Færsluflokkur: Heimspeki

Hugmyndafræðilega gjaldþrota þjóðfundur

Setningarnar sem eiga að "skýra inntak grunngilda" þjóðfundarins, segja mikið um það hugmyndafræðilega gjaldþrot sem íslenska þjóðin virðist vera komin í.  Ef þessi lesning er þverskurður af afstöðu fólks til þeirra lífsgilda sem þjóðin á að lifa eftir og teljast eftirsóknaverð, er ljóst að engra breytinga, engra úrbóta er að vænta úr þeirri átt.

Þessi svokölluðu "grunngildi"  eru að megninu til  gamlar tuggur sem hinir ýmsu  stjórnmálaflokkar og framboð hafa gripið til á góðri stundu til að skreyta með stefnuskrár sínar fyrir kosningar sem þátttakendur þjóðfundarins hafa gert sér að góðu að jórtra á eina ferðina enn.  - 

Því miður, þessi tegund af "þjóðfundum" eru gagnslaus.


mbl.is Grunngildin skýrð á þjóðfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérréttindi kristindómsins

Það er með ólíkindum að heyra fólk tala um árás á mannréttindi í tengslum við tillögurnar um að afnema það sem ekki getur talist annað en virkt trúboð í skólum landsins. Það er réttlætismál að allar lífskoðannir fólksins í landinu, sitji við sama borð þegar kemur að opinberum stofnunum og afskiptum þeirra af trúarlífi fólks. Aðskilnaður ríkis og kirkju er löngu tímabær og það óréttlæti að ein trúarbrögð njóti forréttinda fram yfir aðrar góðar og gildar lífsskoðanir, er mikil tímaskekkja.

Þjóðkirkjan hefur um langt skeið, eins og allir vita, notið ýmissa forréttinda í skólum landsins á sama tíma og trúfrelsi er sagt ríkja í landinu. Hvers konar frelsi er það í reynd sem ekki tekur tillit til sjálfsagðra jafnréttisreglna?

Önnur vörn þeirra sem vilja óbreyttan aðgang til að móta lífsskoðanir barna eins og þeir hafa gert frá því að skólaganga varð almenn í landinu, er að spila á þá slæmu ímynd sem íslamískir öfgamenn hafa komið á trú sína. Það sjónarmiðið að best sé að halda kristni til streytu í skólum landsins til mótvægis við einstrengingslega afstöðu stjórnvalda í löndum Íslam, er ekki sannfærandi og er meira í ætt við vænisýki en heilbrigða hugsun. Að halda sig við slæma siði, af því að einhver annar gerir það, hefur aldrei þótt góður boðskapur. 


Hættuleg hugmynd

Sé það rétt greining hjá Einar Mar stjórnmálafræðingi að stjórnmálakreppa sé í landinu, má alveg færa fyrir því nokkuð góð rök að sú kreppa sé aðeins hluti af þeirri kreppu sem ríkir almennt í landinu.

Pólitíska kreppan er  tilkomin m.a. af því að alþingismönnum er ætlað að skipta sér upp í lið, með og á móti. Allir verða að þykjast vita hvað þeir eru að gera, hvort sem það er satt eða ekki.

Nú bregður svo við að enginn virðist vita hvað á að gera og því  þrasa pólitíkusarnir út í loftið til þess eins að hylja það að þeir vita ekki hvernig á að bregðast við vandanum. Ef þú heyrir stjórnmálamann gagnrýna látlaust "andstæðinga" sína, er það ekki vegna þess að það sem hann segir er staðföst skoðun hans, heldur að hann veit ekki hvernig á að leysa málin.

Önnur ástæða kreppunnar er að margir stjórnmálmenn gera sér ljóst að vangeta þeirra til að finna lausnir við vandamálunum sem að steðja, er tengs því að stjórnmálaflokkarnir hafa koma því til leiðar að ákvarðanir varða að vera teknar á þröngum pólitískum grunni, ekki með hag almennings í huga. Þeir vita að ef þeir ættu að vinna þjóðinni gagn gegnheilt, mundu þeir verða að ganga úr flokknum. Og ef allt ætti að vera eins og best gæti orðið, væri best að banna stjórnmálaflokkum að bjóða fram og tak þess í stað upp persónukjör. Það veldur alltaf kreppu hjá fólki að tala gegn betri vitund.

En þetta er mjög hættuleg hugmynd. Að hægt sé að velja meðlimi löggjafrasamkundu sem síðan mundi velja ríkisstjórn án þess að stjórnmálaflokkar þurfi nokkuð að koma við sögu, er einnig framandi hugmynd.   Kæmi slíkt til framkvæmda mundi það raska öllum valdahlutföllum í landinu og gera flokkseigendurnar og þá sem fjármagna starfsemi þeirra, valdalausa. Í öðru lagi er hugmyndin svo róttæk að hún hræðir fólk. Fólk er tilbúið að ganga í gegnum ótrúlegar þjáningar, frekar en að breyta kerfinu sem það býr við. Í því m.a. fest styrkur flokkseigendanna. Þeir vita að fólk er hrætt og hræðsla skapar kreppu.


mbl.is Stjórnmálakreppa í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nauðsyn að eitthvað sé til frekar en ekkert?

Lykilspurningin í heimsfræðinni er; "Hvers vegna er eitthvað til frekar en ekkert?".

Hafi alheimurinn orðið til eins og við vitum best, þ.e. með "mikla hvelli", gerðist hann ekki á sama hátt og aðrir atburðir gerast í alheiminum. Sá atburður gerðist ekki í tíma eða rúmi því hvoru tveggja varð til með alheiminum. Ekkert sem við þekkjum getur gerst nema það gerist í tíma og rúmi og lúti lögmálum þessa alheims, hvort sem við þekkjum þau eða ekki.  Hvað gerðist fyrir 20,000,000,000 árum, þegar að alheimurinn er aðeins 13,000,000,000 ára er því mótsagnarkennd og merkingarlaus spurning.

En gæti alheimurinn hafa orðið til úr öðrum alheimi? Er mögulegt að til séu óendanlega margir alheimar og að engin þeirra hafi átt sér frumorsök? Óendanleiki er og getur ekki verið ákveðin tala. Það er ekki hægt að draga frá óendanleika eða bæta við hann. 1 plús óendanleiki er sama sem óendanleiki. Hvernig getur þá okkar alheimur verið viðbót við eitthvað sem er óendanlegt?

Ef við blöndum heimspekinni inn í þessar spurningar, kemur eftirfarandi "mótsögn" í ljós.

Ef við segjum að Guð sé óskapaður en sé sjálfur skapari, er hann óumflýjanlega frumorsök alls. En skapari getur ekki verið til án þess að hafa skapað eitthvað sem hefur sjálfstæða tilvist fyrir utan hann. Hafi skaparinn alltaf verið til, erum við um leið að segja að sköpunin hafi alltaf verið til.

Til að hægt sé að tala um "sjálfstæða tilvist" á merkingarfullan hátt þarf að gera ráð fyrir vitsmunum sem eru nægilega miklir til að mynda bæði hlutlæg og óhlutlæg hugtök. Þess vegna gerum við ráð fyrir Guði sem hefur a.m.k. slíka vitsmuni.  Þess vegna getum við einnig gert ráð fyrir að sköpun Guðs hljóti að hafa verið ferli frá hinu óhlutlæga til hins hlutlæga. Hugmynd er fyrra stig sköpunarinnar, hluturinn sjálfur í hlutlægu formi annað stig.

Af þessum sökum er líklegt að sá alheimur sem við þekkjum sé hluti af óendanlegri keðju alheima og hann eins og aðrir alheimar hafi ætíð verið til. 

"Stórihvellur" getur því aðeins markað upphaf alheimsins sem hlutlægs veruleika. Sem hugmynd hlýtur hann alltaf hafa verið til sem og aðrir alheimar Guðs.

En megin spurning  heimsfræðinnar er "hvers vegna er eitthvað til frekar en ekkert?" en ekki hvernig varð eitthvað til. Spurningin hvers vegna; gefur til kynna tilgang.

Fram til þessa hafa engar betri tilgátur komið fram til að svara þeirri spurningu en að gera ráð fyrir tilvisst Guðs og að alheiminum, sköpun hans, gefi hugsanlega eitthvað til kynna um hann sjálfan annað en það eitt að hann sé til.

Um það ætla ég að fjalla í næstu færslu; Nauðsyn þess að eitthvað til frekar en ekkert.


Geir Waage segir sannleikann um kenningar kirkjunnar.

Hart er sótt að Geir Waage sóknarpresti fyrir að halda því fram opinberlega að prestar eigi að fara eftir boðum kirkjunnar sinnar. Kirkjan er auðvitað löngu úrelt stofnun með úreltar kenningar og þar að auki á þessi skriftaþjónusta presta sér afar vafasamar forsendur í kristinni trú. Hún byggir á að prestur geti fyrirgefið syndir sem milligöngumenn Guðs og manna. 

En látum það liggja á milli hluta.

Mér finnst það skrýtið að biskup, yfirmaður stofnunarinnar skuli lýsa því yfir að ekki beri að fara eftir kenningum hennar. - Geir Waage hefur alveg rétt fyrir sér í því að kenning kirkjunnar gerir ráð fyrir algjörum trúnaði milli prests og sóknarbarns.  Hann segir sannleikann.

Kenningar kirkjunnar eru að þessu leiti í blóra við landslög. Annað hvort verður að breyta landslögum eða lögum kirkjunnar. Biskup getur ekki einn afnumið þagnarskyldu presta og breytt aldagömlum kenningum kirkjunnar. Þetta veit Karl Sigurbjörnsson, en hann reynir að þæfa málin eins og venjulega. Kannski veit hann líka innst inni hversu úr sér gengin kirkjan er sem stofnun. En gott hjá Geir að halda til streitu því sem hann veit að er rétt, miðað við þær forsendur sem hann hefur sér.


Eru prestar fulltrúar Guðs á jörðu?

Ég leitaði og leitaði en fann ekkert. Hvergi í öllu nýja testamentinu, er að finna eitt orð, hvað þá fleiri, sem réttlætt getur tilvist prestastéttarinnar. Getur það verið rétt að prestastéttin og allar hennar stofnanir séu og hafi ætíð verið með öllu mannlegar og manngerðar stofnanir?

Ef það er rétt er kirkjan, sem stofnun (ath. ekki sem samfélag kristinna manna)  sem er stjórnað af prestum og yfirstéttum þeirra, af sama toga, þ.e. mannleg uppfinning. Alla vega er það skipulag og skipurit sem þeir brúka, hvergi að finna í Biblíunni.

Hversvegna heldur fólk þá að Kirkjan sem stofnun og prestar hennar hafi guðlegt umboð til að kenna ritninguna, setja sig á stall yfir aðra menn og túlka orð Guðs fyrir þá?

Og hvers vegna hafa prestar tekið sér þá stöðu að vera fulltrúar Guðs á jörðu og segjast geta hlustað á syndajátningar sem fulltrúar almættisins. Sumir segja að þeir geti meira að segja veitt aflausn synda.

Er þetta algjörlega þeirra eigin ímyndun eða er eitthvað að finna í boðskap Krists sem réttlætir þessa hegðun?

Og hvers vegna heldur fólk að þetta séu betri menn en gengur og gerist og treystir þeim umfram öðrum mönnum. Hvað hafa þeir gert til að verðskulda slíkt traust sem menn, ef þeir hafa ekkert guðlegt umboð? -

Sjálfur beinir Kristur fremur óvægum orðum til klerka síns tíma sem greinilega voru ekkert betri í ímyndunum sínum en prestar nútímans enda var það prestastéttin sem mest ofsótti Krist og borguðu loks Júdasi fyrir að svíkja hann.


mbl.is „Prestar eiga að kunna að þegja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin sálarlausa og vélræna lífssýn

Talsvert mun vera til af fólki sem hefur hina svo kölluðu vélrænu lífssýn. Í þeirra augum er ekkert til sem ekki telst náttúrlegt því allt er af vélrænni náttúrunni komið. T.d. er  maðurinn í þeirra augum ekkert annað en þróaður api sem er algjörlega undirorpin lögmálum þróunar og öll hegðun hans og atferli sé hægt, eða verði hægt, að skýra með náttúrlegum ferlum.

Með öðrum orðum er ekkert hægt að finna í manninum, né öðrum dýrum, sem ekki er eingöngu og algjörlega efnislegt og vélrænt. Sál og andi eru ekki til, nema þá sem hugtök yfir efnaferli í heila mannsins.

Fremsta skýringin á mismunandi hæfni dýrategundanna er þróunarkenningin. Hún gerir ráð fyrir að "yfirburðir" mannapans séu tilkomnir vegna náttúruvals.

Úr því að náttúrval ræður ferð og gerð okkar mannapanna er öll  hegðun okkar og hugsun hluti af viðleitni tegundarinnar til að viðhalda og vernda okkur sjálf sem einstaklinga og tegundina alla.

Rétt eins og við réttum okkur upp á tvo fætur til að sjá betur upp fyrir grasið, einhvern tíman í forneskju, óx heili okkar til að rúma rökhugsun og ímyndunarafl sem gerir okkur mun hæfari en við vorum, til að komast af.

Nauðsynlegur fylgifiskur hins hugsandi of sjálfmeðvitaða mannsheila, er  það sem sumir áhangendur vélrænnar lífssýnarinnar vilja kalla ranghugmyndir um okkur sjálf og umhverfi okkar fjær og nær.

Ein þessara nauðsynlegu ranghugmynda hefur tekið á sig form sem þekkt er undir nafninu "trúarbrögð". Þau byggja að öllu jöfnu á öðrum ranghugmyndum sem oftast eru kallaðar "trú".

Ranghugmyndir þessar eru svo nauðsynlegar mannkyninu að það virðist ekki geta lifað án þeirra. Alla vega hefur aldrei fundist samfélag sem er án þeirra og svo langt aftur sem heimildir ná um samfélög manna, eru grunnþættirnir í samfélagsuppbyggingunni byggðir á trú og trúarbrögðum.

Þrátt fyrir að trúarbrögð og trú megi rekja til þátta sem eru tilkomnir vegna þróunar og náttúruvals, leggjast margir sem segjast aðhyllast vélræna lífssýn gegn þeim og setja sig þannig upp á móti eðlilegum, náttúrulegum og þróunarlegum þáttum sem stýrir lífi mannapans Homo Homo Sapiens.

Það finnst mér mikil mótsögn í þeirra málfluttningi.


Nígeríusvindlið hans DoctorE

DoctorE kallar hann sig og segist ekki vilja gefa upp nafn sitt af ótta við að verða ofsóttur fyrir skoðanir sínar.

DoctorE er mikill andtrúarmaður og varla bera trúmál svo á góma hér á blogginu, (og mér skilst víðar) að hann sé ekki mættur til að viðra þar skoðanir sínar, svo fremi auðvitað að viðkomandi síðueigandi hafi ekki þegar lokað á hann.

DoctorE bloggaði lengi á blog.is en varð það á að kalla einhverja konu ónefnum og brigsla henni jafnframt um veikindi sem varð til þess að blogginu hans var lokað.

Skoðanir DoctorE á trúmálum eru ekki flóknar. Öll trú er vond. Engin Guð eða Guðir eru til. Ekkert líf er eftir dauðann og ekkert  er til sem kallast "andlegt" sem ekki er aðeins rafboð milli heilafruma. Enginn "æðri" tilgangur er til og trúarbrögð eru öll eitt "Nígeríusvindl" sem fólk lætur blekkjast af vegna ótta við dauðann.

Sumir af trúlausum félögum hans hafa tekið undir þessar afdráttarlausu yfirlýsingar DoctorE með því að segja að hann þori að segja það sem aðrir þori bara að hugsa.

DoctorE er einn þeirra sem álítur að allt mannlegt athæfi megi rekja til náttúrlegra orsaka. Maðurinn er samkvæmt hans skilningi eingöngu af náttúrunni gerður og algjörlega ófær um nokkuð athæfi eða hugsun sem ekki er að fullu útskýranlegt á náttúrulegan hátt og miðar fyrst og fremst að því að viðhalda sér og sínum genum.

Samkvæmt þessari lífsskoðun DoctorE er undarlegt hversu mjög hann berst gegn einni af þessari náttúrulegu kennd mannsins, þ.e. að trúa og ímynda sér tilvisst guðs eða guða. -

Hvað er DoctorE að fárast yfir því sem manninum er náttúrulegt og eðlilegt og aðeins liður í að tryggja sér og sínum genum áframhaldandi tilveru? - Samkvæmt hans lífsskoðun og heimsmynd er hverjum manni eðlilegt að gera hvað það sem hann metur að sé honum og hans genum fyrir bestu. Ef að það þarf trúarbrögð til að tryggja sér völd, þá er um að gera að nota trúarbrögð. Ef að það þarf Guð til að þola og lifa af yfirgang æðstu prestanna, er best að trúa á hann. - Ef að lygar koma best að gagni, hvort sem logið er að sjálfum sér eða öðrum, hvers vegna ekki að nota þær? Ekki er náttúran sérlega heiðarleg. Þar koma fjölmargar dýrategundir ekki til dyranna eins og þær eru klæddar heldur  tíðkast meðal þeirra lygar og dulbúningar í margskonar formi. Hví skyldi maðurinn hegða sér öðruvísi?

Lífssýn DoctorE býður ekki upp á neinar málamiðlanir í þessum efnum. Það er afar hreinskilið af honum og heiðarlegt að segja hlutina eins og hann hugsar þá, jafn heiðarlegt og það er óskiljanlegt hvers vegna hann er að amast við því að fólk er eins og hann segir það vera,  þegar það samkvæmt hans eigin skoðunum, getur alls ekki hagað sér eða hugsað öðruvísi.


Trúleysi eyðanna

Brösuglega gengur að sannfæra trúlausa um að alheimurinn eigi sér upphaf. Stóri hvellur þarf í augum þeirra sumra ekki að vera neitt upphaf, heldur er á þeim að skilja að handan hans séu aðrir heimar og aðrar víddir, sem orsökuðu þennan heim. 

Aðrir segja að fjöldamörg tilfelli orsaka og upphafslausra hluta séu til í þessum heimi. Þess vegna sé spurningin "af hverju" alls óviðeigandi í vissum tilfellum því eina svarið sem sé mögulegt er  "af því bara".  Af þeim má skilja að ekkert sé víst að alheimurinn sjálfur eigi sér upphaf. Lögmálið um orsök og afleiðingu eigi ekki lengur við og í stað þess er komið "trúleysi eyðanna."

Aðrir vilja meina að efniseindir (frumeiningar og byggingarefni frumeinda) séu ósamsettar og því sé ekki hægt að draga þá ályktun að þær hafi átt sér upphaf heldur hafi ætíð verið til, jafnvel áður en alheimurinn varð til. Þeir tala um virk eðlislögmál áður en tími, rúm og efni urðu til.

Þau eðlislögmál hljóta að vera óháð tíma rúmi og efni sem fyrst urðu til eftir að alheimurinn varð til. Þegar blandað er saman við þessar pælingar góðum skammti af skammtafræði og spekúleringum um aðrar víddir erum við komin grunsamlega nálægt því sem nýaldarsinnar þekkja vel úr sínum fræðum um eðli andlegra heima og samspil þeirra og efnisheimsins.


Frumorsökin útskýrð

Í trúmálaumræðunni hér á blogginu þreytast trúlausir aldrei á að fullyrða að engar sannanir eða góð rök séu til sem bendi til tilvistar Guðs. Þeir viðurkenna samt yfirleitt að þeir útiloki ekki tilvist hans en þeim finnist bara ólíklegt að hann sé til. 

Ef færa skal rök fyrir tilvist einhvers er nauðsynlegt að skilgreina það.

Til þess að leiða líkur að tilvist Guðs er best að notast við skilgreiningu sem gerir ráð fyrir minnstu mögulegum skilyrðum fyrir guðdómi.

Við erum sem sagt að tala um guðdóm sem er að minnsta kosti; frumorsök allra hluta og sem sjálf á ekkert upphaf, hvað annað sem hún kann að vera.

Allt í hinum þekkta alheimi er samsett. Því er líklegt að allt sem tilheyrir alheiminum sé samsett.

Samsettir hlutir geta ekki verið til án þess að einingarnar sem þeir eru saman settir úr séu þegar til staðar. Þess vegna getur alheimurinn ekki hafa skapað sig sjálfur.

Ef að alheimurinn skapaði sig ekki sjálfur hefur eitthvað annað gert það sem stendur fyrir utan alheiminn og er frumorsök alls þess sem tilheyrir alheiminum.

Sé til fyrirbæri sem er frumorsök alls segir það sig sjálft að ekkert orsakaði það sjálft.

Slíkt fyrirbæri uppfyllir rökfræðilega þau skilyrði sem við settum fyrir Guðdómi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband