23.7.2008 | 13:06
Apakattarkónungurinn - Meiri monkey business
Apakattarkóngurinner byggð á sannri sögu um frægan munk sem hét Xuan Zang og var uppi á tímum kínverska Tang veldisins (602-664). Eftir áratuga prófraunir og erfiðleika, kemst hann fótgangandi til Indlands, þar sem Búddismi er uppruninn. Þar fær hann hinar þrjár heilögu bækur Búddismans. Hann snýr heim og þýðir sútrurnar á kínversku og brýtur þannig blað í sögu Búddismans í Kína.
Apakattarkóngurinn er táknræn ferðasaga sem er blönduð kínverskum ævintýrum, dæmisögum, goðsögum, hjátrú, flökkusögum, skrímslasögum og nánast hverju öðru sem höfundurinn fann í Taoisma, Búddisma og kínverskri alþýðutrú. Þótt margir af lesendunum verði fangaðir af lærdóminum og viskunni sem í sögunni er að finna, halda rýnendur því gjarnan fram að kjarna sögunnar sé að finna í einni söguhetjunni (Apakettinum) sem er uppreisnarseggur sem mótmælir harðlega ríkjandi lénsherraskipulagi þeirra tíma.
Apakötturinn er sannarlega uppreisnargjarn. Samkvæmt sögunni er hann fæddur af steini sem var gerður frjór fyrir miskunn himins og jarðar. Hann er afar skynsamur og lærir fljótt öll brögð og galdra Gonfu listarinnar af ódauðlegum Tao meistara. Hann getur m.a. tekið á sig sjötíu og tvær mismunandi myndir, eins og trés, fugls, rándýrs eða skordýrs sem getur skriðið inn í líkama óvinar síns og barist við hann innan frá. Hann getur ferðast 108.000 mílur í einum kollhnís með því að nota skýin sem stiklusteina.
Hann gerir tilkall til að vera Konungur í blóra við hið eina sanna vald sem ræður himni, höfum, jörð og undirheimum, Yù Huáng Dà Dì, eða "Hins mikla keisara Jaðans". Þessi drottinssvik auk kvartanna meistara hinna fjögurra úthafa og Hels, kalla yfir Apaköttinn stöðugar erjur við útsendara frá hinum himneska her. Slagurinn berst um víðan völl og hrekur Apaköttinn út í haf eitt þar sem hann finnur fjársjóð drekakonungsins sem er langur gullofinn járnstafur sem notaður er sem kjölfesta vatnanna. Stafurinn hefur þá náttúru að geta minkað og stækkað eftir þörfum og verður að uppáhalds vopni Apakattarins. Fyrst reynir á krafta stafsins þegar Apakötturinn skellir sér til Hels (undirheimanna) og skorar á Hades konung á hólm til að hann þyrmi lífi sínu og félaga sinna og eignist eilíft líf.
Eftir margar orrustur við hinn hugrakka Apakattarkonung og jafnmarga ósigra hins himneska hers, á hinn himneski einvaldur ekkert eftir nema dúfnaherinn sem enn hafði ekki fengið tækifæri til að semja um frið. Dúfurnar bjóða apakettinum formlegan titil á himnum en án teljanlegs valds. Þegar að Apakötturinn kemst að því að hann hefur verið plataður og að hann er orðinn miðdepill spotts og háðs á himninum, gerir hann uppreisn aftur og berst alla leið aftur til jarðar þar sem hann tekur upp fyrri stöðu sem "Konungur".
Að lokum fer svo að hinn himneski her með aðstoð allra herguðanna tekst að handsama hinn nánast ósigrandi Apakött. Hann er dæmdur til dauða. En allar aftökuleiðir gagna ekki gegn honum. Höfuð hans er úr bronsi og axlir úr járni þannig að sverðin hrökkva af honum og verða deig. Að lokum skipar himnakeisarinn svo fyrir að hann verði lokaður inn í ofni þeim sem Tao meistarinn Tai Shang Lao Jun býr til töflur eilífs lífs. Í stað þessa að drepa Apaköttinn verður eldurinn og reykurinn til þess að skerpa svo sjón hans að nú getur hann séð í gegnum holt og hæðir. En og aftur nær hann að sleppa og finna sér leið til jarðarinnar.
Algerlega ráðlaus leitar hinn himneski Keisari til sjálfs Búdda og biður hann um aðstoð. Budda fangelsar Apaköttinn undir miklu fjalli, þekkt undir heitinu Wu Zhi Shan (Fimm fingra fjall). Apakötturinn lifir samt af þunga fjallsins og fimm hundruð árum seinna kemur honum til bjargar Tang munkurinn Xuan Zang sem getið er í upphafi sögunnar.
Til að tryggja að munkurinn komist heill á höldnu til vestursins og finni sútrurnar, hefur Búdda komið því svo fyrir að Apakattarkóngurinn verði leiðsöguamaður hans og lífvörður í gerfi lærlings hans. Tveir lærlingar bætast fljótlega í hópinn og allt er með vilja og ráðum Budda gert. Einn þeirra er svín sem fyrrum hafði verið hershöfðingi í hinum himneska her en brotið af sér gegn himnakeisaranum. Hinn er sjávarskrímsli sem einnig hafði verið hershöfðingi en er nú í útlegð fyrir afbrot sem hann hafði framið þá hann var í þjónustu Himnakeisara.
Þessir ferðafélagar halda nú í vestur ásamt hesti einum sem sendur er þeim til aðstoðar og er endurfæddur drekasonur. Saman finna þeir umgetnar sútrur. Ferðasagan er full af undrum og ævintýrum eins og merkja má af þessu hraðsoðna yfirliti forsögunnar.
Myndskreytta söguna í heild sinni má lesa hér á ensku
Meiri monkey business:
Api (ekki apaköttur) sýnir hér mikla djörfung við að stríða tígrisdýrum. Þetta er kannski ekki fallega gert hjá honum en hann er bara svo fyndinn.
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 14:11 | Facebook
Athugasemdir
Heil og sæl Svanur.
Ertu viss að þetta sé ekki api í myndbandinu mig minnir að skilgreiningin á apaketti væri sú að hann er með rófu en apar eru ekki með rófu.
kveðja Ingó.
Ingó (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 13:35
kvitt..
Gulli litli, 23.7.2008 kl. 13:49
þetta er Gibbon og er hann flinkasti apinn í hverfinu.
Óskar Þorkelsson, 23.7.2008 kl. 13:54
Já ekki sér maður marga apast upp á tígrisdýr.
Ingó (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 14:00
Mikið rétt drengir, þetta átti að vera omvent. Hef leiðrétt það. Takk fyrir.
Svanur Gísli Þorkelsson, 23.7.2008 kl. 14:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.