Færsluflokkur: Bloggar
4.9.2008 | 12:25
Cheddar ostur og mannát
Það þykir sjálfsagður hluti af allri sannri siðfágun nú til dags að kunna skil á vínum og ostum. Íslendingar, sem lengi vel þekktu aðeins sinn mjúka mjólkurost og mysuost, geta nú valið úr fjölda tegunda osta í matvöruverslunum, bæði íslenskum og erlendum, þar á meðal Cheddar ostum sem vafalaust eru frægastir allra enskra osta.
Cheddar ostur er gerður af kúamjólk og getur verið bæði sterkur og mildur, harður eða mjúkur. Það sem fyrst og fremst gerir alvöru Cheddar ost að Cheddar osti, er að hann sé búin til í Cheddar, fornfrægu þorpi sem stendur við enda Cheddar gils í Somerset sýslu í mið-suðaustur Englandi. Elstu ritaðar heimildir um þessa osta eru þúsund ára gamlar og talið er víst að þekkingin á gerð þeirra sé miklu eldri. Eftir endilöngu gilinu er að finna fjölda hella og voru sumir þeirra notaðir til að geyma í ostinn sem þarf allt að 15 mánuði í þurru og köldu lofti til að taka sig rétt.
Cheddar gil er dýpsta og lengsta gil á Bretlandi. Þar hafa fundist mannvistarleifar sem eru 100.000 gamlar. Í einum hellinum fannst árið 1903 afar heilleg beinagrind af manni sem er 9.000 ára gömul (Cheddar maðurinn). Beinagrindin er elsta beinagrind sem fundist hefur á Bretlandi. Þá hafa fundist talvert eldri mannbein á þessum slóðum eða allt að 13.000 ára gamlar. Rannsóknir á litningum beina þessara fornaldarmanna sem voru uppi a.m.k. 3.000 árum áður en landbúnaður hófst á Bretlandi, sýna að enn í dag er að finna ættingja þeirra í Cheddar og sanna að ekki eru allir Bretar afkomendur hirðingja (Kelta) frá Miðjarðarhafslöndunum eins og haldið hefur verið fram.
Sum af þeim mannbeinum sem fundist hafa í hellunum í Cheddar gili, þar á meðal bein Cheddar mannsins sjálfs, bera þess merki að egghvöss steináhöld hafa verið notuð til að granda viðkomandi. Sýnt þykir að sumir hafi verið teknir af lífi (skornir á háls) líkt og skepnur. Þetta hefur rennt stoðum undir þær kenningar að fornmenn í Cheddar gili hafi stundað mannát.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
29.8.2008 | 19:16
Fegurðardrottningin Sarah Palin varaforsetaefni McCain
Gamli maðurinn John McCain slakar hvergi á klónni í forsetaslagnum í USA. Í dag útnefndi hann sem varaforsetefni 44 ára gamla konu frá Alaska sem heitir Sarah Palin.
Sarah er menntuð sem blaðakona og starfaði í stuttan tíma sem slík hjá sjónvarpsstöð í Anchorage um leið og hún vann fyrir bónda sinn Todd Palin sem er sjómaður og útgerðarmaður.
Hún giftist Todd 1988 eftir að hafa verið með honum frá því í grunnskóla. Sarah var kappskona mikil og stýrði m.a. körfuboltaliði skólans sem hún gekk í til sigurs 1982 þegar það varð Alaskameistarar. Vegna harðfylgi síns var hún uppnefnd Sarah Barakúta.
Árið 1984 tók hún þátt í fegurðarsamkeppninni í heimabæ sínum Wasilla og vann hana. Hún lenti síðan í öðru sæti í Alaska keppninni sjálfri. Sarah fór fljótlega að skipta sér af pólitík og hlaut þar skjótan frama. 2006 var hún kosinn fylkisstjóri í Alaska þrátt fyrir að njóta ekki stuðnings flokkssystkina sinna og eyða talvert miklu minna en demókratinn Tony Knowles, andstæðingur hennar.
Með útnefningu hennar þykir McCain hafa slegið Obama ref fyrir rass í harðnandi barráttu um athygli fjölmiðla, jafnvel þótt Obama hafi baðað sig ótæpilega í sviðsljósi þeirra síðustu daga.
Sarah er talin góður kostur fyrir McCain af eftirtöldum ástæðum.
- Hún er miðlínu-íhald
Hún er á móti hjónaböndum samkynheygðra, fylgjandi dauðarefsingum, á móti fóstureyðingum, og fylgjandi almennri byssueign. - Hún er ung og hún er kvennmaður
- Hún er afar aðlaðandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
27.8.2008 | 11:33
Bloggarar - fjórða valdið
Á þingi Demókrata í Denver sem haldið er um þessar mundir hefur "fjórða valdið" þ.e. bloggarar víðs vegar að úr Bandaríkjunum komið sér fyrir í stórum sal til að blogga um þingið.
Hér er að finna viðtal við nokkra af þessum bloggurum sem gefur smá innsýn inn í hlutverk þessa nýja afls í þjóðfélögum heimsins.
Á Íslandi virðist vera einhver tregða í gangi þegar kemur að því að viðurkenna mikilvægi bloggsins. Í USA segja fréttaskýrendur að það sem ráði úrslitum fyrir Obama sé hversu feykilega vel hann er skipulagður þegar kemur að netinu og blogginu. Jafnvel á litla Íslandi opnaði Obama netsíðu, svo dæmi séu tekin. -
Pólitíkusar á Íslandi ganga léttir í skerfum fram hjá Blogginu flestir hverjir og oft heyrist að þar séu aðeins samankomið úrvalið af íslenskum sérvitringum og kjaftakerlingum sem er kannski ekki nema von þegar að sumir bloggarar vara jafnvel sjálfir við því að þeir séu teknir of alvarlega. -
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.8.2008 | 10:31
Ömurlegt atriði Breta á lokahátíðinni í Bejjing
Ég horfði með athygli á lokahátíðina í Bejjing í gær og gat ekki annað en dáðst aftur og aftur af því sem fyrir augu bar. Ljós og litir, form og líf, hljóð og andrúmsloft, allt hjálpaði til við að búa til undraheim sem lengi verður í minnum hafður. Lokahátíðin var ekki eins formleg og opnunarhátíðin og var ekki gert að fjalla um og mikla sögu Kína. Þess vegna fannst mér hún listrænt séð betri.
EN svo kom Boiris. Borgarstjórinn sem nýlega hrifsaði til sín borgarstjórastólinn í London og átti engan þátt í á fá leikana til Englands 2012. Hann kjagaði inn á leikvanginn og veifaði Ólympíufánanum yfir lýðinn og veifaði þess á milli til fólks á leikvanginum sem hann taldi sig þekkja.
Og það sem fylgdi á eftir var svo ömurlegt að ef það á að bera vitni því sem koma skal, býð ég ekki í það.
Þau þrjú sem voru kosin til að taka við leikunum af hálfu Breta voru; knattspyrnumaður hvers ferill er að enda, (ég segi ekki útbrunninn), tónlistamaður sem varð frægur fyrir að spila í hljómsveit sem er löngu hætt og söngkona sem vann hæfileikakeppni og hefur verið ýtt áfram í poppheiminum af tónlistarmógúl sem lofaði að sjá um hana.
Þau komu inn í rauðri tveggja hæða rútu sem Bretar gerðu sitt besta til að losa sig við af götum Lundúna fyrir fáeinum árum og þegar hann flettist sundur eins eftir sprenginguna þar í borg 7.7.05 birtust myrkvaðar útlínur (Skyline) Londonborgar.
Allt í kringum vagninn voru ósamhæfðir dansarar, dansandi dansa sem eru svo vinsælir í Bretlandi vegna þess að allir geta gert eins og þeim sýnist. Breska atriðið var í hrópandi ósamræmi við agaða fjöldasýningu Kínverja, en það er staðreynd að engir eru betri í kóreugröffuðum fjöldaatriðum en Kínverjar nema kannski Kóreumenn.
Bretar heima fyrir tóku andköf af skömm og spurningin sem þeir spyrja sig er; eiga þeir virkilega enga menningu sem ristir dýpra en popp, rokk, tíska og fótbolti?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
24.8.2008 | 23:12
Skjaldbaka í hjólastól, Frú Dorrit og ný Ólympíugrein
Ótrúlegt en satt, hér getur að líta skjaldböku sem er útbúin hjólabúnaði sem hjálpar henni að komast um. Lömun í afturfótum olli því að hún komst hvorki lönd né strönd þangað til að aðstandendur dýragarðsins þar sem hún dvelst, smíðuðu handa henni "hjólastól". Hér er stutt myndband um skjaldbökuna sem ég fann á síðu National Geographics.
Myndin við hliðina er hinsvegar af lítilli borgarstjórnarskjaldböku sem er virkilega hægfara, af skiljanlegum ástæðum.
Þetta er auðvitað ekkert líkt græjunni sem skjaldbakan fékk en engu að síður flott. Svona ætla ég að fá mér þegar þar að kemur. Eiginlega er ég að vona að þeir taki það upp að keppa á svona tækjum og þá mundi ég byrja að æfa fyrir næstu Ólympíuleika
Og svo eitt í viðbót, eiginlega svona PS við alla Ólympíuleikaumfjöllunina. - Ég skil ekki fólk sem er að fetta fingur út í framkomu Dorritar forsetafrúar þegar hún var að fagna sigrunum yfir Pól eða/og Spánverjum.
Mikið hvað fólk getur verið forpokað að finnast hún ekki "virðuleg" og ásaka hana jafnvel um að "snobba niður fyrir sig".
Hefði verið betra að sjá hana hrista skartgripina upp í stúku eins og allt þetta konungborna lið gerir sem er svo virðulegt að það kúkar marmara.
Hún var ekki kosinn af okkur til neins, Ólafur kaus hana, fyrir konu og áður en hún giftist Ólafi var hún þegar kunn og mikilsmetin heimskona sem kunni sig við hvaða aðstæður sem var. Hvers vegna ætti hún að þykjast vera eitthvað annað en hún er bara af því að einhverjir Íslendingar eru vanir því af fyrirfólki sínu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2008 | 09:12
Íslendingar geta verið sáttir við silfur.
Úrslitin réðust í fyrri hálfleik. Íslendingar sáu aldrei til sólar, skoruðu ekki úr dauðafærunum, klúðruðu vítum og misstu boltann í hvert sinn í hendur Frakka sem refsuðu okkur miskunnarlaust. Seinni hálfleikur var örvæntingarfullur að hálfu íslendinga og þegar munurinn var orðin sjö mörk, og Óli klúðraði vítinu og átta marka munur staðreynd var lánleysi íslendinga algjört. Hvað eftir annað skall boltinn í stöngum franska marksins og þess á milli hirtu íslendingar hann úr neti eigin marks og 9 marka mun er ógerlegt að vinna upp í svona sterkri keppni.
Vissulega gera Íslendingar sér að góðu að vinna til silfurverðlauna en þegar leikurinn um gullið gengur út á að komast frá honum skammlaust frekar en að vinna, er það kannski einum of. Spurningin um hvort það hafi verið einskær heppni leitar sterkt á mann.
Samt verður aldrei sagt um Íslendinga að þeir kunni ekki að slá heimsmetin. Þeir brutu blað í sögu handboltans með því að vera fyrsta smáþjóðin til að komast í úrslit í hópíþrótt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.8.2008 | 07:09
Dr. Phill segir augljóst hverjir vinni leikinn á eftir.

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.8.2008 | 13:33
Verður þjóðin ánægð með silfrið, ef...?
Ef ég þekki landann rétt, er erfið nótt framundan hjá allri þjóðinni. Jafnvel þótt menningarnótt í Reykjavík fái sumt fólk til að gleyma um stund eftirvæntingunni og þeirri hugsun að Kaleikurinn helgi er innan seilingar. Við dagrenningu á Íslandi munu sextán ungir íslenskir piltar hefja lokaorrustuna út í Bejiing um gullverðlaunin fyrir handknattleik á Ólimpíuleikum.
Mótherjar þeirra koma frá þjóð sem telur um 65 milljónir íbúa og þar sem fleiri iðka handbolta en öll íslenska þjóðin telur. Þeir koma frá voldugri menningarþjóð sem á langa og stolta sögu af landvinningum og afrekum á sviðum bókmennta og lista, jafnt sem íþrótta.
Nú þarf íslenska þjóðin sem sé að taka ákvörðun um ýmislegt. Fyrst, hvort eigi að vaka alla nóttina þar til leikurinn hefst, eða fara snemma að sofa til að vakna eldhress klukkan fimm til að fylgjast með leiknum í sjónvarpinu.
Síðan þarf að ákveða hvernig bregðast skal við úrslitum leiksins.
Ef kaleikurinn helgi fellur ÍSLANDS megin, verður mikið um dýrðir hjá öllum, hvort sem þeir hafa áhuga á handbolta eða ekki. Að vinna Ólympíugull er nefnilega ekkert smá mál fyrir dvergþjóð eins og íslendinga. Ef slíkt gerist, verður það sigur hins auðmjúka Davíðs (strákanna) yfir Golíat (les Experts). Þá munu tárin renna af stolti af ungum jafnt sem öldnum hvörmum og eftir ærandi fagnaðarlæti og dans á götum úti (framlengd menningarnótt í Rvík) mun andi værðar og friðar færast smá saman yfir þjóðina. Við munum bíða heimkomu hetjanna með stóískri ró og hugleiða stöðu okkar fyrir framtíðina.
En ef það verður ekki krossfáninn sem blaktir í miðju við verðlaunaafhendinguna og Guðs vors lands verður ekki á vörum strákanna, mun andrúmsloftið vrða ögn vandræðalegra. Jú þeir stóðu sig frábærlega, en þeim árangri höfum við þegar fagnað (í huganum) því annað sætið var öruggt fyrr fram, tryggt með sigri liðsins yfir Spánverjum. Að auki hafa íslendingar unnið áður til silfurs á Ólympíuleikum. Auðvitað munum við taka vel á móti "strákunum" en á bak við dempaða gleðina mun líklega glitta í eftirsjána eftir því sem hefði getað gerst, ef, ef, ef og ef.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.8.2008 | 01:08
Franska handboltaliðið kallar sig nú les Experts.
Franska liðið, mótherjar Íslendinga í úrslitum um Ólympíumeistaratitilinn í Handknattleik 2008, kalla lið sitt Les Experts (Sérfræðingana) sem er heitið á Bandarísku sakamálaþáttunum CSI í Frakklandi. Spurningin er hvort þeir eru nægilega miklir sérfræðingar til að leggja "strákana" frá Íslandi af velli. Fimm leikmanna þeirra leika með liðum í Þýskalandi og tveir með spænskum liðum og restin með frönskum.
Leikmenn þeirra eru;
- 1 Yohan Ploquin (Toulouse Union Handball),
France) (goalkeeper)
- 12 Daouda Karaboué (Montpellier HB,
France) (goalkeeper)
- 16 Thierry Omeyer (THW Kiel,
Germany) (goalkeeper)
- 2 Jérôme Fernandez (Barcelona,
Spain)
- 3 Didier Dinart (BM Ciudad Real,
Spain)
- 4 Cédric Burdet (Montpellier HB,
France)
- 5 Guillaume Gille (HSV Hamburg
Germany)
- 6 Bertrand Gille (HSV Hambourg,
Germany)
- 8 Daniel Narcisse (Chambéry Savoie Handball
France)
- 11 Olivier Girault (Paris Handball
France)
- 13 Nikola Karabatić (THW Kiel
Germany)
- 14 Christophe Kempe (Toulouse Union Handball,
France)
- 18 Joël Abati (Montpellier HB
France)
- 19 Luc Abalo (US Ivry,
France)
- 20 Cédric Sorhaindo (Paris Handball,
France)
- 21 Michaël Guigou (Montpellier HB
France)
- 22 Geoffroy Krantz (VfL Gummersbach,
Germany)
- 23 Bertrand Roine (Chambéry Savoie Handball,
France)
- 24 Sébastien Ostertag (Tremblay-en-France Handball,
France)
- 26 Cédric Paty (Chambéry Savoie Handball,
France)
- 30 Fabrice Guilbert (US d'Ivry Handball
France)
Auðvitað eru Frakkar stórveldi í handbolta þótt þeir hafi átt skrautlegan feril frá því að liðið fór að láta kveða að sér fyrir alvöru á alþjóðavettvangi upp úr 1990.
Þeir fengu sín einu Ólympíuverðlaun árið 1992 og urðu þá þekktir undir nafninu les Bronzés eftir að hafa lent í þriðja sæti. Íþróttin er afar vinsæl í Frakklandi og landsliðið hefur æ síðan verið með þeim bestu í heiminum.
Árið eftir að þeir unnu Ólympíubronsið eða 1993, töpuðu þeir úrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu gegn Rússum. Á næsta heimsmeistaramóti, sællar minningar, sem haldið var á Íslandi 1995 komust þeir líka í úrslitin gegn Króatíu og unnu í það skiptið og urðu heimsmeistarar. Það var í fyrsta sinn sem Frakkar eignuðust heimsmeistara í hóp-íþrótt. Það lið var þekkt undir nafninu les Barjots vegna þess að allir leikmenn liðsins voru með klikkaðar hárgreiðslur en barjot er slanguryrði á frönsku yfir klikkun.
Á Ólympíuleikunum 1996 hafnaði franska landsliðið í fjórða sæti og urðu það töluverð vonbrigði því þeir töpuðu leiknum um þriðja sætið gegn Spáni, liði sem þeir höfðu burstað í undanriðlunum.
Ári síðar 1997 lentu þeir í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu en fengu enga verðlaunapeninga 1999 eða á Ólympíuleikunum 2000.
Liðið var að bíða þar til á heimsmeistaramótinu 2001 til að vinna til alþjóðlegra verðlauna aftur og það gerðu þeir eftir að hafa unnið leiki sína gegn Þýskalandi og Svíþjóð svo naumlega eftir að hafa verið undir mest allan leiktímann, að þér voru kallaðir les Costauds (hinir sterku eða seigu) en þeir stóðu uppi sem heimsmeistarar það árið.
2003 urðu þeir þriðju á heimsmeistaramótinu og komu heim verðlaunalausir frá Ólympíuleikunum í Sydney 2004.
2005 lentu þeir aftur í þriðja sæti heimsmeistarakeppninnar og 2006 urðu þeir í fyrsta sinn Evrópumeistarar. Þeir tóku þá Spán þáverandi heimsmeistara í bakaríið og eftir það nefndu þeir sig les Euros.
Fyrr á þessu ári lentu þeir í þriðja sæti á Evrópumótinu en voru ósigraðir þar til þeir töpuðu fyrir Króatíu í undanúrslitum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)