10.1.2013 | 17:28
Litlir sætir strákar
Sé það rétt hjá Önnu Kristínu Newton Réttarsálfræðingi að um eitt þúsund íslenskir karlmenn séu haldnir barnagirnd og séu "með hugsanir sem tengjast því eingöngu" er "svarti bletturinn" í íslensku þjóðfélagi sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra talar um, öllu stærri en sá sem Karl Vignir Þorsteinsson hefur skilið eftir sig.
Vilja og getuleysi stjórnvalda til að bregðast við þessu þjóðfélagsmeini, þrátt fyrir hversu oft hefur verið á það bent bæði af þolendum og af alþjóðlegum stofnunum sem láta sig málefni barna varða, er óskiljanlegt.
Árið 2011 lét UNICEF frá sér fara skýrslu um stöðu barna á Íslandi. "Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að engar reglulegar mælingar hafa farið fram hérlendis á tíðni ofbeldis gegn börnum og enginn á vegum hins opinbera ber ábyrgð á forvörnum í þessum málaflokki. Leiða má líkur að því að þúsundir barna á Íslandi verði á ári hverju fyrir kynferðislegu ofbeldi, heimilisofbeldi og öðru ofbeldi , en þrátt fyrir það reyna yfirvöld ekki markvisst að kortleggja vandann með reglubundnum rannsóknum og markvissri greiningu. Einungis er haldið utan um fjölda þeirra tilkynninga sem berast til barnaverndarnefnda. Enginn opinber aðili hefur það hlutverk að berjast gegn ofbeldi á börnum."
Hvorki þessi né aðrar ábendingar hafa orðið til þess að vekja viðbrögð stjórnvalda né vakið upp teljandi umræðu í samfélaginu um "svörtu blettina".
Í samfélaginu virðist ríkja almennt andvaraleysi og/eða meðvirkni gagnvart barnaníðingum. Hvernig annars gat langvarandi og stöðug misnotkun barna af fólki eins og Karli Vigni Þorsteinssyni, séra A. George, sem var skólastjóri Landakotsskóla, Margétar Müller, og séra Helga Hróbjartssyni og Ólafi Skúlasyni biskups, viðgengist?
Og hvernig grefur svona mein um sig í þjóðfélaginu? Hvaða þættir stuðla að því að fólk er tilbúið til að líta fram hjá hinum augljósustu ummerkjum um þessa tegund misferlis og jafnvel heiðra þá sem það stunda fyrir vel unnin verk.
Meðvirknin endurspeglast t.d. vel í umfjöllun Jóns Halls Stefánssonar þegar hann skrifar um verk hins marg-heiðraða Megasar á Bókmenntir.is. Um lög og texta Megasar sem fjalla um barnagirnd segir Jón;
Lífsorkan og ögrunarkrafturinn leiftra skært í kjarna lagasafnsins og lengsta bálkinum, "Drengirnir í Bangkok" - skáldið virðist endurfæðast í hinu framandlega, í menningarlegu tilliti og kynferðislegu.
Hitt alþekkta lagið á plötunni er skopsöngurinn "Litlir sætir strákar"sem átti eftir að koma Megasi í koll. Textinn er vissulega ögrandi eða stríðnislegur en umfram allt reyndist tímasetningin óheppileg: þetta var í upphafi vitundarvakningar um barnagirnd og lagið hefur sennilega vakið athygli fólks sem kunni engin skil á skáldskap Megasar og þekkti kannski lítið til íroníu í bókmenntum almennt.
Í umfjöllun um tónlist Megasar á Hugi.is er þetta að finna:
Tæland átti svo eftir að koma mikið við sögu á næstu plötu hans sem nefndist Höfuðlausnir. Platan var undir greinilegum áhrifum frá Tælandi, bæði hvað lög og texta varðar. Megas hneykslaði enn og aftur með textum sínum og var það sérstaklega textinn í laginu Drengirnir í Bangkok sem fólk tók eftir. Í textanum var talað um hve gott það væri að koma við og strjúka drengina frá Bangkok, og fór það fyrir brjóstið á mörgum ekki síst eftir að þeim var litið aftan á plötuumslagið. Þar mátti sjá Megas ásamt fólki sem hann kynntist í Tælandi og fannst fólki hann halda full vinalega utan um ungan dreng. Megas kom svo með þennan dreng til Íslands og þá fóru kjaftasögurnar á fullt, meðal annars um að Megas væri að leigja drenginn út og stunda mansal. Megas sjálfur segir þetta þó algjöra fjarstæðu, hann hafi einungis verið að veita honum og móður drengsins fjárhagslegan stuðning, svo hún gæti komist á spítala og hann á námskeið. Það er svo önnur saga að sennilega hefur þetta fólk brugðist trúnaði skáldsins og ef til vill stundað einhverja þá iðju sem ekki var ætlast til af þeim.
Það var svo árið 1988 að Megas að fór aftur að vinna með Bubba Morthens og nú í meiri mæli en áður. Þeir gáfu saman út plötuna Bláir draumarog seldist platan í 6000 eintökum. Það hefði þótt fínt fyrir sólóplötu frá Megasi en hins vegar hálfgerður skandall fyrir Bubba sem var heitur á þessum tíma og var hann vanur að selja a.m.k. helmingi fleiri eintök. Ástæðan fyrir þessari slöku sölu mun hafa verið að á plötunni var að finna lagið Litlir sætir strákar, en textinn fjallaði um hvað litlir sætir strákar væru langtum betra val en kvenkynið. Í textanum kom einnig fram að stelpur væru tælandi frá aldrinum tólf og niðrí átta og það fór sérstaklega fyrir brjóstið á mönnum. Lagið var bannað í útvarpinu því að Barnaverndarstofa fór fram á það. Eftir þetta var Megas svotil þaggaður í hel og næstu plötur hans fóru ekki hátt.
Sjálfur afsakar Megas textagerð sína í viðtali með þessum trúverðuga hætti, eða hitt þó heldur. Eintómur reykur segir hann, enginn eldur;
Mitt hlutverk er að fjalla um hlutina og fletta ofan af þeim, ekki reka áróður fyrir þeim. Litlir sætir strákar er til dæmis ekki sú ósvífni eða óþokkaskapur af minni hálfu sem margir álíta, heldur lag sem fjallar um kvenfyrirlitningu. Skömmu áður en ég samdi lagið átti ég samtal við mann sem gerði fátt annað en alhæfa um allar þessar helvítis kellingar, þær væru allar eins, þessar helvítis kellingar. Ég missti á endanum þolinmæðina og spurði hvers vegna hann fengi sér þá ekki frekar lítinn sætan strák, sem er bara gay lingóið fyrir ungan samkynhneigðan elskhuga. Textinn er mjög gegnsær að þessu leiti en fólk á það til að lesa bara fyrirsagnirnar og byrja síðan að býsnast.
Svartur blettur á samfélaginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
McCarthy tímabilið að eignast hliðstæðu ?
hilmar jónsson, 10.1.2013 kl. 17:50
Eins og Svanur hefur eftir réttarsálfræðingnum gætu allt að 1000 íslenskir karlmenn haldnir hugsunum sem tengjast barnagirnd. Ekki endilega gerendur - en...
Allt að eitt þúsund af um það bil 170 þúsund íslenskum karlmönnum eða 0,6%! Og samt liggja allir hinir 99,4% þeirra undir grun - að ósekju.
Hitt er svo annað mál, að gerendur hafa alltaf skilið eftir sig spor, sem enginn virðist hafa haft áhuga á að athuga nánar. Ekki fráleitt að fullyrða að það hefði mátt uppræta flest brotin jafnóðum ef þessi "enginn" hefði hlustað.
Kolbrún Hilmars, 10.1.2013 kl. 19:11
Öll þjóðfélgög virðast fá sinn skammt af svona mönnum, af hverju svo sem það er. Væri ekki gott í þessari umræðu að íhuga hvað er hægt að gera til forvarna? En þetta eru auðvitað mjög slóttugir einstaklingar, sem vita að þeir eru að brjóta af sér.
Margrét Ásgeirsdóttir, 10.1.2013 kl. 21:30
Áttu við að textar Megasar réttlæti barnaníð?
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 10.1.2013 kl. 23:38
Eva, nei, alls ekki. Ég bendi á að hans eigin sögn sé hann að hafa barnaníð í flimtingum og hvernig sú umfjöllun virðist vera tekin góð og gild þrátt fyrir að flestir viti betur.
Svanur Gísli Þorkelsson, 10.1.2013 kl. 23:45
Ekki veit ég hvaða kröfur þú Svanur Gísli Þorkelsson gerir til sjálfs þín um framsetningu á máli þínu, en ef þú skoðar af heiðarleika það sem að Ólafi Skúlasyni snýr þá muntu sjá að mjög margt kallar fram efasemdir um að hægt sé að halda því óhikað fram að hann hafi verið barnaníðingur. Þá hugsa ég að það velti á skilgreiningu hvort Helgi Hróbjartsson teljist barnaníðingur, þar sem fórnarlömb hans voru stálpaðir unglingar eftir því sem fram kom í fréttum. Ekki skal ég segja hvort þessi framsetning þín falli undir andvaraleysi eða meðvirkni, en þó gæti það hæglega verið. Andvaraleysi og meðvirkni geta svo hæglega orðið að þjóðfélagsmeini eins og dæmin sanna. Ég hugsa að þú viljir ekki stuðla að neinu slíku.
Kristinn Jens Sigurþórsson (IP-tala skráð) 11.1.2013 kl. 10:34
Sæll Kristinn.
Ég efast ekki um að framburður Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur sé sannur og hún segist hafa verið ung að aldri þegar misnotkunin hófst.
Helgi Hróbjartsson játaði að hafa um ábil misnotað "unga pilta".
Ég tel mig hvorki andvaralausan gagnvart mannorðsmorðum eða meðvirkur í einhverri múgæsingu.
Taktu samt eftir hvernig yfirvöld hafa þessa dagana, í kjölfar þessarar miklu umfjöllunar um mál Karls Vignis, allt í einu nóg að gera í kynferðisafbrotamálum. - Er það múgæsing, eða er loks verið að taka á vandmálum sem hingað til hefur verið leyft að danka?
Svanur Gísli Þorkelsson, 11.1.2013 kl. 12:52
Þú ræður auðvitað á hverju þú byggir afstöðu þína til manna og málefna en þó máttu vita að það eru til ýmsar leiðir til að túlka "minningar" Guðrúnar Ebbu:
http://tru.is/pistlar/2011/10/baeldar-minningar-a-braudfotum
http://tru.is/pistlar/2011/11/minningar-medferd-mannordsmissir
http://tru.is/pistlar/2011/11/areidanleiki-baeldra-minninga
Mál Helga Hróbjartssonar þekki ég miklu minna, en man þó ekki betur en að þau tilfelli, sem uppvíst varð um hafi snúist um stálpaða unglinga. Þú mátt þó gjarnan benda á þá heimild þar sem segir að hann hafi um árabil misnotað unga pilta eins og þú heldur fram.
Kristinn Jens Sigurþórsson (IP-tala skráð) 11.1.2013 kl. 14:46
Rakst á þessa áhugaverðu hugleiðingu, sem hæglega getur verið innlegg í umræðuna um andvaraleysið og meðvirknina:
http://svavaralfred.blog.is/blog/svavaralfred/entry/1276559/
Kristinn Jens Sigurþórsson (IP-tala skráð) 11.1.2013 kl. 15:49
Heill og sæll Gísli!
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá þér að ein stærsta sjónvarpsstjarna breta um árabil, nú nýlátinn. Heiðraður og aðlaður; hafði misnotað um það bil 200 einstaklinga flesta börn og nauðgað um 30. Helmingur þeirra var vistaður á sjúkrahúsum! Stúlka 15 ára sem hafði starfað sem dansari í þáttum hans hafði kært hann og henni nánast sagt að halda kjafti. Hún framdi sjálfsmorð en skildi eftir sig skriflega frásögn, það var árið 1971. Skyldmenni sem höfðu lent í honum var einnig sagt að hafa hljótt um sig af ömmu sinni. Amman var aðnjótandi peninga frá þessari lýsandi sjtörnu og vildi ekki missa af því. þetta er byggt á grein í independent í dag.
það hefur plagsiður að þagga niður það óþægilega og börnum hefur auðveldlega verið fórnað, ekki síst á Íslandi. Við tilheyrum báðir kynslóð sem ólst upp með lykil um hálsinn. Vegna þess að foreldrunum lá svo á að koma sér þaki yfir höfuðið, bjarga sér, vera dugleg að hgsmunum barnanna var fórnað án þess að nokkur deplaði auga. Ég held Gísli að þetta sé hluti af stærra dæmi og það snúist ekki bara um 1000 manns haldna bölvaðri ónáttúru.
Með innilegum kveðjum
Eiríkur
Eiríkur Guðjónsson Wulcan (IP-tala skráð) 13.1.2013 kl. 19:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.