Dansar þú 1.maí?

Workers_UniteÁrþúsundum áður en þing evrópskra verkalýðsfélaga sem haldið var í París árið 1889 samþykkti tillögu Frakka um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks, var dagurinn almennur frídagur og hátíðisdagur víðast hvar í Evrópu.

Gamla keltneska tímatalið gerði ráð fyrir fjórum jafnlöngum árstíðum og samkvæmt því hófst sumar 1. maí. Með auknum umsvifum og landvinningum Rómverja í mið og norður hluta álfunnar, blandaðist 1. maí hátíðarhöldin rómversku hátíðinni Floralíu sem tileinkuð var gyðju blómanna Flóru. Sú hátíð var haldin frá 28 apríl til 2. maí.

Á Bretlandseyjum þar sem 1. maí hátíðin gekk undir gelíska heitinu Beltene-hátíðin.  Var hún allsherjar hreingerningarhátíð, andlega jafnt sem efnislega og stjórnað af Drúída-prestum. Jafnvel búféð var hreinsað af öllu illu með að reka það í gegnum eld.

may1_maypole_raise_smSeinna runnu ýmsir siðir þessara tveggja hátíða saman.  Til þeirra má rekja siði sem enn eru í heiðri hafðir víða um Evrópu eins og að reisa og dansa í kringum maí-stöng og krýna maí-drottningu og kveikja í bálköstum. Þess má geta að fyrirmyndin að "frelsistrénu" sem var tákn frönsku byltingarinnar var fengin frá maí-stönginni.

Um leið og kristni breiddist út um álfuna var mikið til reynt til að gera 1. maí að kristinni hátíð. Kaþólska kirkjan helgaði daginn Maríu Guðsmóður og seinna var hann kenndur við dýrlinginn Valborgu sem var ensk prinsessa, trúboði og abbadís í Þýskalandi. Í Þýskalandi hét hátíðin "Valborgarnætur". Svíar halda enn þann dag í dag upp á Valborgarmessu kvöldið fyrir 1. maí.

Lengi vel var siður að gefa 1. maí-körfur sem fylltar voru einhverju góðgæti og blómum sem skilja átti eftir við dyr nágranna án þess að gefa til kynna hver gefandinn væri.

haymarketÍ dag er 1. maí haldinn hátíðlegur í fjölmörgum löndum heimsins sem alþjóðlegur frídagur verkafólks, en þó ekki í Bandaríkjunum eða Kanada. Það kann að sýnast dálítið kaldhæðnislegt,  því þegar ákveðið var að dagurinn skyldi tileinkaður verkfólki var haft í huga að minnast fjöldamorðanna sem áttu sér stað á Heymarkaðinum í Chicago þann 4. maí 1886, þegar á annan tug stuðningsmanna verkammanna í verkfalli, var feldur af lögregluliðum borgarinnar.


Tæknilegt einelti

Það vekur alltaf athygli þegar ofbeldi og hrottaskapur stúlkna gegn stallsystrum sínum kemst í fréttirnar. Það er næsta víst að ofbeldi á borð við það sem átti sér stað upp í Heiðmörk fyrir stuttu, tengist einelti. Reyndar er daglegt einelti meðal unglinga orðið svo hátæknilegt að það er stundum erfitt að átta sig á hvort um raunverulegt einelti er að ræða eða "eðlileg" samskipti unglinga.

Jessie+LoganÞannig gerðist það fyrir stuttu að Jessie Logan, átján ára skólastúlka í Cincinati í Bandaríkjunum sendi stráknum sem hún var að deita, mynd af sér í dálítið sexý pósu. Slíkt er afar algengt og  stundum kallað "sexting". Eftir að þau hættu saman, hóf stráksi að dreifa myndinni meðal félaga sinna og þannig flaug myndin milli nokkur hundruð farsíma á örskammri stundu. Í kjölfarið varð Jessie að þola einelti og stríðni frá skólafélögum sínum og kunningjum sem voru að senda á hana illgjarna texta í tíma og ótíma. Skólayfirvöld reyndu að slá á eineltið með því að láta Jessie koma fram í sjónvarpi og biðjast vægðar. En allt kom fyrir ekki og að lokum hengdi Jessie sig.

5CC088DC-042F-C79A-45E502A35D623464Í Bretlandi hefur nýlega verið tekin í gagnið hjálpar-miðstöð sem kallast "Cyber-mentors"  fyrir börn og unglinga sem verða fyrir einelti og áreiti í gegnum farsíma og tölvur.  Þeir sem á annað borð taka þátt í eineltis-aðgerðum gegn félögum sínum vita að í skólum er reynt að fylgjast með atferli þeirra. Í stað "hefðbundins" eineltis er því meir og meir notast við farsíma, skilaboð og tölvur þar sem hægt er að semda myndefni og rætna texta eftirlitslaust.


Samantekt á fréttanöldri

obama-100-daysObama er búin að vera við völd í USA í rúma 100 daga. Það eru mikil tímamót hjá þjóð þar sem hlutirnir gerast hratt. Obama er rosalega vinsæll eftir þennan tíma í embætti, um það bil eins vinsæll og forveri hans Bush var eftir fyrstu 100 dagana sína í Hvíta húsinu. Góður árangur hjá Obama!

bb79eda6-71a8-4416-b157-85fb902009afSvínaflensan er kominn á fulla ferð um heiminn.  Samsærismennirnir segja að hún sé sérhönnuð til þess að taka athyglina frá einhverju voðalega ljótu sem er að gerast í fjármálheiminum. Á hverju kvöldi birtist heimskortið á skjánum þar sem hvert land lýsist upp ef þar hefur fundist tilfelli. Svo virðist sem Svínaflensan sé miklu skæðari en fuglaflensan var og komið er í ljós að það er tilgangslaust að reyna að hindra útbreiðslu hennar. Viðbrögð stjórnvalda eiga að miðast frekar við meðhöndlun. Allir eru að kaupa sér andlitsgrímur nema múslíma-konur sem eiga þær til. Tölurnar yfir látna og veika birtast líka yfir hverju landi og svo segir þulurinn eða þulan frá því hvar sé líklegast að hún skjóti sér niður næst og hvað margir komi til með að deyja þar. Svei mér þá, ef þetta er ekki jafn spennandi og juróvisjón.

multiple_BURKA%20wivesOg vel á minnst, skartgripasali í Skotlandi er búinn að banna búrkur og andlistgrímur íslamskra kvenna í verslun sinni eftir að tveir karlmenn klæddir sem konur í serk og með grímur, rændu verslun hans. Nú verða íslamskar konur að hringja á undan sér og panta sér afgreiðslukonu ef ær vilja versla við hann.

Stríðið í Írak gengur vel. Það er búið að drepa þar dagskammtinn sem er venjulega milli 40-100 manns.

Goslokahteyjum2007097-viÁrni í Eyjum segir að það hafi verið unnið á móti honum í flokknum hans. Eitraðar tungur spilltu fyrir honum og hvöttu til þess að yfirstrika hann. Árni veit vel hvað það er að verða fyrir eitrun. Ég sá á honum hendurnar eftir að einhver eitraði fyrir honum fyrir þremur árum. Þær voru bólgnar og þrútnar. Nú bólgnar Árni aftur og þrútnar af réttlátri reiði. Pólitík er eitur.

Mín tillaga er að Árni J, Guðlaugur Þór sem langar svo til þess að verða aftur litli góði drengurinn,  og Björgvin pípari, (saklausi bankamálaráðherrann) taki sig saman og stofni með sér "Útstrikaða-flokkinn".

ViðræðurVG og Sf halda áfram að spjalla um hvernig þeir eigi að stjórna landinu. Það liggur ekkert á segja þau, því þau eru hvort eð er við stjórn. Stóra málið er auðvitað hvernig á að standa að því að ganga í Evrópubandalagið. Samfylkingin vill ekki ganga í EB, heldur hlaupa þangað og VG vilja heldur ekki ganga í það, en eru tilbúnir í að skríða.

2003123112046920Svo eru það hremmingarnar hans Þráins. Í Borgarhreyfingunni á fólk að vera svo heilagt að það á að skila launum fyrir störf sem það hefur fyrir löngu unnið. Að auki er hér um að ræða "verðlaun" sem hann var "heiðraður" með. Nú er heiður hans fallinn að sumra mati sem vilja að hann skili verðlaununum rétt eins og íþróttagarpur sem hefur orðið uppvís af dópnotkun. Þráinn; nú er tími til kominn að hvetja exina og höggva nokkrar gagghænur.

 

 


Auðmýking Íslendinga

parking_icelandersEngin þjóð í heiminum sem náð hefur þeim árangri  að halda þjóðareinkennum sínum og menningu, hefur sloppið við auðmýkingu. Stór lönd sem smá hafa þurft að sætta sig við að fara halloka í stríðum og pólitískum átökum. Auðmýkingin hefur kennt þjóðunum að þeirra eigingjarni hugsunarháttur er ekki alltaf farsælastur og þeirra sértæku viðmið halda ekki alltaf vatni. Hún hefur neytt þjóðirnar til að taka mið af  hugmyndum, straumum og stefnum hvor annarrar. Hún hefur þjappað saman þjóðunum í þjóðabandalög sem margir spá að sé aðeins millistig að alheimslegu samveldi.

Íslendingar eru illa í stak búnir til að takast á við slíka auðmýkingu.

d_billeder_icelanders_255449Um stund héldu þeir jafnvel að þeir væru undanþegnir þeirri reglu að þurfa nokkru sinni að verða fyrir henni.  Eftir að þjóðin varð sjálfstæð  fylgdi hún þeim ásetningi í samskiptum sínum við önnur lönd að "eiga kökuna og borða hana líka." Kannski var það af minnimáttarkennd tilkomin vegna smæðar þjóðarinnar og að í mörg hundruð ár var hún fátækasta þjóð Evrópu. Kannski var það vegna þess að hún hélt að sinn tími væri loks kominn.

Í milliríkjadeilum, jafnvel við stórveldi, höfðu Íslendingar jafnan sigur. Þeir höguðu sér eins og þeir sem aldrei geta klikkað. Þeir voru fegurstir, sterkastir, gáfaðastir og alveg að verða ríkastir líka. Þeir fóru mikinn hvar sem þeir komu og keyptu sér fjölda rótgróinna erlendra verslana, fótboltafélög, fjarskiptasamsteypur og lyfjafyrirtæki. Sjálfsmynd þeirra einkenndist af stolti, nánast þjóðarrembingi.

icelandersSíðan þegar skellurinn kom, hitti hann þá fyrir þar sem þeir héldu að þeir væru hvað sterkastir. Auðmýkinguna sem einstaklingar, samfélög og þjóðir þurfa að fara í gegn um til að þroskast og læra að umgangast hvor aðra af háttvísi, upplifðu þeir fyrst sem höfnun.  Næstu viðbrögð voru afneitun og síðan reiði. Þar eru þeir staddir í dag.

Ný afstaðnar kosningar munu ekki ná að sefa þessa reiði því þær eru hluti af afneitun þjóðarinnar.  Margir íslendingar héldu að með það að kjósa nýja stjórn gætu þeir komist hjá að takast á af alvöru við afleiðingar auðmýkingarinnar og að við gætum haldið áfram á sömu braut og notið alls þess sem aðrar Evrópuþjóðir hafa að bjóða án þess að ganga í bandalag við þær og deila með þeim auðlindum okkar.

Íslendingar vita flestir innst inni að efnahagshrunið mun fyrr eða síðar knýja okkur til nýs hugsunarháttar og víðtækari ábyrgðar. Við munum hætta að hugsa eins og unglingur sem sér fátt mikilvægara en "sjálfstæði" sitt, þegar allir aðrir sem á horfa sjá, að allt það sem hann heldur að geri sig svo sérstakan, er það sem gerir hann mest líkan öðrum unglingum.


Business as usual

Kosningarnar afstaðnar og allir flokkar og listar greinilegar sigurvegarar, eins og venjulega, nema kannski XF flokkurinn sem varð fórnarlamb sinna eigin fordóma og jæja, kannski einhverra annarra líka sem hafa fordóma gegn fordómum.

Ástþór sigraði feitt, vegna þess að hann fékk að koma fram með hinum framagosunum og segja þeim til syndanna. Svo fékk hann líka tækifæri til að neita fréttamiðlinum sem hann hatast út í, um nærveru sína. Ég held að ég hafi aldrei séð eins glaðvært glott á vörum fréttaþular og þegar hann tilkynnti það.

Allt fór vel hjá Sjálfstæðisflokknum sem hvort eð er hafði ekki gert ráð fyrir að vera með í næstu stjórn landsins. Nú fá þeir kærkomið tækifæri til að endurskipuleggja sig og "vinna fylgið til baka" því þeir hafa "stefnuna og fólkið sem þjóðin þarf" til að velsæld ríki í landinu. Og allar gömlu konurnar klöppuðu hátt í Valhöll þegar að foringinn tilkynnti þetta.

Vinstri grænir voru hinir eiginlegu sigurvegarar því þeir hafa aldrei verið stærri en nú, nema í flestum skoðanakönnunum fyrir kosningar. En eins og allir vita er ekkert að marka skoðanakannanir. Þeir eru orðnir svo stórir að þeir eru orðnir svona "sjáum til" flokkur, eins og hinir flokkarnir hafa alltaf verið. Því miður fyrir vin minn Bjarna Harðar, sá hann það ekki fyrr en það var um seinan.

Stórsigur Samfylkingarinnar og Jóhönnu er eiginlega ekki fréttnæmur. Þegar loks er búið er að hræra saman og baka köku úr öllu sem til var; kvennaframboðinu, krötum, allaböllum og Ómari Ragnars, þá ber að gleðjast yfir því að kakan kom loks ófallin úr ofninum.

Stórkostleg framsókn framsóknarflokksins, sem aðeins einu sinni í sögu landsins hefur verið með jafn fáa þingmenn, er staðreynd. Flokkurinn stækkaði um 100% í þessum kosningum frá því sem slökustu skoðanakannanir sýndu. Mikið afrek fyrir annars aflóga stefnu og frekar ógeðgeldan strák sem tók við þessu hrafnaþingi fyrir nokkrum vikum.

Borgarhreyfingin sem eyddi bara einni og hálfri milljón og þremur vikum í að koma framboðinu saman fékk fjóra þingmenn og þar af einn flóttamann frá hrafnaþinginu, er hinn sanni sigurvegari þessarar kosninga, vegna þess að nú munu raddir fólksins í landinu loksins heyrast í þingsölum landsins. - Þeir ætla að halda uppi málþófi í öllum málum sem þingið tekur fyrir og þeir eru ekki sammála. Það er mikill sigur fyrir lýðræðið að fá þá málgarpa á þing.

Nú tekur við smá karp milli XS og XV um hvernig það verði hægt fyrir stjórnina að fara strax út í EB aðildarviðræður án þess að XV missi algjörlega andlitið. Og þegar því er lokið, verður þetta business as usual.

Heima sitja flokkseigendurnir ánægðir og núa sér um handabökin. Eftir allt þetta tilstand fór þetta bara dável allt saman. Enginn kærður fyrir stórþjófnaðina, engin ný stjórnarskrá til að endurskilgreina rétt þegna landsins, ekkert persónukjör og búið að stinga snuði upp í pottaglamursliðið.    Business as usual.

 


Kristnir "Talibanar" til Genfar

johncalvinJean Cauvin (betur þekktur sem Jóhann Kalvin) var aðeins átta ára þegar Martin Lúther negldi hið fræga skjal sitt á kirkjuhurðina í Wittenberg árið 1517 og hóf þannig baráttu sína sem kennd er við siðbót innan kristinnar trúar.  

Kalvin átti þá heima í fæðingarbæ sínum Noyon í Frakklandi og hafi verið alinn upp við kaþólska trú af löglærðum föður sínunm.  Hann gerðist mótmælandi ungur að árum og til að forðast ofsóknirnar sem þá voru tíðar á hendur mótmælendum,  flúði hann Frakkland til Basel í Svisslandi. Þar nam hann guðfræði og skrifaði sitt frægasta rit, "Stofnanir kristnu trúarbragðanna" sem kom út þegar hann var aðeins 27 ára gamall.

Hann heimsótti borgina Genf 1536 þar sem mótmælendur voru fjölmennir og tók þar upp kennimannsstöðu. Hann lenti fljótlega í útistöðum við borgarbúa vegna púritanískra skoðana sinna og var eiginlega rekinn frá borginni 1538. Hann gerðist þá klerkur í Strassburg og stundaði þar einnig skriftir. Honum var samt boðið að snúa aftur til Genfar árið 1541 og varð eftir það óumdeildur leiðtogi borgarbúa allt til dauðadags árið 1564.

calvin_libertines2-300x239Í Genf hrinti Jóhann Kalvin í framkvæmd kenningum sínum um hvernig kristið samfélag ætti að starfa, þótt að nafninu til væri borginni stjórnað af 25 manna borgarráði sem Jóhann átti ekki sæti á. Undir hans stjórn varð Genfar að miðstöð mótmælenda í Evrópu og stundum nefnd "Róm mótmælenda."

Í Genf Kalvins var framhjáhald og allt lauslæti gert að alvarlegum glæp. Fjárhættuspil, víndrykkja, dans og dægurlaga söngur var algjörlega foboðið athæfi að viðlagðri harðri refsingu. Öllum var gert skylt að mæta til guðþjónustu í kirkjum borgarinnar á vissum tímum þar sem predikanir klerkanna voru yfirleitt afar langar. Þá var allur skrautklæðnaður bannaður og ekkert mátti taka sér fyrir hendur á hvíldardeginum.

112Kalvin var mjög óumburðalyndur og  fljótur til að fordæma þá sem ekki fóru eftir túlkunum hans. Einn af frægari andstæðingum hans var Mikael Servetus, spánskur læknir og guðfræðingur sem ekki hugnaðist kenningarnar um þrí-einan guð. Þegar Servetus heimsótti borgina lét Jóhannes handtaka hann og dæma fyrir villutrú. Servetus var síðan brenndur á báli árið 1553. Talverður fjöldi manna og kvenna hlaut sömu örlög undir stjórn Jóhanns í gegnum tíðina, flestir fyrir galdra og villutrú. (Myndin sýnir tvo Dóminik-munka sem brenndir voru í Genf árið 1549)

Ýmsir trúarhópar spruttu upp sem studdust við kenningar Kalvins og má þar á meðal nefna Presbyterian-kirkjuna í Skotlandi, Hugenotta í Frakklandi og Púrítananna í Englandi. Kalvinísk mótmælendatrú varð ofaná í Sviss og Holllandi og einnig er stóra Kalviníska söfnuði að finna í Póllandi, Ungverjalandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Uppi hafa verið kenningar um að afstaða Kalvins til vinnu-siðferðis og sú staðreynd að hann lagðist ekki gegn því að vextir væru teknir af fé, hafi átt stórann þátt í uppgangi kapitalismans  (Auðhyggju) í Bandaríkjunum og Evrópu. Einnig að ástæðan fyrir því að nútíma lýðræði þróaðist fyrr í löndum þar sem Kalvinistar voru jafnan í minnihluta, hafi verið vegna þrýstings þeirra um virka þátttöku í málefnum samfélagsins.


Kynlíf í kvöld

Hætt er við að spennan sem hefur verið að hlaðast upp í fólki smá saman undanfarnar vikur og jafnvel mánuði, nái hámarki í kvöld, þegar kjörstöðum verður lokað og byrjað verður að telja upp úr kössunum. Víst er að Það verður spennufall hjá mörgum seinni hluta kvöldsins þegar úrslit verða staðfest og því mikilvægt að vita hvernig hægt er að bregðast við því. -

Framvindan um myndun stjórnar eftir kosningar er nokkuð skýr og fyrirsjáanleg, þannig að ekki verður nein veruleg spenna tengd henni. XV og XS munu mynda stjórn og í stjórnarandstöðu verða XO, XB og XD. En hvort sem þú telur að þú hafir unnið eða tapað kosningunum, aukið völd þín eða tapað þeim, er viðbúið að í þér búi langvaraandi streita sem leita muni útrásar í kvöld.

Sex-and-stressÞað er samdóma álit lækna og sérfræðinga að besta leiðin til að bregðast við spennufalli sé að beina hinni innlokuðu orku inn í kynlífið. 

Kynlíf og spenna eru mjög tengd. Spenna hefur oft verið sögð orsök minni kynþarfar en jafnframt er kynlíf oft besta leiðin til að losa um spennu. Þeir sem eru í vafa um undursamleg áhrif kynlífs á heilsu og líf okkar, geta lesið hér  og hér stuttar greina um efnið.


Fagrar og sexý eða konur í neyð

Hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú sérð svona myndir?  Í gegnum huga minn flaug spurningin,

a2b2Hvað er eiginlega að í þessum heimi?

Ef það eru til vitsmunaverur á öðrum hnöttum, skilur maður vel af hverju þær halda sig fjarri okkur, þegar við skoðum myndirnar sem hér fylgja og berum þær saman.

a3b5Sumar eru teknar í landi þar sem fólk lifir við alsnægtir og friður ríkir. Aðrar eru teknar þar sem styrjaldir, hungurneyðar og kerfisbundin utrýming fólks hafa átt sér stað.

Sjúkdómarnir sem valda þessu ástandi eru mismunandi.

a1b1Þeir heita mismunandi nöfnum en eiga það sameiginlegt að eiga heima í huga og hjörtum fólks.

Annars vegar heita þeir;  hatur og vanþekking, fordómar og græðgi. Einkenni þessarar sjúkdóma á heimsmælikvarða eru styrjaldir og hungurneyðir.

a6b7Hins vegar heita þeir; sjálfshatur, ímyndarveiki, depurð og einmannleiki sem eru andleg einkenni anorexíu og búlimíu.

Eins og flestum er orðið ljóst eru myndirnar vinstra megin af tísku-sýningarstúlkum. Þær eru fyrirmyndir þúsunda ungra stúlkna í Bandaríkjunum og mörgum löndum Evrópu. Stúlkurnar hægra megin eru fórnalömb úr útrýmingarbúðum og hungursneyða af völdum styrjalda.  


Grænu börnin

woolpitÞorpið Woolpit er nefnt eftir fornum pyttum sem finna má í grenndinni og kallaðir eru "Úlfapyttir" vegna þess að þeir voru í fyrndinni notaðir til að veiða í úlfa.

Dag einn síðla sumars fyrir meira en átta hundruð árum gengu þorpsbúar Woolpit til verka sinna á akrinum fyrir utan þorpið. Þegar þeir nálguðust akurinn heyrðu þeir hræðileg óp kom úr einum úlfapyttinum skammt utan akursins. Við nánari eftirgrennslan fundu þeir tvö felmtri slegin börn á botni hans.

greenkidzBörnin virtust eðlileg í alla staði fyrir utan tvennt; þau töluðu tungumál sem enginn skildi, en það sem meira var, hörund þeirra var grænt á litinn. Drengurinn og auðsýnilega eldri systir hans voru líka klædd í föt sem gerð voru úr torkennilegum efnum.

Eftir að þorpsbúar höfðu undrast og býsnast nægju sína yfir börnunum, ákváðu þeir að far með þau til landeigandans Sir Richard de Calne, á óðal hans í  Wikes. Sagan um fund barnanna fór eins og eldur í sinu um héraðið og margir lögðu leið sína til Wikes til að berja eigin augum undrin.

Börnin voru greinilega örmagna og hungruð en fengust ekki til að borða neitt af því sem þeim var boðið. Það var ekki fyrr en einhver veitti því athygli að þau gutu augunum í áttina að matreiðslukonu sem fór fyrir gluggann með fulla körfu af grænum baunum í fanginu, að þeim var boðið hrátt grænmeti eingöngu. Það þáðu þau og næstu mánuði lifðu þau eingöngu á grænum baunum og káli þar til loks þau fengust til að bragða á brauði og öðrum almennum mat.

aili_and_the_green_beanSmátt og smátt breyttist litarháttur þeirra og færðist nær því sem gekk og gerðist meðal enskrar alþýðu á þeim tíma.

Fólki fannst viðeigandi að láta skýra börnin og var það gert en þau dvöldust í góðu yfirlæti á heimili 
Sir Richard þar sem allir komu vel fram við þau.

Þegar leið að jólum, var orðið ljóst að drengurinn átti  greinlega mun erfiðara með að aðlaðast nýjum háttum. Hann varð þunglyndur og lést skömmu fyrir aðfangadag eftir skammvinn veikindi. Systir hans braggaðist hins vegar vel og eftir nokkra mánuði var ekki hægt að sjá muninn á henni og öðrum börnum.

Hún dvaldist á heimili  Sir Richards í mörg ár og lærði þar að tala reiprennandi ensku. En það sem hún hafði af fortíð sinni að segja jók frekar á leyndardóminn frekar en að skýra hann. Hún sagðist hafa átt heima í landi sem kallað væri St. Martin. Landið væri kristið og þar væri að finna margar kirkjur. Þar risi sólin ekki upp á himininn og íbúar þess byggju þess vegna í stöðugu rökkri.  

Green-4Stúlkan gat ekki skýrt hvernig hún og bróðir hennar hefðu lent í úlfapyttinum. Hún sagðist eingöngu muna eftir því ð hafa verið að gæta kinda föður síns þegar að hún heyrði mikinn klukknahljóm. Við hljóminn missti hún meðvitund og þegar að hún rankaði við sér voru þau stödd í stórum helli. Þau reyndu hvað þau gátu til að komast út úr hellinum og gengu á birtu sem barst inn í hann. Þannig komust þau í botn pyttsins þar sem þorpsbúarnir loks fundu þau.

Saga stúlkunnar var skráð af sagnritaranum William of Newburge. (1136-1198 í Historia rerum Anglicarum) Samkvæmt heimildum hans tók stúlkan sér nafnið Agnes Barre og giftist manni frá  King's Lynn.

Annar sagnritri Ralph of Coggeshall (d.1228), segir einnig frá grænu börnunum í Chronicon Anglicanum sem hann skrifaði í frá 1187 til 1224.

Báðir skrifuðu samt um atburðinn löngu eftir að hann átti að átt sér stað.

woolpit-village-signSagan um grænu börnin er einnig varðveitt í skjaldarmerki þorpsins Woolpit sem enn er í byggð og einnig á útsaumuðum refli í kirkju staðarins. Ekki er vitað hvort "Agnes" eignaðist afkomendur en svo mikið er víst að ekki hafa nein græn börn fæðst á Englandi svo vitað sé um.  

PS. Hér er að finna athyglisverða grein um svo kölluðu "Grænu veikina" eða chlorosis.

 


Hvar eru allir japönsku skóladrengirnir?

Sumardagurinn fyrsti heilsaði mér með sólskini og bros á vör. Ég kreisti fram hálfkarað glott til baka. Þegar ég rölti niður í miðbæ til að drekka morgunkaffið mitt voru rónarnir þegar vaknaðir og sötruðu morgunbjórinn sinn, reyktu og glugguðu í frýju dagblöðin. Sum höfðu greinilega verið ábreiður þeirra um nóttina.

untitled4Þegar sólin skín brosir fólk meira. Kaffið bragðast líka betur. Stúlkurnar eru léttstígari og strákarnir flexa vöðvunum meira í stuttermabolunum. Ég sé að blikið í augum götusalanna er skærara og einhvern veginn lítur vara þeirra betur út líka. Japönsku skólastelpurnar fara um bæinn tvær og tvær og rýna í kortin sín. Hversvegna sjást japanskir skóladrengir aldrei á ferð?

Fréttirnar í blöðunum eru samt jafn leiðinlegar og áður, kannski enn leiðinlegri. Söngleikur um Jade Goody í startholunum...vá eitthvað sem ég get ekki beðið eftir að sjá. Darling sjóðstjóri segir að best sé að bregðast við kreppunni með því að gera ekki neitt og láta sem allt sé eðlilegt...Condoleezza Rice með í ráðum þegar  Zubaydah var pyntaður með "vatnsborðsaðferðinni" 83 sinnum Khalid Sheikh Mohammad 183 sinnum...og mér sem fannst hún alltaf svo brosmild og viðkunnanleg...Kannski var það bara af því hún var kona, svört kona. 28 manns dánir í enn einni sprengjunni í stríðinu sem er löngu lokið í Írak...Næstum því heimsendir 2012 þegar sólvindar slá út öllu rafmagni, eyðileggja gervihnettina og Internetið.....and so on and so on.

 


Endanleg kosningaspá Dr. Phil

islandbladraKosningaspá Dr. Phil fyrir alþingiskosningarnar á Íslandi 2009 hefur setið óþýdd í tölvupóstinum mínum í tvo daga. Ég hef verið að leiða það hjá mér að þýða og birta hana, en nú er mér ekki stætt á því lengur, því ítrekað hefur verið spurt hverju henni líði. Hér kemur því spáin.

Mjög hefur dregið úr þreki ránfuglsins og er hann nú orðin svo máttfarinn að honum mun aðeins auðnast að klekja út fimmtán eggjum.

Mikil verður vegur hins rauða röðuls en hans vagn munu draga um himinhvolfið, áður en yfir lýkur, ekki færri en tveir tugir geithafra.

Ljósbláa týran sem áður vakti athylgi líkt og hrævareldar á mastri þjóðarskútunnar, mun slokkna.

Örvhenta græna fylkingin mun breikka og tala skjaldbera hennar bera upp á tölu þjóðhátíðardagsins.

Þeir sem guðirnir elska deyja ungir og sumir ná því aldrei að fæðast og komast í tölu lifenda.

Græna frúin situr hokin í herðum og handfjatlar hattinn sinn. Úr honum hafa fokið allar skrautfjaðrirnar nema sex.

Hamar Þórs mun lenda á íslenska þjóðarsteðjanum með miklu meiri þunga en búist var við. Af höggi hans munu fimm appelsínugulir neistar spretta fram og kveikja í morgunhimninum.

 


Allt að 30% munu annað hvort ekki kjósa eða skila auðum og ógildum atkvæðaseðlum

no%20vote%20symbolÞað líður senn að ögurstundu og brátt verða niðurstöður "stóru" skoðunarkönnunarinnar sem við köllum kosningar, ljósar.

Flokkarnir og framboðin hamast dag og nótt við að koma höggi á hvort annað, gömlu góðu klisjurnar bergmála í fjölmiðlunum og hýreygir lygarar brosa til okkar sem best þeir kunna og þess á milli núa þeir hvor öðrum um nasir misgjörðunum og óheiðarleikanum sem þeir allir eru ofurseldir.

Og hvernig mun fólk bregðast við? Þeir sem enn trúa á mátt og megin stjórnmálaflokkana munu eflaust skipta sér niður á þá sem þeir hafa ákveðið að halda með í þetta sinn.

En margir hafa ákveðið að taka ekki lengur þátt í þessari svikamillu sem kölluð er flokkapólitík.

"Minni" skoðanakannanir hafa upp á siðkastið gefið sterklega til kynna að stærsti hópurinn og þess vegna einu raunverulegu sigurvegarar þessara kosninga verði þeir sem skila auðu, kjósa ekki eða ógilda atkvæðisseðla sína á annan hátt. - Ef fer sem horfir getur það orðið allt að 30% þeirra sem eru á kjörskrá og er hærra hlutfall en fylgi nokkurs framboðs eða stjórnmálflokks sem býður fram miðað við skoðanakannanir síðust daga. 

Talið er að allt að 12% muni skila auðu, 3% ógildu og 16% muni ekki mæta á kjörstað. Þessar tölur eru fengnar með því að taka mið af kjörsókn 2007 sem var 83,6% og hlutfalli ógildra og auðra seðla sama ár og nýlegum skoðanakönnunum. (Sjá hér)

Þetta háa hlutfall auðra og ógildra atkvæðaseðla sem búist er við að komi í kassana á kjördegi, má örugglega rekja til óánægju þeirra Íslendinga sem gera sér grein fyrir að ekkert bendir til þess að stjórnmálamenn ætli að taka öðruvísi á málum en hingað til hefur verið gert. Að skila auðu, ógilda atkvæðaseðilinn eða mæta hreinlega ekki á kjörstað, er beint framhald af andófinu sem fyrir nokkru var kallað "búsáhaldabyltingin".

Öllum stjórnmálflokkunum hefur tekist að drepa á dreif áherslumálum hennar og gert inngöngu í Evrópubandalagið að megin kosningamálinu. Það var svo sem fyrirséð, enda kunna þeir ekkert annað en einhverjar tæknibrellur til að hylja yfir andlega fátækt sína.

Kröfurnar um að flokksræði víki fyrir alvöru lýðræði, um persónukjör og stjórnlagaþing,  hafa allar endað í skrumi alþingismanna og kvenna, sem samt sækjast flest eftir umboði kjósenda til að halda ruglinu áfram eftir kosningar.

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil

með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið.

Steinn Steinar

Og hverjir ætla svo að halda áfram að spila?

X-Autt


Rasismi rasistans

Mahmoud_Ahmadinejad_208725cForseti Írans Mahmoud Ahmadinejad sparaði ekki grjótkastið á ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna um kynþáttafordóma í Genfar, þótt hann búi sjálfur í glerhúsi. Hann beinir spjótum sínum sem fyrr að Ísrael og segir Zionisma vera kynþáttastefnu. Hann ætti samt að líta sér nær. Eftir að hann komst til valda í Íran hafa ofsóknir á hendur minnihlutahópum þar í landi aukist til muna og var ástandið síður en svo gott fyrir.

Kúrdar Í Íran hafa sætt stöðugum ofsóknum og ásökunum um að vera "hryðjuverkamenn" án nokkra sannana þar um. Yfirvöld gera engan greinarmun á friðsamlegum mótmælum þeirra og árásum vopnaðra hópa Kúrda og ekki færri en sex leiðtogar þeirra hafa verið teknir af lífi í Íran á síðustu tveimur árum. Einnig hafa ofsóknir gegn Baluch fólkinu og Aröbum í Khuzestan aukist mjög í seinni tíð.

Enn er kynjamisrétti löglegt í Íran sem kemur í veg fyrir að konum séu veitt grundvallar mannréttindi. Kvenréttindakonum var t.d. umsvifalaust varpað í fangelsi fyrir það eitt að safna undirskriftum til að skora á stjórnvöld til að létta af þeim okinu. Að verja málstað kvenna í Íran varðar við þjóðaröryggislöggjöf landsins.

Free-Friends-in-Iran-4Misrétti og ofsóknir gegn trúar-minnihlutahópum eru afar algengar í Íran. Fyrir þeim verða kristnir, gyðingar, súfíar, sunní-múslímar og bahaiar. Einkum eru það meðlimir Bahai trúarinnar sem hafa þurft að þola margháttaðar ofsóknir, eingöngu vegna skoðana sinna. Á síuðustu fjórum árum hafa meira en 200 bahaiar verið handteknir, haldið föngnum, sætt kúgun og áreiti. Glæpirnir sem þeir eru sakaðir um þegar þeim er gert að mæta fyrir rétt, er að þeir brjóti gegn þjóðaröryggislögum landsins. Þeim er meinað sjá fyrir sér og eignir þeirra gerðar upptækar. Nemendum er meinaður aðgangur að skólum, ef upp kemst að þeir séu bahaiar.

Stjórnvöld í Íran hafa kerfisbundið notað fjölmiðla landsins til að ráðast að Bahai samfélaginu sem er stærsti trúarlegi minnihlutahópur landsins. Hundruð greina hafa birst í dagblöðum þar sem vitnað er í hatursáróður  Mahmoud Ahmadinejad forseta landsins gegn bahaíunum, þar sem almenningur er hvattur til að sýna þeim óvild. Hvatt er opinberlega til árása á heimili þeirra, vinnustaði og grafreiti.


Stutt spjall við vændiskonu um nýju vændislögin

prostitute-gnomeÉg hringdi í íslenska vinkonu mína sem stundar vændi á eigin vegum í Reykjavík til að spyrja hana hvernig nýju vændislögin sem gerðu starfsemi hennar löglega á Íslandi, legðust í hana. Hún var fljót að taka það fram að í raun væri starfsemi hennar ekki að fullu lögleg, þar sem það væri enn ólöglegt að henni væri borgað fyrir vændið og að þeir sem keypu þjónustu hennar gætu þurft að borga sektir eða jafnvel lent í fangelsi ef það sannaðist á þá að þeir hefðu borgað sér fyrir hana. Henni fyndist  ekki réttlátt að geta sjálf selt vöru, en enginn mætti kaupa af henni vöruna. Hún sagðist ekki alveg sjá hvernig það kæmi heim og saman við frjálsa og óhefta viðskiptastefnu.

Hún var samt mjög ánægð með að ekki væri lengur hægt að gera greiðslur til hennar upptækar, svo fremi sem þær hefðu verið reiddar fram og  það væri vissulega mikil bót fyrir hana persónulega að þurfa ekki að óttast það að verða kærð fyrir ólöglega iðju.

Hún sagði líka að miðað við hvernig vændi væri að stærstum hluta stundað á Íslandi, þar sem flestar vændiskonur hafa fasta og áreiðanlega viðskiptavini, væri mun erfiðara fyrir lögreglu að sanna það að einhver hefði borgað fyrir vændið. Sjálf sagðist hún aldrei sjá peninga orðið, allt færi fram með kortagreiðslum, millifærslum og innlögnum, sem aldrei færu inn á einkareikninga, heldur beint inn á skráð þjónustufyrirtæki.  

Hún sagði að þær stelpur sem hún þekkti í bransanum væru fyrir löngu búnar að koma sér upp leiðum svo að ekki væri hægt að rekja greiðslurnar til þeirra svo auðveldlega.

Hún taldi einnig að nýleg lög ættu eftir að koma verst við stelpur sem væru að selja sig af því þær væru í dópinu því þær þyrftu reiðufé strax til að fjármagna neysluna. Lögin mundu fæla frá þeim kúnanna því lögreglan mundi einbeita sér að þeim frekar en viðskiptavinum stelpna sem þeir vissu að þeir gætu aldrei sannað neitt upp á. Í kjölfarið mundu dópstelpurnar trúlega hrekjast meira út í afbrot eins og þjófnaði og rán.


Kettir eru drullusokkar

fat20cat_2Já, þar hafið þið það svart á hvítu, kettir eru drullusokkar. Ef að köttur væri maður, mundi hann láta þig kaupa bjórinn allt kvöldið og  sofa síðan hjá konunni þinni. -

Ef köttur væri glæponi (og flestir þeirra eru það) mundi hann láta þig um að grafa göngin, sprengja peningaskápinn, bera út seðlana, stinga síðan af með þá og lát lögregluna hirða þig.

Ef kettir væru lífverðir, mundu þeir sitja með krosslagðar fætur, malandi upp í turninum og horfa á fólk drukkna í sjónum við ströndina. (þeir eru jafn hræddir við vatn og blóðsugur eru við dagsbirtu - tilviljun?)

Þegar þú situr í stofunni og ert að horfa á sjónvarpið og kötturinn kemur inn með dauðan fugl í kjaftinum eða rúllar hálfdauðri mús á undan sér inn ganginn, og einhver hálfvitinn segir; "Ó sjáðu, hann er að færa þér gjöf",  þá hefur hann rangt fyrir sér. 

cats+with+sunglassesKettir færa fólki ekki gjafir. þeir kaupa ekki blóm eða bjóðast til að hjálpa til með að borga húsaleiguna. Köttum er skítsama um fólk. Ef þeir gætu fundið leið til ýta öllu fólki niður í gjósandi gíg og um leið verið vissir að þeir gætu sjálfir opnað  dósirnar með kattamatnum, mundu þeir gera það. -

En hvers vegna eru þeir að koma með dauð smádýr inn í húsið? Jú, þeir vilja að þú matreiðir þau fyrir sig. Og á meðan þú ert að því, áttu líka að sauma handa þeim litlar músskinsbuxur og setja spörfuglsfjaðrirnar í hattinn þeirra. Drullusokkar!

myspace-cats-images-0005Hálfvitarnir halda einnig fram að kettir séu gáfaðir. Höfrungar eru kannski gáfaðir en ekki kettir. Hér er einfalt próf til að sannreyna það. Lokaðu útidyrunum og öllum gluggum. Lokað líka kattarlúgunni. Settu aukalykilinn af útidyrunum upp á stól í eldhúsinu og segðu kettinum frá því. Farðu svo út og læstu útihurðinni á eftir þér og fljúgðu burtu í þriggja mánaða frí til Flórída. Þegar þú kemur aftur, Hvort er líkalegast;

að þú finnir útidyrnar opnar upp á gátt og að það sé búið að stela öllum þínum eigum, -

eða; að í anddyrinu  þér mæti hópur ánægðra en breima læða, -

eða; undir stól í eldhúsinu finnir þú beinagrind af ketti?

 


Lunda-hundar

OriginalLunda-hundar eru norskt Spitzættað hundakyn sem ræktað var í norður Noregi í mörg hundruð ár, einkum til lundaveiða. Hundarnir voru notaðir til að grafa sig inn í lundaholurnar og ná þar í lundann. Lunda-hundur hefur venjulega sex tær eða auka tá á hverju fæti, sem gerir honum gröftinn inn í lundaholurnar auðveldari og honum skrikar síður fótur á hálum steinum eða í bröttum brekkum. Að auki eru öll liðamót hans afar sveigjanleg sem gerir honum möguleg að troða sér inn í og koma sér aftur út úr mjög þröngum göngum.

Lundehund-labbHann getur beygt sig upp á við og afturábak og hann getur snúið framfótleggjum í 90 gráður. Hann getur lokað uppreistum eyrunum með því að fella þau fram eða aftur. Þegar að Lundaveiðar lögðust af í Noregi og með tilkomu svokallaðs hundaskatts,  minkaði áhugi fyrir Lunda-hunda-haldi uns þar kom að, að tegundin var nánast útdauð.

puffin_underground_PHOTOSHOT_510x286Í kring um aldamótin 1900 voru aðeins fáeinir Lunda-hundar eftir í Mostad í Lófóten. Þegar að heimstyrjöldin síðar skall á, herjaði hundaæði í Værey og nágrenni sem enn tók toll af stofninum. 1963 var svo komið að aðeins 6 Lunda-hundar fundust í heiminum, einn í Værey og fimm á Hamri í norður Noregi. Allir þessir fimm voru sammæðra.

Með afar nákvæmu eftirliti með æxlun þessara eftirlifandi hunda hefur tekist að endurreisa stofninn og nú eru taldir vera á milli 1500 og 2000 Lunda-hundar til í heiminum. Flestir þeirra, 1100 eru í Noregi en a.m.k. 350 í Bandaríkjunum.

Þegar ég vann sem leiðsögumaður í Vestmannaeyjum, minntust norskir ferðamenn stundum á Lunda-hunda, þegar þeim var skýrt frá veiðiaðferðum Eyjamanna. Mér vitanlega hafa hundar aldrei verið notaðir á Íslandi til að grafa út lundann út holum sínum.

Meira hér um þetta sjaldgæfa hundakyn


Pyntingaraðferðir CIA

torture_by_soldiers_1Obama Forseti, segja fréttir,  ætlar ekki að sækja til saka þá sem skipulögðu eða stóðu að pyntingum fanga í fangelsum CIA vítt og breitt um heiminn, ekki hvað síst í fangabúðum við Guantanamo flóa á Kúbu.

Sex mismunandi pyntingaaðferðir sem CIA reyndar kallar "Frekari yfirheyrslu aðferðir  (Enhanced Interrogation Techniques)  hafa verið í notkun frá miðjum mars 2002. Þær hafa einkum verið notaðar gegn grunuðum  al Qaeda meðlimum sem haldið er föngnum í fangelsum CIA í Austur Evrópu og Asíu. Aðeins örfáir CIA fulltrúar eru þjálfaðir í notkun pyndingaaðferðanna og hafa leyfi til að nota þær.

Aðferðirnar sem um ræðir eru þessar:

1. Að ná athyglinni; Yfirheyrandi grípur í skyrtu fangans að framan og hristir hann.

2. Athygli-kinnhestar. Slegið er opinni hendi í andlit fangans með það fyrir augum að valda snöggum sársauka og ótta. 

3. Maga-slög; Slegið er harkalega með opnum lófa á maga fangans. Markmiðið er að valda sársauka en ekki innvortis skaða. Læknar mæltu gegn því að nota hnefahögg sem gætu valdið innvortis blæðingum.

4. Langtíma-staða. Þessi er aðferð er sögð sú áhrifaríkasta. Fangar eru látnir standa hlekkaðir við keðjuauga sem fest er við gólfið, í meir en 40 klukkustundir. Þreyta og svefnleysi verða til þess að fanginn játar oftast.

5. Kaldi klefinn; Fanginn er látinn standa nakinn í klefa sem er fimm gráðu heitur. Allann tíman er skvett á fangann köldu vatni.

waterboarding-26. Vatns-pynding; Fanginn er reyrður við planka og fætur hans og höfðu reist frá honum. Plastfilma er strekkt yfir andlit fangans og vatni helt yfir hann. Ósjálfrátt byrjar fanginn að koka og drukknunarviðbrögð taka yfir. Nær undantekningarlaust biðja fangarnir sér vægðar og játa fljótlega í kjölfarið.

Samkvæmt heimildum CIA líða að meðaltali 14 sekúndur frá því að vatnspyndingarnar hefjast þangað til að játning liggur fyrir. sagt er að harðasti  al Qaeda fanginn, Khalid Sheik Mohammed,hafi unnið sér aðdáun pyntara sinna með því að gefast ekki upp fyrr en eftir tvær og hálfa mínútu.


Brogaðar leikreglur alþingis koma í veg fyrir lýðræði

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að stjórnarfar eins og það er útfært í flestum vestrænum löndum og þar á meðal á Íslandi sé gervi-lýðræði þar sem gamla lénsherraskipulagið hefur troðið á sig lambhúshettu pólitískra flokka.

mammon-euro-dollar1Flokkspólitík er valdastreita þar sem flokkseigendur (sem oft eru þingmenn líka)  púkka undir sig og sína svo lengi og svo mikið sem þeir mega. Keppt er um í þessu valdatafli að beygja sem flesta undir sinn vilja, með hvaða ráðum sem gefast. Mútur, gylliboð og síðast en ekki síst loforð um betri tíð með blóm í haga, eru helstu aðferðirnar til að ná umboðinu og almenningur er ginningarfíflin.

  Síðustu fréttir úr þingsölum Íslendinga bera þessu glöggt vitni. Þar var restin af þjóðinni beygð undir vilja örfárra manna sem eru hræddir við að missa völd sín.  Þjóðinni var neitað um að fá að kjósa til stjórnlagaþings og til að semja sér nýja stjórnaskrá.

 Þvílík og önnur eins valdaníðsla er fáheyrð í þessari álfu en algeng í vissum ríkjum Afríku þar sem ódulbúið einræði ríkir.

Á alþingi nýtir einn flokkurinn sér brogaðar leikreglur alþingis og knýr fram vilja fáeinna einstaklinga í blóra við vilja meirihlutans. Þetta er valdníðsla af versta tagi. Ef einhvern tíman hefði verið ástæða fyrir meðlimi búsáhaldabyltingarinnar að mæta á þingpallanna, hefði það verið þegar verið var að ganga að helstu hugmynd hennar um umgætur dauðri í þingsölum.

En nú eru margir af forsprökkum hennar búnir að stofna stjórnmálhreyfingu og þurfa að standa í kosningabaráttu.

Nú ætla ég að magna seyð og mæli svo um og legg svo á að þessi flokkur valdaníðinga sem kenna sig við sjálfstæði, gjaldi svo mikil afhroð í næstu kosningum að þeir munu ekki koma til álita í stjórn landsins á næstu 12 árum.

Annars er svona um alla aðra flokka líka.

Sumir mega ekki til þess hugsa að þjóðin fái að velja sjálf hvort hún vilji hefja viðræður um inngöngu í Evrópubandalagið. Þeir segja fólki bara að halda kjafti og kalla það landráðamenn sem mælast til slíks.  

Aðrir vilja alls ekki að hið óréttláta fiskveiði-kvótakerfi verði endurskoðað og leiðrétt. Þeir þykjast vilja það, en gera samt ekkert  þegar þeir komast í valdastólanna. 

En aðrir segjast vera stríðsandstæðingar en gera ekkert í því að segja þjóðina úr NATO þótt þeir komist í aðstöðu til þess.

Staðreyndir málsins eru, og skiptir þá akkúrat engu máli þegar upp er staðið, hvaða nöfnum þeir nefnast, að flokkarnir eiga það sameiginlegt að ganga allir erinda einhverra lénsherra, hver á sínu sviði.  Þetta er allt sami grauturinn úr sömu skálinni. Því miður.

Legg til að flokkakerfið verði lagt niður og teknar verði upp alvöru persónukosningar.

X-autt


Rautt kvikasilfur

machine_optAmma átti eina slíka enda voru þær afar algengar. Það hljóta enn að vera þúsundir til á íslenskum heimilum. Ef þú átt gamla SINGER saumavél, getur þú selt hana fyrir allt að 50.000 pund á ebay. Þetta háa verð er nýlega tilkomið og um þessar mundir eiginlega eingöngu bundið við Sádi-Arabíu.

Þar um slóðir eru menn sannfærðir um að í SINGER saumavélum sé að finna leyndardómsfullt efni sem gengur undir nafninu Rautt kvikasilfur. Rautt Kvikasilfur er svo verðmætt að margar milljónir fást fyrir nokkur grömm af því.

Rautt kvikasilfur kom fyrst fram á sjónarsviðið seint á síðustu öld og á að hafa ýmsa eiginleika, allt frá því að vera svo geislavirkt efni að það megi nota  í atómsprengjur eða til að finna fjársjóði sem faldir hafa verið í jörðu.

vx2Ef þú vilt ganga úr skugga um hvort SINGER saumavélin þín hefur Rautt Kvikasilfur að geyma, skaltu bera farsímann þinn upp að henni. Ef þú missir sóninn og línuna, ertu ríkari en þú gerðir þér grein fyrir.

Þrátt fyrir útbreidda trú á tilvist efnisins hefur aldrei tekist að fá skýr svör við hvað Rautt kvikasilfur raunverulega er. Um það eru margar tilgátur, en líklegast er að hér sé á ferðinni enn ein nútíma-flökkusagan. Hér er að finna upplýsandi grein um "efnið".


Ronnie Wood vinnur áfangasigur í Kazakhstan

ronnie-wood_0Ég get ómögulega stillt mig um að koma hér á framfæri smá "update"  á fyrsta og eina "skúbbinu" mínu, fram að þessu, þ.e. þegar ég hitti Ronnie Wood á förnum vegi í fyrra og átti við hann orðastað.

Það er ljóst að ævintýrið á Írlandi þar sem hann dvaldist með hinni rússnesku ástmey sinni Ekaterínu hefur dregið dilk á eftir sér. Um það sagði Ronnie á sínum tíma að hann hefði verið "bad boy". Ég taldi víst að hann meinti að þetta væru eins og hver önnur rokk-strákpör hjá honum.  En nú er Ronnie skilinn og reynir hvað hann getur til að vingast við fjölskyldu kærustunnar og sérstaklega hina 75 ára gömlu Lyudmillu Ivanovu, sem er höfuð ættarinnar.

RUSSIA-Lyudmila-Ivanovna-Pensioner-190Hún býr í Kazakhstan og er enn ómyrk í máli þegar hún tjáir sig um Ronnie hinn 61. árs gamla gítarleikara sem hún kallar Ronik.

Hún sagði eitt sinn að Rollingarnir væru "bæði ljótir og ógeðslegir". Nýlega var hún spurð hvað henni fyndist um tilhugalíf þeirra Ronnie og Ekaterínu. "Ef hann vill giftast Ekaterínu, þá mun ég gleðjast fyrir þeirra hönd."  svaraði sú gamla."Ef þetta er raunveruleg ást leyfum þeim þá að vera hamingjusöm."

Lyudmilla segist samt halda að  " hjónbandið endist ekki lengi. "Hún er miklu yngri en hann þannig að hún mun fá tækifæri til að giftast aftur ef eitthvað kemur fyrir Ronik." "En svona er heimurinn í dag. Gamlir menn yfirgefa fjölskyldur sínar og finna sér ungar kærustur".

Ronnie_Woods_Russian_beauty_Ekaterina_Ivano_Picapp_44071Ronnie yfirgaf Jo Wood eftir 23 ára hjónaband til að vera með Ekatreínu.

Gamla konan heldur því jafnframt fram að ástæðan fyrir því að enginn úr fjölskyldu Ronnie, ekki einu sinni börn hans,  taka í mál að hitta Ekaterínu, sé að Jo hafi beðið þau um það. "Þetta ástand er ekki gott" bætir hún við.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband