Færsluflokkur: Menning og listir
5.8.2013 | 20:36
Landnema söngurinn
Það er erfitt að finna tónlistarviðburð sem haldinn hefur verið á Íslandi sem jafnast á við tónleika Led Zeppelin í Laugardalshöll 22 júní 1970. Áhrif heimsóknarinnar og bæði beinar og óbeinar afleiðingar hennar, óma enn í rokk og dægurlaga-tónlistinni sem verið er að framleiða nú, rúmum 40 árum seinna.
Þar á stærstan þátt lagið Immigrant Song sem Robert Plant samdi textann við en Jimy Page lagið. Plant hefur oft lýst því í viðtölum hvernig heimsókn hljómsveitarinnar til Íslands var kveikjan að laginu og textanum sem varð eitt vinsælasta lag sveitarinnar og fyrsta lagið á þriðju breiðskífu hennar. Eða eins og Plant orðaði það sjálfur; "We went to Iceland, and it made you think of Vikings and big ships... and John Bonham's stomach... and bang, there it was - Immigrant Song"
"We weren't being pompous ... We did come from the land of the ice and snow. We were guests of the Icelandic Government on a cultural mission. We were invited to play a concert in Reykjavik and the day before we arrived all the civil servants went on strike and the gig was going to be cancelled. The university prepared a concert hall for us and it was phenomenal. The response from the kids was remarkable and we had a great time. "Immigrant Song" was about that trip and it was the opening track on the album that was intended to be incredibly different."
Hluti textans varð síðan að goðsögn, einni af mörgum, sem umlék hljómsveitina á sínum tíma.
The hammer of the gods/will drive our ships to new lands.
Þessar textalínur urðu sem dæmi til þess að aðdáendur Led Zeppelin byrjuðu að tala um hin sérstaka stíl tónlistarinnar sem "hamarshögg guðanna". Stephen Davis notaði einmitt þessa tilvitnun í texta lagsins sem titil á bók sinnu um Led Zeppelin; Hammer of the Gods; The Led Zeppelin Saga.
Textinn við Immigrant song er óvefengjanlega fyrirmyndin að hinni sígildu þungarokks-mýtu um víkinginn frækna sem leitar að ævintýrum og svaðilförum, sem hljómsveitir á borð við Iron Maiden og Manowar hafa sótt drjúgum í.
Plant var afar hrifinn af norænni goðafræði og sótti innblástur í hana við gerð margra texta sinna. Hann var einnig greinilega undir áhrifum frá Hringadróttinssögu J.R.R. Tolkien og Hopbitanum eins og heyra má í lögum eins og The Battle of Evermore, Misty Mountain Hop, No Quarter, Rambke On og Over The Hills and Far Away, en Tolkien sótti sínar frumhugmyndir um Miðgarð í Snorra Eddu eins og kunnugt er.
Plant ólst upp ekki langt frá velsku landamærunum og eyddi mörgum sumarleyfum í grennd við fjallið Snowdon. Seinna lagði hann stund á velska tungu og keypti sér velskan búgarð. Áhrif velskra arfsagna er því einnig víða að finna í textum hans. Fyrsti sonur hans Karc, var einmitt nefndur eftir velsku hetjunni Karatakusi. Fyrstu þreifingarnar með hljóma lagsins Stairway to Heaven fóru t.d. fram í Vales, en það lag er öðrum fremur talið sýna áhuga Plant á mystík og heimsspeki, hvað best.
Flestir skilja texta Immigrant Song sem svo að hann sé skrifaður út frá sjónarhóli víkinganna sem komu til Íslands. En í stuttu viðtali við undirritaðan, sagðist hann einnig hafa haft í huga Keltanna, þ.e. Írana, sem víkingarnir tóku með sér til landsins.
En er mögulegt að Robert Plant hafi einnig talað spámannlega í textanum sem virðist eiga ágætlega við Íslendinga sjálfa, eftir hrunið 2008. "So now you'd better stop and rebuild all your ruins,
For peace and trust can win the day despite of all your losing."
Immigrant Song var frumflutt á merkilegri rokktónlistarhátíð í borginni Bath á Bretlandi, aðeins nokkrum dögum eftir að það kom undir hér á Íslandi. Bath tónlistarhátíðin var haldin 2728 júní 1970 og voru Led Zeppelin aðalstjörnurnar þar, en fóru samt fyrir fríðum flokki annarra hljómsveita, mörgum hverjum bandarískum.
Led Zeppelin hóf flutning sinn á hinu ný-samda lagi og það er mál margra tónlistarspekinga sem og meðlima hljómsveitarinnar sjálfrar, að þessi hátíð og frammistaða sveitarinnar þar, fyrir framan 200.000 manns, hafi verið ein sú mikilvægasta á öllum ferli hennar. Þeim tókst á þessum tónleikum að grundvalla sig sem fremstu og framsæknustu rokk-hljómsveit í heiminum. Í Bath spilaði bandið í þrjá tíma og líkt og hér á Íslandi, voru ítrekað klappaðir upp á sviðið aftur.
Immigrant Song er eitt af fáum lögum Led Zeppelin sem komu út á smáskífu. Það kom út í nóvember 1970 og komst hæst í 16 sæti smáskífulistans í Bretlandi. Á B-hlið skífunnar var lagið Hey Hey, What Can I Do.
Fyrsta útgáfa plötunnar í Bandaríkjunum var með þessa tilvitnun í hinn fræga breska dulfræðing Aleister Craowley sem var grópuð með vaxi í endarákir plötunna; "Do what thou wilt shall be the whole of the Law."
Ah, ah,
We come from the land of the ice and snow,
From the midnight sun where the hot springs flow.
The hammer of the gods will drive our ships to new lands,
To fight the horde, singing and crying: Valhalla, I am coming!
On we sweep with threshing oar, Our only goal will be the western shore.
Ah, ah,
We come from the land of the ice and snow,
From the midnight sun where the hot springs blow.
How soft your fields so green, can whisper tales of gore,
Of how we calmed the tides of war. We are your overlords.
On we sweep with threshing oar, Our only goal will be the western shore.
So now you'd better stop and rebuild all your ruins,
For peace and trust can win the day despite of all your losing.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.8.2013 | 15:13
Á að þiggja Þjórfé
Um það eru deildar meiningar hvort tilhlýðilegt sé að fólk sem starfar við ferðaþjónustu á Íslandi og aðrir, þiggi þjórfé af viðskiptavinum sínum. Þá eru ferðamenn sjálfir mjög í vafa um hvort sá siður tíðkist á landinu eða ekki. -
Því hefur verið haldið fram, einkum hér áður fyrr, bæði af Íslendingum sjálfum og þeim sem fjallað hafa um landið (dæmi) í ræðu og riti, að Íslendingar séu of stoltir til að taka við þjófé og það sé næstum því móðgandi að bjóða þeim það. - Litið væri á slík boð sem ölmusu.
Auðvitað vita allir Íslendingar að það er ekki til siðs meðal okkar sjálfra að gefa þjórfé á veitingastöðum líkt og gert er í flestum löndum Evrópu og Ameríku. En þá ber líka þess að gæta að þótt orðin þjórfé og drykkjupeningar séu ekki glæný með þjóðinni, eru Íslendingar eru tiltölulega nýfarnir að "borða úti" og hinni svo kallaðri krármenningu var ekki til að dreifa hér á landi fyrr en upp úr 1986, eftir að leyfilegt var að selja bjór á veitingastöðum. - Nú hafa nokkrir veitingastaðir tekið upp þann sið að geta þess á reikningnum að þjórfé sé ekki innifalið.
Í löndum heimsins tíðkast mismunandi siðir varðandi hverjum er gefið þjórfé og hversu mikið. Bandaríkjamenn eru án efa örlátastir og getur fólk í ferðaþjónustu á Íslandi vel vitnað um það. Þeir gefa sem nemur 20% af því sem þeir versla fyrir og gauka jafnan aurum að flestu þjónustufólki, starfsfólki hótela, bílstjórum og leiðsögumönnum, hárskerum og hárgreiðslufólki og leigubílastjórum. Í Bretlandi er hefð fyrir hinu sama en upphæðin nemur um 10%. Íbúar annarra landa Evrópu virðast taka mið af Bretum í þessum efnum, þótt ríkir Þjóðverjar hafi einnig orð á sér fyrir gjafmildi þegar vel er við þá gert.
Á Íslandi er því eftir nokkru að slægjast fyrir starfsfólk ferðaþjónustunnar, sem eins og vel er vitað, er margt í láglaunastörfum. Þess vegna þykja t.d. hópferðir með Bandaríkjamenn eftirsóttar af bæði bílstjórum og leiðsögumönnum. Sama gegnir um japanska hópa sem jafnan gefa ákveðna upphæð á dag.
Á mörgum upplýsingasíðum um Ísland á netinu sem fjalla m.a. um hvort gefa eigi þjórfé eða ekki, hefur verið tekinn sá póll í hæðina að það sé í góðu lagi að gefa þjórfé, vilji fólk gefa til kynna að það sé ánægt með þjónustuna, en að við því sé ekki sérstaklega búist af þjónustufólkinu. Alla vega komi það ekki til að krefja gestina um féð, líkt og gert er t.d. í Bandaríkjunum, sé ekkert eða ekki nóg, skilið eftir.
Þessu viðhorfi er ég nokkuð sammála. Það yrði hinsvegar afleit þróun ef atvinnurekendur færu að taka mið af þjórfénu þegar laun viðkomandi eru ákveðin, líkt og tíðkast reyndar víða um heiminn.
En athyglisverðar eru rannsóknir Magnúsar Þórs Torfasonar við Harvard Business School um samhengið milli þjórfé og spillangar. Hann segir að "greina megi spillingu í ríkjum eftir því þjórfé sem viðskiptavinir greiða og samkvæmt því er spillingin meiri eftir því sem algengara er að greiða fyrir viðvik og þjónustu með þessum hætti. Ástæðan fyrir því er sú að fólk býst við því að fá eitthvað aukreitis eftir því sem það greiðir meira.
Í rannsókninni skoðuðu Magnús og meðhöfundar hans greiðslu fyrir eitt og annað, allt frá klippingu og leigubílaakstur, í 32 löndum.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Magnúsar er lítil spilling hér, á Nýja Sjálandi og á hinum Norðurlöndum en mesta spillingin í löndum á borð við Grikkland, Tyrkland, í Argentínu og í Egyptalandi. Sjá hér
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.8.2013 | 18:37
Selja bollakökur sem múffur
"Hver möffins er seld á 300 krónur" segir í þessari frétt um mæður á Akureyri sem tóku sig til og bökuðu 1500 múffur og gáfu ágóðan af sölu þeirra til góðgerðamála.
Yfirskrift framtaksins var "Mömmur og möffins".
Líklega hefur mömmunum fyrir norðan fundist hallærislegt að nota íslenska orðið "múffur" sem er ágætt heiti á dísætu amerísku kökunum sem hafa notið fádæma vinsælda sem kaffibrauð upp á síðkastið beggja megin Atlantsála.
Tilraun norðlenskra mæðra til að íslenska orðið með því að stafa það með ö frekar en u, (muffins), eða eins og enska orðið er borið fram, virkar klaufaleg. Ritari fréttarinnar bætir svo gráu ofan á svart með því að halda að "muffins" sé í eintölu og talar um "Hver möffins".
Samkvæmt myndinni sem fylgir fréttinni voru mömmurnar samt ekki að bjóða upp á bandarískar múffur. Þær eru yfirleitt ekki skreyttar þótt sætar séu. Þær voru heldur ekki að bjóða upp á enskar múffur sem eru einskonar klattar.
Þess vegna passar hvorki fréttin né yfirskrift átaksins við það sem fram fór.
Það sem mömmurnar voru að selja svipar mest til bollakaka. Bollakökur (cup cakes) eru gerðar eftir annarri uppskrift en amerískar múffur og eru ekki eins sætar.
Mömmur baka 1.500 möffins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.7.2013 | 17:42
Drunginn í aðalhlutverki
Það er ákaflega íslensk að hefja viðræðurnar á að tala um veðrið og því er ég ekki hissa á að Ben Stiller og Russel Crowe hafi einmitt gert það. - En mér er sagt að Ben hafi líka hitt Russel þear sá síðarnefndi hélt impromptu tónleika fyrir gesti og gangandi á Kex í fyrrasumar. Kannski hafa þeir talað þar saman um fleira en veðrið.
Kvikmyndir teknar á Íslandi, eiga stóran þátt í mikilli aukningu ferðamanna til landsins. Fólk vill sjá meira af þessari sérstöku náttúru sem skapa bakgrunninn fyrir ævintýri eins og Prometheus, Oblivion, Noah og Thor ll, The dark World og Star Treck, Into Darkness. Svo eru það vitanlega Game of Thrones þættirnir sem notast við íslenska vetrarlandslagið til að koma til skila lífi norðan múrsins mikla.
Um það sem komið er aðeins gott eitt að segja.
En allir leikarar kannast við það vandamál að verða þekktir fyrir ákveðna tegund af hlutverkum,og síðan aðeins boðið að leika slík, jafnvel þótt þeir séu full færir um mjög fjölbreytta tjáningu og mismunandi hlutverk.
Svo virðist sem íslensk náttúra eigi á hættu að vera ætíð sett í svipuð hlutverk, miðað við þær stórmyndir sem hér hafa verið gerðar á undanförnum misserum. Ef þig vantar ójarðneskt landsslag eða auðnir eftir að mannkyninu hefur verið svo til eytt, er Ísland landið. Auðnir og ís eru í aðalhlutverkum og halda mætti að á Íslandi sé ekki stingandi strá að finna. Íslensk náttúra býður vitaskuld upp á afar ólík og mismunandi hlutverk. Vonandi kveikja erlendu leikstjórarnir á því áður en ímynd landsins verður föst við drungalegustu hliðar þess.
Stiller hitti Crowe á Reykjavíkurflugvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.7.2013 | 19:03
Vandamálið við Jane
Englandsbanki hefur tilkynnt að árið 2017 muni mynd af hinum vinsæla breska skáldsagnahöfundi Jane Austin koma í stað myndarinnar af Charles Darwin, sem í dag prýðir tíu punda seðlinn.
Jane Austin er afar vinsæll rithöfundur og vel að þessum heiðri komin. Gallinn er ef til vill sá að ekki er til nein almennileg mynd af Jane.
Systir hennar Cassandra skissaði reyndar af henni vatnslitamynd, sem lítið hefur verið haldið á lofti, vegna þess hversu viðvaningslega hún er gerð.
Að auki passar sú ímynd sem þar birtist af Jane illa við hugmyndir fólks um skáldið, sem að sjálfsögðu eru afar rómantískar eins og sögur hennar allar voru. Ólíklegt er að Englandsbanki noti mynd Cassöndru af Jane á tíu punda seðlinum.
Frægasta myndin sem sögð er af Jane Austin, og uppfyllir allar kröfur um hvernig saklaus og ung millistéttarstúlka á að líta út, var máluð Ozias Humphry árið 1788 þegar Jane var aðeins 13 ára.
Myndin gengur undir nafninu Rice-málverkið eftir Rice fjölskyldunni sem lengst af átti myndina.
Margir hafa orðið til að efast um að myndin sé í raun af Jane. Kemur þar margt til, svo sem eins og að kjóllinn sem hún klæðist passi ekki við tímann sem málverkið á að hafa verið málað á. Verkið er því afar umdeilt.
Spurningin er hvort notast verði við einhverja af mörgum myndum sem gerðar hafa verið að Jane á síðari tímum, þar sem reynt er að bræða saman myndirnar tvær og ímyndun listamannsins um hvernig Jane leit út eftir að hún varð fullorðin.
20.7.2013 | 12:36
Rakalausar fullyrðingar og lítt duldir fordómar
Á Íslandi eru skráð a.m.k. 33 trúfélög. Flest þeirra eru kristin en tvö þeirra eru af íslömskum toga; Félag múslima á Íslandi og Menningarsetur múslima á Íslandi. Bæði félögin tilheyra súnni-armi íslam.
Félag múslíma á Íslandi hefur samastað sem er líka moska í skrifstofu húsnæði á þriðju hæð í Ármúla í Reykjavík þar sem sameiginlegar bænir eru haldnar á bænadögum og vikulega á föstudögum. Þeim söfnuði tilheyra tæplega 400 manns og formaður hans er Sverrir Agnarsson. Árið 1999 sótti Félag múslíma á Íslandi um lóð til að byggja Mosku í Reykjavík og hefur þeim nú loks verið úthlutað skika í Sogamýrinni til þess arna.
Menningarsetur múslíma á Íslandi hefur hinsvegar aðsetur í Ýmishúsinu við Skógarhlíð, og þeim söfnuði tilheyra rúmalega 200 manns. Menningarsetrið er hluti af Al-Risalah samtökunum sem styrkja og starfrækja slíkar stofnanir í mörgum þjóðlöndum heimsins en sækir stefnu sína og styrki til höfuðstöðvanna í Sádí-Arabíu. Al-Risalah (guðleg skilaboð) menningarstofnanir þessar hafa oft verið gagnrýndar fyrir það að vera vettvangur fyrir öfgafulla predikara halla undir Salafisma ( Wahhabisma ) og hafa á sínum snærum illa menntaða forsvarsmenn. - Nýleg ummæli Ahmad Seddeeq, Ímams og trúarleiðtoga hjá Menningarsetri múslima á Íslandi, um að tengsl séu milli samkynhneigðar og barnsrána, hleypa vissulega stoðum undir þá gagnrýni, þrátt fyrir að hann eigi að teljast menntaður í íslömskum fræðum.
Sem fræðimanni sem er hallur undir hinar mismunandi Al-Risalah sem skrifaðar hafa verið ætti honum að vera kunnugt um að sumir fræðimenn Íslam voru ekki mótfallnir samkynhneigð. T.d má nefna túlkun Maleki, stofnanda Maleki stefnunnar í Súnni Islam sem segir í Hesaam Noqabaí, Hoquqöi Zan bls. 126-127 um "lavaat eða samkynhneigð; "Að stunda kynlíf með ungum manni (skegglausum) er leyfilegt fyrir ógifta menn á ferðalagi."
Í Ástralíu hefur reyndar verið sýnt fram á tengsl milli Al-Risalah menningarstofnana og uppeldi ungra rótækra múslima sem síðan hafa fallið sem stríðsmenn "fyrir Íslam" á erlendri grundu. Það er því ástæða að rýna vel í það sem frá þessum stofnunum kemur, ekki hvað síst fyrir unga múslimi sem vilja vera trú sinni hollir.
Þeim fréttum að Félagi múslima á Íslandi hafi verið úthlutað lóð til moskubyggingar hefur verið misjafnlega tekið. Allir þeir sem unna frelsi fólks til trúariðkana eins og það er skilgreint í stjórnarskrá landsins, hljóta að fagna þessum áfanga. Háværastar hafa samt verið raddir þeirra sem eru ósáttir við að trúfrelsi skuli vera við líði í landinu og telja það hina verstu goðgá að leyfa slíka byggingu. Þeirra helstu rök eru að moskur séu uppeldistöðvar fyrir róttæka múslima sem hvattir séu til hryðjuverka og í sérbyggðri mosku geti farið fram innræting sem ekki er möguleg í í skrifstofu húsnæði á þriðju hæð í Ármúlanum í Reykjavík þar sem Félag múslima á Íslandi hefur í áratugi verið með starfsemi sína.
Fréttum af moskubyggingarleyfinu og ummælum hins ómælska klerks menningarstofnunarinnar er gjarnan ruglað saman og eiga fjölmiðlar þar nokkra sök sem kjósa að fjalla um þessi ólskyldu mál á sama tíma, án nokkurs samhengis.
Óttinn við öfgar og hryðjuverk er vitaskuld ekki ástæðulaus, en þegar teknar eru saman tölur um hryðjuverk sem unnin hafa verið í vestrænum heimi síðustu áratugi, kemur í ljós að 96% þeirra eru framin af öðrum en múslimum.
Staðreyndin er sú að þegar ummæli þeirra sem segja sig mótfallna byggingu mosku í Reykjavík eru skoðuð, ber mest á rakalausum fullyrðingum, alhæfingum og lítt duldum fordómum í garð múslima.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (59)
21.3.2013 | 12:19
Gervi norðurljós fyrir gervi ferðamenn
Íslendingar eru smá saman að missa áttirnar í daufu skyninu frá glóandi ferðamanna gulli. Fjöldi ólöglegra gistihúsa hefur aldrei verið fleiri, fjöldi óskráðra fólksflutninga aðila aldrei eins mikill en auðvitað hafa ferðamenn aldrei verið eins margir.
Margir hafa orðið til að harma þessa þróun, einkum það að ekki sé komið höndum yfir það skattfé sem þessum óskráðu aðilum ber að skila og því hefur þessi starfsemi sögð vitnisburður um þann óheiðarleika sem þrífst í greininni.
En það er önnur tegund óheiðarleika í tengslum við ferðaþjónustuna í landinu sem er öllu alvarlegri. Það er vaxandi tilhneiging til að halda að ferðafólki því sem ekki er raunverulegt, einskonar gerviútgáfu af Íslandi.
Í því skyni höfum við búið til gervi fornmuni og líkön af því sem áður var, sem síðan hafa aftur reynst gervilíkön. Og nú bætist við þá flóru gerviútgáfa að sjálfum norðurljósunum. - Þessar gerviútgáfur af landi og þjóð verða til fyrir þann misskilning að betra sé að bjóða ferðafólki upp á eitthvað sem ekki kann að vera ekta, í stað hins raunverulega og frekar en ekki neitt. - Og svo heyrist það líka að ef fólk er nógu vitlaust til að borga sig inn á svona gervi-upplifun, á það ekki betra skilið. Gervi ferðareynsla er fyrir gervi ferðafólk.
Það hefur löngum verið gert að því grín meðal leiðsögumanna að það væri afar heppilegt ef hægt væri að ýta á takka til að láta norðurljósin kvikna þegar það hentar. En þetta var GRÍN, ekki alvara.
Norðurljósasetur opnað í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2012 | 18:16
Er aðgangur að Kerinu í Grímsnesi bannaður eða ekki?
Fyrir rúmum fjórum árum létu eigendur Kersins í Grímsnesi, svo kallað Kerfélag, þau boð út ganga að frá og með 15. Júlí 2008 væri hópferðabifreiðum og skipulögðum hópum ferðamanna ekki heimilt að heimsækja kerið en það hefur í áratugi verið fastur viðkomustaður hópferðabifreiða á hinum svokallað Gullna hring.
Stofnendur Kerfélagsins voru Óskar Magnússon sem gegnir starfi framkvæmdastjóra félagsins, Sigurður Gísli Pálmason, Jón Pálmason og Ásgeir Bolli Kristinsson en eigendur Kersins eru sagðir á milli 10 og 20 talsins.
Með öðrum orðum vildi félagið banna hópferðabifreiðum að leggja í stæðin við Kerið sem vegagerðin varði á árunum 2001 og 2002 a.m.k. 2,5 milljónum króna til uppbyggingar sem áningarstaðar í viðbót við bílastæðið sem þar hafði áður verið lagt.
Um var meðal annars að ræða frágang á bílastæði, uppsetningu upplýsingaskiltis, frágang göngustíga og uppgræðsla. Þetta fé var til viðbótar þeim fjórum milljónum króna sem Ferðamálaráð lagði á sama tíma í þessa aðstöðu. -
En Vegagerðin lítur almennt svo á að "áningarstaðir hennar og hvíldarstaðir séu öllum vegfarendum opnir þeim að kostnaðarlausu hvort sem áningarstaðirnir eru byggðir á einkalandi eða landi hins opinbera."
Þessi yfirlýsing Kerfélagsins var klárlega í blóra við náttúruverndarlög sem kveða á um að almenningi sé heimill aðgangur að óræktuðu landi án takmarkana svo fremi sem umgengni er góð og engu spillt. Ennfremur bentu samtök ferðaþjónustunnar á þá undarlegu staðreynd að með þessu sé ferðamönnum mismunað eftir því hvort þeir ferðist með rútu eða einkabíl.
Eftir að Kerfélagið lýsti því yfir að það vildi aðeins leyfa ákveðna umferð um staðinn, hætti vegagerðin öllu viðhaldi á svæðinu en þeir höfðu fram að því séð um að tyrfa yfir og bæta þau spjöll sem svæðið varð fyrir undan fótum ferðalanga.
Kerfélagið lét í það skína á sínum tíma að takmarkannir þessar væru tilkomnar af umhyggju fyrir landinu en fóru samt um sama leiti þess á leit við stærstu ferðaþjónustuaðila landsins að þeir greiddu fyrir aðganginn að Kerinu. Því erindi var hafnað, enda enga þjónustu, salerni eða annað, að finna á svæðinu. Hildur Jónsdóttir, eigandi ferðaskrifstofunnar Farvegs ehf. samdi ein ferðaskipuleggjanda um að greiða fyrir viðkomu við Kerið með 200 farþega af skemmtiferðaskipi en upphæðin hefur enn ekki verið gefin upp.
Í framhaldi létu kerfélagið útbúa bannskilti sem til stóð að koma fyrir við Biskupstungnabraut. Skiltið var sagt vera rautt og gult á litinn og á því texti á íslensku og ensku.
Ferðaþjónustuaðilarnir ákváðu að lúffa fyrir Kerfélaginu og tóku Kerið út sem áfangastað úr öllum leiðarlýsingum sínum og bæklingum.
Það vakti svo athygli á fyrr á þessu ári þegar að Kerfélagið með Óskar Magnússon í farabroddi meinuðu forsætisráðherra Kína að skoða hið sérstaka náttúrufyrirbæri í opinberri heimsókn hans til landsins. Þeir Kerfélagar hljóta að hafa nokkuð til síns máls því forsætisráðherrann kínverski ók framhjá Kerinu þrátt fyrir að hann og föruneyti hans hafi varla getað talist til venjulegs hóps ferðamanna.
Af því tilefni lét Óskar hafa eftirfarandi eftir sér í Viðskiptablaðinu
Árið 2008 tilkynntum við með formlegum hætti með bréfi til ferðamálastjóra að við hygðumst banna skipulagðar hópferðir í Kerið. Þá var ástandið á svæðinu orðið svo slæmt að það þurfti að takmarka umferð um svæðið. Allan tímann hefur almenningi þó verið heimilt að skoða Kerið. Það var bara tekið fyrir skipulagðar rútu- og hópferðir.
Þetta var gert til að hlífa náttúrunni, það var engin önnur ástæða að baki. Það sama ár áttum við fund og gengum um svæðið með ferðamálastjóra og öðrum embættismönnum, t.d. frá Umhverfisstofnun, og það var enginn ágreiningur um það að svæðið væri í miklu ólagi. Þau vildu samt fá lengri tíma, báðu okkur um að fresta þessum aðgerðum gegn hópferðunum. Við vitum að það gerist allt mjög hægt hjá stjórnvöldum þannig að við töldum ekki efni til að verða við þeirri beiðni. Síðan þá eru liðin fjögur ár og ekkert hefur gerst í málinu af hálfu hins opinbera.
Það verður að teljast athyglivert að skiltið góða sem var tilbúið 2008 hefur aldrei verið sett upp. Það er eflaust ástæðan fyrir því að fjöldi hópferðabíla kemur enn daglega við í Kerinu eins og ekkert hafi í skorist.
Sú spurning hlýtur því að vakna hvar þetta mál er nú statt yfir höfuð?
Er Kerið opið öllum hópferðabílum eða ekki, eða er það aðeins lokað þeim tveimur ferðaskipuleggjendum sem boðið var að greiða fyrir aðganginn að Kerinu, en neituðu?
Er þeim Kerfélögum raunverulega lagalega stætt á kröfu sinni? Því ef svo er gefur það ótvírætt fordæmi þeim sem vilja selja aðgang að náttúruperlum landsins án þess að veita um leið nokkra þjónustu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.11.2012 | 00:24
Er Skálholt íslensk Golgata
"Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata."
Þannig segja guðspjöllin frá staðnum sem allt frá fjórðu öld hefur verið lýst sem lítilli hæð eða holti skammt fyrir utan Jerúsalem, svo nálægt borginni samkvæmt sögunni, að þeir sem voru að koma út úr borginni gátu lesið yfirskriftina á krossi Krists; Jesú frá Nasaret, konungur Gyðinga.
Í bæði kristnum og gyðinglegum helgisögnum er Golgata þar sem höfuðkúpa Adams er sögð staðsett. Samkvæmt arfsögninni var höfuðkúpa Adams flutt eftir syndaflóðið til hæðar sem markaði miðju heimsins og sem leit út eins höfuðkúpa. Að auki var það staðurinn þar sem höfuð höggormsins var kramið eftir syndafallið.
Nafnið Golgata er annað hvort runnið af hebreska orðinu "gulggolet" sem þýðir skel og er þar átt við höfuðskel eða arameíska heitinu Gol Gatha sem þýðir "aftökuholt" (hæð) og er sá staður sem Jeremías segir frá í staðarlýsingu sinni a Jerúsalem og kallar Goatha.
Í báðum tilfellum er nafnið tengt aftökum því höfuðskeljarnafnið er sagt vera dregið af hausaskeljum þeirra sem af lífi voru teknir og ekki var hirt um að grafa.
Nú vill þannig til að íslenska orðið skál er dregið af proto-germanska orðinu skelo sem merkir skel.
Bein þýðing á orðinu GOLGATA yfir á íslensku gæti því allt eins verið SKÁLHOLT.
Í hugum margra Íslendinga er Skálholt einmitt tengt atvikum sem bæði hafa með aftökur og hausaskeljar að gera. Hér er auðvitað átt við aftökur Jóns Arasonar og sona hans sem allir voru hálshöggnir á staðnum og síðar þegar steinþró Páls biskups Jónssonar fannst með höfuðkúpu og beinagrind hans 1955.
Síðustu orð Jóns Arasonar og Krists þau sömu
Ef við rifjum upp aftöku Jóns og sona er þeim lýst svona á ferlir.is;
Menn voru þegar settir til að gera aftökustað austan við túnið í Skálholti, og var þangað fluttur gamall vindustokkur frá kirkjunni og höggvið í hann hökuskarð, svo að nota mætti sem höggstokk. Böðull hafði þegar verið fenginn frá Bessastöðum til þess að vinna á þeim feðgum.
Þegar morgnaði, voru fangarnir búnir til aftökunnar. Ari var fyrst leiddur á höggstokkinn, og fylgdi honum prestur sá, sem vakað hafði hjá honum um nóttina. Vildi Ari ekki, að bundið væri fyrir augu sér. Hann gaf böðlinum gjöf til þess, að hann ynni verk sitt hreinlega eins og alsiða er erlendis. Síðan hjó böðullinn hann og fórst allvel. Þessu næst var höggstokkurinn færður og sér Björn leiddur til höggs. Böðlinum fataðist fyrsta höggið. Hljóp Daði í Snóksdal þá til og skipaði böðlinum að fullkomna verk sitt. Murkaði böðull loks af honum höfuðið í fjórða höggi.
Síðastur var Jón biskup höggvinn, og fylgdi séra Hængur Höskuldsson á Stóru-Völlum á Landi honum til aftökunnar. Hafði biskup kross í hendi. Við höggstokkinn kraup hann sjálfur á kné og signdi sig. Þegar biskup var lagstur á höggstokkinn, reiddi böðullinn öxi sína til höggs. En höggið geigaði hjá honum sem fyrr, og við þriðja högg mælti biskup: "In manus tuas, domine, commendo spiritum meum herra, í þínar hendur fel ég anda minn. Það heyrðu menn hann mæla síðast orða, en í sjöunda höggi tók loks af höfuðið.
Frægasta höfuðskelin
Árið 1952 hófst uppgröftur á kirkjugrunnum í Skálholti og var það umfangsmesta rannsókn á einum minjastað á Íslandi til þess tíma.
1954 var gerður uppdráttur af kirkjugarðinum og nánasta umhverfi hans, grafið var í Þorláksbúð að hluta, og í dómkirkjugrunnana. Fannst þá m.a. steinþró Páls biskups Jónssonar með beinum hans og bagli og vakti sá fundur gríðarlega athygli.
Hvaðan er nafnið á Skálholti raunverulega komið
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi var fyrstur íslenskra fornfræðinga til að kanna minjar í Skálholti. Hann kom þar árið 1893 og skráði sýnileg ummerki og munnmæli og frásagnir staðkunnugra um fornleifar. Skráði hann m.a. munnmæli er skýrðu uppruna örnefnisins Skálholts: Smalamaður Ketilbjarnar gamla landnámsmanns átti að hafa hafst við í skála, þar sem bærinn í Skálholti var reistur síðar.
22.11.2012 | 05:31
Rífið Þorláksbúðarhúsið
Það er fátt pínlegra fyrir leiðsögumenn á ferð um Suðurland en að þurfa gefa ferðafólki skýringu á hinu svo kallaða Þorláksbúðarhúsi sem stendur við hliðina á Skálholtskirkju. Margir veigra sér við því og kjósa að láta sem þeir sjái ekki bastarðinn.
Hvað á þessi sambræðingur af steinsteypu og torfi eiginlega að vera? Hvernig stendur á að hann er yfirleitt til?
Biskupinn segir frá
Fyrrverandi Biskup Karl Sigurbjörnsson lýsir tilurð þessa hróatildurs svona;
17. september 2011
Fram hafa komið sterkar gagnrýnisraddir á framkvæmdir við uppbyggingu svonefndrar Þorláksbúðar í Skálholti. Spurningum þar að lútandi hefur verið beint til mín sérstaklega, sem ég vil leitast við að svara.
Um aldir hefur rúst Þorláksbúðar staðið í kirkjugarðinum og minnt á forna sögu og minningar. Skemma dómkirkjunnar, skrúðhús sem iðulega í aldanna rás var notuð sem dómkirkja þegar unnið var að endurbyggingu kirkjunnar.
Hugmyndir um uppbyggingu rústarinnar hafa oft komið fram, þar á meðal í nefnd um uppbyggingu Skálholts sem skilaði áliti 1993. Þar segir: Þorláksbúð er forn tóft norðan við kirkjuna. Hlutverk búðarinnar til forna er ekki þekkt með vissu. Til álita kemur að endurbyggja Þorláksbúð þannig að hún mætti hvort tveggja endurspegla forna byggingargerð og nýtast í tengslum við kirkjulegar athafnir.
Séra Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup, sem var í nefndinni, hafði mikinn áhuga á þessu verkefni, enda var minning Þorláks biskups honum hugleikin. Beitti hann sér fyrir stofnun Þorláksbúðarfélags fyrir nokkrum árum, ásamt með Árna Johnsen, alþingismanni, og Kristni Ólasyni, rektor Skálholtsskóla.
Á þessum tíma var starfandi sérstök stjórn fyrir Skálholt, skipuð af kirkjuráði, en formaður hennar var sr. Sigurður. Aðrir stjórnarmenn voru tveir þáverandi kirkjuráðsmenn sr. Kristján Björnsson og Jóhann E. Björnsson.
Stjórn Skálholts sannfærði kirkjuráð um að uppbygging Þorláksbúðar nyti almenns stuðnings og að tilskilin leyfi lægju fyrir, og að fjármögnun verkefnisins væri tryggð. Á þeim grundvelli veitti kirkjuráð samþykki sitt.
Ég vissi t.d. ekki betur en handhafar höfundarréttar Skálholtskirkju hefðu gefið leyfi sitt.Þorláksbúðarfélagið hefur borið hitann og þungann af verkefninu. Kirkjuráð og biskup Íslands bera samt sem áður hina endanlegu ábyrgð á öllum framkvæmdum í Skálholti, og geta ekki vikist undan því. Kirkjuráð mun nú ræða þessi mál og bregðast við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið.
Skálholt skipar dýrmætan sess í vitund þjóðarinnar. Mikilvægt er að sátt og friður ríki um uppbyggingu staðarins og það starf sem þar fer fram. Ég vil þakka alla velvild og hlýhug í garð Skálholts sem m.a. kemur fram í málflutningi þeirra sem láta sér ekki á sama standa um ásýnd og virðingu staðarins.
Hver átti hugmyndina
Eins og fram kemur í máli biskups er Þorláksbúð fyrst og fremst hugarfóstur þriggja manna,þeirra séra Sigurðar Sigurðarsonar, Kristins Ólasonar, rektor Skálholtsskóla og Árna Johnsen alþingismanns, einu meðlimir hins svo kallaða Þorláksbúðarfélags. Fyrir tilstilli séra Sigurðar tekst að sannfæra Kirkjuráð um að mikill stuðningur sé fyrir málinu og það gefur grænt ljós. En eins og kom í annað og skærara ljós nokkru síðar var sá stuðningur orðum aukin svo ekki sé meira sagt.
Hver var tilgangurinn
Þegar að fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir voru kynntar almenningi í fyrsta sinn sagði Kristinn Ólason Skálholtsrektor kotroskinn í samtali við Sunnlenska fréttablaðið að Þorláksbúð mundi auka möguleika staðarins á að miðla fortíð Skálholts til gesta sinna. Þar verði sett upp einfalt altari og jafnvel klukka. Þannig megi samræma sýningu á Þorláksbúð við nýtingu hennar fyrir litlar athafnir, s.s. samverustundir og kyrrðarsamveru.
En hvernig stendur þá á því að bygging sem átti að "endurspegla forna byggingargerð og nýtast í tengslum við kirkjulegar athafnir varð að tákni ósættis, ósanninda og eindæma smekkleysu?
Um leið og ljóst var að Þorláksbúðarfélaginu var full alvara að hefja framkvæmdir og hafði m.a. tryggt sér hluta framkvæmdafjárins frá íslenska ríkinu og verið á fjárlögum þess frá 2008 og með framlögum frá Þjóðkirkjunni, komu fram öflug andmæli.
Húsfriðunarnefnd
Húsfriðunarnefnd setti sig strax upp á móti byggingunni og reyndi að beita skyndifriðunarákvæðum til að stöðva framkvæmdirnar. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra ákvað hinsvegar að rifta friðuninni sem varð til þess að Hjörleifur Stefánsson, formaður húsafriðunarnefndar, sagði af sér vegna óánægju með ákvörðun hennar.
Rök Húsfriðunarnefndar voru m.a. Við viljum ekki meina að þetta sé tilgátuhús, af því að þetta er stærri bygging og það hefur ekki farið fram rannsókn á því hvernig hús stóð á þessum stað. Að auki, þegar tilgátuhús eru reist, þá er það yfirleitt ekki byggt ofan á viðkomandi fornleifum heldur í einhverri fjarlægð, til að raska ekki rústunum,
Árni Johnsen nú formaður Þorláksbúðarfélagsins svaraði þessu fullum hálsi;
Það er Fornleifanefnd Íslands sem hefur yfir rústum landsins að gera, segir Árni við mbl.is. Fornleifanefnd Íslands hefur svigrúm innan ákveðinnar fjarlægðar frá hverri rúst. Þessi rúst er búin að vera í aldir en Skálholtskirkja er 50 eða 60 ára gömul. Ég tel að Fornleifavernd, byggingarnefnd og kirkjuráð ráði þessu varðandi Þorláksbúð. Við erum ekki neitt að fást við Skálholtskirkju eða Skálholtsskóla. Nánasta umhverfi er líka háð öðrum reglum. Þar býr fornleifaverndin við mjög ákveðnar reglur. Mig minnir að það séu 20 metrar frá hverri rúst, sem er þeirra valdsvið.
Skipulagsstofnun
Þessi umdeilda bygging yfir rústir Þorláksbúðar í Skálholti varð einnig til að vekja deilur um gildandi deiliskipulag á staðnum og hvort sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafi verið heimilt samkvæmt gildandi deiliskipulagi að gefa út byggingarleyfi fyrir húsið sem reist var á rústunum.
Forstjóri Skipulagsstofnunar, hefur látið hafa það eftir sér að sú ákvörðun stofnunarinnar að deiliskipulagið í Skálholt sé ekki gilt, standi. Byggingaleyfi fyrir Þorláksbúð sé því byggt á röngum forsendum því byggingarreitur fyrir Þorláksbúð hafi ekki verið til staðar.
Peningarnir og bókhaldið
Þorláksbúðarfélagið hefur fengið níu og hálfa milljón króna frá ríkinu og eina og hálfa milljón frá þjóðkirkjunni. Þá hefur kirkjan nú samþykkt fjárveitingu upp á þrjár milljónir til viðbótar. Fyrr í sumar (2012) var haft eftir Árna að enn væri leitað eftir peningum til verksins því kostnaður við það hefði farið nokkuð fram úr áætlun. - Það er kunnuglegur hljómur í máli Árna.
Þegar kallað var eftir upplýsingum úr bókhaldi Þorláksbúðarfélagsins fyrr á þessu ári sagði formaðurinn Árni Johnsen í samtali við Mbl.is að að fjármálahlið verkefnisins væri í höndum Skálholtsskóla og Skálholtsstaðar þrátt fyrir að hafa lýst því yfir áður að þeir væru "ekki neitt að fást við Skálholtskirkju eða Skálholtsskóla."
Í frétt um málið segir m.a.
Kirkjuráð fer með málefni Skálholts og Skálholtsskóla og framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, Guðmundur Þór Guðmundsson, kannaðist í samtali við fréttastofu Rúv um helgina ekki við að bókhaldið væri í þeirra höndum. Í samtali við Mbl.is í dag sagði Guðmundur að stofnunin Skálholt hefði aldrei tekið bókhald Þorláksbúðarfélagsins formlega að sér, þótt starfsmaður hennar fari með prókúruna, og að málið virðist á misskilningi byggt.
Prókúran var upphaflega á nafni sr. Sigurðar Sigurðarsonar heitins í Skálholti, sem var formaður Þorláksbúðarfélagsins til skamms tíma við stofnun en lést í nóvember 2010. Þegar sr. Sigurður veiktist bað hann Hólmfríði Ingólfsdóttur, framkvæmdastjóra Skálholtsskóla, að taka við prókúrunni. Hólmfríður ítrekar hins vegar að stofnunin tengist málinu ekki. Ég er þarna prókúruhafi í minni eigin persónu, þetta kemur Skálholtsstað ekkert við. Aðspurð segir Hólmfríður að fjárframlög ríkisins hafi verið lögð inn á bankareikning á kennitölu Þorláksbúðarfélagsins og þótt hún sé prókúruhafi sé bókhaldið alfarið hjá stjórn félagsins.
Hvað segja arkitektarnir
Þetta var hvorki í fyrsta eða síðasta sinn sem ósannindi voru höfð eftir Árna í tengslum við þessa byggingu. Í fjölmiðlum áttu eftir að birtast yfirlýsingar þar sem rangfærslum og ósannindum sem höfð voru eftir Árna Johnsen var mótmælt. Á heimasíðu Arkitektafélags Íslands rekur Ormar Þór Guðmundsson arkitekt nokkrar rangfærslur sem réttlæta áttu smíði hinnar nýju Þorláksbúðar.
Sagan.
Fullyrt er:
Mbl.10. september 2011. Úr viðtal við Sr. Kristján Björnsson.
það var ekki talið þjóna tilgangi sínum að reisa húsið einhvers staðar annars staðar. Þorláksbúð tengist kirkjunni allt til 12. aldar og hefur mikið sögulegt gildi fyrir Skálholtsstað,
Mbl. 19. september 2011. Úr grein eftir Árna Johnsen.
endurgerð Þorláksbúð verði lítill gullmoli í ranni Skálholts og eina byggingin sem tengist um 800 ára sögu frá því að Þorlákur helgi Skálholtsbiskup reisti búðina á 12. öld, hús sem í gegn um tíðina hefur ýmist verið skrúðhús, geymsla, kirkja og dómkirkja þegar þær stóru voru úr leik.
Mbl. 23. september 2011. Úr grein eftir Árna Johnsen.
Þorláksbúð er væntanlega byggð 120-130 árum eftir að fyrsti Skálholtsbiskupinn var vígður 1056.
Mbl. 19. ágúst 2012. Úr grein eftir Árna Johnsen.
Þorláksbúðar er fyrst getið á 13. öld og hún kemur og fer á víxl eins og sagt er,
Elstu heimildir um hana eru frá 13. öld
Ofangreindar staðhæfingar eru rangar.
Hvorki ritaðar heimildir né fornleifarannsóknir gefa minnstu vísbendingu um að saga Þorláksbúðar sé eldri en frá þeim tíma er hún var byggð eftir bruna Árnakirkju árið 1527 eða 1532 skv. öðrum heimildum.
En hvaða heimildir geta um Þorláksbúð á 12. og 13. öld? Getur hugsast að Kristján og Árni hafi aðgang að upplýsingum, sem sagnfræðingum og fornleifafræðingum hafa verið ókunnar. Ef svo er þá væri augljóslega fengur að því að fræðaheimurinn fengi líka aðgang að þeim.
Í bók Harðar Ágústssonar, Skálholt Kirkjur, segir: Jón Egilsson lýsir því í stórum dráttum hvernig staðið var að uppbyggingu dómkirkjunnar eftir brunann. Fyrsta verk Ögmundar biskups Pálssonar var að láta reisa bráðabirgðaskýli yfir messuhald, búðina eða kapelluna eins og húsið heitir í heimildum, seinna kallað Þorláksbúð. Rústir hennar voru grafnar upp sumarið 1954. Hún hefur verið torfhús með timburstafni, snúið eilítið í norður frá vestri, um 14 m löng að utanmáli og um 8 m á breidd, en að innanmáli um 10,5 x 3,2 m. Frá því kirkjan var komin upp var búðin notuð sem skemma til loka 18. aldar Jón þessi Egilsson ritaði biskupaannála og ritar Hörður á öðrum stað í bókinni: Vitnisburður Jóns verður að teljast traustur.
Sem fyrr segir voru rústir búðarinnar grafnar upp árið 1954 en árið 2009 varð aftur gerð könnun á búðinni á vegum Fornleifastofnunar Íslands. Helstu niðurstöður þeirrar rannsóknar eru: Könnunarskurðir 2009 staðfesta að grafið hefur verið innan úr tóftinni, eins og helst varð ráðið af dagbókarfærslum Hákon Christie (innskot: þátttakandi í rannsókninni 1954). Þeir sýna einnig að leifar eru af eldri veggjum innan þeirra veggja sem nú má sjá á yfirborði, en þeir hafa að einhverju leyti verið lagaðir til eftir rannsóknina 1954. Hafi Þorláksbúð verið í notkun í u.þ.b. 250 ár (frá ca 1530-1784) er ekki óeðlilegt að búast við fleiri en einni endurbyggingu. Grafir eru um 0,4-0,6 m undir yfirborði, bæði inni í búðinni og utan hennar. Einnig má gera ráð fyrir að grafir séu undir veggjum, slíkt kemur fram af dagbókarfærslum Christies og vitnar um notkun kirkjugarðsins áður en búðin var reist. Við allar hugsanlegar framkvæmdir á þessum stað má því búast við fornleifum mjög nærri yfirborði.
Allt tal um að Þorláksbúð tengist kirkjunni allt aftur til 12. aldar eða að hennar sé fyrst getið á 13. öld eða að Þorlákur helgi hafi reist búðina á 12. öld, er einfaldlega ekki rétt.
Það eina sem tengir húsið við Þorlák biskup helga, sem var á dögum meira en 300 árum fyrr, er að það var nefnt eftir honum, Þorláksbúð. Höfundi þessarar greinar er hins vegar ekki kunnugt um heimildir fyrir því hvernig þessi nafngift kom til.
Að halda því fram að vegna þessarar nafngiftar tengist Þorláksbúð kirkjunni allt aftur til 12. aldar er hliðstætt því að segja að Gunnarsbraut í Reykjavík eigi tengsl aftur á söguöld af því að hún er nefnd eftir Gunnari á Hlíðarenda.
Húsið.
Fullyrt er:
Mbl. 23. september 2011. Úr grein eftir Árna Johnsen.
Það hús sem búið er að byggja er algjörlega teiknað upp á sentímetra miðað við gömlu rústina, bæði hleðslan og timburbyggingin.
Engar leifar af timbri fundust í rúst Þorláksbúðar né nokkur ummerki um legu þess. Engar lýsingar né teikningar eru til af uppbyggingu hússins er dygðu til að endurgera það á trúverðugan hátt. Það nægir ekki til þó sjá megi Þorláksbúð á vatnslitamyndum af Skálholti úr enskum Íslandsleiðöngrum frá 18. Öld. Athygli vekur reyndar að útlit nýrrar Þorláksbúðar er áberandi frábrugðið því útliti, sem þó má greina á þessum myndum. Miðað við þessar forsendur væri mikið afrek að teikna nýbygginguna á þann hátt, sem að ofan er getið, upp á sentimetra enda fer það svo, að stærðarmunur rústarinnar og nýbyggingarnar hleypur á metrum en ekki sentímetrum.
Breidd nýju Þorláksbúðar er rúmlega 30% meiri en þeirrar gömlu. Það er um 4,3 m í stað um 3,2 m. Við þetta raskast stærðarhlutföll rýmisins verulega. Meðal byggingarefna, sem notuð voru í nýja Þorláksbúð eru bárujárn og steinsteypa. Húsið getur því ekki nýst sem tilgátuhús um gerð íslenska torfbæjarins.
Fram hefur komið að fyrirmynd nýju Þorláksbúðar sé sótt í skálann á Keldum á Rangárvöllum. Sá skáli er talinn vera frá því um 1200, sem er um 300 árum áður en gamla Þorláksbúð var reist.
Að framansögðu er ljóst að um tómt mál er að tala um nýja Þorláksbúð sem endurgerð eða endurreisn þeirrar gömlu.
Frá sögulegu sjónarmiði eða sem tilgátuhús er gildi nýrrar Þorláksbúðar ekkert. En húsið er að ýmsu leiti snoturt og vel gert. Með því að flytja það á stað þar sem það spillti ekki útliti Skálholtskirkju og yfirbragði staðarins, mætti því vel nýta það sem einhvers konar gamalt íslenskt hús til að gleðja ferðamenn, ekki síst útlenda.
Reykjavík 25.ágúst 2012
Ormar Þór Guðmundsson arkitekt
Höfundarrétturinn
Önnur mótmæli birtust í Morgunblaðinu frá Herði H. Bjarnasyni sendiherra vegna ummæla í fréttum í Morgunblaðinu um byggingu Þorláksbúðar við Skálholtskirkju:
Undirritaður sér sig knúinn til að leiðrétta ummæli talsmanna Þorláksbúðarfélagsins, sem birtust í Morgunblaðinu 9. og 10. september sl. Er þar fjallað um nýjar byggingaframkvæmdir á Skálholtsstað.
Í blaðinu þann 9. september er haft eftir Árna Johnsen vegna byggingar svonefndrar Þorláksbúðar á byggingarreit Skálholtskirkju að sr. Sigurður heitinn hafi haft samband við Garðar Halldórsson, sem gætir höfundarréttar erfingja Harðar Bjarnasonar, arkitekts Skálholtskirkju.
Þann 10. september er haft eftir sr. Kristjáni Björnssyni að framkvæmdin hafi verið kynnt öllum réttbærum aðilum og að einnig var leitað samþykkis þeirra sem fara með höfundarrétt arkitekts kirkjunnar.
Hvort tveggja er alrangt. Garðar Halldórsson gætir ekki höfundaréttar erfingja Harðar Bjarnasonar, undirritaðs og systur hans Áslaugar Guðrúnar. Aldrei var leitað samþykkis handhafa höfundarréttar og koma byggingaframkvæmdir á staðnum þeim eins og mörgum öðrum algerlega á óvart. Ekki verður annað séð en að nýbyggingin sé alvarlegt stílbrot og skaði ásýnd kirkjunnar verulega. Þetta hefði verið svar handhafa höfundarréttar ef eftir því hefði verið leitað.
Hörður H. Bjarnason
sendiherra
Árni Johnsen hefur mótmælt því að hægt sé að færa húsið á fyrirhafnarlítinn hátt og segir að það muni kosta stórfé í viðbót við það sem þegar hefur farið í bygginguna.
Kirkjuþing 2012 lýsir þeim vilja að Þorláksbúð verði flutt vestur fyrir og niður fyrir Skálholtsdómkirkju. Þorláksbúðarfélaginu skal verkið falið jafnframt því að leita fjármögnunar á því.
Greinargerð.
Þorláksbúð er þeim sem höfðu forgöngu um byggingu hennar til mikils sóma og þá ekki síður smiðunum sem sáu um handverkið. Það er bara einn galli á gjöf Njarðar: Hún er reist á röngum stað og þar er væntanlega fyrst og fremst við skipulagsyfirvöld að sakast. Jafnmikið lýti og hún er á ásýnd Skálholtsstaðar nú yrði hún staðarprýði vestan við og neðan við kirkjuna. Vitaskuld kostar flutningurinn en þetta er betri kostur en að rífa Þorláksbúð. Annað hvort þarf að gera ella verður Þorláksbúð fyrst og síðast dæmi um skipulagsmistök og þeir sem að henni stóðu Þorláksbúðarfélagið og kirkjuyfirvöld eiga annað og betra skilið. Þorláksbúðarfélagið hefur sýnt sig í því að vera öflugt félag og er engin goðgá að fela því flutninginn.
Á kirkjuþingi í ár var eftirfarandi tillaga borin fram af Baldri Kristjánssyni en henni var hafnað:
Bjarna þáttur Harðarsonar
Einkennileg er aðkoma Bjarna Harðarsonar bóksala á Selfossi að þessu máli. Hann reit á dögunum grein í Morgunblaðið þar sem hann tekur upp hanskann fyrir bygginguna og hvernig að henni var staðið. Hann segir m.a. að Árni Johnsen megi fullvel njóta sannmælis fyrir gott framtak í Skálholti og uppbygging staðarins á ekki að líða fyrir pólitískan pirring.
Áður hafði Bjarni lýst hug sínum til þessa framtaks með þessum orðum, enda er hann þjóðkunnur fyrir trúleysi.
Á þeim tíma sem bændur greiddu afgjald af jörðum sínum í búðinni, oftar en ekki í smjöri, þá bjuggu um 200 manns í Skálholti. Það þurfti því mikla útsjónarsemi, bæði í jarðyrkju og skattheimtu til að brauðfæða allt þetta fólk. Bændur voru nánast í ánauð, þetta var einskonar miðaldalén og talið er að sjálfstæði leiguliða frá Skálholti hafi verið minna en annarra leiguliða, enda þurfti bæði að hafa af þeim fé, yrkja jarðir þeirra og nýta vinnuaflið ef Skálholt átti að geta dafnað. En það er umhugsunarefni af hverju þessi tollheimtuskáli eða peningatankur síns tíma var hafður svona nærri kirkjunni sjálfri, þegar veraldlegt hlutverk hans er skoðað. Það er hægt að ímynda sér að það hafi verið einskonar þjófavörn, menn hafi síður lagt til til atlögu svona nærri guðshúsinu.
En sé það meining Bjarna að fólk sé pirrað út í Árna Johnsen vegna aðkomu hans að þessari byggingu á pólitískum forsendum, þá er Bjarna heldur betur farið að förlast. Ef horft er í aðkomu Árna að þessu máli er MUN LÍKLEGRA að pirringurinn í fólki sé tilkominn af öðrum ástæðum.
Lausnin
Það er því aðeins ein lausn á þessu máli í sjónmáli. Rífið húsið sem annars verður aðeins minnisvarði um öll leiðindin sem þegar hafa orðið í tengslum við það og er í engu samhengi við það sem lagt var upp með.