Færsluflokkur: Bloggar
30.9.2008 | 14:12
Blekpennar senda frá sér ruslpóst
Eitthvað er ekki að virka þarna hjá Blekpennum.Com. Nú eru þeir farnir að senda bloggin sín beint til fólks á þær tölvupósta addressur sem þeir hafa komist yfir. Ég hef ekki skráð mig á Blekpennar.com eða óskað eftir svona ruslpósti, en það virðist ekki skipta neinu máli.
Í morgun var ruslpóstur frá Skúla Skúlasyni í tölvu póstinum mínum; enn eitt framlag hans í anda hrydjuverka. Hann er að hallmæla Bandaríkjastjórn fyrir að gera ekkert í málum Saudí Araba, eins og t.d. að hætta að kaupa af þeim olíu, vegna þess að þeir styðja hryðjuverkasamtök. - Hræsni Bandaríkjamanna er löngu kunn hvað þetta varðar, en Skúli var greinilega að fatta þetta fyrst núna.
En aftur að Blekpennum.com þá eru þeir greinilega orðnir úrkula vonar um að nokkur komi til að lesa þá, fyrst þeir verða að grípa til svona "direct marketing" bragða. En slíkt virkar bara einu sinni. Hér eftir getur maður eitt póstinum um leið og ljóst er hvaðan hann er. Meðal bloggara hefur friðhelgi tölvipósta heimilisfanga verið virt og þær aðeins notaðar fyrir persónuleg samskipti og athugasemdakerfin látin duga öðru leiti.
Ég hef líka orðið var við að orðsendingakerfið hér á blog.is er notað í auknum mæli til að vekja athygli á færslum bloggara. Satt að segja finnst mér það líka óviðeigandi. Það er allt í lagi þegar mikið liggur við, en ekki svona almennt finnst mér.
-----------------------------------------------------------------------
Ég vil aftur vekja athygli á skoðunarkönnuninni hér til hliðar þar sem spurt er um hvort jafnrétti ríki á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
25.9.2008 | 10:45
Óskar Arnórsson læsir bloggsíðu sinni
Fyrir fáeinum dögum fékk ég sérstök skilaboð frá Óskari Arnórssyni bloggara um að mikilvægar upplýsingar um ástand mála hvað varðaði stöðu Íslam í vestrænum heimi hefðu verið birtar á síðu hans. Greinin gaf það í skin að múslímar væru ógn við þjóðaröryggi okkar. Þótt ég sé ekki hlynntur því að skilaboðakerfið á blog.is sé notað til að auglýsa bloggsíður kíkti ég á þessa "mikilvægu" grein hjá Óskari. Mér satt að segja snar brá því það var ekki annað að sjá en að hryðjuverkasíðan sem á sínum tíma var úthýst hér á blog.is fyrir slælegan áróður, væri upprisin.
Ég átti á síðunni nokkur orðaskipti við aðila sem kallaði sig Kaspar og virtist sá vera hallur undir þær skoðanir sem í grein óskars voru tíundaðar og fólu m.a. í sér að réttast væri að fangelsa eða setja í einhvers konar fangabúðir, alla múslíma á Íslandi. - Langflestir sem settu inn athugasemdir lýstu samt innihald greinarinnar og þeirra athugasemda sem studdu hana, óráð eitt.
Í morgun þegar ég ætlaði að athuga með athugasemdirnar, enda kerfið þannig stillt ð ég gæti það, bregður svo við að Óskar er búinn að læsa síðunni. Hann hefur enn ekki sent út um það neinar tilkynningar hvað þá skýringar á þessu athæfi sínu, sem hefði þó verið upplögð nýting á tilkynningakerfinu. Mér þótti það dálítið skrýtið að Óskar tók ekki þátt í umræðunni á síðu hans, nema rétt í byrjun. Kann einhver skýringar á þessu einkennilega athæfi Óskars?
Bloggar | Breytt 27.9.2008 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (160)
21.9.2008 | 14:57
Sköpun, þróun eða hvort tveggja?
Fyrir stuttu skrifaði ég greinarstúf um hættuna sem ég tel að stafi af bókstafstrú og öfgafullum birtingarmyndum hennar í samfélaginu. Við greinina voru gerðar vel yfir 300 athugasemdir og tóku þær fljótt á sig svip þess karps sem við þekkjum svo vel af bloggsíðum sem gerðar eru út á það eitt, að því er virðist, að færa sönnur á að sköpunarsaga Biblíunnar standist vísindalega skoðun.
Ég dró mig fljótlega til hlés í þeirri umræðu og svaraði m.a. ekki a.m.k. tveimur fyrirspurnum sem beint var til mín um afstöðu mína til þróunarkenningarinnar út frá persónulegum trúarlegum skoðunum mínum.
Um sama leiti skrifaði ágætur bloggari Kristinn Theódórsson góða gein sem hann nefnir Sköpunarverk Guðs og þar í athugasemd geri ég einmitt grein fyrir því sem um var spurt í umræðunum á minni síðu.
Um leið og ég vil vekja athygli á grein Kristins endurbirti ég hér athugasemd mína við hana sem mér finnst alveg geta staðið sem grein út af fyrir sig. Ég feta þannig í fótspor Arnars Pálssonar sem einnig gerði athugasemd við grein Kristins og birti hana síðan sem sér bloggfærslu sem hann nefnir Dýr skynja dauðan.
Athugasemd mín er svar við spurningu Kristins; "Ertu þú, Svanur, sannfærður um að gögnin bendi til þess að samviskan, kærleikurinn, "sálin" og fleira séu frá einhverju vitrænu afli komin, en geti ekki verið lífræn afleiðing greindar?"
Sem betur fer hefur mannkyninu fleygt áfram í vísindalegi þekkingu og jafnvel þótt erfðafræðin sé enn ung erum við að byrja að fá svör við ýmislegu sem okkur var áður hulin ráðgáta.
Hvaða ályktanir er hægt að draga af þeirri staðreynd að maðurinn hefur eitt síðustu 50.000 árum (og kannski miklu lengur) í að koma sér upp hegðunarmunstri, lagabálkum og öðrum þáttum siðmenningar sem beinast að stórum hluta að því að stjórna og jafnvel bæla niður hvatir sem eru honum erfðafræðilega eiginlegar?
Tökum sem dæmi kynhvöt mannsins. Um daginn kom frétt um það (hún olli talverðu umtali hér á blogginu og var um margt misskilin) að karlmönnum væri eðlilegt samkvæmt erfðafræðinni að breiða gen sín út sem víðast. Þess vegna væri eðlileg svörun við þessu að konur drægjust að þeim karlmönnum (hinum ótryggu) vegna þess að afkomu-gen þeirra væru virkari. Einkvæni stangast sem sagt á við þessar lífrænu hvatir. - Hvaða vitleysis hugmyndir eru þá í gangi um einkvæni og hjónabönd? -
Þróun hugmynda manna um eignarrétt er annað dæmi. Hverskonar lífríki gerir ráð fyrir því að tegundinni sé best borgið með því að 2% af heildinni ráði yfir og eigi 95% af lífsviðurværi hennar? NB að við erum ekki maurar eða býflugur þar sem líffræðilegar forsendur forsjár af þessu tagi eru augljósar. Hvaða óyndisaukalimur þróunarinnar getur orsakað þessa hegðun?
Allt sem ég hef lesið um trúarbrögð og mankynssögu í bland við það litla sem ég þekki til vísinda leggst á eitt með að álykta að maðurinn sé tvíeðla. Hann er dýr og í honum býr dýrseðlið og hann er vitsmunavera sem gerir dýrseðli hans hræðilegt láti hann undan því og hann er vitsmunavera af því hann er meira en afurð lífrænnar þróunar. Þessi sérstaka lífræna þróun hans, þurfti að vera all-sérstæð eins og Óskar kemur inn á, (munurinn á okkur og dýrunum (við erum líka dýr) er þumallinn.. án hans hefðum við enn verið að flýja hýenur í afríku upp í tré ;) til þess að andlegir kraftar hans gætu komið í ljós. Þumallinn hjálpar okkur að ná gripi á áhöldum sem urðu til þess á undarverðum tíma að við sendum apa út í geiminn langt áður en við voguðum okkur sjálfir þangað.
Trú og trúarbrögð eru enn ein erfðafræðilega "mótsögnin". Tilraunir til að skýra fyrirbrigðið með eðlislægri hræðslu við líffræðilegan dauðann eða sem tilraun okkar til að gera áætlanir um framtíðina standast ekki.
Neanderdalsmaðurinn gerði sér altör í hellum sínum og gerði hinum dauðu grafir án þess að hafa ástæðu til að sýna neina fyrirhyggju um framtíð sína frekar en aðrar tegundir mannapa. Hann var veiðimaður og safnari. Samt átti hann greinilega sér átrúnað. Óttinn við dauðann er að mínu mati menningarlegt fyrirbæri. Líffræðilega verður líkaminn með aldrinum stöðugt óhæfari til lífs og erfðafræðilega erum við eins og dýrin hvað það varðar að ef ekki væri fyrir menningarlega þætti, mundum við skríða afsíðis án nokkurrar hræðslu og deyja. Við deyjum meira að segja á hverjum degi án þess að hræðast meðvitundarleysið.
Meðvitundin um sjálf okkur, án tillits til greindar, er annað.
Stundum er sagt að einhver api hafi greind á við sjö ára barn. Samt mundum við aldrei líta svo á að lítil börn hafi ekki sjálfsmeðvitund eða að hún sé í réttu hlutfalli við greind þess. Heili mannsins virðist afar flókið tæki. Við vitum ekki einu sinni til hvers megnið af honum er. Hann getur t.d. skipt um svæði eða tekið í notkun fyrir skemmd svæði önnur heil, fyrir starfsemi sína. Þetta bendir til að hugurinn sé ekki háður heilanum að öllu leiti.
Hugurinn sem reyndar vinnur eftir því sem við best vitum aðeins í gegnum heilann, er svo sterkur að hann fær yfirstigið lögmál líffræðinnar. Með jákvæðu hugarfari styrkist ónæmiskerfið og veikist að sama skapi við depurð og neikvæðni. Það eru sem sagt hugmyndafræðilegar ástæður frekar en líffræðilegar, fyrir ákveðinni hegðun líkamans. Frægt er dæmið um manninn sem lokaðist inn í frystigám í New York á sjöunda áratugnum og fraus í hel. Lík hans sýndi öll einkenni þess að hann hafði króknað úr kulda. Það sem vakti undrun lækna var að frystigámurinn var ekki í gangi og hitastigið inn í honum var um 11 stig.
Persónulega er ég því sannfærður um að maðurinn sé sál (andleg vera og óefnisleg orkueining.Gott dæmi er eins og sólargeisli sem er frá sólinni en ekki hluti af henni lengur) í dýrslegum líkama. Grunnhvatir hennar birtast í manninum í þörfinni til að þekkja og elska. Þessar grunnþarfir kontrasta stöðugt við dýrseðli okkar og er nauðsynlega forsenda fyrir það sem við getum kallað þroska og sá sameiginlegi þroski er það sem við köllum siðmenningu.
Hvort tilvist sálar leiði endilega af sér tilvist Guðdóms er svo annað mál en ég er einnig sannfærður um að svo sé.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (98)
20.9.2008 | 11:42
Breyttasti maður heims
Tilgangurinn er ekki að vekja með ykkur viðbjóð þótt það sé e.t.v. óumflýjanlegt hjá sumum. Þegar ég var að kanna hverjir hefðu gengist undir flestar "fegrunar-lýtaaðgerðir" fann ég umfjöllun um þennan mann. Raunverulegar öfgar okkar tíma eru svo ótrúlegar að þær taka öllum skáldskap fram
Hann er sagður vera "breyttasti" maður heims. Saga hans er eiginlega óskiljanleg, sérstaklega þegar þú íhugar ábyrgð tannlæknanna og skurðlæknanna sem hljóta að hafa samþykkt að gera þessa breytingar á honum. Hér til vinstri er mynd af Dennis áður en breytingarnar hófust.
Hann heitir Dennis Avner og er rúmlega 50 ára gamall. Hann á heima í Nevada, USA og er komin af Indíánum. Indíánanafn sitt segir hann vera "Veiðiköttur". Fyrir utan eiginnafn sitt er hann þekktur undir nöfnunum; Kattarmaðurinn, Kötturinn, Tígur og Tígurmaðurinn.
"Ég er Hjúrani og Lakkóta Indíáni og ég fylgi gamalli Hjúrana hefð með að umbreyta sjálfum mér í verndardýr þeirra, tígurinn."
Denis hóf umfangsmiklar breytingar á líkama sínum þegar hann var 23 ára, eftir að hafa verið sagt af indíánahöfðingja einum; "Fylgdu vegi tígursins".
Dennis hefur greitt miklar fúlgur og gengið í gegnum mikinn sársauka til að breyta líkama sínum í þeim tilgangi að líkjast tígursdýri. Þeir sem hafa áhuga á að sjá fleir myndir af þessum furðulega Indjána geta skoðað þær á heimasíðu hans hér .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.9.2008 | 02:00
Hvenær deyrð þú?
Viltu vita hvenær þú munt deyja? Ef ekki, þá skaltu ekki fara á þennan link og svara nokkrum laufléttum spurningum, því ef þú svarar þeim eftir bestu vitund mun "lífreiknirinn" segja þér nákvæmt dánardægur þitt.
Samkvæmt honum mun ég deyja í júlí 2031 og á því um 8300 daga eftir ólifaða svo fremi sem ég verði ekki fyrir slysi. Ef þið hugrökku sálir, viljið vita, og láta svo aðra vita hvenær klukkan glymur ykkur, gjörið svo vel.
Spurningin sem brennur á mér er hvort tryggingarfélögin hafi aðgang að svona reiknum :) og e.t.v. það sem mikilvægara er; hvort þau taki mark á þeim
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
13.9.2008 | 14:45
Brúðkaupið í Kína
Brúðkaupsmyndir, eru misjafnlega góðar og spennandi fyrir ókunnuga á að líta. Fólk er yfirleitt brosandi á góðri stundu og brúðhjónin leika við hvern sinn fingur. Hér koma afar óvenjulegar brúðkaupsmyndir.
Þann tólfta Maí síðastliðinn (2008) var efnt til brúðkaups í um eitt hundarð ára gamalli kirkju í þorpinu Sichuan í Kína.
Hjónavígslan hófst rétt um klukkan 14:00 á hefðbundinn hátt. Þessi mynd var tekin af brúðhjónunum á kirkjutröppunum.
Skyndilega, kl:14:28 að staðartíma hófust miklar jarðhræringar. Yfir reið mesti og mannskæðasti jarðskjálfti í Kína síðan að Tangshan skjálftinn 1976 skók landið.
Jörðin skalf í þrjár mínútur og kirkjan byrjaði að hrynja. Brúðkaupsgestirnir 33 stóðu enn fyrir utan kirkjuna sem betur fór.
Stórir hnullungar hrundu úr kirkjunni yfir kirkjugesti.
Brúðguminn sást varla fyrir ryki
Og brúðurin sést hér með kirkjurústirnar í bakgrunni.
Skelfingu lostnir brúðkaupsgestir eftir að aðalskjálftanum lauk.
Það sem eftir stóð af kirkjunni
Jarðskjálftinn varð um 100.000 manns að bana og enn er verið að grafa lík úr rústum húsa eftir þennan skjálfta í Kína. 17.000 manns er enn saknað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.9.2008 | 11:43
Vogue, Gere, Clooney og Lebron James
Vogue hefur í fjölda ára verið álitið fremsta og besta tísku tímarit heims enda meira en 100 ára gamalt. Við skulum ekki rugla Vogue saman við Men´s Vogue, enda tvo algjörlega óskyld tímarit þar á ferð.
Það fólk sem prýtt hefur forsíðu tímaritsins hverju sinni hefur ætíð fyllt flokk þeirra sem talið er best fylgja tískunni. Venjulega eru það aðeins kvenmenn og yfirleitt einhver af ofur fyrirsætunum svokölluðu.
Árið 1992 var brotið blað í sögu tímaritsins, því þá prýddi karlmaður í fyrsta sinn forsíðu þess. Það var ofur-sjarminn , Richard Gere sem þann heiður hlaut en hann var myndaður fyrir blaðið ásamt þáverandi (1991-1995) eiginkonu sinni , ofur-fyrirsætunni Cindy Crawford.
Átta árum seinna í Júní hefti blaðsins árið 2000 varð annar hjartaknúsari til að brosa framan í heiminn á forsíðu Vogue. Hann heitir George Clooney og lét mynda sig í fylgd ofur-fyrirsætunnar Gisele Bundchen.
þriðji karlmaðurinn og sá síðasti í röðinni fram að þessu til að láta heiminn njóta þokka síns á þennan hátt er NBA stjarnan LeBron James. Hann og fyrrnefnd Bundchen sjást hér framan á Apríl heftinu 2008.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.9.2008 | 04:24
Elsti bloggarinn
Þetta ku vera einn af elstu, ef ekki sá al-elsti, bloggari í heimi. Hann heitir Donald Crowdis og skrifar bloggið "Don to Earth" sem er virkilega skemmtilegt aflestrar. Hann á heima í Kanada og er níutíu og fjögra ára gamall. Konan hans er á elliheimili en sjálfur býr hann enn heima hjá sér að mér skilst. Don er afar vinsæll bloggari en nú fyrir stuttu brá svo við að hann hætti að blogga.
Eftir dúk og disk kom svo stutt yfirlýsing frá honum þar sem hann sagðist ekki vera dauður, heldur hefði hann þurft að sinna mikilvægum fjölskyldumálum. Þið getið lesið þessa sérkennilegu yfirlýsingu hér ásamt öðrum pistlum hans Dons. Einn þeirra fjallar að hluta til um afa hans sem bjó í Kanada á nítjándu öld.
Mín stefna er að verða svona krúttlegur eins og þessi kall.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.9.2008 | 16:12
Konan í apelsínugula jogging gallanum
Þær eru ekki margar bresku leikkonurnar fyrir utan Glendu Jackson og Helen Mirren sem ég hef verið afskaplega hrifinn af. Ein hefur þó alltaf átt alla mína aðdáun, ekki bara af því að hún er frábær leikkona, heldur einnig vegna þess að hún er frábær einstaklingur. Ég er að tala um stórleikkonuna Vannessu Redgrave.
Allt frá því snemma á sjöunda áratug síðustu aldar hefur hún studd dyggilega við bakið á ýmsum mannréttindasamtökum, afvopnunarhreyfingum og friðarhreyfingum vítt og breitt um heiminn. Hún hefur varið meira af tekjum sínum til þessara málefna en nokkur önnur kvikmyndastjarna og verið ötulli talsmaður verðugra málstaða en flestir stjórnmálamenn. Starf hennar og framganga er of viðamikið til að gera því einhver almennileg skil í þessari færslu en þeir sem hafa áhuga geta lesið sér til um Vannessu m.a. á síðunni sem ég linka við nafnið hennar hér að ofan.
Sem einlægur aðdáandi Vannessu varð ég glaður mjög þegar mér áskotnaðist í fyrradag miði á leiksýningu hennar "The year of Magical thinking" (Ár töfrandi hugsanna) sem sýnt er um þessar mundir í Theatre Royal hér í borg. (Bath)
Ég flýtti mér niður í leikhús til að ná í miðann en sýningin er á morgunn (Laugargdag). Þegar ég kom að leikhúsinu sé ég hvar kona ein, klædd í appelsínu-gulan jogging-galla með baseball-derhúfu á höfði, dálítið hokin í herðum, stendur og púar sígarettu. Ég þekkti hana vitaskuld strax. Þetta var Vanessa Redgrave.
Um leið og ég gekk fram hjá henni, kinkaði ég kolli til hennar og ávarpaði hana. "Þú ert Vanessa er það ekki".
Hún brosti með sígarettuna í miðjum munninum og kinkaði kolli.
"Ég er mikill aðdáandi þinn" sagði ég aulalega.
Hún tók sígarettuna út úr sér og sagði brosandi. "Ertu búin að sjá sýninguna"?
"Eh, nei, ég er að ná í miða á sýninguna á laugardaginn".
Vannessa henti sígarettunni í götuna, steig á stubbinn.
"Ég sé þig þá" sagði hún glaðhlakkalega og hvarf svo inn um hliðardyrnar á leikhúsinu, snör og kvik eins og táningur. (hún er 72 ára)
Ég hlakka mikið til að sjá leikritið á morgunn. Það er eftir Joan Didion blaðakonu til margra ára og er einleikur. Það verður ekki ónýtt að fá að fylgjast með Vanessu Redgrave í 90 mínútur einsamalli á sviði.
Verkið hefur að sjálfsögðu fengið frábæra dóma þrátt fyrir að vera eintal einmanna konu um dauða eiginmanns síns. Segi kannski meira frá því á morgunn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
11.9.2008 | 12:39
Klikkað klukk
Það verður varla lengur undan skorast. Annars verða allir löngubúnir að fá leið á leiknum og farnir í "yfir" eða parís. Hér kemur sem sagt mitt klukk.
Fjögur störf sem ég hef unnið;
Upp og útskipun við höfnina í Keflavík
Þjónn á Hótel Hafnia í Þórshöfn í Færeyjum
Lögreglumaður í Vestmanneyjum
Útvarpsstjóri við Útvarp Suðurlands
Fjórir staðir sem ég hef búið á;
Norðfirði
Dýrafirði
Fuglafirði (Færeyjum)
Bedford (Kanada)
Fjórar kvikmyndir sem ég hef dálæti á;
Fjórar bækur sem ég les reglulega;
Dawn-breakers (Upphafsaga Bahai trúarinnar)
The Decline and fall of the Roman Empire (Gibbon)
Bænabókin mín
Þekking og blekking (Níels Dungal)
Fjórir sjónvarpsþættir sem ég hef horft á;
The Ascent of man (J.Bronowski)
Stiklur (Ómar Ragnarsson)
Fjórar netsíður sem ég les reglulega;
Fjórir réttir sem mér finnast góðir;
Cecar sallad
Hamborgarahryggur með öllu
Poppkorn
Harðfiskur með smjöri
Fjórir staðir sem ég hef komið á;
Key West Flórída
Baldur Kanda
Elat Israel
Bjarnarey
Fjórir staðir sem ég vildi hafa komið á;
Auswitsch
Bora Bora
Nýja sjáland
Bókasafn Vadíkansins
Fjórir bloggarar sem ég klukka;
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)