Færsluflokkur: Sjónvarp
3.2.2009 | 19:26
Bretar ætla að bursta Júróvisjon keppnina!
Eins og fram hefur komið í fréttum, stefna Bretar á það að vinna Júróvisjón keppnina í ár og til þess að svo megi verða fengu þeir sitt þekktasta tónskáld til að semja lagið, útsetja það og velja flytjandann.
Bretar hafa aldrei kostað meiru til en nú og fengu sjálfan Andrew Lloyd Webber til að semja lagið. Hann valdi til að flytja það, eftir hrikalega hallærislega og óspennandi útsláttarkeppni sem tók mörg laugardagskvöld, Jade nokkra Ewen.
Hún mun syngja lag Webbers "It's My Time" sem þið getið heyrt og séð hér.
Breskir gagnrýnendur segja að lagið sé vel til þess fallið að hefja upp standardinn á Júróvisjón keppninni sem reyndar er ekki sagður hár hér í Bretlandi.
En í mínum eyrum hljómar þessi ballaða eins og enn einn söngleikjasmellurinn sem Webber er svo frægur fyrir að fjöldaframleiða.
Jade hefur ágætis rödd en hún er ekki lagviss eins og heyrðist vel síðasta laugardagskvöld þegar hún var tilkynnt sem sigurvegari og flutti aftur lagið sem hún hafði flutt áður um kvöldið.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.1.2009 | 16:40
Hallelujah
Að leiða hugann að því sem virkilega gleður mann getur verið afar gagnleg sjálfsskoðun. Ég ákvað fyrir skömmu að gera skrá yfir þá hluti sem eru flestum aðgengilegir og hafa glatt mig í gegnum tíðina. Meðal tveggja laga sem ég setti á listann var lagið Halleluhja sem samið var af kanadíska ljóðskáldinu Leonard Cohen og gefið fyrst út á plötu með honum sjálfum árið 1984. Síðan þá hafa meira en 180 listamenn get laginu skil en af þeim sem ég hef heyrt, er ég enn hrifnastur af frumútgáfunni.
Cohen er sagður hafa gert áttatíu útgáfur af ljóðinu áður en hann varð sáttur við það og eitthvað mun hann síðar hafa reynt að krukka í textann því árið 1994 söng hann lagið á plötunni "Cohen live" og þar er textinn mikið breyttur.
Margt hefur verið ritað um merkingu upphaflega ljóðsins en það þykir augljóst að það er í stórum dráttum skírskotunin til ákveðinna texta úr Gamla testamentinu. Með þessum skýrskotunum skýrir ljóðmælandi afstöðu sína til Guðs og hvernig maðurinn, hann sjálfur, nálgast Guðdóminn. Titill lagsins og viðlag er lofgjörð og ákall til Guðs. Ljóðið er bæði heimspekilegt og Guðfræðilegt, en fyrst og fremst talar það til okkar í einfaldri fegurð sem hrífur sálina, hver sem skilningur okkar er.
Fyrsta erindið hljóðar svona;
Now I've heard there was a secret chord
That David played, and it pleased the Lord
But you don't really care for music, do you?
It goes like this
The fourth, the fifth
The minor fall, the major lift
The baffled king composing Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah
Hallelujah
Í fyrri Samúelsbók 16:23 er þessa tilvitnun að finna:
Og jafnan þegar hinn illi andi frá Guði kom yfir Sál, þá tók Davíð hörpuna og lék hana hendi sinni. Þá bráði af Sál og honum batnaði, og hinn illi andi vék frá honum.
Í niðurlagi erindisins er hljómagangur lagsins og tónfræði þess rakinn en það er jafnframt árétting stöðu mannsins (minor fall) sem fallinnar veru og guðdómsins (major lift) sem lyftir.
Annað erindið er svona;
Your faith was strong but you needed proof
You saw her bathing on the roof
Her beauty and the moonlight overthrew her
She tied you
To a kitchen chair
She broke your throne, and she cut your hair
And from your lips she drew the Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Það er einnig greinileg skírskotun til Samúelsbókar síðari 11:2, þar sem segir frá því er Sál fellur fyrir Batsebu.
Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur. 3 Þá sendi Davíð og spurðist fyrir um konuna, og var honum sagt: "Það er Batseba Elíamsdóttir, kona Úría Hetíta." 4 Og Davíð sendi menn og lét sækja hana. Og hún kom til hans, og hann lagðist með henni, því að hún hafði hreinsað sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim til sín.
Niðurlagið beinir huga okkar að örlögum Samsons sem greinir frá í Dómarabókinni 13-16. Breyskleiki allra, jafnvel þeirra sem eru Guði þóknanlegir er megin þemað í þessu erindi. Og það er breyskleikinn og freystingain (táknmyndir hans eru Batseba og Dalíla) sem draga lofgjörðina fram á varir okkar.
Í þriðja erindinu er fjallað um annað boðorðið
"Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.
You say I took the name in vain
I don't even know the name
But if I did, well really, what's it to you?
There's a blaze of light
In every word
It doesn't matter which you heard
The holy or the broken Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Ljóðmælandi, sem mín skoðun er að sé Cohen sjálfur, segir að hann þekki ekki nafn Guðs og spyr hvaða máli það skipti þegar hann sjái hvert orð sem ljósaslóð,hvort sem þau eru tilbeiðsla mannsins sjálfs eða tilbeiðsla (Hallelujah) sem manninum er lögð í munn af Guði.
Fjórða og síðasta erindið hljóðar svona;
I did my best, it wasn't much
I couldn't feel, so I tried to touch
I've told the truth, I didn't come to fool you
And even though
It all went wrong
I'll stand before the Lord of Song
With nothing on my tongue but Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah, Hallelujah
Hallelujah
Sumir hafa reynt að setja þetta erindi í munn Krists en ég er því ósammála. Þetta er Cohen sjálfur sem talar til síns Guðs og segist koma til dyranna eins og hann er klæddur og þrátt fyrir breyskleika sína hafi hann reynt að gera líf sitt að lofgjörð.
Á myndabandinu hér fyrir neðan flytur Cohen lagið í Þýska sjónvarpinu. Hann er dálítið vandræðalegur með alla þessa "engla" fyrir ofan sig, en styrkur lagsins blívur samt.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.1.2009 | 02:04
Teiknimynda Kalli
Árið 1998 kom út bók hjá Great Plains Publications í Winnipeg sem heitir á frummálinu (Ensku) Cartoon Charlie: The Life and Art of Animation Pioneer Charles Thorson. Bókin er eftir Gene Waltz og fjallar um hæfihlaup og list Charles Thorson sem var fæddur í Winnipeg, Kanada, árið 1890 og gefið nafnið Karl Gústaf Stefánsson.
Foreldrar Karls voru þau Sigríður Þórarinsdóttir og Stefán Þórðarson (síðar Thorson). Frá Reykjavík fluttust þau til Vesturheims 1887. Þar tók Stefán upp ættarnafnið Thorson. Synir þeirra Stefáns og Steinunnar eru Joseph Þórarinn Thorson sem síðar varð ráðherra í sambandsstjórn Kanada og bræður hans Karl (Charles Thorson) og Stefán (Stephan).
Karl Gústaf, eða Charlie eins og hann var kallaður af flestum sýndi fljótlega merki um talsverða listræna hæfileika og var líklega tekinn í læri hjá húsamálara og steinglerssmið einum sem hét Friðrik Sveinsson og kallaður var Fred Swanson. Fyrsta opinberlega teiknimyndin eftir hann birtist á forsíðu Heimskringlu 4. mars 1909 var einmitt af Friðriki sem var fóstursonur Ólafs Ólafssonar frá Espihóli sem fluttist til Kanada 1873.
Kannski hefur áhugi Karls eitthvað tengst því að lærimeistari hans Friðrik átti fríða dóttur sem hét Rannveig. Alla vega voru þau Rannveig og Karl gefin saman á heimili foreldra Rannveigar í Gimli 11. október 1914.
Þau höfðu þá þegar einast son sem nefndur var Karl eftir föður sínum. En hamingjan var þeim ekki hliðholl því Rannveig dó af berklum 19. október 1916 og ári seinna dó Karl sonur þeirra af barnaveiki.
Karl teiknaði ýmiss konar skopmyndir og auglýsingar, bæði fyrir Heimskringlu, blað íhaldsmanna, og Lögberg sem frjálslyndir stóðu að. Það var svo árið 1922 að hann var ráðinn til að teikna pólitískar skopmyndir fyrir blaðið Grain Growers Guide sem um það leiti var prentað í 75.000 eintökum.
Karl leysti þar af hólmi hinn fræga Arch Dale, sem var orðinn að goðsögn í lifanda lífi, en Dale sneri aftur ári síðar. Karl hvarf þá til starfa fyrir dagblaðið Manitoba Free Press og seinna meir teiknaði hann ósköpin öll af myndum í auglýsingabæklinga og vörulista, m.a. fyrir Eatons og Brigdens.
Næstu árin voru róstusöm hjá Karli og það var ekki fyrr en hann hitti og giftist ungri stúlku sem hét Ada Albina Teslock, sem var pólskum ættum, ein níu systra, að líf hans róaðist. Ada var afar fögur, með kolsvart hár og með afar hvíta húð, grönn og lífleg. Fegurð hennar var slík að sagt var að engir karlmenn gætu staðist á móti því að horfa á eftir henni á þegar hún fór um götur. Þrátt fyrir fegurð hennar, eða kannski vegna hennar, endaði hjónaband þeirra fljótlega. Þau eignuðust einn son, Stephen.
Ógiftur enn á ný, hékk Karl á kaffihúsum og teiknaði. Uppáhalds kaffihúsið hans hét Wevel Cafe (Winnipeg). Þar hitti Karl hina fögru Kristínu Sölvadóttir sem þjónaði þar til borðs. Karl fór á fjörurnar við Kristínu en hún hafði heyrt af honum kvennabósasögurnar og svo var hann líka helmingi eldri. Í tilraunum sínum til að ná ástum Rannveigar teiknaði hann hana oft og sendi henni teikningarnar. "Allt þetta mun verða þitt ef þú villt mig" stóð á einni skopteikningunni sem hann sendi henni.
Kristínu leist ekki á blikuna og forðaði sér frá Winnipeg til Niagarafossa til að greiða úr tilfinningum sínum. Þau skrifuðust á, en um hvað er ekki vitað. Að lokum snéri Kristín aftur til lands forfeðra sinna, Íslands. Hvort hún á hér á landi einhverja afkomendur er mér ekki kunnugt um en ef einhverjir vita betur, væri fróðlegt að heyra af því.
Árið 1934 hófst það skeið í lífi Kalla sem hann er hvað þekktastur fyrir. Fjörutíu og fjögurra ára gamall réðst hann til starfa fyrir Walt Disney, heillaður af tækninni sem færði gestum kvikmyndahúsanna teiknimyndina um Litlu grísina þrjá. Dvöl hans hjá Disney varð ekki ýkja löng, aðeins tvö ár.
Engu að síður lét Karl eftir sig ekki ómerkari fígúrur en sjálfa Mjallhvíti sem lenti í svo mögnuðu ævintýri með dvergunum sjö. Munnmæli segja að Kristín Sölvadóttir, hafi verið fyrirmyndin að Mjallhvíti og þannig urðu til sögurnar um að Mjallhvít væri íslensk og frá Winnipeg. Kristín Sölvadóttir
Kalli var líka aðalmaðurinn í að teikna indíánastrákinn Hiawatha og meira og minna allar persónurnar í mynd Disneys um drenginn. En vegna þess að hann hvarf frá störfum fyrir stórfyrirtækið áður en kvikmyndirnar voru sýndar, er hans hvergi getið.
Eftir Disney-árin vann Karl m.a. fyrir Harman-Ising og MGM.
Frægasta fígúran sem Charlie skapaði algjörlega sjálfur eftir að hann yfirgaf Disney er án efa Bugs Bunny. Teyminu sem falið var að teikna kanínuna , var stýrt af manni sem kallaður var Bugs. Vinnuheiti Karls á kanínunni var því "Bugs Bunny." sem a lokum festist við fígúruna. En það má kalla írónískt að á íslensku var hann kallaður Kalli kanína.
Karl mun vera eini "íslendingurinn" sem fengið hefur teikningu eftir sig birta á bandarísku frímerki þótt hann fengi aldrei heiðurinn af því opinberlega, frekar en öðru sem hann vann fyrir Disney.
Charles Thorson lést árið 1967.
Ævintýrið um Mjallhvíti er um margt merkilegt og á netinu er ágætis sálfræðipæling sem leggur út frá sögunni sem ég linka hér við; Mjallhvít
Fyrst til að vekja athygli á því að Mjallhvít Disneys hafi verið teiknuð af íslensk-ættuðum manni og að fyrirmynd hans hafi einni verið íslensk stúlka var eftir því sem ég best veit Gréta Björg Úlfsdóttir.
Ég læt hér fylgja að lokum tvær teiknimyndir eftir Karl sem allir sem komnir eru til vits og ára eiga að kannast við úr bernsku sinni.
Það var Davíð Kristjánsson góðvinur minn á Selfossi sem vakti athygli mína á þessum merka Íslandssyni og þeim möguleika að andlit einnar þekktustu teiknimyndarpersónu heimsins væri einnig af íslenskri konu.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 01:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.1.2009 | 18:06
Mini-me
Það er byrjað að sýna eina umferðina enn af "Big Brother" þáttunum hér í Bretlandi. Mér hefur lengi þótt þessir "raunveruleikaþættir" einskonar andleg viðundrasýning. Í þetta sinn er fyrrverandi frægu fólki eða næstum því frægu, boðið til vistarinnar í húsinu sem er vaktað af upptökuvélum allann sólarhringinn.
Meðal þeirra eru Latoya Jackson, Mutya Buena fyrrverandi Sugababes stúlka og svo er þarna líka afar smávaxinn náungi sem heitir Verne Troyer. Hann er þekktastur fyrir að leika Mini-me í tveimur af þremur grínþvælukvikmyndunum um Austin Powers.
Í enskumælandi löndum kýs smávaxið fólk að láta kalla sig "Litle people" (sem ég þýði litla fólkið) í stað dverga en einkenni sjúkdómanna sem valda smæð þess er samt enn kennt við dverga eða "Dwarfism".
Að sjá Verne þarna án gerfis vakti mig til umhugsunar um atvik sem átti sér stað heima á Íslandi fyrir nokkrum árum. Þegar ég vaknaði morgun einn árið 2002 að mig minnir, laust því niður í huga minn að það væri ár og öld síðan ég hafði séð dvergvaxna persónu á götu úti í Reykjavík. Þegar ég var að alast upp var það alvanalegt að rekast á smávaxið fólk í flestum byggðarlögum landsins. Hvað hafði orðið af öllu litla fólkinu?
Ég tók upp símann og hringdi niður á fæðingadeild Landspítalans og fékk þar samband við yfir-fæðingalækninn. Hann tjáði mér að ekki hefði fæðst nema einn dvergvaxinn einstaklingur á Íslandi síðustu tuttugu árin eða eftir að skimun fóstra varð að reglu frekar en undantekningu. Hann sagði mér að ef þess sæust merki að fóstur gætu verið haldin einhverjum af þeim 200 sjúkdómum sem valdið geta dvergseinkennum (þar sem yfirleitt er miðað við að fullvaxinn yrði einstaklingurinn minni en 147 sentímetrar), kysu mæðurnar að eyða þeim.
Einhvern tíman á unglingsárunum var mér gefin bók sem ég hélt mikið upp á. Hún hét "Very Special people" og fjallaði um lífsbaráttu fólks sem á sínum tíma voru álitin viðundur. Mörg þeirra sem komu við sögu í bókinni neyddust til að sjá fyrir sér með því að sýna sig fyrir gjald og réðu sig til Ringling Bros. and Barnum & Bailey sirkussins sem starfrækur var í Bandaríkjunum á fyrri hluta síðustu aldar. Á meðal þeira var fjallað um litla fólkið sem varð heimsfrægt eins og Tom-Thumb og eiginkonu hans Laviniu-Warren sem þrátt fyrir smæð sína lifðu hamingjusömu og innihaldsríku lífi.
Í Bandaríkjunum hefur litla fólkið myndað með sér samtök sem telja yfir 6000 meðlimi. Þeim samtökum hefur orðið mikið ágengt við að kynna málstað lítils fólks og vekja almenning til umhugsunar um stöðu þeirra í samfélaginu. Þau beita sér m.a. fyrir því að litla fólkið sé ekki opinberlega niðurlægt eins og t.d. gert var þegar svokallað "dvergakast" varð á tímabili að sýningaríþrótt.
Á vesturlöndum finnast hinar svokölluðu "viðundrasýningar" ekki lengur en víða annarsstaðar, einkum þar sem samfélagsaðstoð og læknisþjónusta er af skornum skammti, neyðast oft þeir sem hafa alvarleg líkamlýti að vinna fyrir sér með því að sýna sig fyrir greiðslu.
Slíkt er algengt á Indlandi og víða í Asíu. Í Indonesíu starfar hópur fólks sem kallar sig The Clan eða "Gengið". Ég ætla ekki að hafa mörg orð um lýti eða neyð þessa fólks því sjón er sögu ríkari. Myndbandið sem ég kræki á hér að neðan sýnir einhver verstu líkamslýti sem ég hef séð og því er vert að vara viðkvæma við því. THE CLAN
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.12.2008 | 13:55
Hvít Jól
Oft hafa verið gerðar kannanir á hvaða jólalag heimsbyggðinni hugnast best og oftar en ekki hefur lagið "White Christmas" (Hvít Jól) vermt efsta sætið. Það er því ekki að furða að höfundur þess Irving Berlin hafi verið upp með sér eftir að hafa lokið við samningu lagsins þar sem hann sat við sundlaugina í Arizona Biltmore Resort and Spa í Phoenix, Arizona árið 1940.
Sagan segir að daginn eftir hafi hann komið askvaðandi inn á skrifstofu sína mjög uppveðraður og hrópað á ritarann sinn; "Gríptu pennann þinn og taktu niður þetta lag. Ég hef lokið við að semja besta lag sem ég hef nokkru sinni samið - svei mér þá, ég hef samið besta lag sem nokkru sinni hefur verið samið".
Í fyrstu útgáfunni af texta lagsins gerði Berlin grín að gervijólatrjám og íburði Los Angeles búa við jólahaldið en breytti svo textanum síðar en hann hljómar svona:
I'm dreaming of a white Christmas
Just like the ones I used to know
Where the treetops glisten and children listen
To hear sleighbells in the snow
I'm dreaming of a white Christmas
With every Christmas card I write
May your days be merry and bright
And may all your Christmases be white
May your days be merry and bright
And may all your Christmases be white
"Hvít Jól" var fyrst sungið af Bing Crosby árið 1942 í söngva-kvikmyndinni "Hollyday Inn." Reyndar syngur hann dúett með leikkonunni Marjorie Reynolds en rödd Marjorie var skipt út fyrir rödd söngkonunnar Mörthu Mears.
Sú útgáfa sem vinsælust er af laginu í flutningi Bings er samt ekki úr kvikmyndinni eða sú sem hann tók upp árið 1942. Sú upptaka skemmdist af mikilli notkun og árið 1947 var Bing kvaddur Til Decca hljóðritunarinnar og látinn syngja lagið upp á nýtt með upphaflegu bakröddunum og sömu hljómsveit og áður þ.e. Trotter Orchestra and the Darby Singers.
Sjálfur var Crosby ekkert skerstaklega ánægður með útkomuna og fór háðslegum orðum um hana; "a jackdaw with a cleft palate could have sung it successfully."
Árið 1954 var lagið valið sem titillag kvikmyndarinnar "White Christmas" með Bing Crosby, Danny Kaye, Rosemary Clooney og Veru-Ellen. Þrátt fyrir að svipa mjög til fyrri myndarinnar "Holliday Inn" varð hún mun vinsælli og er í dag sýnd á flestum sjónvarpsstöðvum á Jólum.
Hljómplata Crosbys "White Christmas" er talin mest selda plata allra tíma en lagið hefur að auki verð gefið út á fjölda annarra hljómplata og gert skil af ókunnum fjölda listamanna.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.10.2008 | 19:45
Bretar beita stóru fallbyssunum
Þá hefur það loks gerst sem allur Eurovision heimurinn óttaðist. Bretar ætla að beita sínum stærstu kannónum og fá fremsta popptónskáld sitt og söngleikjahöfund 60 ára Andrew Lloyd Webber til að semja næsta framlag Bretlands til Euróvision keppninnar. Andrew ætlar ekki aðeins að semja lag og texta heldur ætlar hann að standa fyrir mikilli leit að væntanlegum flytjenda lagsins og sjónvarpa öllu dæminu eins og hann gerði þegar hann leitaði að söngkonu til að fara með hlutverk Maríu í uppsetningu hans á Tónaflóði á síðasta ári.
Þátturinn á að heita "land þitt þarfnast þín" (Your Country Needs You)og það má nærri geta hvernig lógó auglýsingaherferðarinnar verður.
Keppnin fer þannig fram að sex söngvarar sem valdir verða af Andrew komast í úrslit og síðan mun breska þjóðin velja á milli þeirra.
Bretar hafa ekki tekið Eurovision mjög alvarlega upp á síðkastið og sent í keppnina hvert aulalagið á eftir öðru, enda hefur árangurinn verið eftir því. Nú á að gera á því máli mikla bragarbót enda blása Bretar til mikilla sóknar á öllum sviðum fjármála og lista um þessar mundir. Segjast ætla leiða heiminn í þessu tvennu og svo íþróttum líka eftir 4 ár þegar þeir halda ólympíuleikana í London.
Sjálfur gantast Andrew með þetta verkefni og segir m.a. "Í lífi mínu hef ég aldrei sveigt fram hjá erfiðum verkefnum og þetta lítur út fyrir að vera það stærsta sem ég hef tekist á við" . Þetta er auðvitað þó nokkuð þegar haft er í huga að þar talar höfundur söngleikja eins og Jesus Christ Superstar, Cats, The Phantom of the Opera og Evita.
Nú er bara að sjá hvernig aðrar Evrópuþjóðir svara þessu átaki Breta og ekki hvað síst Ísland sem hefur nú tækifæri eina ferðina enn til að sýna heiminum hvað í þjóðinni býr og hefur auk þess harma að hefna gegn Bretlandi :)
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.9.2008 | 17:38
Tarzan
Alltaf klukkan þrú á sunnudögum var farið í bíó. Tvö bíóhús voru í bænum, Félagsbíó og Nýja Bíó sem yfirleitt var kallað Bjössabíó. Í Félagsbíó voru oftast sýndar "skrípó" eða teiknimyndir og þangað neyddist maður stundum til að fara, einkum ef maður var búinn að sjá myndina í hinu bíóinu oftar en 20 sinnum eða var skipað að draga eitt af yngri systkinunum með. Úff
Í Bjössabíó réðu Roy og Trigger, The Lone Ranger og Tonto, Jungle Jim og Tarzan,lögum og lofum. Ég var löngu orðin fullorðin þegar ég gerði mér grein fyrir því að Tarzan myndirnar og "Tarzan í fötum" (Jungle Jim) voru orðnar áratuga gamlar þegar ég sá þær fyrst. Tarzan í fötum var t.d. ekki í svart/hvítu, heldur brún/hvítu. Þess vegna var liturinn á hattinum hans og kakí fötunum nokkuð eðlilegur.
Þegar allt í einu nýr Tarzan birtist á tjaldinu (Lex Barker) í staðinn fyrir hinna eina sanna Tarzan Johnny Weissmuller brutust út miklar þrætur um hvort þetta væri raunverulega Tarzan eða einhver sem þóttist bara vera hann. Til dæmis var augljóst að þessi Lex gat ekki rekið upp hið eina og sanna Tarzan stríðsöskur, sem allir strákarnir voru búnir að eyða ótöldum stundum í að æfa. Það þurfti nefnilega sérstaka tækni til að láta barkakýlið dansa svona upp og niður, eins og Johnny gerði, til að fá út rétta hljóðið. Nokkrum árum seinna þegar við gengum í mútur, urðum við afar undrandi að heyra það koma út sjálfkrafa þegar okkur var mikið niðri fyrir.
Flestir voru á því að í næstu mynd mundi raunverulegi Tarzan koma og slá þennan Lex í rot og taka aftur sinn konunglega sess, meðal frumskógardýranna og villimannanna í strákofunum. Við vissum ekki að a.m.k. tveir aðrir leikar höfðu í millitíðinni spreytt sig á hlutverki Tarzans með dræmum árangri þó. Því síður var okkur kunnugt um að Johnny var sjöundi leikarinn sem tekið hafði að sér hlutverk konungs apanna í kvikmyndum frá Hollywood.
Johnny Weissmullerer og verður hinn eini sanni Tarzan fyrir mér og að ég hygg öllum, í nokkrum árgöngum drengja fyrir bæði ofan og neðan mig í aldri. Fæstir okkar vissu, þegar við horfðum með poppkorns-fulla munna á Tarzan skutla sér út í fljótin í Afríku til að berjast við krókódíla, að Johnny hafði verið einn fremsti sundkappi heimsins. Hann var fimmfaldur Ólympíumeistari, frá leikunum árin 1924 og 1928. Hann átti 52 landsmet í USA og setti hvorki meira né minna en 67 heimsmet á ferli sínum.
Johnny var fæddur í Austurríki eins Swarzenegger fylkisstjóri í Kaliforníu og Tortímandi. Foreldrar Johnnys komu með drenginn til Bandaríkjanna þegar hann var nokkra mánaða gamall árið 1905.
Eftir frækilegan feril sem sundkappi, ferðaðist hann um Bandaríkin og hélt "sundsýningar" og kom fram í spjallþáttum í útvarpi. Honum bauðst að koma til Hollywood 1929 til að leika grískan guð í kvikmyndinni Glorifying the American Girl. Johny tók hlutverkið og vakti mikla athygli því hann kom fram í myndinn með trjálauf eitt saman til að hylja nekt sína.
Fyrsta Tarzan myndin hans "Tarzan the Ape man" var gerð 1932. Þrátt fyrir að minningar mínar stangist á við það, lék Johnny aðeins í sex Tarzan myndum. En þegar hann var orðin of þungur til að koma fram á lendarskýlu einni saman, skelti hann sér bara í kakí-safarí-skyrtu og buxur, setti upp safari hatt eins og Indíana Jones á líka og kallaði sig Jungle Jim. Jungle Jim var alveg eins og Tarzan nema fyrir fötin. Öskrið, hnífurinn og apinn var allt á sínum stað og söguþræðirnir voru alveg eins. Johnny gerði 13 Jungle Jim myndir á árunum 1948-1954 og kom fram í þremur í viðbót sem gerðar voru fyrir sjónvarp.
Þrátt fyrir að Tarzan væri einfær um að halda uppi fjörinu frá þrjú til hálf fimm á sunnudögum var fjölskylda hans; Jane leikin af Maureen Paula OSullivan og sonur hans "strákurinn" sem leikin var af Johnny Sheffield og aldrei var kallaður annað en "Boy", góð viðbót við frumskógarsögurnar. En simpansinn Cheeta, ljónið og fíllinn sem voru einkaeign Tarzans þóttu alveg ómissandi. Ég man enn eftir fagnaðarlátunum sem brutust alltaf út í salnum í enda hverrar myndar þegar Tarzan standandi uppi einn gegn öllum og búinn að tína hnífnum, kallar með öskrinu fræga á allan dýragarðinn sinn og dýrin koma hlaupandi og stökkva öllum vondu köllunum með rifflana, á flótta.
Á ferli sínum sem leikari kom Johnny fram í fjórum hlutverkum, sem gríski Guðinn Adonis, sem Tarzan, sem Jungle Jim og sem hann sjálfur. Þegar hann hætti að leika (fyrir utan fáeinar gestaframkomur) snéri hann sér að viðskiptum og farnaðist við þau frekar illa.
Til eru margar sögur af hetjunni, þar á meðal sagan af honum að spila gólf í stjörnumóti á Kúbu um það leiti sem uppreisnarmenn með Kastró í fararbroddi tóku eyjuna á sitt vald. Þegar að Johnny, þá staddur út á miðjum gólfvelli, sá hvar vopnaðir menn þyrptust út á völlinn, mat hann stöðuna og rak sína upp sitt fræga Tarzan öskur. Áður en varði voru uppreisnarmenn farnir að stökkva fram og aftur og hrópa Tarzan, Tarzan er hér, velkominn til Kúbu Tarzan. Segir sagan að stjörnunum í fylgd Johnny hafi ekki aðeins verið leyft að klára mótið undir sérstakri vernd skæruliðanna heldur hafi verið fylgt af heiðursverði til Havana þegar þeir fóru úr landi.
Á gamalsaldri var Johhny greindur með hjartaveilu og einhver gróf það upp að þegar hann var að undirbúa sig undir Ólympíuleikanna 1924 hafði hann einnig verið greindur með hjartasjúkdóm og aldrei ætlaður neinn ferill í sundi.
Þann 20. Janúar 1984 lést Johnny Weissmuller að heimili sínu í Acapulco í Mexíkó. En Tarzan lifir auðvitað áfram, ekki hvað síst í hausunum á forföllnum bíósjúklingum eins og ég var, enda er Tarzan ekki að ósekju; konungur apana.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.8.2008 | 21:14
Til varnar forsetafrú Íslands
Þau eru ófá bloggin þessa dagana sem fjalla um Dorrit Moussaieff. Yfirskins-neistinn að þessu bloggbáli er framkoma hennar á Ólympíuleikunum í Bejiing þó margir hafi orðið til að benda á að slíkir neistar virðast oftast tendrast í sömu eldsneytislausu ofnunum og af einskonar pólitískri fyrirtíða-spennu.
Það er staðreynd að ef við berum saman hvernig makar fyrrverandi forseta gegndu hlutverki sínu og hvernig Dorrit gerir það, ber himin og haf á milli. Þær Georgia Björnsson; kona Sveins Björnssonar (1944-1952) Dóra Þórhallsdóttir; kona Ásgeirs Ásgeirssonar (1952-1964) og Halldóra Eldjárn kona; Kristjáns Eldjárns (1968-1980), þrátt fyrir að vera afar ólíkir persónuleikar, áttu það sameiginlegt að finna sig við hlið eiginmanna sinna sem voru valdir til að sinna embætti sem átti sér enga hliðstæðu í sögu landsins.
Embættið var nýtt og í mótun. Því síður voru til í landinu einhverjar siðareglur um hegðun eða hlutverk maka íslenskra þjóðhöfðingja. Eitt var þeim samt ljóst, öðru fremur, að það voru eiginmenn þeirra sem kosnir höfðu verið til embættisins, ekki þær og á á þeim skilningi grundvallaðist opinber framkoma þeirra öðru fremur.
Þegar að Frú Vigdís Finnbogadóttir var kosinn forseti, riðluðust heldur betur þær fáu hefðir sem mótast höfðu um hlutverk maka forsetans. Fyrir utan að vera fyrsta konan sem kosin var í heiminum til að gegna stöðu þjóðhöfðingja, staðreynd sem dró að henni ómælda athygli heimspressunnar, var hún einhleyp.
Vigdís var heimskona, talað mörg tungumál reiprennandi og kunni sig vel á meðal allra manna hvort sem þeir voru alþýðufólk eða eðalbornir. Hispurslaus og sjarmerandi framkoma hennar ávann henni aðdáendur vítt og breitt um heiminn.
Ég er ekki frá því að íslenska þjóðin hafi hálft í hvoru séð Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur sem einskonar arftaka Vigdísar, jafnvel þótt það væri bóndi hennar, herra Ólafur Ragnar Grímsson sem kosinn var til að vera forseti 1996. -
Áfallið sem þjóðin öll gekk í gegnum við ótímabært andlát Guðrúnar, var rétt að sjatna þegar Ólafur gengur að eiga Dorrit Moussaieff 2003. Á þeim forsendum einum átti Dorrit á brattann að sækja hér á Íslandi til að öðlast viðurkenningu þjóðarinnar. Að auki var Ólafur umdeildur sjálfur fyrir að beita í fyrsta sinn sérstökum ákvæðum embættisins sem fram að þessu höfðu ekki verið notuð.
Í gegn um pólitískt öldurótið þurfti Dorrit að sigla, læra að þekkja þjóðina, tungumálið og auðvitað nýja eiginmanninn. Hún hóf fljótlega að beita áhrifum sínum til að koma íslenskum listamönnum á framfæri og nú er svo komið, eins og einhver sagði, að talað er um fyrir og eftir Dorrit, þegar um möguleika íslenskra listamanna erlendis er rætt. Hvar sem hún fer á erlendri grund, ein eða í fylgd eiginmanns síns, bar aldrei nokkurn skugga á framkomu hennar eða hegðun. -
Allar raddir sem reynt hafa að velta upp að Dorrit sé fordekruð eða reynt að gera hana tortryggilega vegna auðæfa hennar eða fjölskyldu hennar, hafa lognast út eins og hjáróma öfundarraddir jafnan gera.
Sömuleiðis hafa ásakannir um að vera haldin athyglisþörf þagnað þegar sýnt er hvernig Dorrit hefur tekist að beina ljósi fjölmiðla fyrst og fremst að Íslandi og íslenskri menningu frekar en eigin persónu.
Um framkomu hennar á Ólympíuleikunum í Bejiing þegar hún fagnaði sigri íslenska liðsins, er efnilega lítið að segja. Það sem kom landinu og handboltaliðinu á forsíðu New York Times var frækilegur sigur smáþjóðar yfir stórþjóð og í tilefni þess fór Dorrit út á völlinn eftir leik og veifaði tveimur Íslenskum fánanum. Gleraugu fólks þurfa að vera með rafsuðustyrkleika pólitísks litar til að lesa út úr þeirri framkomu eitthvað slæmt.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
27.8.2008 | 16:31
Bretar kunna að teigja á Ólympíudýrðinni
Almenningur var hvattur til að koma ekki á flugvöllinn til að taka á móti Ólympíuhetjum Breta í fyrra dag, þegar þær voru ferjaðir yfir frá Kína í endurskírðri þotu sem heitir nú "Pride" eftir breska ljóninu. (Stolt). Í viðbót við gullið nef þotunnar stóð á henni "Stoltir yfir að færa bresku hetjurnar heim"
Í gær og í dag, hafa staðið yfir látlaus hátíðarhöld í heimabæjum hetjanna, garðar hafa verið endurnefndir þeim til heiðurs, nýjar sundlaugar nefndar í höfuð þeirra, og sportvarningur ýmiskonar helgaður þeim.
Þessu mun líklega fram haldið alveg þangað til í Október, þegar allsherjar fagnaður er undirbúinn í London. Þá munu allar hetjurnar koma saman til að veifa verðlaunum sínum framan í pöpulinn þegar þeim verður ekið á rauðum tveggja hæða rútum um borgina.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2008 | 23:54
Galdra-rokk og Rökkur-rokk
Oh, Cedric, I can't believe you are dead/ Oh, Cedric, now you're in 'Twilight' instead/ Oh, Cedric, vampires are no fun to haunt/ Oh, but Edward, you can bite me if you want" "Cedric," by the Moaning Myrtles
Hvernig er betur hægt að tjá aðdáun sína og ást á bókmenntum en með að stofna hljómsveit og helga tónlistina söguhetjum uppáhalds bóka sinna.
Fyrir fimm árum var hljómsveitin Harry and the Potters stofnuð. Paul DeGeorge gítarleikari og söngvari hljómsveitarinnar rifjar upp í nýlegu viðtali við MTV hvernig hljómsveitin stóð í að dreifa bolum sem á stóð "Stofnaðu eigin hljómsveit um bækur". "Við vorum bara með öðruvísi hugmyndir um hvað hljómsveitir geta verið" segir Paul," við ætluðum ekki að stofna Galdra-rokk hreyfingu, hún bara þróaðist." Þessar hljómsveitir bera nöfn fengin beint úr Harry Potter bókunum. Hér koma nokkur dæmi;
- The Butterbeer Experience
- The Cedric Diggorys
- Celestial Warmbottom
- DJ Luna Lovegood
- Draco and the Malfoys
- Fred and George
- The Hungarian Horntails
- Justin Finch Fletchley
- Lauren from The Moaning Myrtles
- Nagini
- Oliver Boyd and the Rememberalls
- The Princess of Hogwarts
- The Remus Lupins
- Split Seven Ways
- Swish and Flick
- The Whomping Willows
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér hvernig herlegheitin hljóma geta valið sér lag eða lög af þessari síðu
Í dag eru starfandi ekki færri en 500 Galdra-rokk hljómsveitir sem koma fram í bókasöfnum, klúbbum,samkomum og Harry Potter ráðstefnum. Hreyfingin hefur getið af sér aðra undirdeild sem kallast Rökkur rokk (Twilight rock) "Hvers vegna kalla þeir þetta ekki blóðsugu-rokk" spyr DeGeorge."En það er frábært að sjá hljómsveitir sem velja sem þema bíómyndir og aðrar bækur"
Rökkur-rokk hljómsveitir eru ekki margar en sumar hafa þegar getið sér gott orð eins og The Bella Cullen Project, Bella Rocks og the Mitch Hansen Band. Þegar hefur borið á ríg á milli móður og afkvæmis, þar sem sumir óttast að Rökkur-rokkið muni taka yfir Galdra-rokk hreyfinguna.
Þegar að spurningu um tilvistarrétt rökkur rokks var varpað fram á Harry Potter Terminus ráðstefnunni fyrir skömmu, bauluðu þátttakendur. En þegar Matt Maggiacomo úr the Whomping Willows svaraði; "Hljóma þeir eins og Hannah Montana?" klöppuðu hlustendur.
"Rökkur rokk er eins Hannah Montana bókmenntanna útskýrði Alex Carpenter úr Remus Lupins." Ef þú tilheyrir ekki 14-16 ára hópnum er mögulegt að þú hlustir á það og að það festist í hausnum á þér. En það auðgar ekki líf þitt eins og Harry Potter gerir."
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)