Færsluflokkur: Sjónvarp
26.8.2008 | 13:03
Flest Ólympíugull í 100 ár
Bretar eru alveg að springa úr monti þessa dagana. Í gær kom Ólympíuliðið þeirra til baka frá Bejiing með uppskeruna 19 gullpeninga, 13 silfur og 15 brons. Samtals 47 verðlaunapeningar, sem er besti árangur Breta á Ólympíuleikum frá því að þeir héldu sjálfir leikanna 1908. Liðið kom í þotu og hafði nef hennar verið gyllt í tilefni árangursins og í dag standa yfir hátíðahöld vítt og breytt um landið þar sem heimabæir Ólimpíustjarnanna hylla sínar hetjur.
Þegar litið er yfir gullverðlaunalista Breta kemur samt eitt í ljós sem ég er ekki viss um hvernig eigi að túlka. Gullverðlaunin eru langflest fyrir greinar þar sem setið er á rassinum eða legið á maganum.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.8.2008 | 10:31
Ömurlegt atriði Breta á lokahátíðinni í Bejjing
Ég horfði með athygli á lokahátíðina í Bejjing í gær og gat ekki annað en dáðst aftur og aftur af því sem fyrir augu bar. Ljós og litir, form og líf, hljóð og andrúmsloft, allt hjálpaði til við að búa til undraheim sem lengi verður í minnum hafður. Lokahátíðin var ekki eins formleg og opnunarhátíðin og var ekki gert að fjalla um og mikla sögu Kína. Þess vegna fannst mér hún listrænt séð betri.
EN svo kom Boiris. Borgarstjórinn sem nýlega hrifsaði til sín borgarstjórastólinn í London og átti engan þátt í á fá leikana til Englands 2012. Hann kjagaði inn á leikvanginn og veifaði Ólympíufánanum yfir lýðinn og veifaði þess á milli til fólks á leikvanginum sem hann taldi sig þekkja.
Og það sem fylgdi á eftir var svo ömurlegt að ef það á að bera vitni því sem koma skal, býð ég ekki í það.
Þau þrjú sem voru kosin til að taka við leikunum af hálfu Breta voru; knattspyrnumaður hvers ferill er að enda, (ég segi ekki útbrunninn), tónlistamaður sem varð frægur fyrir að spila í hljómsveit sem er löngu hætt og söngkona sem vann hæfileikakeppni og hefur verið ýtt áfram í poppheiminum af tónlistarmógúl sem lofaði að sjá um hana.
Þau komu inn í rauðri tveggja hæða rútu sem Bretar gerðu sitt besta til að losa sig við af götum Lundúna fyrir fáeinum árum og þegar hann flettist sundur eins eftir sprenginguna þar í borg 7.7.05 birtust myrkvaðar útlínur (Skyline) Londonborgar.
Allt í kringum vagninn voru ósamhæfðir dansarar, dansandi dansa sem eru svo vinsælir í Bretlandi vegna þess að allir geta gert eins og þeim sýnist. Breska atriðið var í hrópandi ósamræmi við agaða fjöldasýningu Kínverja, en það er staðreynd að engir eru betri í kóreugröffuðum fjöldaatriðum en Kínverjar nema kannski Kóreumenn.
Bretar heima fyrir tóku andköf af skömm og spurningin sem þeir spyrja sig er; eiga þeir virkilega enga menningu sem ristir dýpra en popp, rokk, tíska og fótbolti?
24.8.2008 | 23:12
Skjaldbaka í hjólastól, Frú Dorrit og ný Ólympíugrein
Ótrúlegt en satt, hér getur að líta skjaldböku sem er útbúin hjólabúnaði sem hjálpar henni að komast um. Lömun í afturfótum olli því að hún komst hvorki lönd né strönd þangað til að aðstandendur dýragarðsins þar sem hún dvelst, smíðuðu handa henni "hjólastól". Hér er stutt myndband um skjaldbökuna sem ég fann á síðu National Geographics.
Myndin við hliðina er hinsvegar af lítilli borgarstjórnarskjaldböku sem er virkilega hægfara, af skiljanlegum ástæðum.
Þetta er auðvitað ekkert líkt græjunni sem skjaldbakan fékk en engu að síður flott. Svona ætla ég að fá mér þegar þar að kemur. Eiginlega er ég að vona að þeir taki það upp að keppa á svona tækjum og þá mundi ég byrja að æfa fyrir næstu Ólympíuleika
Og svo eitt í viðbót, eiginlega svona PS við alla Ólympíuleikaumfjöllunina. - Ég skil ekki fólk sem er að fetta fingur út í framkomu Dorritar forsetafrúar þegar hún var að fagna sigrunum yfir Pól eða/og Spánverjum.
Mikið hvað fólk getur verið forpokað að finnast hún ekki "virðuleg" og ásaka hana jafnvel um að "snobba niður fyrir sig".
Hefði verið betra að sjá hana hrista skartgripina upp í stúku eins og allt þetta konungborna lið gerir sem er svo virðulegt að það kúkar marmara.
Hún var ekki kosinn af okkur til neins, Ólafur kaus hana, fyrir konu og áður en hún giftist Ólafi var hún þegar kunn og mikilsmetin heimskona sem kunni sig við hvaða aðstæður sem var. Hvers vegna ætti hún að þykjast vera eitthvað annað en hún er bara af því að einhverjir Íslendingar eru vanir því af fyrirfólki sínu.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.8.2008 | 17:52
Hvernig er talað um íslenska handbolta-liðið í erlendu pressunni.
Það er alveg klárt að Spánverjar eru alveg í rusli eftir tapið fyrir Íslendingum. Hér kemur skemmtilegt sýnishorn af þeim fjölda greina sem nú er að finna á netinu og í öðrum fjölmiðlum um frammistöðu íslenska liðsins gegn Spánverjum. Þessi er skrifuð af Breta sem gerir sitt besta til að segja samviskusamlega frá leiknum.
Ótrauðir möluðu Íslendingar Spánverja 36-30, niðurstaða sem komu mjög á óvart í undanúrslitum í handbolta og gefur þeim tækifæri á fyrstu gullverðlaunum sínum á Ólympíuleikum þegar þeir leika við Frakka á sunnudag sem fyrirfram eru taldir sigurstranglegri.
Spánverjar, bronsverðlaunahafar í Sydney og í Atlanta, sofnuðu á verðinum gegn allsherjar árás íslendinganna og náðu sér aldrei á strik gegn mótherjum sínum sem snúið hafa þessu móti á haus með eyðandi stórsigrum sínum.
Afskrifaðir áður en keppnin hófst, bæta Íslendingarnir nú Spánverjum við vaxandi fjölda höfuðleðra sem þeir hafa safnað í belti sér á þessum Ólympíuleikum í Bejiing, þar á meðal Rússa, heimsmeistara Þjóðverja og Pólverja.
Leikmenn þurrkuðu tárin úr augunum um leið og þeir þökkuðu örfáum stuðningsmönnum sínum sem lagt höfðu land undir fót til Kína, frá þessari litlu eyþjóð sem aðeins telur 300.000 íbúa.
Íslendingar rotuðu mikilfenglega andstæðinga sína með því að hefja leikinn á að skora fimm mörk, þar af áttu Snorri Guðjónsson og ALexander Petersson tvö hver.
Rueben Garabaya maldaði í móinn fyrir Spánverja gegn Norðmönnunum (Norsemen) sem héldu áfram uppteknum hætti með stöðugum árásum sem leiddu til að staðan var 8-4 eftir 10 mínútur.
Spáni tókst um tíma að hægja á leiknum og aðeins frækileg framganga Björgvins Gústafssonar varnaði þeim að jafna leikinn á þrettándu mínútu þegar staðan var 8-7.
Þeim tókst að jafna 9-9 þremur mínútum seinna en þá var Carol Prieto vísað af leikvell í tvær mínútur fyrir að láta sig falla og íslendingar notfærðu sér liðsmuninn og skoruðu tvö mörk í viðbót.
Gústafsson bjargaði síðan nokkrum sinnum og muldi þannig sjálfstraust þeirra Spánverja sem reyndu að koma sínu liði yfir.
Önnur markaruna kom Íslandi í 13-9 áður en Spánn gátu endurskipulagt sig og komist í 13-13 með marki frá Prieto.
Í hálfleik var staðan 17-15 Íslandi í vil og eftir hálfleik náðu þeir að halda þeim mun nokkuð vel.
Varnarboltinn Sigfús Sigurðsson sem vegur 114 kg jók þann mun í fjögur mörk á fertugustu mínútu með því að slöngva "massívum" líkama sinum eftir endilöngum vellinum og klína boltanum í spánska netið.
Þegar hér var komið í´sögu var ljóst að hlutlausir áhorfendur fjölmennustu þjóðar heimsins voru orðnir dyggir aðdáendur liðsins frá einni af þeirri fámennustu sem tekur þátt í leikunum og hrópið "Iceland, Jia you" (áfram Ísland) ómaði um gjörvallt húsið.
Forystan jókst upp í sex mörk á síðustu 10 mínútunum og Íslendingarnir guldu hvert örvæntingarfullt spánskt mark með marki þar til að flautað var til leiks loka.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
21.8.2008 | 08:24
Við vinnum í Bejiing samkvæmt Dr. Phill
Veistu að Íslendingar eru komnir í fjögra liða úrslitin á Ólympíuleikunum spurði skurðlæknirinn Phill mig á pubbanum í gærkveldi. Þeir voru að vinna Pólverja, bætti hann við. Hvernig vissir þú það, spurði ég undrandi. Handbolti er ekki íþrótt sem nokkur Breti kann skil á hvað þá sýnir hinn minnsta áhuga á.
Ég sá það á textavarpinu, svaraði Phill, heldurðu að þeir vinni ekki til gulls?
Íslendingar hafa aldrei fyrr unnið gull á Ólympíuleikum, en þeir hafa verið í þessari stöðu áður, spilað um úrslitaleikinn, tapað, spilað um bronsið og tapað.
Hva, hafið þið aldrei unnið til gullverðlauna....í neinu, spurði Kim (kona Phills)
Nei ekki á Ólympíuleikum, svaraði ég. Aldrei gull, bara tvö brons og eitt silfur, silfur fyrir þrístökk karla, og brons fyrir stangarstökk kvenna og Júdó.
Hvað eru íslendingar aftur margir, hélt Kim áfram.
300.000, svaraði ég.
Þögn.
Ég held að þið vinnið núna, sagði Phill hróðugur.
Hvers vegna, spurði ég undrandi á þessum löngu umræðum um handbolta.
Bara, svaraði hann og byrjaði svo að segja okkur frá hvernig hann var sleginn í andlitið af einum sjúklingnum.
Ég hugleiddi þetta svar um stund og sá svo að líklega hefði enginn líklegri skýringu á væntanlegum sigri Íslendinga. Tölfræðin er á móti okkur og hefðin. Ef við vinnum, vinnum við af því bara.
8.8.2008 | 11:43
Stóra stundin í Kína nálgast
Þá segja Kínverjar allt til reiðu fyrir opnunarhátíðina í dag og sjaldan eða aldrei hefur slíkur öryggisviðbúnaður sést.
100,000 auka lögregluliðar eru búnir að taka sér stöðu víðsvegar um Bejiing borg og flugvöllum í borginni verður lokað á meðan hátíðin sjálf fer fram.
Á opnunarhátíðinni koma fram um 10.000 manns og billjón sjónvarpsáhorfendur munu fylgjast með henni í beinni útsendingu.
Þrátt fyrir það er mengunarstigið í borginni aðal áhyggjuefnið. Fáir bílar fara nú um borgina og í þessum töluðu orðum hefur mengunin minkað talvert frá því sem var í gær. Þeir sem eru á ferli virðast allir tengjast leikunum á einhvern hátt. Þoka hvílir yfir borginni og a.m.k. einn talmaður leikanna lét hafa eftir sér að hann hefði áhyggjur af því að hún mundi trufla hátíðina.
Opnunarhátíðin mun vera byggð á 5000 ára sögu Kína og er undir stjórn kvikmyndaleikstjórnas Zhang Yimou.
Jacques Rogge, formaður Alþjóðlegu Ólympíunefndarinnar ver með kjafti og klóm þá ákvörðun að halda leikana í Kína og segir að hann vonist til að ´þeir hjálpi til að "Kína skilji heiminn og heimurinn Kína. "
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.8.2008 | 16:40
Stutt ástarasaga
Það verða örugglega margar stuttar ástarsögur sem gerast um helgina eins og vanin er um Verslunarmannhelgina á Íslandi. Sumar þeirra verða vafalaust lengri og það er einnig hið besta mál. Það nefnilega gleymist stundum í allri umfjölluninni um sukkið og svínaríið að það gerist margt fallegt líka.
Hér er að finna eina stutta ástarsögu við tónlist Sigurrósar sem ég rakst á fyrir nokkru. Mér finnst hún bara falleg í einfaldleika sínum.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.7.2008 | 16:04
Blekkingar í Vestmannaeyjum
Þátturinn með ofur-kokkinum Gordon Ramsay þar sem hann veiðir og matreiðir lunda í Vestmanneyjum var sýndur á Channel 4 í gærkveldi. Undirtektirnar á spjallrásunum bresku létu ekki á sér standa og sýnist sitt hverjum eins og vænta mátti. Yfirleitt er fólk þó sammála um að Gordon hafi loks farið yfir strikið, þrátt fyrir blótsyrðin öll og hafi bara átts kilið að vera næstum búinn að drepa sig við veiðarnar á þessum "fagra og saklausa fugli", en þátturinn gerir mikið úr hremmingum Gordons í Vestmannaeyjum.
Gordon sést líka við eldamennsku upp á hrauni þar sem hann bakar brauð. Eitthvað var þetta samt loðið með brauðin því fram kemur að þeim hafi verið stolið og því hefði þurft að "sviðsetja" brauðbaksturinn. Sé þetta satt, hefur atvikið yfirbragð vinnubragða hins víðfræga Hrekkjalómafélags.
Þessi uppákoma minnti mig samt á annað atvik sem átti sér stað í Vestmanneyjum fyrir nokkrum árum. Finnlandsforseti Martti Ahtisaari ásamt frú og fríðu föruneyti kom til Eyja í boði Frú Vigdísar Finnbogadóttur Forseta.
Farið var með hópinn út á hraun eins og lög gera ráð fyrir og þar boðið upp á ný-hraunbakað brauð. Finnlandsforseti gróf sjálfur upp brauðið eftir að hafa verið bent á hvar það var að finna, reif upp mjólkurfernuna sem brauðdeiginu hafði verið komið fyrir í og viti menn, út úr fernunni kom ilmandi rúgbrauð, vandlega skorið í viðeigandi þunnar sneiðar.
Það runnu tvær grímur á mannskapinn. - Böndin bárust að Herði Dolla, veitingamanninum sem sá um baksturinn. Hann reyndi að krafla sig út úr vandræðunum með því að segjast hafa komið þarna við nokkru áður og ákveðið að skera brauðið til að flýta fyrir. Þetta var látið gott heita í bili og allir gæddu sér á glóðvolgu brauðinu með sméri.
Seinna kom það á daginn, sem auðvitað allir eyjamenn þarna staddir vissu, að brauðið hafði verið keypt fullbakað og skorið hjá Bergi bakara þá um morguninn og troðið í fernuna. Ég held, svei mér þá, að Vigdísi hafi líka grunað að maðkur var í mysunni, því hún snéri sér undan og skellihló.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2008 | 20:04
Hvers vegna er ég hommi?
Hvers vegna er ég hommi? Er ástæðan líffræðileg, félagsleg eða uppeldisleg. Þetta eru spurninginarnar sem John Barrowman leggur upp með að svara í klukkustundar löngum sjónvarpsþætti sem sýndur var í gær á BBC One.
Barrowman nokkuð þekktur sjónvarpsleikari meðal Breta og annarsstaðar þar sem þátturinn Torchwood er sýndur. Hann segist hafa vitað það frá níu ára aldri að hann væri hommi og langaði að fá að vita hvers vegna. Í sjónvarpsþættinum gengur John undir mörg mismunandi próf og kemst að því að heili hans starfar eins og kvenmanns og kynhvöt hans líka.
Eftir að hafa komist að því að ekki er uppeldislegum ástæðum til að dreifa og ekki genískum heldur, kemst hann að þeirri niðurstöðu að orsakir samkynhneigðar hans megi rekja til þess að hann á eldri bróður og að móður hans hafði misst fóstur (dreng) áður en hún átti John. Þetta kann að hafa valdið því að John fékk ekki nægt testosterone á meðgöngutímanum.
Rannsóknir sýna að samkynhneigð er 30% algengari hjá körlum sem eiga eldri bróðir eða bræður.
Ástæðan er sem sagt líffræðileg og hefur með hormónaflæði móðurinnar á meðgöngutímanum að gera. Líkur eru sagðar á að testosterone framleiðsla móðurinnar minnki á meðgöngu seinni sveinbarna og það geti haft þau áhrif að heili þeirra og kynhneigð þroskist eins og hjá kvenmönnum.
Ég veit ekki hversu marktækar niðurstöður Johns eru fyrir aðra homma en þær hljóta að gefa ákveðnar vísbendingar. Þessar niðurstöður vekja líka spurningar um hvort foreldrar (mæður) sem vilja eignast gagnkynhneigð börn, geti tryggt það með hormónagjöfum eftir að kyn barnsins hefur verið greint.
22.7.2008 | 11:32
Sacha Baron Cohen
Hver kynslóð á sér sínar hetjur og fyrirmyndir, sína uppáhalds tónlist og hljóðfæraleika, leikara og grínista. Allt frá því að Charles Chaplin reið á vaðið í túlkun sinni á flækingnum broslega og brjóstumkennanlega, hefur heimurinn notið grínleikaranna, sem hafa gert heiminn ögn þolanlegri með því að birta okkur skoplega spegilmynd af honum. Margir grínarar láta sér nægja að fleyta sér á yfirborðinu og er það mest í mun að framkalla hlátur. En svo eru þeir sem dýpra kafa, stinga á graftrakýlunum í samfélaginu og fá okkur til að horfa á sjálf okkur í spéspeglinum. Fremstur meðal þeirra í dag er að mínu mati Sacha Baron Cohen.
Sacha Baron Cohen (f. 1971 í Englandi) varð fyrst frægur fyrir sköpun sína á karakternum Ali G, hip-hop gervigangster sem í viðtölum sínum við mektarfólkið opinberaði fordóma þess og stundum fáfræði með afar eftirminnilegum hætti.
Næsta fígúra Sacha Baron Cohen er Austurríski og samkynhneigði tískublaðamaðurinn Bruno sem ekkert virtist heilagt. Hann leggur fyrir viðmælendur sínar spurningar sem sýna greinilega hversu afmörkuð sjónarhorn þeirra eru við yfirborðsmennsku tískuheimsins.
Hann hélt áfram á sömu braut sem Kasakstaneski fréttaritarinn Borat sem ferðaðist um Ameríku og fletti ofan af kynþáttafordómum Bandaríkjamanna og fáfræði þeirra um menningu annarra landa.
Hér er myndband 9 mín. þar sem Sacha ræðir við David Letterman um karakterana sína
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)