváði Benni vantrúaður. Hvað er hann að gera á spítala?
Hann lenti undir bíl á leiðinni frá þér. Læknarnir segja að hann sé með brotinn hrygg, þeir segja að.....
Hvaða helvítis lygi er þetta í þér Ásta, leyfðu mér að tala við Einsa eða þú skalt hafa verra af, nördið þitt, hrópaði Benni í síman.
Ég er að segja þér alveg satt, heyrði hann Ástu segja sem var nú byrjuð að vola. Mamma og pappi eru bæði á sjúkrahúsinu og ég er ein hérna heima
með krakkana. Ég skal biðja mömmu um að hringja í þig þegar þau koma heim.
Bless.
Benni lagði tólið á og horfði stjarfur fram fyrir sig. Án þess að segja orðvið masandi fólkið í stofunni fór hann inn í herbergið sitt, rótaði í öskubakkanum þar til hann fann stóran stubb sem hann kveikti síðan í. Hann tók ekki eftir Þórði sem hafði staðið upp úr stól sínum og komið á eftir honum. Í annarri hendinni hélt Þórður á litlum pakka sem vafin var inn í brúnan umbúðapappír. Þennan pakka lagði Þórður á borðið í herbergi Benna og sagði svo um leið og hann fór út.

Handa þér drengur minn, handa þér.
Benni horfði orðlaus á eftir Þórði og brátt heyrði hann ömmu sína og Afakveðja. Brátt voru þau á braut og Þórður með þeim. Nokkrum mínútum síðar kom mamma hans inn til hans.

Þú varst ekki mikið að kveðja afa þinn og ömmu, eða þakka þeim fyrir allar gjafirnar, lét hún móðinn mása. Svo rak hún augun í pakkan á skrifborðinu og spurði.

Hvaða pakki er þetta, ekki kom Þórður með þetta?
Benni leit upp og svaraði: Mamma, Einsi lenti í bílslysi í kvöld þegar hann fór frá okkur. Hann liggur á sjúkrahúsi. Ásta sagði að hann væri með brotinn hrygg.
Hvað segirðu barn, með brotinn hrygg. Þetta er hræðilegt, að lenda í bílslysi á sjálfum jólunum. Það á ekki af þessari fjölskyldu að ganga,
eitt eftir annað, hvílíkt ólán.

Meira heyrði Benni ekki af því sem móðir hans sagði, því síminn hringdi og hann þaut upp til að svara honum. Í símanum var móðir Einsa sem með mæðulegri röddu staðfesti allt sem Ásta hafði sagt honum, og upplýsti jafnframt að Einsi væri á gjörgæslu og berðist nú fyrir lífi sínu. Að símtalinu loknu fór Benni aftur inn til sín og læsti að sér. Hann lét nýja geisladiskinn á geislaspilarann sinn og lagðist upp í rúmið sitt. Einhvern tímann seint um nóttina sofnaði hann loksins og svaf langt fram á jóladag. Þegar hann vaknaði aftur var gjöfin frá Þórði gamla það fyrsta sem hann rak augun í. Hann reis upp við dogg og teygði sig eftir pakkanum og reif hann upp. Í ljós kom hvítur kertisstúfur og gamall og lúinn
spilastokkur. Hann brosti með sjálfum sér að þessum einföldu munum, en mundi svo eftir Einsa og hentist á fætur og í símann. Það var móðir Einsa sem svaraði.

Nei, ekkert nýtt að frétta, nema að myndataka staðfesti að hann væri mænuskaddaður og að hann lægi enn á gjörgæslu.

Benni lagði á og fór inn í eldhús til að fá sér Chereeos. Foreldrar hans voru ekki heima, líklega farin til kirkju. Hann kveikti á sjónvarpinu, en slökkti fljótt á því aftur. Honum datt í hug að hringja í einhverja félaga sína en kom sér ekki til þess. Loks ákvað hann að reyna að taka til í herberginu sínu og
koma einhverju af nýja dótinu sem hann hafði fengið í jólagjöf, fyrir. En honum varð ekkert úr verki, svo hann settist niður á gólfið, reif upp spilastokkinn sem hann hafði fengið frá Þórði og ætlaði að fara leggja þennan eina kapal sem hann kunni. Um leið og hann náði spila-stokknum úr, kom í ljós samanbrotið bréf. Hann fletti bréfinu í sundur og las. Hann las bréfið þrisvar yfir áður en hann áttaði sig á innihaldi þess, þó það væri ritað með skýrri skrift. Þegar hann loks skildi bréfið, lá við að
hann færi að skellihlæja. Hvílíkt bull. Þessi Þórður var sko alveg snargeggjaður ef hann hélt að einhver tæki þessa vitleysu alvarlega. Samt greip hann bréfið aftur sem hann hafði krumpað saman í vantrú, og las það í fjórða sinn.
Kæri Benedikt.
Ég veit að þér þykir eflaust lítið til gjafar minnar koma í samanburði við allar hinar sem ég er vissum að þú færð. Samt er hún í höndum þess sem með hana kann að fara ómetanlega verðmæt. Bæði kertið og spilin eru æfa forn og þeim fylgir undra náttúra sem ég kann ekki að skýra. Ég get aðeins sagt
þér hvernig hún virkar. Náttúra kertisins er sú að hver sem horfir í loga þess, læknast af öllum sjúkleika hversu alvarlegur sem hann kann að vera. Spilin eru þess eðlis að ef þú leggur þau í hring fyrir einhvern, eða með einhvern í huga, segja þau nákvæmlega til um æfi þess hins sama. Þeir
annmarkar eru á ofureðli beggja að þau er aðeins hægt að nota einu sinni á hálfrar aldar fresti. Um þessar mundir eru rúmlega fimmtíu ár síðan gripirnir voru notaðir síðast. Þá sá ég fyrir í spilunum framtíð mína og hver átti að fá þessa gripi næst og hvenær.

Vertu sæll Benedikt.
Þórður Sumarliðason.

Þrátt fyrir hversu fáránlegt innihald bréfsins virtist Benna, fann hann hjá sér ómótstæðilega löngun til að sannreyna það. Ef til vill voru það kringumstæðurnar. Var það algjör tilviljun að hann fékk þessa gjöf
nákvæmlega þegar hann þurfti svo sannarlega á henni að halda, ef að allt reyndist rétt sem karlinn hafði skrifað. Úr huga hans hvarf aldrei hugsunin um að á sjúkrahúsi lá besti vinur hans fyrir dauðanum. Svo hafði Þórður verið svo dularfullur. Hvað um það hugsaði Benni, það var svo
sem nógu auðvelt að sannreyna spilin. Hann hugsaði málið augnablik, tók svo ákvörðun og lagði spilin í stóran hring á gólfið. Hann var varla búinn að sleppa síðasta spilinu, þegar sitthvað fór að gerast og svo hratt að hann varð að hafa sig allan við til að geta fylgst með. Á einhvern
undursamlegan hátt lyftust spilin frá gólfinu og í hverju spili sá Benni svipmynd úr lífi Einsa. Hann sá hvernig móðir Einsa rembdist við að koma honum í heiminn, hvernig hann skreið um skítugt eldhúsgólfið í blokkinni heima hjá sér, hvernig hann át sand úr sandkössum dagheimilisins, skítugur
og með hor í nefinu. Hann fylgdist með hvernig Einsi stækkaði og hvar hann hljóp um göturnar klæddur í föt af systkinum sínum, stundum jafnvel af Ástu, og loks sá hann sjálfan sig kynnast Einsa í barnaskóla. Benna varð allt í einu ljóst hversu mikið Einsi þurfti að hafa fyrir hlutum sem honum
sjálfum þóttu auðveldir. Hann sá að Einsi byrjaði snemma að stela peningum, hvar sem hann gat, til þess að endrum og eins þóttst geta splæst, og hvernig hann smá saman sætti sig við að hafa minna úr að moða en flestir kunningjar hans, að ekki sé minnst á Benna sjálfan. Að lokum sá hann Einsa
hlaupa út frá sér kvöldið áður, of seinan til að taka strætó, of blankan til að taka leigubíl, of stoltan til að biðja um að sér yrði ekið. Hann sá Einsa hverfa undir grænan upphækkaðan Cheroky jeppa og hvernig sippóinn hans þeyttist inn í húsgarð hinumegin við götuna og hverfa þar í skafl.
Síðasta spilið sýndi aðeins gráa móðu. Svo féllu spilin niður á gólfið í eina hrúgu.
Benni sat á gólfinu og nötraði allur af geðshræringu. Hann var lengi að jafna sig, en varð á sama tíma ljóst hvað hann varð að gera. Eftir nokkra stund klæddi hann sig í flýti, stakk kertinu í vasann á leðurjakkanum og hraðaði sér út. Það var jóladagur og enga strætisvagna að fá. Benni hljóp við fót og
stefndi í átt að Borgarsjúkrahúsinu. Móður og másandi hratt hann upp hurðinni á bráðamóttökunni. Bak við öryggisglerjað afgreiðsluborð sat sloppklædd kona sem mændi á hann ósamúðarfullum augum. Benni reyndi að útskýra í fljótheitum að hann þyrfti nauðsynlega að hitta vin sinn sem lægi
fyrir dauðanum á gjörgæsludeild og hann ætlaði að hjálpa honum. Afgreiðslukonan blikkaði bara augunum og hristi höfuðið. Nei, það kom ekki til greina að hún hleypti honum inn þangað sem Benni lá. Jafnvel foreldrar drengsins sagði hún höfðu aðeins fengið að líta til hans augnablik
í fylgd með lækni. Benna varð fljótt ljóst að þessari kjellu yrði ekki haggað. Hann var í þann mund að yfirgefa móttökuna, þegar að maður í hvítum slopp birtist fyrir innan afgreiðsluborðið og sagði eitthvað við afgreiðslukonuna sem Benni heyrði ekki vegna öryggisglersins. Eitthvað í
fari mannsins fannst honum samt kunnuglegt. Hann sá afgreiðslustúlkuna kinka kolli til mannsins, og kalla síðan til hans. "Heyrðu þarna drengur, læknirinn segir að það sé óhætt að þú komir inn fyrir
í nokkrar mínútur." Svo þrýsti hún á hnapp sem staðsettur var úr sjónmáli og dyrnar að bráðadeildinni opnuðust. Benni var ekki lengi að skjótast inn fyrir þar sem hann bjóst við að hitta lækninn. En hann var hvergi sjáanlegur. Benni hafði tekið eftir því á töflu í anddyrinu að gjörgæslan var á annarri
hæð sjúkrahússins. Í stað þess að bíða eftir lækninum ákvað hann að halda þangað á eigin spýtur. Hann fann fljótt stiga sem lá upp á aðra hæð og síðan dyr sem á stóð Gjörgæsla. Benni flengdi upp dyrunum og skaust inn á gjörgæsluganginn, beint í flasið á holdugri hjúkrunarkonu sem riðaði við
og hefði eflaust dottið á afturendann ef Benni hefði ekki náð að grípa hana. "Hvað ert þú að vilja hér ungi maður," spurði hjúkkan og togaði niður sloppinn sem eitthvað hafði aflagast við áreksturinn. Benna kom ekkert til hugar sem hljómað gæti sennilega í eyrum hjúkkunnar svo hann lét reyna á
hálfan sannleikann. Hann fálmaði eftir kertisstúfnum og sýndi hjúkkunni og sagði. " Það eru jól, og vinur minn liggur hér fyrir dauðanum. Hann lenti í bílslysi í gær og ég verð að fá að hitta hann. Ég ætla að kveikja á þessu kerti fyrir hann og..." Konan brosti nú við Benna og sagði svo góðlátlega. Jæja góði, fylgdu mér þá og ég skal sýna þér hvar hann liggur. Konan gekk rösklega inn ganginn og Benni á eftir. Innan nokkurra sekúndna stóð Benni við rúm vinar síns, þar sem hann lá með lokuð augun og andaði óreglulega. "Kveiktu þá á kertinu vinur" sagði hjúkkan, og svo skulum við bara koma. Ég skal svo líta eftir því. " En hann verður að sjá logann svaraði Benni svolítið annars hugar en áttaði sig svo og bætti við. "Ég á við að mér finnst eins og hann viti af mér hérna en geti bara ekki opnað augun hjálparlaust. Getur þú ekki fengið hann til að opna þau, þó ekki væri nema augnablik" Hjúkkan virtist klökkna
við viðkvæmi Benna, því nú teygði hún sig yfir Einar og opnaði augnalok hans með þumlunum. Samtímis kveikti Benni á kertinu. Kertisloginn flökti og Benni tók eftir því hvernig hann speglaðist dauflega í sjáöldrum Einsa. "Jæja, þá er þessu lokið" sagði hjúkkan og gerði sig líklega til að fara.
Hún lagði höndina á öxl Benna eins og til að stýra honum út. "Má ég ekki sitja stundarkorn hérna einsamall við hlið hans" Konan kinkaði kolli, og fór út. Benni settist niður á stól sem stól við
hliðina á rúminu og hugsaði með sér. Þannig var þetta þá, aðeins spilin virkuðu, kertið var greinilega gagnlaust. En svo tók hann eftir því að Einsi hreyfði fæturna. Benni stóð upp og
leit framan í vin sinn. Einsi opnaði augun, leit á Benna og sagði: "Hvar er ég". Það tók Benna aðeins nokkur augnablik að útskýra í stórum dráttum fyrir Einsa hvað hafði gerst, á meðan Einsi starði á hann gapandi. Þegar Benni þagnaði, leit Einsi í kring um sig og spurði. "Hvar eru fötin mín. " Svo
stökk hann á fætur og fór að leita að þeim. Auðvitað voru engin föt í herberginu, svo þeir ákváðu að fara fram á gang. Fyrir þeim vakti fyrst og fremst að komast út, án þess að þurfa að útskýra hvað gerst hafði. Það var alltof ótrúlegt hvort sem var, og læknarnir mundu örugglega vilja halda
Einsa á sjúkrahúsinu öll jólin, bara til að rannsaka hvað gæti hafa gerst. Einar var bara klæddur í þunnan slopp sem opin var að aftan. Þeir komust klakklaust út af gjörgæsludeildinni og voru í þann mund að leggja af stað niður stigann, þegar stór brúnn frakki kom svífandi niður stigaopið. Benni
leit upp fyrir sig og sá hvar maðurinn í hvíta sloppnum sem hann hafði séð niðri í móttökunni nokkru fyrr, stóð fyrir ofan þá og brosti. Svo snéri hann sér við og Benni sá í hendingu að hann var með sítt grátt hár, bundið í tagl í hnakkanum.


Einsi var ekki seinn að koma sér í frakkann á hlaupunum. Áður en varði voru þeir komnir niður á fyrstu hæð og þeir stefndu beint á dyr sem merktar voru Neyðarútgangur. Þeir spyrntu hurðinni upp og hlupu út í snjóinn sem þyrlaðist upp undan fótum þeirra. "Hvert erum við að fara, ég drepst úr kulda á löppunum ef ég fæ ekki skó" hrópaði Einsi móður af hlaupunum. " Eigum við ekki bara að koma heim til mín," hrópaði Benni á móti," við getum spilað póker ef þú nennir, ég fékk þessi fínu spil í jólagjöf".

 


Gvendur Þribbi og Dóra Hjörs.

ZKCAGE20WUCA92LP1YCAXO3V2CCANVFTR1CAM29TLMCA15QX56CAEBFRA5CAQO29NYCAEXZNA3CANM0AQBCA3X68MXCAIH8VSOCAC1LSI8CAMBXDH1CA29O2Y3CAQ6YIDGCARHJ6W0Þegar ég var að alast upp í Keflavík (1960+) bjuggu í bænum ýmsir kynlegir kvistir. Sumir þeirra, eins og Guðmundur Snæland, kallaður Gvendur Þribbi af því hann var einn þríbura, voru alkunnar persónur í bæjarlífinu og settu á það sinn sérstaka svip. Mér var sagt að Gvendur Þribbi væri heimsfrægur munnhörpusnillingur og ég trúði því, sérstaklega eftir að ég heyrði hann eitt sinn spila í barnatíma útvarpsins. Þótt Gvendur væri yfirleitt ölvaður var hann mikið snyrtimenni og sjentilmaður. Í seinni tíð gekk yfirleitt um í einkennisbúningi og með húfu í stíl sem minnti um margt á klæðnað Stuðmanna þegar Þeir voru upp á sitt besta eða jafnvel stíl drengjanna í Oasis. Hann var ekki ólíkur þeim sem myndin er af hér að ofan, en gott væri ef einhver lumaði á mynd af snillingnum, að fá hana senda.

Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn á heimili foreldra minna á Hringbrautinni, þáði þar kaffi og spilaði fyrir okkur krakkana á munnhörpurnar. Hann hafði venjulega nokkrar slíkar á sér. Ég gat samt aldrei áttað mig á lögunum sem hann spilaði. Ég bað hann einu sinni að spila "Hafið bláa hafið" en eftir hálftíma trillur á munnhörpuna gafst ég upp á að hlusta eftir laglínunni. Kannski var Gvendur allt of djassaður fyrir mig. Gvendur angaði ætíð sterklega af Old spice og ég var aldrei viss um hvort sú angan kæmi frá vitum hans eða bara andlitinu en sjálfsagt hefur það verið bæði.

db_The_Harmonica_Player10Gvendur gaf mér tvær munnhörpur en ég gat ekki fengið mig til að spila mikið á þær vegna þess hversu mikið þær lyktuðu af kogara og rakspíra í bland. Ég átti þær fram eftir aldri en veit ekki hvað af þeim varð.

Munnhörpur voru þróaðar í Evrópu snemma á nítjándu öld. Christian Friederich Ludwig Buschmann er oftast eignuð uppfinning þessa hljóðfæris en margar gerðir af munnhörpum virtust spretta upp bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum á svipuðum tíma.

Á Ensku er munnharpa nefnd "Harmonica". En eins og allir vita er harmónikka allt annað hljóðfæri á Íslandi eða það sem nefnd er accordion upp á enskuna. Hvernig nikkan fékk þetta nafn munnhörpunnar hér á landi eins og í Finnlandi og á mörgum austur-Evrópu tungum, er mér ókunnugt um. Fyrstu harmónikkurnar fóru að berast til landsins upp úr 1874. Þá var notað orðið dragspil yfir fyrirbærið.

hansgretelÁ Sólvallargötu skammt vestan Tjarnargötu, stóðu á sínum tíma húsakynni sem í minningunni voru einskonar blanda af gömlum torfbæ og kofatildri. Garðurinn í kring var afgirtur og í þessum óhrjálegu húsakynnum bjó gömul einsetukona sem mér var sagt að héti Dóra Hjörs. Hún var alla vega aldrei kölluð annað í mín eyru.

Í þau fáu skipti sem ég sá Dóru, var hún klædd í sítt pils með strigasvuntu bundna framan á sig og með skuplu á höfðinu. Hvernig sem á því stóð, hafði Dóra í hugum okkar krakkanna á sér ímynd nornarinnar í ævintýrinu um Hans og Grétu. Ég man ekki eftir neinum stað í Keflavík sem fékk hjartað til að berjast í brjóstinu eins ört og þegar farið var fram hjá kotinu hennar. Það sem kynti undir þessa hræðslutilfinningu voru sögur sem oftast voru eflaust skáldaðar upp á staðnum um krakka sem lent höfðu í því að ná í bolta sem skoppað hafði inn í garðinn hennar þar sem hún ræktaði kartöflur, rabarbara og rófur. Hvað nákvæmlega gerðist var aldrei fullkomlega ljóst, en það var eitthvað hræðilegt. Venjulega var hlaupið á harðaspretti fram hjá húsinu og ekki litið til baka fyrr en þú varst komin vel fram hjá. 

Dag einn var ég á gangi annars hugar og vissi ekki fyrri til en ég var kominn alveg upp að girðingunni í kringum garð Dóru. Ég var í þann mund að taka sprettinn þegar að hún birtist skyndilega beint fyrir framan mig. Ég stóð eins og þvara, lamaður af ótta. Hún fálmaði undir svuntu sína og dró fram brúnan bréfpoka, opnaði hann og rétti hann að mér. Ef hún sagði eitthvað heyrði ég það ekki. Ég sá að í pokanum var kandís. Eins og í leiðslu tók ég einn molann og hélt svo áfram að gapa framan í gömlu konuna. Hún tróð pokanum aftur undir svuntuna og rölti svo í hægðum sínum inn í bæinn.

Það þarf ekki að taka það fram, að það trúði mér ekki nokkur maður, þegar ég reyndi að segja þessa sögu í krakkahópnum. En eftir þetta gekk ég óhræddur fram hjá húsi Dóru Hjörs og skimaði jafnvel eftir henni ef ég átti leið þar fram hjá.

 

 

 

 

 


Hámark veisluhaldanna

Það þekkja það flestir að þurfa að fara í veislur sem þeir vildu frekar ekki hafa þurft að sækja. Það sem fer hér á eftir eru nokkrar útgáfur að sömu aðferðinni sem margir nota þegar þeim leiðist í veislum eða vilja lýsa vanþóknun sinni á öðrum gestum eða jafnvel gestgjafanum sjálfur. Það sem er svo merkilegt við þessa aðferð er að hún er nánast eins og sú leið sem notuð er oft til að sýna hversu mjög viðkomandi nýtur veisluhaldanna.

fullur2

fullur4

fullur5

fullur3

fullur1

fullur7

 


Óvenjuleg Störf

Ég hef komið víða við á minni ævi, sem enn er ekkert sérstaklega löng, hvað störf varðar. Stundum hef ég verið svo heppinn að get valið það sem ég vann við og stundum,  með ódauðlegum orðum John Wayne, "þurfti maður að gera það sem maður þurfti að gera".

Hér koma samt dæmi um störf og starfsaðferðir sem ef Guð og lukkan lofar, ég kem aldrei til með að vinna.

vinna2

vinna3

vinna4

vinna5

vinna6

vinna1

vinna8

vinna7


Skrifað í sandinn mikla...blog.is

Það þekkja vitanlega allir sem komnir eru til vits og ára orðatiltækið að skrifa í sandinn. Það á við um eitthvað sem er tímabundið og forgengilegt eða um eitthvað sem enginn veit líkt og það sem Kristur á að hafa ritað í sandinn forðum.

Íslendingar hafa margir skrifað í sandinn, sérstaklega upp á síðkastið, þótt þeir vildu kannski frekar hafa skrifað það sem á veggnum stendur. Sandströndin mikla sem svo margir pára sitt, heitir blog.is

Á Íslandi hefur af augljósum ástæðum aldrei þróast nein sandstrandarmenning. Við höfum því að mestu farið varhluta af listgreinum sem aðeins eru iðkaðar þar sem nógu er af sandi og tíma. Sýnishorn af slíkri óvenjulega forgengilegri list er að finna hér að neðan.

sandur1

sandur2

sandur3

sandur5

sandur7

sandur8

sandur9

sandur10

sandur11

sandur12

sandur13

sandur6

 


Afmæli

Þessa dagana, 27- 28.  Nov. er eitt ár síðan að ég byrjaði að blogga og ýtti fyrst á "vista og birta" og "skoða síðu" takkana og sá fyrsta bloggið mitt á blog.is birtast þann 29.

280 misgóðum færslum og rúmlega 58.000 góðum gestum síðar er ég enn að, þótt þetta hafi í upphafi átt að vera einhverskonar tilraunastarsemi. Fyrstu mánuðina komu hér fáir enda tekur tíma að grundvalla blogg. 

Um leið og ég þakka lesendum og bloggvinum "samvistirnar", "samræðurnar" og "samstöðuna" á þessu tímabili bíð ég í smá blogg-veislu af tilefni dagsins. Ég ætla sem sagt að birta nokkur blogg í dag með jöfnu millibili en ég lofa því jafnframt að þau verða ekki þungmelt.

Hér í lokin, endurbirti ég fyrsta bloggið sem mér finnst bara ágætt enn, þrátt fyrir ellina. Góðar stundir.

Shakespear og Biblían

  shakespear_william             biblia

Þegar að þýðingu The King James Biblíunnar var lokið árið 1610 var William Shakespear 46 ára.

Sumir halda fram að William hafi komið nálægt þýðingu hennar og sett mark sitt á hana með því að fela nafn sitt í 46. Sálmi.

Fertugasta og sjötta orð sálmsins er "shake" og fertugasta og sjötta orð talið frá enda sálmsins er "spear". Ekki á að telja viðbótarorðið "selah" með, enda seinni tíma viðbót.

Dæmið sjálf;

 Psalm 46... 1God 2is 3our r4efuge 5and 6strength, 7a 8very 9present 10help 11in 12trouble. 13Therefore 14will 15not 16we 17fear, 18though 19the 20earth 21be 22removed, 23and 24though 25the 26mountains 27be 28carried 29into 30the 31midst 32of 33the 34sea; 35Though 36the 37waters 38thereof 39roar 40and 41be 42troubled, 43though 44the 45mountains 46shakewith the swelling thereof. Selah. There is a river, the streams whereof shall make glad the city of God, the holy place of the tabernacles of the most High. God is in the midst of her; she shall not be moved: God shall help her, and that right early. The heathen raged, the kingdoms were moved: he uttered his voice, the earth melted. The LORD of hosts is with us; the God of Jacob is our refuge. Selah. Come, behold the works of the LORD, what desolations he hath made in the earth. He maketh wars to cease unto the end of the earth; he breaketh the bow, and cutteth the 46spear 45in 44sunder; 43he 42burneth 41the 40chariot 39in 38the 37fire. 36Be 35still, 34and 33know 32that 31I 30am 29God: 28I 27will 26be 25exalted 24among 23the 22heathen, 21I 20will 19be 18exalted 17in 16the 15earth. 14The 13LORD 12of 11hosts 10is 9with 8us; 7the 6God 5of 4Jacob 3is 2our 1refuge. Selah.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband