Færsluflokkur: Heimspeki

Hin leyndardómsfullu skilaboð Jóns Gnarr útskýrð

Ég er ekki hissa þótt Jón Gnarr sé hrifinn af Múmínálfunum og trúi á þá. Horft á svona úr fjarlægð svipar persónuleika Jóns mjög til Múmínpabba. Hann er að undirlagi frekar dapur en dútlar sér við skrif, heimspeki og hefur í frami ýmsa listræna tilburði af og til. 

Þá ber þess að gæta hver staða Múmínpabba er í sögunum. Eins og fram kemur í skemmtilegri úttekt á Múrnum er Múmínpabbi  "í algjöru aukahlutverki í múmínálfabókunum, að einni undanskilinni - Eyjunni hans Múmínpabba (á sænsku "Pappan och havet"; á finnsku "Muumipappa ja meri"). Þar lendir karlinn í skæðri miðaldrakrísu, sem leiðir til þess að hann dregur fjölskylduna með sér út í nálæga eyju þar sem hann hyggst vinna mikil bókmenntaleg afrek. Öllum mátti ljóst vera að þessi ferð yrði ekki til fjár, en um síðir tekst Múmínpabba að komast í sátt við líf sitt og fjölskyldan getur snúið aftur heim í dalinn, sterkari en fyrr. - Þótt afar lítið sé birt úr ritverkum Múmínpabba í bókaflokknum, getur engum dulist að hann er fullkomlega hæfileikalaus rithöfundur, sem eykur einungis á dýpt persónunnar í sögunni."

Þetta á nokkuð vel við stöðu lands og þjóðar og Jón Gnarr er einmitt líkamningur og lifandi táknmynd hennar, svona raunverulegur fjallkall.

Nú hef ég ekki hugmynd um hvaðan Tove Jansson fékk nafnið á álfunum þ.e. "Múmin". En sé það t.d. tekið úr arabísku og kóraninum þar sem orðið kemur oft fyrir og þýðir "átrúandi" og á við um þann sem beygir vilja sinn undir vilja Guðs, geta þetta verið hárfín skilaboð há borgarstjóranum.

Jón Gnarr er e.t.v. að segja okkur svona undir rós að hann sé tilbúnn til að beigja vilja sinn undir vilja ES.


mbl.is Múmínpabbi hvetur Íslendinga til að gerast aðilar að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grefill fær lánaða bloggsíðu á blog.is

Áfram heldur bloggsápan um þá Kristinn Th. og Grefil. Margir munu telja þessa uppákomu storm í vatnsglasi en fyrir þeim Kristni og Grefli er þetta mikið alvörumál. Nokkrir bloggarar, þar á meðal ég, hafa fjallað um málið og hafa þeir félagar verið duglegir við að hnýta í hvern annan í löngum athugasemdahölum.

Um hríð virtist sem sættir væru að nást, en þær fóru út um þúfur. Nú hefst væntanlega nýr kafli því það nýjasta í söguþræðinum sem hófst með illa skipulögðum og enn ver útfærðum kappræðum á síðu Kristins, er að Grefill hefur fengið að láni vefsíðu og kennitölu félaga síns Kristjáns Sigurjónssonar og bloggar nú þar undir heitinu Grefillinn sjálfur.


Herra trúaður

Klerkar heimsins eru samir við sig, sama hvaðan þeir koma og hverrar trúar þeir eru. Þeir hefja sig upp í predikunarstólana yfir almúgann til að leiða hann í allan sannleikann og þykjast hafa til þess eitthvert umboð í krafti almættisins. Eins og verða vill afvegaleiða þeir marga, enda aðeins breyskir menn, þegar allt kemur til alls. 

Trúarskilningur klerka nær yfirleitt afar stutt, svona rétt ofaní eigin buddu.  Alla vega aldrei það langt að þeir sjái að í þeirra eigin trúarritum er staða (klerkastéttin)  þeirra yfirleitt fordæmd og ekki stafkrók þar að finna sem réttlætt gæti sjálftöku þeirra á guðlegu umboði til  túlkunar trúarinnar fyrir aðra eða einhverra embættisverka yfirleitt.

Í Malasíu keppa þeir í þessum ófögnuði um " Imam Muda" titilinn í nokkurskonar raunveruleika þáttum. Sigurvegarinn þetta árið heitir Muhammad Asyraf Mohd Ridzuan og hlýtur að launum stöðu sem bænakallari í einni af helstu moskum Kuala Lumpur. Þá fær hann frýja pílagrímsferð til Mekka, styrk til náms í Sádi Arabíu, nýjan bíl, fartölvu og eitthvað af reiðufé. Allt eru þetta fín verðlaun fyrir það að geta tónað kóraninn. -


mbl.is Krýndur „Ungur trúarleiðtogi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt hatur

120px-Inferior_frontal_gyrus_animation_smallPólitík er skrýtin tík og þeir sem kjósa að eiga samræði við hana smitast oft af einhveri óáran. Ein alvarlegasta sýkin sem pólitík-gusar eiga á hættu að smitast af er viðvarandi óbeit (oftast á öðru fólki) blönduð hræðslu og vanmáttarkennd. Í daglegu tali er þessi pest kölluð hatur.

Pólitískt hatur lýsir sér á seinni stigum ekki ósvipað og kynsjúkdómurinn sáraveiki. (Sýfilis). Sóttin leggst á heilan og getur framkallað ofstækisbrjálæði og ofskynjanir. 

Þegar einhver hatar má líka greina áhirf þeirra geðhrifa í ákveðnum stöðvum í heilanum og áhrifin eru svipuð, þeir sjá óvini í hverju horni, samkeppnisaðila meðal flokksfélaga og erkióvini meðal þeirra sem ekki tilheyra flokkinum.

Pólitík-gusar sem hata þykir sjálfsagt að ráðast að fólki beint og brigsla þeim um lygar og hvers kyns óheiðarleika eins og það sé ekkert tiltökumál. Þetta eru varnaviðbrögð sem heilinn kallar á þegar hann heldur að sér sé ógnað og veit jafnframt að hann er í veikri stöðu.

Hatrið er svo sterkt að ef viðkomandi er leitt fyrir sjónir með góðum rökum að þeir hafa rangt fyrir sér, eiga þeir til að herða enn róðurinn og fabúlera áfram þangað til þeir hafa málað sig algjörlega út í horn. Þegar þeim verður það ljóst, skella þeir venjulega skuldinni á pólitíkina sjálfa og segja sem svo; ja allt er leyfilegt í ástum og stríði og svona er pólitíkin.


Af hverju er hann svona óhamingjusamur?

Þegar að börn fá ekki það sem þau vilja reyna þau oft foreldra sína með því að grenja og láta illa. Sum jafnvel reyna að skálda upp einhverjar sögur til að réttlæta hegðun sína. Góðir foreldrar eru fljótir að átta sig "heimtufrekjunni" og ef þeir bregðast rétt við eru börnin einnig fljót að venja sig af þessu. Í uppeldinu er þetta nauðsynlegt stig til að  börn læri sjálfsaga og tillitssemi.

Það er frekar sjaldgæft að þessi bernskubrek fylgi fólki óheft yfir á fullorðinsárin, en kemur þó fyrir. Þegar það gerist einkennist framkoma fólks af frekju og yfirgangssemi. Ef að viðkomandi nær að koma sér fyrir flokkspólitík þar sem fólki ber skylda til að sýna hollustu við flokkinn,  túlka margir þennan ágalla sem festu og röggsemi. -

Fullorðið fólk sem ekki fær það sem það vill og er haldið þeim persónugalla að geta ekki látið neitt á móti sér, er yfirleitt líka óhamingjusamt. Ekki bara vegna mótlætisins sem það verður að þola heldur einnig vegna þess að jafnvel þótt það fái vilja sínum framgengt, finnur það fyrir sama tómleikanum inni í sér og áður.

Þegar að pólitíkusar í pontu alþingis reyna að ná sér niðri á andstæðingi sínum með fölskum áburði sem síðan er rækilega hrakinn en þeir þráast samt við með barnslegri heimtufrekju er það merki um slíkt tómarúm í sálinni.


mbl.is Vænd um spillingu og lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grín og alvara renna saman í eitt

Það eru að renna tvær grímur á borgarbúa í Reykjavík. Einkum þá sem kusu Besta flokkinn. Þeir reyna að láta á engu bera, vona að enn sé of snemmt sé að dæma.  En hinn grímu og grandalausi Jón Gnarr hefur ruglað þá í ríminu.

Það er vegna þess að flestir gera mun á gríni og alvöru en Jón Gnarr ekki?  Hann er tvíhöfða þursinn  fyrir hverjum grín og alvara hafa runnið saman í eitt.  Aðalmálið er að allt sé fyndið, hvort sem það er sagt í gríni eða alvöru.

Á meðan að almenningur bíður þess sem verða vill, finna Jón Gnarr og félagar sig í einstæðri stöðu. Þeir geta nefnilega sagt hvað sem er án þess að þurfa að bera sérstaka pólitíska ábyrgð á því sem þeir láta út út sér. Þetta er óskastaða stjórnmálmannsins.


mbl.is Trúnaðarsamtöl á leynifundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söguþankar

history333Megin efni margra íslenskra blogga eru persónulegar frétta og söguskýringar. Það í sjálfu sér mjög merkilegt hvað margir vita hvað er að gerast á bak við tjöldin og þekkja "hina raunverulegu" sögu vel.  Þetta hljóta að verða ómetanlegar heimildir fyrir framtíðina og eru enn mikilvægari fyrir fortíðina sem er stöðugt þarf að umrita hvort eð er. 

Þótt ég hafi gaman að Því að lesa slíkar sagnfræðitúlkanir, nálgast ég þær með varúð. Ég veit sem er að fátt, ef nokkuð, á meira skilið að vera endurskrifað en einmitt slíkar söguskýringar.

Þannig hugsa margir sér þá dul að geta sagt fyrir um framtíðina af því Þeir þekkja fortíðina.

Að það sé mikilvægt að þekkja söguna til að endurtaka hana ekki, eins og einhver sagði, er í besta falli óskhyggja. Sögulegar ákvarðanir sem reynast happadrjúgar fyrir almenning eru yfirleitt teknar eftir að allt annað hefur verið reynt. 

Sagan, jafnvel þótt hún sé sögð óumdeild, lýtur jafnan í gras fyrir einbeittum vilja þeirra sem vilja komast á spjöld hennar eða skrifa hana upp á nýtt.  Eini vísdómurinn sem má draga af sögunni með vissu, er að það er oftast viturlegt að gera alls ekki neitt og altaf best að segja ekki neitt.


Mótsagnir hamingjunnar

success_and_happinessSumir hafa mjög þróað með sér mjög öfluga óhamingjuhvöt. Þeir líkjast mjög "gáfufólkinu" sem heldur að það eitt að vera neikvætt og gagnrýnið sé það sama og að vera rosalega klárt.

Því  finnst jafnframt að jákvætt fólk hljóti að vera heimskt. Það eina sem veitir slíku fólki hamingju eru sorg og vandræði.

Ég á auðvitað ekki við að lífið eigi að vera uppfullt af óendanlegri hamingu. Slíkt mundi gera hverja manneskju brjálaða.

Í raun er aðeins tvennt sem gerir fólk óhamingjusamt. Að fá allt það sem hjarta þeirra girnist og að fá það ekki.

En hvað er raunveruleg hamingja? Sumir segja langlífi og góð heilsa.

Allt sem mér þykir virkilega skemmtilegt er annað hvort ólöglegt, ósiðlegt eða fitandi. Og ég spyr mig, er það þess virði að gefa allar nautnir upp á bátinn í staðinn fyrir tvö ár í viðbót á einhverju elliheimili?


Beðið fyrir Icesave

Trúaðir og vantrúaðirBoðið er til þver-pólitísks bænafundar við Alþingishúsið næsta sunnudagsmorgunn kl; 06:00 til að biðja fyrir farsælli lausn Icesave málsins. Tekið skal fram að hver og einn getur ákallað þann guð sem honum sýnist, jafnvel Mammon ef einhverjum hugnast það eða þá Helga Hós, fyrir þá sem það vilja.  

Einkum eru flokkspólitískir rétttrúnaðarbloggarar, með sitt óþrjótandi þolgæði þrátt fyrir að hafa aldrei rétt fyrir sér, hvattir til að mæta og fara með sínar hefðbundnu bölbænir,  ef ekki til annars en að öllum verði ljóst hversu einlægir þeir eru.

Fundurinn er boðaður vegna þess að fullreynt þykir að mannleg máttarvöld fái gengið frá Icesave málunum svo að friður og sátt verði meðal þjóðarinnar um niðurstöðuna. 

Í þessu mikla prófmáli þjóðarinnar þar sem fyrst og fremst reyndi á hvort hún væri raunverulega nægilega samhuga til að teljast "ein þjóð" sem hefði nægilega mikla þjóðarvitund til að standa saman þegar sjálfri tilvisst hennar var ógnað, hafa mál öll þróast á þann veg að flokkadrættir á meðal hennar hafa aldrei verið meiri. -

Icesave deilan hefur sýnt þjóðinni með óyggjandi hætti að hún hefur algerlega gleymt þeim gildum sem gerðu hana að þjóð. Gömlu heilræðin eru öll orðin að óþolandi klisjum sem enginn fer lengur eftir.

stupid-catDæmi; Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.  Þetta er nú orðið öfugmæli.  Sundrung hefur reyndar  verið endurnefnd og kallast núna "aðhald" sem sagt er afar nauðsynlegt fyrir lýðræðið. Æðsta og besta skipulag lýðræðis er að hafa stjórn og stjórnarandstöðu.  Eins og "gamla sundrungin", krefst "aðhaldið" þess að stjórnarandstaðan sé ávalt ósammála öllu því sem stjórnin hefur að segja. Þess vegna segja pólitíkusar og flestir trúa því; Sundraðir stöndum vér, sameinaðir föllum vér.

Þá er þjóðin líka svo heilaþveginn að hún kannast varla lengur við orðið samvinna. Það orð er orðið algerlega úrelt.  Í staðinn notar hún ætíð orðið samkeppni og hnýtir aftan í það orð til vonar og vara, setningunni; "til að forða fákeppni" . Fákeppni er mesti bölvaldur sem hægt er að ímynda sér, nema þegar hún er sköpuð í krafti samkeppni að sjálfsögðu.

Fundinum verður auðvitað aflýst ef að Icesave málið verður að mestu til lykta leitt með einarðri meirihluta samþykkt Alþingis fyrir Sunnudagsmorgunn og/eða Bretar og Hollendingar fá endanlega nóg af vitleysunni í okkur og samþykkja samninginn með öllum sínum fyrirvörum og bókhaldsrugli.


Er hamingjan að vera fögur, gáfuð, fræg og rík?

quotes_of_happinessAllir eru sammála um að hamingja er það eftirsóknarverðasta sem lífið getur haft upp á að bjóða. Íslendingar hafa til margra ára verið sagðir hamingjusamastir þjóða í fjölda fjölþjóðlegra skoðannakannana sem gerðar hafa verið. - 

Hvort þetta er enn satt um okkur í ljósi hremminganna sem núna ganga yfir þjóðina veit ég ekki,  en jafnvel þeir sem búa við skelfilegar aðstæður í lífi sínu þurfa ekki endilega að missa sjónar af þessu megin markmiði lífsins.

Anna Frank orðaði þetta svo í dagbók sinni; "Við lifum öll með það fyrir augum að verða hamingjusöm; líf okkar eru öll frábrugðin en samt eins." 

Í Bandaríkjunum t.d. er rétturinn til að leita að hamingjunni verndaður í stjórnarskránni þótt að hún eða aðrar stjórnaskrár heimsins geti ekki tryggt að fólk finni hana. Flestir hefja leitina að hamingjunni með því að reyna að uppfylla langanir sínar, hverjar sem þær kunna að vera. Þær langanir eru fyrst mótaðar af náttúrulegum hvötum okkar og síðan af uppeldinu og samfélaginu.

data?pid=avimage&iid=iUKpVcGX7TI0Þar sem samfélagið er mettað efnishyggju verður hún megin leitarsvæðið.

Við komumst smá saman upp á lag við að raða saman eins mörgum "ánægjustundum" og mögulegt er og köllum það hamingju. Að verða fögur, gáfuð, fræg og rík eru aðalmarkmið leitarinnar.

En um leið og ánægjustundirnar þrjóta, jafnvel þótt aðeins verði hlé á þeim,  finnum við fyrir tómarúminu þar sem raunveruleg varanleg hamingja á að vera. -

Neyslusamfélagið er bein afleiðing þessarar tegundar hamingjuleitar.

Þessi leit tekur venjulega enda þegar eitthvað sem við héldum að væri alger forsenda hamingju okkar er frá okkur tekið. 

Í bókmenntum og annarri menningararfleyfð heimsins er að finna fjölda hamingju uppskrifta, enda hefur hamingjan verið stór hluti af viðfangsefnum helstu hugsuða heimsins. Niðurstöður þeirra er jafnan á einn veg, þótt þær séu orðaðar á mismunandi hátt.  

HuggingKidsSmall%5B4%5DÞær kenna að hamingjan sé grundvölluð á andlegri hegðun hvers einstaklings. Með "andlegri" er átt við þær mannlegu dyggðir sem hvert og eitt okkar býr yfir. -

Hvort sem við erum rík eða fátæk og hvert sem starf okkar er eða staða, munum við ekki fanga hamingjuna nema að við leggjum rækt við þessar dyggðir og að gjörðir okkar endurspegli þær.

Hér kemur hluti af hamingju-uppskrift sem mér finnst ein sú besta sem ég hef séð og ber þessum hugrenningum mínum  gott vitni.

Vertu örlátur í velgengni og þakklátur í mótlæti. Vertu verðugur trausts náunga þinna og mættu þeim með bjartri og vingjarnlegri ásjónu. Vertu sjóður hinum fátæku, umvandari hinum ríku, sá sem svarar kalli hinna þurfandi og varðveittu helgi heits þíns. Vertu sanngjarn í dómum þínum, varkár í tali þínu. Sýndu engum manni óréttlæti og öllum mönnum auðmýkt.

Í þessum stutta texta koma eftirfarandi dyggðir fyrir;

Örlæti, þakklæti, heiðarleiki, vingjarnleiki, miskunnsemi, hugulsemi, hugrekki, orðheldni, sanngirni, hófsemi, auðmýkt. 

Takið eftir hvernig þessar dyggðir eiga vel við þá sem vilja þjóna meðbræðrum sínum og ekki þá sem vilja drottna yfir þeim.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband