Færsluflokkur: Bloggar
22.10.2008 | 01:15
Rógur og skrum
Fjölmiðlar landa beggja vegna Atlantshafsins hafa síðustu daga reynt að gera efnahagsástandinu á Íslandi einhver skil og oft gripið í því sambandi til orða og hugtaka sem eru afar röng og villandi. Að segja að Ísland sé núna "þróunarland", vegna þess að efnahagur þess var svo samtvinnaður bönkum sem urðu illa úti í efnahagshruninu sem allur heimurinn er að fara í gegn um, er fáránleg fréttamennska, skrum og rógur.
Þróunarlönd eru þau lönd sem ekki hafa náð langt í þróun lýðræðis, frjáls markaðar, iðnvæðingar, velferðakerfis og mannréttinda fyrir þegna sína. Þróun landa er mæld eftir ákveðnum stöðlum sem taka tillit þjóðarframleiðslu og almennra launa í landinu, lífslíka og læsi þegna þess. Ekkert af þessu hefur hnignað á Íslandi á síðustu vikum.
Það er líka fáránlegt að heyra Íslendinga sjálfa, jafnvel þótt þeir séu skelkaðir eða/og reiðir, líkja landinu við "bananalýðveldi". Orðið bananalýðveldi er orð sem var fundið upp til að lýsa á niðrandi hátt smáþjóðum sem voru/eru afar óstöðugar pólitískt séð og urðu auk þess að reiða afkomu sína á afmörkuðum landbúnaðarvörum eins og banönum. Þeim er venjulega stjórnað af fáum sjálfkjörnum, ríkum og spilltum klíkum eins og voru lengi af við völd í löndum mið-Ameríku eins og El Salvador, Belize, Nicaragua, Honduras, og Guatemala.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
15.10.2008 | 15:32
Blogg heilkennið
Ég veit ekki hvað margir blogga reglulega á Íslandi en það kæmi mér ekki á óvart að Íslendingar ættu þar heimsmet miðað við fólksfjölda að sjálfsögðu eins og í mörgu öðru. Sjálfur hef ég bloggað í ellefu mánuði og ég verð að viðurkenna að sumt af því sem sagt er hér að neðan og á að lýsa einkennum þeirra sem haldnir eru krónískri bloggáráttu, passar við mig.
Hvað af þessu mundi eiga við þig og hvaða önnur einkenni sem þér dettur í hug, ættu alveg heima í þessari upptalningu?
Þú ert illa haldin/n bloggáráttu ef þú;
1. Ef þankagangur þinn er stöðugt í "skrifgírnum" og þú veltir vandlega fyrir þér niðurröðun orðanna sem hæfa hverri færslu.
2. Þú sérð eitthvað áhugavert eða upplifir eitthvað mannlegt og þú byrjar strax að setja það niður fyrir þér í huganum hvernig þú ætlar að koma því frá þér og getur varla beðið með að komast að tölvunni til að blogga um það.
3. Þú eyðir heilmiklum tíma í að stara á bloggsíðuna þína og dást að hversu frábær hún er.
4. Þú ert stöðugt að hugsa um hvað þú getur bloggað um næst.
5. Frítíma þínum eyðir þú í að lesa bloggfærslur annarra.
6. Þegar þú ert tengd/ur athugar þú tölfræðina á blogginu þínu af og til rétt eins og þú búist við stórkostlegum breytingum á henni á fimm mínútna fresti.
7. Þú átt erfitt með að ákveða hvaða bloggform þú velur á síðuna þína til að nota að staðaldri.
8. Þú ert stöðugt að breyta því sem kemur fram á spássíu bloggsins og breyta stillingum þess.
9. Þú sérð mikið eftir því að hafa ekki myndavél við höndina, þegar þú sérð eitthvað myndrænt í umhverfi þínu og þú hugsar; Þetta hefði verið gaman að skrifa um.
10. Það fyrsta sem þú gerir þegar þú kemst í námunda við tölvu er að athuga bloggsíðuna þína.
11. Að athuga bloggsíðuna þína er hluti af dagsverkum þínum.
12. Þú vilt heldur sitja við tölvuna en að vaska upp.
13. Þér finnst mjög gaman að googla, kópera og linka efni sem þú finnur á netinu fyrir bloggið þitt.
14. Þú gerir þitt besta til að skilja þótt ekki sé nema smávegis í html og koma þér inn í lingóið sem notað er á netinu.
15. Þú uppástendur að bloggið sé aðeins áhugamál.
16. Þegar að þú hefur ekki verið við tölvuna í smá tíma, vaða orð og hugtök um í höfðinu á þér og þú getur ekki raðað þeim saman í heilsteyptar setningar fyrir en þú kemst aftur að tölvunni.
17. Uppáhaldsstaðurinn þinn í heiminum er fyrir framan tölvuna þína. Það er nánast öruggt að það er hægt að finna þig þar.
18. Þú ert farin/n að hata spamaranna sem skilja eftir sig athugasemdir sem eyðileggja útlitið á blogginu þínu og þú íhugar að senda þeim persónulega harðort bréf á orðsendingakerfinu.
19. Þú missir stundum svefn vegna bloggsins.
20. Fólkið sem þú býrð með talar venjulega við hnakkann á þér eða ennið af því það er það eina sem sést af höfðinu á þér.
21. Það er heppið ef að því tekst að draga upp úr þér eitthvað annað en uml þegar þú ert að skrifa
Gleymdi ég einhverju?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
15.10.2008 | 01:17
100 milljónir punda, söguleg upphæð!
Á seinni hluta nítjándu aldar reyndur hinar sterku Evrópuþjóðir hvað þær gátu til að fá Kína til að versla af sér vestrænan varning. Kína vantaði fátt af því sem vesturlönd höfðu upp á að bjóða og vildu enn færra. Talsverð eftirspurn var samt í Kína eftir Ópíum.
Í hinum svokölluðu Ópíumstríðum sem háð voru á sjöunda áratug nítjándu aldar neyddu Bretar Kínverja til að kaupa Ópíum í skiptum fyrir kínversku afurðirnar sem þeir girntust svo mjög. Í hverri höfn í Kína var komið upp verslunarverum fyrir ópíum sem Bretarnir fluttu inn. Þær stærstu voru í Shanghai, þar sem franskir, þýskir, breskir og bandarískir kaupmenn heimtuðu víðáttumikil lönd til umráða sem kallaðar voru "sérlendur" sem þýddi m.a. að þau heyrðu ekki undir kínversk lög heldur lög heimalanda kaupmannanna og landsherranna. Í Shanghai var að finna víðfrægt skilti sem á stóð; "Hundar og Kínverjar bannaðir".
Kristniboð Evrópubúa, járnbrautalagning, Ópíumverslunin og sú niðurlæging sem Kína varð að þola þegar landið tapaði yfirráðum sínum í Kóreu urðu til að vekja mikla andúð Kínverja á öllu sem útlenskt gat talist. Stjórn landsins var of veik til að standa gegn erlendum stjórnvöldum og því kom að því að almenningur reis upp og reyndi að varpa af sér útlendingaokinu.
Í norður Shandong héraði í Kína spratt upp öflug hreyfing sem kallaði sig "Samtök hinna réttlátu og samræmdu hnefa".
Meðlimir hennar, ekki ósvipað og draugadansarar indíána í norður Ameríku nokkrum árum áður, trúðu því að með réttri þjálfun, réttu mataræði, ákveðinni bardagatækni og bænahaldi fengju þeir yfirnáttúrlegum hlutum áorkað eins og að yfirstíga þyngdarlögmálin og fljúga og orðið ónæmir fyrir sverðlögum og byssukúlum. Að auki lýstu þeir því yfir, að þegar til orrustu kæmi, mundi her látinna áa eða "anda-hermanna" stíga niður frá himni og aðstoða þá við að hreinsa Kína af "erlendu djöflunum".
Vesturlandabúar kölluðu þá boxara og við þá er helsta uppreisn þessa tímabils kennd en hún hófst með morðum og pyntingum á kristnu fólki og kristnum trúboðum í Shandong héraði og síðan með árás á borgirnar Tianjinog Bejiing.
Keisaraynjan Cixi dró taum boxaranna og neitaði að senda heri sína gegn þeim. Þess í stað sendi hún 50.000 mann herlið sem tók þátt í uppreisninni ásamt boxurunum.
Frá upphafi til enda stóð uppreisnin aðeins í 55 daga. Hún fjaraði út í Ágúst mánuði árið 1900 þegar að 20.000 manna herlið vesturlanda Austurríkis-Ungverjalands Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japan, Rússlands, Bretlands og Bandaríkjanna, réðist gegn uppreisnarmönnunum þar sem þeir sátu um fáliðaða erindreka og kaupmenn sem vörðust í borgarvirki sem þeir höfðu komið sér fyrir í borginni Bejiing. Í umsátrinu sem hófst í Júní mánuði féllu 230 kaupmenn og erlendir erindrekar. Talið er að yfir 20.000 boxarar hafi tekið þátt í umsátrinu en alls létust í uppreisninni 115.000 manns, þar af 109.000 Kínverjar.
Í virkinu höfðust við fáliðaðir kaupmenn og stjórnarerindrekar. Þeir höfðu eina fallbyssu til afnota og var hún kölluð alþjóðlega byssan. Hlaup hennar var breskt, hleðslan ítölsk, kúlurnar voru rússneskar og byssumennirnir Bandaríkjamenn.
Eftirmálar uppreisnarinnar urðu all-sögulegir. Blöð á vesturlöndum og í Japan ýktu mjög fjölda þeirra sem féllu fyrir hendi Boxaranna og birtu upplognar sögur af hroðalegri meðferð þeirra sem í höndum uppreisnarmanna lentu. Við slíkan fréttflutning gaus skiljanlega upp mikið hatur í garð Kínverja og þeir voru af öllum almenningi álitnir réttdræpir villimenn.
Hefndaraðgerðir vesturvelda fylgdu í kjölfarið með tilheyrandi drápum og nauðgunum. Fræg var skipum Vilhjálms ll Þýskalandskeisara til hermanna sinna er hann sagði í ræðu; "Gerið nafnið Þjóðverja svo minnisstætt í Kína næstu þúsund árin svo að engin Kínverji muni þora aftur að brýna augun á Þjóðverja."Einmitt í þeirri ræðu minntist Vilhjálmur á Húna sem varð til þess að Þjóðverjar voru uppnefndir Húnar bæði í heimstyrjöldinni fyrri og þeirri síðari.
Meðal þeirra sem voru heiðraðir fyrir vasklega framgöngu í boxarauppreisninni var Sjóliðsforinginn Georg Ritter von Trapp, sem seinna varð heimsfrægur sem faðirinn í söngleiknum Tónaflóð (The Sound of Music) en hann þjónaði um borð í SMS Kaiserin und Königin Maria Theresa sem var eina orrustuskip Austurríkis við strendur Kína um þær mundir.
Kína var gert að greiða himinháar skaðabætur fyrir uppreisnina, eða 450,000,000 tael (1 tael er 40 gr.) af silfri, um 100 milljónir punda á verði dagsins í dag. Upphæðin átti að greiðast á 39 árum með 4% vöxtum á ári. Til að flýta fyrir borguninni var fallist á að setja útflutnings toll á fram að þessu tollfrjálsan varning og auka þann sem fyrir var úr 3.18% í 5%.
Uppreisnin og eftirmálar hennar urðu til þess að valdtíð Qing keisaraættarinnar sem ríkt hafði frá árinu 1644 lauk árið 1912 og Kína varð að Kínverska Alþýðulýðveldinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.10.2008 | 13:32
Stóru þjóðirnar....vinir okkar
Þegar að leiðtogar stórþjóðanna tala um að vandinn sé "hnattrænn" og að aðgerðir verði að vera samræmdar, eiga þeir greinilega og fyrst og fremst við helstu iðnríki heimsins.
Þau eru u.þ.b. 10 að tölu.
Þegar að kredit kreppan skall á reyndu þessar þjóðir að bjarga eigin rassi á kostnað þeirra sem minna máttu sín.
Þegar það dugði ekki, hittust leiðtogarnir og ákváðu að gera það saman sem þeir höfðu áður reynt hver um sig.
Nú er að sjá hvernig fer. Verðbréfamarkaðurinn í Sádí Arabíu hækkaði alla vega um 9% í dag.
Allar þessar þjóðir hafa fram að þessu neitað íslendingum um fyrirgreiðslu. Eftir að hafa knésett okkur reyna þeir nú eftir krókaleiðum að gera okkur gylliboð um björgun. Hvað vakir fyrir þeim?
Hver treystir þeim eftir slíka framkomu? -
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.10.2008 | 13:27
Íslensk fyrirtæki í Bretlandi með 100.000 Breta í vinnu.
Nú virðist vera að koma á daginn að Gordon Brown hafi skotið sig illilega í fótinn þegar hann fór út í aðgerðir gegn íslensku fyrirtækjum á grundvelli laga sem ætluð voru til að stemma stigu við fjármálastarsemi hryðjuverkahópa.
Fólk almennt spyr sig hvort það hafi verið þetta sem vakti fyrir stjórnvöldum þegar að þau fengu þessi lög samþykkt, þ.e. að geta látið til skarar skríða gegn hverjum sem er, svo lengi sem forsætisráðherrann ákveður að þjóðaröryggi sé í húfi. Íslendingar samkvæmt skilgreiningu ógna sem sagt þjóðaröryggi Bretlands, samkvæmt túlkun Browns.
Það má samt færa líkur að því að haldi Brown þessu til streitu, muni koma til kasta íslendinga að svara fyrir sig. Brown ætti að vera ljóst að stærsta fyrirtæki Bretlands í einkaeign er íslenskt. Honum ætti líka að vera ljóst að íslensk fyrirtæki í Bretlandi hafa yfir 100.000 manns í vinnu hjá sér, langflestir Bretar. -
Breskir viðmælendur fjölmiðla sem vinna hjá þessu fyrirtækjum, eru gapandi yfir yfirlýsingum Browns og aðgerðum hans. -
Ef að það er ósk Browns að flæma þessi fyrirtæki í burtu frá Bretlandi, er hann á réttri leið. - Eða kannski það sé ætlun Browns að gera þessi fyrirtæki upptæk líka og segja Íslandi alfarið stríð á hendur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.10.2008 | 09:21
Brown reynir að snúa ótta Breta upp í reiði gegn Íslendingum
Þess má þegar sjá merki að vopnin eru að snúast í höndunum á Brown forsætisráðherra Breta. Hann reyndi með ummælum sínum að snúa ótta Breta upp í reiði gegn Íslendingum. Þótt öll bresku blöðin séu með Íslandsmálin á forsíðu í dag og séu flest afar ósanngjörn, er fólk farið að spyrja hvers konar framkoma þetta sé við smáþjóð sem allir líta á sem vinaþjóð.
Mundi Brown hafa komið svona fram ef Þýskaland hefði átt í hlut, spurði virtur sjónvarpsþáttargerðarmaður í gærkvöldi. -
Bretar tala um "New cod war" og segja c.o.d. standi fyrir "Cash on delivery" og slíks sé ekki að vænta af Íslandi.
Stjórnarandstaðan í Bretlandi er þegar farin að ásaka Brown um "grand standing" í Íslandsmálinu og um að nýta það sér til framdráttar í pólitískum tilgangi. Ópólitískir menntamenn hafa bent á að aðgerðir Browns og frysting eigna íslendinga í Bretlandi sé kol-ólögleg og lítt til þess fallin að vekja traust annarra þjóða á stjórnvöldum. Brown hefur sýnt í þessu máli að hann er fær um að leggja minnimáttar í einelti. Einnig hafa margir af fjárfestunum sjálfir sagt að þeir óttist ekki og reikni með að fá ekki greitt þegar tímar líða frá. Nú er sendinefnd frá breska fjármálaráðuneytinu á leið til Íslands til að "kynna" sér stöðuna þar. Kannski hefðu þeir átt að gera það áður en þeir réðust í aðgerðir gegn íslensku fyrirtækjunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.10.2008 | 18:35
Bretar tala um nýtt Þorskastríð við Ísland
Það er fáránlegt að hlusta á einhverja útvarpsmenn hér í Bretlandi heimta með frekjutón og fyrirlitningu afsökunarbeiðni af íslenska sendiherranum eftir að hann hafði lesið greinargóða yfirlýsingu um ástand mála.
Breskir fjölmiðlar eiga eftir að fara hamförum gegn Íslandi og íslendingum í kvöld og á morgunn og andrúmsloftið er eins og rétt áður en átökin hefjast fyrir alvöru. Það þarf að afmennska óvininn. Þegar er farið að heyrast að Bretar líti á ástandið sem að nýtt þorskastríð sé í uppsiglingu af því að Icesave getur ekki borgað öllum Bretum það sem þeir áttu inni hjá fyrirtækinu.
Fjöldi breskra sveitarfélaga og jafnvel mannúðarsamtaka lagði inn fé til Icesave og fór þar m.a. að ráðum breskra stjórnvalda. Von um háa ávöxtun gerði sjóðinn álitlegan fyrir gráðuga Breta. Bresk stjórnvöld nota hvert tækifærri sem þeir hafa til að beina athygli fólks að því að Ísland geti ekki borgað og nota landið og þjóðina sem blóraböggul. Þeir hafa tekið Landbanka og Kaupþings-eignir bæði á Ermasundseyjunni Gurnsey og Isle of Man til gjaldþrotaskipta.
Íslendingar eiga að neita að borga krónu af þessum peningum. Ef þeir eru tapaðir, töpuðust þeir vegna þess að djarft var spilað með peningana af Landsbankanum. Þeir sem stjórnuðu því verða að svara fyrir Það. Hvers vegna láta ráðherrar og sendiherrar Íslands eins og að þetta sé þjóðinni að kenna eða einhverri heimskreppu. Það vita allir að þeir eru að ljúga og sú lygi kemur óorði á Ísland og íslendinga. Hverja er verið að vernda?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.10.2008 | 16:29
Ísland, verst í heimi
"Íslendingar biðjast forláts á því að hafa gert heiminum þetta", segir röddin í útvarpinu. "Ætla þeir líka að biðjast afsökunar á Björk", svarar viðmælandinn. Orðstír Íslendinga hrapar hratt um þessar mundir meðal Evrópuþjóða, ekki hvað síst Breta sem segjast eiga fullt af peningum inni í Íslenskum bönkunum sem ekki sé hægt að fá greidda.
Brown forsætisráðherra (Geir Breta) segist ætla að sækja þessa peninga með lögsókn. Fjölmiðlar halda því fram að Ísland rambi á barmi gjaldþrots og bæti þar með einu heimsmetinu við í sarpinn, fyrsta og eina þjóðin í heiminum til að vera tekin til gjaldþrotaskipta.
Og það er ekki einu sinni beðið eftir því að þjóðin lýsi yfir gjaldþroti. Þegar er byrjað að selja eigur hennar erlendis á spottprísum. Lúxemborgar bankinn er farinn og eins Lundúnaútibú Landsbankans. Hlutirnir gerst hratt. Íslendingar bregðast við eins og steinrunnið tröll. Enginn vill lána þeim krónu. Þeir eru litlir og öfundaðir og liggja einkar vel við höggi nú, og þeir verða óspart notaðir sem blóraböggull til að draga úr sekt og sársauka erlendra peningamanna.
Heima virðast allir vera enn í "þetta reddast" fasanum. Fæstir vita ekki að það er búið að afskrifa Ísland sem alvöru land og að það var gert í gær af heimspressunni og síðan af fjármálastofnunum heimsins. - Hver einasti grínþáttur er fullur af skopi um Ísland og íslendinga sem virðast ansi vinafáir sem stendur. Bandaríkin vilja ekki lána okkur, Rússar segja kannski og vilja sjá hvað meira við erum tilbúnir að offra, Evrópuþjóðirnar eru sundurþykkar og sjálfselskar og Ísland stendur eitt.
Flestir skemmtiþættir hér um slóðir eru fullir af gríni um íslendinga og Ísland og hvernig þeir létu fáeina kalla í jakkafötum veðsetja alla þjóðina til að þeir gætu spókað sig um á erlendri grundu og sagst eiga fótboltafélög og tuskubúðir um allt Bretland. - Stjórnmálmennirnir á Íslandi eru sagðir heimskir og alþýðan heimskari. -
Auðvitað svíður manni þetta fyrir hönd lands og þjóðar en fyrst og fremst er það reiðin sem angrar mann. Reiðin sem sprettur fram af því ég veit að þeir sem bera ábyrgðina á þessum hrakförum reyna að segja fólki að þetta hafi verið óumflýjanlegt og að "heimskreppan" hafi gert þetta. Reiður vegna þess að ég veit að þeir sem veðsettu Ísland verða enn ríkari á þessu því að þeir munu láta sauðsvartan almúgann borga fyrir sig skuldir sínar. Þeir eru ekki margir, en þeir eiga meira enn allir hinir til samans. Þegar upp er staðið munu þeir eiga enn meira og við hin, enn minna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
6.10.2008 | 21:54
Ég er að deyja...úr hlátri
Atli Húnakonungur (406-453)er einn af illræmdustu persónum sögunnar. Á fyrri helmingi fimmtu aldar lagðist hann í landvinninga í Asíu og Evrópu og eyddi gjarnan þeim þorpum og byggð sem á leið hans urðu allt frá útjaðri Kína í austri til landamæra Rússneska heimsveldisins í vestri. Hann lést, eftir því sem best verður séð, af blóðnösum sem hann fékk á brúðkaupsnótt sína. Hann var grafinn ásamt miklum fjársjóði en þeir sem tóku gröfina og báru hann til grafar voru allir aflífaðir af ótta við að þeir segðu frá staðsetningu grafarinnar.
Breski leikarinn George Sanders (1906-72) fékk óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á skapilla leikhús-gagnrýnandanum í kvikmyndinni "All about Eve". Hann fór einnig með aðal-hlutverkið í myndinni "Death of a scoundrel" 1956 og seinna kennara sem fremur sjálfsmorð í kvikmyndinni "Village of the Damned". Samkvæmt litlum miða sem fannst á dánarbeði hans, framdi hann sjálfsvíg vegna þess hve honum leiddist.
Eftir að hafa orðið fyrir kúlunni sem leiddi hann til dauða, hrópaði mexíkanski uppreisnarmaðurinn Pancho Villa til nærstadds blaðamanns: " Ekki láta þetta enda svona. Segðu þeim að ég hafi sagt eitthvað".
Þótt að Bobby Leach (1858-1926) hafi brotið næstum því hvert einasta bein í líkama sínum, lifði hann það af að láta sig gossa niður Niagarfossa 1911 í sérstakri tunnu. Hann náði sér að mestu og ferðaðist víða um heiminn eftir það og skemmti fólki með frásögnum af þessari svaðilför. Á einni slíkri söguferð á götu á Nýja Sjálandi rann hann á bananahíði og fékk svo slæmt höfuðhögg að hann dó.
John Sedwick (1813-54) hét hershöfðingi einn bandarískur og tók hann þátt í borgarastyrjöldinni milli suður og norðurríkjanna. Síðustu orð hans voru: " Þeir geta ekki einu sinni hæft fíl á þessu færi".
Þegar að ein kunnasta kvikmyndaleikkona Bandríkjanna Joan Crawford lá fyrir dauðanum ákvað bústýra hennar og líklegast hennar eina vinkona að biðja fyrir henni. Um leið og Crawford heyrði í vinkonu sinni við rúmgaflinn reisti hún sig upp við dogg og sagði: "Þú skalt ekki dirfast að biðja Guð um að hjálpa mér". Hún var ekki lögst aftur á koddann áður en hún var dáin.
Hinn hugprúði franski heimspekingur Voltaire (1698-1778) var oft í mótstöðu við ríkjandi hefðir og viðtekna trú síns tíma þótt hann færi í öllu að hinum ströngu 18. aldar lögum. Þegar að prestur einn á dánarbeði Voltaire bað hann um að afneita djöflinum svaraði heimsspekingurinn: "Svona nú sér minn, þetta er ekki tíminn til að eignast nýja óvini".
Síðustu ár ævi sinnar leitað hið mikla bandaríska ljóðskáld Walt Whitman(1819-92) í djúpum sálar sinnar að fáeinum framúr skarandi orðum sem verða skildu hans síðustu orð sem hann mundi skilja eftir sem síðustu arfleifð sína til handa mannkyninu. Hann gafst upp á endanum og síðasta orð hans var "Shit".
Albert Einstein(1879-1955) sagði síðustu orð sín á dánarbeði sínu en heimurinn fær aldrei að vita hver þau voru því hjúkrunarkonan hans skyldi ekki þýsku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.10.2008 | 01:21
Uppnefningar
Það hefur alltaf þótt svo lítið svalt á Íslandi að geta svarað fyrir sig með háði og glósum. Málfar okkar og ritmenning er lifandi dæmi um það og ekkert þótti eins snjallt í kveðskap hér áður fyrr eins og vel kveðin níðvísa.
Ég held að íslendingar séu ekki vaxnir upp úr þessum ósóma og að stór þáttur þess sem við köllum "einelti" séu uppnefningar.
Nú hefur talsverðum tíma og fjármunum verið varið í að rannsaka þetta fyrirbæri, þ.e. hvað liggi að baki þörf einstaklinga til að nota uppnefni sem einkennandi samskipta-aðferð og hvernig viðbrögð slíkt vekur hjá þolandanum.
Í fljótu bragði eru þetta niðurstöðurnar;
Uppnefning er bæði rökvilla (logical fallacy) og skilningsvilla (cognitive bias) og er einkum notuð sem áróðurstækni. Sem slík er henni ætlað að vera aðferð til að vekja ótta og fordóma og að sá ótti og fordómar verði til að mynda meðal þeirra sem lesa heyra eða sjá áróðurinn, neikvæða mynd af einstaklingnum, hópnum, trúnni eða hugmyndakerfinu sem áróðurinn beinist að.
Aðferðinni er ætlað að koma fyrir í hugum viðtakenda niðurstöðum um menn og málefni án þess að rannsókn á staðreyndum fari fram. Uppnefningar koma þannig í stað rökréttrar hugsunar sem grundvölluð er á staðreyndum og koma í veg fyrir að hugmyndin eða trúin séu dæmd á eigin verðleikum.
Því er ekki að neita að það hvarfli að mér að uppnefningar hafi fengið endurnýjun lífdaga meðal fullorðins fólks með tilkomu bloggsins. Óvirðingin og munnsöfnuðurinn er slíkur á stundum að maður getur ekki annað en dregið þá ályktun að þarna sé komin bein ástæða fyrir því hvers vegna einelti meðal skólabarna er viðvarandi vandamál. Sé þetta það sem fyrir börnum er haft þarf ekki að spyrja að útkomunni.
PS.
Aftur minni ég á skoðanakönnunina hér til vinstri um jafnréttið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)