28.10.2010 | 18:58
Glíma
Glíman er elsta íþróttagreinin mannkynsins. Margt bendir til að fyrstu fangabrögðin hafi verið hluti af trúariðkun og hermigaldri.
Í fornum helgisögnum mannkynsins, frá öllum álfum, er að finna frásagnir af glímubrögðum trúarhetja og má yfirleitt lesa frásagnirnar á táknrænan hátt og sem lýsingu á hinni stöðugu baráttu milli góðs og ills sem mannkynið hefur háð bæði ytra sem innra með sér, frá upphafi.
Stundum er glíman háð við einhverjar óvættir, fulltrúa hins dýrslega í manninum og stundum við fulltrúa guðdómsins sjálfs eða tákngerving æðra eðlis mannsins.
Þannig háði hinn súmerski Gilagames mikla glímu við villimanninn Enkidu sem hann náði að yfirbuga og gera síðan að miklum vini sínum. Í þeirri sögu nær maðurinn sátt við sitt lægra eðli.
Í hinu forna indverska trúarriti Mahabharata sem ritað er á sanskrít, koma glímur nokkuð við sögu. Þeirra frægust er glíma tveggja þrautreyndra glímukappa, þeirra Bhima og Jarasandha. Glíman varði í 27 daga og Bhima vann ekki sigur fyrr en Krishna sjálfur gaf honum til kynna hvernig granda mætti Jarasandha með því að slíta hann í sundur í tvo hluta. Jarasandha var einmitt upphaflega búinn til úr tveimur líflausum búkshlutum.
Þá kannast flestir Ísendingar við söguna um heimsókn Þórs til Útgarða-Loka sem villir Þór sýn og fær hann til að glíma við Elli kellingu. Elli kom Þór á annað hnéð og var glíman þá úti.
Kunnastur glímukappa úr Biblíunni er Jakob Ísaks og Rebekkuson sem glímdi næturlangt við sjálft almættið sem tekið hafði á sig mannsmynd. Guð náði ekki að fella Jakob og grípur meira að segja til þess ráðs að beita belli brögðum með því að lemja Jakob á mjöðmina með þeim afleiðingum að lærleggurinn gekk úr liðnum. Sagan skýrir einnig hvaðan nafnið á Ísrael er komið og hvað það þýðir (Sá er glímir við Guð)
Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu. 23Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti.
24Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. 25Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. 26Þá mælti hinn: "Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún." En hann svaraði: "Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig." 27Þá sagði hann við hann: "Hvað heitir þú?" Hann svaraði: "Jakob." 28Þá mælti hann: "Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur."
Í Hadíðunum, arfsögnum múslíma, er að finna frásögn af glímu spámannsins Múhameðs við einn af hinum vantrúuðu. Glíman á að hafa farið fram í Mekka en andstæðingur Múhameðs var Rukaanah Ibn Abd-Yazeed al-Qurayshee sem er sagður haf verið af hraustustu ætt Araba. Fyrir glímuna á Rukaanah að hafa lofað því að viðurkenna Múhameð ef honum takist að sigra. Múhameð náði að fella andstæðinginn þrisvar sem þá lýsti því yfir að Múhameð væri galdramaður. Seinna, segir arfsögnin, gekk hann Íslam á hönd.
Elstu (2697 F.K.) heimildirnar um glímu eru kínverskar og segja frá mannati sem kallast jǐao dǐ. (hornastang) Í bjǐao dǐ binda keppendur á sig höfuðbúnað búinn hornum og reyna svo að stanga hvern annan. Þeir líkja þannig eftir hegðun hrúta, nauta og annarra hyrndra dýra. Talið er að allar helstu tegundir austurlenskra fangbragða hafi þróast út frá bjǐao dǐ og aftur út frá þeim hinar ýmsu tegundir austurlenskra bardagalista.
Sumum austurlenskum fangbrögðum svipar mjög til íslensku glímunnar. Næst henni að formi kemur án efa kóreska glíman hin svo kallaða Ssireum sem enn er stunduð í Norður Kóreu sem bændaglíma.
Þá eru til mjög gamlar heimildir um glímu meðal Egypta. Þær elstu frá 2300 fk. eru steinristur í grafhýsi heimspekingsins Ptahhotep sem m.a ritaði bók um hvernig ungir menn ættu að hegða sér í lífinu.
Glíma mun hafa verið afar vinsæl íþrótt meðal Egypta og sýna sum veggmálverkin fangbrögð milli Egypta og Núbíu-manna. Ljóst er að egypsku fangbrögðin hafa varðveist meðal Núbíu-manna því enn glíma karlmenn í Súdan á svipaðan hátt. Meðal egypsku fangbragðanna er að finna flest öll tök sem tíðkast í nútíma frjálsri glímu.
Grísk-rómverska glíman sem ásamt frjálsu glímunni er Oliympíu íþrótt, er lýst í forn-grískum heimildum, þar á meðal bæði í Illions og Ódiseifskviðu.
Heimspekingurinn Platon er sagður hafa keppt í glímu á Isthmíu-leikunum. Meðal Grikkja og seinna Rómverja var mjög vinsælt að skreyta muni, slegna minnt með glímuköppum og gera af þeim höggmyndir.
Á miðöldum berst glíman norður eftir Evrópu og var hún stunduð af leikmönnum jafnt sem konungum og keisurum. Fræg er sagan af Basil l, armenska bóndasyninum sem varð að keisara yfir Austur-Rómverska keisaraveldinu og Mikael lll keisari gerði að lífverði sínum og skjólstæðing eftir að hann sigraði glímukappa frá Búlgaríu á miklu glímumóti sem haldið var árlega þar um slóðir.
Á heimasíðu Glímusambands Íslands er þennan fróðleik að finna um íslensku glímuna.
Glíman, þjóðaríþrótt Íslendinga, hefur lifað með þjóðinni allt frá Þjóðveldisöld. Talið er að landnámsmenn hafi flutt með sér hingað hin bragðasnauðu fangbrögð Norðurlanda og einnig bragðafang Bretlandseyja. Hér á Íslandi runnu þessi fangbrögð saman í fjölbreytt fang með tökum í föt og fjölda bragða. Það hlaut nafnið Glíma.
Íslendingasögur segja víða frá því að menn reyndu með sér í glímu og lesa má í heimildum að meira reyndi á krafta en tækni á þeim tíma. Á þeim öldum sem liðið hafa hefur glíman þróast frá frumstæðu fangi til íþróttar sem gerir miklar kröfur til iðkenda sinna um tækni og snerpu.
Á fyrri öldum þótti enginn maður með mönnum nema hann væri hlutgengur í glímu. Smalamenn tóku eina bröndótta sér til hita og glímt var eftir kirkjuferðir og í landlegum vermanna. Í þjóðsögum grípa afreksmenn oft til glímunnar í viðureign við tröll og útilegumenn og hafa betur með leikni sinni og íþrótt gegn hamremi og ofurafli andstæðinganna. Enn í dag þykir mikið koma til góðra glímumanna og sú stæling og þjálfun sem glímumenn öðlast hefur oft komið sér vel í lífsbaráttunni.
Glíman telst til þjóðlegra fangbragða en af þeim eru þekktar um 150 tegundir um víða veröld. Þekktastar þeirra eru hið japanska súmó, sem er þó öllu heldur lífsstíll en íþrótt, svissneska sveiflan, (schwingen) og skoska backhold fangið að ógleymdu gouren í Frakklandi. Á seinni árum hafa glímumenn spreytt sig í þrem þeim síðastnefndu með góðum árangri.
Glíman sker sig úr öllum öðrum fangbrögðum á þrennan hátt:
1.Upprétt staða. Í glímunni skulu menn uppréttir standa. Staða margra fangbragða minnir helst á vinkil en í glímu heitir slíkt bol og er bannað.
2. Stígandinn. Í glímunni er stigið sem felst í því að menn stíga fram og aftur líkt og í dansi og berast í hring sólarsinnis. Stígandinn er eitt helsta einkenni glímunnar og er til þess fallinn að skapa færi til sóknar og varnar og að ekki verði kyrrstaða. Glímumenn skulu stöðugt stíga, bregða og verjast.
3. Níð. Í glímu er bannað að fylgja andstæðing eftir í gólfið eða ýta honum niður með afli og þjösnaskap. Slíkt er talið ódrengilegt og í andstöðu við eðli glímunnar sem drengskaparíþróttar. Glímumaður skal leggja andstæðing sinn á glímubragði svo vel útfærðu að dugi til byltu án frekari atbeina. Hugtakið níð er tæpast til í öðrum fangbrögðum.
Ár hvert keppa bestu glímumenn landsins um sigur í Íslandsglímunni. Þar er keppt um Grettisbeltið sem er elsti og veglegasti verðlaunagripur á Íslandi. Íslandsglíman fór fyrst fram á Akureyri árið 1906. Sigurvegari Íslandsglímunnar hlýtur Grettisbeltið og sæmdarheitið Glímukóngur Íslands.
Síðasta áratuginn hafa konur einnig tekið þátt í glímu með góðum árangri. Stórmót þeirra heitir Freyjuglíman og sigurvegarinn er krýnd glímudrottning.
Glíman er eina íþróttin sem hefur orðið til á Íslandi og hún er einstæð í veröldinni. Útlendingar sem kynnast glímu undrast mjög þessa háþróuðu og tæknilegu íþrótt og þykir mjög til hennar koma.
Á tímum hnattvæðingar reyna þjóðir mjög að halda fram sínum þjóðlegu
sérkennum. Slíkt er smáþjóð eins og Íslendingum nauðsyn til að undirstrika sérstöðu sína og þar liggur beinast við að efla glímuna, hina fornu, sérstæðu og glæsilegu þjóðaríþrótt okkar.
Grettir reið á Þórhallsstaði og fagnaði bóndi honum vel. Hann spurði hvert Grettir ætlaði að fara en hann sagðist þar vilja vera um nóttina en bónda líkaði að svo væri.
Þórhallur kvaðst þökk fyrir kunna að hann væri. "En fáum þykir slægur til að gista hér um tíma. Muntu hafa heyrt getið um hvað hér er að véla en eg vildi gjarna að þú hlytir engi vandræði af mér. En þó að þú komist heill á brott þá veit eg fyrir víst að þú missir hests þíns því engi heldur hér heilum sínum fararskjóta sá er kemur."
Grettir kvað gott til hesta hvað sem af þessum yrði.
Þórhallur varð glaður við er Grettir vildi þar vera og tók við honum báðum höndum. Var hestur Grettis læstur í húsi sterklega. Þeir fóru til svefns og leið svo af nóttin að ekki kom Glámur heim.
Þá mælti Þórhallur: "Vel hefir brugðið við þína komu því að hverja nótt er Glámur vanur að rísa, ríða húsum eða brjóta upp hurðir sem þú mátt merki sjá."
Grettir mælti: "Þá mun vera annaðhvort, að hann mun ekki lengi á sér sitja eða mun af venjast meir en eina nótt. Skal eg vera nótt aðra og sjá hversu fer."
[ ... ]Og er af mundi þriðjungur af nótt heyrði Grettir út dynur miklar. Var þá farið upp á húsin og riðið skálanum og barið hælunum svo að brakaði í hverju tré. Það gekk lengi. Þá var farið ofan af húsunum og til dyra gengið. Og er upp var lokið hurðunni sá Grettir að þrællinn rétti inn höfuðið og sýndist honum afskræmilega mikið og undarlega stórskorið. Glámur fór seint og réttist upp er hann kom inn í dyrnar. Hann gnæfaði ofarlega við rjáfrinu, snýr að skálanum og lagði handlegginn upp á þvertréið og gnapti innar yfir skálann. Ekki lét bóndi heyra til sín því að honum þótti ærið um er hann heyrði hvað um var úti. Grettir lá kyrr og hrærði sig hvergi. Glámur sá að hrúga nokkur lá í setinu og ræður nú innar eftir skálanum og þreif í feldinn stundar fast. Grettir spyrnti í stokkinn og gekk því hvergi. Glámur hnykkti annað sinn miklu fastara og bifaðist hvergi feldurinn. Í þriðja sinn þreif hann í með báðum höndum svo fast að hann rétti Gretti upp úr setinu, kipptu nú í sundur feldinum í millum sín. Glámur leit á slitrið er hann hélt á og undraðist mjög hver svo fast mundi togast við hann. Og í því hljóp Grettir undir hendur honum og þreif um hann miðjan og spennti á honum hrygginn sem fastast gat hann og ætlaði hann að Glámur skyldi kikna við. En þrællinn lagði að handleggjum Grettis svo fast að hann hörfaði allur fyrir orku sakir. Fór Grettir þá undan í ýmis setin. Gengu þá frá stokkarnir og allt brotnaði það sem fyrir varð. Vildi Glámur leita út en Grettir færði við fætur hvar sem hann mátti en þó gat Glámur dregið hann fram úr skálanum. Áttu þeir þá allharða sókn því að þrællinn ætlaði að koma honum út úr bænum.
En svo illt sem að eiga var við Glám inni þá sá Grettir að þó var verra að fást við hann úti og því braust hann í móti af öllu afli að fara út. Glámur færðist í aukana og hneppti hann að sér er þeir komu í anddyrið. Og er Grettir sér að hann fékk eigi við spornað hefir hann allt eitt atriðið, að hann hleypur sem harðast í fang þrælnum og spyrnir báðum fótum í jarðfastan stein er stóð í dyrunum. Við þessu bjóst þrællinn eigi. Hann hafði þá togast við að draga Gretti að sér og því kiknaði Glámur á bak aftur og rauk öfugur út á dyrnar svo að herðarnar námu af dyrið og rjáfrið gekk í sundur, bæði viðirnir og þekjan frerin, féll svo opinn og öfugur út úr húsunum en Grettir á hann ofan. Tunglskin var mikið úti og gluggaþykkn. Hratt stundum fyrir en stundum dró frá.
Nú í því er Glámur féll rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun upp í móti. Og svo hefir Grettir sagt sjálfur að þá eina sýn hafi hann séð svo að honum brygði við. Þá sigaði svo að honum af öllu saman, mæði og því er hann sá að Glámur gaut sínum sjónum harðlega, að hann gat eigi brugðið saxinu og lá nálega í milli heims og heljar.
En því var meiri ófagnaðarkraftur með Glámi en flestum öðrum afturgöngumönnum að hann mælti þá á þessa leið: "Mikið kapp hefir þú á lagið Grettir," sagði hann, "að finna mig en það mun eigi undarlegt þykja þó að þú hljótir ekki mikið happ af mér. En það má eg segja þér að þú hefir nú fengið helming afls þess og þroska er þér var ætlaður ef þú hefðir mig ekki fundið. Nú fæ eg það afl eigi af þér tekið er þú hefir áður hreppt, en því má eg ráða að þú verður aldrei sterkari en nú ertu og ertu þó nógu sterkur og að því mun mörgum verða. Þú hefir frægur orðið hér til af verkum þínum en héðan af munu falla til þín sektir og vígaferli en flestöll verk þín snúast þér til ógæfu og hamingjuleysis. Þú munt verða útlægur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt. Þá legg eg það á við þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir og mun þér þá erfitt þykja einum að vera. Og það mun þér til dauða draga."
Og sem þrællinn hafði þetta mælt þá rann af Gretti ómegin það sem á honum hafði verið. Brá hann þá saxinu og hjó höfuð af Glámi og setti þá við þjó honum. Bóndi kom þá út og hafði klæðst á meðan Glámur lét ganga töluna en hvergi þorði hann nær að koma fyrr en Glámur var fallinn.
Meginflokkur: Íþróttir | Aukaflokkar: Menning og listir, Trúmál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:00 | Facebook
Athugasemdir
Sniðglíma á lofti. Nauðsynlegt að minna á glímu í kreppunni. Það ætti að vera skylda fyrir nýbúa að ganga í glímufélög.
Ég sá nýlega smá myndbrot af glímu í Íran, sem var afar lík íslensku glímunni. Veistu eitthvað um hana? Ef ég hefð séð þetta myndbrot með glímunni í Íran fyrr hefði ég beðið Össur um að spyrja Amadinejad út í þetta þegar þeir voru nýlega að glíma við gyðinga í New York.
Mig minnir að menn glími líka líkt og Íslendingar á Madeira, enda telja sumir að sumir Madeiringar séu afkomendur þræla frá Grænlandi.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.10.2010 kl. 19:46
Kushti held ég að hin forna glíma Persa heiti.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.10.2010 kl. 19:52
Sæll Vilhjálmur.
Þú hreifir við ýmsu áhugaverðu eins og venjulega.
Kushti er nafn á indverskri glímu, ekki ósvipaðri grísk-rómverskri glímu.
Kushti er líka nafn á 72 strengja belti (gjörð) sem er hluti af viðhafnarbúningi karlkynja Zóróasters-átrúenda og minnir óneitanlega á hina gyðingalegu Shatnez gjörð. Beltið er einskona andlegt glímubelti því hver strengur í beltinu er táknræn fyrir hvert vers í Yasna sem er mikilvægur hluti af helgiritum þeirra.
Íranska glíman er kölluð Koshti og er ákaft stunduð í Íran en reglur hennar og fangbrögð eru mismunandi eftir héruðum. A.m.k. 20 mismunandi stílbrögð af henni hafa verið tilfærð. Um er að ræða áþekk fangbrögð og í hinni indversku Kusthi og æfingatólin, þungar trésleggjur, þau sömu. Á nítjándu öld gengu persneskir "lögreglumenn" um götur með slík barefli og lumbruðu á hverjum þeim var þeim óþekkur.
Madeira-glíman er afar lík frjálsri glímu og/eða hinni grísk-rómversku. Eyjan byggðist reyndar um sama leiti (1400) og norrænir menn hurfu frá Grænlandi og kenningar hafa verið uppi um að bláeygðir Kanaríeyjabúar Guanches (frumbyggjar Kanaríeyja sem nú eru útdauðir) hafi mögulega verið afkomendur Eiríks og félaga. En að fangbrögð Madeirabúa séu norræn, hef ég ekki heyrt getið um fyrr.
Reyndar tengist Madeira Íslandi og þrælum á vissan hátt, því sami sjóræningi og sigldi hingað til lands 1627 frá Alsír, kom við í Porto Santo tíu árum áður og rændi þaðan 1200 manns sem hann seldi í þrældóm á afrísku þrælamörkuðunum.
Svanur Gísli Þorkelsson, 28.10.2010 kl. 23:48
Koshti var það heillin. Þú ert hafsjór af fróðleik. En ég tek eftir því, þegar eitthvað er fræðilegt, fróðlegt og langt hjá þér, þá koma fáar athugasemdir. Ef það er trúarrugl, þá koma æringjarnir eins og flugur á mykjuskán.
Ég hélt alltaf að þessi glíma væri mjög ósvipuð þeirri íslensku. Ég las mér til á netinu, að hún hafi á síðustu öld blandast grískri glímu. En ég sá um daginn eina gerð þessarar glímu, örugglega frá afskekktu héraði, og þar voru menn með belti alveg eins og í íslenskri glímu og hófu glímuna ekki ósvipað íslenskri glímu.
Ég hef verið að reyna að muna hvar ég sá þetta. Ég held að það hafi verið á BBC-Travel sem ég horfði á Íslandi í síðustu viku, þegar ég var þar í fríi. Ef ég man rétt var þetta kynning á þætti sem átti að sýna um Íran. Kvikmyndin, sem sýnd var af glíminni var í lit, svo þetta skot var líklegast frá síðari tímum.
Um Madeira glímuna: Ég las einhvern tíma um þá glímu í Lesbók Morgunblaðsins og þá hlýtur það að vera rétt.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 29.10.2010 kl. 06:09
Jú þetta getur vel staðist með írönsku glímuna hjá þér Vilhjálmur. Ég fór líka á stúfana og fann a.m.k. þrjár útfærslur af Koshti flokkaðar sem bændaglímur og notast ein við leðurbelti og hinar tvær sjal sem reyrt er um mitti og læri keppenda.
Það er líka rétt hjá þér þetta með fjölda athugasemda við það sem ég hef gaman að grauta í og setja eitthvað niður um hér á blogginu. Kannski kemur þar til að "fróðleikurinn" er einnig miklu minna lesinn en trúarstaglið, að ekki sé minnst á þegar ég blogga um fréttir.
Ég hélt mig nokkuð lengi við allskonar samtíning og þá kom við á síðunni dágóður hópur sem gjarnan "kvittaði" eftir lesturinn. Kannski er hann þarna enn, en sá siður að "kvitta" er að mestu horfinn af blogginu (sem betur fer)
Svanur Gísli Þorkelsson, 29.10.2010 kl. 19:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.