Færsluflokkur: Ferðalög
2.8.2008 | 16:40
Stutt ástarasaga
Það verða örugglega margar stuttar ástarsögur sem gerast um helgina eins og vanin er um Verslunarmannhelgina á Íslandi. Sumar þeirra verða vafalaust lengri og það er einnig hið besta mál. Það nefnilega gleymist stundum í allri umfjölluninni um sukkið og svínaríið að það gerist margt fallegt líka.
Hér er að finna eina stutta ástarsögu við tónlist Sigurrósar sem ég rakst á fyrir nokkru. Mér finnst hún bara falleg í einfaldleika sínum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.7.2008 | 16:04
Blekkingar í Vestmannaeyjum
Þátturinn með ofur-kokkinum Gordon Ramsay þar sem hann veiðir og matreiðir lunda í Vestmanneyjum var sýndur á Channel 4 í gærkveldi. Undirtektirnar á spjallrásunum bresku létu ekki á sér standa og sýnist sitt hverjum eins og vænta mátti. Yfirleitt er fólk þó sammála um að Gordon hafi loks farið yfir strikið, þrátt fyrir blótsyrðin öll og hafi bara átts kilið að vera næstum búinn að drepa sig við veiðarnar á þessum "fagra og saklausa fugli", en þátturinn gerir mikið úr hremmingum Gordons í Vestmannaeyjum.
Gordon sést líka við eldamennsku upp á hrauni þar sem hann bakar brauð. Eitthvað var þetta samt loðið með brauðin því fram kemur að þeim hafi verið stolið og því hefði þurft að "sviðsetja" brauðbaksturinn. Sé þetta satt, hefur atvikið yfirbragð vinnubragða hins víðfræga Hrekkjalómafélags.
Þessi uppákoma minnti mig samt á annað atvik sem átti sér stað í Vestmanneyjum fyrir nokkrum árum. Finnlandsforseti Martti Ahtisaari ásamt frú og fríðu föruneyti kom til Eyja í boði Frú Vigdísar Finnbogadóttur Forseta.
Farið var með hópinn út á hraun eins og lög gera ráð fyrir og þar boðið upp á ný-hraunbakað brauð. Finnlandsforseti gróf sjálfur upp brauðið eftir að hafa verið bent á hvar það var að finna, reif upp mjólkurfernuna sem brauðdeiginu hafði verið komið fyrir í og viti menn, út úr fernunni kom ilmandi rúgbrauð, vandlega skorið í viðeigandi þunnar sneiðar.
Það runnu tvær grímur á mannskapinn. - Böndin bárust að Herði Dolla, veitingamanninum sem sá um baksturinn. Hann reyndi að krafla sig út úr vandræðunum með því að segjast hafa komið þarna við nokkru áður og ákveðið að skera brauðið til að flýta fyrir. Þetta var látið gott heita í bili og allir gæddu sér á glóðvolgu brauðinu með sméri.
Seinna kom það á daginn, sem auðvitað allir eyjamenn þarna staddir vissu, að brauðið hafði verið keypt fullbakað og skorið hjá Bergi bakara þá um morguninn og troðið í fernuna. Ég held, svei mér þá, að Vigdísi hafi líka grunað að maðkur var í mysunni, því hún snéri sér undan og skellihló.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2008 | 12:16
Á Þjóðhátíð í Eyjum
Verlunarmannahelgin á næsta leiti og margir eflaust farnir af stað þangað sem þeir ætla. Þjóðhátíð í Eyjum að hefjast, húkkaraball í kvöld og allt það.
Fyrir næstum 20 árum var heimsfrægum plötusnúð boðið að taka þátt í Þjóðhátíð í Eyjum. Sá hafði getið sér gott orð, fyrst á útvarpsstöðvunum sem starfræktar voru á öllum amerísku herstöðunum um allan heim og seinna í kvikmyndinni American Graffiti.
Hann hét Wolfmann Jack(Lést 1995) og var strigakjaftur mikill og stuðbolti með allt útvarps-lingóið á hreinu og mikill rokk-aðdáandi. Hann var nokkuð digur um sig og það tóku allir eftir honum þar sem hann fór, svartklæddur og með sitt grásprengda úlfsskegg og síða hár.
Eftir að hann var búinn með prógrammið sitt á laugardagskvöldinu í Dalnum, kom hann örþreyttur, þrælkvefaður og hóstandi inn á hótelið þar sem hann dvaldist og hlammaði sér niður í leðursófann í lobbíinu. - Ég var að vinna þarna á Hótelinu og því vék hann sér að mér og spurði; "Geturðu nokkuð reddað mér tisjú". Ég fór að leita, en var því miður ekki öllum hnútum kunnugur og fann ekkert nema klósettrúllu sem ég svo færði honum. Á meðan karlinn var að snýta sér í rúlluna, og ég meina það, hann notaði alla rúlluna, lét hann dæluna ganga og býsnaðist mikið yfir okkur Íslendingum og skemmtanagleði okkar. "Ég var á Woodstock, Isle of Wight og öllum stærstu rokkhátíðum sem haldnar hafa verið" sagði hann. "En ég hef aldrei nokkurn tíman lent í öðru eins og þessu. Þið..þið Íslendingar kunnið svo sannarlega að skemmta ykkur" (You sure know how to party) .
Svo bað hann um aðra klósettrúllu og fór með hana upp á herbergið sitt.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.7.2008 | 01:46
Fyrir Jenný - Ég vil ekki deyja fyrr en ég er búin að sjá Stonehenge.
Stonehenge er forsögulegur og leyndardómsfullur hringur af uppréttu stórgrjóti í suður Englandi. Bygging þessa mikla mannvirkis hófst fyrir um það bil 5000 árum; en steinarnir frægu sem við sjáum enn standandi voru settir niður fyrir 4000 árum.
Steinunum er raðað þannig að þeir mynda eina heild á sumarsólstöðum og þess vegna er Stonhenge án efa reist til að vera stórfenglegur tilbeiðslustaður. Þótt trú þeirra sem byggðu Stonhenge sé eldri en öll þekkt trúarbrögð, hefur staðurinn verið áfangastaður pílagríma og ný-heiðinna sem gjarnan kenna sig við Drúída eða aðrar greinar Keltísks átrúnaðar.
Sá steinhringur sem við sjáum nú þótt undursamlegur sé, er aðeins hluti af upphaflega Stonhenge. Upphaflega Stenehenge hefur þurft að þola mikið rask af völdum veðurs og mannfólks í leit að byggingagrjóti í aldanna rás. Mikið hefur verið grafið í Stonhenge, sérstaklega á síðustu öld af fornleifafræðingum sem reyna að kryfja leyndardóma staðarins.
Það sem við vitum best um Stonhenge er byggt á rannsóknum sem fóru fram allt frá árunum1919 og sérstaklega eftir 1950. Fornleifafræðingar telja að uppbygging staðarins hafi farið fram í þremur hlutum, sem hafa verið nefndir Stonehenge I, Stonehenge II, og Stonehenge III.
Stonehenge I
Ný-Steinaldarfólkið á Englandi hóf byggingu Stonehenge I með því að grafa hringlaga skurð með dádýrahorn fyrir haka. Skurðurinn er 320 fet í þvermál, 20 feta breiður og 7 feta djúpur.
Það notuðu uppmokstursefnið til að byggja nokkuð brattan garð meðfram hringnum að innanverðu. Fyrir innan garðinn gróf það 56 grunnar holur sem eru þekktar sem Aubrey holurnar og voru nefndar eftir þeim sem uppgötvaði þær, 17 aldar fræðimanninum John Aubrey. Stonehenge I var notað í um 500 ár og svo yfirgefið.
Stonehenge II
Bygging Stonehenge II hófs um árið 2100 FK. Í þetta sinn var hálfhring af granít-steinum sem þekktir eru sem "bálsteinar" (vegna upphaflegs litar þeirra) reistir fyrir innan upphaflega garðinn og skurðhringinn. Margir þættir þessa byggingarstigs eru afar áhugaverðir.
Til að byrja með eru blásteinarnir úr Preseli fjöllum í suður Wales, sem er næstum í 250 mílna fjarlægð. 80 steinar sem vógu allt að 4 tonn hver voru fluttir alla þessa leið. Hvernig er ekki vitað þótt margar leiðir hafi verið lagðar til og jafnvel reyndar.
Það er afar áhugavert að íhuga hversvegna Staðsetning Stonehenge er svona sérstök að fólk leggi á sig að draga risa stóra steina alla þessa leið í stað þess að höggva þá úr næstu grjótnámu.
Í öðru lagi er inngangurinn inn í hálfhringinn lagður í beina línu miðað við sólaruppkomu á sumarsólstöðum. Línunni var náð með að búa til nýja leið inn í hringinn; "Breiðstrætið" sem hefur bæði skurði og garða á hvora hlið eins og upphaflegi ytri hringurinn. Tveir Hel-steinar (nefndir eftir lögun þess steins sem hefur varðveist) voru reistir á Breiðstrætinu ekki langt frá hringnum.
Stonehenge III
Stonehenge III er mestmegnis steinarnir sem við sjáum mynda grjóthringinn í dag. Á þessu byggingarstigi sem hófst um 2000 FK. var byggður hringur af uppréttu stórgrjóti og á milli herra tveggja og ofan á var komið fyrir láréttum grjóthellum. Hellurnar eru ekki rétthyrndar og heldur bognar til að mynda hringinn.
Upphaflega stóðu þarna 30 steinar. 17 þeirra standa enn. Steinarnir komu frá Marlborough Downs, sem er 20 mílur norðan Stonehenge og eru allir 7 feta háir og um 50 tonn á þyngd hver um sig. Ytra byrði steinanna var hamrað og skorur myndaðar til að halda hellunum föstum.
Inn í þessu hring var annar hálfhringur byggður úr 10 uppréttum hnullungum. Átta af þessum steinum eru enn á staðnum. Þessi hálfhringur opnast beint á móti Slátursteininum og niður á Breiðstrætið og myndar línuna á sumarsólstöðum.
Um það bil öld seinna voru 20 blásteinar teknir frá Steonehenge II og settir í minni hálfhring inn í hinum hálfhringnum. 9 þessara steina eru enn til. Eitthvað jarðrask og brask var með þessa steina því seinna eða um 1500 FK. var Altarissteinninn sem er stærstur þessara blásteina færður úr stað. Um 1100 FK var Breiðstrætið lengt alla leið að ánni Avon (Avon þýðir einfaldlega á á Keltnesku) eða í meira en þrjá km. frá Stonehenge sem gefur til kynna að staðurinn hefur þá enn verið í notkun þá.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 02:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
12.7.2008 | 22:18
Fíla blogg
Ef þið hafið áhuga á að sjá eitthvað virkilega ótrúlegt þá ættuð þið að líta á þetta myndband frá Thailandi. Listafíll
Fílar hafa í mörg ár heillað mig og eru án efa mín uppáhalds dýr. Þeir eru líffræðilega afar flóknar verur og sumt í hegðun þeirra hefur aldrei verið að fullu skýrt. Tennur þeirra eru svo verðmætar eins og kunnugt er, að þeir eru í útrýmingarhættu. Þeir eru eina dýrið sem ég veit um sem heilt þjóðland hefur verið nefnd eftir. (Fílabeinsströndin) Þeir hafa verið notaðir sem stríðsvélar og þungavinnuvélar og voru Indverjum og öðrum Asíuþjóðum þarfari þjónn en hesturinn var þeim nokkru sinni.
Ég fann á blog.is blogg frá bloggvinkonu minni henni Steinunni Helgu Sigurðardóttur sem fílaunnendur gefðu gaman af að líta á, þ.e.a.s. þeir sem ekki hafa þegar gert það.
Svo fann ég eftirfarandi fróðleik á vefnum;
Þrátt fyrir ákveðin líkamleg einkenni eru fílar hvorki náskyldir flóðhestum né nashyrningum. Þvert á móti er skyldleika að leita á allt öðrum stöðum í dýraríkinu.
Fílar nútímans lifa einir eftir af fjölda skyldra tegunda sem voru útbreiddar í stórum heimshlutum. Auk afrísku og indversku fílanna eru nú aðeins eftir tveir hópar tegunda þessara dýra. Annars vegar eru sækýrnar, sem skiptast í fjórar tegundir, sem allar hafast við í hitabeltinu í karabíska hafinu og við strendur Afríku og Ástralíu. Sækýr geta orðið allt að tvö tonn. Rétt eins og fílarnir eru sækýrnar hægfara jurtaætur. Skyldleikann má m.a. sjá á afar sérstæðri tannskipan. Karldýr sumra tegunda hafa t.d. stuttar skögultennur, samsvarandi skögultönnum fíla.
Það má sem sagt á sinn hátt skynja skyldleikann milli fíla og sækúa. Hitt kemur meira á óvart að bjóða skuli afrískum kletta- og trjágreifingjum á þetta ættarmót. En aftur er það sérstæð tannskipan sem afhjúpar skyldleikann. Framtennurnar hafa þróast í stuttar skögultennur sem að vísu standa ekki út úr munninum. Jaxlarnir eru stórir og flatir. Ættartengslin hafa líka á síðustu árum verið staðfest með greiningu á erfðaefni, bæði í frumukjörnum og orkukornum. Þær rannsóknir sýna sameiginlega forfeður.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.6.2008 | 14:52
Fjöll
Hér um slóðir (suður England) eru fá fjöll að finna. Landslagið er auðvelt fyrir augað, líðandi hæðir og hólar, ásar og kambar en engin alvöru fjöll. Alla vega ekki eins og augun rembast við að meðtaka hvar sem þú ert staddur á Íslandi. Hvergi þessir stóru dalir á hvolfi eins og skáldið orðaði það. Ég held að allir íslendingar elski fjöll. Maður tarf ekki að vera með neina króníska fjalladellu til þess, okkur þykir einfaldlega vænt um fjöllin.
Kannski er það vegna þess að við horfum á þau verða til eins og t.d. Heklu sem er enn að stækka og hækka. Eða kannski er það vegna þess að þú eru svo táknræn fyrir líf okkar, þetta söðuga ströggl upp á móti við að komast af, eða klífa tindinn eins nú þykir best. Öll okkar bestu skáld yrkja um fjöll og allir listmálarar mála þau. Flest gallerí á Íslandi eru full af mismunandi góðum tilraunum til að fanga þau á striga. Sumir mála sama fjallið aftur og aftur eins og Stórval gerði.
það er líka eitthvað svo himneskt við fjöllin.
Þeir sem dveljast á fjöllum langdvölum fá á augun fjarrænt augnaráð eins og þeir séu ekki allir þar sem þeir eru séðir. Það er ekki að furða að þjóðirnar sem fyrstar þróuðu með sér hugmyndina af guðum töldu heimili þeirra vera á fjallstindum. Ólympus er gott dæmi um það. Seinna þegar mennirnir fóru að trúa á einn Guð, birtist hann þeim upp á fjalli eins og gerðist þegar Móses fékk boðorðin frá honum forðum.
Ef til vill eru hugmyndir okkar um andlegt upp og niður, himnaríki og helvíti grundvallaðar á upplifun okkar af fjöllum. Þar erum við eins frjáls og hægt er að vera, hugurinn eins skýr og mögulegt er og við verðum eins vídsýn og við ættum að vera á jafnsléttu.
Alla vega sakna ég fjalla.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.6.2008 | 00:56
Förin sem aldrei var farin
Af og til berast svo kallaðar barna-krossferðir á góma, yfirleitt í ræðum eða ritum fólks sem leggur sig eftir að reyna sýna fram á heimsku trúar og/eða trúarbragða, með sem flestum dæmum.
Sögurnar af barnakrossferðunum hafa nokkuð svipaðar innihaldlýsingar og segja frá þegar tveir drengir, annar þýskur og hinn franskur, á árinu 1212, áttu að hafa safnað um sig fjölda barna til að fara í krossferð til landsins helga til að hertaka Jerúsalem.
Fyrri ferðinni stýrði Þýski drengurinn Nikkulás. Hann er sagður hafa farið yfir Alpana til Ítalíu og komið til Genóva um mitt ár 1212 með 7000 börn í eftirdragi. Eitthvað fóru málin úrskeiðis þegar komið var að strönd Miðjarðarhafsins því það opnaðist ekki eins og Nikkulás var sannfærður um að það mundi gera. Hópurinn sundraðist fljótlega og er sagt að flest börnin hafi verið hneppt í þrældóm. Alla vega komst ekkert þeirra til Ísrael.
Sama ár boðaði franskur stráklingur að nafni Stefán að honum hefði verið falið af Jesú að leiða börn Evrópu til Landsins Helga og framkvæma það sem fyrri krossferðum hafði ekki tekist, að vinna og halda Jerúsalem. Hann hafði meira að segja bréf frá Jesú upp á þetta til Frakklandskonungs sem samt lét sér fátt um þau skilaboð frá friðarhöfðingjanum, að hann ætti að greiða götu stráksa, finnast.
Stefán laðaði að sér rétt um 30.000 börn, öll sögð innan 12 ára aldurs og hélt með þau til Marselles. Þaðan var ætlunin að sigla til Ísrael. En það fór fyrir Stefáni svipað og Nikkulási, hópurinn leystist upp og mörg barnanna voru tekin og seld mannsali á þrælamörkuðum Evrópu og Afríku.
Í Evrópu ríkti mikil upplausn á árunum eftir aldamótin 1200. Stórir hópar af uppflosnuðum fátæklingum fóru um lönd og talið er að 1212 hafi tala fátæklinga í þessum hópum skipt þúsundum.
Elsta heimild um þessa hópa er skrifuð um 1240 og í henni er getið um "pueri" sem þýðir á latínu drengur. Þetta orð var tekið sem það þýddi börn þótt á 13. öld væri alsiða að kalla sveitastráka þessu nafni. Þetta gaf seinni tíma höfundum ástæðuna til að kalla þessa fjölda uppflosnun fátæklinga barnakrossferð.
Þá voru krossfarar á þeim tímum almennt ekki kallaðir krossfarar heldur voru þeir kallaðir menn sem "tekið höfðu krossinn". Þeir sem báru veifur eða krossa voru stundum kenndir við krossferðirnar þótt þeir hefðu ekkert með þær að gera. Samhljóma niðurstaða seinni tíma söguskoðenda er að þessar "barnakrossferðir" hafi ekki verið farnar og séu að mestu þjóðsaga þótt einhver flugufótur geti verið fyrir tilvist drengjanna Nikkulásar og Stefáns.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2008 | 01:33
Mic Mac Indjánar
Fyrir allt of löngu síðan dvaldist ég um hríð meðal Mic Mac Indíána á sérlendu þeirra í Eskasoni í norðaustur hluta Nova Skotia Kanada. Ég rifjaði þessa dvöl upp í huganum þegar ég sá í fréttum að ríkisstjórnin í Kanada hefði beðið Indíánaþjóðirnar þar í landi (þ.e. þær sem eftir eru) afsökunar á yfirgangi og óréttlátu framferði yfirvalda gagnvart þeim.
Mic Mac Indíánar eru forn þjóð sem hefur átt sér aðsetur í Nova Scotia og meðfram ströndum norður Kanada síðan "manneskjan var sköpuð" eins arfsögn þeirra segir. Þeir eru sagðir hafa fundið upp Íshokkí sem þeir segja sama leikinn og ísknattleik norrænna manna til forna. Segja þeir leikinn svo svipaðan að norrænir menn (Íslendingar) hljóti að hafa lært hann af Mic Mac indíánum á ferðum sínum vestur um haf fyrr á öldum. Það verður að segjast að rökin fyrir þessu, sem er að finna á tenglinum hér á síðunni merktur "Knattleikur" helg íþrótt, eru afar sannfærandi.
Í Eskasoni dvaldist ég hjá þáverandi höfðingja sérlendunnar og var hann eini Mic Mac Indíáninn sem vitað var um að hefði náð að mennta sig að ráði og hafði hann náð í mastersgráðu frá háskóla í Halifax. Á sérlendunni bjuggu um 1500 manns og voru þeir flestir illa haldnir af alkóhólisma og öðrum kvillum sem þeirri sýki getur fylgt. Ég man að fyrstu dagana sá ég aldrei edrú mann eða konu á götum bæjarins. Allir nema höfðinginn og kona hans voru á stöðugu fylliríi. - Höfðinginn sagði mér að allir væru á bótum frá ríkinu og allar bætur færu í að kaupa bjór. Börn og unglingar voru ekki undantekningar og allir reyktu.
Þegar ég hafði dvalist í rétt rúma viku meðal Mic Maccanna bárust mér þær fréttir frá Íslandi að faðir minn hefði látist á sjúkrabeði. Ég sagði konu höfðingjans fréttirnar sem ekki beið boðanna en hóf að elda súpu mikla í stórum potti. Ekki leið á löngu fyrr en fólk fór að drífa að. Ég hef ekki hugmynd um hvernig fréttirnar af láti föður míns bárust svona fljótt út á meðal fólksins, en það var allt komið til að sýna mér samúð sína og dveljast með mér í smá tíma. Stofa höfðingjahjónanna var stór og þegar best lét voru rúmlega 50 manns að sötra súpu á milli þess sem þau fullvissuðu mig um að faðir minn væri nú á betri stað í andaheimum þar sem ég mundi hitta hann þegar sá tími kæmi. Næstu þrjá daga hélt þessu fram frá hádegi og fram á kvöld. Ég er viss um að meira en helmingur þorpsbúa kom að heimsækja mig á þeim tíma. Og það ótrúlega var að það sást ekki vín á nokkrum manni.
Saga Indíána norður Ameríku eftir landnám hvíta mannsins er þyrnum stráð. Ég ætla ekki að tíunda hana hér enda hvorki efni né aðstæður til. En ég get ekki annað en fyllst samúð með málstað þeirra þegar þeir reyna að skýra hversvegna svo margir þeirra hafa ekki náð að samlaga sig háttum hvíta mannsins og látið menningu sína og mannlega reisn í skiptum fyrir deyfilyfið góða alkóhól.