Færsluflokkur: Bloggar

Hvernig er talað um íslenska handbolta-liðið í erlendu pressunni.

Það er alveg klárt að Spánverjar eru alveg í rusli eftir tapið fyrir Íslendingum.  Hér kemur skemmtilegt sýnishorn af þeim fjölda greina sem nú er að finna á netinu og í öðrum fjölmiðlum um frammistöðu íslenska liðsins gegn Spánverjum. Þessi er skrifuð af Breta sem gerir sitt besta til að segja samviskusamlega frá leiknum.

Ótrauðir möluðu Íslendingar Spánverja 36-30, niðurstaða sem komu mjög á óvart í undanúrslitum í handbolta og gefur þeim tækifæri á fyrstu gullverðlaunum sínum á Ólympíuleikum þegar þeir leika við Frakka á sunnudag sem fyrirfram eru taldir sigurstranglegri.

Spánverjar, bronsverðlaunahafar í Sydney og í Atlanta, sofnuðu á verðinum gegn allsherjar árás íslendinganna og náðu sér aldrei á strik gegn mótherjum sínum sem snúið hafa þessu móti á haus með eyðandi stórsigrum sínum.

610xAfskrifaðir áður en keppnin hófst, bæta Íslendingarnir nú Spánverjum við vaxandi fjölda höfuðleðra sem þeir hafa safnað í belti sér á þessum Ólympíuleikum í Bejiing, þar á meðal Rússa, heimsmeistara Þjóðverja og Pólverja.

Leikmenn þurrkuðu tárin úr augunum um leið og þeir þökkuðu örfáum stuðningsmönnum sínum sem lagt höfðu land undir fót til Kína, frá þessari litlu eyþjóð sem aðeins telur 300.000 íbúa.

Íslendingar rotuðu mikilfenglega andstæðinga sína með því að hefja leikinn á að skora fimm mörk, þar af áttu Snorri Guðjónsson og ALexander Petersson tvö hver.

Rueben Garabaya maldaði í móinn fyrir Spánverja gegn Norðmönnunum (Norsemen) sem héldu áfram uppteknum hætti með stöðugum árásum sem leiddu til að staðan var 8-4 eftir 10 mínútur.

Spáni tókst um tíma að hægja á leiknum og aðeins frækileg framganga Björgvins Gústafssonar varnaði þeim að jafna leikinn á þrettándu mínútu þegar staðan var 8-7.

Þeim tókst að jafna 9-9 þremur mínútum seinna en þá var Carol Prieto vísað af leikvell í tvær mínútur fyrir að láta sig falla og íslendingar notfærðu sér liðsmuninn og skoruðu tvö mörk í viðbót.

Gústafsson bjargaði síðan nokkrum sinnum og muldi þannig sjálfstraust þeirra Spánverja sem reyndu að koma sínu liði yfir.

Önnur markaruna kom Íslandi í 13-9 áður en Spánn gátu endurskipulagt sig og komist í 13-13 með marki frá Prieto.

Í hálfleik var staðan 17-15 Íslandi í vil og eftir hálfleik náðu þeir að halda þeim mun nokkuð vel.

Varnarboltinn Sigfús Sigurðsson sem vegur 114 kg jók þann mun í fjögur mörk á fertugustu mínútu með því að slöngva "massívum" líkama sinum eftir endilöngum vellinum og klína boltanum í spánska netið.  

Þegar hér var komið í´sögu var ljóst að hlutlausir áhorfendur fjölmennustu þjóðar heimsins voru orðnir dyggir aðdáendur liðsins frá einni af þeirri fámennustu sem tekur þátt í leikunum og hrópið "Iceland, Jia you" (áfram Ísland) ómaði um gjörvallt húsið.

Forystan jókst upp í sex mörk á síðustu 10 mínútunum og Íslendingarnir guldu hvert örvæntingarfullt spánskt mark með marki  þar til að flautað var til leiks loka.


Dr. Phill sendir hamingjuóskir

DSC02193Dr. Phill hefur reynst sannspár um íslenska handboltaliðið og segir það hafa haft slíka yfirburði yfir Spánverjum að þeir hljóti að að vinna gullið.

 

Ég get ekki lengur efast um spámannsleika hans og undirbý mig núna undir að fagna fyrsta Ólympíugulli Íslendinga.

Dr. Phill verður vitanlega í heiðurssessi, enda vel að því kominn eftir að hafa verið svona sannspár um leik Íslands og Spánverja.

Enn sem fyrr eru ástæður hans fyrir velgengninni, "af því bara". 


Stóra málið

Það er eins og einhver gúrka sæki að bloggurum almennt þessa dagana. Hver færslan á eftir annarri er naflablogg, blogg um blogg, bloggvini og ást og hatur á blogginu. Ég veit ekki hvað veldur, því út í heimi gerast stórtíðindin; stríð að hefjast í austur Evrópu, 10.000 íþróttamenn samankomnir í Bejiing og Obama á leið í sumarfrí til Hawaii. En kannski er það bara hollt að líta í egin barm af og til og sjá svona svart á hvítu hver staðan er. 

Ég eins og mörg önnur "skúffuskáld" sem eru að spreyta sig á bloggi, leita stundum í skúffurnar til að setja á bloggið, þegar lítið er um að vera í kollinum á mér. Þetta getur þó verið erfitt því ekki gagnar að setja neitt "of langt" á bloggsíðu, þá nennir enginn að lesa það. Ég ætla samt að brjóta þá gullnu reglu einu sinni enn og birta hér einþáttung sem mér er reyndar svolítið annt um. Hann var fluttur fyrir nokkrum árum Iðnó, en það voru fáar sýningar, enda um tilraunastarfsemi að ræða. Það tekur ekki nema svona 15 mínútur að lesa hann í gegn, en ég verð ekkert móðgaður þótt þið gefist upp. En þeir sem lesa mega alveg segja sína meiningusvanur1.

Stóra málið

PERSÓNUR 

HANN, karlmaður á þrítugsaldri

BARBARA, kona á fimmtugsaldri

 SVIÐIРLátlaus bekkur í almenningsgarði. Á hann fellur gult ljós frá lágu götuljósi.  BÚNINGAR Hann er berfættur.Hún er klædd í rauða kápu og hefur ljósblátt sjal um herðarnar og í rauðum háhæluðum skóm.   (Hvíslandi raddir fortíðar hefjast um leið og BARBARA gengur inn á sviðið og um stund fylgjast áhorfendur með viðbrögðum hennar við þeim þar sem hún gengur um)Hversvegna. Komdu, komdu með mér. Ekkert mál. Mikið ertu snotur. Hversvegna greiðir þú þér ekki. Drusla. Þetta verður okkar leyndarmál. Komdu. Tækifærin eru alls staðar. Það sem svíkur mig, svíkur einnig þig. Ég elska þig. Lifðu lífinu lifandi. Komdu með. Nokkuð gott, á að fara í háskóla. Lofar þú ... Vilt þú ganga að eiga ... þetta viðundur ... Góða vertu ekki að pæla í þessu. Er þetta allt og sumt. Börn, já ég elska börn. Þurrkaðu framan úr þér. Lítið mál. Ég fékk þetta í London. Fer í rauðu skóna. Elskar þú mig. Þú flytur bara inn. Hver borgar reikningana á þessu heimili. Vertu bara þú sjálf. Ég vil verða gamall með þér. Þegiðu. Vinna, þetta er ekki að vinna. Góða reyndu að hafa þig svolítið betur til. Þú sofnar strax af þessu.Veit ekki. Rauða varalitinn já svona ... Má ekki vera að því ... Ertu að fitna. Snúðu þér við druslan þín. Stundum verður maður að hugsa um sjálfan sig. Hver er ég. Hver ert þú. Lítið mál. Það sem svíkur mig, svíkur einnig þig. Ég drep þig. Þvoðu framan úr þér. Ég elska Róm. Rauðu kápuna, hún passar. Ég veit það ekki. Þú ert og verður alltaf hóra. Komdu með. Vertu ekki að pæla í þessu, það skilur þetta enginn hvort sem er. Ég elska þig ekki. Ég elska þig. Blátt er litur sannleikans. Reyndu að nota höfuðið kona. Það sem svíkur mig, svíkur einnig þig. (Hvíslið þagnar. Hún sest á bekkinn, tekur upp fullt pilluglas og gerir sig hikandi líklega til að sturta úr því upp í sig en hættir við, stingur því í vasann, stingur höndunum í vasana og lokar augunum)    

HANN

(Gengur inn á sviðið, blístrandi eins og maður á kvöldgöngu og þefar af óútsprunginni rós. Staldrar við og virðir BARBÖRU fyrir sér. Gengur síðan til hennar) Gott kvöld. Er þér ekki sama þótt ég setjist hérna?

 

BARBARA

(Opnar augun) Æ...Mín vegna. Þetta er víst fyrir almenning.

 

HANN

(Lítur í kringum sig) Reyndar á ég ekki um annað að velja, ég verð að setjast hérna niður, nákvæmlega hérna. Þannig lagað var spurningin óþörf. (Brosir)

 

BARBARA

Auðvitað áttu um annað velja. Til dæmis getur þú sest á bekkinn þarna.

 

HANN

Nei, á hann get ég ekki sest.

 

BARBARA

Nú, hvers vegna?

 

HANN

Vegna þess að þú ert hér en ekki þar.

 

BARBARA

Hvað hef ég með það að gera hvar þú sest niður og hvar ekki.

 

Hann

Ég á erindi við þig.

 

BARBARA

Erindi? Hvaða erindi áttu við mig.

 

Hann

Ja til að byrja með ætla ég að færa þér þetta. (Réttir henni rósina)

 

BARBARA

(Tekur við blóminu dálítið óörugg) Hver ert þú?

 

Hann

Nákvæmlega núna er ég kannski bara rósberi.

 

BARBARA

Æ ég er bara ekki í skapi fyrir neitt rósamál. Segðu mér hver þú ert eða hafðu þig á burt.

 

HANN

Ég er bara sendisveinn.

  

BARBARA

Sendisveinn? Sendisveinn hvers? Sendi fávitinn hann Einar þig kannski? (Leggur rósina á bekkinn á milli þeirra)

 

HANN

Einar? Nei nei. Hann heitir ekki Einar.

 

BARBARA

Segðu honum að láta mig í friði.

 

HANN

Það var ekki Einar sem sendi mig

 

BARBARA

Nú hver þá?

 

HANN

Ég held að svo komnu að það sé best að láta það liggja á milli hluta. Þú myndir ekki trúa því hvort eð er.

 

BARBARA

Vertu ekki svo viss um það. Þú ert nú ekki fyrsti furðufuglinn sem á leið minni verður. Hvað heitirðu?

 

HANN

Ekki neitt. En þú mátt gefa mér nafn ef þú vilt.

 

BARBARA

Ég, hvers vegna ætti ég að gefa þér nafn?

 

HANN

Svo að þú getir kallað mig eitthvað.

 

BARBARA

Ég get alveg kallað þig „ekki neitt“ því þessa stundina ertu nákvæmlega það í mínum augum.

 

HANN

Einmitt.

 

BARBARA

Jæja „Ekkineitt“, ætlarðu að koma þér að erindinu?

 

HANN

Tja, ég veit að þetta hljómar dálítið einkennilega svona upp úr þurru, en eiginlega langaði mig til að ræða við þig svona almennt um lífið og tilveruna.

    

BARBARA

Ég er alls ekki viss um að þetta sé algjörlega upp úr þurru hjá þér, en er það eitthvað sérstakt sem þér liggur á hjarta? Til dæmis hvar sé hægt að gera bestu skókaupin í borginni þessa stundina? (Lítur á fætur hans)

 

HANN

(Lítur einnig niður á fæturna) Æ, ég vissi að það var eitthvað sem ég gleymdi.

 

BARBARA

Og hvað hefur berfættur maður, sem ekki vill segja til sín eða á hvers vegum hann er, að segja um lífið og tilveruna út í almenningsgarði um hánótt.

 

HANN

Reyndar hefur skóleysið aldrei háð mér fram að þessu, en ég sé hvað þú meinar. Skór, ekki hvað síst réttir skór, eru afar mikilvægir. Þeir eru vissulega hluti af stóra málinu. Einmitt það sem ég ætlaði að ræða við þig um.

 

BARBARA

(Hæðin) Stóra málinu já. Og það er aftur?

 

HANN

Tilgangur lífsins.

 

BARBARA

Noh, ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Jæja, er ekki nóg komið af þessari vitleysu. Ég hef nóg annað við tímann að gera en að ræða við einhvern ókunnugan rugludall hér úti í garði um hánótt. (Tekur rósina, stendur upp og gerir sig líklega til að fara) 

HANN

Ókunnugan já, þú heldur það. En eins og hvað?

 

BARBARA

En eins og hvað, hvað?

 

HANN

Hvað annað hefur þú við tímann að gera?

 

BARBARA

Ég hef um nóg annað að hugsa. Hluti sem koma þér ekkert við.

 

HANN

Já, auðvitað. Eins og hvaða hluti?

 

BARBARA

Skólaus og heyrnarlaus líka. Ég sagði að þeir kæmu þér ekkert við.

 

HANN

En það bíður ekkert eftir þér. Hvergi, nema hérna. Áttu þetta ekki að vera leiðarlok?

 

BARBARA

(Snýr til baka með þjósti)Hvað þykist þú vita um mig herra „ekki neitt“. Þú veist nákvæmlega ekki neitt. Kemur hér aðvífandi veifandi óútsprunginni rós og reynir að tjatta mig upp í einhverjar umræður um lífið og tilveruna sem þú hefur augljóslega ekkert um að segja sem skiptir máli, eins og reyndin er um alla nafnlausa, heyrnarlausa og skólausa sendisveina þessa heims.

 

HANN

Ég veit til hvers þú komst hingað. En það breytist ekkert við að gera það sem þú ætlar að gera.

 

BARBARA

Hver ertu?

 

HANN

(Stendur upp og gengur um) Ég veit að þú veist ekki hvað þú átt að halda um mig þessa stundina. Þú heldur ef til vill að ég sé einhver rugludallur með alvarlegar geðraskanir. Eða kannski er ég einhver sem er bara að reyna að komast í bólið hjá þér á þennan undarlega hátt. Það er alltaf líkleg skýring þegar karlmaður fer að haga sér undarlega, er það ekki?

  

BARBARA

Þú fyrirgefur, en mér finnast þessar samræður næsta fáránlegar. Ég skil ekki hvað ég er að gera hérna enn þá. (Stendur upp og býst til að fara)

 

HANN

Þú ert hér enn vegna þess að þú ályktar sem svo að þú hafir engu að tapa eins og komið er. Þú heldur uppi þessum „hvað er ég enn að gera hér“ vörnum aðeins ef vera kynni að enn verr sé komið fyrir mér en þér.

 

BARBARA

Það er ekki eins og þú sért eitthvað voðalega traustvekjandi.

 

HANN

Já ég sé núna að það voru hræðileg misstök að gleyma að fara í skó. En þú valdir þó alltént rétta skó til að fara í við þetta tækifæri, var það ekki?

 

BARBARA

Þeir eru reyndar orðnir svolítið jaskaðir, en ég ætlaði ekki langt.

 

HANN

Þeir hafa einhvern tímann verið virkilega fallegir og gætu orðið það aftur ef þú hugsaðir dálítið um þá.

 

BARBARA

Þú ert skrambi leikinn í þessu. Ertu gluggagægir líka?

   

HANN

Staðreyndin er auðvitað sú að ef þú treystir mér ekki hljómar allt sem ég segi, hvort sem það er lygi eða sannleikur, eins og hlægilegur þvættingur.

 

BARBARA

(Sest aftur niður)Orð og aftur orð. Við erum ekki það sem við segjum, heldur það sem við gerum.

 

HANN

Í upphafi var orðið eitt.

 

BARBARA

Og orðið er orðið ekki neitt.

 

HANN

(Brosir) Já ég mátti svo sem búast við því að ég kæmi ekki að tómum kofunum, en ég er ekki staddur hér fyrir tóma tilviljun.

 

BARBARA

Þú hefur það allavega fram yfir mig. Mér finnst að ég sé hérna fyrir tilviljun. Undantekning frá reglu hlýtur að vera tilviljun ekki satt, eða ertu ef til vill vanur að leggja leið þína hingað á þessum tíma?

 

HANN

Ha, nei ég var sendur hingað sérstaklega.

 

BARBARA

Já, alveg rétt. Til að færa mér þessa óútsprungnu rós og ræða um tilgang lífsins. Af hverju settirðu rósina ekki í vatn?

 

HANN

Það er vissulega líka hluti af stóra málinu.

 

BARBARA

Einmitt stóra málið. Skór og rósir, var það ekki?

 

HANN

Jú jú, en ekki bara skór og rósir.

 

BARBARA

Þú ert kannski tilbúinn að segja mér núna hver sendi þig.

 

HANN

Jæja þá. Málalengingalaust er ég svarið.

 

BARBARA

Svarið? Auðvitað. Við hvað spurningu og hver spurði?

  

HANN

Ekki við spurningu, heldur bæn.

 

BARBARA

Bæn? (Hæðin) Að sjálfsögðu. Hvernig læt ég. Þetta er svo augljóst. Tími til kominn að blanda æðri máttarvöldum í málið. Þú ert auðvitað himnasendingin mín, bjargvætturin, sendur með öll svörin á örlagastundu. Kanntu annan betri.

(Hlær hæðnislega) Þú ert sem sagt hvað, einhverskonar engill þá. Fallinn engill kannski?

 

HANN

Ekki beint fallinn. Allavega ekki í þeirri merkingu sem þú leggur í það orð.

 

BARBARA

En ég sé enga vængi, varstu vængstýfður áður en þú varst sendur af stað?

 

HANN

Vængir engla eru bara listræn útfærsla. Soldið gamaldags en virkar samt ágætlega. Heilagur Tómas Aquinas taldi að englar væru hreinar vitsmunaverur og því ætti að sýna þá sem vængjuð höfuð eingöngu. En það er jú önnur saga.

 

BARBARA

Verst hvað vafist hefur fyrir mörgum að finna þessi svör. Allavega mér. Eða kannski eru spurningarnar rangar?

 

HANN

Það er rétt að mörgum gengur illa, ekki að finna svörin, heldur að sætta sig við þau. Flestir vilja að sannleikurinn sé einhver annar en hann í raun og veru er.

 

BARBARA

(Lítur á hann full efasemda) Og kraftaverk maður. Þú hlýtur að geta framkvæmt þau að vild. Enginn loddaraskapur eða ódýr trikk. Engar hálfkaraðar útvarpsmiðils-skyggnilýsingar. Allir eru jú í uppnámi út af einhverju, allir hafa áhyggjur og alla verkjar einhvers staðar. Þú getur látið verkin tala er það ekki?

 

HANN

Það er nefnilega málið að þau duga heldur ekki til. Hvað til dæmis gætir þú hugsað þér að taka sem óræka sönnun fyrir því að ég sé sá sem ég segist vera?

 

BARBARA

Ef þú værir það raunverulega, þá þyrfti ég ekki að segja það.

 

HANN

Ég var samt að vona að þú kveiktir á strax og við hófum samtal okkar.

  

BARBARA

Mér fannst nú þetta svona frekar almennt orðað hjá þér áðan. Lífið og tilveran, skór og rósir, stóra málið.

 

HANN

Það var ekki hægt að orða þetta á nákvæmari hátt svona til að byrja með.

 

BARBARA

Að sjálfsögðu ekki. Annars áttirðu á hættu að þurfa útskýra annað en það sem sést á yfirborðinu. Að staðhæfa hið augljósa er svo auðvelt. En það fer lítið fyrir alvöru svörum hjá þér.

 

HANN

Svörin veitast þeim sem eru einlægir.

 

BARBARA

En það vill bara þannig til að ég hef ekki verið að biðja um nein svör.

 

HANN

(Hikandi) Það var ekki að bænheyra þig.

 

BARBARA

Nú jæja, þá einhvern sem ég þekki þó ég geti ekki ímyndað mér hver það ætti að vera.

 

HANN

Nei, það er varla hægt að segja það.

 

BARBARA

Nú, hvern þá?

 

HANN

Son þinn.

 

BARBARA

Þarna ókstu langt út af loddarinn þinn. Ég á engan son. Og nú held ég að nóg sé komið, vertu sæll hver sem þú ert og gangi þér betur með næsta fórnarlamb. (Stendur upp og skundar burtu) 

HANN

Þú áttir son þótt þú hafir ákveðið að fæða hann ekki.

 

BARBARA

(Snarstansar og snýr við) Hver ertu eiginlega?

 

HANN

Þú veist hver ég er. „Ekki neitt“ er það ekki? Annars er ég best skilgreindur sem sendisveinn þótt það hljómi hátíðlega.

  

BARBARA

Þú ætlast sem sagt til að ég trúi þeirri vitleysu?

  

HANN

En hvað er ég þá?

 

BARBARA

Þú ert allavega eitthvað verulega skrýtinn. Engir skór og engir vængir.

Þú segir að það hafi verið drengur?

 

HANN

Já.

 

BARBARA

Á ég þá eftir að brenna í einhverju helvíti fyrir það líka?

 

HANN

Ekki öðru en því sem þú brennur í núna.

 

BARBARA

(Verður klökk) Hvað vissi ég, nítján ára. Hann sagðist elska mig.

 

HANN

Þú treystir honum. Trúðir honum.

 

BARBARA

Hann sagði að þetta væri ekki neitt og það var satt. Aðgerðin var lítið mál.

 

HANN

Einmitt, ekki neitt.

  (Þögn) (Þau setjast bæði á bekkinn aftur. BARBARA leggur rósina aftur á milli þeirra og þurrkar tár úr augunum) 

BARBARA

Gott og vel. Mér líður akkúrat núna eins og ég sé á fyrsta stefnumótinu þegar maður verður að staldra nægilega lengi við til að átta sig á því hvort maður geti hugsað sér að hitta náungann aftur.

 

HANN

Þú getur verið viss um að við eigum eftir að hittast aftur.

 

BARBARA

Ha, þú þykist sem sagt vita lengra en nef þitt nær.

  

HANN

Einmitt. Það er stóra málið.

 

BARBARA

Jæja komdu þá með það, hvað er þetta stóra mál sem þú kliðar stöðugt á.

 

HANN

Að þekkja tilgang sinn. Sjáðu nú til. Tilgangur allra hluta býr í eðli þeirra. Ef þú þekkir eðli þeirra þekkir þú tilganginn.

 

BARBARA

(Örg) Hvert ertu tengdur eiginlega? Í einhverja guðfræðilega orðsifjabók?

 

HANN

Vertu bara róleg. Þetta er ekki svo erfitt að skilja. Eðli hluta er ákvarðað af eiginleikum þeirra. Tökum sem dæmi þennan bekk sem við sitjum á. Svo að hægt sé að skilgreina hann sem bekk þarf hann að hafa alla eiginleika bekkjar og sem slíkur er eðli hans að vera þannig að hægt sé fyrir fólk að sitja á honum. Ef þessi bekkur hefði vitsmuni mundi hann vera hamingjusamur núna því hann væri að uppfylla tilgang sinn samkvæmt eðli sínu.

 

BARBARA

Já ég sé, við sitjum sem sagt á hamingjusömum bekk.

 

HANN

Það má segja það. En þú ert ekki bekkur.

 

BARBARA

Þakka þér fyrir að taka eftir því. Oftast líður mér nú samt þannig.

 

HANN

Já vegna þess að þú hefur ekki eins og margir náð að uppfylla tilgang þinn. Í raun og veru ertu sál sem hefur líkama, um stundarsakir allavega. Í sálinni búa frumhvatir sem allir menn finna til en vita flestir ekki til hvers á að nota. Þegar allt kemur til alls má segja að þessar andlegu frumhvatir séu aðeins tvær. Að þekkja og tilbiðja.

 

BARBARA

Reyndar hef ég aldrei tilbeðið neitt eða neinn um ævina.

 

HANN

Ekki það nei. Manstu hvað þú vildir líkjast mömmu þinni þegar þú varst lítil? Manstu hvað þú dáðir kvikmyndaleikarana, og popp- og íþróttastjörnurnar þegar þú varst unglingur? Seinna reyndir þú að helga þig manninum þínum, eða öllu heldur mönnunum þínum. Einbýlishúsunum og bílunum, allt þetta sem þú eyddir tíma þínum ósínkt í að halda hreinu og fáguðu. Meira segja á hnjánum.

 

BARBARA

Þú getur nú varla kallað svona hversdagsverk tilbeiðslu.

 

HANN

Hvað var það annað en tilbeiðsla? Sönn tilbeiðsla er ekki bara falin í orðum sem beint er til einhvers sem fólk dýrkar, heldur í gjörðum og þjónustu við það.

 

BARBARA

Ég þekki fullt af fólki sem aldrei hugsar neitt um þessa hluti. Það bara vaknar á morgnana, fer í vinnuna, græðir peninga, borðar, hlær, elur upp börnin sín og deyr, reyndar sumt löngu áður en það gefur upp andann.

 

HANN

Það má líka nota skiptilykil fyrir hamar með ágætum árangri. Og það er satt að sumir reyna að fullnægja sínum andlegu frumþörfum með því að tilbiðja efnið, helga sig því og tileinka sér það. Þeir eyða ævinni í að raða saman ánægjustundum í lífinu og kalla það hamingju. Þú hefur reynsluna af því ekki satt.

 

BARBARA

Hinir dauðu grafa hina dauðu, var það ekki einhvernvegin svoleiðis?

  

HANN

Og núna þrátt fyrir allt, finnurðu enn fyrir þörfinni að tilheyra og að tileinka þig einhverju. Þörfin að tilheyra, líkjast og tileinka sig, er ekkert annað en birting þarfarinnar til að tilbiðja. Henni er ekki alltaf beint á réttar brautir, en hún er þarna.

 (Þögn) 

BARBARA

(Leggur frá sér rósina aftur á bekkinn) En hvað með ástina? Þú hefur ekkert minnst á hana. Hvar kemur hún inn í myndina?

 

HANN

(Tekur upp rósina og lætur BARBÖRU hafa hana aftur) Að elska er að þekkja. Að þekkja er að helga sig því og tileinka sér það sem maður þekkir. Þannig er ástin hluti af tilbeiðslunni. Þetta er snákurinn sem bítur í halann á sér.

 

BARBARA

„Ekki neitt“! Ég held mig langi til að gefa þér nafn eftir allt saman. Ég ætla að kalla þig Guttorm.

 

(Þögn)

 

HANN

Er Myndin eitthvað að skýrast?

   

BARBARA

Satt að segja er ég enn að reyna að átta mig á hvar ég er stödd í veraldarsnák sem gleypir sjálfan sig.

 

HANN

(Stendur upp og gerir sig líklegan til að hverfa á braut). Þú ert samt að átta þig á stóra málinu. Hver eiginleg staða þín er í alheiminum.

 

BARBARA

Staða? Er ég ekki bara miðaldra kona á hamingjusömum bekk í almenningsgarði á spjalli við engil um miðja nótt?

 

HANN

Stundum er stóra málið falið í einu orði.

 

BARBARA

Eitt galdraorð og allt fellur í rétta stafi. Bara að það væri svona einfalt. En lát heyra, endilega, lausnarorðið. Mig grunar samt að það eigi eftir að geta af sér fleiri.

 

Hann

Þjónn.

  

BARBARA

Þjónn?

 

HANN

Staða þín er staða þjónsins. Þú ert sköpuð og sérstaklega hönnuð ef svo má að orði komast, til að vera þjónn og ekkert annað. Mennirnir eru haldnir þeirri firru að þér séu skapaðir til að ríkja, ríkja yfir umhverfi sínu og meðbræðrum sínum. Algjörlega andstætt tilgangi sínum reynir maðurinn að brjóta undir sig það sem ekki tilheyrir honum og getur aldrei tilheyrt honum, mannshjartað. Í því býr hið sanna vald og vald tilheyrir ekki manninum.

 

BARBARA

Þjónn?

 

HANN

Staða þjónsins er æðsta staða sem manninum getur nokkurn tíma hlotnast. Svo einfalt er það nú. Hlær og skellir saman höndunum)

 

BARBARA

Svo ég hef þá alla tíð verið nokkuð nálægt þessu. Ég man ekki eftir tíma í lífi mínu þar sem ég hef verið í öðru hlutverki en hlutverki þjónsins.

 

HANN

Það skiptir máli hverjum þú þjónar og hvernig.

 (Þögn) 

BARBARA

Og hvað gerist svo?

 

HANN

Það breytist ekki margt alveg strax, nema kannski skilningur þinn. Hann hefur breyst ekki satt.

 

BARBARA

(Hlægjandi)Nýr himinn og ný jörð.

 

HANN

Það sem þú gerir, gerir þú í ljósi þess sem þú veist. Nýr skilningur kallar fram breytingar smám saman. Þær byrja með því að þú gerir það sem gera þarf næst, fullviss í huga og hjarta að þér er ekki ætlað að gera neitt annað.

 

BARBARA

Heyrðu, er þetta kannski það sem kallað er að fá köllun? Næst, hvað kemur næst?

 

HANN

Fékkstu þér að borða í kvöld?

 

BARBARA

Reyndar, hvað kemur það málinu við?

 

HANN

Ertu búin að þvo upp?

 

BARBARA

Nei, ég var alls ekki í formi til þess.

 

HANN

Næst er að þvo upp og ganga frá eftir kvöldmatinn heima hjá þér.

 

BARBARA

Þvo upp?

 

HANN

Já, ef allir myndu þvo upp eftir að þeir eru búnir að borða væri heimurinn miklu betri. Þó að hamingjan sé reist á andlegri hegðun verður þú að feta hinn andlega stíg með praktískum fótum. Andleg hegðun felur í sér sjálfsnægju hvert sem hlutverk okkar er í lífinu.

 

BARBARA

Og eftir allt þetta er niðurstaðan að ég á eftir að vaska upp.

 

HANN

(Gengur út af sviðinu) Já, reyndar og koma rósinni í vatn. (Hlær með sjálfum sér) Guttormur!

 

BARBARA

(Lokar augunum og stingur höndunum í vasana á kápu sinni. Stutt stund líður þar til hún opnar augun aftur. Á meðan heyrast raddir fortíðarinnar sem smámsaman dofna og nýjar raddir yfirgnæfa þær en þagna síðan)

  

NÝJAR RADDIR

Bergmál af tali HANS.

 (Hún opnar augun og stendur upp, tekur hendur úr vösum og tómt pilluglas dettur á gólfið. Hún tekur upp pilluglasið, horfir á það undrandi og svo í kringum sig. Gengur síðan burtu.) Endir

Hvers virði eru kennarar, svona eftir á að hyggja?

Ef að við viljum sjá og skilja hvort við höfum þroskast eitthvað eftir að við erum orðin fullorðin, ( það er ekkert sjálfgefið að þroski fylgi ára og hrukkufjölda) ættum við að bera saman afstöðu okkar til kennaranna okkar, eins og hún var þegar þeir kenndu okkur og hvernig hún er núna þegar við óskum þess eins að við hefðum verið betri nemendur.

image004Ef þú sérð núna að kennarar eru mikilvægasta starfstétt í heimi á eftir bændum, er þér ekki alls varnað. Ef þú skilur að Þeir einir kunna að láta bókvitið í askana og án þeirra yrði heimurinn aftur miðaldadimmur og án yls, ertu að nálgast þann skilning á kennurum sem eðlilegur getur talist.

Ef þú hvorki sérð eða skilur þetta, skaltu ekki hafa hátt og láta sem ekkert sé. Þetta kemur kannski.

Ég skrifa þessar laufléttu hugrenningar vegna þess að einn af kennurunum mínum kom í heimsókn á bloggsíðuna mína í kvöld.

Mér varð hugsað til hlutskiptis þeirra sem í raun eru ábyrgir fyrir því hvernig við hugsum. Kennararnir mínir komu og fóru, gerðu það sem þeim var falið að gera án þess að ég þakkaði þeim neitt fyrir það sérstaklega. Þeir voru flestir í mínum augum óvinurinn sem stöðugt reyndu að fá þig til að gera það sem þig langaði ekki að gera. Bara að ég hefði farið eftir þeim, en ekki mér. -

Gylfi Guðmundsson var íslenskukennarinn minn í tvo vetur í Gagnfræðaskóla Keflavíkur fyrir margt löngu og ég á honum margt að þakka. Fyrir utan að vera frábær kennari eins og ferill hans ber vitni um, sagði hann mér fyrstur frá Stapadrauginum, útskýrði fyrir mér falið gildi ljóðagerðar, gerði íslensk orð spennandi og felldi mig ekki í málfræði þrátt fyrir slælegan árangur minn á prófunum. Takk fyrir það allt Gylfi. 


Ef veitingahús störfuðu eins og Microsoft:

Stuttu áður en allt fór í klessu hér á blogginu sendi góðkunningi minn Davíð Kristjánsson á Selfossi mér þennan texta. Kannski hefur hann sé fyrir þessar hremmingar með diskastæðuna hjá blog.is?

Kúnni: Þjónn!
Þjónn: Góðan daginn, ég heiti Jón og ég er hér til að aðstoða þig. Er eitthvað vandamál á ferðinni?
Kúnni: Já, það er fluga í súpunni!
Þjónn: Ó, reyndu aftur. Kannski verður flugan ekki þá.
Kúnni: Jú, flugan er enn þarna!
Þjónn: Kannski er það hvernig þú ert að nota súpuna; reyndu að borða hana með gaffli.
Kúnni: Flugan er þarna enn!
Þjónn: Kannski er súpan ósamhæf við skálina. Hvernig skál notarðu?
Kúnni: súpuskál!!!
Þjónn: Kannski er það uppsetningarvandamál. Hvernig var skálin sett upp?
Kúnni: Þú komst með hana á bakka! Hvað hefur það að gera með fluguna?
Þjónn: Manstu allt sem þú gerðir áður en þú varðst var við fluguna?
Kúnni: Já, ég gekk inn, settist við þetta borð og pantaði súpu dagsins!
Þjónn: Einmitt - hefurðu hugleitt að uppfæra yfir í nýjustu súpu dagsins?
Kúnni: Eruð þið með margar súpur dagsins?
Þjónn: Já, elskan mín góða… þær breytast á klukkutíma fresti.
Kúnni: Nú - og hvernig súpa er súpa dagsins núna?
Þjónn: Það er tómatsúpa.
Kúnni: Fínt! Láttu mig fá tómatsúpu þá og reikninginn… ég er að verða of seinn.
(Þjónninn fer og kemur aftur með súpuskál og reikning)
Þjónn: Gjörðu svo vel - hér er súpa dagsins og reikningurinn.
Kúnni: En… þetta er uxahalasúpa?
Þjónn: Já, tómatsúpan var ekki tilbúin.
Kúnni: Jæja þá… ég er orðinn glorsoltinn. Ég held að ég geti borðað hvað sem er núna.
Kúnni: Þjóóóónn!!! Það er mýfluga í súpunni minni!!!

Reikningurinn:
Súpa dagsins: 500,- kr.
Uppfærsla á súpu dagsins 250,- kr.
Aðgangur að þjónustu og aðstoð 10.000,- kr.
Ath. Fluga í súpu dagsins er innifalin án sérstakrar gjaldtöku, en verður lagfærð í súpu dagsins á morgun


Vinsælasti bloggari í heimi

Ég hef látið það vera fram að þessu að blogga um blogg eða aðra bloggara. Ég blogga heldur aldrei um fréttir enda fullt af kláru fólki í þeim bransa. En til að setja okkur íslenska bloggara í samhengi við það sem best gerist "út í heimi" langar mig að segja frá vinsælasta bloggaranum í veröldinni samkvæmt Heimsmetabók Guinness.

kamiji Hann heitir Yusike Kamiji og bloggar á Japönsku en þrátt fyrir það verð ég að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvers eðlis aðdráttaraflið er, en Þið getið dæmt um það fyrir ykkur sjálf hér.

Tölurnar sem tengdar eru blogginu hans eru hreint ótrúlegar og komu honum í heimsmetabókina. 

Flestar heimsóknir á dag; 230.755

Flettingar á dag; 5-6 millj. að meðaltali, komst hæst í 13.171.039 þann 12 Apríl s.l.

Þann 17. Apríl fékk hann 56.061 athugasemdir við eina færsluna.

Víst er að Japan sker sig úr mörgum löndum hvað varðar notkun bloggsins. Sjónvarpsstjörnur nota bloggið til að auglýsa þættina sína og framkomur í spjallþáttum o.s.f.r. Svo nota þeir tækifærin þegar þau gefast í sjónvarpinu til að minnast á bloggin sín. 


Bloggið er besti spegillinn

IndiaSnakeEPA_468x659Í Íran eru fleiri bloggarar miðað við íbúafjölda en í nokkru öðru landi í heiminum. Ef maður vill vita hvað er raunverulega að gerast meðal almennings í Íran, þarf maður ekki að gera annað en að skoða bloggin þeirra. -

Simbabve er lokað land. Þangað inn er ekki einu sinni fréttamönum hleypt. En vilji maður vita hvað almenningur er að hugsa, getur maður lesið bloggin þeirra sem upplifa daglega skefjalausar þvinganir og ofsóknir Mr. Mugabe forseta.

Bloggið er að verða áhrifaríkari og áreiðanlegri miðill en flestar fréttastofur. Áhrif bloggsíðna er einnig að aukast í pólitíkinni. Obama þakkar árangur sinn í USA m.a. vel stýrðri net og blogg herferð. Hér á Íslandi er vegur bloggsins alltaf að aukast og í næstu kosningum á bloggsíðum eftir að fjölga til muna. Geta bloggsins til að gefa almenningi rödd er óumdeilanleg. Stjórnvöld sem ekki átta sig á hvernig skoðanir mótast og straumlínulaga sig í umræðunni í bloggheimum eru illa utangátta.

Það er samt tvennt sem er afar umdeilt er í tengslum við bloggið, sérstaklega í bloggsamfélögum eins og hér á blog.is. Hið fyrra lýtur að nafnlausum bloggurum og nafnlausum athugasemdum þeirra sem ekki einu sinni hafa bloggsíðu. Þótt þetta gangi ágætlega í mörgum tilfellum, eru samt dæmi þess að einstaklingar senda frá sér hluti sem eru á mörkum velsæmis í skjóli nafnleyndar.

Hið seinna er hversu mikil ósvífni getur hlaupið í umræðurnar og athugasemdafærslunnar. Stundum eru athugasemdir svo rætnar að fólk hefur hvað eftir annað lýst því yfir að það hyggist hætta bloggum sínum vegna rætinna athugasemda.

Hvoru tveggja eru vandamál sem verður að þola, alla vega sem stendur. Internetið í heild er miðill þar sem í raun ekkert hamlar annað en siðferðiskennd fólks bæði hvað varðar hvaða efni er sett upp og hvað er lesið og skoðað.

Ef ég vil þeysa gandreið um bloggsíður og skilja eftir mig nafnlausa slóð af dónalegum athugasemdum getir ekkert stöðvað mig í því, svo fremi sem eigendur  bloggsíðanna hafa ekki sett einhver takmörk sjálfir á síðuna, sem fæstir vilja gera. - E.t.v. mun þróast í bloggheimum blogg-siðferði rétt eins og borðsiðir, sem flestir munu halda sig við.

 

 


Hverjir stjórna netheimum?

Netheimar eru notaðir af lang-flestum þjóðum heimsins. En hvernig skiptast netheimar á milli landa, landasvæða og Álfa. Þetta er nýlegt kort sem sýnir einmitt þá skiptingu með tilliti til netsamfélaga og hvar er best að vera í hverju landi til að ná til sem flestra.

SocialNetworks_WorldMap-full 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband