Hjúkrunarkona leyst frá störfum fyrir að bjóðast til að biðja fyrir sjúklingi

CarolineKristin hjúkrunarkona hér í Englandi hefur verið leyst frá störfum eftir að hafa boðist til að biðja fyrir bata roskins sjúklings.

Caroline Petrie, 45, var ásökuð um að hafa ekki í heiðri jafnréttis og fjölmenningar-reglur opinberarar sjúkraþjónustu og býður nú eftir að úrskurðað verði í máli hennar.

Caroline sem vinnur við heimahjúkrun í Norður Somerset, er gift og tveggja barna móðir, finnst hún ekki vera að neyða trú sinni upp á sjúklinga með að bjóðast til að biðja fyrir þeim og að hún hafi oft gert þetta áður. Það eina sem hún óskaði væri að þeir næðu heilsu.

Sjúklingurinn sem sagði frá þessu boði Caroline kvartaði ekki undan hegðun hennar enda sjálfur kristin, en uppljóstaði þessu þegar hann var beðin um að lýsa starfsháttum hennar í venjubundnu eftirliti.

"Ég er ekki reið og ég veit að sumir trúa ekki því sama og ég, en ég er í uppnámi vegna þess að ég nýt þessa starfs og bænin er mikilvægur hluti umönnunarinnar sem ég gef." Sagði Caroline í stuttu viðtali sem ég heyrði við hana í morgun.


Ég og Mímí

KaffibollinnÉg sat þögull og starði ofan í kaffibollan minn. Ekki af því mig langaði ekki að segja eitthvað, heldur af því að ég vissi ekki hvar ég átti að byrja. Konan hinum megin við borðið tók þögn mína greinilega á þann veg að ég hefði viljugur gerst "góður hlustandi" og héllt ótrauð áfram að láta dæluna ganga.

"Auðvitað hefur maður oft fengið að heyra það; - Mímí! Ha, það lýsir þér rétt. Eins eigingjörn og þú ert nú, ha. - Veistu, ég held að fólk sé nú bara að segja þetta. Nafnið býður bara upp á það. Reyndar heiti ég nú Margrét, en það kalla mig allir Mímí.  Svo getur það líka verið bara öfundsýki. Sumum finnst örugglega að ég eigi ekki skilið að hafa það sem ég hef, þú veist, bara tuttugu og átta ára og flott...he he... að reka líka tvær flottar verslanir og allt það. En það hefur sko kostað sitt. Það eru heldur ekki margir karlmenn sem sætta sig við að vera tekjuminni en konan. Ég veit ekki hvað ég er búin að deita marga sem segjast hafa einhverjar rosa tekjur og svo kemur í ljós að þeir eiga ekki bót fyrir boruna á sér. Ég þoli ekki karla sem villa á sér heimildir. Þegar upp er staðið hafa þeir nákvæmlega ekkert að bjóða. Ég hitti til dæmis einn um daginn. Vá, þvílíkur looser. Ég var nýkomin úr fitusogi og var svolítið aum um mjaðmirnar. Það er alveg rosalegt hvernig hvað maður getur safnað á sig þótt maður borði eiginlega ekki neitt, eða þú veist....(Hún setti putta upp í kokið á sér)... Læknirinn sagði reyndar að þetta væri genatískt. Jæja, þessi vildi endilega bjóða mér út eitthvað, Grikkland eða eitthvað. Heyrðu, þegar hann heyrði að ég væri ekki alveg til í að sýna mig á g-strengnum enn varð hann bara fúll. Og þegar hann heyrði að ég ætti búðirnar þá spurði hann hvort ég væri ekki til í að Mímí .borga í ferðinni. Ég sem hélt að hann væri að bjóða mér. Jæja, svo kom í ljós að hann var líka með einhverri annarri......Heyrðu, sérðu eitthvað hérna fyrir ofan efri vörina. Nei, kannski sést það ekki, ég reyndi nú að sminka yfir það. Gvuð, ég varð alveg brjáluð þegar ég sá þetta. Ég hef látið sprauta í varirnar áður, en núna kom bara stórt gat þar sem hann setti nálina. Sérðu eitthvað...En ef þú sérð ekkert er þetta örugglega í lagi.... Ég fór um daginn til spákonu. Ég er svo mikið fyrir svona allskonar andlega hluti. Og veistu, hún sagðist sjá að ég mundi eignast barn fljótlega. Hvernig gat hún vitað það að ég hef einmitt verið að pæla í að eignast barn?  Maður verður ekkert yngri skilirðu ha ha. Málið er að maður vill ekkert vesen auðvitað, og þess vegna er ég að hugsa um að kaupa mér bara sæði úr einhverjum sæðisbankanum. Gallinn er að maður fær ekki að sjá sæðisgjafann skilurðu, þannig að maður veit aldrei hvernig hann leit út.  Ég mundi sko ekki vilja einhvern ljótan. Eiginlega finnst mér að ljótir karlar ættu ekki að fá að gefa sæði. Ímyndaðu þér sjokkið maður, ef barnið væri bara eitthvað lukkutröll. En ég vil helst eignast tvö börn, því  ef eitthvað kemur fyrir annað þá hefur maður alla vega hitt. Þú tryggir ekki eftir á he he he....."

Nú hringdi gemsinn minn og ég svaraði. Mímí þagnaði og leit í kringum sig. Um leið og ég lauk samtalinu sem var stutt, hélt hún áfram. Ég notaði tækifærið og smelti af henni mynd.

 


Brjóstahaldadeildin

southwesternbellvigÍ september 1950, komu lögreglumenn á  Miami, Florida fyrir tilviljun upp um glæpahring sem stolið hafði þúsundum dollara á mörgum árum frá símaþjónustufyrirtæki þar um slóðir. Þjófarnir voru allir ungar konur úr talningardeild Southern Bell Telephone Company. Þær smygluðu peningunum út úr byggingunni með því að fela smápeningarúllurnar í brjóstahöldum sínum. Þessi blanda af ungum konum, undirfatnaði og peningum var auðvitað ómótstæðileg fyrir pressuna og sagan af "Brjóstahaldadeildinni" komst á forsíður blaðanna.

Hvernig þær gerðu það

Glæpakvensurnar nýttu sér veikleika í þeirri aðferð sem Southern Bell Telephone Company meðhöndlaði smápeninga sem safnað var úr peningasímum þess. Peningarnir voru losaðir í innsiglaða kassa og fluttir í talningadeildina. Þar tæmdu ungar konur kassana og settu þá í sjálfvirka talningarvél. Talan sem vélin sýndi var fyrsta skráða heimildin um tekjurnar.

SmápeningarAð minnsta kosti þrjár af konunum (kannski fleiri) sá að það var auðvelt að fylla pappírsstauka af smáaurum áður en peningarnir fóru í vélarnar og stinga þeim í brjóstahöldin. Vegna þess að peningarnir höfðu aldrei verið taldir, saknaði fyrirtækið þeirra aldrei.

Ein af brotakonunum, Betty Corrigan,sagði lögreglunni í yfirheyrslum að sumar stúlknanna hefðu troðið allt að fimm rúllum af 25 senta peningum ofaní brjóstahöldin í einu. Í hverri rúllu vori 15 dollarar svo sumar stúlknanna voru að smygla út um 150 dollurum á dag.  

Þær tóku samt ekki peningana sjálfar beint út úr byggingunni, heldur fengu leyfi til að fara á salernið þar sem þær afhentu lagskonu sinni þýfið sem síðan smyglaði því út.

Hvernig þær náðust

Ef ekki hefði komið til smá atvik hefði þessi glæpur e.t.v. aldrei komist upp. Dag einn fékk lögreglan upphringingu frá átján ára stúlku,  Ritu Orr sem tilkynnti að  $5000 hefði verið stolið úr kommóðu heima hjá sér. Rita var mágkona Marie Orr, sem vann á talningardeildinni.

corriganLögreglumaður að nafni  I. Ray Mills kom á vettvang til að rannsaka þjófnaðinn og á meðan að hann var á staðnum ók  Betty Corrigan, ein af vinnufélögum Maríu í hlaðið. Þegar að Mills leitaði í bíl Corrigan fann í honum þrjár ferðatöskur. Í tveimur þeirra fann hann $4107 í kvartdollurum. Í þriðju töskunni fann hann nálægt  $1000 í seðlum. Þegar hann spurði konuna um peningana byrjaði öll sagan að skýrast.

Þær viðurkenndu að hafa stolið þúsundum dollara frá símafyrirtækinu og notað peningana til að kaupa nýja bíla, greiða af veðlánum heimila sinna. Í vörslu Corrigan og  Orr fundust áður en yfir lauk  $10,000 í reiðufé. Að auki bentu þær á fjórar aðrar samverkakonur.

Það skýrðist aldrei af hverju Rita Orr hringdi í lögregluna en svo virtist sem hún hefði ekki hugmynd um glæðastarfsemi systur sinnar.  

Fjölmiðlarnir 

Þegar af þessu spurðist varð allt vitlaust hjá fjölmiðlum landsins allt frá austur til vestur strandarinnar. Blaðamenn kepptust um að koma upp með ævintýralegar fyrirsagnir eins og "Mál silfur svikaranna" og " Málið um klingjandi brjóstahöldin" eða " Brjóstahalda bandittarnir" en vinsælasta nafngiftin varð " Brjóstahaldadeildin"

connorsLögreglan áætlaði að ekki færri en 14 manns hefðu verið viðriðnar þjófnaðina , átta konur og sex menn, eiginmen eða unnustar kvennanna.  Tveimur kvennanna sem voru aðal-sakborningarnir; hin 23. ára  Betty Corrigan og  21. Marie Orr, var að staðaldri lýst í blöðum sem "fallegum stúlkum" með "sérlega aðlaðandi símaraddir" og myndir af þeim birtust hvarvetna.

Til að lesendur gerðu sér betur grein fyrir hvernig þjófnaðurinn hafði farið fram, fékk eitt dagblaðana sýningarstúlkuna , Marge Connors, til að sitja fyrir á ljósmynd sem sýndu hvernig brjóstahöld gátu haldið peningarúllum. (Sjá mynd)

Þrátt fyrir að mikið væri um handtöku stúlknanna fjallað í fjölmiðlum, hljóp fljótlega snurða á þráð saksóknara. Lögreglan gerði sér grein fyrir að þrátt fyrir munlega játningu, voru engin sönnunargögn að finna um glæpinn. Símafyrirtækið gat ekki staðfest hversu miklu eða hvenær peningunum hefði verið stolið. 

PeningasímiFrekar máttlaus yfirlýsing frá lögfræðingi símafyrirtækisins hjálpaði ekki. "Stúlkurnar einfaldlega stungu rúllum af eins, tíu og tuttugu og fimm senta peningum í brjóstahöld sín áður en þeir voru taldir. Þess vegna er hvergi neitt að finna um hversu mikið silfur var tekið".

Konurnar gerður sér fljótlega grein fyrir stöðunni og breyttu framburði sínum snarlega. Þær neituðu að skrifa undir skráða játningar og sögðu að peningarnir sem fundust væru þeirra eigin peningar. Lögfræðingur þeirra  hótaði því að höfða mál á hendur lögregluembættinu ef að 10.000 dölunum sem lögreglan hafði fundið, yrði ekki skilað og gegn símafyrirtækinu ef stúlkurnar fengu ekki að hverfa aftur til starfa sinna.

Með semingi, varð lögreglan að sleppa konunum.

Daginn eftir snéru konurnar sex aftur til starfa en var þá tjáð af yfirmanni að þær hefðu verið reknar og hleypti þeim ekki inn í bygginguna.

Sóttar til saka

Um tímaleit út fyrir að konurnar hefur framið hinn fullkomna glæp, en lögreglan var ekki á því að láta þær sleppa svona auðveldlega.

Að lokum var það bókhaldari sem gerði málshöfðun á hendur þeim mögulega. Símafyrirtækið lét rekja öll langsímasamtöl frá  Jacksonville og lét bókarann sinn fínkemba skýrslurnar. Að lokum fékk hann það út að í vissum mánuðum vantaði vissa upphæð. Sem dæmi þá væri öruggt að 23. ágúst 1950 vantaði $464.75 upp á það sem kom frá talningardeild fyrirtækisins.

brassbrigadeÞetta gerði það mögulegt að lögsækja konurnar fyrir meira en $50. stuld sem var forsenda þess að hægt væri að lögsækja konurnar fyrir "stórþjófnað".   Og aftur galaði pressan; "Réttlætið eins teygjanlegt og hluturinn sem þýfið var borið út í, small á meðlimum Miami brjóstahaldadeildarinnar"

Það kom aldrei í ljós nákvæmlega hvað miklu konurnar stálu. Í fyrstu lögregluskýrslunni þar sem konurnar játuðu munlega, er upphæðin sögð nema hundruðum þúsunda dollara. Símafyrirtækið hélt því samt fram, kannski til að bjarga andlitinu, að upphæðin hefði aðeins verið $18,880.

Alls voru ellefu ákærðir í tengslum við þjófnaðinn. Corrigan og  Orr voru ákærðar fyrir stórþjófnað.  Billie Ruth McNabb (sem sögð var tengillinn þeirra á salerninu) var ákærð fyrir að aðstoða við að flytja þýfið. Hinir átta voru fjölskyldumeðlimir og vinir kvennanna sem var gefið að sök að hafa móttekið þýfi.  

Það tók sex manna kviðdóm aðeins 24 mínútur að sakfella konurnar þrjár en jafnframt fór hann fram á að þeim yrði sýnd mildi. Dómarinn dæmdi þær í eins árs fangelsi og gerði þeim að endurgreiða símafyrirtækinu  $24,118.

Í yfirlýsingu frá konunum segir að  " að þær ætli sér að endurgreiða símafyrirtækinu alla þá peninga sem þær tóku frá því". Þær áfrýjuðu dóminum en töpuðu málinu þá líka.


Fólk beðið að sniðganga íslenskar vörur og ferðast ekki til landsins

minke-whale-meat-bigÞá er ballið byrjað, rétt eina ferðina enn. Nokkur náttúruverndarsamtök hafa þegar sent frá áskorannir til fólks um að sniðganga íslenskar vörur og að ferðast ekki til landsins vegna nýrra heimilda til að veiða hvali í atvinnuskyni. Þar fara auðvitað fremst öfgasamtökin Sea Shepherd sem sökktu hvalveiðiskipum íslendinga fyrir nokkrum árum.

Á öðrum stað kemur fram að 150.000 manns hafi skrifað undir yfirlýsingu efnis efnis að þeir hyggist ferðast til Íslands ef Íslendingar láti af hvalveiðum sem mundi auka tekjur þjóðarbúsins um 117 milljónir dollara en hvalveiðar mundu aldrei gefa því meira en 4 milljónir dollara, jafnvel þótt það tækist að selja allt kjötið á Japansmarkað. Japanir segjast reyndar enn eiga nokkur þúsund tonn af óseldu hvalkjöti í frystingu svo óvíst sé að Íslendingum takist að selja afurðir sínar þar í landi.

Bent er á að 115.000 manns hafi á síðasta ári farið í hvalaskoðunarferðir á Íslandi og yfir 20% af þeim hafi staðfest að hvalaskoðun hafi verið megin ástæða komu þeirra til Íslands. Einnig að ferðamálsamtök á Íslandi hafi öll lýst sig andvíg áformum um frekari hvalveiðar í atvinnuskyni.

Þá leggja nokkur skeytin út frá þeirri staðreynd  að þjóðin sé að reyna að reisa við efnahag sinn og orðstír eftir skelfilegt hrun og það þjóni illa hagsmunum hennar að ganga svona í berhögg við almenningsálit í öllum helstu viðskiptalöndum sínum.


Rumpelstiltskin stjórnar

RumpelstiltskinÉg hef á stuttum tíma lesið ekki færri þrjár færslur um draumfarir bloggara sem allar fjalla um ástandið á landinu. Það kannski ekki nema von því raunheimur rúmar ekki lengur þessa vitleysu sem er í gangi á Íslandi í dag.

Potta og pönnu byltingin þar sem alþýðan var að sjálfsögðu potturinn og pannan fagnar árangri á meðan gömlu sótugu seiðkarlarnir koma sér fyrir til að lepja dreggjarnar úr kjötkötlunum.

Draumar Austurvallarindíánanna sem kröfðust þess að náhirðin viki, er orðin að þrefi um tæknilega útfærslu á hvernig má fróa litla græna dvergnum sem hefur hreðjatak á þjóðinni í krafti flokkskerfissins.

Er það að furða að fólk sé að fara á límingunum og þá sæki illir draumar um dimmmynta og glottandi menn og konur sem aftur sjá sér færi til að toga í spottana sem liggja beint inn í hjarta frama-Gosa litla. 

Einhver sagði að hann sæi eftir því að hafa eitt fimmtán undanförnum vikum í það að mótmæla.

Það hlýtur að vera sársaukafullt fyrir þreyttan potther með rámar raddir að horfa upp á sömu gömlu flokkadrættina gera "nýja Ísland" þannig að fólk vilji nú helst "flýja Ísland". 

Allt fer enn fram fyrir jafn luktum tjöldum og fyrr, sama loðna tungutakið er notað til að skaffa eitthvað í fyrirsagnirnar og sama gamla póli-tíkur pissufílan rís upp af hrossakaupssvæðinu og fyrr. 

það versta er að fólk trúir því raunverulega að þetta sé það besta sem við eigum völ á og þess vegna virka draumfaralýsingarnar eins fjarlægt andvarp. Ísland er besta baksvið í heimi fyrir líf, það vitum við öll. En leikritið sem er á fjölunum stinks.

Bestu brandararnir

Bretar eru mikið fyrir skoðanakannanir. Margir háskólar hafa deildir sem sérhæfa sig í ákveðnum tegundum skoðanakannana. Háskólinn í Hertfordshire  gerði skemmtilega og kannski hlægilega könnun fyrir skömmu. þeir könnuðu hvaða brandarar væru bestu brandarar í heimi.  Hér eru niðurstöðurnar, ögn stílfærðar.

Fyndnasti brandari í heimi.

Á rjúpuTveir Hafnfirðingar voru á rjúpnaveiðum. Annar þeirra féll allt í einu máttlaus niður. Hann virtist ekki anda og augun runnu aftur í höfði hans. Hinum leist ekki á blikuna, reif upp farsímann og hringir í almannavarnir.

"Félagi minn er dáinn" hrópaði hann í síman þegar honum var svarað. "hvað á ég að gera?"

Sá sem svaraði var hinn rólegasti. "Vertu alveg rólegur, ég get hjálpað þér. Til að byrja með verður þú að fullvissa þig um að hann sé dáinn".

Í smá stund varð þögn og svo heyrðist skothljóð. Að svo búnu kom Hafnfirðingurinn aftur í símann og sagði. "Já, hvað svo?"

Í öðru sæti. 

Holmes og WatsonSherlock Holmes og Dr Watson fóru í útilegu. Eftir að hafa gætt sér á góðum mat og drukkið flösku af víni, bjuggu þeir um sig og fóru að sofa.

Fáeinum tímum seinna vaknar Hólmes og stuggar við hinum trygga vini sínum.  “Watson, líttu upp í himininn og segðu mér hvað þú sérð?

"Ég sé milljón miljónir af stjörnum, Holmes" svaraði  Watson.

"Og hvað ályktar þú af því?"

Watson hugsaði málið um stund.

" Nú stjarnfræðilega segir það mér að til eru milljónir af stjörnuþokum og mögulega biljónir af  plánetum." 

"Stjörnuspekilega sé ég að Satúrnus er í ljóninu."

"Tímafræðilega dreg ég þá ályktun að klukkan sé korter yfir þrjú."

"Veðursfræðilega, er líklegt að dagurinn á morgunn verði falllegur."

"Guðfræðilega get ég séð að Guð er almáttugur og að við erum smá og lítilfjörleg í alheiminum.

En hvaða ályktanir dregur þú Holmes?"

Holmes var þögull um stund. 

"Watson, kjáni getur þú verið" sagði hann svo. "Það hefur einhver stolið tjaldinu okkar."


Af hremmingum íslensks sendiherra

RæaðherrabústaðurinnEitt sinn var ungum manni boðin sendiherrastaða í Frakklandi. Hann þáði þá upphefð með þökkum og flutti með fjölskyldu sína til Parísar og tók upp aðsetur í stóru og flottu einbýlishúsi sem utanríkisráðuneytið átti.

Ungi maðurinn átti konu og tvær litlar stúlkur. Fljótlega eftir að hann tók við embættinu byrjuðu Íslendingar í allskonar "mikilvægum" erindagjörðum að heimsækja hann og oftar en ekki drógust þeir fundir á langinn og enduðu oftar en ekki með að dregin var fram einhver tegund af frönsku víni sem þarna voru svo ódýr og góð og skálað var fyrri landinu og þjóðinni sem kúrði heima á klakanum. 

Eftir nokkra mánuði af stöðugum gestakomum og löngum kvöldum þar sem smakkað var á wiskey og líkjörum þegar að franska vínið þraut, var fjölskylda unga sendiherrans orðin dauðuppgefin á ástandinu.

SkálHann hafði lofað dætrum sínum að fljótlega eftir komuna til Frakklands mundi hann taka þær í ökuferð og fara með þær í stærsta og frægasta dýragarð í Evrópu, þar sem dýr víða úr heiminum gengu um frjáls á gríðarstóru afgirtu landsvæði sem hægt var að aka um og skoða dýrin.

Vegna veisluhaldanna hafði lítið orðið af efndum.

Snemma einn Laugardag komu dæturnar að máli við föður sinn og tóku af honum eindregið loforð um að morguninn eftir mundu þau stíga upp í flotta svarta sendiráðsbílinn sem reyndar enn hafði ekki gefist tími til að merkja sendiráðinu og aka út fyrir París og heimsækja dýragarðinn.

Það sama kvöld komu nokkrir digrir íslendingar í heimsókn og fyrr en varði var slegið upp veislu. Seint um nóttina gekk ungi sendiherrann til hvílu og fannst hann rétt hafa lagt höfuðið á koddann þegar tvær litlar dömur byrjuðu að toga hann út úr rúminu. Pabbi, pabbi, komdu, þú lofaðir manstu...

Hann vissi að honum var engrar undankomu auðið, dreif sig því í sturtu og innan klukkustundar voru þau öll lögð af stað, hann með frúnna í framsætinu og dæturnar tvær í aftursætinu. Af og til hnusaði eiginkonan út í loftið, opnaði gluggann og veiddi loks tyggigúmmí upp úr handtöskunni sem hún lét bónda sinn hafa.

Gíraffinn og bíllinnEftir einnar klukkustundar akstur komu þau að dýragarðinum. Þau óku inn í hann eftir að hafa greitt aðgangsgjaldið og lituðust um. Við veginn stóðu skilti sem lýstu þeim dýrum sem helst var að vænta að sjá á hverjum stað og á öllum þeirra stóðu varnaðarorð um að ekki mætti að stöðva bílinn nema í stuttan tíma í senn,  ávalt bæri að vera með bílrúðurnar uppskrúfaðar og stranglega væri bannað að gefa dýrunum einhverja fæðu.

Fyrst sáu þau strút hlaupa með ofsahraða yfir veginn fyrir framan bílinn og það varð til þess að ákveðið var að aka löturhægt. Stúlkurnar komu þvínæst auga á hlébarða en hann var of langt í burtu til að hann sæist vel. Allt í einu óku þau fram á þrjá gíraffa sem stóðu þétt upp við veginn og hreyfðu sig ekki þótt bifreiðinni væri ekið alveg upp af þeim. Ungi sendiherrann stöðvaði bifreiðina og öll virtu þau fyrir sér tignarleg dýrin nokkra stund sem stundum teigðu hálsa sína í átt að rúðum bílsins eins og þeir byggjust við að fá eitthvað góðgæti úr þeirri átt. -

GíraffinRafmagnsvindur voru á bílrúðunum og áður en sendiherrahjónin fengu nokkuð við gert, hafði önnur stúlknanna rennt niður  rúðunni á annarri afturhurðinni. Samstundis skaut einn gíraffinn höfðinu inn um gluggann. Litlu stúlkurnar æptu af hræðslu þegar að löng tunga Gíraffans leitaði fyrir sér að einhverju matarkyns inn í bílnum. Um leið og telpurnar æptu eins og himinn og jörð væru á enda komin, greip skelfing um sig í framsætunum líka.

Gíraffi að ullaMóðurinn fann takkann sem stýrði rúðunum fram í bílnum og ýtti á hann þannig að rúðan halaðist upp til hálfs og herti þannig að hálsi gíraffans. Um leið ók sendiherrann af stað og neyddi þannig gíraffagreyið til að hlaupa meðfram bílnum þar sem hann sat fastur í glugganum. Brátt tók grænt slý að renna frá vitum gíraffans sem lyktaði eins og blanda af súrheyi og hænsnaskít. 

Ópunum í aftursætinu linnti síst þegar stór gusa af slýinu gekk upp úr gíraffanum og yfir telpurnar. Sendiherrann snarstansaði bílinn en aðeins þá gerði hann sér gein fyrir að gíraffinn var enn fastur við bifreiðina. Hann ýtti aftur á rúðuhnappinn og gíraffinn tók á stökk tafsandi og frísandi á braut.  

Ástandið í bílnum var vægast sagt skelfilegt. Telpurnar voluðu í aftursætu útbíaðar í grænu slýi sem ferlegan fnyk lagði af. Frúin reyndi hvað hún gat til að þurrka framan úr þeim með klút sem hún hafði fundið í hanskahólfinu og nú heltist þynnkan af fullum krafti yfir sendiherrann.

Sendiherrann ákvað að það væri ekki stemming fyrir frekari dvöl í dýragarðinum og hraðaði sér út úr honum. Þegar út á hraðbrautina kom var ljóst að það þurfti að stoppa sem fyrst og reyna að hreinsa stúlkurnar betur og bílsætin því bíllinn lyktaði eins og flór. Brátt komu þau að bensínstöð þar sem þau stönsuðu og tóku til óspilltra málanna við að hreinsa það sem hreinsast gat. En lyktin var svo megn að á endanum ákváðu þau að fækka fötum og setja þau í ruslapoka sem síðan fór í skottið.

LögganÞegar þau héldu af stað aftur, sátu telpurnar á gammósíunum og undirbolum, frúin á brjóstahaldinu einu að ofan og sendiherrann sjálfur á nærbuxunum. 

Þau höfðu ekki ekið nema stuttan spöl þegar að sendiherrann sér í bakspeglinum hvar lögreglubíll með blikkandi ljósum er kominn upp að honum. Hann vék bílnum út í vegkantinn og beið rólegur eftir að lögregluþjónarnir stigu út. Annar þeirra gekk beint að bílnum og benti sendiherranum að stíga út úr sínum bíl. Sendiherrann talaði ágætlega frönsku og taldi víst að hann mundi getað spjarað sig gagnvart lögreglumönnunum. En hann hafði áhyggjur af því að hann kynni að vera undir áhrifum ennþá.

Hvað get ég gert fyrir ykkur, spurði hann hæverskur og sté út úr bílnum og reyndi að brosa.

Við sáum að þegar þér ókuð út frá Bensínstöðinni þá gáfuð þér ekki stefnuljós, svaraði sá sem nær var.

Það kann vel að vera, ég var eitthvað stressaður að komast heim, svaraði sendiherrann.

Lögreglumaðurinn fitjaði upp á nefið. Hm, það er mjög sterk lykt af yður. Hafið þér verið að drekka, spurði hann svo.

Ha, nei, ekki drekka, sko, nei, ekki síðan í gærkveldi.

Lögreglumennirnir litu hvor á annan. Já einmitt það, svaraði svo annar þeirra. Væri þér sama þótt þú kæmir með okkur snöggvast inn í lögreglubílinn.

Ja, ég er nú með fjölskylduna með mér og svo er ég sko sendiherra og nýt ákveðinnar friðhelgi sem slíkur,svaraði sendiherrann og lagði höndina á brjóst sér eins og hann væri að þreifa eftir veski sínu sem hann bar venjulega í jakkavasanaum. Æ, sagði hann svo, ég setti jakkann í skottið, sko í plastpokann skiljiði.

Lögreglumennirnir skimuðu inn í bílinn þar sem telpurnar sátu skjálfandi og sendiherrafrúin reyndi að halda veskinu fyrir brjóstum sér.

En það er alveg satt að ég er sendiherra frá Íslandi hélt sendiherrann áfram,  og, og þetta með lyktina, ég get alveg skýrt hana. Það var sko þannig að við stoppuðum bílinn og þá rak Gíraffi inn hausinn og ældi yfir okkur öll, sko og þaðan er lyktin komin. Svo fórum við öll úr fötunum á bensínstöðinni.

Lögreglumennirnir litu aftur hvor á annan og virtust allt í einu taka ákvörðun. Gjörið svo vel að stíga frá bílnum sagði annar þeirra skipandi röddu og lagði um leið hönd á skammbyssuna sem hann bar við mitti sér. Leggist á hnén og setjið hendurnar fyrir aftan bak.

Sendiherrann rak upp hláturroku...sko, ég er að segja sannleikann, það var gíraffi sem ældi á okkur og þess vegna er passinn minn í skottinu..

HandtekinnEkkert múður, niður á hnén.........Um leið og hann lagðist á hnén fann hann handjárnin smellast um úlnliði hans.

 

Viku síðar fékk ungi sendiherrann ákærubréf frá lögreglunni. Hann var sakaður um ölvun við akstur.

 

 

 


10 ára og skilin

Nujood Ali 1Hún heitir Nujood Ali og hún er aðeins tíu ára.  Faðir hennar er götusópari sem á tvær konur og 17 börn. Þau búa í Jemen þar sem lög landsins eru blanda af Sharia lögum Íslam og fornum ættbálkahefðum. Sjálf stjórnarskrá landsins er ein málamiðlun út í gegn til að friða afturhaldsama norðurlandsbúa og framfarasinnaða íbúa suður hlutans. Kveinréttindunum er eins og venjulega fórnað á altari þjóðareiningar.

Martröð hennar hófst morgun einn í febrúar á síðasta ári. Með tveggja daga fyrirvara tilkynnti faðir Nujood að hann hugðist gifta hana manni sem væri tuttugu árum eldri en hún. Hún hafði ekkert um málið að segja, hún var aðeins barn og að auki stúlkubarn.

Rödd hennar er mjúk og hrein en augu hennar ákveðin þegar hún talar; "Maðurinn minn sór í viðurvist föður míns að hann mundi ekki snerta mig í mörg ár. En það loforð gleymdist fyrstu nóttina eftir giftinguna. Þegar ég kom inn í svefnherbergið sá ég að það var bara eitt rúm. Ég reyndi að hlaupa í burtu. En hann náði mér, slökkti ljósin og klæddi mig úr öllum fötunum. Síðan sló hann mig og tók mig með valdi. Þetta gerðist á hverri nóttu í einn mánuð þangað til að frænka mín gaf mér smá peninga fyrir rútufari. Ég keypti miða og fór rakleiðis til dómshússins í næstu borg."

Nujood og faðir hennarNujood var heppin. Í dómshúsinu hitti hún Mohammed al-Qhadí, trúlega eina dómarann í landinu sem var tilbúin til að hlusta á hana án þess að kalla fyrst til eiginmann hennar og fjölskyldu.

 Mohammed al-Qhadí var hneykslaður á meðferðinni á Nujood litlu og ákvað að skjóta yfir hana skjólshúsi á meðan að dómsmálið var tekið fyrir sem endaði með að hann veitti Nujood skilnað.

Eiginmaður hennar heimtaði sem nemur 30.000 krónum í skaðbætur, upphæð sem faðir Najood hafði ekki efni á að borga. Lögfræðingur Najood, Rashida al-Hamdani, eini kvenn-lögfræðingurinn í Jemen, greiddi sjálf skaðabæturnar.

Barnagiftingar eru algengar í Jemen. Fátækt í bland við forna siði og trúarkreddur eru helsta ástæðan. Samkvæmt skoðanakönnun er meira en tuttugu ára aldursmunur á hjónum í fjórða hverju hjónabandi í landinu.

Mál Najood vakti verðskuldaða athygli í landinu. Myndir birtust af henni í sjónvarpinu sem varð til þess að fleiri barnungar stúlkur sem gefnar hafa verið eldi karlmönnum hafa gefið sig fram við yfirvöld og óskað aðstoðar.

Eftir skilnaðinn fór Najood aftur til foreldra sinna og gengur nú í skóla. Hún segist aldrei ætla að gifta sig aftur og hún ætli sér að verða lögfræðingur eins og Rashida al-Hamdani. 


Trú Gandhi

Gandhi01Gandhi trúði því að til þess að öðlast umburðarlyndi þyrfti hinn venjulegi maður að öðlast persónulegan styrk og þar með óttaleysi. Sem drengur lifði hann í stöðugum ótta við myrkrið, þjófa, drauga og snáka. Sem unglingur heimsótti  hann eitt sinn ásamt kunningja sínum hóruhús og varð orðlaus og lamaður af hræðslu. Allt hugrekki hans var afleiðing ásetnings hans að sigrast á þessum veikleikum sínum sem ollu honum stöðugum áhyggjum.

Friður hið innra var takmark hans; og hann var þeirrar skoðunar að með því að gera öðrum mögulegt að finna frið mundi hann sjálfur ná takmarki sínu. Að stuðla að einingu milli einstaklinga og samfélaga var honum lækning við eigin kvíða. Lausn hans fól í sér að umbreyta stjórnmálum í einskonar sálrænt ferðalag þar sem fólk reiddi sig ekki á sterka leiðtoga heldur á viðleitni hvers og eins; og að hver og einn breytti eigin hegðun í stað þess að kenna öðrum um aðstæður sínar; og að lokum; að gott fordæmi væri besta aðferðin til að hafa áhrif á samfélagið almennt.

Gandhi talaði opinskátt um sitt eigið líf og viðurkenndi að hann ætti sjálfur í erfiðleikum. Hann ræddi um óánægju konu sinnar yfir því að hann afneitaði venjulegum heimilis þægindum og yfir því að hann upp á stóð að allir peningar sem honum áskotnuðust og ekki fóru til beinna heimilisnota, væri sjóður sem nota ætti til almannaheilla. Synir hans sýndu honum vanþóknun sína vegna þess að hann sinnti þeim ekki og hann neitaði því ekki því hann var þeirrar skoðunar að maður ætti ekki takmarka ást sína við venslafólk sitt, heldur við alla sem yfirleitt er hægt að þróa samhygð með.

gandhi3Persónulega taldi hann upp 150 einstaklinga sem féllu undir þá "ættmenna" skilgreiningu. Honum fannst að með því að breiða út "náungakærleik" og persónulega vináttu væri hægt að yfirstíga alla þröskuldi trúarbragða, þjóðernis og stéttaskiptingar. Kærleikinn ætti að tjá fyrst og fremst með sjálfs-lausri þjónustu í þágu annarra.

Hann stofnaði tilrauna-samfélag þar sem hann reyndi að hrinda þessum kenningum í framkvæmd. Margir af hindúunum sem með honum voru urðu skelfingu lostnir þegar þeir sáu að sumir þorpsbúanna tilheyrðu stétt "hinna óhreinu", þá sem allir forðuðust að eiga samskipti við. Sjálfur hafði Gandhi verið alinn upp við að halda þeim í ákveðinni fjarlægð og láta þeim eftir skítverkin. Nú tók hann tók sjálfur fullan þátt í þeim og hjálpaði t.d. til í eina klukkustund á dag við að halda sjúkrahúsi staðarins hreinu. Með þessu fordæmi trúði hann að gamlar kreddur mundu hverfa.

Gandhi var ekki mannblendinn persóna í hefðbundinni merkingu þess orðs. Þess vegna fannst honum erfitt að vingast við alla þá sem hann umgekkst. Hann átti ekki vini sem voru jafningjar hans. Nehru  var eins og sonur hans og  Gokhale  eins og faðir. Það var miklu frekar á meðal þeirra fullorðinu kvenna sem hjálpuðu honum í starfi hans að hann fann þá tilfinningalegu næringu sem hann þarfnaðist.

Gandhi og konurnarÞrátt fyrir að afstaða hans til kvenna væri frekar gamaldags og honum fyndist hin fullkomna kona einfaldlega vera "trú eiginkona", uppgötvaði hann með vinskap sínum við samverkakonur sínar að þær bjuggu yfir miklu meiri getu en hann hafi áður eignað þeim. Samt gerði hann sér ekki grein fyrir því að slíkur vinskapur milli kynjanna bæti verið mikilvæg viðbót í hinu nýja samfélagi. Hann kallaði eina vinkinu sína "bjána" og húna kallaði hann "harðstjóra". Hann hlustaði en heyrði aðeins hluta af því sem sagt var.

Gandhi reyndi ekki að má út allar hefðbundnar sérgreiningar. Það var ekki ósk hans að bæði kristnir og múslímar mundu viðurkenna að lokum Hindúisma sem æðri trúarbrögð. Fyrir honum voru öll trúarbrögð dyggðug og líka gölluð. Að predika trúarbrögð dugði ekki vegna þess að flestir fóru hvort eð er ekki eftir þeim almennilega.

Í stað þess að hvetja alla til að skipta um trúarbrögð hvatti hann alla til að fara betur eftir þeirri trú sem þeir höfðu þegar. Sannleikurinn hafði margar hliðar og engin leið að einfalda hann í einni trú. En það hafði þau áhrif að hann gerði ekkert til að koma á móts við ofsatrúarmenn sem álitu sína eigin sannfæringu allan sannleikann.

Gandhi sýndi að einn einstaklingur gat breytt hegðun 600 milljón manns tímabundið, og að eitthvað sem nálgast það að vera kraftaverk getur gerst. þegar að múslímar sem voru að flýja til Pakistan árið 1947 voru brytjaðir niður af hindúum voru ummæli Gandhis "Við höfum nánast breyst í skepnur".

gandhi2Þegar múslímar hefndu sín og Kalkútta logaði í óeirðum sem aftur kölluðu á hefndaraðgerðir hindúa, tók Gandhi sér bólstað í hverfi múslíma og í húsi múslíma, án lögregluverndar. Þetta var táknræn gjörð fyrir hugrekki og sáttavilja. Innan nokkurra klukkustunda voru múslímar og hindúar byrjaðir að faðma hvern annan og biðjast fyrir í bænahúsum og moskum hvers annars. Síðan héldu óeirðirnar áfram. Gandhi hóf föstu og sór þess að neyta ekki matar fyrr en brjálæðinu linnti. Aftur hættu átökin og menn lögðu niður vopn sín.

Mountbatten landsstjóri sagði um Gandhi við þetta tækifæri. "Hann hefur með siðferðilegri sannfæringu áunnið meira en fjórar herdeildir hefðu getað með því að beita valdi". En árangurinn var skammvinnur. Allir urðu fyrir djúpum áhrifum af vilja Gandhi til að fórna sjálfum sér fyrir friðinn. Samt sem áður leið ekki á löngu uns hatrið sauð upp úr aftur.

Þannig má segja að Gandhi hafi bæði tekist og mistekist ætlunarverk sitt í senn. Hann sýndi að hægt er að yfirstíga ósamlyndi og óeiningu. En honum mistókst að gera árangurinn varanlegan. Eitt sinn sagði Gandhi að "allir menn væru eins, hluti af sömu allsherjar sálinni". samt sýndi tilraun hans að "góðum vilja" gagnvart öllu mannkyni er hægt að drekkja á augnabliki í öldum andúðar.

Gandhi var að mörgu leiti líkamsgerfingur þess besta og mesta sem maðurinn einn getur áorkað. Hann var einlægur, staðfastur, sannleikselskandi og auðmjúkur þjónn. Honum hefur verið líkt við persónur eins og Krist og Múhameð, Krisnha og Buddha. Samt gerði hann engar kröfur um að tala fyrir munn Guðs eða einhverskonar almætti. Þrátt fyrir marga dygga fylgjendur og nokkuð vel skráðar heimildir um  líf hans og starf, og þótt eftir hann liggi mikið af spakmælum og vísdómsorðum, sumum hverjum ég hef gert skil á þessari bloggsíðu,  hafa allar tilraunir til að setja hann í sama sæti og opinberendur trúarbragðanna, mistekist. Það er hægt að eigna Gandhi umbætur, vísdóm, kærleika og áhrifamikið fordæmi. En hann náði ekki að koma á varanlegum breytingum eða stofna til sjálfstæðrar og  framsækinnar siðmenningar líkt og guðsmennirnir sem honum er stundum líkt saman við gerðu.


Fyrirgefning í Úganda

Uganda ÞorpÍ suður Úganda er moldin rauð, vatnið er rautt og himininn er rauður. Um sólarlag birtast þeir í gulnuðum skógarjaðrinum og ganga rólega að kofaþyrpingunni.  Kolesnikov rifflarnir hanga kæruleysislega um axlir þeirra og hlaupin nema við jörð hjá sumum. Þeir voru ekki hávaxnir, flestir varla orðnir 12 ára. Þeir hlægja og stjaka við hvor öðrum eins og drengja er háttur. 

Konurnar rísa upp frá eldstæðunum þegar þær verða drengjanna varar, grípa ungabörnin og standa síðan þöglar í hóp. Á afar skömmum tíma er  gömlum konum og lasburða mönnum er smalað út úr kofunum og þau slást í hóp mæðranna.

Allir fullburða karlmenn í þorpinu eru í burtu. Þeir berjast með stjórnarhernum. Skelfingin skín úr augum þorpsbúa, þeir vita við hverju er að búast.

Tveir drengjanna sem komu út úr skóginum eru frá þessu þorpi. En það skiptir engu máli núna. Þeim var  rænt fyrir tveimur árum og þeir hegða sér eins og þeir hafi aldrei fyrr séð systur sínar og mæður sem standa í hópnum. Þeir bera meira að segja ekki sömu nöfn og þeir gerðu áður.

U212_1Eftir um tvo tíma, Þegar að drengjahermennirnir fara, klyfjaðir ránsfeng og þeim matvælum sem í þorpinu er að finna, liggja sjö ungabörn í rauðri moldinni lífvana og með brotin höfuð. Mæður þeirra húka við hlið þeirra, skjálfandi af hryllingnum sem þær höfðu verið neyddar til að taka þátt í. Ekkert barnanna dó beint fyrir hendi drengjanna. Aðrar ungar konur liggja í hnipri á jörðinni og reyna hvað þær geta til að stöðva blóðrásina úr líkama sínum.

Stríðinu er lokið. Það er verið að rétta yfir foringjum drengjahermannanna í fjarlægu landi. Meðlimir Alþjóða Stríðsglæpadómstólsins hlusta á vitnisburði sem eru svo skelfilegir að þeir verða að taka hlé með reglulegu millibili til að frásagnirnar beri þá ekki yfirliði.

í þorpinu fer líka fram uppgjör. Drengirnir tveir sem tekið höfðu þátt í árásinni hafa snúið til baka. Þeir eru nú fullorðnir menn. Eftirlifandi karlmenn þorpsins fara með þá út á sléttuna og láta þá draga á eftir sér eina af geitum þorpsins.  

Úti á sléttunni eru þeir látnir standa naktir á meðan grasið er barið niður hringinn í kring um þá. Karlmennirnir er vopnaðir spjótum og  Þeir taka að stíga dans í kringum ungu mennina tvo. Þeir leggja til þeirra spjótunum öðru hvoru en gæta þess að spjótsoddarnir snerti þá ekki.

FórnargeitinEftir nokkra stund sleppa þeir geitinni og hlaupa síðan á eftir henni. Geitin kemst ekki langt áður en hún verður fyrir spjótlagi. Þeir kveikja eld, gera að skeppnunni og setja hana yfir bálið. Ungu mennirnir tveir standa allan tíman hreyfingarlausir og horfa á.

Loks er geitin steikt og þeim er boðið að fá sér bita. Eftir að þeir hafa bragðað á kjötinu borða allir hinir. Þegar ekkert er eftir nema skin og bein, er athöfninni lokið Allir halda til baka til þorpsins.

Ungu mönnunum hefur verið fyrirgefið að fullu. Syndir þeirra hlupu í geitina og síðan var geitin drepin.

"Þetta er okkar aðferð til að losna við slæma fortíð fyrir fullt og allt" skýrir seiðmaður þorpsins.


Ísland brýtur enn og aftur blað í mannkynssögunni

200794104226_johanna_sigurdardottir_vefEins og kunnugt er völdu Íslendingar sér, fyrstir allra þjóða, konu fyrir þjóðhöfðingja í lýðræðislegum kosningum þegar Frú Vigdís Finnbogadóttir var kosin Forseti. Sú niðurstaða vakti verðskuldaða heimsathygli og þótti sigur fyrir kveinréttindabaráttuna almennt. Nú stefnir í að annað blað verði brotið í sögu mannkynsins þá Jóhanna Sigurðardóttir verður valin til að gegna embætti forsætisráðfrúar. Jóhanna er óumdeilanlega fyrsta opinberlega samkynhneigða persónan sem sest í slíkan valdastól í nútíma lýðræðisríki. Slíkt mun vekja athygli á mannréttindabaráttu samkynhneigðra um allan heim, enda er heimspressan þegar byrjað að skrifa um þennan þátt í gangi stjórnamála á Íslandi. 


Áttburar fæddir

Kona í Bandaríkjunum hefur fætt átta börn og er önnur konan í heiminum sem elur áttbura sem allir lifa fæðinguna. 

Sex drengir og tvær stúlkur komu í heiminn fyrir stundu og voru öll tekin með keisaraskurði á sjúkrahúsi í Los Angeles í Kaliforníu.

Börnun vógu á bilinu 820-1640 grömm og heilsast öllum vel.

Nafn móðurinnar hefur ekki enn verið gert opinbert. Þá kom fram að búist hafði verið við aðeins sjö börnum og að það áttaunda hafi því komið á óvart. Móðurinn hyggist brjóstfæða öll börnin sem einn fæðingarlæknanna segir "sparka og öskra af hreysti".

ÁttburarFyrstu áttburnair  í heiminum fæddust í Huston Í Texas fylki í USA árið 1998.

Einn þeirra dó viku seinna en sjö þeirra héldu upp á tíu ára afmælið sitt 10. des s.l.

Nkem Chukwu móðir þeirra segir að móðir hinna nýfæddu áttbura verði að njóta þessarar blessunar sem átta börn í einu séu.

 

Rockabyebaby

Ég man ekki betur en að fyrir margt löngu hafi verið gerð kvikmynd með Jerry Lewis þar sem hann eignaðist átta börn á einu ári. 

Gott ef  þessi mynd hét ekki einmitt " Átta börn á einu ári"  á Íslensku?

En hann átti þau ekki öll í einu, svo mikið man ég.


Animal Farm Ísland

SáttÍsland er eina ferðina enn í heimsfréttunum. Ríkisstjórnin íslenska er sögð sú fyrsta af mörgum sem alheimskreppan á eftir að velta úr sessi. Spekingarnir, fréttaskírendur, tala aftur um  Ísland eins og fyrirmynd þjóðanna og segja fólkið sjálft hafa brugðist við sem heild og tekið málin í sínar hendur.

Ein af helstu kröfum mótmælenda er orðin að veruleika. Óhæf ríkisstjórn er farin frá. Önnur megin krafan um að reka seðlabankastjóra verður trúlega að veruleika fljótlega eftir að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarflokks  tekur við stjórnartaumunum. Og ef allt gengur eftir sem horfir mun þriðju kröfunni um kosningar, verða gerð skil snemma í vor.

Sjálfstæðisflokkurinn mun sleikja sárin í nokkrar vikur og taka síðan til óspilltra málana (ef það er mögulegt að nota það hugtak um þann bæ) við að endurskipuleggja í stöðurnar og endur-uppfinna sjálfan sig fyrir kosningarnar. 

Helstu nýju baráttumál hans verða "sterk efnahagsstjórnun" og "ný sókn" og "átak í atvinnumálum" og "Nýr Bjarni Ben" og "Allt er nú svo breytt" og "Við öxlum ábyrgð" og "Sameinuð í Sjálfstæðisflokki stöndum vér, sundruð allstaðar annarsstaðar föllum vér".

Stjórnin og Jóhanna forsætisráðsfrú munu eflaust gera sitt besta til að standa við samningana við alþjóða gjaldeyrissjóðinn og byrja að þefa ofaní pyttina fúlu sem gleyptu alla peningana sem þjóðin tók að sér að borga og koma á einhverjum reglum svo þetta endurtaki sig ekki aftur alveg strax. Áherslan verður að sjálfsögðu á að láta allt líta út sem best og að enginn fljúgi t.d. Elton John út til Íslands til að spila í afmælispartýi. Ef Jóhanna nær ekki árangri á þessum stutta tíma sem nægir til að tryggja svipað fylgi og venjulega, ja, þá er það hún sem verður blóraböggullinn. Stjórn landsins er nefnilega baneitrað epli fyrir pólitíkusa um þessar mundir, jafnvel þá sem beðið hafa þolinmóðir eftir því að þeirra tími rynni upp.

afturganga25En hvað verður um allar hliðar (minni) kröfurnar sem áttu að koma til framkvæmda eftir að megin kröfurnar næðu fram að ganga?

Kröfurnar sem áttu að móta "Nýja Ísland"  þar sem atvinnupólitíkusar hoknir af reynslu og fláræði áttu ekki að fá að komast að. 

Þar sem hugsjónirnar um afnám öfga auðs og fátæktar yrðu innlimaðar í stefnu og stjórnarhætti landsins.

Hvað verður um hreint borð þar sem hrossakaupin og samtryggingarbraskið sem á stjórnmálamáli heitir "málamiðlun" eða bara "pólitík" áttu ekki að fá að ráða ferð? 

Sá draumur er vitanlega fyrir bý. Hann var óraunhæfur hvort eð er. Við erum það sem við erum.

Með því að mynda nýjan stjórnmálflokk (enn annan undir 10% flokkinn) úr grasrótarhreyfingum mótmælenda, verða tennurnar dregnar úr dýrinu sem þó náði að naga sig í gegnum þráa stjórnmálamanna til að láta eftir völd sín, í bili.  Áður en varir mun þessi stjórnmálflokkur sem talar núna um að mynda breiðfylkingu fólksins (hvar hefur maður heyrt þennan frasa áður) fylla framboðssætin af fyrrverandi og wannebee pólitíkusum.  Animal Farm all over again.

Það sem fólk vill ekki horfast í augu við, allra síst pólitíkusar, er að þetta flokkskerfi sem við búum við er andstætt lýðræðinu. Enn eitt stjórnmálaflið eða framboðslisti breytir engu um það. Það er e.t.v. allt of snemmt að skrifa eftirmæli um raddir fólksins, en sannleikurinn er sá að flokkar og flokkspólitík er helsta sundrungaraflið í þjóðfélaginu.

Fyrir hendi er löng barátta og löng endurhæfing til að óflokksbundið framboð og bann á framboð í nafni flokka nái að verða að veruleika. En aðeins þá mun flokksræðinu hnekkt.

Þegar fólk getur boðið sig fram án þess að tilheyra lista, þegar hægt er að kjósa menn og konur til góðra verka sem gefa kost á sér til þeirra starfa, án þess að þurfa að merkja þurfi við lista, getum við talað um beint lýðræði.

Þing mun þá ekki skipa sér í stjórn og stjórnarandstöðu, heldur verða samráðsstofnun þar sem kosið verður um málin og þau afgreidd til framkvæmdavaldsins, ríkisstjórnarinnar sem kosin er af þinginu. Og auðvitað eiga ráðherrar hennar ekki að sitja á þingi.

Þessar og líkar hugmyndir hafa frá því snemma í haust verið reifaðar víða í samfélaginu og núna þegar verið er að snúa fólki til baka til hefðbundinnar pólitíkur, er hætta á að þær gleymist fljótt.

Þær eru svo róttækar að þær mundu raunverulega breyta öllu og þess vegna munu þær ekki ná fram að ganga og  það sem þegar hefur áunnist, verður notað sem snuð upp í þá sem mæla fyrir þeim.


Tveggja ára snáði í fangelsi

2Two_year_old_toddler_Kananelo_2Ríkisstjórn ZIMBABWE virðast engin takmörk sett í grimmd sinni.
Í 76 daga þurfti þessi tveggja ára snáði, Nigel Mupfuranhehwe, að dúsa við illan kost í einu af illræmdustu fangelsum landsins.
Hann var barinn og þurfti að horfa á foreldra sína barða og pyntaða en þeim var gefið að sök að vera á móti stjórn landsins og reyna að koma Mugabe forseta landsins frá völdum .

Athygli á örlögum Nigles var vakin fyrst af bloggara sem heitir  Denford Magora og skrifar frá Zimbabwe. Hann lýsti eftir drengnum 8. janúar en nú er hann fundinn og hefur verið látinn laus.
Foreldar hans eru að sjálfsögðu enn haldið í fangelsinu.
Ástandið í Zimbabwe heldur áfram að versna og alvarlegur matvælaskortur ríkir í landinu. Hjálparstofnanir segjast dreifa matvælum en myndir frá landinu sýna sveltandi fólk víðsvegar um landið sem eitt sinn var kallað matarkista Afríku.

Gunnar í Krossinum sagður hugsjúkur

Gunnar ÞorsteinssonÁ bloggi  Margrétar St Hafsteinsdóttur  lýsir Svanur Sigurbjörnsson læknir því yfir í að Gunnar Þorsteinsson oft kallaður Gunnar í Krossinum sé hugsjúkur. Hugsýki (neurosis) er samkvæmt skilgreiningu vísindavefs Háskóla Íslands tegund af vægum geðsjúkdómi. Svanur Læknir greinir líka eðli geðsjúkdómsins og segir hann stafa af "bókstafstrú í bland við mikilmennskuóra".

Nú veit ég ekki hvort Gunnar er skjólstæðingur (sjúklingur) Svans en ef svo er efast ég ekki um hæfni læknisins til að sjúkdómsgreina Gunnar. En þá skýtur upp spurningunni hvort rétt sé að Svanur læknir tjái sig um geðheilsu sjúklings síns á opinberum vettvangi. Sé Gunnar aftur á móti ekki skjólstæðingur Svans, er erfitt að sjá hvaða læknisfræðilegar forsendur liggja að baki þessari greiningu.

Á umgetinni síðu Margrétar hafa margir tjáð sig um persónu Gunnars og að mínu viti jaðra mörg ummælin við brot á meiðyrðalöggjöfinni, hvort sem hún er túlkuð vítt eða þröngt. En það má virða það sumum til vorkunnar að þeir telja sig nokkuð örugga þegar þeir eru aðeins að enduróma skoðun læknis.

Svanur SigurbjörnssonNú kann vel að vera að athugasemd (49) Svans Sigurbjörnssonar hafi verið skrifuð af kappi frekar en forsjá. Og e.t.v. var hann ekki að nota orðið hugsýki sem læknisfræðilega skilgreiningu.  

Þegar verkfræðingur tjáir sig um styrkleika byggingar er á hann hlustað. Í krafti þekkingar verkfræðinga standa hús eða falla. Þegar að læknar tjá sig um heilbrygði eða veikindi, er tekið mark á orðum þeirra. Það geri ég alla vega.

Ég hefi oft á mínu bloggi talað gegn "bókstafstrú" og talið hana undirrót margra af heimsins meinum. Ég hef líka talað á móti persónuníði í athugasemdum mínum, þótt ég sé alls ekki sammála þeim sem fyrir því verður á neinn hátt, líkt og er í þessu tilfelli.

En af því ég er "trúaður" og af því að það gæti hæglega einhverjum dottið í hug að kalla trú mína "bókstafstrú" leiði ég hugann að því hvenær ég verð kallaður hugsjúkur af því tilefni.

PragÉg heimsótti einu sinni gamla konu sem hét Júlía og átti heima í Prag. Þetta var á þeim tímum þegar kalda stríðið var upp á sitt besta og Tékkóslavía var öllu jöfnu lokað land. Ástæða heimsóknarinnar var að Júlía hafði verið leyst úr haldi eftir 15 ára vist á geðveikrahæli sem í sjálfu sér var ekkert annað en fangelsisvist. Hennar geðveila var að hún hafði tekið Bahai trú.

Ég gleymi aldrei æðruleysi hennar og ánægjunni sem skein úr gráum augum hennar yfir að sjá einhvern sem hugsaði svipað og hún. Hún ræddi við mig á slæmri ensku en mest brosti hún bara og sýndi mér gamlar myndir frá því að hún var ung kona. 

Ég mátti aðeins vera í þrjá daga í Prag og hvar sem ég fór um var ég stöðvaður af lögreglu og beðin um skilríki og skýringu á veru minni í landinu. Skömmu eftir að ég var kominn heim aftur bárust þær fregnir að Júlía hafði verið aftur flutt á geðveikrahælið aftur þar sem síðan lést þremur árum seinna,nokkrum mánuðum áður en kalda stríðinu síðan lauk og Sovétríkin hrundu.

 

 


Tvífari Obama

Tvífari ObamaHann heitir Ilham Anas, er 34 ára og er frægur á Jakarta, þar sem  Obama forseti Bandaríkjanna eitt sinn bjó. Og nú berst frægð hans víða um heiminn. 

Hann hefur komið fram í sjónvarpsþáttum, gert auglýsingar sem Obama og fengið ýmis gylliboð út á útlitið eitt. ´

Sjálfur er Anas fæddur og uppalinn í Bandung á vestur Jövu. Hann segist ánægður með að geta unnið sér inn peninga með þessum hætti en hann geri ekki hvað sem er.

_45398334_obamas"Ég tek öllum tækifærum sem mér bjóðast svo fremi sem þau stríða ekki gegn samvisku minni og persónulegu siðgæði" er haft eftir honum. Hann segist jafnframt vera frekar feiminn og eiga erfitt með að vera í sviðsljósinu.

Í Indónesíu er mikill áhugi fyrir Obama sem bjó þar í nokkur ár eftir að móðir hans  Ann Dunham, gekk að eiga Indónesískan mann Lolo Soetoro eftir að hún hafði skilið við faðir Obama sem var frá Kenýa.

 


Ótrúlega Ísland - The home of the shitballs

Undur Íslands, fólkið og náttúran, eru sannarlega mörg og ég þreytist ekki á því að tíunda það fyrir þeim sem á vilja hlusta. Ég sé það oft á augnagotum fólks sín á milli að það á erfitt með að trúa ýmsu, sem ég hef að segja, en samt er síður enn svo að ég ýki. Þess er hreinlega ekki þörf. Sannleikurinn hreinn og beinn er ótrúlegri en nokkur skáldskapur, eða það finnst þeim. 

untitledÞað er svo sem ekkert nýtt að útlendingar furði sig á þeim fjölmörgu náttúrundrum sem er að finna á Íslandi. Þegar ég kom inn í hið heimsfræga furðusafn Ripleys (Ripley´s belIeve it or not museum) í Flórída fyri mörgum árum, blasti við mér í anddyrinu risastór teikning af Hérðaskólanum á Laugarvatni. 

Í texta undir myndinni var fullyrt að þetta væri fyrsta hús í heimi sem byggt hefði verið og ráð fyrir því gert að hita það upp með jarðvarma einum saman. Ripley sem kom til Íslands á fyrri hluta síðustu aldar og teiknaði húsið, fannst  mikið koma til fyrirbæris sem er okkur heimafólki ósköp venjulegt og margir útlendingar vita núorðið um.

kuluskitur3-10Í hinum upplýsta internets-heimi sem við lifum í, þar sem öll þekking er við fingurgómana og googlið er véfréttin mikla, eru samt fáir sem vita af fyrirbærinu sem við köllum hér á Íslandi Kúluskít.

Í stórum hópi kunningja í kvöld minntist ég á þetta náttúruundur sem aðeins finnst í tveimur vötnum í heiminum, Mývatni og japanska vatninu Akan á Hokkao eyju. Allir viðstaddir drógu í efa að þetta væri satt. Kúlulaga skítur sem vex í breiðum???

Kannski var það íslenska nafnið sem gerði þetta svona tortryggilegt, (á ensku ball-shit eða shitball) enda líkt öðru sem þýðir bull (bullshit).

Nú vill svo til að það er til frábær netsíða á íslensku um kúluskít og með að sýna hana náði ég loks að sannfæra liðið. Svo var japanska nafnið auðvitað Googlað. Þeir sem ekki hafa séð kúluskít eða vilja fræðast um fyrirbærið geta nálgast þessa netsíðu  hér.


Kosið verður í júní samkvæmt frétt BBC

kveðjukossinnÍ sjónvarpsfréttum BBC í nótt var haft eftir ónefndum íslenskum ráðherra að trúlega yrði efnt til alþingiskosninga í júní mánuði.

Í fréttinni var fjallað nokkuð ýtarlega um mótmælin og sýnt var stutt viðtal við grímuklæddan kvennamann sem lét að því liggja að jafnvel þótt stjórnin segði af sér, væri það bara byrjunin. Þá var þess getið að mótmælendur væru almennt að bíða eftir því að dagsetning kosninga yrði ákveðin.

Það var einnig ljóst af fréttinni að samúð fréttamannsins með mótmælendum var all-mikil.

Nokkuð er um það í bresku blöðunum að farið er að líkja Bretlandi við Ísland og gerðir að því skórnir að Bretland muni skjótt finna sig í svipaðri stöðu og litla landið í norðri sem fór á hausinn.

Samúð með Íslendingum skín í gegnum greinarnar og t.d. mjög dregið í efa að Bretland hefði skellt hryðjuverkalögum á önnur lönd eins og Frakkland eða Þýskaland ef sama staða hefði komið upp hjá þeim og á Íslandi. - Þá undrast fjölmiðlafólk sig á hvar íslenskir athafnamenn finna enn peninga til að fjarfesta í breskum fyrirtækjum, jafnvel þeim sem komin eru í þrot eins og Woolwourth verslanirnar en 52 slíkar verslanir voru nýlegar keyptar af Baugi.


Íslenski forsætisráðherrann hrakinn frá völdum

Forsætisráðherra Íslands Geir Haarde og ríkisstjórn hans var hrakinn frá völdum í dag. Í kjölfarið á hruni efnahags landsins....... Geir Haarde frosætisráðherra Íslands rífur þing og boðar til kosninga semma í vor.... 

Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig fyrirsagnir fjölmiðlanna verða á morgunn eða einhvern næstu daga. Ríkisstjórnin er í raun fallin og það er formsatriði hvernig verður gengið frá því.

610xYfirvöld hafa spilað út síðasta spilinu, því sem aðeins átti að nota í nauðavörn. Þau hafa gefið fyrirmæli um að tvístra mótmælendum með táragasi.

Fyrsta stig, stöðug og sýnileg viðvera í bland við spjall er löngu liðið. Annað stig; að nota piparúða var gert á Gamlársdag og allar götur síðan. Þriðja stig að nota kylfurnar sömuleiðis degi seinna. Fjórða stig notkun táragass sem núna hefur gerst. Það er ekkert fimmta stig til.

Enginn lögreglumaður á Íslandi mun nokkurn tíman fást til að beina skotvopnum að mótmælendum þannig að úrræði lögreglunnar og ráðherrana sem stjórna henni eru á þrotum. Mótmælendur hafa sigrað.

Eina úrræði ríkistjórnarinnar ef hún vill ekki segja af sér, er að taka upp stjórnarhætti eins og Mugabe viðhefur í Zimbave.   En það getur aðeins orðið tímabundið því afleiðingar þess yrðu að Forsetinn mundi þurfa að beita neyðarlöggjöfinni.

Sögulegir tímar hafa runnið upp á Íslandi hvernig sem fer.


Fyrirgefðu að ég skuli hafa drepið þig

Teikning frá Gaza 2Drunurnar frá stórskotaliðinu og skriðdrekunum eru þagnaðar í bili. Leyniskytturnar horfnar úr hreiðrum sínum og þoturnar fljúga ekki eins oft yfir. Því ber að fagna. Gazaströnd hefur verið bombarderuð aftur á steinöld.

Og já, í þessari lotu dóu rétt um fimmtán hundruð Palestínumenn og þrettán úr röðum Ísraelsmanna.

Vopnahléið sem Ísraelar boðuðu eftir að nánast allar þjóðir heimsins höfðu skorað á þá að hætta blóðbaðinu kann vel að verða skammvinnt. Markmiðið, að útmá Hamas,  náðist víst ekki.

Teikning frá Gaza 3Og ó já, meðal þess sem þeir kalla á stríðsmáli "samhliða tjón" (collateral damage)  voru á þriðja hundrað börn. Allir harma það. Fyrirgefðu að ég skuli hafa drepið þig. Það var alls ekki meiningin. En þetta gerist bara í stríðum, þú veist.

Á meðan skytturnar biðu eftir skotmarki í yfirgefnum húsum á ströndinni, dunduðu þeir sér við að pára á veggina. Það þarf enga sálfræðinga til að lesa út úr þessum myndum. Þær eru af "samhliða tjóninu".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband