"Its a little piece of Iceland in my yard"

Svanir og garður 005Fyrir framan hverja íbúð í húsaröðinni þar sem ég bý í borginni Bath á Englandi, eru smá blettir sem íbúunum eru ætlaðir til afnota. Bletturinn fyrir framan íbúðina mína er sá eini sem er ósleginn. Ástæðan er sú að aðeins á þessum litla bletti má sjá blóm sem minna mig á Ísland. Fíflar, biðukollur, sóleyjar og baldursbrár. Ekki að heimþrá kvelji mig neitt sérstaklega, en mér finnst samt gott að geta litið út um gluggann og séð eitthvað afar kunnuglegt. Ég hef tekið eftir því að þessi blóm er hvergi að finna í öðrum húsgörðum hér í kring. En í garðinum mínum dafna þau vel. Jafnvel á túninu sem liggur niður að ánni Avon hinumegin við götuna, sjást þau hvergi. 

Nágrannar mínir halda auðvitað að ég sé bara svona latur að ég nenni ekki að slá blettinn. En þeir sem hafa haft orð á þessu við mig hafa fengið þessa skýringu. "Its a little piece of Iceland in my yard".

Svanir og garður 001Annars hef ég verð dálítið miður mín undafarna daga. Álftaparið sem ég bloggaði um fyrir stuttu lenti greinilega í einhverjum hremmingum með varpið. Fyrir nokkrum dögum kom ég að hreiðrinu og sá að það var autt. Tvö egg lágu út í vatninu, enginn skurn eða neitt í hreiðrinu og hvorugt þeirra hjóna sjáanlegt á ánni.

Maður nokkur sem sá að ég var að skyggnast um eftir þeim, stoppaði mig og sagði að það væri haldið að varpinu hefði verið spillt af einhverjum pörupiltum. Ég tók þessa skýringu trúanlega og syrgði í hljóði mennska ónáttúru.

Í dag gekk ég upp með á og viti menn. Í grennd við hreiðrið sá ég hvar hjónin komu siglandi og ekki var betur séð en að á baki karlsins sætu tveir örsmáir dúnboltar. Hvað sem gerðist tókst frúnni greinilega að klekja út tveimur eggjum, og það var alla vega nóg til að ég tæki gleði mína á ný.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Gat ekki svarað þér í skilaboðakerfinu, sendi póst í staðinn. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.6.2009 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband