19.9.2011 | 21:53
Okur á Ljósanótt
Í byrjun september var Ljósanótt haldin í Reykjanesbæ með pompi og prakt. Hátíðin var sú fjölmennasta fram að þessu og ekki var veðrið til að spilla gleðinni. - Mikið var í borið og greinilega reynt að koma til móts við alla aldurshópa enda hátíðin auglýst sem fjölskylduhátíð.
Á rölti um bæinn meðal þúsunda gesta kom ég að þar sem verið var að selja helíum-fylltar álblöðrur eins og gjarnan tíðkast á hinum ýmsu bæjarhátíðum um allt land. - Kunningi minn með þrjú börn stóð við söluborðið og á litaskiptunum í andliti hans sá ég að eitthvað var að.
Hann hafði ætlað að kaupa eina blöðru af stærri gerðina fyrir hvert barn en fannst 6000 krónur sem hann var rukkaður um, eða 2000 krónur fyrir hverja blöðru, vera heldur hátt verð fyrir glysið.
Hann spurði þá um minni blöðrurnar og var sagt að fyrir þær þyrfti hann að greiða 1500 krónur fyrir stykkið, eða samtals 4500.
Með andlitið rautt og rínandi ofaní budduna sína gekk kunningi minn frá borðinu og ég sá hvernig skeifur færðust hægt og rólega yfir andlit barna hans.
Konan sem stóð fyrir þessu okri tjáði undirrituðum að hún þyrfti að borga Reykjanesbæ Kr. 67.500 fyrir leyfið til að fá að að selja blöðrurunar og hitt skranið sem hún hafði til sölu í básnum sínum. Sú upphæð væri ástæðan fyrir þessu háa verði á blöðrunum.
Til að hafa upp í kosnaðinn fyrir söluleyfið þurfti hún sem sagt að selja 34 blöðrur af stærri gerðinni. -
Nú er mér ókunnugt um hvað svona blöðrur kosta í innkaupum hérlendins en erlendis er hægt að kaupa þær hjá heildsölum fyrir ca. 25 krónur stykkið. - Kannski er það helíum-flaskan sem er svona dýr.
Svona okur er svo sem ekkert stórmál og gleymist áreiðanlega öllum fljótlega. Mörgum finnst þetta jafnvel titlingaskítur sem óþarfi er að tíunda í öðrum sveitum. En mér finnst þetta dæmi bera vott um hvernig 2007 hugsunarhátturinn lifir enn góðu lífi. - Er það ekki einmitt svona okur sem er best til þess fallið til að slæva dómgreind og verðskyn almennings? Við síkar aðstæður verða flestir foreldar að láta okrið yfir sig ganga, þegjandi og hljóðalaust, af því að það eru börnin þeirra sem eiga hlut að máli. -
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Neibb, maður þarf auðvitað ekki að láta þetta ganga yfir sig ef maður hefur valkosti. Þess vegna fer ég t.d. aldrei í 10-11 og skil ekki fólk sem eyðir fjármunum sínum þar.
Óli minn, 20.9.2011 kl. 12:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.