4.8.2009 | 17:22
Réttlæti
Íslendingum hefur oft verið núið því um nasir, bæði af (dálítið öfundsjúkum) útlendingum og í heilbrigðri sjálfsgagnrýni að þeir séu montnir. Það verður ekki af okkur skafið að á tímabili vildum við vera; (frekar en að við værum það í raun og veru) fegurst, gáfuðust, frægust, sterkust og ríkust allra í heiminum.
Vitaskuld skömmuðust við okkur fyrir þetta innst inni, rétt eins og fyrir blautan draum, en samt var eins og við tryðum að með smá heppni gæti hann a.m.k. að hluta, vel orðið að veruleika og við mundum fyrr eða seinna vinna eitt af stórmótunum í handboltanum, eða jafnvel lent í fyrsta sæti í Júróvisjón.
En ef einhver var raunverulega farinn að trúa því að þessi fámenna þjóð sem fyrir einni og hálfri öld var sögð fátækasta þjóð Evrópu, væri svona frábær, þá féll það sjálfsálit aldeilis með íslensku krónunni á síðustu mánuðum 2008 og útmánuðum þessa árs. Landafundir í fornöld, ótaldar fegurðardrottningar, Magnús Ver og Jón Páll, skákmeistarar, bridge spilarar, Eiður Smári, Björk eða landar á Forbes listanum, gerðu ekkert til að draga úr því falli.
Sú sjálfsskoðun sem þjóðin lagðist ósjálfrátt í eftir hrunið og sem tæpast er lokið enn, finnst mér strax hafa leitt í ljós að þjóðin býr að a.m.k. tveimur heilladrjúgum þjóðareinkennum. Hið fyrra er að getan til að endur-uppgötva sjálfa sig og endurskilgreina markmið sín sem þjóð. (Stundum kallað Ragnar Reykháss heilkennið)Hafi markmiðið verið "heimsyfirráð eða dauði" erum við fullkomlega sátt við það í dag að ráða yfir lífi og limum okkar eigin persónu og láta það nægja.
Hitt einkennið er svo sterkt í okkur að við getum ekki orðið sátt og hamingjusöm sem einstaklingar eða þjóð án þess að gangast við því og framfylgja því.
það þjóðareinkenni er; afar sterk réttlætiskennd.
Það sem þjóðinni svíður mest er að geta ekki náð fram réttlæti gagnvart þeim sem settu þjóðina á hausinn og að hún verði að sætta sig við að þrjótarnir sleppi án verðskuldaðrar hegningar því að þeim hefur tekist að koma sjálfum sér og fénu sem þeir stálu undan. Þeir sitja enn í fínu húsunum sínum á Englandi (eða í kringum stjórnarborð þarlendra fyrirtækja), enn með gullið í munnvikunum og ulla á alla hina sem liggja eftir í naglasúpunni sem þeir löguðu handa þjóð sinni.
Ef að stjórnvöld hefðu einbeitt sér að því strax að safna gögnum um þá sem ollu hruninu og gefa ekki þjófunum tækifæri til að fela slóðana, mundi vera mun auðveldara nú fyrir Evu Joly og nýju saksóknarana að hafa hendur í hári þeirra, (núna þegar loks er búið að láta hana og hennar starfsfólk hafa almennilega skrifstofu og síma). Því var ekki að fagna og flokkforingjarnir gengu á sínum tíma hver fram fyrir annan til að lýsa því yfir að fólk ætti að fara varlega í að benda fingri á einn eða annan, sjálfsagt vitandi að fingurinn mundi þá um síðir beinast að þeim sjálfum.
Þannig hefðu vammlaus stjórnvöld getað sameinað þjóðina að baki sér, a.m.k. í því máli, sem ekki er lítils virði þegar ljóst er að Grettistakinu sem hrunið skapaði, verður ekki haggað nema með sameinuðu átaki.
Sumir verða eflaust til að benda á að ekki séu enn öll kurl til grafar komin og það er rétt. En það veður að segjast eins og er að frammistaða stjórnvalda, bæði núverandi og þeirra sem réðu framan af vetri, til að tryggja að réttlætið nái fram að ganga, hefur ekki verið mjög sannfærandi fram að þessu.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heimspeki, Menning og listir, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Bráðskemmtilegur pistill hjá þér Gísli Svanur, eins og svo oft áður. Væri ráð að setja upp byltingardómstóla eða alþýðudómstóla og rétta yfir útrásarvíkingum og dæma þá til dauða? Yrði réttlætiskennd íslensku þjóðarsálarinnar fullnægt með því? Er ekki alveg viss, en fyrirmyndin er til. Væri bara ekki ágætt að réttlætisgyðjan fengi sjón, í stað þess að hafa bundið fyrir augun, veifandi einhverjum asnalegum vogarskálum?
Gústaf Níelsson, 4.8.2009 kl. 17:50
Ég tek hér undir hvert orð.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.8.2009 kl. 22:35
Heill og sæll; Svanur Gísli - sem og, þið önnur, hér á síðu !
Þakka þér; afbragðs skýra grein, sem hnökra lausa. Fáu; þar við að bæta.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 00:21
Sæll Svanur,
Þakkir fyrir virkilega góðan pistil, sem fær jafnvel orðheppinn vin minn úr Árnsþingi til að drjúpa höfði; yfir hnökraleysi hins bitra sannleika.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 5.8.2009 kl. 00:36
Minni réttlætiskennd yrði best borgið ef þeir sem ullu hruninu, yrðu neyddir til þess að borga allt úr eigin vasa og láta allar eigur sínar til lúkningar skuldum okkar. T.d Björgólfur Thor sem ennþá telst ríkur, hann ætti að vera borgunarmaður fyrir einhverjum af skuldum IceSave. Hann á ágætis íbúð í London sem hann gæti selt, svo á hann Actavis lyfjafyrirtækið, Nova símafyrirtækið og ýmsar aðrar eigur sem hægt yrði að selja. Og Jón Ásgeir á líka ýmsar eigur sem selja má, og Bakkavarar bærðurnin og Apotekarasynirnir. Ekkert af þessu fólki hefur gert neitt til þess að borga afglöp sín. Og þingið hefur engum lögum breytt, svo allt getur þetta endurtekið sig. Aftur og aftur!!!!
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.8.2009 kl. 01:00
Dona er etta barazta...
Steingrímur Helgason, 5.8.2009 kl. 01:10
Flottur pistill.
Ég minni á hugmynd er kom úr Vestmannaeyjum sem snerist um það að Jón Ásgeir ætti fínan bát sem hægt væri að nota sem ferju á Bakkafjöru
Jón Logi (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 08:53
Ég þakka ykkur góðar undirtektir.
Svanur Gísli Þorkelsson, 5.8.2009 kl. 12:57
Góður
Arinbjörn Kúld, 5.8.2009 kl. 14:49
We are the greatest and we are the best, we come from Iceland and fuck all the rest!
Kveðja Rafn.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 15:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.