Færsluflokkur: Menning og listir

Gagarin og Guð

YuriGagarinNafn hans var á hvers manns vörum fyrir 50 árum. Hann var fyrsti geimfarinn og fram til þessa hafa aðeins um 500 jarðarbúa fetað í fótspor hans. Í augum flestra var hann hetja, og í Sovétríkjunum þar sem geimvísindi voru einskonar trúarbrögð á þessum tíma, varð Gagarin að Guði.

Slík var dýrkunin á þessum manni að kirkjur sem lagðar höfðu verið af í hinu guðlausa veldi kommúnismans, voru enduropnaðar og helgaðar Yuri Gagarin. Mynnisvarðar og styttur risu um gjörvöll Sovétríkin af Yuri og hann var viðstaddur alla stórviðburði ríkisins á meðan hann lifði.

no-god-gagarinSamtímis fór áróðursvél stjórnvalda í gang. Haldið var fram að Gagarin hefði sagt þegar hann komst á sporbaug um jörðu; "Ég sé ekki neinn Guð hérna uppi." Í afriti af samskiptum Gagrins við jörðu á meðan á ferð hans stóð, er þessa setningu hvergi að finna. - Seinna var þessi kvittur rekin beint til leiðtogans sjálfs, Nikita Khrushchev. Á ráðstefnu sem haldin var um áróður gegn trúarbrögðum sagði hann; "Gagarin flaug út í geyminn og sá engan Guð þar."  "Sá sem aldrei hefur mætt Guði á jörðinni, finnur hann ekki út í geimnum" er samt setning sem höfð var eftir Gagarin. 

GagarinÞegar hann lést í flugslysi 1968 urðu til ýmsar samsæriskenningar um dauða hans, en ástæður slyssins hafa aldrei verið skýrðar til fulls.

Eftir fall Sovétríkjanna dró mikið úr hverskonar hetjudýrkun í löndum þeirra svo og átrúnaðurinn á Gagarin.

Samt eimir eftir af þeim í heimabæ hans þar sem Gagarin söfnuðurinn var á sinum tíma hvað sterkastur.

Meðal rússneskra geimfara tíðakast ýmsir siðir sem tengjast Gagarin. Meðal þeirra er skilja eftir blóm við minnismerki Gagarins, heimsækja skrifstofu hans og biðja anda hans um leyfi áður en ferðin hefst. Skrítnasti siðurinn er e.t.v. sá að karlgeimfarar pissa á hægra afturhjól farartækisins sem ekur þeim út að geimflaugunum. Kvengeimfarar geta í stað þess að pissa á hjólið, skvett á það þvagi úr máli. -


mbl.is 50 ár frá fyrstu geimferðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki skákborðið sem Fischer og Spasskí tefldu við

spassky-and-fischer-1972Fyrri fréttin um þessa sölu á skákborði og taflmönnum úr skákeinvígi allra tíma, sagði örugglega að borðið hafi verið notað í þriðju skákinni sem fór fram í bakherberginu. Nú er sagt að aðeins taflmennirnir hafi verið notaðir en taflborðið verið eitt af mörgum (sumir segja allt að 16)  sem hinn sérvitri Fischer hafði til að velja úr og voru síðan gefin skáksambandsmönnum.

Spurningin sem vaknar er hvar er þá skakborðið sem var notað? Skáksambandið sendi frá sér einhverja athugasemd um að það harmaði að munir tengdir einvíginu væru farnir eitthvað á flakk. Hvað hefur sambandið gert til að halda þeim saman? Hvar er Volkswagen bjallan sem Fischer var fengin til umráða, hvar eru marmarareitirnir sem prýddu skákborðið til að byrja með en var skipt um að beiðni Fischers? Og hvar er pálminn sem keyptur var í Alaska til að prýða sviðið fyrir aftan keppendurnar og sést svo vel á meðfylgjandi mynd. Hver á húsið í Goðalandi sem Fischer var ætlað að búa í og væri kannski upplagt að það hýsti safnið um þennan heimsatburð sem fyrr eða seinna kemur til með að verða sett upp.


mbl.is Enginn sýndi taflmönnum áhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk fjölþjóðamenning

Hafi einhver efast um að fjölþjóðamenningin hafi skotið rótum á Íslandi, þarf ekki lengur vitnana við. Þessar tölur tala sínu máli. 42.230 einstaklingar á Íslandi eiga útlendinga fyrir foreldri, annað eða báða. -

Íslenska þjóðin er ekki lengur einlit né eru allir íbúarnir frændur í báða ættliði. Ekki tala þeir allir íslenskuna reiprennandi og margir hafa meira að segja aldrei smakkað þorramat.

Sumir eru  miklir andstæðingar fjölmenningarsamfélags og sjá því allt til foráttu. Þeir koma ekki til með að fagna þessum fréttum, þrátt fyrir að þeim hljóti um leið að vera ljós villa síns vegar.

 Fjölmenningarsamfélagið gengur greinilega ágætlega  upp á Íslandi, þrátt fyrir fordómana sem öll okkar eru sek um á einn eða annan hátt. -

Mikilvægast er að við göngumst við þeim. Fordómar eru eins og alkóhólismi, það er enginn möguleiki að lækna hann nema að viðkomandi viðurkenni að hann eigi við vandamál að stríða.

 


mbl.is 13,3% eiga erlent foreldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krabbar og pöddur með mannsandlit

Tröll í DimmuborgumÞegar gengið er um Dimmuborgir getur að líta álfa og tröll hvar sem augað festir. Þegar ekinn er hringvegurinn þarf ekki annað enn að horfa upp í næstu fjallshlíð til að sjá þar skessur og þursa sem döguðu uppi á leið sinni heim í hellinn.

Margir hafa orðið til að benda á að hin íslenska þjóðtrú á vofur og vætti sé einmitt styrkt af gnægð náttúrumynda í landslaginu.

ÁlfastúlkurÞessi árátta að sjá myndir og andlit út úr náttúrunni hefur sálarfræði-heitið Pareidolia. Undir pareidólíu sem reyndar er undirgrein af Apopheniu, má fella ýmis barnabrek eins og að stara upp í himininn á daginn og sjá í skýjunum myndir, og á kvöldum þykjast sjá karlinn í tunglinu skæla sig framan í veröldina. 

jesus-toastPareidólía var það líka þegar upp úr 1970 það varð vinsælt meðal unglinga að spila hljómplötur aftur á bak í leit að földum skilaboðum. - "Paul is dead" og allt það.

Þá má einnig minnast á "ristabrauð" æðið sem greip um sig fyrir nokkrum árum, þegar fólk vítt og breitt um heiminn sá mynd af Jesú í morgunmatnum sínum.

Martian_face_viking_croppedÞegar að myndir fóru að berast frá fjarlægum hnöttum, voru menn ekki lengi að koma auga á mannandlit í landslagi þeirra. Frægasta dæmið er auðvitað Cydonia andlitið á Mars.

En þessi árátta nær ekki aðeins til "dauðra" hluta og það er ekki aðeins almenningur sem lætur "blekkjast."

HeikeganiHeikegani krabbinn sem stundum er kallaður "Samúræja krabbinn"  og einkum finnst undan ströndum Japans, komst á allra varir þegar að Carl Sagan vakti athygli á honum í Cosmos þáttum,  fyrir margt löngu.

Carl tók krabbategundina sem dæmi um "gervi náttúruval" eins og því er lýst í kenningum Julian Huxley. 

Samkvæmt kenningum Julians hefur þessi krabbategund þróað með sér hið sérstæða útlit sitt af eftirfarandi ástæðum:

Krabbaveiðimenn tóku eftir því að skel sumra krabbanna svipaði mjög til útlits hinna fornfrægu Hike-stríðsmanna Japans. Af virðingu við þá virtu stétt stríðsmanna, hentu þeir aftur í sjóinn þeim kröbbum sem mest líktust stríðshetjunum, en hinir enduðu í pottum þeirra. - Þannig fékk loks allur stofninn þessa sérkennilegu skelmynd.

Kenningar Julians standast vitaskuld ekki, alla vega ekki hvað þessa krabbategund varðar, því hún hefur aldrei verið veidd að ráði til átu eða annars. 

Hnúðarnir og rákirnar sem mynda samúræja andlitið á skelinni eru einfaldlega vöðvafestingar. Hjá þessum virtu vísindamönnum var sem sagt um dæmigerða Pareidolíu að ræða.

SkjaldarpaddaHauskúpu-köngulóHeikegani krabbar eru síður en svo einu dýrategundirnar hvers útlit minnir á mannsandlit. Til eru fiskar, köngulær og bjöllur sem skarta mannsandlitum eins og meðfylgjandi myndir sína.

 

Japönsk fnykpaddaEin "fnykpadda" (Stink bug)  einnig ættuð frá Japan, líkist meira stílfærðri teikningu af samúræja hermanni en Heikegani krabbinn.

Könguló með mannsandlitKöngulóin hér til hægri á heima í Bretalandi og komst í fréttirnar fyrir skemmstu fyrir að líta út eins og maður. Reyndar finnst mér "andlit"  hennar minna meira á andlit Joseph Carey Merrick sem frægur var undir nafninu Fílamaðurinn.

Hamingjusama andlitiðSkemmtilegasta skordýrið með andlit, er án efa "Happy face" köngulóin.

 

 

 


Jakkaföt að eilífu

Chicago_woolen_mill_suits1Hver segir að karlmenn séu íhaldsamir þegar kemur að klæðaburði. Jakkaföt hafa t.d. aðeins verið í tísku í ca. 300 ár. 

En einhverju verða menn líklega að klæðast. Það er fáheyrt að naktir karlmenn hafi mikil áhrif í samfélaginu.

Til að geta kallast jakkaföt, verða buxur og jakki að vera úr nákvæmlega sama efni.  

Þessi tiltölulega einsleiti einkennisbúningur hins siðaða vestræna manns er sprottinn upp úr klæðnaði evrópskra aðalsmanna á 17 öld.

Eftir frönsku byltinguna, sem umbylti klæðnaði almennings í Evrópu, eins og öllu öðru,  hófu breskir klæðskerar að nota tiltölulega grófofin ullarefni.  

Þeir saumuðu jakkaföt sem voru efnismikil og höfðu jafnframt afar stífar og staðlaðar útlínur. Buxurnar voru síðar og jakkinn stuttur og án lafa, enda eru löfin aðeins gagnleg þeim sem hafa gat á rassinum eins og einhver tískufrömuðrinn orðaði það.  (Þegar maður hugsar um það, hafa reyndar flestir slíkt gat)

Þegar í  upphafi Viktoríutímabilsins voru jakkafötin í aðalatriðum orðin  eins og þau eru enn þann daginn í dag. 

Sniðið undirstrikaði borgarmenninguna og hentaði fyrst og fremst karlmönnum sem unnu litla sem enga líkamlega vinnu. Fötin fela vel bæði væskilslegt og skvapholda vaxtarlag mektarmannsins, sérstaklega ef vesti er notað með þeim. Það virkar þá eins og lífstykki eða bumbustrekkjari.  

Verkamenn um 1930Þeir sem vinna erfiðisvinnu hafa breiðari axlir og stærri vöðva en skrifstofublækurnar. Þegar að verkamaður kaupir sér jakkaföt beint af herðatrénu, passa  þau yfirleitt illa. Þau eru annað hvort of þröng eða of síð. Þau gera því lítið annað en að undirstrika ójöfnuðinn sem þeim var ætlað að fela.

Fræg er sagan um manninn sem kom inn í herrafataverslun og bað um að fá að sjá jakkaföt. Afgreiðslumaðurinn sýni hinum föt sem kostuðu 100.000 krónur. Þetta þótti manninum of mikið og bað um eitthvað ódýrara. Búðingurinn kom þá með föt sem kostuðu 50.000. En þótt vini okkar fötin of dýr. Loks kom maðurinn með málbandið með jakkaföt sem kostuðu 5000 krónur sem mannsa þótti ásættanlegt verð. 

En þegar hann mátaði fötin kom í ljós að önnur ermin jakkans var nokkru styttri en hin. "Dragðu bara handlegginn inn og skjóttu upp annarri öxlinni" ráðlagði afgreiðslumaðurinn, sem viðskiptavinurinn og gerði.

Þá sá hann að jakkakraginn var nokkuð skakkur. "Ekkert vandamál" sagði afgreiðslumaðurinn, "teigðu vel úr hinni hendinni og beygðu hana aftur á bak eins og væng". Þetta gerði vinurinn en tók þá eftri því að önnur buxnaskálmin var styttri en hin. "Þú verður bara að ganga með annan fótinn stífan, þá tekur enginn eftir þessu" ráðlagði búðarblókin.

Maðurinn keypti nú jakkafötin og gekk út á götuna hýr í bragði. Hinum megin við á kaffihúsi sátu tveir bæklunarskurðlæknar og sötruðu kaffi. Um leið og maðurinn í nýju fötunum kom gangandi yfir götuna, sagði annar þeirra. "Þetta er einhvers verst bæklaði maður sem ég hef séð um ævina". "Já", svaraði hinn. "En skratti er hann í flottum jakkafötum."

Sagt er að jakkaföt endurspegli einnig þá údbreiddu skoðun (sumir kalla það misskilning) að karlmenn eigi að vera staðfastir og einlitir persónuleikar. Fjölbreytileiki í litum og tegundum búninga passa illa við þá skoðanafestu og stöðugleika sem karlmenn eiga að prýða.

Króatískur málaliði með hálsbindiÓmissandi hluti þessa langlífa karlabúnings er kragaskyrtan og hálsbindið. Það er einna helst í litum hálsbindisins sem karlmenn geta brugðið á leik með liti og munstur. Hins vegar má vel spyrja hvað sé svona eftirsóknarvert við að hefja hvern dag á að hnýta snöru um hálsinn á sér.

Hálsbindið má líklega reka til búnings króatískra málaliða í 30 ára stríðinu. (1618–1648) Það er oft nota til að gefa til kynna skap og jafnvel afstöðu, notandans, til manna og málefna. 

Ef allt fer sem horfir munu karlmenn halda áfram að klæða sig í jakkaföt um ófyrirsjáanlega langa framtíð. Í bókum og kvikmyndum sem fjalla um framtíðina eru karlmenn ætið klæddir í jakkaföt. (OK, í örfáum óvinsælum kvikmyndum eru þeir i samfestingum)  Hugmyndaflug höfundanna nær sjaldan lengra enn að þrengja buxurnar dálítið eða hafa jakkann með bítlakraga.


Sjöundi dagur í paradís

784px-Sjoundi_dagur_i_ParadisEins og svo margir aðrir hreifst ég mjög af mynd  Guðmundar Thorsteinssonar, Sjöundi dagur í paradís, í fyrsta sinn sem ég sá hana.

Bíldudalsprinsinn Muggur vann þessa klippimynd úr glitpappír árið 1920 í Danmörku þar sem hann bjó og óhætt er að fullyrða að hún sé ásamt altaristöflunni í Bessastaðakirkju hans þekktasta verk.

Myndefnið er afar sérkennilegt og ekki endilega auðlesið. Heiti myndarinnar bendir okkur strax í rétta átt.

Bæði í Kristni og Íslam er orðið paradís notað yfir aldingarðinn Eden og himnaríki. Orðið er komið úr forn-persnesku og þýðir garður alsnægta. Úr persnesku ratar það inn í bæði grísku (parádeisos) og Hebresku (pardes).

Gudmundur_Thorsteinsson01Myndin sýnir alskeggjaðan karlmann í kjól  eða kirtli  á göngu niður að árbakka eða stöðuvatni. Á eftir honum koma tvær kirtilklæddar og afar fíngerðar en kynlausar verur. Öll þrjú bera geislabauga. 

Í vatninu vappa háfættir vaðfuglar, hugsanlega trönur og handan lagarins sést kengúra með afkvæmi sitt í pokanum. Tré og annar gróður er forsögulegur í útliti.

Mér finnst því langlíklegast að sögusvið mundarinnar sé aldingarðurinn Eden og vatnið sé fljótið sem rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og kvíslaðist þaðan og varð að fjórum stórám, eins og því er lýst í sköpunarsögunni.

Eins og sagan er sögð í fyrstu Mósebók voru Adam og Eva ekki lengi í Paradís. Þau áttuðu sig á að það var mikill munur á réttu og röngu eftir að þau átu af skilningstrénu, og gátu því ekki lengur hagað sér eins og dýr merkurinnar.

Þess vegna urðu þau að yfirgefa Paradís og fara að yrkja jörðina.

Guð kærði sig ekki um að þau eða einhver annar kæmist aftur inn í garðinn og setti því "kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré."

Kerúbar eru einskonar varðenglar og í skýringaritum Gyðinga við Tóruna segir að þessir englar hafi verið tveir og heitið Jophiel og Metatron.

Eftir að Guð hafði skapað alheiminn og rekið Adam og frú úr Paradís, var hann vitaskuld þreyttur og ákvað að hvíla sig. Hann vissi að Pardísargarðurinn var einmitt eini staðurinn sem hann mundi hafa frið. Deginum eftir að hann lauk sköpuninni ákvað hann að eyða í gönguferð um Paradís. Jophiel og Metatron sem gættu líka Guðs þegar hann var í hásætinu og slógust því í för með honum.

Og þetta held ég að hafi verið í huga Muggs þegar hann límdi saman listaverkið Sjöundi dagur í Paradís.


Af skjaldbökuskeljum og völvusteinum

Íhaldssemin hefur á sér margar hliðar.

Súmerar eða Egyptar eru staðfastlega skrifaðir fyrir því að hafa fundið upp ritlistina á svipuðum tíma fyrir 4600 árum, Súmerar kannski sýnu fyrr.  Þegar að munir finnst annarsstaðar greyptir einhverjum framandi táknum, segja fræðingarnir að þau geti hugsanlega verið ritmál, þangað til að í ljós kemur að hluturinn er eldri en 4600 ára. Þá bregður svo við að tákn og myndir verða fræðingunum að óskiljanlegu kroti  sem ekki merkir neitt ákveðið. -

1-tartaria-tablets-spozaHéraðið Transilvanía í Rúmeníu er þekkt fyrir skelfilega og óþekkta hluti. Fátt sem þaðan hefur komið hefur skelft fornleyfafræðinga meira en steinvölurnar þrár sem fundust þar seint á 19. öld og kenndar eru við bæinn Tartaria.

Í  steinvölurnar, sem bera þess merki að hafa verið hluti af festi eða armbandi, sem líklega var grafin með þorpsvölvu einni, eru greipt tákn sem gætu verið letur og/eða tölustafir. En vegna þess að völurnar eru meira en 7300 ára gamlar og eru auk þess frá Evrópulandi, eru þær afar umdeildar meðal fornleyfafræðinga. Táknin hafa ekki verið ráðin enn.

DispilioTaflanEins hefur hin svokallaða Dospilio tafla sem fannst í  Makadóníska hluta Kastoríu árið 1932, valdið miklu deilum. Dospilio taflan er viðarbútur með ískornum táknum. Taflan er talinn allt að 9000 ára gömul. Ásamt Dospilio töflunni fundust á svæðinu brot úr keramiki, smástyttur, flautur og margt fleira, sem gaf til kynna að þróað samfélag hafi verð til í Evrópu fyrir næstum 10000 árum. Það breytti mannkynssögunni svo um munar, ef það reyndist rétt.

En það var ekki aðeins í Evrópu sem fólk hafði tekið upp á því að pára á hluti allskonar tákn sem ekki þýddu nokkurn skapaðan hlut, fleiri þúsund árum fyrir þann tíma, samkvæmt því sem fornleyfafræðingar hafa ákveðið, að maðurinn lærði að skrifa.

meira en 8000 ára gömul skjaldbökuskelÁrið 1999 fundust í Jiahu í Henan héraði í Kína, skjaldbökuskeljar með áletrunum. Skeljarnar eru 8200 ára gamlar og fundust í grafreitum frá ný-steinöld. Í einni gröfinni var átta slíkum skeljum komið fyrir við höfðalag beinagrindar sem á vantaði hauskúpuna.

Á milli skeljanna og þess sem viðurkennt sem fyrsta skrifmálið í Kína eru hvorki meira né minna en 5000 ár.

 


Af strútseggjum, skapabörmum og öðru skemmtilegu

Strútseggskurn með 60.000 ára gömlum ristumMyndin hér við hliðina er af nokkrum brotum af strútseggjaskurn. Eins og sjá má eru þau skreytt með útskurði, ekki ósvipuðum þeim sem Búskmennirnir í Suður-Afríku rista enn í eggin sín. Meðal þeirra eru strútsegg algeng og gagnleg ílát eftir að blásið hefur verið úr þeim.  Það sem er merkilegt við þessi skurnbrot er að þau eru meira en 60.000 ára gömul. -

Frá 1999 hefur Pierre-Jean Texier frá  háskólanum í Bordeaux í Frakklandi og samstarfsmenn hans safnað 270 slíkum brotum við Diepkloof Rock Shelter á Vesturhöfða í Suður-Afríku þar sem forfeður okkar, hinir smávöxnu Búskmenn (1,49–1,63 m)  bjuggu og búa enn.

Strútsegg AfríkudvergaMeð aðstoð erfðafræðiinnar  hefur tekist að rekja ætt alls mannkynsins aftur til einnar konu sem átti heima á þessum slóðum fyrir u.þ.b. 200.000 árum, hinnar svo kölluðu "Hvatbera Evu". 

San fjölskyldaNánustu ættingja hennar og "Y litnings Adams" (sameiginlegs forföður alls mannkyns) , er að finna í  þeim ættflokkum Búskmanna sem eru taldir haf verið fyrstir til að skera sig frá ætt Hvatbera Evu. 

Um er að ræða tvo ættflokka sem kalla sjálfa sig Kohi og San sem oft er fellt saman í eitt nafn Kohisan, "Fyrsta fólkið".

Kohi-Sanfólkið, sem er ltalvert frábrugðið öðru Afríkufólki,  eru frumbyggjar Suður-Afríku.

Smáfólkið (pygmýar) eru frumbyggjar Mið-Afríku.

Fyrir 100.000 árum er talið er að einhver hluti Búskmannanna og smáfólksins hafi eigrað norður á bóginn á leið sem loks leiddi það út úr Afríku. Smáfólk er enn að finna víða um heiminn, einkum á afskektum eyjum og landsvæðum þar sem það einangruðust, sumt  í tugþúsundir ára. 

Nokkuð stórir hópar smáfólks eru enn til víða í Afríku og einning í Ástralíu, á Tælandi, í Malasíu, Indónesíu, á Filippseyjum, í Papúa Nýju Gueníu, Brasilíu, Suðaustur Asíu og jafnvel á Palau í Míkrónesíu.

papua-new-guinea-highlands-warriorVíða þar sem þessir afrísku frumbyggjar fóru,  hljóta þeir að hafa rekist á afkomendur frænda sinna sem yfirgáfu Afríku 700.000 árum áður. 

Miklu  luralegra og stærra, bjó það mannfólk aðallega í hellum í löndum Evrópu, m.a. í Ísrael, í Belgíu og á Spáni. Sagt er að smáfólkið hafi átt vingott við eitthvert þeirra, sem er dálítið undarlegt þróunarlega séð, en það er víst önnur saga. 

Það er fróðlegt að kynna sér hvernig Fyrsta fólkið í Afríku bjó og býr enn dag, vegna þess að  lifnaðarhættir þess hafa ekkert breyst í tugþúsundir ára.

Búskmenn búa í litlum hópum ættmenna. Börn hafa engum skyldum að gegna og frístundir eru afa mikilvægar. Mikill tími fer í að matreiða og matast, í samræður og að segja brandara, leika tónlist og dansa helgidansa. Konur eru í miklum metum og eru stundumforingjar ættingjahópsins. Þær taka mikilvægar ákvarðanir fyrir hópinn og geta gert kröfu til að ráða yfir vatnsbólum og veiðisvæðum. þeirra helsta hlutverk er að safna mat og taka þátt í veiðum með körlunum.

Búskmenn safna vatniVatn er afar mikilvægt Búskmönnum í Afríku. Þurrkar geta varað í marga mánuði og vatnsból þornað upp. Þegar það gerist verður að notast við sopaból. Sopaból eru þannig gerð að valinn er staður þar sem sandurinn er rakur og þar grafin hola. Ofaní holuna er er stungið holum reyr. Vatn er sogið upp um reyrinn og sopinn látinn drjúpa úr munninum niður um annað strá niður í strútsegg sem búið er að blása úr.

Vegna þess hve mataræði Búskmanna er fitusnautt, fá konur ekki tíðir fyrr en þær eru orðnar 18 eða 19 ára gamlar. Oftast er reynt að hafa nokkur ár milli barnsburða, vegna lítillar brjóstamjólkur-framleiðslu mæðranna. Þá er hópurinn stöðugt á faraldsfæti sem gerir fóstur fleiri en eins barns í einu mjög erfitt.

SteatopygiaMeðal Khoi-San kvenna gengur Steatopygia (fita sem myndar kúlurass) í erfðir. Slíkur rassvöxtur er talin lífeðlisfræðileg aðlögun kvenna sem búa í mjög heitu loftslagi, þ.e. aðferð líkamans til að tempra líkamshitann. Limir og búkur geta verið mjög grannir en samtímis er nægileg fita til staðar til að framleiða nauðsynlega hormóna fyrir reglulegar tíðir. 

Algengur fylgifiskur Steatopygiu er Sinus pudoris (langir innri skapabarmar).  Meðal Búsk-kvenna eru slík sköp sögð mikilvæg fyrir heilbrigt og gott kynlíf þótt ekki hafi enn fundist þróunarfræðileg ástæða þeirra. 

Embætti höfðingja gengur í ættir meðal Búskmanna en völd hans eru hverfandi lítil. Flest er ákveðið eftir umfjöllun og þá með óformlegri kosningu þar sem konur leggja jafnt til málanna og karlmenn.

Hagkerfi þeirra er gjafa hagkerfi þar sem þeir gefa hvorir öðrum gjafir frekar en að býtta eða að hlutir og þjónusta gangi kaupum og sölum.

BúskmannakofiÞorp geta verið gerð úr nokkuð gerðalegum strákofum en mörg þorp eru aðeins gerð úr skýlum þar sem aðeins er tjaldað til fárra nátta. Veðurfarið ræður afkomunni alfarið. Vorin eru viðsjárverð með sína miklu þurrka og hita og veturinn einnig þurr en kaldur.

Búskmenn safna ávöxtum, berjum, laukum og rótum. Strútsegg er mikilvægur hluti fæðunnar og skurn þeirra er notaður undir vatn. Skordýr og lirfur af öllu tagi eru fastur hluti af fæðunni auk þess kjöts sem fæst af veiðum. 

Búnaður kvenna er allur einfaldur og meðfærilegur. Þær  bera slöngvuvað, teppi eða skinn, yfirhöfn sem er kölluð karossto,eldivið, smáskjóður, prik, strútseggjaskurn með vatni og ef smábörn eru með í ferð, smærri útgáfu af karossto.

Búskmenn á veiðumÁ löngum erfiðum veiðiferðum bera karlmenn boga og eitraðar örvar, spjót og fátt annað. Eftir að dýr hefur verið drepið er dýrandanum þakkað. Lifur bráðar er aðeins etin af karlmönnunum þar sem haldið er að hún innhaldi eitur sem er hættulegt konum.

Trú þeirra Búskmanna gerir ráð yfir einum allsherjarguði sem ræður yfir mörgum minni guðum, mökum þeirra og börnum. Virðing er borin fyrir anda hinna látnu, anda dýranna og náttúrunnar allrar. Að yrkja jörðina er andstætt þeirri heimsskipan sem Guð bauð þeim og þess vegna veiða þeir og safna.

San dansSumir San-Búskmanna tigna mánann en mikilvægustu trúarathafnir þeirra, vakningardansinn, eru gjarnan haldnir á fullu tungli. Vakningardansinn er einskonar bæn til náttúrunnar og guðanna um að vakna til að sinna verkum sínum, láta rigna, færa þeim bráð og gera þeim lífið bærilegra. Dansinn getur læknað bæði andlega og líkamlega sjúkdóma og ekki er óalgengt að dansarar falli í trans.


Sprellikarlinn sem ekki vill vera í kassanum

SprellikarlinnPólitíkusarnir í borgarstjórn eru að fara á límingunum vegna þess að Jón Gnarr og hans menn haga sér ekki eins og pólitíkusar eiga að haga sér. Hva, engar nefndir, engin stefna??

Stöðugt er reynt að troða sprellikarlinum aftur ofaní kassann en gormurinn er greinilega of stífur. - Gott hjá Jóni að láta ekki þessa hundleiðinlegu pólitíkusa draga sig ofaní svaðið.

Hann gerir það sem honum sýnist og sprellar í liðinu.  Til þess var hann líka kosinn. Ef að fólk baular á hann svona í gamni, kippir hans sér ekkert upp við það. Slíkt gerist oft hjá grínurum og þeir læra að taka slíku eins og hverju öðru. -

Þeir sem reyna að setja á Jón og "klíkuna" hans einhverjar venjulegar pólitískar mælistikur, eru úti að aka. Hann er ekki pólitíkus og besti flokkurinn er ekki venjulegur stjórnmálaflokkur.  Ég veit að það er erfitt fyrir gamla pólitíska gjammara að skilja þetta, en svona er málið í pottinn búið.

Það sem Jón gerir er ekki endilega "stefna." Hann bregst bara við, les salinn og hagar sér í samræmi við það. - Alvöru pólitíkusar reyna líka að gera þetta en eru bara mjög lélegir í því. Jón er góður í þessu og þess vegna öfundast þeir út í hann.


mbl.is Sagði Besta flokkinn líkjast lítilli strákaklíku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti rafmagnsgítarinn og drottningin af Hawaii

LiliʻuokalaniÍ hálfa öld og gott betur hafa Íslendingar sungið "Sestu hérna hjá mér ástin mín" um leið og þeir hjúfra sig upp að einhverjum kærum við varðeldinn.  Ljóðið er eftir Jón Jónsson (1914-1945)  frá Ljárskógum en lagið er eftir síðasta einvald Hawaii eyja, Lili'uokalani drottningu sem samdi einnig upphaflega texta þess. Lagið heitir á frummálinu Aloha 'Oe. 

Lydia Kamakaʻeha Kaola Maliʻi Liliʻuokalani eins og hún hét fullu nafni,  (1838 – 1917) naut í æsku leiðsagnar Henry nokkurs Berger, sem var sendur til Hawaii af Vilhjálmi I Prússakonungi og keisara af Þýskalandi að beiðni Kamehameha V konungs Hawaii eyja. (Bróðir Liliʻuokalani)  

Berger sem hafði verið  konunglegur hljómsveitarstjóri í Þýskalandi, heillaðist fljótt eftir komuna til Hawaii af þjóðlögum eyjaskeggja. Hann hóf að skrásetja þau og færa í búning sem gerði þau aðgengileg vestrænum tónlistarmönnum.

Lili'uokalani drottning samdi fjölda laga en þeirra þekktust eru Aloha 'Oe og Drottningarbænin svokallaða, sem hún samdi í stofufangelsi eftir að henni hafði verið steypt af stóli af bandarískum og evrópskum kaupsýslumönnum í lok 19. aldar.  Lög hennar voru samt ekki gefin út í heild sinni fyrr en árið 1999.

Hula dansarar frá HawaiiSnemma á síðustu öld barst Hawaii tónlistin til Bandaríkjanna sem þá höfðu gert eyjarnar átta að hjálendum sínum. Tónlistin varð strax vinsæl, þótti bæði seyðandi og fögur, rétt eins og  húla-dans innfæddu kvennanna sem dilluðu mjöðmunum undir strápilsunum við taktþýða tónana.

Vinsældir tónlistarinnar tengdust einnig þeirri miklu umfjöllun sem Lili'uokalani drottning fékk um þetta leiti í Bandaríkjunum en a.m.k. tvær skýrslur sem unnar voru af sérstökum nefndum fyrir þingið og forseta landsins komust að því að hún hafði  verið rænd krúnunni og ólöglega hefði verið staðið að stjórnarmyndun landsins eftir að hún fór frá.

Bar X Cowboys spiluðu sveitalög og Hawaii tónlistHljóðfærin sem Hawaii tónlistin var leikin á voru í fyrsta lagi ukulele, smágítarinn sem Hawaiibúar  höfðu þróað út frá fjögra strengja hljóðfærinu braguinha,sem borist hafði til eyjanna með sjómönnum frá Portúgal. Annað aðalhljóðfærið var gítarinn sem sagan segir að fyrst hafi komið til Hawaii með mexíkönskum kúasmölum. Með því að setja harða strengi í gítarinn og nota síðan málmstykki til að þrýsta á strengina fékkst hinn sérstaki Hawaii ómur sem hljómaði líkt og  mansröddin. - Seinna voru gerðir þar sérstakir stálgítarar til að hljómurinn yrði sterkari.

Upp úr 1925 var Hawaii tónlistin orðin svo vinsæl í Bandaríkjunum að margar hljómsveitir sem spiluðu ameríska sveitasöngva, tóku tónlistarstefnuna upp á sína arma og spiluðu Hawaii tónlist á milli sveitalaganna. Auk þess blönduðu þær Hawaii hljóminum inn í sveitatónlistina. Þetta gekk alveg upp því hljóðfæraskipanin var eins í hljómsveitum sem spiluðu Hawaii tónlist og sveitatónlist. Brátt fóru einnig stærri hljómsveitir að flytja Hawaii tónlist,  þótt sá hængur væri á að erfitt var að heyra í stálgítarnum innan um marga lúðra, trommur og píanó.

SteikarpannanLausnin á lélegum hljómburði stálgítarsins fannst árið 1931 þegar að tónlistar og uppfinningamaðurinn George Beauchamp, smíðaði fyrsta rafmagnsgítarinn. Eftir nokkra tilraunastarfsemi fékk hann Rickenbacker Electro til að framleiða þessa uppfinningu sína sem nefnd var Steikarpannan, vegna þess að gítarnum svipaði nokkuð til þess eldhúsaáhalds. Gítarinn var gerður úr áli og er einnig þekktur undir  framleiðslunúmerinu A-22.

Margir eru þeirrar skoðunar að rokktónlistin hefði aldrei orðið til ef rafmagnsgítarinn hefði ekki komið til sögunnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband