Færsluflokkur: Menning og listir
28.10.2010 | 18:58
Glíma
Glíman er elsta íþróttagreinin mannkynsins. Margt bendir til að fyrstu fangabrögðin hafi verið hluti af trúariðkun og hermigaldri.
Í fornum helgisögnum mannkynsins, frá öllum álfum, er að finna frásagnir af glímubrögðum trúarhetja og má yfirleitt lesa frásagnirnar á táknrænan hátt og sem lýsingu á hinni stöðugu baráttu milli góðs og ills sem mannkynið hefur háð bæði ytra sem innra með sér, frá upphafi.
Stundum er glíman háð við einhverjar óvættir, fulltrúa hins dýrslega í manninum og stundum við fulltrúa guðdómsins sjálfs eða tákngerving æðra eðlis mannsins.
Þannig háði hinn súmerski Gilagames mikla glímu við villimanninn Enkidu sem hann náði að yfirbuga og gera síðan að miklum vini sínum. Í þeirri sögu nær maðurinn sátt við sitt lægra eðli.
Í hinu forna indverska trúarriti Mahabharata sem ritað er á sanskrít, koma glímur nokkuð við sögu. Þeirra frægust er glíma tveggja þrautreyndra glímukappa, þeirra Bhima og Jarasandha. Glíman varði í 27 daga og Bhima vann ekki sigur fyrr en Krishna sjálfur gaf honum til kynna hvernig granda mætti Jarasandha með því að slíta hann í sundur í tvo hluta. Jarasandha var einmitt upphaflega búinn til úr tveimur líflausum búkshlutum.
Þá kannast flestir Ísendingar við söguna um heimsókn Þórs til Útgarða-Loka sem villir Þór sýn og fær hann til að glíma við Elli kellingu. Elli kom Þór á annað hnéð og var glíman þá úti.
Kunnastur glímukappa úr Biblíunni er Jakob Ísaks og Rebekkuson sem glímdi næturlangt við sjálft almættið sem tekið hafði á sig mannsmynd. Guð náði ekki að fella Jakob og grípur meira að segja til þess ráðs að beita belli brögðum með því að lemja Jakob á mjöðmina með þeim afleiðingum að lærleggurinn gekk úr liðnum. Sagan skýrir einnig hvaðan nafnið á Ísrael er komið og hvað það þýðir (Sá er glímir við Guð)
Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu. 23Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti.
24Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. 25Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. 26Þá mælti hinn: "Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún." En hann svaraði: "Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig." 27Þá sagði hann við hann: "Hvað heitir þú?" Hann svaraði: "Jakob." 28Þá mælti hann: "Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur."
Í Hadíðunum, arfsögnum múslíma, er að finna frásögn af glímu spámannsins Múhameðs við einn af hinum vantrúuðu. Glíman á að hafa farið fram í Mekka en andstæðingur Múhameðs var Rukaanah Ibn Abd-Yazeed al-Qurayshee sem er sagður haf verið af hraustustu ætt Araba. Fyrir glímuna á Rukaanah að hafa lofað því að viðurkenna Múhameð ef honum takist að sigra. Múhameð náði að fella andstæðinginn þrisvar sem þá lýsti því yfir að Múhameð væri galdramaður. Seinna, segir arfsögnin, gekk hann Íslam á hönd.
Elstu (2697 F.K.) heimildirnar um glímu eru kínverskar og segja frá mannati sem kallast jǐao dǐ. (hornastang) Í bjǐao dǐ binda keppendur á sig höfuðbúnað búinn hornum og reyna svo að stanga hvern annan. Þeir líkja þannig eftir hegðun hrúta, nauta og annarra hyrndra dýra. Talið er að allar helstu tegundir austurlenskra fangbragða hafi þróast út frá bjǐao dǐ og aftur út frá þeim hinar ýmsu tegundir austurlenskra bardagalista.
Sumum austurlenskum fangbrögðum svipar mjög til íslensku glímunnar. Næst henni að formi kemur án efa kóreska glíman hin svo kallaða Ssireum sem enn er stunduð í Norður Kóreu sem bændaglíma.
Þá eru til mjög gamlar heimildir um glímu meðal Egypta. Þær elstu frá 2300 fk. eru steinristur í grafhýsi heimspekingsins Ptahhotep sem m.a ritaði bók um hvernig ungir menn ættu að hegða sér í lífinu.
Glíma mun hafa verið afar vinsæl íþrótt meðal Egypta og sýna sum veggmálverkin fangbrögð milli Egypta og Núbíu-manna. Ljóst er að egypsku fangbrögðin hafa varðveist meðal Núbíu-manna því enn glíma karlmenn í Súdan á svipaðan hátt. Meðal egypsku fangbragðanna er að finna flest öll tök sem tíðkast í nútíma frjálsri glímu.
Grísk-rómverska glíman sem ásamt frjálsu glímunni er Oliympíu íþrótt, er lýst í forn-grískum heimildum, þar á meðal bæði í Illions og Ódiseifskviðu.
Heimspekingurinn Platon er sagður hafa keppt í glímu á Isthmíu-leikunum. Meðal Grikkja og seinna Rómverja var mjög vinsælt að skreyta muni, slegna minnt með glímuköppum og gera af þeim höggmyndir.
Á miðöldum berst glíman norður eftir Evrópu og var hún stunduð af leikmönnum jafnt sem konungum og keisurum. Fræg er sagan af Basil l, armenska bóndasyninum sem varð að keisara yfir Austur-Rómverska keisaraveldinu og Mikael lll keisari gerði að lífverði sínum og skjólstæðing eftir að hann sigraði glímukappa frá Búlgaríu á miklu glímumóti sem haldið var árlega þar um slóðir.
Á heimasíðu Glímusambands Íslands er þennan fróðleik að finna um íslensku glímuna.
Glíman, þjóðaríþrótt Íslendinga, hefur lifað með þjóðinni allt frá Þjóðveldisöld. Talið er að landnámsmenn hafi flutt með sér hingað hin bragðasnauðu fangbrögð Norðurlanda og einnig bragðafang Bretlandseyja. Hér á Íslandi runnu þessi fangbrögð saman í fjölbreytt fang með tökum í föt og fjölda bragða. Það hlaut nafnið Glíma.
Íslendingasögur segja víða frá því að menn reyndu með sér í glímu og lesa má í heimildum að meira reyndi á krafta en tækni á þeim tíma. Á þeim öldum sem liðið hafa hefur glíman þróast frá frumstæðu fangi til íþróttar sem gerir miklar kröfur til iðkenda sinna um tækni og snerpu.
Á fyrri öldum þótti enginn maður með mönnum nema hann væri hlutgengur í glímu. Smalamenn tóku eina bröndótta sér til hita og glímt var eftir kirkjuferðir og í landlegum vermanna. Í þjóðsögum grípa afreksmenn oft til glímunnar í viðureign við tröll og útilegumenn og hafa betur með leikni sinni og íþrótt gegn hamremi og ofurafli andstæðinganna. Enn í dag þykir mikið koma til góðra glímumanna og sú stæling og þjálfun sem glímumenn öðlast hefur oft komið sér vel í lífsbaráttunni.
Glíman telst til þjóðlegra fangbragða en af þeim eru þekktar um 150 tegundir um víða veröld. Þekktastar þeirra eru hið japanska súmó, sem er þó öllu heldur lífsstíll en íþrótt, svissneska sveiflan, (schwingen) og skoska backhold fangið að ógleymdu gouren í Frakklandi. Á seinni árum hafa glímumenn spreytt sig í þrem þeim síðastnefndu með góðum árangri.
Glíman sker sig úr öllum öðrum fangbrögðum á þrennan hátt:
1.Upprétt staða. Í glímunni skulu menn uppréttir standa. Staða margra fangbragða minnir helst á vinkil en í glímu heitir slíkt bol og er bannað.
2. Stígandinn. Í glímunni er stigið sem felst í því að menn stíga fram og aftur líkt og í dansi og berast í hring sólarsinnis. Stígandinn er eitt helsta einkenni glímunnar og er til þess fallinn að skapa færi til sóknar og varnar og að ekki verði kyrrstaða. Glímumenn skulu stöðugt stíga, bregða og verjast.
3. Níð. Í glímu er bannað að fylgja andstæðing eftir í gólfið eða ýta honum niður með afli og þjösnaskap. Slíkt er talið ódrengilegt og í andstöðu við eðli glímunnar sem drengskaparíþróttar. Glímumaður skal leggja andstæðing sinn á glímubragði svo vel útfærðu að dugi til byltu án frekari atbeina. Hugtakið níð er tæpast til í öðrum fangbrögðum.
Ár hvert keppa bestu glímumenn landsins um sigur í Íslandsglímunni. Þar er keppt um Grettisbeltið sem er elsti og veglegasti verðlaunagripur á Íslandi. Íslandsglíman fór fyrst fram á Akureyri árið 1906. Sigurvegari Íslandsglímunnar hlýtur Grettisbeltið og sæmdarheitið Glímukóngur Íslands.
Síðasta áratuginn hafa konur einnig tekið þátt í glímu með góðum árangri. Stórmót þeirra heitir Freyjuglíman og sigurvegarinn er krýnd glímudrottning.
Glíman er eina íþróttin sem hefur orðið til á Íslandi og hún er einstæð í veröldinni. Útlendingar sem kynnast glímu undrast mjög þessa háþróuðu og tæknilegu íþrótt og þykir mjög til hennar koma.
Á tímum hnattvæðingar reyna þjóðir mjög að halda fram sínum þjóðlegu
sérkennum. Slíkt er smáþjóð eins og Íslendingum nauðsyn til að undirstrika sérstöðu sína og þar liggur beinast við að efla glímuna, hina fornu, sérstæðu og glæsilegu þjóðaríþrótt okkar.
Grettir reið á Þórhallsstaði og fagnaði bóndi honum vel. Hann spurði hvert Grettir ætlaði að fara en hann sagðist þar vilja vera um nóttina en bónda líkaði að svo væri.
Þórhallur kvaðst þökk fyrir kunna að hann væri. "En fáum þykir slægur til að gista hér um tíma. Muntu hafa heyrt getið um hvað hér er að véla en eg vildi gjarna að þú hlytir engi vandræði af mér. En þó að þú komist heill á brott þá veit eg fyrir víst að þú missir hests þíns því engi heldur hér heilum sínum fararskjóta sá er kemur."
Grettir kvað gott til hesta hvað sem af þessum yrði.
Þórhallur varð glaður við er Grettir vildi þar vera og tók við honum báðum höndum. Var hestur Grettis læstur í húsi sterklega. Þeir fóru til svefns og leið svo af nóttin að ekki kom Glámur heim.
Þá mælti Þórhallur: "Vel hefir brugðið við þína komu því að hverja nótt er Glámur vanur að rísa, ríða húsum eða brjóta upp hurðir sem þú mátt merki sjá."
Grettir mælti: "Þá mun vera annaðhvort, að hann mun ekki lengi á sér sitja eða mun af venjast meir en eina nótt. Skal eg vera nótt aðra og sjá hversu fer."
[ ... ]Og er af mundi þriðjungur af nótt heyrði Grettir út dynur miklar. Var þá farið upp á húsin og riðið skálanum og barið hælunum svo að brakaði í hverju tré. Það gekk lengi. Þá var farið ofan af húsunum og til dyra gengið. Og er upp var lokið hurðunni sá Grettir að þrællinn rétti inn höfuðið og sýndist honum afskræmilega mikið og undarlega stórskorið. Glámur fór seint og réttist upp er hann kom inn í dyrnar. Hann gnæfaði ofarlega við rjáfrinu, snýr að skálanum og lagði handlegginn upp á þvertréið og gnapti innar yfir skálann. Ekki lét bóndi heyra til sín því að honum þótti ærið um er hann heyrði hvað um var úti. Grettir lá kyrr og hrærði sig hvergi. Glámur sá að hrúga nokkur lá í setinu og ræður nú innar eftir skálanum og þreif í feldinn stundar fast. Grettir spyrnti í stokkinn og gekk því hvergi. Glámur hnykkti annað sinn miklu fastara og bifaðist hvergi feldurinn. Í þriðja sinn þreif hann í með báðum höndum svo fast að hann rétti Gretti upp úr setinu, kipptu nú í sundur feldinum í millum sín. Glámur leit á slitrið er hann hélt á og undraðist mjög hver svo fast mundi togast við hann. Og í því hljóp Grettir undir hendur honum og þreif um hann miðjan og spennti á honum hrygginn sem fastast gat hann og ætlaði hann að Glámur skyldi kikna við. En þrællinn lagði að handleggjum Grettis svo fast að hann hörfaði allur fyrir orku sakir. Fór Grettir þá undan í ýmis setin. Gengu þá frá stokkarnir og allt brotnaði það sem fyrir varð. Vildi Glámur leita út en Grettir færði við fætur hvar sem hann mátti en þó gat Glámur dregið hann fram úr skálanum. Áttu þeir þá allharða sókn því að þrællinn ætlaði að koma honum út úr bænum.
En svo illt sem að eiga var við Glám inni þá sá Grettir að þó var verra að fást við hann úti og því braust hann í móti af öllu afli að fara út. Glámur færðist í aukana og hneppti hann að sér er þeir komu í anddyrið. Og er Grettir sér að hann fékk eigi við spornað hefir hann allt eitt atriðið, að hann hleypur sem harðast í fang þrælnum og spyrnir báðum fótum í jarðfastan stein er stóð í dyrunum. Við þessu bjóst þrællinn eigi. Hann hafði þá togast við að draga Gretti að sér og því kiknaði Glámur á bak aftur og rauk öfugur út á dyrnar svo að herðarnar námu af dyrið og rjáfrið gekk í sundur, bæði viðirnir og þekjan frerin, féll svo opinn og öfugur út úr húsunum en Grettir á hann ofan. Tunglskin var mikið úti og gluggaþykkn. Hratt stundum fyrir en stundum dró frá.
Nú í því er Glámur féll rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun upp í móti. Og svo hefir Grettir sagt sjálfur að þá eina sýn hafi hann séð svo að honum brygði við. Þá sigaði svo að honum af öllu saman, mæði og því er hann sá að Glámur gaut sínum sjónum harðlega, að hann gat eigi brugðið saxinu og lá nálega í milli heims og heljar.
En því var meiri ófagnaðarkraftur með Glámi en flestum öðrum afturgöngumönnum að hann mælti þá á þessa leið: "Mikið kapp hefir þú á lagið Grettir," sagði hann, "að finna mig en það mun eigi undarlegt þykja þó að þú hljótir ekki mikið happ af mér. En það má eg segja þér að þú hefir nú fengið helming afls þess og þroska er þér var ætlaður ef þú hefðir mig ekki fundið. Nú fæ eg það afl eigi af þér tekið er þú hefir áður hreppt, en því má eg ráða að þú verður aldrei sterkari en nú ertu og ertu þó nógu sterkur og að því mun mörgum verða. Þú hefir frægur orðið hér til af verkum þínum en héðan af munu falla til þín sektir og vígaferli en flestöll verk þín snúast þér til ógæfu og hamingjuleysis. Þú munt verða útlægur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt. Þá legg eg það á við þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir og mun þér þá erfitt þykja einum að vera. Og það mun þér til dauða draga."
Og sem þrællinn hafði þetta mælt þá rann af Gretti ómegin það sem á honum hafði verið. Brá hann þá saxinu og hjó höfuð af Glámi og setti þá við þjó honum. Bóndi kom þá út og hafði klæðst á meðan Glámur lét ganga töluna en hvergi þorði hann nær að koma fyrr en Glámur var fallinn.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.10.2010 | 07:05
Sýningarfólkið
Að síðustu, aðeins örstutt um farandfólkið sem kallar sig "Sýningarfólkið"
Í Bretlandi hafa yfir 20.000 manns atvinnu af Fjölleikahúsum og sirkusum. Þetta fólk myndar með sér samfélag og kalla sig The showmen. Flestir þeirra ferðast um landið, setja upp sýningar í stórum sirkustjöldum og leiktæki. Þeir búa í húsbílum eða jafnvel farartækjunum sjálfum sem notaðir eru til að flytja þungann búnaðinn á milli borga. Í Bretlandi eru 20 stórir sirkushópar auk fjölda smærri sýningarhópa sem ferðast um mestan hluta ársins.
Sýningarfólkið á sér langa sögu sem rekja má aftur til farandsýninga-flokka miðalada. Því tilheyrir sýningarfólkið sjálft, aðstoðarfólk og tæknimenn. Stóru fjölleikahúsin hafa vetursetu í nokkar mánuði á vissum stöðum og þá sækja börn sýningarfólksins nærliggjandi skóla í nokkar mánuði. Í seinni tíð hefur fjærkennsla boðist Sýningarfólkinu í auknum mæli.
Ólík því sem gegngur og gerist meðal annars farandsfólks á Betlandi, er lýtur starfsemi Sýninarfólksins ströngum reglum sem fylgt er eftir af stéttafélaginu "The Showmens Guild."
18.10.2010 | 20:36
Nýaldar-flakkarar
Ég held uppteknum hætti við að fjalla um flökkufólk á Bretlandi. Þriðji pistillinn fjallar um svokallaða Nýaldar-flakkara. (New Age Travellers)
Nýaldar-flakkarar eru hópar fólks sem oft eru kenndir við nýöld og hippa-lífstíl en hafa að auki tekið upp flökkulíf. Þá er helst a finna á vegum Bretlands þar sem þeir ferðast frá einni útihátíð til annarrar og mynda þannig með sér all-sérstætt samfélag. Talið er að þeir telji allt að 30.000.
Nýaldar-flakkarar ferðast um á sendiferðabílum, vörubílum, breyttum langferðabílum, hjólhýsum og jafn vel langbátum sem sigla upp og niður skurðina og díkin sem skera England þvers og kruss. Á áningastöðum setja þeir upp tjaldbúðir af ýmsum toga og herma þá gjarnan eftir tjöldum hirðingja beggja megin Atlantshafsins.
Fyrstu hópar þessa tegundar farandfólks urðu til upp úr 1970 þegar fjöldi tónlistar-úthátíða á Bretlandi var sem mestur.
Einkum drógust þeir að "frjálsu útihátíðunum" (þær voru kallaðar frjálsar af því þær voru ólöglegar) eins og Windsor free hátíðinni , fyrstu Glastonbury hátíðunum og Stonehenge free hátíðunum. Í dag tilheyra margir þeirra þriðju og fjórðu kynslóð flakkara.
Á níunda áratugnum fóru Nýaldar-flakkararnir um í löngum bílalestum. Breskum yfirvöldum og að er virðist, fjölmiðlum, var og er mjög í nöp við þetta nýtísku förufólk. Umfjöllun um þá í fjölmiðlum er yfirleitt afar neikvæð og stjórnvöld gera sitt ýtrasta til að leggja stein í götu þeirra.
Til dæmis var reynt að koma í veg fyrir að þeir reisti búðir við Stonehenge árið 1985 og enduðu þau afskipti með átökum í svo hinni frægu Baunaengis-orrustu, (Battle of the Beanfield) þar sem mestu fjöldahandtökur í enskri sögu áttu sér stað.
Árið eftir (1986) reyndi lögreglan að stöðva "friðarlest" Nýaldar-flakkara sem var á leið til Stonehenge til að halda upp á sumarsólstöður. (21. júní)
Þau átök urðu til þess að hundruð Nýaldar-flakkara ílengdist í grennd við Stonehenge og Wiltiskíri á England.
Nýaldar-flakkarar hafa orð á sér fyrir að setja gjarnan upp ólöglegar búðir, hvar sem þeir sjá færi á. Einnig að þeir flytji sig ört um set og eigi þar af leiðandi oft erfitt með að mennta börn sín, gæta hreinlætis og bjarga sér með nauðþurftir án þess að betla fyrir þeim eða taka þær ófrjálsri hendi.
Flest bæjarfélög á Bretlandi neita að veita þeim almenna þjónustu og gera sitt besta til að losna við þá sem fyrst út fyrir bæjarmörkin. Vímuefnaneysla er mjög algeng meðal þeirra og "frjálsar ástir" megin einkenni lífshátta þeirra.
Það er viðtekin skoðun að Nýaldar-flakkarar séu utangarðsfólk og hreppsómagar.
Margir þeirra stunda samt vinnu tímabundið við tilfallandi störf á búgörðum og við byggingarvinnu, í verksmiðjum og á veitingastöðum. Aðrir stunda flóamarkaði eða afla sér fjár með tónlistarflutningi á götum úti. Þeir eru þekktir fyrir að aðstoða hvern annan eftir getu, hirða um börn hvers annars og deila því sem einn aflar, með öllum.
18.10.2010 | 00:02
Írska flökkufólkið
Í Bretlandi er flökkufólk (Travellers) af ýmsu tagi talið vera 300.000 talsins. Þar sem annarstaðar í Evrópu er Róma fólkið fjölmennast. Næst fjölmennastir eru svo kallaðir írskir flakkarar. Erfitt að segja til með vissu um fjölda þeirra en þeir eru taldir vera ekki færri en 30.000.
An Lucht Siúil , Fólkið gangandi.
Írska farandfólkið er eins og nafnið bendir til upprunalega frá Írlandi. Það hefur eigin siði og hefðir og að mörgu leiti sjálfstæða menningu. Það er að finna einkum á Írlandi, á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum.
Upp á enska tungu kallar það sig stundum Minceir eða Pavees en á Shelta, sem er þeirra móðurmál, kalla þeir sig an Lucht Siúil sem merkir bókstaflega "Fólkið gangandi". Shelta málið sem er talið vara frá átjándu öld, skiptist í tvær mállýskur; Gammon og Cant.
Margir trúa enn að tungumálið hafi verið þróað meðal flökkufólksins til að aðrir gætu ekki skilið það þegar það reyndi að svíkja og pretta almenning. Svo er þó ekki því tungumálið er raunverulegt tungumál.
Mjög er deilt um uppruna írska farandfólksins. Vandamálið er að þeir sjálfir hafa ekki haldið til haga sögu sinni og ákaflega lítið er um það að finna í heimildum frá Írlandi sem þó verður að teljast mikil söguþjóð.
Lengi hefur því verið haldið fram að "fólkið gangandi" væri afkomendur landeigenda og vinnufólks þess sem Oliwer Cromwell flæmdi burt af írskum býlum á árunum 164953. Aldur tungumáls þeirra styður þá kenningu.
Aðrir segja að þeir séu afkomendur þeirra sem neyddust á vergang í sultarkreppunni miklu upp úr 1840. En aðrir segja að ýmislegt bendi til að það sé komið af hirðingjum sem bjuggu á Írlandi á fimmtu öld og sem á tólftu öld voru kunnir undir nöfnunum "Tynkler" og "Tynker" (Tinnari). Slík nöfn þykja írska farandfólkinu niðrandi í dag.
Ljóst er að sumar fjölskyldur írska farandfólksins rekja ættir sínar tiltölulega stutt aftur í tímann en aðrar nokkrar aldir. Á Bretlandi er talið að þær telji allt að 30.000 manns.
Það safnar gjarnan brotamálmi á ferðum sínum um landið og sérhæfir sig í hundarækt og ræktun og sölu hesta.
Þá kemur það árlega saman á stórum mótum bæði í Ballinasloe á Írlandi og í Appleby á Bretlandi til að eiga viðskipti við hvort annað og finna maka fyrir börn sín. Algengt er að stúlkur trúlofist nokkuð eldri drengjum þegar þær eru 14 ára og gifti sig þegar þær verða 16 ára.
Fyrrum ferðuðust írskir flakkarar um á hestvögnum. Í dag hafa margir þeirra sest að í hjólhýsahverfum. þeir sem enn eru á ferðinni, ferðast um í stórum hjólhýsum.
Upp til hópa eru írsku flakkararnir fátækir og ómenntaðir. Lífslíkur á meðal þeirra eru undir meðaltali og barnadauði hærri en gengur og gerist annarstaðar í breskum samfélögum.
Almenningur er haldin miklum fordómum gagnvart þessu fólki og telur það vera þjófótta lygara og glæpamenn upp til hópa.
16.10.2010 | 23:10
Af uppruna Roma fólksins
Í öllum Evrópulöndum nema e.t.v. á Íslandi, má finna farandfólk af ýmsu tagi. Fjölmennasti og langþekktasti hópurinn er án efa Roma fólkið sem jafnan gengur undir ýmsum nöfnum í mismunandi þjóðlöndum. Á Íslandi er það jafnan nefnt Sígaunar.
Algengasta samheitið yfir Roma fólkið er "Gyptar" (Gypsy) sem er dregið af landinu sem lengi vel var talið vera upprunaleg heimkynni þessa fólks, Egyptalandi. Seinni tíma mannfræðirannsóknir, orðsifjafræði og litningarannsóknir, hafa hins vegar leitt í ljós að Roma fólkið á ættir sínar að rekja til Indlands.
Víða á Indlandi en einkum í Rajastan í Punjap héraði, er enn að finna hópa fólks sem tilheyrir þjóðflokki sem nefndist Domba. Nafnið kemur úr sanskrít og þýðir trumba eða tromma.
Domba fólkið er flökkufólk sem tilheyrir stétt hinna "ósnertanlegu". Meðal þess hefur þróast mikil sagnahefð , rík hefð fyrir tónlistarflutningi, dansi, spádómaspuna og óvenjulegu dýrahaldi.
Í helgiritum hindúa og búddista eru orðin doma og/eða domba, notuð yfir fólk sem eru þrælar eða aðskilið að einhverju leiti frá samfélagi manna. Sem stétt hina "óhreinu" eða "ósnertanlegu" gengur Doma fólkið einnig undir nafninu "Chandala".
Líklegt þykir að Róma fólkið eigi ættir sínar og uppruna að rekja til Domba fólksins. Nafnið Roma er komið af orðinu Domba og mörg önnur orð í romönsku, tungumáli Roma fólksins, eru greinilega komin úr domba-mállýskunni.
Í frægu persnesku hetjukvæði eftir skáldið Firdawsi, segir m.a. frá því hvernig persneska konunginum Shah Bahram V. (einnig nefndur Bahramgur) var árið 420 e.k. færðir að gjöf 12.000 tónlistamenn og skemmtikraftar af Domba kynþættinum, að launum fyrir að hafa hjálpað indverska kónginum Shankal af Kanauj í stríði hans við Kínverja.
Fólk þetta settist til að byrja með að í Persíu en dreifði sér síðan til allflestra landa Mið-austurlanda. Eitt sinn var því haldið fram að Roma fólkið í Evrópu, væri komið af þessum listamönnum. Svo mun þó ekki vera. Orðsifjafræðin gefur til kynna að forfeður nútíma Roma fólks hafi ekki yfirgefið Indland fyrr en um og eftir árið 1000 e.k.
Það er samt athyglisvert að í dag má finna afkomendur þessa listafólksfólks í Íran, Írak, Tyrklandi, Egyptalandi , Líbýu og Ísrael. Það kallast Dom eða Domi og hefur enn atvinnu sem söng, dansi og frásögnum og stundar að auki flökkulíf, líkt og forfeður þeirra á Indlandi fyrir 1500 árum.
Romanskan er mikil heimild um langa leið Roma fólksins frá Indlandi til Evrópu. Í því má finna fjölda tökuorða frá hverju því landi sem það hafði viðdvöl í. Þess vegna má segja með nokkurri vissu að leiðir þess fyrir rétt þúsund árum, hafi legið um Afganistan, Persíu (Írak og Íran), Tyrkland, Grikkland og Armeníu.
Líklegasta ástæðan fyrir því að fólk þetta yfirgaf Indland er að það hafi hrakist undan landvinningum Mahmuds af Ghazni sem á árunum 1001-1027 e.k. herjaði mjög á Punjab og Sindh héruðin þar sem Doma fólkið var fjölmennt.
Þá segir sagan að Mahmud hafi í þessum herferðum hertekið mikinn fjölda listamanna og fjölleikafólks og flutt það til borga sinna í Afganistan og Persíu. Enn í dag kennir ein af a.m.k. 60 þekktum ættum Roma fólks í Evrópu sig við héraðið Khurasan í Persíu.
Viðdvöl Roma fólksins í Austrómverska-ríkinu, Tyrklandi og Grikklandi, áður en það hélt inn í mið- Evrópu mun hafa varað í 2-300 ár. Við komuna þangað var það fljótlega kennt við óhreina trúvillinga, svo kallaða Atsingani eða Athiganoi, sem eitt sinn voru til í Phrygíu. E.t.v. vill var einfaldlega um að ræða þýðingu á orðinu "Chandala". Af Atsingani er heitið latneska Cigani dregið, á þýsku Zigeuner og á íslensku Sígaunar.
Roma fólki er af þessum sökum skiljanlega ekki vel við að láta kalla sig Sígauna. Það vill kalla sig Roma, Gypta eða Sinti. (merkir maður og kemur úr mállýsku frá Sind sem nú er hérað í Pakistan þar sem Roma fólkið hafi aðsetur um langt skeið á leið sinni til Evrópu)
Menning og listir | Breytt 17.10.2010 kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.9.2010 | 03:06
Klofin tunga ♫♫♪♫
Það er ekki alltaf hið óvenjulega og fáséða sem grípur athygli okkar. Þótt boðið sé upp á hvoru tveggja í bókinni Snákar og eyrnalokkar eftir japönsku stúlkuna Hitomi Kanehara, er það fyrst og fremst næmt innsæi hennar sem heldur fólki við þessa stuttu bók uns henni er lokið.
Bókin hefur verið gefin út á íslensku og umfjöllun um hana má finna hér. og hér.
Snákar og eyrnalokkar varð metsölubók og Kanehara þá tuttugu ára, varð yngsti höfundurinn til að hljóta hin frægu Akutagawa bókmenntaverðlaun.
Stelpan sem segir söguna í bókinni heitir Lui og er 19 ára Hún er með dellu fyrir líkamsgötun, og fellur fyrir Ama vegna þess að honum hefur smám saman tekist að búa til svo stórt gat á tunguna á sér með sífellt stærri pinnum að það var enginn vandi að lokum að kljúfa tungubroddinn. Klofna snákstungan í honum heillar Lui og hún ákveður að gera eins.
Við lestur bókarinnar var mér títt hugsað til þess að meðal sumra Indíána-ættflokka í norður Ameríku merkir "að tala með klofinni tungu" að segja ósatt. Á Íslandi þekkjum við að orðatiltækið "að tala tveimur tungum".
Óheiðarleikinn tengdur gaffaltungu á í vestrænum samfélögum örugglega rætur sínar að rekja til sögunnar af Adam og Evu. Eva var tæld af orminum til að tæla Adam til að eta af ávexti skilningstrénu sem svo var til að þau gerðu sér grein fyrir hvað var gott og hvað illt. Fyrir utan slöngur og snáka er það aðeins Kólibrí-fuglinn sem hefur klofna tungu.
Vinsældir klofinna tungna fara vaxandi meðal ungs fólks, en það getur verið dýrt að láta lýtalækni framkvæma aðgerðina. Margir gera það því sjálfir og eru til nokkrar aðferðir. Þú þarft að geta þolað sársauka í miklu mæli. Það tekur margar vikur að kljúfa tunguna og aðferðin er afar sársaukafull. Ein er þessi;
1. Gerið gat á tunguna með pinna. Látið gatið gróa með pinnanum. Það tekur allt að mánuði fyrir gatið sárið að gróa. Ekki er hægt að kljúfa tunguna án þess að byrja á að gata hana.
2. Þræddu grannt girni í gegnum gatið og bittu endana saman við tungubroddinn. Athugaðu að það þarf að herða vel á girninu.
3. Þegar losnar á girninu sem ætti að vera á 3-4 daga fresti, skerðu það burtu og setur í nýtt og herðir að.
4. Þannig heldurðu áfram uns tungan er næstum klofinn í tvennt að framan. Þetta getur tekið allt að 8 vikur. Þú notar síðan rakvélablað eða skurðhníf til að skera síðasta haftið.
6. Þá taka við æfingar með tungunni. Fljótlega muntu geta hreyft sitthvorn tunguhlutann sér og þú getur talað án vandræða.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 03:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2010 | 17:20
Slangan og Abstrakt hugsun
Abstrakt (óhlutlæg) hugsun er oft sögð andstæða hlutlægrar hugsunar sem er þá takmörkuð við eitthvað sem er áþreifanlegt. Óhlutlæg hugsun gerir fólki kleift að hugsa í huglægum hugtökum og alhæfingum og gera sér grein fyrir að hvert hugtak getur haft margar meiningar. Með slíkri hugsun er hægt að sjá munstur handan hins auðsjáanlega og nota það til að draga ályktanir af fjölda hlutlægra hluta til að mynda flóknar hugmyndir. Til dæmis eru allar stærðfræðiformúlur skammtafræðinnar eru óhlutlægar. Tenging óhlutlægra hugtaka er einnig forsenda hugmynda mannsins um Guð.
Sem dæmi um mismuninn milli óhlutlægrar og hlutlægrar hugsunar er málverk af konu sem heldur á kyndli.(Frelsisstyttunni) Sá sem hugsar ummyndina hlutlægt sér ekkert annað en konu sem heldur á kyndli en sá sem hugsar óhlutlægt gæti sagt að málarinn hafi ætlað sér að tjá frelsi.
Getan til að hugsa óhlutlægt hefur verið með mannkyninu í meira en 100.000 ár. Elstu Abstrakt steinristurnar sem vitað er um eru um 70.000 ára gamlar.
Elstu mynjar um átrúnað manna af einhverju tagi eru einnig taldar vera 70.000 ára. Um er að ræða höggmynd af slöngu sem fannst í helli á "Fjalli guðanna" í Botsvana.
Átrúnaður tengdur snákum og slöngum er afar útbreiddur um heiminn. Neikvæð ímynd slöngunnar er eingöngu tengd hlutlægri hugsun okkar um dýrið. Með óhlutlægri hugsun verður slangan/snákurinn að tákni fyrir; Vetrarbrautina og alheiminn, eilífðina, visku og þekkingu, hið dulda og endurfæðingu svo eitthvað sé nefnd.
Í Gyðingdómi, Kristni og Íslam er það snákurinn sem fær frummanninn til að skilja og gera sér grein fyrir muninn á góðu og illu. Kristur talar um visku hans; "Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur" Matt.10.16.
Í slöngunni sameinast hið dýrslega og hið guðlega, hið hlutlæga og hið óhlutlæga. Hún er dýrseðlið á einu sviði, hið guðlega á öðru,og hið mannlega sem sameinar hin tvö á hinu þriðja.
Slangan er auk þess augljóst reðurtákn og sem slíkt frjósemistákn. Hún tengist þannig kvenfrjósemistáknum og trú fólks á mátt þeirra. Eitt þeirra er t.d. hestaskeifan sem er eftirherma af hinum "guðlegu sköpum" sem fætt gat af sér hinn endurborna og uppljómaða mann.
Margir kannast við söguna Af Niels Bohr þá hann var staddur í húsi vinar síns og sá að hann hafði hengt upp skeifu fyrir ofan dyrnar á skrifstofu sinni. Skeifu sem þannig er komið fyrir á að færa húsráðendum lukku. Bohr spyr vin sinn; " trúir þú virkilega á þetta?" Vinurinn svaraði; "Ó nei, ég trúi ekki á þetta. En mér er sagt að það virki jafnvel þótt þú trúir ekki á það."
28.8.2010 | 21:24
Móbergshellur og málverk
Því er ekki logið upp á Árna J. Hann er fremstur reddara á meðal þingmanna og fremstur þingmanna á meðal reddara. Í þessu málverki á Grænlandi í félagi við pólitíska andstæðinga sína, er honum lifandi lýst.
Og það sem meira er, í þetta sinn, er ekkert að því þótt það komist í hámæli hvað aðhafst er.
Svo hefur ekki verið um öll greiðaverk Árna.
Stundum hefur hann aðeins fengið bágt fyrir greiðvikni sína og hjálpsemi.
Árni J. er einn af gömlu fyrirgreiðslupólitíkusakynslóðinni sem réði þingheimi fyrir 15 árum og höfðu gert frá því að þingið var endurstofnsett.
Að redda málningu á hús, grús í grunn, hellum í hlaðið eða tönnum upp í Gústa, þótti sjálfssögð fyrirgreiðsla sem aðeins öfundarmenn höfðu eitthvað við að athuga og þá aðeins í stuttan tíma, eða þar til metingurinn var jafnaður með einhverri reddingu fyrir þá.
Mér finnst það vel til fundið hjá Árna að sína hversu smásmugulegt fólk getur verið, með því að taka upp á eigin arma og kostnað, að fegra heimili ókunnugs manns á Grænlandi þegar honum sjálfum var fyrir skömmu meinað um fáeinar móbergshellur til að fegra eigið heimili út í Vestmannaeyjum.
Þingmenn máluðu húsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2010 | 18:12
Gott hjá Ásdísi Rán
Ásdís Rán er ein af þeim fáum einstaklingum á Íslandi sem um þessar mundir hefur eitthvað að selja sem útlendingum, og kannski Íslendingum líka, finnst verulega varið í og vilja kaupa. Leikstrákar sem lesa leikstrákablaðið, sýna með áhuga sínum á vöru Ásdísar að þeir kunna að meta hráa og ómengaða fegurð þar sem fegrunaraðgerðir, hvað þá fótósjopp er alls ekki brúkað, enda slíkt alger óþarfi í hennar tilfelli.
Fegurð er reyndar afstætt hugtak, en þegar svona margir strákar og kannski konur líka, út um víðan heim, verða sammála um að hér blasi hún við, í sinni nöktustu og tærustu mynd, þagna bæði efasemdaraddirnar og öfundarhvískrið sem jú verður að reikna með að alltaf sé til staðar. -
Ásdís Rán má eiga það að hún kemur til dyranna eins og hún er klædd (eða ekki klædd) og ég er viss um að sú einurð og heiðarleiki sem býr innra með henni er helmingurinn af fegurð hennar. Og jafnvel þótt svo sé ekki er það pottþétt að hún er kominn inn í rúnkminnið á milljónum karlmanna og til þess er leikurinn gerður.
Playboy-forsíða Ásdísar Ránar vinsæl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.8.2010 | 18:24
Hin leyndardómsfullu skilaboð Jóns Gnarr útskýrð
Ég er ekki hissa þótt Jón Gnarr sé hrifinn af Múmínálfunum og trúi á þá. Horft á svona úr fjarlægð svipar persónuleika Jóns mjög til Múmínpabba. Hann er að undirlagi frekar dapur en dútlar sér við skrif, heimspeki og hefur í frami ýmsa listræna tilburði af og til.
Þá ber þess að gæta hver staða Múmínpabba er í sögunum. Eins og fram kemur í skemmtilegri úttekt á Múrnum er Múmínpabbi "í algjöru aukahlutverki í múmínálfabókunum, að einni undanskilinni - Eyjunni hans Múmínpabba (á sænsku "Pappan och havet"; á finnsku "Muumipappa ja meri"). Þar lendir karlinn í skæðri miðaldrakrísu, sem leiðir til þess að hann dregur fjölskylduna með sér út í nálæga eyju þar sem hann hyggst vinna mikil bókmenntaleg afrek. Öllum mátti ljóst vera að þessi ferð yrði ekki til fjár, en um síðir tekst Múmínpabba að komast í sátt við líf sitt og fjölskyldan getur snúið aftur heim í dalinn, sterkari en fyrr. - Þótt afar lítið sé birt úr ritverkum Múmínpabba í bókaflokknum, getur engum dulist að hann er fullkomlega hæfileikalaus rithöfundur, sem eykur einungis á dýpt persónunnar í sögunni."
Þetta á nokkuð vel við stöðu lands og þjóðar og Jón Gnarr er einmitt líkamningur og lifandi táknmynd hennar, svona raunverulegur fjallkall.
Nú hef ég ekki hugmynd um hvaðan Tove Jansson fékk nafnið á álfunum þ.e. "Múmin". En sé það t.d. tekið úr arabísku og kóraninum þar sem orðið kemur oft fyrir og þýðir "átrúandi" og á við um þann sem beygir vilja sinn undir vilja Guðs, geta þetta verið hárfín skilaboð há borgarstjóranum.
Jón Gnarr er e.t.v. að segja okkur svona undir rós að hann sé tilbúnn til að beigja vilja sinn undir vilja ES.
Múmínpabbi hvetur Íslendinga til að gerast aðilar að ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)