Árið 1969, þá 16 ára, bjó Gail Renard ásamt foreldrum sínum í borginni Montreal í Kanada. Sem unglingur sem hafði mikinn áhuga á tónlist, fylgdist hún grannt með fréttum af því þegar John Lennon og Yoko Ono voru gefin saman í hjónaband og hvernig þau notuðu áhuga fjölmiðla á þeim atburði til að vekja athygli á baráttu sinni fyrir friði í heiminum.
Gail horfði á poppstjörnuhjúin í sjónvarpinu gefa viðtöl úr hjónasæng sinni í forsetsvítunni á Amsterdam Hilton Hótelinu í Hollandi þar sem þau eyddu hveitibrauðsdögunum frá 25. til 31. mars þetta sama ár. Það var þá sem einn blaðamaðurinn spurði John hver væri tilgangurinn með þessu "rúm-boði" og John svaraði að bragði; "Give peace a chance".
Hugmyndir þeirra Lennon og Ono um að endurtaka álíka "rúm-boð" í New York urðu að engu þegar John var neitað um landvistarleyfi í Bandaríkjunum vegna þess að hann hafði verið handtekinn fyrir kannabis reykingar í landinu ári áður.
Lennon og Yoko héldu því til Bahama eyja þann 24. Maí og tóku sér herbergi á Sheraton Oceanus Hótelinu þar sem þau hugðust dvelja í rúminu í eina viku og bjóða fjölmiðlum og vinum að heimsækja sig.
Þegar að Gail heyrði að vegna hitabylgjunar sem gekk yfir eyjarnar, hefðu þau skötuhjú yfirgefið Bahama eftir aðeins einnar nætur dvöl og væru á leið til heimaborgar hennar Monteral til að halda rúm-boðinu þar áfram, ákvað hún og vinkona hennar að freista þess að berja goðin augum. Ásamt vinkonu sinni héllt Gail til Queen Elizabeth Hótelsins og beið þar færis. Hótelið var þegar umkringt fólki sem þarna var í sömu erindum og þær en engum var hleypt inn. Þær fréttu að John og Yoko væru þegar búin að koma sér fyrir í herbergi númer 1472.
Gail var í þann mund að gefa upp vonina um að sjá nokkuð af hjónakornunum þegar vinkona hennar stakk upp á því að þær skyldu reyna að klifra upp brunastigann að baki hótelsins og laumast þannig inn á Hótelið í gegnum glugga. þetta gerðu þær og komust inn á hæðina fyrir ofan herbergi 1472. Þar biðu þær eftir að öryggisverðirnir í stigaganginum fyrir neðan skiptu um vakt og notuðu þá tækifærið til að komast inn á hæðina þar sem John og Yoko héldu til.
Þær börðu að dyrum og heyrðu Yoko svara; "kom inn." Þær gengu inn í herbergið og fundu þar fyrir Yoko, dóttur hennar Kyoko, þá fimm ára og John Lennon. Þau virtust öll þreytt og John kvartaði yfir að vera svangur og geta ekki fengið neina herbergisþjónustu. Gail fann súkkulaðistykki í handtösku sinni sem hún bauð John. John virtist undarandi en ísinn var brotinn og þau byrjuðu að spjalla saman.
Í stað þess að vísa þeim á braut, bað John Gail um að taka þátt í útvarpsviðtali sem taka átti við hann þetta sama kvöld. Gail sagðist verða að hringja í móður sína sem hún og gerði. Samtalið endaði með því að John varð að taka símann og lofa móðir Gail að hann skyldi passa hana. Hún fékk að lokum leyfið og tók þátt í viðtalinu. Eftir það varð hún fastagestur þeirra hjóna þá átta daga sem "rúm-boðið" stóð og fór aðeins heim á kvöldin til að sofa.
Á daginn var svítan pökkuð af fjölmiðlafólki sem tók linnulaus viðtöl við Lennon og Gail sat og horfði á. Þegar að Dereck Taylor, blaðafulltrúi Bítlanna tókst loks undir kvöld hvern dag, að losna við blaðamennina, komu vinirnir í heimsókn. Meðal þeirra voru Timothy Leary, Petula Clark og Allen Ginsberg, allt heimsfrægt listafólk.
Þegar líða tók á kvöldið var John vanur að segja; Jæja Gail, þú litur út fyrir að vera orðin þreytt. Við verðum að vakna snemma í fyrramálið og þú ættir að drífa þig í rúmið". Móðir hennar hafði varað John við að halda eiturlyfjum frá Gail og við það stóð hann. Einu sinni reyndi einhver blaðasnápur að gera hosur sínar grænar fyrir henni en John stöðvaði það þegar í stað.
Stundum tók Gail Kyoko út í garðinn fyrir framan hótelið til að leika við hana. Gail minnist þess hversu henni fannst það hreint ævintýralegt að sjá þetta fólk drekka vín með hádegismatnum. Og ekki minkaði hrifning hennar þegar að Tommy Smothers, þá afar vinsæl sjónvarpsstjarna í Bandaríkjunum, birtist til að taka þátt í geiminu. Hún hóf að taka með sér Brownie box myndavélina sína og tók meira 150 myndir af því sem fram fór.
Einn daginn tilkynnti Lennon að vildi taka upp lag þarna í svefnherberginu. Hann sagðist vilja einhverja til að spila undir á tambórínur. Gail hafði samband við Hjálpræðisherinn en þeir virtust ekki hafa áhuga. Þá hafði hún samband við Hare Krishna hreyfinguna og eftir stutta stund voru nokkrir gulklæddir munkar með tambórínur mættir á staðinn. Þetta var síðdegis 31. maí. John tók sér penna í hönd , settist á gólfið og skrifaði niður texta lagsins. Titill þess var; Give Peace a Chance. Hann lauk textanum á örskammri stundu og lét Gail síðan skrifa hann upp á stærra spjald svo allir gætu sungið hann. Að því loknu gaf John Gail blaðið sem hann hafði skrifað á upprunalega textann með þeim orðum að kannski mundi hún einhvern tímann fá eitthvað fyrir hann.
Sjálf upptaka lagsins fór fram 1. júní. og textinn hljómaði svona;
Ev'rybody's talkin' 'bout
Bagism, Shagism, Dragism, Madism, Ragism, Tagism
This-ism, that-ism, ism ism ism
All we are saying is give peace a chance
All we are saying is give peace a chance
(C'mon)
Ev'rybody's talkin' 'bout
Minister, Sinister, Banisters and Canisters,
Bishops, Fishops, Rabbis, and Pop Eyes, Bye bye, Bye byes
All we are saying is give peace a chance
All we are saying is give peace a chance
(Let me tell you now)
Ev'rybody's talkin' 'bout
Revolution, Evolution, Masturbation, Flagellation, Regulation,
Integrations, mediations, United Nations, congratulations
All we are saying is give peace a chance
All we are saying is give peace a chance
Ev'rybody's talkin' 'bout
John and Yoko, Timmy Leary, Rosemary,
Tommy Smothers, Bobby Dylan, Tommy Cooper,
Derek Taylor, Norman Mailer, Alan Ginsberg, Hare Krishna
Hare Hare Krishna
All we are saying is give peace a chance
All we are saying is give peace a chance
(Repeat 'til the tape runs out)
Löngu seinna i viðtali við tímaritið Rolling Stonesagðist John hafa viljað semja söng sem gæti komið í staðinn fyrir "We Shall Overcome". sem var eini söngurinn sem mótmælendur stríðsins í Viet Nam sungu á mótmælafundum. Eftir að Give Peace a Cance var gefið út, leið ekki á löngu þar til það var orðið aðal baráttu söngur friðarsinna vítt og breytt um heiminn.
Munkarnir mættu aftur með tambórínurnar, John og Tommy Smothers átu á rúmstokknum og léku á kassagítara og restin af hópnum sat með krosslagðar fætur á gólfinu, söng og barði taktinn á það sem hendi var næst. John þótti fyrsta takan hljóma of veikt og lét munkana gefa meira í sláttinn í seinni upptökunni en endaði samt með að endurmixa lagið hljóðveri því hann kom sjálfur dálítið seint inn í sönginn í þriðja versinu.
Útkoman var fyrst a lagið sem Lennon lét frá sér fara undir nafninu The Plastic Ono Band. Paul McCarney er reyndar skráður meðhöfundur að laginu en John sagði oft að það hefði verið Yoko sem samdi lagið með honum en Paul hefði hvergi komið nálægt því. Einnig er haft eftir John Lennon að þegar hann heyrði 500.000 mótmælendur syngja lagið fyrir utan hvíta húsið í Nóvember 1969 hafi það verið "ein stærsta stund lífs hans".
Þegar að leiðir skildu með þeim Gail og John, lét hann hana hafa nafnspjald með símanúmeri sem hann sagði henni að hringja í ef hún þyrfti einhvern tíman að ná af honum tali.
Gail varð seinna þekkt sjónvarpskona og framleiðandi og fékk m.a Bafta verðlaun 2001 fyrir verk sín. Um þessi kynni sín af John og Yoko hefur látið hafa þetta eftir sér; "Ég fór bara upp í rúm til þeirra. Mér leið vel með þeim. Getið þið ímyndað ykkur hvað mundi gerast í dag ef poppstjarna hagaði sér svona gagnvart 16 ára stúlku. En þetta snérist allt saman um ást og frið og fólkið trúði því. Það var John og öllu þessu að þakka að ég varð hugrakkari. Þessi reynsla fékk mig til að trúa því að ég gæti breytt heiminum, í það minnsta litlum hluta hans, og maður ætti ávalt að reyna það".
Gail varðveitti textablaðið sem John gaf henni til ársins 2008 eða þar til hún ákvað að selja það á uppboði og láta þannig orð John Lennons rætast. Fyrir snepilinn fékk hún 421,250 pund.