29.1.2011 | 11:36
Bannað að prumpa í Malaví
Í suðaustur Afríkuríkinu Malaví standa fyrir dyrum miklar lagabætur. Í landinu sem stundum er kallað "Hið heita hjarta Afríku" búa um 14 milljónir og eru um 80% þeirra kristnir og 13% tilheyra Íslam. Landið komst síðast í heimsfréttirnar þegar að poppdrottningin Madonna flaug þangað til að kaupa sér barn.
Lögin sem til stendur að samþykkja varða hverskonar hegðun fólks á almannafæri og eiga auðvitað að stuðla að bættari samskiptum þess og að meira tillit verði tekið til náungans en hingað til hefur tíðkast í landinu.
Í yfirskrift lagabálksins sem lýsir tilgangi þeirra, kemur fram að lögin eigi aðallega að refsa þeim sem trufla trúarlegar samkomur, gangi illa um grafreiti og brjóti gegn velsæmi kvenna.
Þau taka samt hvergi til stærsta félagslega vandmáls landsins, sem er að 12% fullorðna eru smitaðir af HIV.
Lögin munu banna vopnaburð, slagsmál og einvígi, að bera ljúgvitni, að eyðileggja sönnunargögn, koma undan eignum sem ríkið á tilkall til og að leysa vind á almannafæri.
Ákvæði lagana um prump hefur að vonum vakið mikla athygli, ekki síst utan Malaví. Margir hafa velt því fyrir sér hvernig hægt verði að framfylgja slíkum lögum, einkum þegar kemur að börnum og gamalmennum sem litla stjórn hafa á þessum hluta af eðlilegri starfsemi líkamans.
Undirstaða mataræðis í Malaví er maís en undanfarin ár hefur uppskerubrestur verið árviss og fæða landmanna því afar misjöfn að gæðum.
Þeir sem mæla fyrir lögunum segja að viðrekstur á fundum sé of algengur og til mikillar truflunar og þess vegna eigi að banna hann með lögum.
Að auki sé það staðreynd að þeir sem mest leysi vind í landinu séu glæpamenn. Glæpamenn borði verstan mat og því framleiði þeir meira gas en aðrir. Líkur séu því mestar á að það verði glæpamenn sem þegar hafi eitthvað slæmt á samviskunni, sem lendi í fangelsi vegna þessarar lagasetningar.
Meginflokkur: Mannréttindi | Aukaflokkar: Dægurmál, Spaugilegt, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 17:14 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nú alveg stórkostlegt!
Sigrún Skæringsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2011 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.