Lífið er yndislegt

The naked IcelandersTveggja mánaða dvöl á Íslandi senn á enda runnin og ég held heim til Bath í dag enda komið hífandi rok og farið að kólna í veðri.

Dvölin hefur verið afar ánægjuleg í flesta staði, enda hafa fólk og veðurguðir gert allt til að gera hana sem ánægjulegasta fyrir mig.

Nú get ég kannski  svarað spurningunni sem dundi á mér allan síðastliðin vetur af einhverju viti og af eigin reynslu, þ.e: hvernig er ástandið á Íslandi?

Ástandið á Íslandi er nokkuð gott miðað við efni og ástæður. Fólk hefur það gott, alla vega flestir. Nokkrir hyggja samt á útrás, en í þetta sinn verður það útrás meðal-Jónsins, ekki auðjöfranna. 

Þeim sem tókst að bjarga einhverjum af miljörðunum sínum úr hruninu eru hvort eð er flestir farnir frá landinu. Þeir sem eftir eru og einhvers meiga sín, leita nú leiða til að næla sér í bónusa og yfirborguð embætti við að stýra þrotabúum og innheimta gamlar skuldir. -

icelandgAlþýða manna tekur þessu með stakri ró. Það er eins og hún viti að það þýðir ekki lengur að mótmæla, þýðir ekki lengur að rífa kjaft, Þýðir ekki að treysta á pólitíkusana,  þýðir ekkert annað en að taka því sem að höndum ber eins og um náttúrhamfarir sé að ræða.-

Það er nefnilega komið í ljós að allt þetta sem fólki misbauð, t.d. sjálftaka lána úr sjóðum almennings sem aldrei verða borguð aftur, verða öll fyrirgefin, því öll voru þau veitt með löglegum hætti. Þess vegna munu engir verða sóttir til saka eða refsað á annan hátt en að þeir verða litnir hornauga á götum fyrst um sinn, ef þeir annað borð láta nokkuð sjá sig á þeim slóðum.

Vöruverð hækkar jafnt og þétt á landinu, kaupmáttur alþýðunnar minkar, vextir eru háir svo þeir sem eiga einhverja peninga í sjóðum græða áfram, ofurveðsett hús og heimili munu fyrr en varir verða seld á nauðungaruppboðum og yfirleitt er allt við það sama og fyrir hrun, þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari og lífið er yndislegt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég get tekið undir þetta hjá þér Svanur, við munum ekki dæma neinn..

Takk fyrir viðkynninguna í sumar !

Óskar Þorkelsson, 21.8.2009 kl. 00:42

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka þér sömu leiðis Óskar. Sájumst í næsta stríði :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.8.2009 kl. 00:45

3 identicon

Tek undir flest nema þetta "verða öll fyrirgefin, því öll voru þau veitt með löglegum hætti." Siðferðiskenndin ekki er ekki alveg útdauð hér, held (vona) ég. Lögin og lagatæknar munu þó sennilega vinna með siðleysingjunum. En það segir ekki alla söguna. Geymt en ekki gleymt og alls ekki fyrirgefið myndi ég segja.
Vona samt innilega að hægt verði að sækja siðleysingjana til saka.
Flott mynd btw.  (Sú seinni). Má ég stela henni?

Solveig (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 00:59

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur, hvernig við höfum látið vaða yfir okkur á skítugum skónum af allri stjórnsýslunni, þinginu og bankamönnunum.  Þeir (sjálftökufólkið) hlær örugglega daglega að undirlægjuhætti okkar lýðsins.  Þegar auglýst mótmæli vegna IceSlave voru í síðasta mánuði komu fyrsta daginn nokkur hundruð, svo nokkrir tugir svo bara fólk sem ég þekkti með nafni. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.8.2009 kl. 01:07

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Vonandi hefurðu rangt fyrir þér, Svanur minn en...

Takk fyrir viðkynninguna í sumar. Sjáumst sem fyrst aftur! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.8.2009 kl. 01:13

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Sólveig.

Lögin eru ekki alltaf í samræmi við siðferðiskennd fólks og reyndar alveg á skjön við hana stundum. Allt regluverk ESB og Íslands náði ekki að koma í veg fyrir mikið óréttlæti og mannlega harmleiki sem flestir eiga enn eftir að koma upp á yfirborðið.

Fólk hikaði ekki við að brjóta gegn anda laganna og reglnanna sem ætluð voru til að vernda land og þjóð fyrir öfgum auðhyggjunnar. -

Ég viðurkenni alveg að ég er dálitið kaldhæðinn þarna með "allt fyrirgefið" en þar á ég fyrst og fremst við dómsvaldið. Það getur ekkert aðhafst nema í krafti laganna og eftir því sem bankamennirnir segja sem veittu öll þessi lán, var allt gert með löglegum hætti.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.8.2009 kl. 01:15

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Leyfi mér að vera bjartsýnni en þú Svanur;  Hvers vegna?  Jú ef allt verður fyrirgefið og allt var "löglegt", þá eiga Íslendingar ekki skilið Ísland og Ísland á sannarlega betra skilið. 

Auðvitað er landinn að horfast í augu við margra ára lífskjarastreð, þetta eru ekki spennandi tímar á mælikvarða almennings, þó Þorgerður Katrín leggi allt annan skilning í orðið.

Verri lífskjör, en mælistika áranna  2004-2007 þarf heldur ekki að þýða neitt slæmt, sérstaklega ef þjóðfélagið og lífsgildin breytast. 

..........  sífellt dekur við dauða hluti, er dulbúið sálarmorð.

Þess vegna er ég bjartsýn. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.8.2009 kl. 01:19

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Jóna Kolbrún; Til að mótmæli virki þurfa þau að hafa skýr markmið. Það er mín skoðun að stjórnmálflokkarnir tóku íslensku þjóðina í gíslingu með Icesave málinu. Um leið rofnaði öll sú þverpólitíska eining sem einkenndi mótmæli vetrarins. Og af því að Íslendingar eru pikkfastir í gömlum aflóga hugsunarhætti flokkadrátta, fór sem fór og þú lýsir svo vel.

Auðvitað vona ég það líka kæra Lára Hanna að ég hafi rangt fyrir mér. Ég væri alveg tilbúinn til að horfast í augu við það. Það sem ég aftur á móti óttast er að  ef ég hef rétt fyrir mér, séu margir ekki tilbúnir til að horfast í augu við það.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.8.2009 kl. 01:44

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Jenný Stefanía og takk fyrir þetta framlag.

Ég met alls ekki alla hluti út frá efnislegu verðgildi þeirra og tek undir orð þín afullum hug að "sífellt dekur við dauða hluti, er dulbúið sálarmorð" . Það getur vel verið að hrunið hafi vakið fólk til vitundar um að efnishyggjan var orðin allt of ríkur þáttur í lífi okkar.  En ég held ekki að ákveðið sinnuleysi eða uppgjöf fólks fyrir endalausu pólitísku rausi, beri endilega vitni um að fólk hafi breytt um lífsskoðun.  Það er fyrst og fremst ráðleysi sem hér ræður för.

Stjórnmálamenn vita einfaldlega ekki betur en þeir gera. Sú fáviska nær til marga sviða, allt frá algjörri sjálfselsku og eiginhagsmunapoti til lélegra kunnáttu í mannlegum samskiptum. Og almenningur er einnig ráðalaus gagnvart frostklóm hins pólitíska valds.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.8.2009 kl. 01:57

10 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Tek undir þetta, og óttast jafnframt að við þær þjóðfélagslegu aðstæður sem nú hafa skapast og einkennast af "sárri leiðtogaþröng", þá muni koma fram tvær tegundir af leiðtoga:  Góður leiðtogi eða slæmur leiðtogi.  Þjóðverjar völdu slæman leiðtoga á sínum tíma, mega allar góðar vættir Íslands forða okkur frá að feta í þau spor.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.8.2009 kl. 02:09

11 identicon

Því miður er ég hræddur um að þú hafir 100% rétt fyrir þér !

Ég held að við Íslendingar séum föst í þeirri leti að ef það þarf að gera eitthvað þá mun einhver annar gera það. 

Loki (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 11:23

12 Smámynd: hilmar  jónsson

Góður pistill hjá þér Svanur og góð lýsing á þrælslund þjóðarinna.

Ég leyfði mér að vekja athyggli á þessum pistli á blogginu mínu, og birta svolítið af textanum þínum. kv..

hilmar jónsson, 21.8.2009 kl. 14:19

13 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Sum okkar eru því miður búin að fá okkur fullsödd af peningavaldagræðgissukkinu hér á landi og eiga þá ósk heitasta að flýja klakann.  Sem þú virðist hafa gert á einhverju tímaskeiði í lífi þínu.  En allflestir eru hnepptir hér í átthagafjötra og komast hvorki lönd né strönd.

Ég veit að ég mun seint gleyma þessum eilífu fréttum af fjármálasukki útrásarfávitanna og á enga ósk heitari en að þeir verði sóttir til saka fyrir glæpi sína, sem jafna má við landráð.

Vonandi batnar minni þjóðarsálarinnar eitthvað eftir þessar efnahagslegu hamfarir, sem fæst okkar eiga nokkra sök á.

Góða ferð til Bath, þú ert heppinn að þurfa ekki að vera strandaður á þessu skeri eins og við hin

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 21.8.2009 kl. 20:44

14 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir athugasemdirnar Sigrún, Hilmar og Loki.

Ég er reyndar kominn heim og er strax farinn að sakna ferska loftsins.

Svona er þetta, maður er aldrei ánægur.

God took and God gave,

The Icelenders got Icesave,

The British were given a boring clown,

Gordon nokkurn Brown. 

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.8.2009 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband