Saga úr aldingarðinum

Þá tók Drottinn Guð manninn rétt eins hann væri tindáti og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.

Og Drottinn Guð bauð manninum góðan daginn í fyrsta sinn og sagði: "Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja." Guð mátti engan tíma missa til að setja mannkindinni lög og reglur. Þetta var á þeim tímum þegar það var dauðasök að skilja nokkurn skapaðan hlut. Drottinn hafði einkaleyfi á öllum skilningi sem var einhvers virði og auðvitað dauðanum líka.  Hann hafði einmitt hugsað sér að mannkynið ráfaði um að eilífu eins og hinar skepnurnar, algerlega án þess að gera sér grein fyrir hvort Guð og allt annað væri gott eða illt.

Og maðurinn svaraði: Það er kannski bara eins gott að maður drepist frekar en að hýrast hérna einn til eilífðarnóns við að gæta þessa guðsvolaða aldingarðs,  Guð má vita fyrir hverjum. Ekki er fjölmenninu fyrir að fara.

Drottinn Guð sagði: "Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi."

Að svo búnu hófst hann handa við mikla tilraunastarfsemi við að finna meðhjálp við hæfi handa manninum.

Þá myndaði Drottinn Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra.

Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. En meðhjálp fyrir mann fann hann enga við sitt hæfi, sama hvað hann reyndi. 

Þá lét Drottinn Guð fastan svefn falla á manninn. Hann vissi að það sem framundan var yrði afar sársaukafullt. Og er hann var sofnaður, tók hann eitt af rifjum hans og fyllti aftur með holdi. Ááááiii.

Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins.

Þá sagði maðurinn með stírurnar í augunum: Loksins, loksins tókst þér að koma með eitthvað af viti. Ég ætla ekki að segja þér hvað ég hef gengið í gegnum til að reyna að finna  hentugan félaga. Ég veit samt ekki hvernig þú færð þetta til að ganga upp frá litningafræðilegu sjónarmiði, en hei, það er seinni tíma vandamál. Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin. Skrambi verkjar mig annars í síðuna.

Og vegna þess að maðurinn hafði ekki enn etið af skilningstrénu, lét hann hafa eftirfarandi vísdóm eftir sér; Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold. Þetta fyrirkomulag þar sem hjónaleysur og jafnvel gift hjón búa heima hjá foreldrum sínum fram eftir öllum aldri án þess að gera það, er engan veginn ásættanlegt. Einkum þegar fólk gengur um nakið og blygðast sín ekki.


Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Guð hafi gjört hann slægan svo hann kæmist af, enda hafði hann ekki úr miklu öðru að moða. Enga útlimi eða fálmara hafði hann til að gera sér lífið léttara. Í raun var hann bara risastór ánamaðkur.  Og höggormurinn mælti við konuna sem var afar slyng í slöngutungumáli eins og Harry Potter.  "Er það satt, að Guð hafi sagt: ,Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum'?"

Þá sagði konan bláeygð við höggorminn: "Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta,  en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,' sagði Guð, ,megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.'"

Þá sagði höggormurinn við konuna: "Vissulega munuð þið ekki deyja! En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills. En hvað heitir þessi ávöxtur annars?

Það veit ég ekki. Spurðu karlinn svaraði konan. Það var hann sem gaf öllu nafn hér um slóðir. En ég sé nú að þetta tré gæti verið afar gott að eta af, fagurt á að líta  er það og girnilegt til fróðleiks. Merkilegt annars hvað ávextir geta höfðað mikið til fróðleiksþorsta manna.

Síðan tók hún af ávexti trésins og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem stóð þarna hjá henni og starði tómlátlega út í bláinn.

Og hann át. Um leið og hann hafið rennt niður fyrsta bitanum, rak hann upp mikið öskur og hljóp á bak við næsta runna.

Hvað gengur á spurði konan.

Mikið rosalega var þessi sítróna súr. Og sérðu ekki að við erum nakin, svaraði karlinn. Stattu þarna ekki eins og þvara, gerðu heldur eitthvað í þessu. Geturðu ekki saumað saman laufblöð eða eitthvað svo maður þurfi ekki að ganga um á Adamsklæðunum einum saman.

Sem sagt, þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur sem löngu seinna, eftir að afkomendur þeirra höfðu lært að búa til kjarnorkusprengjur, fengu nafnið Bikiní, í nafnið á nokkrum eyjum sem þeim hafði tekist að sprengja í tætlur.

En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum. Hann var mikið fyrir hressandi gönguferðir á kvöldin og fór ekki hljóðlega um. þá reyndu maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum þótt þeim væri alveg ljóst að það mundi ekki ganga upp þar sem Guð var almáttugur og allt sjáandi.

Og viti menn,  ekki leið á löngu þar til Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: "Hvar ertu?"

Maðurinn svaraði: "Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég var að fatta að ég er nakinn og þess vegna ákvað ég að fela mig." Mig grunaði að vísu að það myndi ekki heppnast.

En Guð mælti: "Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Það átti engin að vita nema ég. Hefir þú kannski verið að eta af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?"

Já svaraði maðurinn, en Það er ekki mér að kenna. Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át. Þar sem ég þekti þá ekki muninn á góðu og illu, vissi ég ekki að ég væri að brjóta af mér. Og í ofanálag varst þú sem skapaðir konuna og gerðir hana eins og hún er. Og til vara skapaðir þú líka höggorminn sem konan var að tala við. Ég skil ekki einu sinni slöngumálið.

Þá sagði Drottinn Guð við konuna: "Hvað hefir þú gjört?"

Og konan svaraði: "Heyrðu góði, það var höggormurinn sem tældi mig, svo að ég át. Það varst þú sem gerðir hann svo slyngan og hann vissi greinilega miklu meira en við. Ég sé ekki hvernig þú færð það til að ganga upp að gera okkur að herrum jarðarinnar en láta samt eina af skepnum hennar vita allt meira og betur en okkur.

Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: "Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga. Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess."

Og höggormurinn svaraði; Þetta breytir nú litlu um mína hagi, nema ef vera kynni þetta með moldina. En gott og vel ég get alveg étið dálítið af mold með öllu hinu. En þetta með mig og konuna finnst mér einum of langt gengið. Þú ert með þessum orðum að gera mig að helsta reðurtákni allra tíma. Að það hafi einhvern tíman verið einhver sérstakur vinskapur milli mín og konunnar í kynferðislegum skilningi eins og þú ert að ýja að, er afar vafasamur boðskapur.

En við konuna sagði Guð því að hans mati var þetta allt henni að kenna og honum var orðið persónulega illa við hana: "Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér."

Og konan svaraði: Ef við sleppum þessum sadó / masó lituðu álögum þínum þá gefur það augaleið að aukin greind krefst aukinnar höfuðstærðar. Þess vegna verður það erfiðara fyrir okkur konurnar að fæða börnin en ella. Frekar það samt en að fæða af sér skynlausar skepnur. Frekar það en að skynja ekki muninn á góðu og illu. Frekar það en að eiga enga möguleika á að finna út fyrir okkur sjálf hvað er gott og hvað ekki.

Og það kann vel að vera að afleiðingin verði sú að við verðum að fæða börnin dálítið fyrr og að þau verði fyrir bragðið frekar hjálparlaus til að byrja með. Við svörum því með að mynda með okkur samfélög svo við getum verndað ungviðið saman og hjálpað hvort öðru. Ég ætla heldur ekkert að skammast mín fyrir að langa til að sofa hjá karlinum mínum, þótt mér finnist þetta síðasta með yfirráð hans yfir mér, ekki vera sanngjarnt. Þú átt eftir að reka þig á það heldur betur þegar fram líða stundir að þessi kennisetning á eftir að valda miklum vandræðum.

Og við manninn sagði Guð: "Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: ,Þú mátt ekki eta af því,' þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar. Í sveita andlits þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!"

En maðurinn sat og horfði í gaupnir sér og hugsaði; Það er naumast að hann getur tuðað. Ég tek reyndar alveg undir með honum,  aldrei að hlusta á kvenfólk. Þetta kostar að maður verður að hætta að liggja í leti og gera ekki neitt og gerast annað hvort veiðimaður eða bóndi. Bölvað ólán.  Hvað á allt þetta eiginlega eftir að leiða af sér ...siðmenningu eða hvað!! 

Og maðurinn áttaði sig á því að hann hafði gefið öllu sem á jörðinni var nafn nema konu sinni og hann nefndi hana Evu, því að hún varð móðir allra, sem lifa. Og Drottinn Guð gjörði manninum og konu hans skinnkyrtla og lét þau klæðast þeim því honum fundust mittisskýlurnar eitthvað svo rýrar.

Drottinn Guð sagði: "Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!" Þá fyrst mundi nú kasta tólfunum. Þá mundi líka verða algjör óþarfi fyrir mig að fórna syni mínum þegar þar að kemur.

Og Adam var þess vegna ekki lengi í Paradís því Drottinn Guð lét hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af. Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.

Köttur út í mýri, sett´upp á sig stýri, úti er ævintýri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Góður :-)

Heimir Tómasson, 30.7.2012 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband