Færsluflokkur: Lífstíll
3.9.2009 | 17:17
Heimssál blaðamanna og fyrirsætan sem notar föt númer 14
Það er ekki á hverju degi sem fyrirsætur komast í heimspressuna fyrir það eitt að líta ekki út eins og flestar fyrirsætur gera. En það gerði Lizzie Miller, tvítug bandarísk stelpa sem sat fyrir í nýjasta tölublaði tímaritsins Glamour. Hún notar víst talsvert stærri númer en aðrar fyrirsætur gera, en hver sér það á myndum eins og þessari sem príðir forsíðu þessa bandaríska tímarits.
Það sem mér finnst mest áhugavert við þessa frétt er að hún skuli vera frétt sem birtist í öllum helstu fjölmiðlum heimsins. Það er eins og að Lizzie hafi snert við einhverju í heimssál blaðamanna og fjölmiðlafólks sem segir þeim að það séu fréttir, ekki bara til næsta bæjar, heldur tíðindi sem heimsbyggðin má ekki missa af, að stúlka sitji fyrir hjá tímariti sem hefur maga, læri og brjóst eins og flestar jafnöldrur hennar.
Sagan segir að tímaritið hafi fengið óvenju mikil viðbrögð við þessari myndbirtingu. Konur víðs vegar um Bandaríkin segjast hafa "gert sér grein fyrir að það væru til aðrar konur sem litu út eins og þær."
Það gefur sterklega til kynna að búið sé að koma þeirri firru kyrfilega fyrir í bandarískum konum að flestar konur líti út eins og myndirnar af súpermódelunum þar sem hver punktur hefur verið fótósjoppaður.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.8.2009 | 15:25
Sláðu blettinn til að losna við streituna
Það er fátt sem lyktar betur en nýslegið gras. Um þetta getur fjöldi Íslendinga vitnað, ekki hvað síst þeir sem alist hafa upp í sveitum landsins. Borgarbúar vita þetta líka því jafnvel þótt sumir heykist á því um stund að slá blettinn, líður þeim alltaf betur eftir að verkinu er lokið.
Hamingjan er heyskapur
Nýjar rannsóknir benda til þess að heyskapur og blettasláttur geti hamlað streitu. Í ljós hefur komið að efni sem losnar þegar gras er slegið gerir fólk glaðara og hægir á elliglöpum. Vísindamennirnir sem stóðu að þessum rannsóknum segja að efnið virki beint á heilann og hafi einkum áhrif á minnis og tilfinningastöðvar hans staðsettar á svæðum sem nefnd hafa verið Amygdala og Hippocampus.
Eftir sjö ára rannsóknir hefur tekist að búa til ilmvatn sem lyktar eins og nýsleginn blettur og verður sett á markaðinn fljótlega undir nafninu eau de mow.
Frekari upplýsingar um þessa "nýju" uppgötvun hér.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.8.2009 | 23:13
Tannburstaskeggið í miðnefsgrófinni
Frægasta og jafnframt óvinsælasta skegg veraldar er án efa það sem prýddi efri vör Hitlers. Til eru heimildir sem segja að Hitler, sem áður var með langt og endasnúið keisara-yfirvararskegg, hafi þurft að skera það svo hann gæti sett upp gasgrímu, þegar hann barðist í fyrri heimstyrjöldinni.
Tannburstaskeggið, eins og þessi tegund skeggs er jafnan nefnd, sé það ekki af öðrum kostum kennt við Hitler eða Charly Chaplin sem notaði það sem hluta af gervi flækingsins sem hann var svo frægur fyrir að leika, varð afar vinsælt meðal verkamanna í Evrópu upp úr 1920. Það varð einskonar mótvægi við stórkallalegt keisara-skegg yfirstéttanna sem voru vel vaxborin og gátu skagað talvert út fyrir ásjónu viðkomandi.
Chaplin sagðist hafa upphaflega notað tannburstaskeggið vegna þess hversu kómískt það liti út á flækingum og væri auk þess nógu lítið til að andlitsgeiflur hans skiluðu sér á hvíta tjaldinu. Að sjálfsögðu notaði hann einnig skeggið í gervi einvaldsins í kvikmyndinni The Great Dictator sem hann gerði árið 1940.
Í Kína þótti tannburstaskeggið vera einkennandi fyrir japanska karlmenn, einkum í seinni heimstyrjöldinni.
Fáir fást til að bera slíkt skegg í dag, enda kom Hitler á það miklu óorði með því einu að bera það. Sá orðstýr virðist samt ekki aftra einvaldinum Robert Mugabe í Simbabve, því hann ber tannburstaskegg sem skorið er nákvæmlega til að passa ofaní miðnefsgrófina á honum.
Miðnefsgróf er sem sagt lóðrétta dældin í efri vör beint undir miðju nefi á flestum mönnum. Hún var reyndar kölluð "efrivararrenna" í bók um líffæraheiti eftir Jóns Steffensen sem kom út árið 1956. Einhver lagði einnig til að hún yrði kölluð miðsnesisgróf en miðnefsgróf er best að mínu mati.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.8.2009 | 13:33
My daddy's famous
Bretar hafa löngum haft á orð á sér fyrir að vera höfðingjasleikjur og aðals-undirlægjur. Eitthvað virtist aðdáun þeirra og ást á eðalbornum (fyrir utan á konungsfjölskyldunni sjálfri, vitanlega) dvína á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, þegar popp og rokkstjörnur landsins voru sem flestar. Þar áður voru öll blöð voru full af slúðri um lávarða og lafðir.
En nú hefur stigið fram ný kynslóð fyrir almúgann að dýrka, af einskonar eðalbornu lágstéttarfólki.
Í Bretlandi er gefin út fjöldi slúðurblaða sem hafa það eina hlutverk að stela því sem alvörublöð skrifa um kvikmynda, popp og tískustjörnur.
Að auki birta þau myndir af fólki sem langar mikið til að vera frægt og hangir á klúbbunum öll kvöld í von um að verða boðið í partý af einhverjum öðrum vonabí frægum.
Þetta lið hringir sjálft í papparassana til að láta þá vita þegar einhver þriðju-blaðsíðu stelpan eða rokkstrákur í jeggings sem mætt hafa á staðinn gera sig líkleg til að láta sig hverfa, enda áhrifin af kókinu fljót að dvína og óvarlegt að taka áhættuna á því að láta nappa sig á klósettinu við að bæta á sig. Papparassarnir sem sjá um að mynda hyskið á leiðinni út úr klúbbnum og fá svo greitt 150 pund fyrir hverja nothæfa mynd.
Af þessum sökum hefur skapast mikil þörf fyrir fólk sem getur fyllt raðir b,c, og d lista liðsins, sem síðan er notað til að skreyta síður slúðurblaðana. Að verða frægur, sama fyrir hvað, er breski draumurinn.
Hluti af þessu fólki er þekkt undir skammstöfuninni MDF's, sem stendur fyrir; My daddy´s famous. Þeir sem tilheyra hópnum eru eins og skammstöfunin gefur til kynna, börn frægs fólks í Bretlandi.
Krakkarnir hafa í raun ekkert til að bera sjálf þótt þeim sé auðvitað borgað fyrir að reyna sig við ýmsa iðju eins og að koma fram í partýum, stunda sýningarstörf eða dilla sér í diskóbúri og þykjast vera JD.
Það segir sig sjálft að dætur fræga fólsksins eru miklu eftirsóttari en synir þeirra. Stúlkur eins og Kelly Osbourne, dóttir Ozzy Osbourne, Peaches Geldof dóttir Bob Geldof, Lizzie Jagger, dóttir Mick Jagger og Jerry Hall, Kmberly Stewart, dóttir Rod Stewart og Alönu Hamilton sýningarstúlku, Coco Sumner, dóttir Sting, Ploce söngvara og einnig Calum Best sonur knattspyrnugoðsins George Best, eru meðal MDEffanna sem hafa af því talsverðar tekjur að sækja boð og partý snobbaðra plebba sem eiga nógu mikið af peningum til að greiða þeim 5000 pund fyrir að heiðra samkomuna í ca. 10 mín.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2009 | 18:09
Íslenska þjóðin er allra manna gagn
Ef eitthvað er að marka fréttaflutning blaða (og ég tek það fram að mér hefur fundist hann afar misvísandi upp á síðkastið, svo ekki sé meira sagt) fara starfsmenn Straums sem nú er í eigu og umsjá ríkisins fram á miklar (milljarða) bónus greiðslur fyrir að innheimta fyrir fyrirtækið það sem skuldunautar þess skulda því.
(Fjármálaeftirlitið beitti neyðarlögunum á Straum Burðarás þann 9.Mars 2009 til að bjarga tugmilljarða innistæðum sem Íbúðalánsjóður og lífeyrissjóðirnir áttu í bankanum og yfirtók rekstur hans, vegna þessa féllu hlutabréf í félaginu niður um 98,83% þann sama dag í Kauphöll Íslands)
Það verður aldrei sagt um okkur Íslendinga að við kunnum ekki að gera gott úr hlutunum. Þegar ríkið er búið að ausa út peningum til að halda fyrirtækinu á floti, reyna starfsmenn þess að kúga meiri peninga út úr eigendunum með bellibrögðum sem almenningur var að vona að heyrði fortíðinni til. -
Fyrst fólk hefur geð í sér til að setja fram slíkar kröfur eftir allt sem á undan er gengið, trúir maður því ekki lengur að einarður brotavilji hafi ekki verið til staðar hjá fólkinu sem fór og fer enn með fjárreiður þjóðarinnar.
Meðhöndlun Icesave samninganna sem var pólitísk refskák frá upphafi sem allir flokkar komu að, hrossakaups-tilraunir skilgetinna afkvæma búsáhaldabyltingarinnar og nú, fréttir af vina og ættingja fyrirgreiðslu skilanefnda bankanna í bland við vafasama meðhöndlun FME á því sem eftir er af eigum þjóðarinnar, sýnir svo ekki verður um villst að þeir sem tækifæri fá til, fara með þjóðina sem allra manna gagn.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.6.2009 | 19:16
La Tomatina
Fjölmennasti matarbardagi í heimi
Í Buñol á Valensíu á Spáni er á hverju ári efnt til fjölmennasta matarkasts í heimi. Tugir þúsunada Þátttakenda koma víða að til þessa smábæjar til að taka þátt í hinu fræga tómatakasti sem fer farið hefur fram í þessum síðasta miðvikudag í ágúst mánuði s.l. sextíu ár.
Hvernig hófst La Tomatina
La Tomatina er ekki trúarhátíð. Trúlega varð tómatakastið að sið vegna atviks sem átti sér stað á bændahátíð sem haldin var á miðvikudegi í ágúst árið 1945. Á sýningunni var skrúðganga (Gigantes y Cabezudos) risa og stórhöfða. Krakkahópur sem tók þátt í skrúðgöngunni velti einum risanna um koll sem varð við það eitthvað hvumpinn og byrjaði að slá til allra sem komu nálægt honum eftir að hann komst aftur á lappirnar. Krakkarnir gripu þá tómata af nálægu söluborði og köstuðu í risann.
Tómatabardaginn stendur yfir í eina klukkustund. Á meðan að honum stendur er meira en 100 tonnum af tómötum kastað en í bardaganum eru allir á móti öllum. Vörubílar aka tómötunum að torginu þar sem aðal-bardaginn fer fram og brátt flýtur allt í rauðum tómatsafa. Allir eru skotmörk og allir geta tekið þátt.
Bardagareglurnar
- Ekki koma með flöskur eða aðra hluti sem geta valdið slysi.
- Bannað er að rífa boli annarra
- Kreista verður tómatana áður en þeim er kastað svo þeir meiði engan.
- Passið ykkur á vörubílunum sem koma með tómatana
- Hættið að kasta tómötum um leið og sírenan heyrist í annað.
- Ráðlegt er að vera í reimuðum skóm, gömlum fötum og með sundgleraugu til að vernda augun.
Vefsíða Tomatina Festival : www.tomatina.es
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2009 | 01:02
Sterkar konur skilja eftir stóra sogbletti.
Þessi setning er höfð eftir Madonnu.
Hér á eftir fara nokkur fleyg ummæli sem frægt fólk hefur haft um ástina og kynlífið og samskipti kynjanna.
Konur geta gert sér upp fullnægingu en karlmenn geta gert sér upp heilu samböndin. Sharon Stone
Ég vildi að ég fengi jafn mikla athygli í rúminu og ég fæ í blöðunum. Linda Ronstadt.
Kærastan mín hlær alltaf þegar við elskumst, alveg sama hvað hún er að lesa. Steve Jobs.
Einmitt, orðið skilnaður kemur úr Latínu og merkir þar að slíta af manni kynfærin í gegnum seðlaveskið. Robin Williams
Ég hef enn ekki heyrt karlmann kvarta yfir að þurfa að sameina starfsferil og hjónaband. Gloria Steinem
Ég veit að það hljómar einkennilega komandi úr mínum munni, en ég er orðin þeirrar skoðunar að kynlíf sé aðeins til þess að fjölga mannkyninu. Eric Clapton
Það er tími til að vinna og tími til að njóta ásta. Til annars er engin tími. Coco Chanel
Allt sem er á annað borð þess virði að gera það, á að gera hægt. Mae West
Ást er ómótstæðileg þrá eftir að vera ómótstæðilega þráður. Mark Twain
Konur þurfa ástæðu til að hafa kynmök, karlmenn þurfa stað. Billy Crystal
Í stað þess að gifta mig aftur ætla ég að finna konu sem mér líkar ekki við og kaupa handa henni hús. Rod Stuart
Ég er svona góður elskhugi af því að ég æfi mig mikið einn. Woody Allen
Að vera sexý er 50% það sem þú hefur og 50% það sem fólk heldur að þú hafir. Sophia Loren
Kannski að þetta marki tímamót á starfsferli mínum. Paris Hilton á hinu fræga sex videoi sínu.
Er þetta byssa sem þú ert með í vasanum eða ertu bara svona glaður að sjá mig? Mae West
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2009 | 00:19
Í kjallaranum hjá Charlton Heston
Charlton Heston (1923-2008) var einn frægasti kvikmyndaleikari sem uppi hefur verið. Hann lék mörg stórmennin þ.á.m. sjálfan Móses í stórmyndinni Boðorðin 10, Mark Antony í Júlíus Cesar, Rodrigo Díaz de Vivar í El Cid, og Judah Ben-Hur í Ben-Hur.
Heston var mjög pólitískur og þótt hann hafi stutt John F Kennedyí forsetakosningunum 1960 gerðist hann mjög hægri sinnaður og studdi t.d. Richard Nixon í forsetkosningunum 1972.
Árið 1998 var hann kjörinn forseti og talsmaður hinna öflugu vopnaeigenda samtaka NRA, (Landsamband riffileigenda) og gegndi því embætti til 2003. Á landsþingi þeirra árið 2000 lyfti hann riffli á loft og lýsti því yfir að ef Al Gore kæmist til valda mundi hann taka í burtu rétt Bandaríkjamanna til að bera vopn en þá mundu "þeir þurfa að losa riffilinn úr kaldri og dauðri kló minni."
Charlton Heston átti óhemju gott safn vopna sem hann geymdi í kjallara húss síns. Á myndunum sést hvernig þar var um að litast. Hann var einn þeirra sem var þeirrar skoðunar að "byssur drepi ekki, fólk drepur."
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.6.2009 | 14:45
Hafdís Huld í heimsókn
Það kemur fyrir að maður rekst á Íslendinga á förnum vegi hér í Bath, en það gerist ekki oft. Síðast voru það meðlimir hljómsveitarinnar Trabant sem voru á leiðinni að spila á Glastonbury hátíðinni fyrir tveimur árum að mig minnir.
Nú sé ég að Hafdís Huld Þrastardóttir, söngkona ætlar að halda hér í borg litla tónleika n.k. fimmtudag. Litla, segi ég af því að staðurinn , The Porter, þar sem hún hyggist halda tónleikana er fremur lítill. Hann er samt mjög vinsæll og vonandi fær Hafdís Huld þar góðar móttökur.
Ég ætla alla vega að skella mér þótt ég þekki tónlist hennar lítið sem ekkert frá því hún hætti í GUS GUS. Þarna verður þá bót á því ráðin.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2009 | 03:13
Hvernig þú færð aðra til að líka við þig
Allir vilja að örðum líki vel við sig. Hundruð þykkra doðranta hafa verið skrifaðar um efnið en yfirleitt eru þær svo flóknar að fólk gleymir þeim jafnóðum. Þess vegna ákvað ég að taka saman í eins stuttu máli og hægt er, þá þætti sem reynslan hefur sýnt að gerir fólk vinsælla en nokkuð annað. Ef þú tileinkar þér þessar einföldu ráðleggingar mun fólki líka við þig. Prófaðu bara í næsta skipti sem þú hittir einhvern. Ég ábyrgist að þetta virkar. Ef ekki færðu peningana þína aftur:)
Til að fólki líki við þig skaltu:
1. Sýna öðru fólki einlægan áhuga.
2. Brosa
3. Muna eftir hvað fólk heitir.
4. Spyrja spurninga....og þegja svo
5. Spyrja um það sem aðrir hafa áhuga á
6. Slá fólki einlæga gullhamra
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 03:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)