Lýsingin á andlátinu hefði alveg getað komið úr penna hans sjálfs

Faðir hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var eins árs. Móðir hans dó þegar hann var tveggja ára. Seinna afneitaði fósturfaðir hans honum og hann var lengi heimilislaus. Ástarsambönd hans fóru öll út um þúfur og þegar hann loks gekk í hjónaband var það með þrettán ára gamalli frænku sinni sem dó úr berklum áður en hún varð tvítug.

Edgar Allan PoeHann þjáðist af þunglyndi, alkóhólisma og ópíum fíkn og lést aðeins fertugur að aldri á dularfullan hátt, snauður, forsmáður og vinalaus. Til jarðarfararinnar, sem aldrei var auglýst, komu aðeins tíu manns sem urðu vitni að því þegar að Edgar Allan Poe,  einn áhrifamesti bandaríski rithöfundur allra tíma, var til jarðar borinn í borginni Baltimore árið 1849.

Síðast liðinn sunnudag, 160 árum eftir þessa fámennu athöfn, ákváðu bæjabúar í Baltimore að heiðra minningu Edgars með því að efna til gervi útfarar þar sem eftirlíking af líki hans var borið að gröf hans með viðhöfn.

Frægir leikarar fóru með minningarorð og brugðu sér í gervi frægra aðdáenda skáldsins, m.a. Sir Arthur Conan Doyle og Sir Alfred Hitchcock.

Athöfnin var svo vel sótt að ákveðið var að endurtaka hana strax sama kvöld þannig að úr varð líkvaka við grafreitinn.

Allt þetta umstang rúmlega 200 árum eftir fæðingu Edgars er ansi ólíkt kringumstæðunum þegar dauða hans bar að þann 7. október 1849.

Nokkrum dögum áður fannst hann með óráði fyrir utan bar einn í Baltimore. Hann var klæddur fatnaði sem greinilega var ekki hans eigin og gat ekki gert neina grein fyrir ferðum sínum eða hvað að honum amaði. Hann lést á Washington College Hospital, (sjúkrahúsinu) sem hann hafði verið fluttur til, hrópandi  nafnið "Reynolds" aftur og aftur.

Grafreitur E.A:P:Edgar Allan Poe er einn áhrifamesti bandaríski rithöfundur allra tíma. Hann er talinn upphafsmaður spæjarasögunnar og frumkvöðull í gerð hryllingssagna. Nokkrar hafa verið kvikmyndaðar þ.á.m. The Pit and the Pendulum og The Fall of the House of Usher. Af ljóðum hans er Hrafninn án efa þekktast og eftir því hefur einnig verið gerð kvikmynd.

Meðal samtíðafólks hans var Edgar best þekktur sem óvæginn bókmenntagagnrýnandi. Orðstír hann sem slíks fór víða og fyrir bragðið eignaðist hann marga óvildarmenn sem sumir gerðu sér far um að ófrægja hann eftir lát hans.

Sem dæmi þá birtist minningargrein um Edgar í New York Tribune sem hófst svona; "Edgar Alan Poe er dáinn. Hann dó í Baltomore í fyrra dag. Þessi tilkynning mun koma mörgum á óvart en hryggja fáa." Fyrir greininni var skrifaður einhver "Ludwig".

Seinna kom í ljós að þar var á ferð Rufus Wilmot Griswold, ritstjóri og ritrýnir en þeir Edgar höfðu eldað saman grátt silfur allt frá árinu 1842. Rufus tók að sér að stjórna útgáfu á verkum Edgars og gerði hvað hann gat til að sverta orðspor skáldsins.

Rufus skrifaði m.a. grein sem hann sagði að væri byggð á bréfum frá Edgari og sem lýstu honum sem sídrukknu ómenni. Flest af því sem Rufus skrifaði voru hreinar lygar og einnig sannaðist að bréfin voru fölsuð.  

Edgar var fæddur 19. janúar 1809 í Boston. Foreldrar hans voru farandleikararnir David og Elizabeth Poe sem fyrir áttu soninn Henry og seinna eignuðust dótturina Rosalie. David Poe yfirgaf fjölskylduna ári síðar (1810) og 1811 lést Elizabeth úr tæringu. Edgar sem þá var tveggja ára var tekinn í fóstur af John Allan, ríkum kaupmanni af skoskum ættum frá Richmond í Virginíu sem verslaði með ýmsan varning, þ.á.m. þræla. Þótt Poe hafi bætt nafni hans við sitt, ættleiddi Allen aldrei drenginn.

HrafninnÞegar Edgar var 17 ára varð hann ástfanginn af stúlku sem hét Sarah Elmira Royster. Hann kann að hafa trúlofast henni áður en hann hóf nám við háskólann í Virginíu 1826. Þar safnaði hann spilaskuldum og John Allan rak hann úr fjölskyldu sinni.

Hungraður og heimilislaus yfirgaf Edgar háskólanámið og þegar hann frétti að Sarah hefði gifst öðrum manni, innritaði hann sig í herinn. Honum tókst að fá sína fyrstu bók; Tamerlane, útgefna og síðan ljóðabók, sem hvorug vöktu nokkra athygli.

Dauði Fanny, fósturmóður Edgars, hafði þau áhrif að um stund urðu sættir milli hans og Johns Allen sem útvegaði fóstursyninum inngöngu í herskólann í West Point í júlí 1830. En innan fárra mánaða fór allt í sama horfið og Edgar var aftur vísað úr fjölskyldunni.

Poe  lét reka sig frá West Point með því að sýna af sér vítavert kæruleysi þannig að hann var færður fyrir herrétt. Frá herskólanum lá leið hans til New York þar sem hann hóf að skrifa gagnrýni fyrir tímarit og dagblöð. Hvernig sem á því stóð, slógu félagar hans í West Point saman fyrir útgáfu á ljóðahefti fyrir hann sem einfaldlega bar nafnið "Ljóð."

Þegar að Poe snéri aftur til Baltimore, fékk hann inni hjá frænku sinni Maríu Clemm, dóttur hennar Virginíu. Eldri bróðir hans Henry bjó einnig undir sama þaki en lést fljótlega úr alkóhólisma eftir að Edgar settist þar að. Þrátt fyrir að geta sér gott orð fyrir að vera skeleggur gagnrýnandi, var hann ætíð í vandræðum. Hann missti ætíð störfin vegna drykkjuskaparins og reyndi að stjórna þunglyndi sínu með laudanum (ópíumblöndu) og víni.

Virginia PoeÁrið 1835 gekk Edgar að eiga frænku sína á laun. Virginía var 13 ára dóttir Maríu Clemm sem Edgar kallaði ávalt eftir það " elskulegu litlu eiginkonuna." María sá um þau bæði og fylgdi oft Edgari eftir til að reyna að koma í veg fyrir drykkju hans.  -

Húsakynni þeirra voru hreysi og kofar og oft nærðust þau aðeins á brauði og sýrópi. Poe reyndi hvað eftir annað að gera sér mat úr skrifum sínum en drakk sig meðvitundarlausan þegar illa gekk.

Virginía var aðeins 19 ára þegar hún smitaðist af berklum en Edgar neitaði að viðurkenna að hún væri að deyja og sagði blóðið sem kom upp úr henni, koma úr brostinni æð. Eftir dauða hennar varð Edgar enn óstöðugri og skrif hans myrkari. 

Sögur hans og ljóð lýstu hvernig líkamar voru sundur limaðir, étnir af mönnum, brenndir, grafnir lifandi,  troðið upp í reykháfa af órangútum og étnir af ormum á sama tíma og meginpersónurnar monta sig af því hvernig þeir hafa komist upp með glæpina.

Tveimur árum eftir dauða Virginíu fannst hann ráfandi um göturnar, klæddur í garma og dauðvona.

Þrátt fyrir allt þetta var poe um þessar mundir sá gagnrýnandi sem höfundar óttuðust mest í Lík EdgarsBandaríkjunum. Hið magnaða ljóð hans "Hrafninn" hafði getið af sér fjölda eftirlíkinga og útlegginga og hafði meira að segja verið notað í sápuauglýsingar.

Smásagan Morðin í Rue Morgue ruddi veginn fyrir nýrri tegund leynilögreglusagna, þar á meðal Sherlock Holmes. Hryllingssögur hans höfðu sumar verið þýddar á frönsku og rússnesku og gefið skáldum eins og Charles Baudelaire sem safnað öllu sem Poe skrifaði, mikinn innblástur.

Edgar hefði átt að vera orðinn ríkur en hann var stöðugt undir þumlinum á óprúttnum ritstjórum sem aldrei borguðu honum vel og það sem hann fékk eyddi hann í fýsnir sínar.

Áhugi Poes í lifanda lífi beindist mest að dauðanum.  Ímyndanir, skjálfti og meðvitundarleysi á milli var lýsingin á ástandi hans rétt fram að andlátinu. Hún hefði alveg getað komið úr penna hans sjálfs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög skemmtilegur pistill. Takk fyrir það.

Dagga (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 06:06

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Maður þarf ekki að kaupa Skakka Turninn og Sagan Öll, þegar maður getur fundið miklu skemmtilegri skrif á blogginu, eins og þetta.

Takk fyrir það.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.10.2009 kl. 06:28

3 identicon

Frábær lesning!

Ágúst (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 07:49

4 identicon

kærar þakkir fyrir þennan fróðleik

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 09:44

5 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég hafði verulega gaman af þessari frásögn. 

Anna Einarsdóttir, 15.10.2009 kl. 11:18

6 identicon

Skemmtilegt og áhugavert. Ég vona að þú sért ekki undir svona vondum ritstjórum.

ingó (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 11:55

7 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Frábær og tilfinningarík frásögn.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 15.10.2009 kl. 14:07

8 Smámynd: brahim

Afskaplega fróðleg lesning og verulega skemmtilega skrifað hjá þér Svanur ( enda ekki von á öðru frá þér)

5 *****  fyrir þennan fróðleik þinn.

 Verð að segja það einnig, að þó að aðrir vermi toppsætin í vinsældum á blogginu (v/pólískra skrifa sem tröllríða öllu hér á blogginu)

Þá fyrir mitt leiti kýs ég að lesa þitt blogg frekar, þar sem fróðleikur um hina ýmsu hluti/fólk/sögu er að finna, því pólitíska þvaðrið getur hver og einn lesið á síðum dagblaða sem og hlustað á í útvarpi sem og sjónvarpi.

kv. Kristinn Eiðsson.

brahim, 15.10.2009 kl. 15:59

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir þennan pistil sem marga aðra Svanur.. ég hef verið fjarverandi af blogginju um stund vegna tengingar vandamála við cyberspace.. :)

Óskar Þorkelsson, 15.10.2009 kl. 21:04

10 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk kærlega fyrir athugasemdirnar og góðar viðtökur.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.10.2009 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband