Hvernig vinkona á móðir að vera dóttur sinni?

1316901660_9e65407e9bHversu mjög hafa ekki hefðbundin tengsl mæðra við dætur sínar raskast í nútíma samfélagi þar sem æskudýrkun eru hin nýju trúarbrögð. Þau trúarbrögð eru kennd í fjölmörgum drasl-sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, tímaritum og dagblöðum þar er hin fullkomna kvenlega ímynd birtist sem ungt og magurt kynferðislegt rándýr.

Það er ekki nóg að ungar stúlkur hljóti varnalegan sálarkaða af þessum heilaþvotti því mikill fjöldi mæðra ungra stúlkna hefur tekið trúna og fórna þar með þörfum dætra sinna fyrir það sem þær skynja sem sínar eigin þarfir. Þær virðast trúa því að æsku-elexírinn sé raunverulega til og að ekkert standi á móti því að þær taki hann inn í hvaða formi sem þeim þóknast.

article-1183868-04FAF579000005DC-958_196x661article-1183868-04FAF8F2000005DC-95_196x661article-1183868-04FAF8FA000005DC-891_196x661Bótoxaðar í framan eins og hrædd harðsoðin egg og í g-streng sem þær eiga í erfiðleikum með að finna þegar þær afklæðast eða fara á salernið, reyna þær að herma eftir öllu  sem er ungt.

Þetta eru konurnar sem segjast vera "bestu vinkonur" dætra sinna og "deila öllu með þeim."  - Ekki af því að dæturnar séu sérstaklega andlega bráðþroska, heldur vegna þess að mæðurnar virðast þurfa að sanna fyrir sér og öðrum að þær hafi sjálfar hætt að þroskast og séu enn 17 ára inn í sér.

Klæðaburður þeirra og farðanotkun bendir  til að þær hafi ekki áttað sig á að hverju aldurskeiði tilheyrir ákveðin stíll. Ég er ekki endilega að tala um Bridget Jones naríur, heldur að klæðnaðurinn sé í einhverju samhengi við aldur og vaxtarlag. Þær hafa heldur ekki áttað sig á því að hverju aldurskeiði fylgir ákveðið hlutverk sem er nauðsynlegt að rækja til að samfélagið lendi ekki í upplausn.

article-1183868-04FAF929000005DC-425_196x653article-1183868-04FAF91E000005DC-107_196x653article-1183868-04FAF943000005DC-996_196x653Stúlkur þurfa fyrirmyndir, sallarólegar mæður og frænkur sem geta hlustað, talað af reynslu og sýnt þeim stuðning án þess að vera með stöðugan samanburð í gangi.

Mæður verða að skilja að þeirra æskufegurð og blómatími er liðinn.  Og jafnvel þótt þær séu einhleypar og eigi eitt eða tvö hjónabönd að baki, ættu þær í samræðum sínum við dætur sínar að forðast klisjur eins og; "Já, gvuð ég veit, þetta er alveg eins hjá mér. Karlmenn...þeir gera mann brjálaðan"

Rétt eins og unglingsárin séu ekki nógu erfið fyrir stúlkur nú til dags, án þess að þurfa að horfa á miðaldra mömmur sínar á yfirvofandi breytingarskeiði, reyna að haga sér og tala við þær eins og eldri systur þeirra frekar en mæður og leiðbeinendur.

Mér finnst það hafa færst mikið í vöxt síðustu ár að konur vilja hvorki horfast í augu við aldurskeið sín eða þau hlutverk sem þeim fylgja. Í staðin reyna þær eins og vampírur að sjúga blóð hinna ungu til að halda sér gangandi. Og þetta er því miður smitandi. Ungar stúlkur sem gjarnan skrifa til kvennadálkahöfunda greina í auknum mæli frá þeim óskum sínum að vilja helst aðeins ala af sér stúlkubörn svo þær geti eignast vinkonur til lífstíðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Svanur, umhugsunarverður pistill.

Held að það geti skipt miklu máli andlegur og líkamlegur þroski móður.

38 -40 ára móðir 18 ára stúlku, finnur örugglega meiri "vinkonusamkennd" eins og þú lýsir í pistlinum og stöðuga samanburðaráráttu, heldur en 50+ ára móðir sömu stúlku.

Er ein slík síðarnefnd móðir stúlku, sem var plönuð frá getnaði til afmælisdags og kyns.  Eftirá, þegar planið hafði ræst fullkomnlega innan skekkjumarka, var ekki laust við að maður skammaðist sín fyrir tilætlunarsemina og frekjuna, en jafnframt fylltist maður þakklæti og auðmýkt fyrir drauminn (planið) sem rættist.

Hugsa að svona vinkonu syndróm sé einstaklingsbundið, best að það gerist af sjálfu sér.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 20.5.2009 kl. 06:30

2 identicon

Góður pistill. Ég á bara stráka svo ég hef ekki reynslu af þessu. En það sem þú segir er alveg rétt. Hef séð þetta ótal sinnum. Kannski er erfiðara fyrir stelpumömmur að eldast.

Ína (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 09:35

3 identicon

Sæll Svanur,

Ég þakka pistilinn, enda augljóst að einhverjum böndum verður að koma á þessar kerlingar sem virðast ekki skilja að tími eldhúskjóla og æðahnúta er runninn upp.  

Það er líka gott að fá svona, tjah, einskonar leiðarvísi um það frá þér um það hvernig konur eigi að haga sér, klæða sig og snyrta sig,.. enda augljóst að við erum ekki að valda þeirri ábyrgð.

Afhverju að stoppa hérna, ég sé fyrir mér glæsta framtíð þína sem kvennagúrú, gætir jafnvel endurútgefið kvennafræðarann með viðbætum - Kallað hana "Hvernig konur eiga að haga sér samkvæmt Svani Gísla".  Þú getur kaflaskipt henni eftir aldursskeiðum,.. ég sé fyrir mér t.d.  kaflann "Rúmlega þrítug - Leggðu hælaskónum",.. og fleira í þeim dúr..

Ef þú ert ekki búinn að sjá kaldhæðnina núna, þá,.. tjah,.. get ég lítið gert nema að vona að konurnar í þínu lífi  búi á öðru heimili en þú.  Prófaðu að lesa pistilinn þinn aftur yfir og reyndu að finna tíu afar móðgandi villur. 

Stjórnaðu sjálfum þér, ekki konum.

KT (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 10:04

4 identicon

Mér finnst alltaf svolítið fyndið þegar miðaldra karlrembur telja sig hafa réttu uppskriftina á hvernig nútímakona á að haga sér ... Svanur Gísli, hvað með alla miðaldra karlmennina sem hamast í líkamsræktarstöðvunum til að fá sem flottastan kropp og yfirgefa svo konuna sína sem komin er með æðahnúta og í eldhússloppinn fyrir ungar og stinnar, æðahnútalausar, stúlkur??? Ertu ekki með einhver ráð um hvernig þeir eiga að haga sér ?? Eru þeir góð fyrirmynd sona sinna um hvernig á að meðhöndla konur?

Sigrún (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 10:32

5 identicon

Ég verð nú bara að segja að klæðnaður og förðun hefur lítið með aldur að gera.
Jú, auðvitað ef móðirin sem er 40+ fer að ganga í minipilsum og magabolum, en slíkt sést ekki - nema kannski í bíómyndum (?)

Sjálf er ég ung móðir, og þegar dóttir mín kemst á sjálfræðisaldurinn verð ég ekki einu sinni orðin fertug.
Það kannski hræðir mann svolítið, því ég hafði ekki planað að klæða mig eins og kelling þó svo að þér og jafnvel fleirum þyki það sæma þeim aldri.

Ég hef alltaf sagt að móðir manns eigi að vera manns besta vinkona. Þú átt að geta treyst henni best, og fyrir öllu.
Þegar ég var að fara í gegnum mín unglingsár þá gat ég það ekki - og enn í dag þykir mér það mjög sárt, í ljósi þess að besta vinkona mín getur farið að djamma með móður sinni (sem dæmi)

Að sjálfsögðu á móðir að hlusta á barnið sitt og leiðbeina því, en það þýðisr samt ekki að móðirin sé ekki með svipuð vandamál.

Fyrrverandi minn drakk frekar mikið, eiginlega mjög mikið.
Þáverandi sambýlismaður mömmu minnar gerði það líka.
Við vorum á alveg sömu hillunni fyrir utan það að þau bjuggu saman en ekki ég og kæró. Og þau voru 23-25 árum eldri.
En það þýðir þó ekki að mamma mín hafi hegðað sér eins og unglingur....


Anywho, þú hlýtur að vera farinn að fatta hvað ég á við hérna... ;)

Eva (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 10:41

6 identicon

Ég ætla að vera á mínum blómatíma allt mitt líf!  Enginn sem fær að láta mér líða sem eldhúsáhald af því að ég sé komin á ákveðinn aldur! Þetta er asnaleg bloggfærsla!

KJ (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 10:46

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Jenný Stefaníaog þakka þér athugasemdina. Ég er fyrst og fremst að vekja athygli á og kveikja umræður á málefni sem mér finnst athyglisvert. Vissulega eru viðhorfin einstaklingsbundin en oft lætur fólk bara berast með straumnum án þess að hugsa um hvort það er raunverulega gott og uppbyggilegt.

Þakka þér Ína fyrir þitt innlegg og samsinnan.

Takk fyrir þetta KT. Kaldhæðni í bland við smá persónuárás er blanda sem oft er gripið til þegar reiðin svellur. Ætlunin var ekki að reita neinn til reiði, svo ég verð að biðja þig forláts á því, hafi það gerst. En þarfara hefði verið, bæði mér og öðrum lesendum, ef þú hefðir verið svo væn að tíunda frekar þessar tíu móðgandi villur sem eru í pistlinum að þínu viti, úr því að þér finnst hann hvort eð er svara verður.

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.5.2009 kl. 12:15

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Sigrún og þakka þér athugasemdina. Pistillin var að þessu sinni um konur en það er alveg hárrétt hjá þér að karlar eiga ekki minni þátt í að móta og viðhalda æskudýrkuninni og fylgikvillum hennar eins og þú bendir á. En ég hafna því að pistillinn sé settur fram í anda karlrembu.  Það hefur verið galli á umræðunni um kynjamál, að þegar kemur að málefnum kvenna, sæta karlmenn stöðugt ákúrum fyrir það að þeir skilji ekki kvennaheiminn af því þeir eru karlmenn. Slík rök útiloka þá sjálfkrafa frá umræðunni og er e.t.v. hluti af ástæðunni fyrir því hversu ósamstíga kynin eru.

Sæl Eva og þakka þér þínar góðu og einlægu athugasemdir. Ég teiknaði sterka mynd og reyndi að undirstrika meiningar mínar um klæðaburðinn með myndunum sem fylgja pistlinum.  Eins og þú sérð þá eru þær af konum sem klæðast allar nánast sömu flíkinni en gera það samt á þann hátt að munurinn er augljós. -

Auðvitað eiga mæður og dætur að vera vinkonur, en á móðirin að vera djammfélagi og þar með á vissan hátt keppinautur dóttur sinnar? Hvort er mikilvægar að vera góður "hlustandi" sem vinkona dóttur, eða presentera sjálfa sig sem konu sem sé stödd á svipuðum stað í lífinu og dóttirin? Um þennan fíngerða en mikilvæga mismun fjallar greinin.

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.5.2009 kl. 12:38

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Blessuð KJ. Hvernig getur smá pistill um eðli sambands mæðra við dætur sínar látið þér líða eins og "eldhúsdáhaldi"? - Ég satt að segja hélt að slíkar viðmiðanir væru að baki þótt leiðin framundan sé ekki alltaf skýr. - Nýir tímar, ný viðhorf, jafnrétti og sjálfsákvörðunarréttur kvenna sem einstaklinga er ekki það sem ég er að fetta fingur út í, heldur þau sjálfselskulegu uppeldisviðhorf sem sumar konur setja undir þau flögg en heyra í raun undir óeðlilega æskudýrkun.

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.5.2009 kl. 12:54

10 identicon

ég geri nú ekki oft athugasemdir við blogg en þessi pistill sló mig ögn, einhver sýn hér sem mér hugnast illa og greinilega fleirum m.v. athugasemdirnar.

Þrjú atriði standa uppúr í þessari yfirferð þinni um hugleiðingar sambands mæðra og dætra: 

#1 Bótoxaðar í framan eins og hrædd harðsoðin egg og í g-streng sem þær eiga í erfiðleikum með að finna þegar þær afklæðast eða fara á salernið, reyna þær að herma eftir öllu  sem er ungt.

Ég skil hvaða týpu þú ert að meina en hvað hefur þetta með samband mæðra og dætra að gera, er þetta ekki hluti af æskudýrkun samfélagsins almennt. Er þetta eitthvað verra fyrir samband mæðra og dætra en hinn póllinn, þessar sem hirða sig lítt. Nú eða karlar sem sem eru eilífir strákar. 

#2 ..hverju aldurskeiði fylgir ákveðið hlutverk sem er nauðsynlegt að rækja til að samfélagið lendi ekki í upplausn"

Ég hef hvergi rekist á rannsóknir sem styðja þessa fullyrðingu þína að mæður sem þekkja ekki sitt hlutverk valdi upplausn samfélagsins. 

#3 Mæður verða að skilja að þeirra æskufegurð og blómatími er liðinn." 

Síðan hvenær er blómatími konu úti við það að verða móðir??? Æskufegurð fölnar með árunum hvort sem konan er móðir eður ei, en hún getur vel viðhaldið sinni fegurð langt fram eftir aldri. Já og hvernig skiptir það máli fyrir samband mæðra og dætra. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt fram á að mæður sem eru virkar í eigin lífi s.s. atvinnu, námi og blómstra sem einstaklingar þrátt fyrir að vera mæður. Þær eru bestu fyrirmyndirnar fyrir sjalfstraust og persónuþroska barna sinna.

TH (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 14:15

11 identicon

Thad er nefnilega thad merkilega vid thessa faerslu ad minnst af henni vidkemur sambandi módur og dóttur! Thú ert algjorlega kominn á adra braut, talandi um aeskudýrkun kvenna??

" Mæður verða að skilja að þeirra æskufegurð og blómatími er liðinn"

 Thessi setning er hreint og beint módgandi fyrir kvenfólk! Hver er thad sem ákvedur ad okkar blómatími sé lidinn? OG HVAD THÝDIR THAD?  Hvar vilt thú hafa konur eftir ákvedinn aldur? Ef eitthvad er thá mundi ég halda ad blómatími kvenna vaeri akkúrat thegar ad thaer aettu daetur (og syni) sem vaeru ordin nógu gomul til ad sjá um sig sjálf og thá fyrst hafa tíma fyrir sjálfa sig í langan tíma!

Held thú aettir ad lesa thessa faerslu einu sinni enn og laga hana ef thú getur thví naer ekkert er sérstaklega um vinasambond milli maedra og daetra!

KJ (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 14:42

12 identicon

Sæll Svanur,

 Þakka svarið.

Reiði mín þegar ég las þessa sjálfumglöðu bloggfærslu var mikil - sérstaklega þar sem að ég hef varla lesið eins mikinn karlrembupistil frá því að ég las Húsmæðrafræðarann á sínum tíma.  Það að þú dragir ekki land með þessar fullyrðingar þínar gerir mig  afar sorgmædda - þvert á móti verð þú þetta með kjafti og klóm.  

Skilur þú ekki að með þessu, þá varst þú að fella dóm yfir öllum konum - skella þeim öllum undir einn hatt og segja þær þurfa að athuga eitthvað hjá sér,.. vegna þess að þær eru of sexí og ÓGNI dætrum sínum..  ?!

 Afhverju mega fertugar ekki vera í G-strengjum ef þær vilja.. ?

Afhverju er það athugavert að móðir tali um karlmenn við dóttur sína.. ?

Hvaða varanlega sálarskaða hljóta dætur af því að vera í samskiptum við móður sína.. ?

Hvað er að því að eiga gott samband við móður sína og jafnvel að deila öllu með henni.. ?

Hvað er að því að vera 17 ára í hjartanu.. ?

Hver á að ákveða hvaða aldurskeiði tilheyri hvaða stíll,.. ?

Hvers konar upplausn blívar í samfélaginu vegna klæðaburðar eldri kvenna.. ?

Afhverju þarf fyrirmynd ungra kvenna að vera sallaróleg og algjörlega úr tengslum við tískuheiminn.. ?

Eru fleiri setningar en þessi sem konur ættu að forðast .. : "Já, gvuð ég veit, þetta er alveg eins hjá mér. Karlmenn...þeir gera mann brjálaðan" 

 Er planið að gefa allar þessar stórhættulegu setningar út í bók á næstunni.. ?

  Yrðir þú sáttur ef kvenmenn gengu bara í búrkum.. ?

Gerðu það fyrir mig,.. lestu þetta aftur,.. 

Því að einhver er  ástæða þess að margar konur hafa lesið þennan pistil og langflestar orðið sármóðgaðar yfir stjórnseminni og besservisser-kjaftæðinu í þér.. !

KT (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 15:06

14 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Svanur. Takk fyrir að vekja þessa skemtilegu umræðu og þörf er hún. Varð allt í einu ennþá ánægðari en venjulega með að vera púkalega klædd og á köflum of stelpuleg í hegðun (virðuleikann vantar). Stærsta gleðin við að eiga fullorðin börn er að sjá að þeim gengur vel og tala við mann ef eitthvað bjátar á.

Annars eiga þau að lifa sínu lífi en ekki foreldranna. þetta er mín skoðun. Er jafnréttissinnuð en ekki kvenréttindasinnuð. Stundum er gott að vekja fólk til umhugsunar um lífið og tilveruna.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.5.2009 kl. 18:23

15 Smámynd: Eygló

Ég áttaði mig bara alls ekki á því hve pistillinn þinn er fáránlegur og vondur.... fyrr en ég fór að lesa athugasemdirnar.

Ég leit á þetta sem vangaveltur um örar og miklar breytingar í samfélaginu og þ.m.t. samband foreldra við börn sín.

Ég fæddist 43 ára móður. Hún var og verður besta vinkona mín. Hún var að vísu voða hallærisleg og sveitó; í eldhúskjól.  Aldrei metingur þar.

22 eignaðist ég svo dóttur. Hún er vinur minn eftir mömmu. Hún trúði mér seinna fyrir því að hún hefði reynt að keppa við mig en það var víst eitthvað annað. Hvorugar eigum við þvengbrækur né leiðinlega sambýlismenn. En við tölum um ALLT. Það HELD ég allavega, ég veit ekki um það sem mér hefur ekki verið sagt frá.

Eygló, 20.5.2009 kl. 22:53

16 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það er greinilegt á viðbrögðum margra að þeir hafa farið á hundavaði yfir greinina og ekki átta'ð sig um hvað hún fjallar. Fyrir mér vakti að vekja atygli á þau óæskilegu áhrif sem æskudýrkun sú sem alið er á hvarvetna í fjölmiðlum hefur á mæður og samband þeirra við dætur sínar.

Vegna þess að ég er að tala um fjölda mæðra er ég "að fella dóm yfir öllum konum" samkvæmt KT.

KJ sárnar mjög að ég skuli gefa í skyn að "blómatími" kvenna sé ekki ævarandi. Þeir verða að spyrja sig hver sé munurinn á blómatíma og öðrum tímabilum í lífi hvers og eins. Hluti af æskudýrkuninni er að að neita þeirri staðreynd að við göngum í gegnum einskonar árstíðir í lífi okkar og að blómatíminn er annar en uppskerutíminn og þá hennar er notið er annar tími en þegar hún er undirbúin o.s.f.r.

TH skilur ekkert hvað ég er að fara með þessu en spyr samt; "er þetta ekki hluti af æskudýrkun samfélagsins almennt".

KJ virðist heldur ekki átta sig á því að aðalefni færslunnar sé umrædd æskudýrkun og segir; "Thú ert algjorlega kominn á adra braut, talandi um aeskudýrkun kvenna??"

Spurningar KT sýna að hún dregur fáránlegar ályktanir af greininni, en hér koma svör við spurningum hennar lið fyrir lið;

Afhverju mega fertugar ekki vera í G-strengjum ef þær vilja.. ?Áður en G-strengurinn komst almennt í tísku var hann aðallega notaður af fólki sem vann í kynlífsiðnaðinum. Almenn notkun hans á vesturlöndum tengist enn ákveðnum kynferðislegum skilaboðum og eru hluti af æskudýrkuninni. Það segir hvergi í greininni að fertugar konur megi ekki vera í g-streng, en hann ásamt bótoxinu er notað til að teikna upp þá persónuímynd sem greininn fjallar um.

Afhverju er það athugavert að móðir tali um karlmenn við dóttur sína.. ? Það er hvergi sagt eða gefið í skyn í greininni að það sé eitthvað athugavert við að móðir tali um karlmenn við dóttur sínar. Það er lögð áhersla á að það sé gert á ákveðin hátt, þ.e. meira sem ráðgefandi og leiðbeinandi en sem keppinautur.

Hvaða varanlega sálarskaða hljóta dætur af því að vera í samskiptum við móður sína.. ? Í greininni er hvergi talað um þetta. Það er talað um að sálarskaði hljótist af því að tileinka sér það sem drasl-sjónvarpsþættir og kvikmyndir, tímarit og dagblöð boða um hina fullkomnu kvenlegu ímynd,  þ.e. að vera ungt og magurt kynferðislegt rándýr.

Hvað er að því að eiga gott samband við móður sína og jafnvel að deila öllu með henni.. ?Hvar í greininni er mælt á móti góðu sambandi við móður? Hver segir að móðir eigi að deila öllu með dóttur sinni. Hér sem annarsstaðar verða að vera ákveðin takmörk sem vernda einkalíf beggja aðila.

Hvað er að því að vera 17 ára í hjartanu.. ? Ekkert.. fyrir þá sem vilja vera tilfinningalegir eilífðartáningar

Hver á að ákveða hvaða aldurskeiði tilheyri hvaða stíll,.. ? Konurnar sjálfar vitanlega, ekki áróðurstæki æskudýrkunarinnar.

Hvers konar upplausn blívar í samfélaginu vegna klæðaburðar eldri kvenna.. ? Klæðaburður kvenna er ekki það sama og hlutverk kvenna. Hlutverk kvenna er m.a. að vera góðar mæður. Án þeirra verður upplausn í samfélaginu. (Um það þarf ekki að deila né styðjast við einhverjar rannsóknir til að geta fullyrt TH)

Afhverju þarf fyrirmynd ungra kvenna að vera sallaróleg og algjörlega úr tengslum við tískuheiminn.. ? Hvar er þetta sagt eða gefið í skyn í greininni? Það sem sagt er um tískuna, gefur einmitt í skin að best sé að forðast öfgarnar til beggja hliða.

Eru fleiri setningar en þessi sem konur ættu að forðast .. : "Já, gvuð ég veit, þetta er alveg eins hjá mér. Karlmenn...þeir gera mann brjálaðan" Já, allar setningar sem gefa til kynna að það sé í raun enginn munur á þér og dóttur þinni þegar kemur að ástarmálum.

 Er planið að gefa allar þessar stórhættulegu setningar út í bók á næstunni.. ? Það veitti greinilega ekki af.

  Yrðir þú sáttur ef kvenmenn gengu bara í búrkum.. ? Nei,en það er bara persónulegur smekkur minn. Hins vegar leggst ég gegn andlitblæjum á öðrum forsendum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.5.2009 kl. 00:09

17 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Arndís. Þakka þér þessa krækju. Gott að sjá að hvað margir tjá sig þarna jákvætt um pistilinn.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.5.2009 kl. 00:17

18 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Maíja.

Þú skrifar "Ég leit á þetta sem vangaveltur um örar og miklar breytingar í samfélaginu og þ.m.t. samband foreldra við börn sín."

Hvernig lítur þú þá nú á pistilinn? Hvervegna er hann "fáránlegur og vondur" ?

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.5.2009 kl. 00:21

19 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir góða athugasemd Anna Sigríður :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.5.2009 kl. 00:23

20 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Úff ég verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum að lesa þennan pistil. Þú skrifar yfirleitt mjög góða og áhugaverða pistla. Og ert einn af þeim bloggurum sem ég virði mest.

Mæður eru eitthvað mikið meir en bara mæður og að vera vinkona dóttir sinnar er ekkert til að skammast sín fyrir. Auðvita eru mörk þarna eins og annars staðar en pistillinn stúttfullur af fordómum.

Varðandi g-strengin, þá held ég að undirfatatíska komi og fari og satt að segja er g-strengur ekki neitt í tísku núna.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 21.5.2009 kl. 00:27

21 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Nanna og þakka þér athugasemdina.

Gagnvart hverjum finnast þér fordómar greinarinnar beinast? Konum almennt, eða þeim konum og stúlkum sem verða æskudýrkunar-dellunni að bráð? -

Og ég ítreka, það er síður en svo lagst gegn vinskap mæðra við dætur sínar. slíkt væri fáránlegt. Það er verið að fetta fingur út í ákveðna tegund vinskapar, ein og ég hef tíundað hér í mörgum svörum mínum.

Gott mál þetta með g-strenginn :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.5.2009 kl. 00:41

22 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Konum, mæðrum og dætrum.

Ég held að þú ert að gagnrína að einhverju leiti kannski svona hmmm... 1/5 af konum á íslandi.

1. er ekkert bara æsku og blómatími kvenna einhvert fast skeið. Konur geta blómstrað á öllum aldri og sumar eru fallegari með aldrinum.

2. Flestir vilja líta vel út, útlit er smekksatriði og það sem einum finnst fallegt getur öðrum finnst mjög ósmekklegt og ljótt. Það þýðir ekki að það sé rétt

3. það er misjafn hversu langt fólk vill, getur og kann að ganga í að líta vel út.

4. Það er ákveðin tónn í greininni þinni sem felur í sér fyrirlitningu til vinskap mæðgna.

5. Hvað með unga foreldra, eiga þeir engan séns því þeir eru ekki æskileg fyrirmynd?

6. Hvað með feður sem eru ennþá að gera það sem unglingar gera og eru "bestu" vinir barna sinna?

Nokkur fleirri atriði sem ég er ekki sátt við. Greinin er bara mjög gagnrínin og segir pínu minn álit og smekkur er betra en ykkar, sem er mjög ólíkt þínum greinum. Þær eru yfirleitt hlutlausar og vandaðar.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 21.5.2009 kl. 00:56

23 Smámynd: Eygló

Æ,Ó,Ó... nú ætlaðist ég til að þú værir skyggn; hélt þú sæir púka- og kaldhæðnisvipinn á mér, og ég hérna ein við tölvuna.

Núna finnst mér allir misskilja alla : )

SVANUR, ég ætla að reyna betur núna.  Mér fannst gaman að lesa pistilinn þinn og get tekið undir ansi margt sem þú setur fram. SVO, þegar ég var búin að lesa athugasemdirnar, sem mér finnst flestar beinast í aðrar áttir og sumar tæpast hægt að sjá að séu viðbrögð við greininni (kannski misskilist af lesendum)

Það var minn skrýtni húmor að segjast EKKI hafa VITAÐ hversu fáránlegur hann var FYRR en ég sá hvað margir skrifuðu kúnstuglega við hann = Mér fannst gaman að lesa pistilinn. Eftir að hafa lesið margt fremur skrýtið og/eða neikvætt, ÞÓTTIST ég hugsa með mér að þetta væri arfavitlaust og fáránlegt. Svona eins og skoðanalaust fólk gerir stundum.  Ég hætti ekki að skrifa hérna fyrr en ég er viss um að þú fattir að hrósið var hrós en ekki athugasemd.

II  Annars. Mér líður ekki vel þegar auglýst er ýmiskonar þjónusta fyrir konur; "dekurdagar", "líkamsrækt", "sápur", "krem" og jafnvel augnaháralitur, að oft skuli klykkt út með:  "... af því að þú átt það skilið..."   Nú ætla ég að fara að telja hversu oft auglýsingar um/fyrir börnin séu af því þau eigi það skilið.

III Hvar eru Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir? Ýmist sér maður ekkert nema ákveðið fólk og svo allt í einu veit maður ekkert um sama fólkið. Ég veit ekki hvort þau eru lífs eða liðin, ef útí það er farið.

Eygló, 21.5.2009 kl. 01:06

24 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

 Ég er svo aldeilis hissa, eins og elskunin hún móðir mín hefði sagt:

aðgát skal höfð í umræðum um konur og sambönd þeirra,  greinilega mjög heitt tilfinningamál.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.5.2009 kl. 01:20

25 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Kæra Nanna.

Þetta eru nokkuð ígrunduð gagnrýni hjá þér á gagnrýnisgrein mína og verðskuldar vissulega umhugsun mína. Ég hef greinilega vogað mér inn í umræður sem körlum er best að forðast, eins og sést best á athugasemdunum hér að ofan.

Ég nota orðið "blómatími" í merkingunni unglingsár og æska og gagnrýni mín beinist gegn þeim sem neita að horfast í augu við þær staðreyndir að munur sé á lífssýn og fyrirheitum æsku og unglingsára og öðrum skeiðum lífsins.

Um tóninn í greininni viðurkenni ég að hann er heldur hranalegur í garð þess og þeirra sem sem gagnrýnin beinist að, æskudýrkendum og predikurum æskuhyggjunnar. Myndmálið er gróft og sumt af því er fengið að láni hjá rithöfundinum og blaðakonunni Libby Purves og er að finna í bók hennar The Shadow Child.

En það er rétt hjá þér að greinin er langt frá því að vera hlutlaus frásögn, né heldur er hægt að segja það um þær rúmar tuttugu bloggfærslur sem ég hef skrifað og fjalla um jafnréttismál og kvennaréttindi.

Og það er líka rétt að hún tekur ekki til feðra en það er mál sem ég hefi hugsað mér að bæta úr fljótlega.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.5.2009 kl. 01:43

26 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Úff Maíja. Ég hef tekið gleði mína aftur :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.5.2009 kl. 01:46

27 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það verður aldrei sagt um íslenskar konur að þær séu skaplausar Jenný :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.5.2009 kl. 01:49

28 identicon

Ég las og fannst þessi færsla áhugaverð og umhugsunarverð. Tók henni ekki sem árás á okkur konur þó að mér þætti  orðaval stundum sérstakt og tilfallið að vekja reiði eins og um g-strenginn  og bótoxið.   Málið er að konur vilja flestar halda sér í formi, vera frísklegar og þokkalega til hafðar, bara ósköp eðlilegt og það á auðvitað við um flestar manneskjur.  Ég er móðir rúmlega tvítugrar stúlku og samband okkar er mjög traust og gott, stelpan í okkur báðum brýst oft  fram og það skilar sér í hlátri og skemmtilegheitum. Það er ekki alveg eðlilegt að mæður keppi við dætur sýnar í útliti. Viðmiðið sé  eitthvað annað en útlit dótturinnar, frekar vellíðan, heilbrigt og gott útlit.  Löngunin til að verða "kellingaleg" er lítil  hjá okkur flestum og tilraunin til að sporna við því fer kannski stundum  úr böndunum hjá sumum. Margar fara of neðarlega í aldri þegar verið er passa uppá það og það getur verið jafnhallærislegt að vera of stelpuleg miðalddra og að líta út eins og ónefnd drottning gamals heimsveldis þegar við erum bara 40.   Ég held að dóttir vilji fyrst og fremst skynja móður sína sem þroskaða, þokkalega afslappaða konu,  sem getur hlegið með henni og  er kletturinn í lífinu hvað sem á dynur.

Öfgar eru til í æskudýrkun bæði hjá körlum og konum. Margir karlar á miðjum aldri telja sig hafa mikinn sjens í rúmlega tvítugar stelpur og reyna að halda í gæjann í sér sem lengst með ýmsum útgáfum af árangri. 

Oft erfitt að finna hinn gullna meðalveg í þessu sem öðru.

Anna (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 07:31

29 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Anna og þakka þér þessa frábæru athugasemd sem ég tek undir hvert orð í.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.5.2009 kl. 12:57

30 identicon

Þörf umræða. En sorgleg vegna þess að baráttan við aldurinn útlitslega er auðvitað vonlaus. Ég hef bloggað um þetta en frá öðru sjónarhorni. Held að þetta sé allt undir rifjum konunnar runnið. Við höldum þessu við með endalausu aldurskjaftæði hvor við aðra: Þú gætir verið 10 árum yngri! Eins og það sé toppurinn.

Krem seld fyrir miljarða sem eiga að gera kraftaverk. Trúin flytur fjöll. Og þau okkar sem festast í þessari firru njóta ekki augnabliksins sem aldrei kemur aftur. Takk fyrir gott blogg.

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 17:13

31 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir þetta Hallgerður.

Svanur Gísli Þorkelsson, 22.5.2009 kl. 02:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband