8.11.2010 | 09:20
Cliffhanger
Þeir félagar Hilmir Snær og Jörundur komust greinilega í hann krappan og þetta hefði vel getað farið illa. Algjör Cliffhanger ll má segja, Jörundur í hlutverki Stallones. Annars finnst mér merkilegast við þessa frétt, nafnið á gígnum Lúdent og þetta með fítonskraftinn. Þarna er komið enn eitt gígsnafnið sem vafi leikur á hvaðan og hvernig er tilkomið. Ég fjallaði fyrir nokkru um Tintron, en það nafn er einnig umdeilt. Vísindavefurinn segir þetta um um nafnið Lúdent.
Lúdent er gígur austan við Mývatn í Suður-Þingeyjarsýslu. Þórhallur Vilmundarson telur nafnið vera dregið af tilbúna orðinu Lútandi sem orðið hafi að Lútendi og svo Lúdent. Síðan hafi orðið stúdent haft áhrif á nafnmyndina (Grímnir 2:109-110).
Ekki er gefið að þessi skýring sé einhlít. Ólíklegt er að -t- á harðmælissvæði verði -d- í þessari stöðu. Hugsanlegt er að nafnið sé samsett, af lút og dent, þannig að tilbúna orðið Lút-dent hafi orðið Lúdent. Orðið dentur merkir kvenhöfuðfat og merkingin væri þá slútandi höfuðfat.
Beyging nafnsins er Lúdentar- í samsetningum, til dæmis Lúdentarhæðirí sóknarlýsingu sr. Jóns Þorsteinssonar frá um 1840 (Þingeyjarsýslur, 118). Björn Gunnlaugsson setti myndina Lúðentarhæðirá Íslandskort sitt 1844. Lúdentarhæðir eru einnig í örnefnaskrá Voga. Þorvaldur Thoroddsen skrifar hinsvegar Lúdents-borgir 1913 (FerðabókI:283) og sömuleiðis Steindór Steindórsson í Árbók FÍ 1934 (bls. 29).
Fyrirsögnin talar um "fítonskraft" sem þó er hvergi komið meira inn á í fréttinni, sem er undarlegt, kannski jafn undarlegt og að þeir tveir, Hilmir og Jörundur, hafi "skipt liði". Alla vega segir Vísindavefurinn þetta um kraftinn;
Í orðabók Guðmundar Andréssonar frá 1683 er gefið orðið fitungs ande og skýringin við er 'pithon'. Í orðabók Björns Halldórssonar er Fítúns-andi skýrt á latínu sem phyton, python en á dönsku sem 'Raseri', það er 'æðisgangur'. Af þessu sést að um tökuorð er að ræða úr latínu sem aftur hefur fengið orðið úr grísku. Pŷthōnvar stór slanga við Delfí sem guðinn Appolló vann sigur á en orðið var einnig í klassískum málum notað um spásagnaranda og þann sem hafði slíkan anda.
Fékk einhvern fítonskraft og bjargaði sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fjölmiðlar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spaugilegt, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:42 | Facebook
Athugasemdir
Ég er líka ansi hissa á fyrirsögninni sem segir eitthvað og svo segir greinin eitthvað allt annað. Ef nemandi í 4. bekk grunnskóla myndi skrifa svona grein yrði hann vinsamlegast beðin um að breyta fyrirsögninni eða skrifa nýja grein. P.S. En kannski er fréttamaðurinn enn í 3. bekk:)
ullarinn (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 09:53
Vísindavefurinn er flottur! Fítonskraftur á þeim bænum!
Egill Þór Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.