Færsluflokkur: Ferðalög
19.3.2009 | 11:16
Vor í lofti og Íslendingar á sigurbraut segir Dr. Phil
Vorið er komið og grundirnar gróa, alla vega hér í Bath á Englandi. Síðustu tveir dagar hafa fært mér sanninn heim um að vorið sé komið fyrir alvöru. Það er yfir 18 stiga hiti og rjóma blíða, gróðurinn óðum að taka á sig lit eins og mannlífið.
Kaffihúsin eru búin að setja stóla og borð út á stéttar, dagblöðin liggja hreyfingarlaus á borðunum og smáfuglar tísta í trjánum eins og þeir hafi eitthvað mikilvægt að segja. Ungmennin sitja í hópum á graseyjunum út um alla borg og eldra fólk stansar lengur við til að spjalla á götuhornunum. Þetta er skemmtilegur tími.
Ég er byrjaður að ræða aftur við Dr. Phil um handboltann. Hann er góðkunningi lesenda minna frá því á ólympíuleikunum í fyrrasumar. Hann sagði mér í fyrradag að Íslendingar mundu vinna landa Alexanders mikla. Það gekk eftir. Á Laugardaginn ætlar hann að spá fyrir um leikinn við Eistlendinga. Hann var með allt á hreinu í spám sínum um gengi íslenska liðsins á ólympíuleikunum, þannig að ég bind miklar vonir við spádómshæfileika hans.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.2.2009 | 22:46
Gotham
Í Suður-Nottingham-skýri á mið Englandi er að finna lítið þorp. Í því eru fimm krár, ein kjötbúð, ein sjoppa sem verslar með sígarettur og dagblöð, fisk og flögu búð, kirkja, bókasafn og nokkur íbúðarhús.
Hvaða samband gæti verið á milli þessa hversdagslega og að mestu ókunna þorps og einnar skuggalegustu stórborgar sem mannshugurinn hefur skapað? Svarið felst í nafninu; GOTHAM.
Fyrirmynd Gotham-borgar, þar sem geðveiku illmennin; Gátumeistarinn, Jókerinn og Mörgæsamanni etja kappi við Leðurblökumanninn, var upprunalega New York.
Bill Finger höfundur og skapari Batman hasarhetjunnar vildi ekki nota eiginlegt nafn neinar borgar og hugleiddi um sinn að kalla borgina annað hvort Civic City, Capital City eða Coast City. Þegar hann rakst á auglýsingu í símskrá New York borgar frá skartgripasala sem kallaði verslun sína 'Gotham Jewelers' ákvað hann að Gotham skyldi verða heiti borgarinnar. Það nafn rímar ágætlega við uppruna þeirra sem grundvölluðu borgina, en það voru samkvæmt sögunni, Norðmenn.
Nafn skargripasalans á versluninni er fengin úr Salmangundi papers (útg. 1807), bók eftir bandaríska sagnfræðinginn; Irving Washington. Washington var vel fróður um sögu Bretlands og kallar Manhattan oft "hina fornu borg Gotham eða hina undur-elskandi borg, Gotham."
En hvað var það sem fékk Washington til að nefna New York þessu nafni. Þrátt fyrir að Gotham á Englandi sé ekki stórt þorp, er það samt þekkt af endemum í sögu landsins. Þorpið er nefnilega sagt heimkynni kjána eða jafnvel brjálæðinga eins og sagðir eru búa í Gotham-borg.
Sögur af íbúunum sem raka mánann, velta ostum á undan sér og fara á sjó í tréskálum, hafa loðað við þorpið frá því snemma á þrettándu öld. Það er haft fyrir satt að Jón konungur af Englandi, sá sami og Hrói nokkur Höttur eldaði grátt silfur við, eigi þátt í því að íbúar Gotham hafa um aldir verið taldir tunglsjúkir kjánar.
Árið 1540 var gefin út bæklingur sem seldur var af farandsölum vítt og breytt um England og kallaður var á frummálinu 'The Merry Tales of the Mad Men of Gotham'.
Í ritinu var að finna smásögur og skrýtlur af íbúum Gotham sem minna okkur Íslendinga hvað helst á heimskupör Bakkabræðra.
Í einni þeirra; "Sagan af góða húsbóndanum" segir frá manni sem vildi hlífa hesti sínum við byrðunum með því að sitja sjálfur hestinn og hafa kornsekkinn á eigin herðum.
Önnur segir frá "Gaukshreiðrinu í Gotham". Í henni ákváðu þorpsbúar að byggja vegg utan um tré sem gaukur hafði gert sér hreiður í með það fyrir augum að halda gauknum í þorpinu. Þegar að gaukurinn flaug af hreiðrinu, beint upp í loftið og slapp þar með, skömmuðu þorpsbúar hvern annan fyrir að hafa ekki hlaðið garðinn nægilega háan.
Sagan af "Drekkingu álsins" segir frá því þegar íbúarnir gerðu sitt besta til að drekkja ál í lækjarsprænu, vegna þess að þeir voru sannfærðir um að állinn væri að éta fyrir þeim allan fiskinn.
Til auka á háðið var seinna farið að kalla mannfólkið í Gotham "vitra" fólkið frekar en "galna" fólkið eða eins og segir í vísunni, hér í lauslegri þýðingu;
Þrír vitrir menn frá Gotham,
fóru á sjó í skál,
ef skálin hefði verið sterkari,
væri saga þeirra lengri og merkari.
Frægasta af öllum sögum um íbúa Gotham er sagan af því hvernig þeir fengu á sig orð fyrir að vera heimskir og komum við þar að hlut Jóns Konungs, hálfbróður Ríkharðs Ljónshjarta.
Jón reið keikur um héruð með riddurum sínum og fór sínu fram hvar hann vildi. Hver sú leið sem hann valdi varð um leið og hann hafði farið hana alfaraleið og þjóðvegur.
Þegar hann tók stefnuna á Gotham sáu þorpsbúar í hendi sér að þeim yrði gert skylt að halda við slóðanum sem kóngur reið og gera hann að þjóðvegi. Það vildu þeir ekki, enda bæði dýrt og mannfrekt.
Þeir tóku því til ráðs að þykjast allir tunglsúkir (geðveikir) og kepptust við að mála græn epli rauð og ausa vatni í botnlausa tunnu, þegar að framverðir konungs riðu inn í þorpið.
Á tólftu öld var trú manna að slík sýki væri smitandi og þess vegna ákvað konungur þegar hann heyrði af háttarlagi þorpsbúa að halda í aðra átt og að lokum var þjóðvegurinn lagður í löngum sveig í kringum þorpið.
Ferðalög | Breytt 15.2.2009 kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.1.2009 | 01:12
Ótrúlega Ísland - The home of the shitballs
Undur Íslands, fólkið og náttúran, eru sannarlega mörg og ég þreytist ekki á því að tíunda það fyrir þeim sem á vilja hlusta. Ég sé það oft á augnagotum fólks sín á milli að það á erfitt með að trúa ýmsu, sem ég hef að segja, en samt er síður enn svo að ég ýki. Þess er hreinlega ekki þörf. Sannleikurinn hreinn og beinn er ótrúlegri en nokkur skáldskapur, eða það finnst þeim.
Það er svo sem ekkert nýtt að útlendingar furði sig á þeim fjölmörgu náttúrundrum sem er að finna á Íslandi. Þegar ég kom inn í hið heimsfræga furðusafn Ripleys (Ripley´s belIeve it or not museum) í Flórída fyri mörgum árum, blasti við mér í anddyrinu risastór teikning af Hérðaskólanum á Laugarvatni.
Í texta undir myndinni var fullyrt að þetta væri fyrsta hús í heimi sem byggt hefði verið og ráð fyrir því gert að hita það upp með jarðvarma einum saman. Ripley sem kom til Íslands á fyrri hluta síðustu aldar og teiknaði húsið, fannst mikið koma til fyrirbæris sem er okkur heimafólki ósköp venjulegt og margir útlendingar vita núorðið um.
Í hinum upplýsta internets-heimi sem við lifum í, þar sem öll þekking er við fingurgómana og googlið er véfréttin mikla, eru samt fáir sem vita af fyrirbærinu sem við köllum hér á Íslandi Kúluskít.
Í stórum hópi kunningja í kvöld minntist ég á þetta náttúruundur sem aðeins finnst í tveimur vötnum í heiminum, Mývatni og japanska vatninu Akan á Hokkao eyju. Allir viðstaddir drógu í efa að þetta væri satt. Kúlulaga skítur sem vex í breiðum???
Kannski var það íslenska nafnið sem gerði þetta svona tortryggilegt, (á ensku ball-shit eða shitball) enda líkt öðru sem þýðir bull (bullshit).
Nú vill svo til að það er til frábær netsíða á íslensku um kúluskít og með að sýna hana náði ég loks að sannfæra liðið. Svo var japanska nafnið auðvitað Googlað. Þeir sem ekki hafa séð kúluskít eða vilja fræðast um fyrirbærið geta nálgast þessa netsíðu hér.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.1.2009 | 14:00
Bölbænir í Bath
Ég átti erindi fyrir stuttu inn á stofnun þá er sinnir upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn hér í borg (BATH) en hún er staðsett við hliðina á þeim stað sem mest aðdráttaraflið hefur, rómversku baðlindinni. Erindið var að fá að hengja upp auglýsingu um dagskrá listamiðstöðvar sem ég tengist lítilsháttar. Það var í sjálfu sér auðsótt mál því stór og mikil auglýsingatafla blasti þarna við öllum en það þurfti samt að borga fyrir að fá að hengja auglýsinguna upp á hana. Og eftir því sem sem þú vildir að hún væri lengur uppi, því meira kostaði það.
Í gærkveldi minntist ég á þetta við vinkonu mína sem er fornleyfafræðingur og hefur átt þátt í mörgum merkum fundum á svæðinu síðast liðin 20 ár. Hún sagði mér að upplýsingaþjónustan stæði á nákvæmlega sama stað og rómverskt musteri hafði staðið á fyrir rúmum 2000 árum. Í musterinu hafði verið starfrækt einskonar ferðamannaþjónusta þeirra tíma. Í nótt gluggaði ég svo í bækur um rómversku byggðina í Bath og rak þá augun í mynd af blýtöflu sem á var letruð bölbæn. Bölbænin hófst svona; Ég bölva Tretiu Mariu, lífi hennar, huga og minni" og endaði á; "Þannig mun hún ekki geta talað um þá hluti sem nú eru leyndir".
Skýringin á bölbænatöflunni var sú að mikil helgi var höfð á heitu vatnsuppsprettunni í Bath meðal fornmanna og hafði fólk komið víðs vegar að frá Bretlandi og Frakklandi til að baða sig í henni og taka vatnið inn við ýmsum kvillum. Jafnframt var vatnið talið svo kynngimagnað og í umræddu musteri var hægt að fá útbúnar áletraðar bölbænir á blýtöflur sem síðan voru hengdar upp í musterinu fyrir gjald. Eftir því sem taflan hékk lengur uppi, því meira var gjaldið.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2009 | 10:38
Saga af fíl og ungum dreng
Daníel Harper ólst upp í Suður Afríku. Hann ferðaðist víða um Afríkulönd með föður sínum sem var mikill áhugamaður um fiðrildi og safnaði þeim. Dag einn þegar Daníel var 11 ára var hann staddur við fljót í Rhodesíu þar sem nú heitir Zimbabwe. Þar sem hann gekk fram á fílskálf sem orðið hafði viðskila við hjörð sína. Kálfurinn var illa haldin þar sem hann lá út af við fljótið, því út úr hægri fæti hans stóð nokkuð stór tréflís.
Daníel tók vasahnífinn sinn og hóf að grafa flísina út úr fæti fílsins sem greinilega hafði setið þarna nokkurn tíma. Fílskálfurinn var greinilega of máttfarinn til að veita neina mótspyrnu, alla vega bærði hann varla á sér. Loks tóks Daniel að losa flísina og hreynsa sárið að mestu.
Þegar að Daníel hafði gert það sem hann gat settist hann niður við hlið kálfsins sem mændi á hann nokkra stund þar sem hann lá en lokaði svo augunum eins og hann vildi sofna.
Daginn eftir þegar Daníel vitjaði fílsins var hann horfinn.
Þegar Daníel Harper varð fullorðinn gerðist hann blaðaljósmyndari. Hann ferðaðist víða um lönd og tók myndir á átakasvæðum heimsins og komst oft í hann krappann. Þrítugur varð hann fyrir byssukúlu sem laskaði á honum hægri fótinn. Daníel náði sér að fullu en ákvað eftir það að taka sér frí og ferðaðist þá til Chicagoborgar í Bandaríkjunum.
Þar heimsótti hann hinn stóra og vinsæla dýragarð borgarinnar. Þegar hann kom að gerðinu þar sem fílarnir voru geymdir, tók einn þeirra strax á rás í áttina til hans. Þetta var fullorðin karlfíll sem lyfti rananum á hlaupunum og orgaði hátt. Þegar hann kom að sterklegu grindverkinu hóf hann að stappa niður hægri fæti og áfram gengu drunurnar út um ranann.
Daníel horfði á fílinn og hugsaði með sér hvort það gæti verið að þarna væri kominn fílskálfurinn sem hann hafði hjálpað fyrir næstum tuttugu árum áður inn í myrkviðum Afríku. Fíllinn hélt áfram að stappa niður hægri fæti, mæna á hann og baula eins og hann vildi segja honum eitthvað. Því lengur sem Daníel hugsaði um atvikið því sannfærðari varð hann. -
Að lokum stóðst Daníel ekki lengur mátið og tók undir sig stökk. Í einu vetfangi var hann kominn yfir girðinguna og nálgaðist nú fílinn alls óhræddur. Um leið og hann lenti hætti fíllin að öskra en teygði upp ranann eins og hann væri að heilsa gömlum vini. Daníel gekk að honum og fíllinn vafði rananum um mitti hans, hóf hann á loft og lamdi honum margsinnis af heljar-afli utan í grindverkið.
Í dag er uppáhalds fæða Daníels rauðrófusafi sem hann drekkur í gegnum sogrör á sjúkrahúsinu þar sem hann er vistaður.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.1.2009 | 11:23
Víngarður Guðs í Ísrael
Í norður Ísrael teygir sig eftir ströndinni fjallgarður sem nefndur er Karmelfjall. Í norðurhlíðum þess rís borgin Haífa sem er þriðja stærsta borg Ísraelríkis. Borgin er oft sögð sú dýrasta í Ísrael þar sem margir af auðugustu borgurum landsins búa í henni. Eða eins og leigubílstjórinn sem ók mér eitt sinn frá Tel Aviv til Haifa orðaði það; "Borgin er ein af Pé-borgunum. Í Jerúsalem biður þú (Pray), í Tel Aviv leikur þú þér (Play) en í Haifa borgar þú (pay)."
Í Haífa búa bæði Arabar og Gyðingar eða um 270.000 manns og henni hafa ráðið yfir tíðina fyrir utan Gyðinga og forfeður þeirra, Byzantíumveldið, Arabar,Krossfarar, Ottómansveldið, Egyptar og Bretar.
Fjallgarðurinn sem er um 40 km langur er ekki ýkja hár eða rúmlega fimm hundruð metrar þar sem hann er hæstur. Víða við rætur fjallsins hafa fundist minjar um forn þorp og í þeim leifar af frumstæðum þrúgupressum. Heiti fjallsins Karmel þýðir reyndar á hebresku "Víngarður Guðs".
Í fjallinu eru margir hellar sem einnig bera þess merki að hafa verið notaðir í langan tíma sem íverustaðir manna og húsdýra.
Reyndar fullyrða fornleyfafræðingar að á fjallinu sé að finna mannvistarleifar sem beri vitni um að þar hafi verið elsta og lengsta samfellda byggð manna í heiminum.
Árið 1931 fann Prófessor Dorothy Annie Elizabeth Garrod bein Neanderdals-konu sem nefnd var Tabun I og er talin meðal merkustu fornleyfafunda á síðustu öld. Bein hennar þóttu sanna að Neanderdals-menn og nútímamaðurinn hafi búið samtímis á sama stað um nokkur þúsund ára bil. Elstu minjarnar í fjallinu eru taldar allt að 600.000 ára gamlar.
Fjallinu tengjast fjölmargir sögulegir atburðir og trúarlegt mikilvægi þess er slíkt að haft er eftir sjálfum Pýþagórusi að "fjallið sé helgast allra fjalla og mörgum sé að því meinaður aðgangur."
Samkvæmt annarri Konungabók Gamla Testamentisins átti Elísa (hinn sköllótti) að hafa hraðað sér til Karmelfjalls eftir að hann hafði valdið dauða 42 ungra drengja sem gert höfðu grín að hárleysi hans.
Margar heimildir geta þess að fjallið hafi í aldanna rás verið vinsæll felustaður fyrir flóttamenn, einsetumenn og trúarhópa sem sóttust eftir einangrun. Eru í því sambandi nefndir bæði Essenar og Nazarear (ekki samt hinir frumkristnu).
Í Gyðingdómi, Kristni og Íslam er spámaðurinn Elía sagður hafa haft aðsetur í helli á fjallinu. Þótt ekkert sé að finna í helgiritunum sjálfum um hvar sá hellir er nákvæmlega staðsettur, hefur honum verð fundin staður sem er kyrfilega merktur í dag og kallaður hellir Elía. (Sjá mynd)
Elía á að hafa reist Guði altari og árið 1958 fannst á þessum slóðum einskonar altari sem núna er kallað altari Elía þar sem Guð brenndi upp til agna fórn Elía og sannaði þannig fyrir 450 Baal dýrkendum að Guð hans væri máttugri en þeirra. Íslamískar hefðir staðsetja þennan stað þar sem heitir El-Maharrakah sem þýðir brennan.
Á tólftu öld var stofnuð á fjallinu kaþólsk trúarregla sem nefndi sig Karmelíta. Sofnandi hennar sem nefndur er Berthold var annað hvort pílagrímur eða krossfari og lést árið 1185. Reglan var stofnuð á þeim stað þar sem hellir Elía var sagður vera og er staðsettur (kannski ekki fyrir tilviljun) þar sem hæst ber og best er útsýnið yfir fjallið og nærliggjandi héruð.
Í arfsögnum Karmelíta er getið um einsetumenn sem voru Gyðingar og hafi búið á fjallinu frá tímum Elísa og Elía. Í stofnskrá reglunnar sem er dagsett 1281 er talað um "presta og spámenn, Gyðinga og Kristna sem lifðu lofsamlegu lífi í heilagri afneitun við lind Elísa."
Skömmu eftir stofnun reglunnar var sett á fót klaustur á fjallinu og það helgað Maríu Kristsmóður í ímynd stella maris eða "hafstjörnunnar". Klaustrið var byggt á þeim stað sem áður er getið og kallað El-Maharrakah af múslímum.
Á meðan krossferðunum stóð skipti byggingin oft um hæstráðendur og varð að mosku þegar múslímar réðu, en klaustri eða kirkju þegar kristnir menn réðu henni. Árið 1799 var henni breytt í sjúkrahús fyrir laskaða hermenn úr röðum hers Napóleons sem reyndi að leggja undir sig svæðið. Hún var að lokum jöfnuð við jörðu 1821 af landstjóra Ottómans-veldissins í Damaskus.
Karmelítareglan safnaði fyrir nýrri byggingu og reisti hana við hellinn sem nú er þekktur sem Hellir Elía.
Árið 1861 voru stofnuð í Þýskalandi samtök sem tóku sér nafnið Tempelgesellschaft. Meðlimir þeirra voru kallaðir Templarar og samkvæmt kenningum forkólfanna Christoph Hoffman og Georg David Hardegg var æðsta þrá þeirra að þjóna konungsríki Guðs á Jörðu. Þeir álitu Krist ekki vera eiginlegan son Guðs en miklu frekar fyrirmynd. Þeir voru sannfærðir að endurkoma Krists væri í nánd og drógu þær ályktanir eftir vísbendingum og spádómum Biblíunnar að hann mundi birtast á eða í námunda við Karmelfjall.
1886 kom til Haifa allstór hópur þýskra Templara og settist þar í einskonar nýlendu. Enn má sjá hús þeirra og við Ben Gurion breiðstræti í Haífa þar sem þau standa með sín rauðu þök og byggð úr steini samkvæmt Evrópskri byggingarhefð. Yfir gluggum og dyrum margra þeirra eru yfirskriftir á þýsku; Þ.á.m. "Herrann er nálægur".
Templararnir reyndu að breiða úr sér í Landinu Helga og stofnuðu nýlendur við Jaffa og í Jerúsalem. Eftir að heimstyrjöldin síðari skall á voru Templararnir allir reknir úr landi eða fluttir til Ástralíu af Bretum sem þá réðu Palestínu. Árið 1962 greiddu Ísraelstjórn þeim 54 miljónir þýskra marka í skaðabætur fyrir þær eignir og landsvæði sem höfðu áður tilheyrt þeim og nú voru þjóðnýttar.
Í fyrri heimstyrjöldinni var háð orrusta í hlíðum Karmelfjalls sem átti eftir að skipta sköpum í stríðinu. Hún er nefnd "Orrustan við Megiddo" en þar áttust við Bretar undir stjórn Allenby Hershöfðingja og hermenn Ottómans veldisins sem ráðið höfðu landsvæðinu í nokkrar aldir.
Jezreel dalurinnsem gengur inn í fjallið þar sem orrustan var háð, hafði oft áður verið vettvangur átaka og frægust þeirra var upprunalega Megiddo orrustan sem var háð milli herja Egypta og Kananíta á 15. öld fyrir Krist. Þá hafði einnig herjum Júdeu og Egyptum lostið þarna saman árið 609 FK.
Dalurinn er einnig sagður í Opinberunarbókinni vera sá staður þar sem herir "dýrsins" safnast saman fyrir orrustuna sem nefnd er Armageddon.
Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar er einnig staðsett á Karmelfjalli. Kemur það til af sögulegum ástæðum. Heimsmiðstöðin bæði stjórnfarsleg og andleg miðstöð bahá'í heimsins og einnig eru tveir helgustu staðir bahá'í trúarinnar, grafhýsi Bábsins og Bahá'u'lláh, staðsettir í grenndinni. Í heimsmiðstöð bahá'ía starfa að jafnaði um 700 sjálfboðaliðar á hverjum tíma sem allir koma víðsvegar að úr heiminum.
Í stuttu máli eru sögulegu forsendurnar fyrir veru heimsmiðstöðvarinnar á Karmelfjalli þessar;

Skjótar og villimannlegar ofsóknir, sem voru runnar undan rifjum hinnar valdamiklu múslimsku klerkastéttar, fylgdu í kjölfar þessarar yfirlýsingar. Bábinn var handtekinn, húðstrýktur, fangelsaður og loks tekinn af lífi 9. júlí árið 1850 á almenningstorgi í Tabrízborg. Um það bil 20.000 fylgjendur hans týndu lífinu í hverju blóðbaðinu á fætur öðru um alla Persíu.
Líkamsleifar Bábsins voru jarðsettar í hlíðum Karmelfjalls samkvæmt fyrirskipunum Baháulláh, Helgidómurinn er umlukinn fallegum görðum og þaðan sér út á Haífaflóann.
Baháulláh var fæddur árið 1817 inn í aðalsfjölskyldu í Persíu. Fjölskylda hans gat rakið ættir sínar aftur til konunga frá stórveldistímum Persíu. Hún var mjög auðug og átti miklar eignir. Baháulláh var þess vegna boðin staða við hirðina, en hann hafnaði henni. Hann varð kunnur fyrir örlæti sitt og manngæsku, sem ávann honum mikillar hylli meðal landsmanna sinna.
Baháulláh glataði fljótlega þessari forréttindastöðu, eftir að hann lýsti yfir stuðningi sínum við boðskap Bábsins. Baháulláh lenti inn í holskeflu ofbeldis, sem hvolfdist yfir Bábíana eftir aftöku Bábsins. Hann missti ekki einungis öll sín veraldlegu auðæfi, heldur var hann fangelsaður, pyntaður og rekinn í útlegð hvað eftir annað. Hann var fyrst gerður útlægur til Bagdad, þar sem hann lýsti því yfir, árið 1863, að hann væri hinn fyrirheitni sem Bábinn hafði gefið fyrirheit um. Frá Bagdað var Baháulláh sendur til Konstantínópel, til Adríanópel og að lokum til Akká í Landinu helga, en þangað kom hann sem fangi árið 1868.
Frá Adríanópel, og síðar frá Akká, skrifaði Baháulláh fjöld bréfa til þjóðhöfðingja heimsins á þeim tíma. Þessi bréf eru meðal merkustu heimilda í trúarbragðasögunni. Í þeim er kunngert að eining mannkyns muni komast á innan tíðar og alheimssiðmenning líta dagsins ljós.
Konungar, keisarar og forsetar nítjándu aldar voru kvaddir saman til að jafna ágreiningsmál sín, minnka vopnabúnað sinn og helga krafta sína málefnum alheimsfriðar.
Baháulláh andaðist í Bahjí, rétt fyrir norðan Akká og við rætur Karmelfjalls og er grafinn þar. Kenningar hans höfðu þá þegar breiðst út fyrir Mið-Austurlönd og helgidómur hans er núna miðdepill þess heimssamfélags sem þessar kenningar hafa fætt af sér.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 05:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.12.2008 | 20:39
Góðar húsreglur
Ég var nýlega á ferð um Cornwall og borðaði hádegismat á krá sem hefur verið starfrækt óslitið frá því snemma á átjándu öld.
Kráin stendur í þorpinu Portloe og er nú úr alfaraleið en var áður samkomustaður smyglara, vegamanna og sjó og námumanna þar um slóðir í 300 ár eða meir.
Á skilti í anddyrinu voru letraðar húsreglur krárinnar sem voru dagsettar árið 1786 og hljóðuðu svona;
Enga þjófa, fakíra, rudda eða farandsala.
Enga skuggalega skálka og iðjuleysingja eða flóbitna flækinga.
Bannað er að skella á rass kvenna eða kitla þær. Bannað er að slá krepptum hnefa á borðin eða skella niður á þau könnum.
Engir hundar eru leyfðir í eldhúsinu né hanaat hvar sem er í húsakynnunum.
Byssuhólka, framhlaðninga, kylfur, rýtinga og sverð skal afhenda gestgjafa til varðveislu á meðan að dvöl eigenda þeirra á kránni stendur.
Rúm yfir nótt 1. Skildingur
Hirðing og hýsing hests 4. Pence.
Ferðalög | Breytt 1.1.2009 kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.11.2008 | 20:41
Svindl, svik og prettir
Hann varð frægur fyrir svindl sín og pretti á fyrrihluta síðustu aldar og vann sér m.a. til sinnar vafasömu "frægðar" að selja Eiffel turninn í París og svindla talverða upphæð út úr einum þekktasta glæpamanni allra tíma; Al Capone.
Victor Lustig var fæddur í Bóhemíu 1890. Það fer fáum sögum af uppvexti hans eða æskuárum. Honum skýtur upp í mið-Evrópu skömmu eftir heimstyrjöldina síðari, að því er virðist þegar fullharðnaður glæpamaður.
Fyrsta svindl Lustigs var svo kölluð "peninga-prentvél." Hún minnir um margt á viðskiptahætti íslenskra banka í seinni tíð. Vélin sem Lustig seldi venjulega fyrir 30.000 dollara, stórfé á þeim tíma, var svartur kassi. Þegar hann sýndi kassann, kvartaði hann mikið yfir því hversu hæggeng vélin væri því það tæki hana sex tíma að prenta einn hundrað dollara seðil. Það virtist ekki letja gráðuga viðskiptavini Lustigs sem eftir að hafa keypt vélina horfðu á hana spýta úr sér tveimur hundrað dollara seðlum yfir næstu tólf tímana. En eftir það komu úr henni aðeins auðir pappírssneplar. Þegar að kaupendur vélarinnar gerðu sér loks grein fyrir að þeir höfðu verið illilega gabbaðir, var Lustig auðvitað hvergi að finna.
Á árunum eftir heimstyrjöldina fyrri, voru miklir uppgangstímar í Frakklandi. Dag einn árið 1925, las Lustig blaðagrein um hversu erfitt það væri fyrir yfirvöld að standa straum af viðhaldi Eiffel turnsins. Turninn hafði ekki verið málaður nýlega og leit afar illa út. Hjá Lustig fæddist hugmynd sem hann hrinti fljótlega í framkvæmd.
Hann lét útbúa fyrir sig bréfsefni með haus ríkisins og sendi síðan eigendum sex járn og stál endurvinnslu fyrirtækjum boð um að hitta sig á tilteknum tíma á einu flottasta hóteli París borgar Hotel de Crillon. Lustig kynnti sig fyrir þeim sem skrifstofustjóra póst og fjarskipta ráðuneytisins. Hann sagði hinum sex virtu fyrirtækjaeigendum að þeir hefðu verið valdir til að bjóða í ákveðið verkefni á vegum stjórnvalda, vegna þess hve gott orð fór af þeim og starfsemi þeirra. Að svo mæltu hóf Lustig að skýra hversu erfitt væri fyrir yfirvöld að standa straum af viðhaldi Eiffel turnsins og nú væri svo komið að ákveðið hafi verið að rífa turninn og selja efnið í brotajárn. Það yrði að ganga að þessu fljótt og snurðulaust því annars mundi almenningur e.t.v. reyna að koma í veg fyrir verkið og þess vegna væri líka nauðsynlegt að halda málinu leyndu. Lustig sagði að sér hefði verið falin umsjá verkefnisins og að finna fyrirtæki sem gæti unnið verkið.
Árið 1925 var þessi hugmynd kannski ekki eins fjarri raunveruleikanum og hún virðist í dag. Eiffel turninn var reistur í miðborg Parísar árið 1889 fyrir heimssýninguna sem þar var haldin sama ár. Honum var ekki ætlaður varanlegur staður þar sem hann stendur og yfirgnæfir aðrar byggingar og merk minnismerki eins og Sigurbogann og Gotnesku dómkirkjuna. Ætlunin var að taka turninn niður árið 1909 og endurbyggja hann á minna áberandi stað.
Lustig gaf sér góðan tíma til að mæla út hver fyrirtækjaeigendanna væri líklegastur til að bíta á agnið en bað um að tilboðum yrði skilað daginn eftir fundinn. Þá þegar hafði Lustig ákveðið fórnarlambið. Andre Poisson var greinilega þeirra óreyndastur og virtist ekki eiga heima meðal hinna kaupsýslumannanna. Að landa slíkum samningi og nú var í boði mundi lyfta honum upp um nokkur sæti í viðskiptaheiminum.
Þrátt fyrir að eiginkona Poissons hefði ákveðnar efasemdir um hvernig staðið var að útboðinu, náði Lustig að róa hana. Hann fullvissaði Poisson hjónin en frekar þegar hann trúði þeim fyrir því að hann hefði ákveðnar "umfram væntingar" til útboðsins þar sem hann mundi velja það fyrirtæki sem væri til í að umbuna hinum sjálfum fyrir vikið. Poisson var vanur að eiga við lágt setta undirmenn sem auðvelt var að múta til að hagræða verkefnum og því fannst honum Lustig hljóma afar sannfærandi.
Að svo búnu voru Lustig afhentir peningarnir fyrir "brotajárnið" og múturnar að auki. Með peningana í ferðatösku tók hann næstu lest til Vínar ásamt "ritara" sínum Robert Arthur Toubillion (fransk-amerískum svindlara) sem einnig var þekktur undir nafninu Dan Collins.
Þrátt fyrir að vera svona illa svikinn fannst Poisson svo skammarlegt að hann hafði látið blekkja sig, að hann kærði ekki Lustig til lögreglunnar. Mánuði síðar snéri Lustig aftur til Parísar og reyndi sama leikinn aftur við sex aðra kaupsýslumenn. Í þetta sinn þóttist einn þeirra greina óhreint mjöl í pokahorninu og kallaði til lögreglu. Bæði Lustig og Collins tókst samt að komast hjá handtöku.
Það leið ekki á löngu uns Lustig ákvað að reyna fyrir sér í Bandaríkjunum. Hann fékk hinn fræga gangster Al Capone til að fjárfesta 50.000 dollara í verðbréfum. Lustig tók peningana og geymdi þá í bankahólfi í tvo mánuði. Að svo búnu tók hann þá aftur út og afhenti Al Capone þá. Hann sagði viðskiptin hafa farið illa en tekist fyrir harðfylgi að bjarga upphaflegu fjárfestingunni. Al var svo hrærður yfir heiðarleika Lustigs að hann gaf honum 5000 dollara.
Árið 1934 var Lustig handtekinn af bandarísku alríkislögreglunni fyrir peningafals. Degi fyrir réttarhöldin yfir honum flýði hann úr fangelsinu í New York þar sem hann var hýstur. Hann náðist 27 dögum seinna í Pittsburgh. Hann játaði sekt sína fyrir dómi og dæmdur til 20 ára fangelsisvistar í Alcatraz. Eftir 14 ára fangavist fékk hann slæma lungnabólgu og lést af henni í fangelsissjúkrahúsinu 11. Maí 1947.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2008 | 15:14
Bretar á leið til Íslands að versla
Ekki er öll vitleysan eins. Um leið og það fréttist að Hr. Green ætlaði að notfæra sér ástandið sem Hr. Brown (Það er eins og maður sé dottinn inn í kvikmyndina Reservoir Dogs) átti svo stóran þátt í að skapa á landinu bláa og kaupa eitthvað af eignum uppflosnaðra Íslendinga fyrir gengismuninn sem nú er á pundinu og krónunni, hugsa fleiri Bretar sér gott til glóðarinnar.
Sumir þeirra eru þegar komnir til Íslands og spóka sig á Laugarveginum með fulla vasa af krónum sem þeir fengu í skiptum fyrir pundin sín. Þeir geta nú í fyrsta sinn keypt sér bjórglas á lægra verði á Íslandi en heima hjá sér, og þar með hefur ákveðinni fyrirstöðu verið kippt í burtu sem hingað til hefur fælt fjölda Breta frá frá Íslandi. Allur varningur er á mun betri prísum en á drottningarlandinu og það eru þeir ákveðnir í að notfæra sér.
Nú er bara að vona að þetta haldist nokkurn veginn svona fram yfir jól því þá munu Glasgow, Manchester og Lundúnabúar fjölmenna til Íslands til að gera innkaup sín þar og brátt munum við geta greitt Mr. Brown út lausnargjaldið sem hann setti á íslensku fyrirtækin sem hann hefur tekið úi gíslingu hér í Bretlandi.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
13.9.2008 | 23:49
Ár töfrandi hugsunnar
Um þessar mundir fer breska leikkonan Vanessa Regrave um Bretland og sýnir í öllum betri leikhúsum landsins einleikinn The year of Magical thinking (Ár töfrandi hugsunnar). Verkið er eftir Bandaríska blaðkonu sem skrifar um lífsreynslu sína, einkum þá sem tengist andláti eiginmanns síns og dóttur. Verkinu er leikstýrt af David Hare og sem fyrr segir fer Vanessa Redgrave með hlutverk blaðakonunnar Joan Didion.
Hugmyndin var nú ekki að skrifa neina leikrýni hér, en ég var svo heppinn að sjá sýningu þessa í dag í Theatre Royal í Bath.
Vanessa situr á sviðinu og segir sögu sína í réttar 90 mínútur. Mér fannst þessi upplifun eins og að lenda við hliðina á afar ræðinni manneskju í langferðabíl eða flugvél.
Hún byrjar að kynna fyrir þér ytri umgjörð lífs síns en brátt ertu komin á kaf í allt það sem að baki býr. Lífið,gleðin ástin, dauðinn,sorgin, allt það sem máli skiptir í lífshlaupi allra. - Sviðsetning þessa verks ber þess auðvitað merki að vera unnin upp úr bók, ævisögu Joan Didion. En viðvera og nálægðin við Vanessu er svo sterk að þú finnur ekki fyrir monologískum textanum sem rennur upp úr leikkonunni eins og ferskt sætt vatn úr lind.
Hrærandi reynsla sem ég vildi óska sem flestum að upplifa.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)