Færsluflokkur: Sjónvarp

Framhaldslíf!!!

Eyþór Ingi tryggði sér framhaldslíf í júróvisjón í kvöld með glæsilegum flutningi og framkomu. Hann minnti helst á frelsarann sjálfan með geislandi ásjónu og  útrétta arma á hæstu tónunum. Svo var lokaskotið af fingrum hans,  sótt beint í verk meistara Angelo þar sem Guð teygir sig í átt að Adam til að gefa honum líf. Allt með ráðum gert vafalaust. 

Svarti jakkinn umdeildi fór honum vel. Það var eins og hann væri kominn í sparifötin. Sá hvíti dáldið of-messíasarlegur.

Enn allt gekk upp í Malmö kvöld. Til hamingju með það Eyþór og co. 

Eftir sátu m.a. herliðarnir úr svissneska hjálpræðishernum sem voru skikkaðir til að fara úr einkennisbúningunum sínum. Er ekki frá því að þeir hefðu tekið sig betur út á sviðinu í þeim.

 


mbl.is Ísland komst áfram til úrslita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bonniebert Tylerdinck í Júró

Enn og aftur ætla Bretar að senda útbrunna  hasbín stjörnu sem fulltrúa sinn í júróvisjón eða sjálfa Bonniebert Tylerdinck sem hefur lag á því að láta manni finnast allt snúast í hausnum á manni eða vera að detta í sundur. Bonnie Tyler kom á sínum tíma til Íslands og mæmaði fyrir nokkur hundruð Íslendinga helstu lögin sín við litla hrifningu viðstaddra.

Bretar sem hafa afar blendnar tilfinningar til keppninnar, svo ekki sé meira sagt, geta greinilega ekki ákveðið sig hvort þeir vilji lýsa frati á keppnina eða sanna að þeir geti unnið hana á fornri frægð.

Ef hið seinna er ætlun þeirra kóróna þeir eflast gjörninginn með að senda konung hasbínanna, Paul McCartney til leiks á næsta ári. Bretar eru ein þeirra fjögra stofnþjóða júróvisjón og komast því sjálfkrafa í úrslitakeppnina og þurfa því ekki eins og Íslendingar að keppa þar um sæti. Whisky rödd Tyler mun því ekki etja kappi við gospel útsetninguna á I am cow framlagi Íslendinga, nema að það lag komist áfram í forkeppninni sem verður að teljast ólíklegt ef marka má veðbankaspár.

Ef þær spár ganga eftir þurfa hvorki Íslendingar eða Paul McCartney að kvíða ferðakostnaðinum á næsta ári því keppnin verður haldin annað hvort í Osló eða i Kaupmannahöfn.


mbl.is Bonnie Tyler í Evróvisjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

61 stig frá 11 löndum

Á meðan að lagið sem Íslendingar gáfu 12 stig vann keppnina fengum við aðeins 61 stig frá 11 löndum sem skilaði okkur 20 sætinu í kvöld. Þegar að útlitið var sem svartast og horfur á að við vermdum neðsta sætið komu Ungverjar okkur til bjargar. 12 stig frá þeim kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Norðurlöndin stóðu sig ágætlega gagnvart okkur fyrir utan Svíþjóð sem gaf okkur 1 stig. Stigin 10 frá Svisslandi komu einnig dálítið á óvart.

Franska lagið sem spáð var sigri af flestum veðbönkum var á svipuðu róli og við en mest kom á óvart ítalska framlagið. Krakkarnir fá Asarbaujan sem búa í norður London eru sem sagt sigurvegarar kvöldsins og næsta júróvisjón verður sem sagt haldin á spildunni út við Kaspíahafið milli Rússlands og Íran. Mikið er annars Evrópa orðin stór.

Sjaldan eða aldrei voru stigagjafir þjóðanna jafn fyrirsjáanlegar. Þessi blanda af atkvæðum almennings og valnefnd sem átti að koma í veg fyrir grófar Þjóðaklíkukosningar, er greinilega ekki að virka.


mbl.is Ísland endaði í 20. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir Sjonna sveipaðir í appelsínugult

Sjonni-BrinkÞað er ekki seinna vænna að spá aðeins í gengi Vina Sjonna í Juróvisjón. Einhvern veginn finnst mér eins og stemmningin í kring um lagið og strákana sé lágstemmdari á landinu en vaninn er um lög og flytjendur okkar í júróvisjón yfirleitt.

Margir spáðu að lagið mundi ekki komast áfram í úrslitakeppnina og helsti júróvisjón spekingur landsins varð að éta hattinn sinn eftir að þessir hressu fullorðnu drengir gerðu þá hrakspá að engu á þriðjudagskvöldið og skutu um leið ref fyrir rass lögum sem talin voru örugg áfram.

Myndbandið af strákunum og Þórunni  þegar þau heyrðu að lagið hefði komist áfram er frábært og auðsætt að fögnuðurinn er einlægur. Það sýnir þá til að byrja með alla guggna og vondaufa núa saman höndum. En svo allt í einu spretta þeir á fætur,  hoppandi og öskrandi af fögnuði.

Vel má samt vera að best fari á frekar lágstefndri stemmningu í þetta sinn. Oft höfum við farið offari og ætlað að vinna keppnina á ákafanum og bjartsýninni einni saman. Það hefur reyndar næstum því gengið upp tvisvar sinnum, en aldrei samt náð að senda okkur alla leið í 1. sæti.

Mér segir samt hugur um að gamli júróvisjón fiðringurinn muni ná að grípa um sig þegar líður á daginn og fleiri en ekki verði límdir fyrir framan sjónvarpið í kvöld. Og hver veit, nema að hógværðin hafi bara góð skammtafræðileg áhrif á Evrópu og lagið nái mun lengra en nokkur þorði að vona. 

Spár veðbanka í Evrópu gefa Íslandi ekki mikla von um að vinna keppnina og staðsetja lagið á kunnuglegum slóðum, eða í 16-18 sæti. Það kætir kannski þá sem oft hafa haldið því fram að Ísland gæti ekki haldið keppnina vegna skorts á boðlegu húsnæði. Þær mótbárur hef ég aldrei skilið. Írar héldu eitt sinn keppnina í smáþorpi þar sem reiðhöll var breytt í risastórt útsendingarstúdíó. Eitthvað er jú til af reiðhöllum á Íslandi.

Æfingar fyrir lokasýninguna í kvöld gengu vel hjá Íslendingunum og vefsíða Júróvisjón segir að þeir gefi frá sér "góðar bylgjur". Á risastórum LED skjáum í bakgrunni munu appelsínugulir litir og tannhjól skapa hlýju sem hæfir lagi og flytjendum vel.  Texti lags Sjonna er eins og allir vita um hvernig best sé að grípa tækifærin og njóta lífsins á meðan tækifæri er til þess.  -  Í þeim anda samdi Sjonni lagið og í þeim anda er lagið flutt. - Í  þeim anda ætla ég að horfa á keppnina og hringja inn eins oft og ég get til að greiða Íslandi atkvæði mitt og pína alla kunningja mína hér í Bretlandi sem ég næ í, til að gera slíkt hið sama.


mbl.is Sjáumst í Reykjavík 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar elska Ísland um þessar mundir

Ég hef grun um að Bretar hafi hringt grimmt inn til að kjósa lagið hans Sjonna. Breski þulurinn sagði söguna af laginu á þann hátt að það smellpassaði við stemmninguna hjá strákunum á sviðinu. Ef að þulir annarra landa hafa gert hið sama, og halda áfram uppteknum hætti á laugardaginn verður íslenska lagið ofarlega.  - Að auki er lagið sjálft ágætis hvíld frá öllu teknósuðinu frá flestum hinna landanna. -

Annars er Ísland að gera það virkilega gott í Bresku sjónvarpi þessa dagana, ef hægt er að taka þannig til orða.

BBC ákvað að efna til íslenskrar viku á BBC 4 og þar er verið að sýna íslenskt efni upp á hvern dag. Vikan hófst með Jar City, í gærkveldi var sýnd einhver heimildarmynd um og með Ragnari Axels ljósmyndara, og í kvöld heimildamynd gerð af BBC um Íslendingasögurnar. 

Þá hafa þættir af Næturvaktinni með Jóni Gnarr einnig verið sýndir á hverju kvöldi. Mér heyrist fólk vera hrifnast af þeim. Gnarrinn er að slá í gegn á Bretlandi líka.  Myndin um Raxa var tilgerðarleg og fékk ekki sérlega góða dóma. Fólk var á því að það hefði verið fróðlegra að heyra meira í fyrirsætum ljósmynda hans en honum sjálfum.

Álit fólks um annað á eftir að koma í ljós.


mbl.is „Þetta var stríðnin í Sjonna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of strekktur, of bótoxaður og of gamall

Steven-SeagalFyrir stuttu sá ég heimildarmynd um Steven Seagal. Ég hætti að fylgjast með ferli þessa fyrrum bardagalista-þjálfara einhvern tíman á níunda áratugnum, eftir að ljóst var að magnið skiptir hann meira máli en gæðin þegar kom að gerð kvikmynda.

Satt að segja hélt ég að hann væri löngu hættur að leika í kvikmyndum.

Nei, ekki alveg. Þrátt fyrir að hann sé orðinn allt of þungur, of strekktur og bótoxaður, allt of gamall og þar af leiðandi allt of luralegur til að geta leikið einhverja hasarhetju, þráast hann við.

Þessir sjónvarpsþættir sem fréttin talar um, eru einskonar leiknir raunveruleikaþættir þar sem Seagal er gerður að alvöru löggu, eru augljóslega dreggjarnar í sjónvarpsþáttagerð í Bandaríkjunum í dag. Slæmt þegar leikarar, sérstaklega þeir sem ekki hafa annað til bruns að bera en að líta þokkalega út, þekkja ekki sinn vitjunartíma.


mbl.is Seagal réðst á heimili á skriðdreka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oh, hvað er að þessu liði?

Hvernig tilfinning var þaðFólk lætur mismunandi hluti fara í taugarnar á sér. Þessa dagana eru það spurningar fréttamanna sem ég læt pirra mig. 

Ég á einkum við sjónvarpsfréttamenn  sem ekki kunna að spyrja viðmælendur sína að Því sem skiptir máli, mjög líklega vegna þess að þeir vita ekki nóg til að bera á það skynbragð hvað gerir það og hvað ekki.

Ein spurning umfram aðrar fer samt mest í mínar fínustu. Einkum vegna þess að við henni er ekki til svar sem er í senn skynssamlegt og kurteist.

 Ég á auðvitað við klisjuna; Og hvernig tilfinning var það að.....?

Einhvern veginn hefur þessi spurning, sem áður tilheyrði örstuttum viðtölum við fegurðardísir, fólk sem hafði unnið eitthvað í happdrætti eða móða og másandi unglinga sem höfðu nýlega sloppið undan snjóflóði, orðið að fullgildri spurningu sem látinn er flakka í alvöru viðtölum við alvöru fólk.

Helst dettur manni í hug að spyrlarnir séu að reyna að finna eitthvað mótvægi við tilfinningadauðann sem skín út úr augum þeirra sjálfra, með því að reyna sjúga örlítinn trega eða smá glaðværð út úr viðmælendum sínum. Eða það sem er enn hræðilegra, kannski er ótölulegur fjöldi fólks sem situr stjarft heima í stofu og nærist á svona sjónvarps-geðshræringum eins og blóðsugur á bláæð.

Hvernig tifinning var það þegar þú sást dóttir þinni nauðgað?...hvernig tilfinning var það þegar þú heyrðir að konan þín væri enn á lífi?....hvernig tilfinning er það að vita að það varst þú sjálfur sem kveiktir í húsinu þínu?

Jafnvel góðir fréttamenn sem rembast við að kreista einhver tilfinningaleg viðbrögð út úr viðmælendum sínum,  freistast til að spyrja þessarar spurningar aftur og aftur án þess að hafa vit á að klippa hana svo í burtu fyrir útsendingu, eins og þeir vitanlega ættu að gera.

Einkennilegasta svarið sem ég hef heyrt um við henni til þessa, er frá konu einni sem sökuð var um að hafa banað eiginmanni sínum með skammbyssunni hans;

Fréttakona; Hvernig leið þér eftir að hafa skotið manninn þinn?

Svar; Ég var glorhungruð.


"Him bad man, Kemo sabe"

MatchboxSöfnunarárátta var algeng meðal barna og unglinga í Klefavík upp úr 1960 og hefur líklega verið það víðar. Stelpur söfnuðu dúkkulísum, glansmyndum og servéttum. Strákar söfnuðu Matccbox bílum, frímerkjum, hasarblöðum og leikaramyndum. Reyndar söfnuðu einhverjar stelpur líka leikaramyndum, en þær höfðu ekki neinn sans fyrir verðmæti þeirra, eins og strákarnir. Það var t.d. auðvelt að fá í býttum frá þeim sjaldgæfa Bonanza myndir fyrir drasl eins og Connie Stevens, Brigitte Bardot, Ricky Nelson eða Fabian.

Leikaramyndirnar voru seldar í versluninni Kyndli sem var rekinn af Jósafati Arngrímssyni. Sundum fengust þær líka í Sölvabúð. Fyrst verslaði Jósafat fyrir aftan Kaupfélagið á Hringbrautinni og síðar við Hafnargötuna. Hann seldi vel af þeim því leikaramyndirnar komu í 10 mynda búntum og þar sem aðeins ein þeirra var sjáanleg var mikill galdur að vita nákvæmlega hvaða myndir leyndust í hverju búnti. Stundum þurfti að kaupa mörg búnt til að fá myndina sem þú vildir eignast.

Combat hasarblaðFlestir leikararnir voru bandarískir og vel kunnir  þeim sem höfðu aðgang að kanasjónvarpinu úr þáttum eins og Perry Mason með Reymond Burr sem leysti öll mál á skrifstofunni heima hjá sér, Combat með Vic Morrow sem reykti ótrúlega krumpaðar sígarettur og var alltaf órakaður og Bonanza með Lorne Greene, Pernell Roberts, Dan Blocker og Michael Landon sem seinna grét svo mikið á sléttunni.

Hasarblöðin var aftur á móti erfiðara að nálgast, sérstaklega Superman og Spiderman. Þau eftirsóttustu (Combat blöðin) komu ofan af velli og maður þurfti helst að þekkja einhvern kanastrák sem var tilbúin til að selja blöðin sín, eða það sem var enn betra, einhvern sem vann uppá velli og hafði einhver ráð með að nálgast dýrgripina fyrir lítið sem ekkert.

Stærsti markaðurinn fyrir leikara, hasarblöð og servéttur var fyrir utan Bjössabíó (Nýja Bíó) á sunnudögum áður en þrjúbíóið hófst. Að mestu var um að ræða "býtti" markað, en sumir seldu þó sitt fyrir beinharða peninga.

Meðal sjaldgæfari leikaramyndanna og þess vegna verðmætari að sjálfsögðu, voru myndir af Clayton Moore og Jay Silverheels (Tonto) þeim sem léku í  The Lone Ranger sjónvarpsþáttunum.

The-Lone-RangerSagan af einfaranum grímuklædda hófst með útvarpsþáttum 1933 og var sögð áfram í sónvarpsþáttum frá 1949.

Auðvitað var einfarinn ekkert sérstaklega einmanna, því fljótlega var kynntur til sögunnar indíáninn Tonto (merkir "kjáni" á spænsku) sem varð dyggur förunautur þessa diskó klædda marghleypugirta riddara og laganna varðar sem enginn vissi hver í raun og veru var eða hvaðan kom.

Tonto kallaði hann ætíð Kemo sabe sem átti að vera indíánamál og merkja "traustur félagi".

"Him bad man Kemo sabe"var algeng setning úr munni Tonto sem sjálfur var svo miklu betri en enginn þegar kom að átökunum. 

Hestur riddarans prúða var heldur enginn tunnumatur. Hann hét Silver og var sérlega vitur, hvítur og frár.

Hi-yo Silver hrópaði einfarinn í hvert sinn sem vildi hleypa á skeið og um leið var spilað af krafti  endastefið úr forleiknum að Vilhjálmi Tell eftir Gioachino Rossini uns hetjan hvarf í moldarmökkinn.

Vinsældir þáttana voru með ólíkindum og í Bandaríkjunum er enn verið að sýna þá á sumum stöðvum. Þá voru einnig  gerðar seríu-kvikmyndir um hetjuna bæði fyrir sjónvarp og kvikmyndahús.


Hvað gerir maður nú um helgar

Það munað litlu að óvinum X-factors, eða á ég að segja óvinum Simons Cowell, tækist að eyðileggja keppnina með því að halda inni í henni alllengi hinum vita-laglausa spilagosa Wagner. Í stað hans þurftu áhorfendur sem aldrei hafa verið fleiri að X-factor, að sjá á bak nokkrum frábærum keppendum, allt of snemma.

Mörgum er í nöp við völd Cowell yfir breska tónlistarmarkaðinum og er þess skemmst að minnast þegar milljónir tóku sig saman um að hala niður gamla smellinum Killing in the Name með Rage Against the Machine til að hamla því að x-factor sigurvegarinn færi ekki sjálfkrafa í fyrsta sætið yfir jólin 2009. 

Ekkert slíkt mun gerast yfir þessi jól og Simon og hans lið; Cheryl Lloyd, Mary Byrne, Rebeccu Ferguson , One Direction, með Matt í fararbroddi, mun bera herðar og höfuð yfir annað tónlistarfólk á tónlistar-sölulistunum Bretlands þetta árið.

Þrátt fyrir þessa vitleysu með Wagner, eru flestir á því að keppnin í ár hafi verið sú besta fram að þessu og að hver og einn af þeim sem komust í úrslitin hefðu sómt sér vel sem sigurvegarar. Auðvitað datt maður sjálfur ofaní í X-faxtor svartholið um hverja helgi, þrátt fyrir góðan ásetning um að gera það ekki. Spurning hvað maður tekur sér nú fyrir hendur :(


mbl.is Fyrrum málari sigraði í X Factor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætti að malbika yfir Ísland

Ricky GervaisRicky Gervais, grínistinn sem er hvað kunnastur fyrir að semja og leika í gamanþáttunum The Office, er að leggja af stað í enn eina "uppistand" ferðina um Bretland. Samkomurnar eru auglýstar í sjónvarpi og sýnir auglýsingin Ricky gera stólpagrín að Íslandi. Svona fer kappinn orðum um landið bláa;

"Hvað er þetta með Ísland, hver er tilgangurinn með þessu krummaskuði? Ég meina, landið er gjaldþrota. Það ætti að malbika yfir allt klabbið og búa til úr því almennileg bílastæði fyrir restina af Evrópu. Ég meina, svona er landið aðeins sóun á rými".

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband