"Him bad man, Kemo sabe"

MatchboxSöfnunarárátta var algeng meðal barna og unglinga í Klefavík upp úr 1960 og hefur líklega verið það víðar. Stelpur söfnuðu dúkkulísum, glansmyndum og servéttum. Strákar söfnuðu Matccbox bílum, frímerkjum, hasarblöðum og leikaramyndum. Reyndar söfnuðu einhverjar stelpur líka leikaramyndum, en þær höfðu ekki neinn sans fyrir verðmæti þeirra, eins og strákarnir. Það var t.d. auðvelt að fá í býttum frá þeim sjaldgæfa Bonanza myndir fyrir drasl eins og Connie Stevens, Brigitte Bardot, Ricky Nelson eða Fabian.

Leikaramyndirnar voru seldar í versluninni Kyndli sem var rekinn af Jósafati Arngrímssyni. Sundum fengust þær líka í Sölvabúð. Fyrst verslaði Jósafat fyrir aftan Kaupfélagið á Hringbrautinni og síðar við Hafnargötuna. Hann seldi vel af þeim því leikaramyndirnar komu í 10 mynda búntum og þar sem aðeins ein þeirra var sjáanleg var mikill galdur að vita nákvæmlega hvaða myndir leyndust í hverju búnti. Stundum þurfti að kaupa mörg búnt til að fá myndina sem þú vildir eignast.

Combat hasarblaðFlestir leikararnir voru bandarískir og vel kunnir  þeim sem höfðu aðgang að kanasjónvarpinu úr þáttum eins og Perry Mason með Reymond Burr sem leysti öll mál á skrifstofunni heima hjá sér, Combat með Vic Morrow sem reykti ótrúlega krumpaðar sígarettur og var alltaf órakaður og Bonanza með Lorne Greene, Pernell Roberts, Dan Blocker og Michael Landon sem seinna grét svo mikið á sléttunni.

Hasarblöðin var aftur á móti erfiðara að nálgast, sérstaklega Superman og Spiderman. Þau eftirsóttustu (Combat blöðin) komu ofan af velli og maður þurfti helst að þekkja einhvern kanastrák sem var tilbúin til að selja blöðin sín, eða það sem var enn betra, einhvern sem vann uppá velli og hafði einhver ráð með að nálgast dýrgripina fyrir lítið sem ekkert.

Stærsti markaðurinn fyrir leikara, hasarblöð og servéttur var fyrir utan Bjössabíó (Nýja Bíó) á sunnudögum áður en þrjúbíóið hófst. Að mestu var um að ræða "býtti" markað, en sumir seldu þó sitt fyrir beinharða peninga.

Meðal sjaldgæfari leikaramyndanna og þess vegna verðmætari að sjálfsögðu, voru myndir af Clayton Moore og Jay Silverheels (Tonto) þeim sem léku í  The Lone Ranger sjónvarpsþáttunum.

The-Lone-RangerSagan af einfaranum grímuklædda hófst með útvarpsþáttum 1933 og var sögð áfram í sónvarpsþáttum frá 1949.

Auðvitað var einfarinn ekkert sérstaklega einmanna, því fljótlega var kynntur til sögunnar indíáninn Tonto (merkir "kjáni" á spænsku) sem varð dyggur förunautur þessa diskó klædda marghleypugirta riddara og laganna varðar sem enginn vissi hver í raun og veru var eða hvaðan kom.

Tonto kallaði hann ætíð Kemo sabe sem átti að vera indíánamál og merkja "traustur félagi".

"Him bad man Kemo sabe"var algeng setning úr munni Tonto sem sjálfur var svo miklu betri en enginn þegar kom að átökunum. 

Hestur riddarans prúða var heldur enginn tunnumatur. Hann hét Silver og var sérlega vitur, hvítur og frár.

Hi-yo Silver hrópaði einfarinn í hvert sinn sem vildi hleypa á skeið og um leið var spilað af krafti  endastefið úr forleiknum að Vilhjálmi Tell eftir Gioachino Rossini uns hetjan hvarf í moldarmökkinn.

Vinsældir þáttana voru með ólíkindum og í Bandaríkjunum er enn verið að sýna þá á sumum stöðvum. Þá voru einnig  gerðar seríu-kvikmyndir um hetjuna bæði fyrir sjónvarp og kvikmyndahús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Elska svona nostalgiu. Kannast við þetta allt.

hilmar jónsson, 9.1.2011 kl. 16:48

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Við strákarnir sem sóttum Austurbæjarbíó og Stjörnubíó í Reykjavík á þessum árum skiptum á öllu þessu, sem þú nefnir til sögunnar Svanur Gísli. En við versluðum líka með Sígildar sögur, hasarblaðaútgáfu, sem gaf börnum innsýn í heimsbókmenntir og ævintýri. Barst þetta aldrei til Keflavíkur?

Þetta var á þeim árum þegar Davíð Oddsson reif af miðunum við innganginn í Austurbæjarbíói, sá sem íslenskir vinstrimenn hata mest af öllum hin síðari ár.

Gústaf Níelsson, 10.1.2011 kl. 00:06

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir þetta Gústaf. Ég slapp alveg við Davíð því ég bjó suður með sjó <ar sem Fyrst Bjössi og svo Árni Sam. tengdasonur hans rifu af miðunum og Jón Ólafsson týndi upp glerin í salnum á milli sýninga.  Sígildu sögunum man ég vel eftir, þótt þær þóttu ekki alveg gild býttavara í bíó Keflavík. 

Takk fyrir þetta. 

Svanur Gísli Þorkelsson, 10.1.2011 kl. 01:03

4 Smámynd: Gústaf Níelsson

Já og enn rífur Árni Sam. af miðunum og Jón Ólafsson setur vatn á glerin, Svanur Gísli. Sígildu sögurnar standa enn fyrir sínu, þótt ekki þættu þær "kúrtúrell" suður með sjó, eins og ráða má af orðum þínum um skiptagildi þeirra, á þessum tíma.

Davíð Oddsson rífur þó ennþá, þótt ekki væru nema plástrarnir, af þessari þjóð, sem límdir hafa verið á hana af Steingrími J. og Jóku Sig. 

Gústaf Níelsson, 10.1.2011 kl. 01:19

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Stjórnmálamenn er flestir góðir skrumarar Gústaf eins og þú veist og mestur þeirra og klárastur í skrumi er Davíð Oddsson sem nú hefur komið sér sérstaklega fyrir hjá fjölmiðli til að geta haldið áfram  sínum pólitíska skrumi þótt hann segist hafa yfirgefið stjórnmálin opinberlega.

Svanur Gísli Þorkelsson, 10.1.2011 kl. 01:43

6 Smámynd: Gústaf Níelsson

Já, Svanur Gísli, satt er að þú upphófst þessa skrumumræðu. Það er rangt hjá þér að flestir stjórnmálamenn séu góðir skrumarar, en margir þeirra eru það að sönnu. Davíð Oddsson er lélegur skrumari, hefur aldrei lagt sig sérstaklega eftir skrumi, þótt pólitískir andstæðingar hans haldi því fram, sem eðlilegt er í áróðursskyni. Og auðvitað er það hrein grunnhyggni að halda því fram að hann hafi komið sér fyrir á fjölmiðli í einhverjum skrumtilgangi. Sjónarmið af þessu tagi er ekki málefnalegt. Auðvitað tekur hann þátt í stjórnmálaumræðu dagsins sem ritstjóri Mogga, þótt hann hafi yfirgefið starfsvettvang stjórnmálamannsins, sem kjörinn er til slíkra starfa af almenningi. Þótt margir vilji svipta hann mannréttindum, búum við þó ennþá í réttarríkinu, hvað sem síðar kann að verða.

Smekkur manna er að vísu misjafn, en talandi um skrum stjórnmálanna, þykir mér sem Davíð Oddsson, komist ekki með tærnar þar sem pensjónistinn Svavar Gestsson hefur hælana í því efni. Erum við ekki örugglega sammála?

Gústaf Níelsson, 10.1.2011 kl. 02:30

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Og ég sem hélt að það hefðir verið þú sem læddir þessu pólitíska skrumi inn í umræðna með þessari setningu þinni Gústaf ;

Davíð Oddsson rífur þó ennþá, þótt ekki væru nema plástrarnir, af þessari þjóð, sem límdir hafa verið á hana af Steingrími J. og Jóku Sig. 

Að deila um hvor er meir skrumari, Davíð eða Svavar er líka skrum Gústaf.

Svanur Gísli Þorkelsson, 10.1.2011 kl. 03:45

8 Smámynd: Gústaf Níelsson

Já þessi umræða gæti hæglega verið skólabókardæmi um upphafið á skruminu í samræðu manna. Lærdómsrík fyrir æsku og framtíð okkar smáu þjóðar. Mér sýnist staðan þó vera 1:0 fyrir undirritaðan. Um þetta er þó óþarft að vera sammála.

Og hvernær varð hvöss samfélagsgagnrýni að skrumi? Um þetta verðum við líkast til ekki sammála og óþarfi af mér auðvitað að vera að bera þá saman Svavar Gestsson og Davíð Oddsson; hálfgerð ósmekkvísi hjá mér.

Gústaf Níelsson, 10.1.2011 kl. 04:05

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hvöss samfélagsgagnrýni er ekki sport Ágúst. Þeir sem t.d. segja, "eitt núll fyrir mér" eru klárir skrumarar, ekki satt :)

- Annars er þetta orð "skrumar" sótt á síðu þína þar sem lýsir því  yfir að þér misliki það mikið. Það er til vansa fyrir mann sem vill berjast gegn skrumi að hann sjái ekki sér muninn á skrumi og "hvassri samfélagsgagnrýni".

Svanur Gísli Þorkelsson, 10.1.2011 kl. 09:08

10 Smámynd: Gústaf Níelsson

Ekki batnar það Svanur Gísli. Nú sýnist mér staðan vera orðin 2:0 fyrir undirritaðan.

Gústaf Níelsson, 11.1.2011 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband