Færsluflokkur: Bloggar
29.5.2010 | 22:21
Fúll yfir gengi Íslands
Graham Norton breski BBC þulurinn náði ekki upp í nefið á sér af gremju yfir lélegu gengi Íslands. Þýskaland búið að vinna en Írland, Ísland og UK, allt lönd sem sitja eftir með sárara enni en flestar aðrar þjóðir. Miðað við hvernig kosningin fór er afar slæmt að við eigum ekki landamæri við nokkuð annað land. Svíþjóð meira að segja hafði okkur að engu.
![]() |
Lítið af stigum í Eurovision |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
29.5.2010 | 12:11
Verður Jón Gnarr næsti forseti Íslands
Það þykkir sýnt að Jón Gnarr mun vinna glæsilegan kosningasigur í kvöld. Borgarstjórastóllinn verður hans. Til hamingju með það Reykjavík. En hví skyldi Jón Gnarr láta þá forfrömun nægja.
Jón er ástsælasti maður landsins um þessar mundir, rétt eins og Jóhanna Sigurðardóttir var það þegar hún tók við forsætisráðherra embættinu forðum.
Jón getur ef hann vill, boðið sig fram til hvers sem er og fengið kosningu. Honum mundi ekki verða skotaskuld úr að koma nokkrum þingmönnum á þing og gerir það eflaust í næstu kosningum.
Honum mundi takast það sem Hreyfingunum báðum mistókst.
Nú styttist einnig í forsetakosningar. Enginn líklegur kandídat í það embætti er sjáanlegur, nema auðvitað Jón Gnarr. - Mikið yrðu veislurnar á Bessastöðum skemmtilegri með Jón sem veislustjóra og áhugi fólks fyrir embættinu mundi stórlega aukast, að ekki sé talað um virðinguna.
Það er gömul regla í skemmtanabransanum á Íslandi að vegna fæðar landsmanna, verða þeir sem ná vinsældum að hamra járnið á meðan það er heitt og reyna að kreista allt sem hægt er út úr atriðinu, áður en fólk fær leið á því.
Nú hefur Gnarr tækifæri til að tryggja sér sess meðal þjóðarinnar allrar til langframa. Hann gæti byrjað að undirbúa forsetaframboð sitt, en hver veit hvað það kynni að leiða til ef hann hlyti kosningu.
The sky is the limit.
![]() |
Oddviti Besta flokksins kaus í Ráðhúsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.5.2010 | 18:30
Er andi í glasinu?
Draugaveiðarar og (fjöl) miðlar fjölmenna nú til The New Inn í Gloucester. Ástæðan er sú að fyrir fáeinum dögum tóku sjálfvirkar öryggismyndavélar staðarins myndir af ölglasi sem fer af stað af sjálfdáðum að því er virðist og skellur á gólfinu eins og sjá má hér.
Myndbandið er talið vera óbreytt.
Þrátt fyrir nafnið er "The New Inn" alls ekki ný krá. Húsið var upphaflega byggt á 14 öld til að hýsa pílagríma sem komu til að heimsækja gröf Eðvarðs konungs II sem er í dómkirkju staðarins.
Eigendur krárinnar halda því fram að reimt sé í kránni og að óútskýranlegir atburðir séu þar daglegt brauð.
Kráin býður enn upp á gistingu en þetta kvöld sem andinn hljóp í glasið var verið að undirbúa spurningakeppni á barnum. Við sjáum hvernig spurningakeppnisstjórinn setur glas sitt fullt af bjór niður á borð og fer síðan burtu. Eftir skamma stund hendist það af stað út af borðinu og mölbrotnar á gólfinu og gestirnir stara á í forundran.
PS. Eitthvað finnst mér fámennt á spurningarkeppniskvöldinu. En það er fátt sem trekkir meira en krassandi draugasaga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.5.2010 | 12:06
Skot í augað
Eitt sinn gekk sú saga að læknastúdentar hefðu fundið upp aðferð til að drýgja vín með því að sprauta því beint í æð. Það kann vel að vera flökkusaga.
Í Skotlandi, (Skotar kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að drykkjuleikjum) tíðkaðist það fyrir mörgum árum að hella kanilblönduðum Vodka í auga sér, sem hlýtur að hafa verið óhemju sársaukafullt. Sem betur fer lagðist sá leikur af mjög fljótlega.
Nú berast þær fréttir að þetta gamla trix hafi verið endurvakið í Bandaríkjunum þar sem gengilbeinur á börum hafi byrjað að hella óblönduðum Vodka í augu sér til að auka við þjórfé sitt.
Síðan hafi kaldir kallar sem spiluðu ruðning fyrir háskólanna byrjað að mana hvern annan til að prófa og nú sé þessi ósiður orðinn vinsæll drykkjuleikur meðal unglinga þar í landi.
Afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Að verða blindfullur fær hér nýja merkingu.
![]() |
Hættulegur drykkjuleikur nær vinsældum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2010 | 16:03
Hermenn skynseminnar
Í samskiptum mínum við trúlausa síðustu daga, einkum þá sem tilheyra félagskapnum Vantrú, hef ég orðið margs vísari. Rökræður og orðaleikfimi eru þeirra ær og kýr sem eftir nokkra snúninga reynast öllu magrari en þeir vilja vera láta. Sumir líta greinilega á sig sem hermenn skynseminnar og virka því dálítið árásargjarnir og stífir. Kannski er það lærfeðrunum Dawkins og Hitchens að kenna sem frægir hafa orðið fyrir þennan háttinn.
Þeir vilja ólmir fá að teikna skopmyndir af guðsmönnum. Þegar þeim er bent á að slíkt athæfi feli í sér háð og spott sem lög landsins vernda fólk fyrir, kalla þeir það gagnrýni. Þeim er fyrirmunað að skilja hvernig hægt er að taka tillit til þess að eitthvað getur sært fólk sem ekki veldur því beinum líkamlegum skaða. Lífsleikni hlýtur að vera þeim framandi hugtak.
Samt eru þeir sjálfir afar hörundsárir og bregðast ókvæða við með miklum greinarskrifum og persónuárásum ef þeim er sjálfum strítt, hvort sem er með gagnrýni eða háði, eins og viðbrögð við grein minni "Vantrú á Vantrú" ber vitni um.
Þeim virðist fæstum vera það ljóst að stærsti hluti trúaðra hefur ekki tileinkað sér trúarleg viðhorf sín af ást til Guðs eða mannkynsins, heldur af ótta sem á sér djúpar rætur í mannlegu eðli. Ekki af ótta við Guð, heldur dauðann, hið óþekkta, að finna sig einan í alheiminum og að lífið sé tilgangslaust. Sá ótti er fylgifiskur vitmunanna og getur þegar best lætur, verið kveikjan að viðleitni sem snýr óttanum upp í andhverfu sína, þ.e. þekkingar og ástar til Guðs og mannkynsins.
Óttanum tekst trúuðum oft að bægja frá með trú á æðri máttarvöld sem gæta þeirra, hlusta á bænir þeirra og gefur þeim eilíft líf að jarðvist lokinni.
Margir trúlausir segjast hafa lært að lifa með sínum ótta. Þeir hafa enga trú og enga þekkingu sem kemur í stað hennar. Er það kannski það sem hefur forhert huga þeirra og hjörtu? Hvers vegna virðast þeir líta svo á að bein árás á það sem trúaðir álíta grunnstefin í lífi sínu, allt það sem þeir álíta satt og gott, sé besta aðferðin til að koma trúleysis-málstað sínum á framfæri?
Fyrir það fyrsta er skynseminni og rökhyggju manna takmörk sett. Hún leysir ekki allar gátur lífsins, ekki einu sinni gátur sem ætlast er til að hún geti leyst eins og t.d. mótsögn Russells.
Í öðru lagi kallar bein árás oftast á varnarviðbrögð. Fólki finnst sér ógnað og algengustu viðbrögðin eru að það hættir að hlusta (lesa). Því meira sem trúlausir hamast, því minna heyrir viðmælandinn.
Í þriðja lagi réttlæta ekki ofsafengin viðbrögð sumra trúaðra við háði og spotti, háð og spott. Að beita fyrir sig skýrskotunum til mikilvægi tjáningarfrelsins er að afvegaleiða umræðuna. Háð og spott er aldrei til góðs, það er hluti af vandmálinu, ekki lausninni. Tjáningarfrelsinu, eins og öllu öðru frelsi, fylgir sú ábyrgð að nota ekki frelsi sitt til að gera öðrum viljandi miska.
20.5.2010 | 20:19
Húsverkin og ég
Ég verð að viðurkenna að mér leiðast húsverkin. Sum þeirra hata ég hreinlega.
Lengi skammaðist ég mín fyrir þetta og þróaði með mér af þeim sökum ákveðið þolgæði fyrir eldamennsku. Ég get sem sagt mallað eitthvað daglega án þess að gráta af leiðindum.
En að búa um rúm, vaska upp diska og þurfa svo að endurtaka það allt saman eftir sex mánuði er iðja sem alls ekki er að mínu skapi.
Eins og í flestum tilfellum þegar að andúð á einhverju nær yfirhöndinni, er skilningsleysi um að kenna . Ég hef t.d. aldrei skilið þörfina á að þrífa hús og híbýli. Eftir fjögur ár getur hið skítuga ekki orðið skítugra. Hvers vegna að þrífa?
Ég hef heldur aldrei skilið fólk sem hefur mikla ánægju af húsverkum. Eina húsmóður þekki ég sem er svo gagntekin af húsverkum að hún vaknar á nóttunni til að athuga hvernig sjálfhreinsandi ofninum í eldavélinni gengur að hreinsa sig.
Einn húskarlinn þvær vandlega allt leirtauið í vaskinum áður en hann setur það í uppvöskunarvélina.
Hvað er að þessu fólki. Molysmophobia?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.5.2010 | 12:35
Bacha bazi - Hinir dansandi drengir í Afganistan



Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2010 | 18:06
Allt Íslandi að kenna!
Eins og ég fjallaði um í síðustu færslu er Ísland mikið í breskum fjölmiðlum þessa dagana. Í gærkveldi voru tveir þættir um landið í sjónvarpinu, annar fjallaði um gosið í Eyjafjallajökli og hinn um þorskastríðin. þótt báðir þættirnir hafi verið afar fræðandi og í sjálfu sér jákvæðir í garð Íslands og Íslendinga, læddist að mér sá grunur í morgun að klisjan um að allar auglýsingar séu góðar auglýsingar, sé ekki alltaf sönn.
Þrátt fyrir hremmingaranar í tengslum við efnahagshrunið fundust mér Bretar ætíð tiltölulega jákvæðir gagnvart landi og þjóð. Nú kveður við annan tón. Fólk verður jafnvel vandræðalegt þegar það heyrir að ég sé frá Íslandi og það er styttra í aulabrandarana en áður.
Það er eins og fólk bregðist verr við því sem ógjörningur er að stjórna en því sem gerist af mannavöldum.
Ókunn kona á pósthúsinu sagði við mig í fúlustu alvöru að Ísland bæri ábyrgðina á því að sumarfríið hennar væri nú í uppnámi.
Kennarinn á námskeiðinu sem ég sótti í dag, lét aulabrandarana rigna yfir mig, en sá svo eftir öllu saman og baðst afsökunar á bullinu.
Jafnvel góðir kunningjar mínir sjá nú ástæðu til að hafa þetta á orði eins og lesa má úr þessum tölvupósti sem ég fékk sendan í dag:
Just to see if you're still going to do a spot at May 21st What A Performance!There will of course be no references or cheap jokes about ash, volcanoes, banks or anything of that sort - trust me!
What would it be? A 12 minute something?
Let me know
Á síðasta ári lýstu margir íslendingar búsettir erlendis því hvernig þeir máttu þola háð, spott og jafnvel reiði út í Íslendinga vegna hamfaranna í efnahagslífinu og þá átti ég bágt með að trúa þeim. Ekki bjóst ég við að ég ætti eftir að finna fyrir slíku á eigin skinni vegna náttúrhamfara á landinu. Svo lærir sem lifir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2010 | 19:27
Ísland stöðugt í fréttum
Sjaldan eða aldrei hefur Ísland verið eins mikið á milli tannanna á fólki hér í Bretlandi og um þessar mundir. Aska frá Eyjafjallajökli heldur áfram að raska flugáætlunum flugfélaga víða um Evrópu og erlendir fréttahaukar klæmast stöðugt á nafni eldfjallsins. Síðasta dæmið sem ég rakst á er þetta;
Þá hafa handtökur Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra bankans í Lúxemborg sem og arftaka hans, Banque Havilland, vegna gruns um skjalafals, auðgunarbrot og markaðsmisnotkun vakið talsverða athygli í hérlendum fjölmiðlum.
En ef að Ólafi Haukssyni mistekst að sanna misferli á þá félaga og jafnvel þótt svo fari, er mögulegt að þeir þurfi að svara til saka fyrir breskum dómstólum.
Mál Kaupþings hefur verið til rannsóknar hjá Britain's Serious Fraud Office (Rannsóknardeild alvarlegra fjársvika) í nokkurn tíma, einkum hvernig staðið var að því að laða að innlánsfé með loforðum um háa ávöxtun á Kaupthing Edge.
Mál þeirra Kaupþingsmanna þykir einnig áhugavert meðal almennings fyrir þær sakir að sjálfir hafa Bretar verið verið heldur linir við að sækja "sína menn" til saka, þ.e. þá sem farið hafa illa með fé almennings í breskum bönkum. Í Bretlandi sitja yfirleitt sömu menn við stjórn bankanna og gerðu fyrir hrun og þiggja enn himinháar bónusgreiðslur fyrir ómakið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2010 | 16:59
Clegg the kingmaker
Þá er kosningunum lokið hér í Bretlandi og úrslitin verið tilkynnt. Þingið er hengt eins og flestir bjuggust við og enginn flokkur með nægilegan þingstyrk til að mynda ríkisstjórn einn. Bæði Brown og Cameron biðla til Cleggs sem eygir nú tækifæri til að koma á endurbótum á kosningakerfinu.
Reyndar nægir sameiginlegur þingmannafjöldi Frjálslyndra Demókrata og Verkamannaflokksins heldur ekki til að mynda meirihlutastjórn. Bónorð Browns hljóta því að hljóma dálítið hjáróma. Kosningakerfið Í Bretlandi er þannig að aðeins 6% munur er á almennu fylgi Frjálslyndra og Verkamannaflokksins en þessi 6% gefa samt þeim síðarnefndu 101 þingmann umfram Frjálslynda.
Er það furða að Clegg setji endurbætur á kosningakerfinu sem skilyrði fyrir þátttöku í stjórn. Hann vill að horfið verði frá einmenningskjördæmum og flokkar fái úthlutað þingmönnum eftir hlutfalli atkvæða sem þeir hljóta. En það verður þrautin þyngri að fá Cameron til að fallast á það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)