Færsluflokkur: Dægurmál
24.7.2009 | 20:04
"Ég nenni þessu ekki lengur"
Ég skrapp í dag niður á Austurvöll, aðallega til að forvitnast um hverjir væru þar mættir til að mótmæla og hverju þeir væru að mótmæla. Sá litli hópur mótmælenda sem þarna var mættur til að berja og blása var heldur sundurleitur.
Ég hlustaði t.d á tvo mótmælendur standa í hvössum orðahnippingum um hvort réttara væri að leysa upp Borgarahreyfinguna eða Samfylkinguna. Síðan reyndi þekktur andstæðingur ESB að espa fámennið til að hrópa í takt gamla slagorðið "óhæf ríkisstjórn". Það tókst illa.
Það má segja að andi þessara mótmæla í dag hafi krystallast í orðum eins ötulasta mótmælenda síðasta vetur. Þegar hann gekk í burtu heyrði ég hann segja; - "Ég nenni þessu ekki lengur". - Heiðarlegur eins og venjulega.-
Miklu fleiri af þekktum mótmælenda-andlitum sátu kaffihúsunum í kringum völlinn og skeggræddu um landsins gagn og nauðsynjar. Þeim virtist vera ljóst að það sem var að gerast inn í þinghúsinu var eitt stórt sjónarspil. Það er löngu búið að ákveða að Icesave samningarnir verða samþykktir. Að láta sem um það sé einhver ósvissa er bara æfing í fánýtileika. Í mesta lagi verða settar við hann einhverjar viðbætur um upptökuþætti til að reyna að réttlæta sýndarmennskuna fyrir þjóðinni.
Það læddist að mér sá grunur að þeir sem standa í mótmælunum viti þetta líka og þau séu orðin hluti af sjónarspilinu.
Dægurmál | Breytt 27.7.2009 kl. 07:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
21.7.2009 | 00:59
Hver eru þín "Sjö undur veraldar"?
Fyrir skömmu voru tilkynnt úrslit í alþjóðlegri atkvæðagreiðslu sem fór fram um það hver skyldu teljast hin nýju "sjö undur veraldar". Yfir 100 milljón atkvæði voru send inn til svissnesku stofnunarinnar sem stóð fyrir kosningunni en úrslitin voru samt nokkuð fyrirsjáanleg.
Í gegnum tíðina hafa verið gerðir nokkuð margir listar yfir "sjö undur veraldar" og þeim jafnvel skipt upp í tímabil, fornaldar undur, miðalda undur og nútíma undur. Ég ætla ekki að elta ólar við þá lista hér en rétt er að geta hinna sjö upphaflegu undra.
Af hinum fornu sjö undrum veraldar, er aðeins eitt enn uppistandandi en það er píramídinn mikli í Giza. Hin voru, eins og flestir vita; hinir svífandi garðar Babýlon, styttan af Seifi á Ólympíu, hof Artemiar í Ephesus, grafhvelfing Halikarnassusar, risastyttan við innsiglinguna á Rhodes og vitinn við Alexandríu.
Hin nýju undur sem urðu fyrir valinu í umgetinni kosningu voru; Chichen Itza á Yucatán-skaga í Mexikó, Kristsstyttan yfir Rio de Janeiro í Brazilíu, Colosseum í Róm, Kínamúrinn, Machu Picchu í Perú, Petra í Jórdaníu, Taj Mahal á Indlandi og síðan píramídinn í Giza.
Ég verð að viðurkenna að þessi kosning fór alveg framhjá mér en ég sé á þessum úrslitum að mín atkvæði hefðu hvort eð er farið ofan garð og neðan.
Þau hefðu verið einhvern veginn svona;
Steinkrukkusléttan í Norður Laos.
Lótusinn í Nýju Delhí á Indlandi.
Savuka gullnáman í suður Afríku.Hún er 4 km djúp.
Tunglferja Apollós 11.
(Troll A) Tröllið A, norski olíuborpallurinn.
Nahal Mearot hellarnir á Karmel fjalli í Ísrael.
Svissneski öreindahraðallinn
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.7.2009 | 20:09
Blindandi bros á hverju götuhorni
Ef til vill er það góða veðrið sem gerir sem gerir búmannsins-barmið dálítið hjáróma. Í myrkri og slyddu eða éli, hljóma dómsdagskenningar sennilegar.
En það er einhvern veginn erfitt að trúa því að allt sé á heljarþröm þegar blindandi bros mæta þér á hverju götuhorni og hægt er að ganga að sólskyni og yl sem gefnum hlut á hverjum degi.
Auk þess er landið er fullt af túristum sem keppast við að fylla aftur gjaldeyrishirslurnar og sjórinn er vaðandi í makríl sem einnig er spáð að verði okkur drjúg búbót. Þetta gerist þrátt fyrir að yfir þinghúsinu, nákvæmlega þar sem danska kóngskórónan snertir himininn, hangi kolsvart Icesave ský.
Í samræðum við ferðamann frá bresku eyjunni Mön í Írska hafinu (Isle of Man) heyrði ég skrýtið sjónarmið. Hann sagðist hafa tapað talverðu fé sem hann hafði lagt inn í peningastofnun í eigi gamla Kaupþings sem hafði hreiðrað um sig á heimaey hans.
Hann var samt ekki búinn að gefa upp alla von um að fá sitt til baka þegar tímar liðu fram, en ef það gerðist ekki, ætlaði hann að eyða því sem hann ætti eftir á Íslandi. Það færi vel á því, sagði hann, að við (Íslendingar) næðum þá restinni af sparifé hans af honum og hann fengi í staðinn að uppfylltan næstum ævilangan draum um að koma hingað og njóta hinnar einstæðu náttúru landsins og söguarfleifðar sem teygði sig til heimalands hans.
Á Isle of man er t.d. að finna "Þingvöll" eins og hér enda gerðu forfeður okkar sig heimakomna á eynni fyrir 1000 árum og margir Manverjar rekja ættir sínar aftur til víkinga. Þingið þeirra "Tingwald" hefur starfað óslitið frá 978.
Þrátt fyrir augljósa íroníuna í orðum hans, var hann alls-ekki gramur út í íslensku þjóðina. Mér þótti þessi maður verðskulda titilinn Íslandsvinur og hefði veitt honum hann þarna og þá, ef ekki væri búið að gjaldfella þetta virðingarheiti með því að klína því á næstum alla útlenda framagosa sem heimsótt hafa landið undanfarin ár í þeirri trú að brosin björtu væru óræk merki og boð um bólfarir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.6.2009 | 19:16
La Tomatina
Fjölmennasti matarbardagi í heimi
Í Buñol á Valensíu á Spáni er á hverju ári efnt til fjölmennasta matarkasts í heimi. Tugir þúsunada Þátttakenda koma víða að til þessa smábæjar til að taka þátt í hinu fræga tómatakasti sem fer farið hefur fram í þessum síðasta miðvikudag í ágúst mánuði s.l. sextíu ár.
Hvernig hófst La Tomatina
La Tomatina er ekki trúarhátíð. Trúlega varð tómatakastið að sið vegna atviks sem átti sér stað á bændahátíð sem haldin var á miðvikudegi í ágúst árið 1945. Á sýningunni var skrúðganga (Gigantes y Cabezudos) risa og stórhöfða. Krakkahópur sem tók þátt í skrúðgöngunni velti einum risanna um koll sem varð við það eitthvað hvumpinn og byrjaði að slá til allra sem komu nálægt honum eftir að hann komst aftur á lappirnar. Krakkarnir gripu þá tómata af nálægu söluborði og köstuðu í risann.
Tómatabardaginn stendur yfir í eina klukkustund. Á meðan að honum stendur er meira en 100 tonnum af tómötum kastað en í bardaganum eru allir á móti öllum. Vörubílar aka tómötunum að torginu þar sem aðal-bardaginn fer fram og brátt flýtur allt í rauðum tómatsafa. Allir eru skotmörk og allir geta tekið þátt.
Bardagareglurnar
- Ekki koma með flöskur eða aðra hluti sem geta valdið slysi.
- Bannað er að rífa boli annarra
- Kreista verður tómatana áður en þeim er kastað svo þeir meiði engan.
- Passið ykkur á vörubílunum sem koma með tómatana
- Hættið að kasta tómötum um leið og sírenan heyrist í annað.
- Ráðlegt er að vera í reimuðum skóm, gömlum fötum og með sundgleraugu til að vernda augun.
Vefsíða Tomatina Festival : www.tomatina.es
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.6.2009 | 17:27
Hjátrú er hættuleg náttúrunni
Nashyrningar í Simbabve eru að verða útdauðir. Talið er að fjöldi þeirra sé nú aðeins á milli 4-700 dýr. Án róttækra aðgerða munu þeir verða útidauðir í landinu einhvern tíman á næstu fimm árum. Ásókn veiðiþjófa í nashyrningahorn er haldið uppi af háu verði sem hægt er að fá fyrir hornin bæði í austurlöndum nær og fjær. Einkum eru Það Kínverjar sem ásælast hornin. Í Kína eru þau eru mulin niður í duft sem Kínverjar trúa að geti læknað ýmsa kvilla. Fyrir eitt horn fæst allt að ein milljón króna á svartamarkaðinum í Kína.
Samkvæmt kínverska sextándu aldar lyfjafræðingnum Li Shi Chen, getur nashyrningshorn læknað snákabit, skyntruflanir, hitasótt, höfuðverki, kartneglur, ælupestir, matareitrun og andsetningu. (Ekki samt kyndeyfð eins og margir halda.)
Til eru allt að þrjú þúsund ára gamlar heimildir um margvíslega notkun nashyrningshorna. Í grískri goðafræði er sagt að þau hafi þá náttúru að geta hreinsað vatn. Í forn-Persíu voru hornin notuð í bikara sem áttu að hafa á eiginleika að geta numið eitur í víni. Sú trú var einnig viðtekin við margar konunglegar hirðar í Evrópu fram á nítjándu öld.
Nashyrningshorn eru aðallega gerð úr keratíni, sem er eitt algengasta efni í heimi. Hár og neglur eru gerðar úr því efni, hófar, skjaldbökuskeljar og fuglsgoggar. Það ætti því að gera alveg sama gagn að naga á sér neglurnar og að gleypa malað nashyrningshorn.
Þessi hjátrú tengd nashyrningshorninu er gott dæmi um hvernig hjátrú og fáfræði í bland við öfgar fátæktar annarsvegar og ríkisdæmis hinsvegar, er náttúrunni hættuleg.
Veiðiþjófar í Simbabve nota mikið kínversk deyfilyf til að fella dýrið. Hljóðlausar loftbyssur eru notaðar til að skjóta því í dýrið svo erfitt er að standa þá að verki. Eftir að hafa höggvið hornin af með exi, skilja þeir nashyrninginn eftir meðvitundarlausan þar sem hann deyr að lokum úr ofhitun. Kjötið af honum er ekki hægt að nýta vegna eitursins í kjötinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Björgólfur Guðmundsson formaður og aðal-eigandi kattspyrnufélagsins West Ham á Englandi og varformaðurinn Ásgeir Friðriksson hafa sagt af sér. Rekstur klúbbsins verður framvegis í höndum CB Holding sem er að stærstum hluta í eigu Straums. Nýr stjórnarformaður verður Andrew Bernhardt, sem er einn af bankastjórunum hjá Straumi.
Straumur var eins og kunnugt er yfirtekin af ríkinu (Fjármálaeftirlitinu) og þess vegna er West Ham allt í einu orðin "eign" íslensku þjóðarinnar.
Björgólfur sem er sagður skulda persónulega um 300 millj. punda var hryggur mjög þegar hann skildi við og sagði; "Ég vil þakka öllum á Upton Park fyrir ógleymanleg ár. Þar sem auðna mín hefur breyst verð ég að segja af mér úr stjórn félagsins. Ég geri það með miklum söknuði en ég er sannfærður um að eigendaskiptin og ný stjórn West Ham mun verða félaginu til framdráttar. Ég mun ætíð verða West Ham aðdáandi og vonast til að koma hingað oft aftur"
Fjárfestingarfélagið Straumur var stofnað árið 2001 upp úr Hlutabréfasjóðnum og VÍB. Straumur keypti í framhaldi af því Brú fjárfestingar og fjárfestingabankann Framtak og fékk fjárfestingabankaleyfi árið 2004.
Í ágúst 2005 var ákveðið í framhaldi af stjórnarfundum Burðaráss, Straums, Eimskipafélags Íslands og Landsbanka Íslands að sameina Straum og Burðarás. Úr þessu varð stofnun Straums-Burðaráss í október 2005, stærsta fjárfestingarbanka á Íslandi.
Höfuðstöðvar Straums eru í Borgartúni 25, Reykjavík.
Fjármálaeftirlitið beitti neyðarlögunum á Straum Burðarás þann 9. Mars 2009 til að bjarga tugmilljarða innistæðum sem Íbúðalánsjóður og lífeyrissjóðirnir áttu í bankanum og yfirtók rekstur hans, vegna þessa féllu hlutabréf í félaginu niður um 98,83% þann sama dag í Kauphöll Íslands.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.6.2009 | 00:07
Arðsömustu viðskiptin í heiminum í dag
![]() | 10 stærstu vopnaframleiðendur ![]() Boeing $30.5bn BAE Systems $29.9bn Lockheed Martin $29.4bn Northrop Grumman $24.6bn General Dynamics $21.5bn Raytheon $19.5bn EADS (Vestur Evrópu) $13.1bn L-3 Communications $11.2bn Finmeccanica $9.9bn Thales $9.4bn Skrá: Sipri. Allar tölur frá 2007. |
Stærsta og arðsamasta viðskiptagreinin í heiminum í dag er vopnaframleiðsla. Það sem drífur iðnaðinn áfram eru styrjaldir og óöryggi þjóða heimsins. Heimskreppan hefur ekki haft nein samdráttaráhrif á þá iðju mannkynsins, þvert ámóti.
Útgjöld þjóða heimssins til hernaðar óx 4% árið 2008 og hafa aldrei verið hærri eða sem nemur; $1,464bn (£914bn) - sem er 45% hækkun síðan 1999, samkvæmt nýrri skýrslu Sipri, sem er alþjóðleg rannsóknarstofnun sem hefur aðsetur í Stokkhólmi. (Stockholm International Peace Research Institute) Athugið að miðað er við breskar bn.
Heimskreppan hefur enn ekki haft nein áhrif á stærstu hergagnaframleiðendur heimsins, hvorki á tekjulindir þeirra, arð, eða pantanir" segir Sipri.
Þá jókst kosnaður við friðargæslu, sem einnig er tengd ófriði og vopnaframleiðslu, jókst um 11%.
Þar vegur þyngst ástandið í Darfur og Kongó.
Annað met sem slegið var á árinu 2008 en það var fjöldi alþjóðlegra friðargæsluliða sem náði 187,586
![]() | 10 þeirra þjóða sem mestu eyða. ![]() USA $607bn Kína $84.9bn Frakkland $65.74bn Bretland $65.35bn Rússland $58.6bn Þýskaland $46.87bn Japan $46.38bn Italía $40.69bn Saudi Arabía $38.2bn Indland $30.0bn Skrá: Sipri. Allar tölur frá 2008. |
Samtals seldu 100 stærstu vopnasalarnir fyrir $347bn. árið 2007.
Langflest þeirra fyrirtækja eru annað hvort evrópsk eða bandarísk, 61% frá USA og 31% frá Evrópu.
Síðan 2002, hefur söluandvirði vopna í heiminum hækkað um 37%. Í Stjórnartíð George W Bush var stöðugur uppgangur sem fylgt var eftir af stöðugleika árin 1990- 2000.
Bandaríkin eyða allra þjóða mest í hergögn og styrjaldir eða 58% af heildareyðslunni.
Í Írak óx hergagnaeyðslan 133% á árinu 2008 miðað við 2007 en þeir kaupa vopn sín að mestu leiti frá Bandaríkjunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2009 | 01:02
Sterkar konur skilja eftir stóra sogbletti.
Þessi setning er höfð eftir Madonnu.
Hér á eftir fara nokkur fleyg ummæli sem frægt fólk hefur haft um ástina og kynlífið og samskipti kynjanna.
Konur geta gert sér upp fullnægingu en karlmenn geta gert sér upp heilu samböndin. Sharon Stone
Ég vildi að ég fengi jafn mikla athygli í rúminu og ég fæ í blöðunum. Linda Ronstadt.
Kærastan mín hlær alltaf þegar við elskumst, alveg sama hvað hún er að lesa. Steve Jobs.
Einmitt, orðið skilnaður kemur úr Latínu og merkir þar að slíta af manni kynfærin í gegnum seðlaveskið. Robin Williams
Ég hef enn ekki heyrt karlmann kvarta yfir að þurfa að sameina starfsferil og hjónaband. Gloria Steinem
Ég veit að það hljómar einkennilega komandi úr mínum munni, en ég er orðin þeirrar skoðunar að kynlíf sé aðeins til þess að fjölga mannkyninu. Eric Clapton
Það er tími til að vinna og tími til að njóta ásta. Til annars er engin tími. Coco Chanel
Allt sem er á annað borð þess virði að gera það, á að gera hægt. Mae West
Ást er ómótstæðileg þrá eftir að vera ómótstæðilega þráður. Mark Twain
Konur þurfa ástæðu til að hafa kynmök, karlmenn þurfa stað. Billy Crystal
Í stað þess að gifta mig aftur ætla ég að finna konu sem mér líkar ekki við og kaupa handa henni hús. Rod Stuart
Ég er svona góður elskhugi af því að ég æfi mig mikið einn. Woody Allen
Að vera sexý er 50% það sem þú hefur og 50% það sem fólk heldur að þú hafir. Sophia Loren
Kannski að þetta marki tímamót á starfsferli mínum. Paris Hilton á hinu fræga sex videoi sínu.
Er þetta byssa sem þú ert með í vasanum eða ertu bara svona glaður að sjá mig? Mae West
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2009 | 11:28
52 mönnum bjargað um borð í íslenskt skip úr sökkvandi kafbát
Ég starfaði í Vestmannaeyjum um árabil við leiðsögn hjá Ferðaþjónustu Páls Helgasonar. Til Eyja komu m.a. margir þýskir hópar, mikið eldra fólk sem komið var á eftirlaun. Þrátt fyrir undrin öll sem Eyjarnar hafa upp á að bjóða, komust Þjóðverjarnir mest við að heyra söguna af því þegar Skaftfellingur VE-33 bjargaði 52 mönnum af áhöfn þýsks kafbáts 19. ágúst árið 1942. Skipið var þá gert út af Helga Benediktssyni föður Páls, en sjálfur var Páll meistari í að segja söguna þannig að ekki var þurr hvarmur í rútunni þegar komið var að flaki skipsins þar sem það stóð í gamla slippnum Í Eyjum. Á vefsíðunni Heimaslóð er að finna greinagóða lýsingu af þessum atburðum og fer hún hér á eftir í tilefni dagsins að sjálfsögðu.
Aðfaranótt 19. ágúst árið 1942, rétt eftir miðnætti, hélt Skaftfellingur úr höfn í eina af sínum fjölmörgu ferðum til Fleetwood, að þessu sinni með farm af ísfiski. Páll Þorbjörnsson, skipstjóri, og Andrés Gestsson, háseti, áttu vakt aðfaranótt 20. ágúst. Mikil bræla var og austanátt þegar bandarísk sjóflugvél flaug yfir Skaftfelling í tvígang, rétt fyrir kl. fjögur að morgni, og gaf þeim morse-merki. Andrés varð var við merkið og lét skipstjórann vita, en ekki tókst þeim að ráða úr skilaboðunum. Þeir sáu aftur á móti mjög fljótlega að eitthvað var í sjónum framundan. Þeir töldu fyrst að um björgunarbát með segl væri að ræða, en svo sáu þeir að fyrirbærið virtist stinga sér í ölduna líkt og skip gera - eða kafbátar. Enda var sú raunin að um þýskan kafbát var að ræða. Skipverjar kafbátsins voru þá á þilfari hans, og veifuðu þeir til Skaftfellings með rauðum fána. Aðrir skipverjar voru ræstir, fokkan (lítið segl) var dregin niður og íslenskur fáni dreginn að húni. Fyrstur upp á dekk af þeim sem voru á frívakt, var fyrsti vélstjóri skipsins, Jóhann Bjarnason, en Páll skipaði honum að hlaða byssurnar. Skaftfellingur var búinn þremur vopnum: 5 skota riffli og 90 skota vélbyssu, auk skammbyssu sem skipstjórinn hafði.
Þegar skipverjum Skaftfellings varð ljóst að skotið hafði verið á kafbátinn, þannig að hann gat ekki kafað og hann orðinn verulega laskaður, þá fóru þeir að huga að því að bjarga skipverjum, sem voru milli vonar og ótta, um borð í Skaftfelling. Reynt var fyrst að slaka til þeirra björgunarfleka sem átti að geta borið 10-12 manns, en flekinn slitnaði frá Skaftfellingi. Á meðan þeir reyndu að finna nýja leið til þess að ná Þjóðverjunum um borð byrjuðu þeir að stinga sér í sjóinn og synda að Skaftfellingi. Aðstæður við björgunina breyttust þá á svipstundu, og menn kepptust við að hífa Þjóðverjana um borð. Reynt var í fyrstu að leita á mönnum og afvopna þá ef með þyrfti en eftir því sem leið á björgunina varð það erfiðara.
Skipherra kafbátsins var síðastur um borð í Skaftfelling, en hann og tveir aðrir sökktu kafbátnum áður en þeir fóru frá borði, svo að hann endaði ekki í óvinahöndum. 52 skipverjum var bjargað um borð í Skaftfelling, en sögum ber ekki saman um, hvort um borð hafi upphaflega verið 54 eða 60. Samkvæmt skipaskrá kafbátsins voru sextíu menn um borð, en samkvæmt vélstjóra þýska kafbátsins, Reinhart Beier, voru eingöngu tveir sem lokuðust inni í skipinu þegar það sökk. Vandast málið enn frekar þegar athugað er að samkvæmt frásögn Andrésar Gestssonar var að minnsta kosti einn maður gestkomandi í kafbátnum:
- [...] Ég man eftir því að annar þeirra var flugmaður sem kafbátsmenn höfðu bjargað. [...]
Samkvæmt skráningum voru þeir tveir sem létust, Kurt Seifert og Karl Thiele.
Þjóðverjunum var komið um borð í tvo breska tundurspilla sem stöðvuðu Skaftfelling á för sinni. Þjóðverjarnir voru fluttir til Reykjavíkur og þeir hafðir þar í kanadískum fangabúðum um hríð.
U-464
Kafbáturinn sem sökk þessa nótt, 20. ágúst 1942, var þýskur U-kafbátur (Underseeboot) af gerð XIV, nefndur U-464. Eingöngu tíu slíkir kafbátar voru smíðaðir, en þeir fengu viðurnefnið mjólkurkýr (milchkuh). Þeirra hlutverk var að flytja hergögn og vistir til kafbáta af gerð VII og IX. Fyrsta mjólkurkýrin var U-459, en U-464 var án efa sú skammlífasta. Bygging á bátnum hófst þann 18. mars 1941 og var sjósetningin þann 30. apríl 1942. Skipstjóri bátsins var kapteinleutenant Otto Harms.
U-464 fór tvær ferðir á sinni tíð, en fyrri ferðin, sem stóð frá 30. apríl 1942 til 1. ágúst 1942, var æfingaferð með 4. flotadeildinni, sem var æfingafloti fyrir kafbáta. Seinni ferðin hófst þann 1. ágúst 1942 og stóð til 20. ágúst, þegar sjóflugvél af Catalina-gerð frá bandarísku VP-73 flughersveitinni varpaði fimm djúpsprengjum á hann. Djúpsprengjurnar löskuðu skipið að ofanverðu þannig að það gat ekki kafað, en þó hefði skipið átt að geta siglt áfram á um 8 sjómílna hraða (hann komst upphaflega á um 10 sjómílna hraða).
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.6.2009 | 14:45
Hafdís Huld í heimsókn
Það kemur fyrir að maður rekst á Íslendinga á förnum vegi hér í Bath, en það gerist ekki oft. Síðast voru það meðlimir hljómsveitarinnar Trabant sem voru á leiðinni að spila á Glastonbury hátíðinni fyrir tveimur árum að mig minnir.
Nú sé ég að Hafdís Huld Þrastardóttir, söngkona ætlar að halda hér í borg litla tónleika n.k. fimmtudag. Litla, segi ég af því að staðurinn , The Porter, þar sem hún hyggist halda tónleikana er fremur lítill. Hann er samt mjög vinsæll og vonandi fær Hafdís Huld þar góðar móttökur.
Ég ætla alla vega að skella mér þótt ég þekki tónlist hennar lítið sem ekkert frá því hún hætti í GUS GUS. Þarna verður þá bót á því ráðin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)