Færsluflokkur: Ferðalög

Cheddar ostur og mannát

800px-Somerset-CheddarÞað þykir sjálfsagður hluti af allri sannri siðfágun nú til dags að kunna skil á vínum og ostum. Íslendingar, sem lengi vel þekktu aðeins sinn mjúka mjólkurost og mysuost,  geta nú valið úr fjölda tegunda osta í matvöruverslunum, bæði íslenskum og erlendum, þar á meðal Cheddar ostum sem vafalaust eru frægastir allra enskra osta. 

cheddar2Cheddar ostur er gerður af kúamjólk og getur verið bæði sterkur og mildur, harður eða mjúkur. Það sem fyrst og fremst gerir alvöru Cheddar ost að Cheddar osti, er að hann sé búin til í Cheddar, fornfrægu þorpi sem stendur við enda Cheddar gils í Somerset sýslu í mið-suðaustur Englandi. Elstu ritaðar heimildir um  þessa osta eru þúsund ára gamlar og talið er víst að þekkingin á gerð þeirra sé miklu eldri. Eftir endilöngu gilinu er að finna fjölda hella og voru sumir þeirra notaðir til að geyma í ostinn sem þarf allt að 15 mánuði í þurru og köldu lofti til að taka sig rétt.   

4196cheddargorgeCheddar gil er dýpsta og lengsta gil á Bretlandi. Þar hafa fundist mannvistarleifar sem eru 100.000 gamlar. Í einum hellinum fannst árið 1903 afar heilleg beinagrind af manni sem er 9.000 ára gömul (Cheddar maðurinn). Beinagrindin er elsta beinagrind sem fundist hefur á Bretlandi.  Þá  hafa fundist talvert eldri mannbein á þessum slóðum eða allt að 13.000 ára gamlar. Rannsóknir á litningum beina þessara fornaldarmanna sem voru uppi a.m.k. 3.000 árum áður en landbúnaður hófst á Bretlandi, sýna að enn í dag er að finna ættingja þeirra í Cheddar og sanna að ekki eru allir Bretar afkomendur hirðingja (Kelta) frá Miðjarðarhafslöndunum eins og haldið hefur verið fram.

CheddarmanSum af þeim mannbeinum sem fundist hafa í hellunum í Cheddar gili, þar á meðal bein Cheddar mannsins sjálfs, bera þess merki að egghvöss steináhöld hafa verið notuð til að granda viðkomandi. Sýnt þykir að sumir hafi verið teknir af lífi (skornir á háls) líkt og skepnur. Þetta hefur rennt stoðum undir þær kenningar að fornmenn í Cheddar gili hafi stundað mannát. cheddar_man_203x152


Sagan af Antony Payne; risanum gæfa frá Cornwall

PayneÞegar að Antony Payne var tuttugu og eins árs var hann sjö fet og tveir þumlungar á hæð. Faðir hans var bóndi og kom sveininum í vist hjá óðalsbóndanum  Sir Beville Granville frá Stowe. Vistin átti vel við Antony og hann óx tvo þumlunga í viðbót.

Þrátt fyrir stærð (2.27m), var Antony hinn liprasti maður og allir sem kynntust honum undruðust styrk hans og snögg viðbrögð. Hann var ekki luralegur í útliti og samsvaraði sér vel á allan hátt. Ekki skemmdi það fyrir að Antony var gáfaður og skapgóður.

Saga ein er oft sögð sem lýsir vel styrk Antony. Einn kaldan aðfangadag jóla, var drengur einn ásamt asna sendur frá óðalinu til skógar og átti hann að höggva í eldinn. Drengnum tafðist ferðin og þegar hann skilaði sér ekki eftir eðlilegan tíma, var Antony sendur til að leita hans. Antony fann drenginn þar sem hann stumraði yfir asnanum sem sat fastur með byrðarnar í for. Til að spara tíma, tók Antony asnan með byrðum sínum á axlirnar og bar hvorutveggja heim, en drengurinn hljóp við fót við hlið hans.

Þegar að stríð braust út á milli þings og Charles l konungs, árið 1642 studdi óðalsbóndinn Sir Beville konung og Payne sem var líka konungssinni gerðist lífvörður hans. Dag einn bárust þær fréttir að herlið undir stjórn þing-sinnans Stamfords Lávarðar, nálgaðist bæinn. Valdir menn með Payne í fararbroddi voru sendir til að mæta liðinu. Orrustunni lauk með því að lið Stamfords var hrakið á flótta. Payne skipaði mönnum sínum að taka grafir fyrir hina föllnu og lagði svo fyrir að tíu lík skyldu vera í hverri gröf. Þegar að níu líkum hafði verið komið fyrir og mennirnir biðu eftir að Payne kæmi með þann tíunda sem hann bar á öxlum sér að gröfinni, brá svo við að maðurinn sem allir héldu að væri dauður ávarpaði Antony;

"Ekki trúi ég Hr. Payne að þú ætlir að grafa mig áður en ég er dauður?"

Án minnstu fyrirhafnar, tók Antony manninn í fangið og svaraði; "Ég segi þér það satt, gröfin var tekin fyrir tíu manns, níu eru þegar komnir í hana og þú verður að fylla í skarðið". 

"En ég er ekki dauður, segi ég" maldaði maðurinn í móinn. "Ég á enn eftir nokkuð ólifað. Sýndu mér miskunn Hr. Payne og flýttu ekki för minni í jörðina fyrir minn tíma"

"Ekki mun ég flýta för þinni" svaraði Payne. "Ég mun setja þig varlega niður í gröfina og þjappa vel að þér og þá getur þú dáið þegar þér sýnist".

Auðvitað var hinn góðhjartaði Payne að gantast með skelkaðan manninn. Eftir að hann hafði lokið við að grafa hina föllnu bar hann særðan manninn til hýbýla sinna þar sem honum var hjúkrað.

Eftir að þing-uppreisninni lauk var John sonur Sir Seville skipaður yfirmaður virkisins í Plymouth af Charles ll konungi og þá fylgdi Payne honum sem atgeirsberi hans. Konungurinn hreifst mjög af þessum skapgóða risa og lét Godfrey Kneller mála af honum mynd.  Kneller kallaði málverkið "Tryggi risinn" og er það til sýnis í dag  Royal Institute of Cornwall Art Gallery.

Eftir að Payne náði eftirlaunaaldri, snéri hann aftur til Stratton þar sem hann bjó til æviloka. Þegar að koma átti líkama hans úr húsi eftir andlát hans, þurfti að rjúfa gólfið á láta hann síga í böndum sem festar voru í talíur, niður á neðri hæð hússins, þar sem hann var of þungur og of stór til að koma honum niður stigann. tugir líkburðarmanna voru fengnir til að bera feykistóra kistu hans í áföngum að Stratton kirkju þar sem hann var jarðsettur.



 


Tintagel; þar sem Arþúr konungur er sagður getinn

Tintagel1Í Cornwall verður ekki þverfótað fyrir stöðum sem tengjast sögu Bretlands og ekki hvað síst þeirri sögu sem Bretar sjálfir eru hvað hrifnastir af, goðsögninni um Arþúr konung.

Á norðurströnd Cornwall er að finna tanga einn sem ber nafnið Tintagel. Nafnið merkir "virki" á fornu máli íbúa Cornwall. Á tanganum er að finna rústir kastala sem sagan segir að hafi verið eitt af virkjum Gorlusar hertoga af Cornwall. Hann átti fagra konu sem hét Ígerna og dvaldist hún í Tintagel. Gorlus átti í útistöðum við Úþer Rauðgamm (Pendragon) sem reyndi að brjóta undir sig England og Cornwall.

tintagelTil að ræða sættir bauð Gorlus Úþer að koma til Tintagel og gerði honum þar veislu. Þegar Úþer sér Ígernu verður hann örvita af ást. Hann brýtur í framhaldi alla friðarsamninga við Gorlus sem varðist sem hann mátti í Dimilioc, öðrum kalstala sem hann átti ekki langt frá Tinagel.  Úþer kallaði til sín seiðkarlinn Merlín og biður hann um að hjálpa sér að ná fundum, ef ekki ástum Ígernar. Merlín gerir Úþer líkan Gorlusi og í því gerfi sængar hann hjá Ígerni og getur með henni frægasta son Bretlands, Aarþúr konung. Þá sömu nótt var Gorlus veginn og Úþer tók Ígernu sér fyrir konu.  

stone of ArthurÞær kastalarústir sem nú má sjá á Tintagel eru að mestu frá 1230 þegar að Ríkharður Prins af Cornwall byggði sér þarna virki. Hann byggði samt á eldri grunni sem talinn er vera frá 1141 og Reginald nokkur Jarl er sagður hafa lagt. Fornleifar nokkrar hafa fundist á staðnum, frá fimmtu öld þær elstu. Um er að ræða leirkersbrot frá Túnis og diskabrot frá Karþagó. -  Árið 1998 fannst á staðnum steinhella ein og af henni mátti lesa orðið ARTONOU sem gæti verið skírskotun til Arþúrs, en orðið merkir "björn" á fornri tungu Kelta.

spaceball2423009348_b32a94c65fNiður við sjávarmál undir tanganum, er að finna hellisskúta einn og sá kenndur við Merlín. Í einni af fjölmörgum útgáfum sögunnar um Arþúr, tekur Merlín Arþúr í fóstur skömmu eftir fæðingu og felur hann um stundarsakir í þessum helli.


Bankararnir í Cornwall

Um þessar mundir er ég staddur í Cornwall, sem er suðvestur hluti Bretlands. Hér er ströndin ögrum skorin og þorp eða bær við hverja vík. Sjóræningjar og smyglarar tengjast sögu hverrar kráar hér um slóðir en nú eru þær fullar af ferðamönnum enda Cornwall vinsæll ferðamannastaður á sumrum. Hér var fyrrum blómleg útgerð og námuvinnsla. Mest var unnið tin úr jörðu og ku saga námuvinnslu hér teygja sig aftur um árþúsundir, frekar en hundruð, eða allt frá því að Fönikíumenn sigldu hingað í leit að málminum sem notaður er til að búa til brons. Bretland var þá meira að segja kallað Cassiteriades eða Tin-Eyjar af Grikkjum og öðrum þeim sem bjuggu fyrir botni Miðjarðarhafsins. -

293619067_ea9f462c7dÍ tengslum við námuvinnsluna urðu til margar þjóðsögur og hjátrú sem enn lifir meðal íbúa Cornwall, þar á meðal trúin á verur sem kallaðir eru upp á enskuna "Knockers".

Knockers eða bankarar eru taldir frumbyggjar landsins sem voru hér fyrir þegar að Keltar komu yfir sundið frá Frakklandi. Bankararnir unnu í námunum og voru samskipti við þá góð eða slæm eftir því hvernig komið var  fram við þá. Bankarar voru að sjálfsögðu ósýnilegir nema að þeir vildu sjálfir gera sig sýnilega og minna reyndar um margt á jarðálfa eða jafnvel svartálfa. Þeir gátu verið hrekkjóttir en ef þess var gætt að halda þeim ánægðum þóttu þeir til lukku.

Ein sagan af samskiptum manna og Bankara segir af námumanninum Tom Trevorrow. Hann hóf að grafa í námu sem talin var snauð af tini en kom brátt niður á æð sem hann vissi að gæti gert hann ríkan. Brátt heyrir hann kveðið innan úr grjótinu.

"Tom Trevorrow! Tom Treverrow!

Leave me some of thy fuggan for Bucca.

Or bad bad luck to thee tomorrow.

"Fuggan" er hefðbundið nesti námumanna í Cornwall, einskonar kaka gerð úr höfrum og svínafeiti og Bucca er annað orð yfir bankara og dregið af enska orðinu "puck" eða pjakkur. - Tom virti bankarana ekki viðlits og þegar þeir mæltu aftur voru þeir ekki eins vinsamlegir.

"Tom Trevorrow! Tom Treverrow!

We´ll send thee bad luck tomorrow,

Thou old curmudgeon, to eat all thy fuggan

And leave not a didjan for Bucca.

"Curmudgeon" merkir gamall illskeyttur karl og "didjan" smábiti eða moli.-

Þegar að Tom kom að námunni næsta dag hafði orðið mikið hrun í henni og öll tól hans oig tæki grafin undir.  Óhepnni virtist elta hann eftir það og hann varð á endanum að hætta námuvinnslu og gerast vinnumaður á bóndabæ. 

Kveðja frá Cornwall.


Dr. Phill skýrir ástæðurnar fyrir tapi Íslendinga

DSC01431Dr. Phill sem staddur er í Frakklandi og fylgdist með leik Íslendinga og Frakka í sjónvarpinu þar, hringdi núna skömmu eftir að leiknum lauk og sagðist ætla að beita sér fyrir því að Bretar eignist alvöru handboltalið sem geti tekið þátt á næstu Ólympíuleikum sem verða haldnir í London 2012. Handbolti væri svo skemmtileg íþrótt þótt hann skildi ekkert í því hvers vegna völlurinn væri svona illa nýttur. Helmingur hans væri venjulega auður fyrir utan markmanninn í hverri sókn.

Hann sagðist senda Íslendingum hamingju óskir með silfurverðlaunin og um leið samúðarkveðjur vegna þess að þeir misstu af gullinu. Ástæðurnar fyrir tapinu sagði hann augljósar eftir að hafa kynnt sér málvöxtu; Af því bara


Glastonbury þyrnir

800px-Glastonbury_ThornArfsögn sem fyrst er skráð á sextándu öld af ókunnum skrásetjara, segir frá ferð Jósefs af Arimaþeu, auðugum frænda Jesú, til Bretlands eftir krossfestingu frelsarans. Förin var farin í þeim erindum að boða hina nýju trú. Jósef átti göngustaf einn góðan, gerðan af þyrnitré, af sömu tegund viðar og kóróna Krists var ofin úr þá hann var krýndur af hæðnum ítölskum hermönnum fyrir krossfestinguna. 

Þreyttur af langri göngu á refilstigum Bretlands, lagðist Jósef til svefns þar sem nú rís Glastonbury hæð. (Á þeim tímum var hæðin umleikin vatni á alla vegu) Hann stakk staf sínum í mjúkan svörðinn og sofnaði. Þegar hann vaknaði, hafði stafurinn tekið rætur og óx af honum mikill þyrnimeiður.

Í tímanna rás hefur þessi þyrnir vaxið við og í nágrenni Glastonbury og greinir sig frá öllum öðrum þyrnum af svipuðum ættum með að blómgast tvisvar á ári; um jól og um páska. Þyrnirinn er af algengri ætt þyrnirunna (Crataegus monogyna)  sem finna má um alla Evrópu og Austurlöndum nær, en þær bera blóm aðeins einu sinni á ári.

GlastonburyabbeySamkvæmt arfsögninni endurnýjaði hið upphaflega tré sig á hundrað ára fresti þar til það var höggvið af hermönnum Cromwells í bresku borgarastyrjöldinni, vegna gruns um að tréð stuðlaði að hjátrú meðal íbúa Glastonbury og Somerset-sýslu.

Einhvern veginn tókst að bjarga kvislingi af trénu og hann gróðursettur aftur í bakgarði biskupsins og þar stóð þyrnirunni af þessum sérstaka meið allt fram til ársins 1991. Það tré hafði staðið í áttatíu ár þegar það visnaði. Aftur var kviðlingum plantað af því tré og er þá nú víða að finna í Glastonbury-bæ.

Snemma varð að hefð að senda afskurð af "hinum blómstrandi heilaga þyrni"  til Buckingham hallar á jólum og er þeim sið en fram haldið.  Er það elsti nemandi St John’s Infants School í Glastonbury sem fær þann heiður að færa þjóðhöfðingjanum afskurðinn.

DSC_0114Allar tilraunir til að endursá fræjum þyrnisins hafa endað í venjulegum þyrni, (Crataegus oxyacantha praecox) þ.e. þeim sem aðeins blómstrar einu sinni á ári; að vori.

Árið 1965 lét Elísabet drottning reisa kross í Glastonbury með eftirfarandi yfirskrift. "Krossinn, tákn trúar okkar. Gjöf Elísabetar II drottningar sem varðar kristið skjól sem er svo fornt að arfsögnin ein segir frá upphafi þess".

 


Svínin hans Bladuds

2625067240_faf4927a46Út um allar grundir í borginni Bath getur að líta svín sem hafa verið máluð og skreytt listilega af hagleiksmönnum borgarinnar. Þau eru eitt hundrað að tölu og voru gerð til þess að minnast stofnunar Bath-borgar af konunginum Bladud sem þjóðsagan segir að hafi verið fyrstur til að reisa þar mannvirki. Hvernig svínin koma þar við sögu, getið þið lesið um hér að neðan, þar sem ég hef tekið saman helstu atriðin úr þjóðsögunni  um Bladud.

Bath er sögufræg borg og þar hafa fundist mynjar um mannvistir langt aftur úr steinöld. Líklegast er þó talið að það hafi verið Rómverjar sem fyrstir ákváðu að nýta sér heitavatnslindirnar sem þar eru að finna en þeir nefndu staðinn Aquae Sulis (Vatn Sulis) . Þeir byggðu þar rómverskt bað um miðja fyrstu öld  E.K. og er hluti þess enn í notkun. Þetta ku vera eini staðurinn á Bretlandseyjum þar sem heitt vatn (ca 46 gráðu heitt)  seytlar upp úr jörðinni. Bretar hafa um aldir haft mikla trú á lækningarmætti vatnsins og við lindirnar var reist sjúkrahús fyrir holdsveika snemma á elleftu öld og stendur það enn. Seinna á átjándu og nítjándu öld varð Bath að helstu slæpingjaborg breska aðalsins og vinsæll dvalarstaður hóstandi skálda.

Sagan af Bladud  

_44679865_pigs_pa466Eitt sinn ríkti konungur yfir Bretlandi sem hét Rud Hud Hudibras. Þetta var á þeim tímum sem konungur og ríkið voru eitt og svo lengi sem konungurinn var sterkur og heilbrigður, farnaðist landinu og íbúum þess vel. Hann átti son einn fríðan sem hét Bladud og skyldi hann erfa ríkið að föður sínum gengnum. Hudibras sendi Bladud til mennta alla leið til Grikklands þar sem hann lærði öll þau vísindi sem lærðustu menn þess tíma kunnu. Þegar hann snéri heim hafði hann í för með sér fjóra heimspekinga sem stofnuðu háskóla í Stamford í Lincolnsýslu. Á ferð sinni til baka frá Aþenu smitaðist Bladud af holdveiki. Hudibras þótti ekki tilhlýðilegt að holdsveikur maður tæki við völdum af sér og rak því Bladud í burtu og gerði hann útlægan frá hirð sinni. Niðurlægður og vafinn sóttarbindum hélt Bladud í burtu frá Lundúnum. Hann eigraði um landið en settist að lokum að í þorpinu Swainswick og gerðist svínahirðir. Swainswick er í nágrenni þeirrar borgar sem nú nefnist Bath.

BladudDag einn sat Baldud og gætti svínanna. Allt í einu tóku þau á rás og héldu í átt að skóglendi einu þar sem eymyrju mikla lagði upp af jörðinni. Bladud vissi að bændurnir í kring höfðu illan bifur á þessum stað og töldu illa anda vera þar á sveimi. Svínin hlupu eins óð væru beint inn í skóginn og Bladud átti þess einan kost að fylgja þeim eða tapa þeim öllum ella. Inn í skóginum lá eymyrjan yfir öllu og mikill óþefur var í loftinu. Bladud hafði samt ekki farið langt þegar hann kom að rjóðri þar sem svínahjörðin veltist um í daunillri eðju. Bladud óð út í eðjuna og streittist við að toga svínin upp úr henni og reka þau til baka.

Loks þegar öll svínin voru kominn upp úr foraðinu, var Bladud orðin svo þreyttur að hann skreið á fjórum fótum upp úr eðjunni og steinsofnaði. Þegar hann opnaði augun aftur sá hann geislandi hvítklædda veru standandi yfir sér. Bladud vissi að þetta var engin önnur en Minerva Sulis sú sem Grikkir kölluðu Aþenu. "Mundu mig þegar þú tekur við riki þínu" mælti gyðjan. Svo leystist hún upp og sameinaðist gufunni sem lagði upp af eðjunni.

Bladud sá að svaðið hafði myndast við að heitt vatn streymdi upp úr jörðinni. Bladud týndi nú af sér leppana og hugðist þvo af þeim mesta leirinn í heita vatninu en sér þá að hold hans var hvergi opið og að hann er orðinn alheill sára sinna.

Bladud vissi að nú gæti faðir sinn ekki snúið sér burtu og því héllt hann til baka til Lundúna og var þar fagnað vel. Tók Bladud við ríki föður síns eftir andlát hans og ríkti í 20 ár. Minnugur orða gyðjunnar  lét hann byggja hof yfir heitavatnsuppsprettuna og tileinkaði það Mínervu Súlis. Varð hofið strax  fjölsótt af þeim sem sjúkir voru og læknuðust allir við að taka inn vatnið eða baða sig í leirnum sem það rann ofaní.

689px-Roman_Baths_in_Bath_Spa%2C_England_-_July_2006Þegar að Bladud tók að eldast, fékk hann mikinn áhuga á öllu sem viðkom flugi. Taldi hann líklegt að maðurinn gæti flogið eins og fuglinn svo fremi sem það tækist að smíða vængi úr nógu léttu efni. Lét hann gera sér vængi úr ýmsum efnum og gerði nokkrar misheppnaðar tilraunir til flugs.  Loks fékk hann gerða vængi úr stráum og vaxi sem hann taldi að mundu duga. Hann lét boð út ganga að hann mundi reyna vængina sjálfur á ákveðnum degi og mundi flugið hefjast á hæð einni nálægt hofinu sem hann hafði byggt fyrir Súlis. Á þessum tiltekna degi safnaðist aragrúi af fólki saman fyrir neðan hæðina og fylgdist þar með konungi sínum hlaupa af stað og baða út vængjunum sem hann hafði látið reyra við handleggi sína. Og viti menn, nákvæmlega á því augnabliki sem allir önduðu frá sér eftir að hafa haldið niður í sér andanum af eftirvæntingu, tókst Bladud á loft. Hann flaug í hringi yfir mannfjöldanum og svo tók hann stóran sveig inn yfir skóginn. Hann lét sig svífa niður að hofinu og hvarf ásjónum fólksins inn í heita gufuna sem lagði upp af því. Þegar hann kom ekki aftur út úr gufunni var farið að athuga hvort hann hefði hugsanlega lent í skóginum. Skömmu seinna fannst Bladud með bráðnaða og brotna vængi liggjandi á altarinu fyrir utan hofið með svöðusár á höfði og voru dagar hans þar með allir.

Sonur hans tók við völdum en hann hét Lér og var gerður ódauðlegur í einu verki ónefnds rithöfundar, löngu, löngu seinna.

 


Götu-tónlistin í Bath

Bath er fögur og litrík borg, ekki hvað síst hvað mannlífið varðar. Fyrr í sumar var haldin hin árlega tónlistarhátíð (The Bath music Festival) og þar komu saman margir frægir og góðir listamenn. Í tilefni af sextíu ára afmæli hátíðarinnar voru gerðar nokkrar 60 sekúnda langar kvikmyndir um hátíðina en ég kaus að fara aðra leið og gera kvikmynd um þá sem ekki komu þar fram en eru engu síður hluti af tónlistarlífinu hér í borg. Hér kemur einnar mínútu tónlistar-póstkort  frá Bath. 


Ensk þjóðasaga

Kevan Manwaring, sögumaður og rithöfundur segir gamla þjóðsögu af tilurð eins af mörgum steinhringjum sem finna má í suðvestur Englandi.

drew1

Sprengingin mikla

halifax_explosionFyrir næstum því 30 árum dvaldist ég nokkur ár í Kanada. Ég bjó skammt frá hafnarborginni Halfiax í Nova Scotíu sem á sér merka sögu. þar voru t.d. greftruð þau lík sem fundust fljótandi í sjónum eftir að Titanic sökk og enn koma ættingjar til borgarinnar til að vitja grafa þeirra.

c001833Í Halfax átti sér stað stærsta og mesta sprenging sem orðið hefur af manavöldum fyrr og síðar fyrir utan kjarnorkusprengjurnar.  Sumstaðar niður við höfnina má enn sjá ummerki eftir þessa ógnar sprengingu.

imoAtburðirnir áttu sér 6. Desember árið 1917 í Halifax-höfn.  Franska vöruskipið Mont-Blanc, drekkhlaðið af sprengiefni sem ætlað var til notkunar í heimstyrjöldinni sem þá geisaði í Evrópu, rakst á norska flutningaskipið Imo sem fullt var af hjálpargögnum einnig ætluðum til notkunar í styrjöldinni.

Áreksturinn var í þrengingunum sem finna má innst í höfninni, með þeim afleiðingum að eldur kom upp í Mont-Blanc. Tuttugu og fimm mínútum síðar sprakk Mont-Blanc í loft upp með skelfilegum afleiðingum. c001833

Talið er að um 2000 manns hafi látist í sprengingunni, flestir af völdum hrynjandi bygginga og elda sem upp komu í borginni. Yfir 9000 manns særðist. Sprengingin orsakði flóðöldu sem jafnaði við jörðu allar byggingar í tveggja ferkílómetra radíus. Skipið hvarf og hlutum úr því rigndi niður í margra kílómetra fjarlægð ásamt upprifnum járnbrautarteinum, brotum úr lestarvögnum og bílum.  Daginn eftir sprenginguna snjóaði talsvert sem gerði öllu hjálpastarfi erfitt fyrir. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband