Færsluflokkur: Dægurmál

Til hamingju Jón Ólafsson

Jon_Olafsson_athafnamadur__jpg_280x800_q95Það er fátt sem fær mig til að brjóta þá reglu mína að blogga ekki við fréttir. Hér verður gerð undantekning. Góðu fréttirnar frá Íslandi eru of fáar þessa dagana til að sleppa þessari.

Íslenska vatnið sem á eftir að verða helsta auðlind landsins er að gera það gott á erlendum mörkuðum og brautryðjandi i markaðssetningu þess er hinn umdeildi kaupsýslumaður Jón Ólafsson.

Jón Ólafsson skólabróðir minn og æskufélagi, var á sínum tíma nánast hrakinn úr landi, sakaður um skattsvik og fleira sem síðan reyndust tómir órar. Hann var borin þungum sökum af ýmsum fyrirmönnum í landinu og neyddist á endanum til að verja hendur sínar fyrir dómstólum. Þau mál féllu öll honum í hag.

Það er kaldhæðni örlaganna að svo til einu góðu fjármálfréttirnar frá Íslandi þessa dagana, skuli vera af fyrirtæki sem Jón veitir forystu , á meðan að þeir sem reyndu að koma hinum í koll á sínum tíma, leika nú hlutverk hirðfífla í fjölmiðlum landsins.

 


mbl.is Íslenskt vatn á bandarískum flugvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Michael Jackson bloggar hér!

mjb4Ég veit ekki af hverju Michael Jackson kaus að senda mér þetta skeyti og biðja mig um að þýða það og birta það hér á blogginu.

Kannski er það vegna þess að hann veit að ég er svo frjálslyndur. Það er næstum sama hvaða vitleysa er í gangi, ég lep það upp og birti eitthvað um það hér á blogginu, svo fremi sem mér finnst fyrirsögnin geta verið flott.  

Eða kannski er það vegna þess að ég var aldrei yfir mig hrifinn af Jackó þótt mér fyndist hann góður sjómaður og nú er hann að gera lokatilraunina til að vinna mig á sitt band.

Alla vega ætla ég að verða við bón hans í þetta sinn og birta skeytið frá honum sem er það fyrsta sem hann hefur sent frá sér, eftir því sem ég best veit, eftir að hann lést.

Kæru vinir.Bandit

pillar_22690_lgAllar fréttir um að ég sé enn í tölu lifenda eru stórlega ýktar. Það er alveg rétt sem fram hefur komið í fréttum að ég sofnaði og hef ekki vaknað aftur.

Ástæðan fyrir að ég sendi þetta skeyti er að mig langar að koma sérstökum skilaboðum til ykkar.

En fyrst langar til að koma því á framfæri við alla íslenska aðdáendur mína og bara alla Íslendinga að gefast ekki upp þótt móti blási. Ég vil að þeir viti að þeir eiga alla mína samúð á þessum síðustu og erfiðustu tímum.  Ég veit nefnilega af eigin reynslu hvað það er þegar manni finnst útlitið vera heldur dökkt. Ég hef fundið fyrir því á eigin skinni get ég sagt ykkur. Og hvernig það er að vera smáður af fólki sem ekkert þekkir mann. Ég var líka, eins og þið, neyddur til að borga háar upphæðir fyrir hluti sem ég átti enga sök á. Og ég veit svo sannarlega hvað það er að vera blankur en þykjast eiga peninga, eftir að hafa verið rændur af einhverjum fjármálaspekingum. Ég tala því af reynslu.

Þá eru það skilaboðin sem mér fannst að ég yrði að senda ykkur eftir að ég heyrði hversu hræðilegt útlitið hjá ykkur er eftir bankahrunið og allt það.

Þannig er að ég fann snemma fyrir því að mér líkaði ekki við andlitið á mér. Ég gekkst því undir all-margar lýtaaðgerðir.Blush  En það var alveg sama hversu mikið mér var breytt, ég var aldrei alveg ánægður með útlitið. Á endanum endaði ég uppi með ónýtt nef framan í mér og mér var sagt af lýtalækninum mínum að ef hann hreyfði meira við því mundi það detta alveg af.Sick

Nú veit ég að útlitið hjá mörgum ykkar á Íslandi er svart, eins og það var hjá mér og meira að segja svo slæmt hjá sumum ykkar að þið eruð að hugsa um að flýja land.

Það finnst mér óheillaráð. Útlitið er nefnilega ekki allt. Ég reyndi að flýja mitt útlit og endaði uppi næstum neflaus. 

Þið verðið að sætta ykkur við það sem þið eruð og vera ánægð með það sem Guð hefur gefið ykkur.

Vona svo að þið séuð dugleg við að hlusta á lögin mín og núna er mér alveg sama þótt þið halið þeim niður ólöglega. 

Bestu kveðjur

Michael Jackson Bandit

 


Tannburstaskeggið í miðnefsgrófinni

Hitlers skeggFrægasta og jafnframt óvinsælasta skegg veraldar er án efa það sem prýddi efri vör Hitlers. Til eru heimildir sem segja að Hitler, sem áður var með langt og endasnúið keisara-yfirvararskegg, hafi  þurft að skera það svo hann gæti sett upp gasgrímu, þegar hann barðist í fyrri heimstyrjöldinni.

Tannburstaskeggið, eins og þessi tegund skeggs er jafnan nefnd, sé það ekki af öðrum kostum kennt við Hitler eða Charly Chaplin sem notaði það sem hluta af gervi flækingsins sem hann var svo frægur fyrir að leika, varð afar vinsælt meðal verkamanna í Evrópu upp úr 1920. Það varð einskonar mótvægi við stórkallalegt keisara-skegg yfirstéttanna sem voru vel vaxborin og gátu skagað talvert út fyrir ásjónu viðkomandi. 

 sir_charles_chaplinsChaplin sagðist hafa upphaflega notað tannburstaskeggið vegna þess hversu kómískt það liti út á flækingum og væri auk þess nógu lítið til að andlitsgeiflur hans skiluðu sér á hvíta tjaldinu. Að sjálfsögðu notaði hann einnig skeggið í gervi einvaldsins í kvikmyndinni The Great Dictator sem hann gerði árið 1940.

Í Kína þótti tannburstaskeggið vera einkennandi fyrir japanska karlmenn, einkum í seinni heimstyrjöldinni.

Fáir fást til að bera slíkt skegg í dag, enda kom Hitler á það miklu óorði með því einu að bera það. Sá orðstýr virðist samt ekki aftra einvaldinum Robert Mugabe í Simbabve, því hann ber tannburstaskegg sem skorið er nákvæmlega til að passa ofaní miðnefsgrófina á honum.

robert-mugabe-2Miðnefsgróf er sem sagt lóðrétta dældin í efri vör beint undir miðju nefi á flestum mönnum. Hún var reyndar kölluð "efrivararrenna" í bók um líffæraheiti eftir Jóns Steffensen sem kom út árið 1956. Einhver lagði einnig til að hún yrði kölluð miðsnesisgróf en miðnefsgróf er best að mínu mati. 


Risabolinn Chilli

BigCowHann heitir Chilli og hann er stundum kallaður "góðlyndi risinn" sem er eins gott fyrir Töru Nirula, stúlkuna sem sér um hann og sést hér á meðfylgjandi mynd.  Chilli hefur orð á sér fyrir að vera ljúflingur og hvers manns eftirlæti.

Eigendur Chilli hafa haft samband við heimsmetabókina sem nú metur gögnin um það hvort nautið er mögulega það stærsta í Bretlandi.

Þetta svarthvíta frísneska ungnaut vegur meira en eitt tonn og er sex fet og sex tommur á hæð sem er einni tommu hærra en hæsta naut Bretlands er skráð í dag.

Þrátt fyrir stærð sína, hefur Chilli aldrei verið alinn á neinu nema venjulegu grasi og sælgæti endrum og eins.

bigcowBNS_468x341Tuddinn er næstum jafn hár og hann er langur sýndi þess snemma merki að hann mundi verða stór, en hann var skilinn eftir á tröppunum á  Ferne dýraskjólinu í Chard, Somerset, aðeins sex daga gamall ásamt systur sinni sem aldrei hefur stækkað neitt umfram aðrar kýr. 

bigcowBNS_468x334Núna, níu árum seinna er Chilli enn að stækka og trúlega fer hann langt yfir núverandi hæðarmet kusa í Bretlandi og jafnvel í heiminum en það á bolinn  Fiorino sem býr á Ítalíu og er sex fet og átta tommur á hæð.

Stærð Chilli varð fyrst áþreifanleg þegar einhver tók eftir því að hann passaði ekki lengur í básinn sem honum var ætlaður í fjósinu.

(Það minnir nokkuð á ástæðuna fyrir því að aldrei var farið út í að splæsa gen íslenska kúakynsins við það norska, því þótt það mundi eflaust auka mjólkurframleiðslu þess íslenska, mundi um leið þurfa að stækka alla bása í íslenskum fjósum og af því hljótast mikill kostnaður)


My daddy's famous

Kimberly_21Bkelly-osbourneBretar hafa löngum haft á orð á sér fyrir að vera höfðingjasleikjur og aðals-undirlægjur. Eitthvað virtist aðdáun þeirra og ást á eðalbornum (fyrir utan á konungsfjölskyldunni sjálfri, vitanlega) dvína á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, þegar popp og rokkstjörnur landsins voru sem flestar.  Þar áður voru öll blöð voru full af slúðri um lávarða og lafðir.

En nú hefur stigið fram ný kynslóð fyrir almúgann að dýrka, af einskonar eðalbornu lágstéttarfólki.

Í Bretlandi er gefin út fjöldi slúðurblaða sem hafa það eina hlutverk að stela því sem alvörublöð skrifa um kvikmynda, popp og tískustjörnur.

Að auki birta þau myndir af fólki sem langar mikið til að vera frægt og hangir á klúbbunum öll kvöld í von um að verða boðið í partý af einhverjum öðrum vonabí frægum. 

Þetta lið hringir sjálft í papparassana til að láta þá vita þegar einhver þriðju-blaðsíðu stelpan eða rokkstrákur í jeggings sem mætt hafa á staðinn gera sig líkleg til að láta sig hverfa, enda áhrifin af kókinu fljót að dvína og óvarlegt að taka áhættuna á því að láta nappa sig á klósettinu við að bæta á sig. Papparassarnir sem sjá um að mynda hyskið á leiðinni út úr klúbbnum og fá svo greitt 150 pund fyrir hverja nothæfa mynd.

Af þessum sökum hefur skapast mikil þörf fyrir fólk sem getur fyllt raðir b,c, og d lista liðsins, sem síðan er notað til að skreyta síður slúðurblaðana. Að verða frægur, sama fyrir hvað, er breski draumurinn. 

1peaches%20geldof%20wears%20a%20vestHluti af þessu fólki er þekkt undir skammstöfuninni MDF's, sem stendur fyrir; My daddy´s famous. Þeir sem tilheyra hópnum eru eins og skammstöfunin gefur til kynna, börn frægs fólks í Bretlandi.

 Krakkarnir hafa í raun ekkert til að bera sjálf þótt þeim sé auðvitað borgað fyrir að reyna sig við ýmsa iðju eins og að koma fram í partýum, stunda sýningarstörf eða dilla sér í diskóbúri og þykjast vera JD.

Það segir sig sjálft að dætur fræga fólsksins eru miklu eftirsóttari en synir þeirra. Stúlkur eins og Kelly Osbourne, dóttir Ozzy Osbourne, Peaches Geldof dóttir Bob Geldof, Lizzie Jagger, dóttir Mick Jagger og Jerry Hall, Kmberly Stewart, dóttir Rod Stewart og Alönu Hamilton sýningarstúlku, Coco Sumner, dóttir Sting, Ploce söngvara og einnig Calum Best sonur knattspyrnugoðsins George Best, eru meðal MDEffanna sem hafa af því talsverðar tekjur að sækja boð og partý snobbaðra plebba sem eiga nógu mikið af peningum til að greiða þeim 5000 pund fyrir að heiðra samkomuna í ca. 10 mín.


Eplið og aldingarðurinn í Kasakstan

appleBreskir vísindamenn við Oxford háskóla segjast hafa rakið litninga í eplum til eplatrjáa-lundar í Kasakstan. Í fyrirsögn fréttarinnar sem slegið er upp á forsíðu The Daily Telegrph í dag, segir; "Eplið rakið til "aldingarðsins Eden"."

Þótt að ótölulegur fjöldi listaverka sýni að ávöxturinn sem óx á tré skilningsins í miðjum Eden garðinum hafi verið epli og aragrúi sagna staðfesti að það var epli sem Eva tældi Adam til að bíta í að undirlagi höggormsins, er ekki minnst einu orði á epli í sögu Biblíunnar um "syndafallið". Aðeins er talað um "ávöxt".

Ástæða þessa er líka lega að orðið "epli" er talið komið af forn-indóevrópsku orði, abel. Sennilega er eplið fyrsti ávöxturinn sem maðurinn ræktaði og á mörgum tungumálum hefur heiti þess verið notað um ávexti almennt.

En bresku vísindamennirnir hafa komist að því að allar hinar þúsundir tegunda munn-epla sem til eru í heiminum megi rekja til einnar eplategundar; malus sieversiisem vex í hlíðum Tian Shan fjallgarðsins á landamærum Kína og Kasakstan. Þaðan telja þeir að fræ eplisins hafi upphaflega borist með björnum og breiðst síðan út um heiminn. Áður var talið að munn-eplið hefði þróast frá villi-eplum Malus communis.

Stjórnvöld í Kasakstan haf nú friðað fjallshlíðarnar þar sem aðeins örfáir eplatrjáa-lundir hafa varðveist eftir að Sovétríkin sem áður réðu landinu, létu eyða stærstum hluta þeirra í röð misheppnaðra tilrauna til að nýta landið undir landbúnað. 

Svo skemmtilega vill til að nafn fyrrum höfuðborgar Kasakstan er Almaty sem einmitt þýðir "Eplafaðir".


Keppni um bestu þýðinguna á "brain drain".

brain_drainMér stendur ekki ógn af atgervisflótta frá landinu enda margir sem hafa eða eru að fara meðaljónar eins og ég sjálfur. En ég er drulluhræddur við orðið spekileki. Það er nýja orðið yfir atgervisflótta sem þykir ekki nógu fínt lengur til að nota í fyrirsagnir.

Kannski er ég svona hræddur við þetta orð af því að það er svo líkt orðinu spikleki sem er eitt það hræðilegasta sem miðaldra karlmaður getur lent í með sjálfan sig og með öðrum.

En fyrst farið var að gera tilraunir til að endurþýða enska hugtakið "brain drain"  á annað borð, hljóta margir aðrir möguleikar að koma til greina.

Til dæmis heilaniðurfall, gáfuráf, vitsog, menntaflutningar eða þekkingarþot.

Nú er um að gera lesendur góðir að hleypa sellunum á flug og koma með fleiri tillögur. MBL.IS hefur gefið boltann og hann er hjá ykkur.

Saman getum við svo valið bestu tillöguna sem við sendum svo til MBL.IS svo þeir þurfi ekki að notast lengur við orðskrípi eins og spekileki.


"altzheimer" Hvað finnst þér?

rinn_Bertelsson__jpg_280x800_q95Ég hef verið að velta fyrir mér bréflegum samskiptum á milli þingfólks Borgarhreyfingarinnar síðustu daga. Það er deginum ljósara að það hentar ekki öllum að vera í pólitík. Það hentar til dæmis ekki fólki sem er í eðli sínu vammlaust og heiðarlegt. Um leið og heiðarlegt fólk fer að skipta sér að hefðbundinni pólitík fer allt handaskolum.

Það þarf að læra að tala illa um fólk og reyna að læra að fara með hálfkveðnar vísur, byrja að fela fyrir ákveðnu fólki ákveðna hluti og fullvissa sig um að aðrir heyri þá. Það þarf að læra að makka og snakka, rægja og sverta án þess að það sé hægt að rekja ósóman til þess og allt þetta tekur svo lítinn tíma að læra. Þess vegna gerir heiðarlega fólkið í vissan tíma þau mistök að halda sig að hálfu við heiðarleikann um leið og það tekur upp óheilindin.

Á þessu flaskaði góður kunningi minn ekki alls fyrir löngu. Hann ýtti á vitlausan takka og bréf með einhverju ómerkilegu blaðri fór út um allt. Hann sá þá strax að pólitíkin hentaði honum ekki og sagði af sér þingmennskustarfinu sem hann hafði álpast til að taka að sér. 

Tilraun Borgarahreyfingarinnar til að fara aðrar og heiðarlegri leiðir í pólitík sýnir og sannar svo að ekki verður um villst, að pólitík er ofurseld slæmum eiginleikum. Hún er í eðli sínu afl sem sundrar í stað þess að sameina og innan hennar gildir grimm samkeppni í stað samhjálpar. Hún þrífst á lygum og rógi í stað sannleika og þeirrar nauðsynjar að horfa til góðra eiginleika í fólki.

( Ef einhver velkist í vafa um að þetta sé sannleikur, ætti sá hinn sami að eiga ýtarlegt samtal við Árna Johnsen um þetta  :)

borgarhreyfinginÞað valdist gott fólk til að sitja í þessum fjórum sætum sem Borgarhreyfingin vann sér inn fyrir á þinginu í síðustu kosningum. Samt leið ekki á löngu þangað til að það gerði heiðarlega tilraun til að selja atkvæði sitt.  Pólitísk hrossakaup ganga illa fyrir opnum tjöldum, enda misstu margir álit á þingfólkinu fyrir að reyna þetta.

 Sumir misstu álit sitt á þeim fyrir það hvað þau voru vitlaus að reyna þetta yfir leitt, aðrir fyrir það að reyna þetta fyrir opnum tjöldum og hafa ekki vit á að fela þetta eins og aðrir flokkar gera þegar þeir díla um atkvæði sín. Þráinn einn þráaðist við og kallaði spaða spaða eins og þeir segja um sannleikselskendur í USA og eftir það urðu til einhverjir "þremenningar" og stefna þeirra var að koma þráa manninum einhvern veginn úr þingflokknum.

Næst kemur þetta ótrúlega bréf frá Margréti um að Þráinn væri hugsanlega með "altzheimer" á byrjunarstigi. Margrét heldur greinilega að Katrín sé læknir og spyr hana; Hvað finnst þér? Margréti finnst líka voða mikilvægt að sá sem stakk því að henni að Þráinn væri kannski með "altzheimer" væri vel inn í málum hreyfingarinnar, því hún tekur það sérstaklega fram í bréfinu. Þetta kann að hafa farið fram hjá mörgum sem lásu bréfið en hefur lykilþýðingu. Ef viðkomandi hefði ekki verið "inn í málum hreyfingarinnar" hefði hann ekki gert sér ljóst hversu viðbrögð Þráins og samskipti hans eftir hrossakaupstilraunina voru mikið svona "altzheimer" leg en ekki vegna þess að Þráinn vildi reyna að standa við orð sín og skoðannir.

Margrét gerir þarna sömu byrjandamistökin og allt heiðarlegt fólk sem vill verða pólitíkusar gerir. Hún ýtir á vitlausan takka á tölvunni sinni.

Þeir sem hafa áhuga á og nennu til að kynna sér ferlið í þessum bréfskriftum Þingfólks Borgarahreyfingarinnar geta lesið þau hér;

 

Takk Katrín fyrir að vera til. Eitt sem mig langar að ræða við þig. Ég hef miklar áhyggjur af Þráni og þar sem þú þekkir hann vel og þekkir e.t.v. betur inn á fjölskyldu hans eða forssögu en ég langar mig að bera þetta upp við þig. Kannski er það ímyndun að þú sért betur inn í hans málum en við en - það má alla vega reyna. Við höfðum áhyggjur af því snemma í sumar að hann væri að síga í eitthvert þunglyndi en svo virtist það brá af honum. Ég ræddi við sálfræðimenntaðan mann í dag sem er vel inni í málum hreyfingarinnar og hann grunar að Þráinn sé með altzheimer á byrjunarstigi. Hann tók það skýrt fram að þetta væri einungis kenning og auðvitað hefur hann ekki rannsakað Þráinn. Ég hafði ekki leitt hugann að slíku þótt mér fyndist þetta skýra margt. Hvað finnst þér? Kv., MT

Kæri Þráinn,

Þar sem ég fékk ekki tækifæri til að tala við þig í dag langar mig að skrifa þér nokkrar línur.

Ég veit ekki hvað þér barst til eyrna í dag en grunar að það sé ekki nákvæmlega það sem frá mér kom. Á föstudaginn skrifaði ég Katrínu tölvupóst. Þar trúði ég henni fyrir því að ég hefði áhyggjur af þér. Ástæða þess að ég sendi henni bréf er að ég hef oft, og ekki síst á síðustu vikum, skynjað mikla umhyggju hennar og væntumþykju í þinn garð og mér hefur fundist hún heil og heiðarleg manneskja. Þá hélt ég að hún þekkti þig ef til vill á annan hátt en við í þinghópnum og hefði til að mynda kynnst fjölskyldu þinni eða þekkt aðstæður þínar betur en ég. Af misgáningi fór bréfið víðar en ég hafði hugsað mér. Það skrifast á mig en ég bað viðkomandi aðila að leiða efni þess hjá sér enda greinilega aðeins ætlað Katrínu.

Ætlunin var alls ekki að væna þig um nokkurn skapaðan hlut en áhyggjur mínar voru raunverulegar. Ástæða þeirra er að ég hef illa getað áttað mig á ummælum þínum í garð okkar Þórs og Birgittu síðustu vikur. Ef til vill segir það meira um mig en þig. Ég er ekki vön að standa í deilum við nokkurn mann og hef aldrei fyrr upplifað það að einhver félagi minn eða vinur hafi ekki viljað ræða málin við mig. Í kringum mig og í fjölskyldunni minni er aðallega tvenns konar fólk, annars vegar fólk eins og ég sem skiptir skapi einu sinni á ári og hins vegar fólk sem er mjög örgeðja og sér rautt ef það reiðist en er svo runnin reiðin tuttugu mínútum síðar og skilur ekki hafaríið í kringum það. Slíkum samskiptum fylgir sá kostur að andrúmsloftið hreinsast mjög fljótt. Ég kann illa á langvarandi deilur og vona eiginlega að ég þurfi aldrei að læra á þær sem virðist þó ólíklegra með hverjum deginum sem líður er við höfum í huga það umhverfi sem við störfum nú í.

Mér þykir afskaplega vænt um þig Þráinn og met þig mikils. Það hefur verið mér dýrmætt að kynnast þér, mér finnst þú merkilegur maður og ég hef alltaf kunnað að meta verk þín. Mér finnst þú vera frumkvöðull á mörgum sviðum, ekki síst í hreinskiptinni umræðu og því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Og svo ertu líka fyndinn.

Nú erum við öll að starfa í nýju og frekar andstyggilegu umhverfi og það er kannski ekkert skrítið að ýmislegt gangi á. Auk þess er Borgarahreyfingin að einhverju leyti hreyfing fólks sem ekki hefur fundið sig í öðrum hreyfingum. Við fordæmum hjarðeðli annarra hreyfinga en þyrftum kannski á örlitlu hjarðeðli að halda sjálf. Auk þess hriktir í öllum stoðum samfélagsins í þessu icesave máli og fólk í öllum flokkum að fara á límingunum.

Ég vona einlæglega að við getum unnið áfram saman, ekki bara við tvö heldur öll fjögur. Ég hef verið boðuð á sáttafund annað kvöld kl. 8 og mun mæta þar. Mér þykir ákaflega leitt ef ég hef sært þig og vil að þú vitir að það var ekki viljandi. Mér fannst gott að heyra í þér í dag þótt þú værir að skamma mig. Ég vona að þú komir á fundinn annað kvöld og að við getum komið samskiptum okkar í lag. Ef ekki þá vill ég alla vega að þú vitir að ég ber hag þinn fyrir brjósti og mér þætti betra að hafa þig í litla hópnum okkar en utan hans. Kjósir þú hins vegar að vinna ekki með okkur get ég alveg virt það við þig enda treysti ég þér til að vinna í anda hreyfingarinnar. Það mun ég líka reyna eftir fremsta megni.

Kveðja,

Margrét

 

Sæl Margrét.

Á sama hátt og tilraun Bjarna Harðarsonar til mannorðsmorðs á samflokksmanni sínum lenti fyrir klaufaskap í höndum annarra en atvinnurógurinn var ætlaður lenti þitt bréf víðar en hjá Katrínu.

Bjarni sá sóma sinn í að segja samstundis af sér þingmennsku þegar hann áttaði sig á því hvað hann hafði gert.

Hvort þú hefur einhverja sómatilfinningu veit ég ekki. Þetta bréf þitt vekur efasemdir um að þú þekkir greinarmun á réttu og röngu. Hitt veit ég að mér er annt um mannorð mitt og orðspor og hyggst ekki láta Gróu á Leiti koma á flot einhverjum grunsemdum um að ég sé ekki við góða heilsu andlega - eða líkamlega.

Ég hef gert stjórn Borgarahreyfingarinnar grein fyrir því að annaðhvort segi ég mig úr Borgarahreyfingunni eða stjórnin reki þig úr Borgarahreyfingunni og geri kröfu um að þú segir af þér þingmennsku. Ennfremur áskil ég mér allan rétt til að lögsækja þig fyrir róginn fyrir dómstólum ef mér og lögmönnum mínum þykir ástæða til þess, og grípa til allra aðgerða sem ég tel nauðsynlegar til að vernda orðspor mitt og mannorð fyrir hinum “góðviljaða” rógburði þínum.

Ég veit ekki hvort þú gerir þér grein fyrir því hversu alvarlegan hlut þú hefur gert þig seka um. Þó vona ég að þú áttir þig á því þótt þetta bréf þitt bendi ekki til þess.

Þráinn Bertelsson

 

Blessaður Herbert.

Eftirfarandi er sent þér (og, ef þér sýnist svo, stjórn Borgarahreyfingarinnar) til upplýsingar. Ég tek ekki þátt í þöggun, undirferli eða leynimakki, þótt stjórn Borgarahreyfingarinnar hafi ekki þótt taka því að senda mér rógsbréf Margrétar þannig að ég gæti borið hönd fyrir höfuð mér.
Bestu kveðjur,
Þráinn Bertelsson
Til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.
Það bréf sem hér fer á eftir barst ykkur fyrir nokkru síðan - eða hinn 7. ágúst. Ekkert ykkar hreyfði legg né lið til þess að láta mig vita af þessu fáheyrða rógsbréfi fyrr en varaformaður BH Lilja Skaftadóttir sagði mér af tilveru þess í símtali frá Frakklandi nú fyrir skemmstu. Fyrir þann heiðarleika hefur Lilja mátt sæta aðkasti og því ætla ég ekki að nefna nafn þess stjórnarmanns sem lét stjórnast af heiðarleikanum og sendi mér samrit af rógsbréfinu.
Þessi þétta yfirhilming og tilraun til að þagga niður svívirðilegan verknað segir mér að þótt þið hin viljið skarta og skreyta ykkur með fjöðrum eins og “sannleika” og “hreinskilni” þá eru það orðin tóm - og þið eruð ekki þess verð einusinni að taka ykkur slík orð í munn.
Með yfirhilmingu eruð þið samsek rógberanum, Margréti Tryggvadóttur sem hugðist senda róginn varaþingmanni mínum Katrínu Snæhólm Baldursdóttur en slysaðist “a la Bjarni Harðarson” til að senda einnig á alla stjórn Borgarahreyfingarinnar. Bjarni Harðarson bjargaði þó leifunum af mannorði sínu með því að segja af sér þingmennsku um leið og það rann upp fyrir honum að hann hafði afhjúpað sjálfan sig.
Ég lít á þetta bréf sem tilraun til að draga úr trúverðugleika mínum sem opinber persóna, þingmaður og listamaður, með öðrum orðum sem tilraun til mannorðsmorðs - sem ég lít jafn alvarlegum augum og ef um væri að ræta tilræði gegn lífi og líkama. Að vísu er þessi tilraun ekki mjög sannfærandi, en það er ekki vegna þess að bréfritara hafi vantað illviljann heldur aðeins andlegt atgervi - til að mynda kann Margrét ekki einusinni að stafsetja rétt nafnið á þeim skelfilega sjúkdómi sem hún vill bera út að herji á mig.
Það leikur enginn vafi á því að sögn lögmanna minna að innihald, samning og sending þessa bréfs varðar við hegningarlög og áskil mér að sjálfsögðu allan rétt í því sambandi. 
Ég mun eftir helgi segja mig úr þingflokki Borgarahreyfingarinnar með formlegri yfirlýsingu á Alþingi - þangað til og gagnvart ykkur verður þetta bréf að duga - því að eitt er að reyna að halda friðinn við venjulega lygara og svikara og hitt að reyna að sitja á sátts höfði við fólk sem svífst einskis til að reka rýting í bakið á mér - að ég tali nú ekki um það ómerkilega fólk sem kýs að hilma yfir tilræðismanninum í stað þess að standa með fórnarlambinu.
Bestu kveðjur,
Þráinn Bertelsson

Hver er tilgangur XO í dag?

MBL0183877Þingfólk XO verður að fara að gera það upp við sig hvað það ætlar að vera. Í dag er það hvorki fugl né fiskur þrátt fyrir djörf loforð um annað á sínum tíma.  Það var kosið á þing vegna vegna mikillar óánægju með gamla fokkkerfið (flokkskerfið) og eljumikils starfs fólks sem sameinaðist í Borgarhreyfingunni.

Þeir sem buðu sig fram á hennar vegum voru hvattir til að halda sínum eigin skoðunum enda var framboðinu stefnt gegn hefðbundnu flokksræði og klafa-pólitík. Hver og einn þingfulltrúi átti að fá að kjósa eins og samviska hans segði honum og reyndar er gert ráð fyrir í stjórnarskránni, en flestir virða að vettugi. 

Þessi tilraun hefur gengið dálítið brösuglega svo ekki sé meira sagt. Samt ætla ég að segja meira;

Fyrstu mistökin áttu sér stað þegar að þingfólkið myndaði með sér þingflokk sem síðan átti að starfa eftir reglum þingflokka. Þau fengu sér kennitölu og gátu þar með þegið opinbera styrki til þingflokksins. Betra hefði verið að láta þingflokkinn lönd og leið og þau hefðu hvert og eitt starfað og kosið í samræmi við sannfæringu sína.

Næst rottuðu þrjú þeirra sig saman og splundruðu þingflokknum með því að reyna selja atkvæði sín í pólitískum hrossakaupum. Þessi Þrjú vildu reyna sig í pólitískri refskák og töpuðu. Þau viðurkenndu vissulega að þau hefðu gert mistök, en reyndu samt að réttlæta sig með þessu gamla góða; betra smá vont núna en voðalega vont seinna.

Samhliða þessari óheillaþróun myndaðist smá saman gjá milli þingfólksins og "hreyfingarinnar" sem þrátt fyrir allt talið um að hnekkja flokksræðinu, var farin að líta svo á að hún ætti að  hafa eitthvað um það segja hvernig þingfólkið varði atkvæðum sínum inn á þingi. - En formleysið og markmiðið, að fúnkera ekki eins og stjórnmálaflokkur en vilja samt hafa áhrif, þvældist fyrir.

_betrayal__by_negative_visionLoks var kallaður fundur í hreyfingunni þar sem átti að ræða hversvegna Birgitta sem var tilbúin til að selja atkvæði sitt í ESB málinu ef  Icesave samningurinn yrði felldur, sagðist nú vera tilbúin til að samþykkja samningin með smávægilegum breytingum.

Svo átti kannski líka að ræða hvers vegna enginn talaði við Þráinn og hversvegna skáldið talaði bara við fjölmiðla en ekki aðra af þingfólki listans. 

Ef tími væri til átti svo að minnast á hvers vegna þingfólkið talaði ekki við meðlimi hreyfingarinnar sem lagt hafði svona mikið á sig til að koma þeim á þing.

Því er skemmst frá því að segja að enginn af þingfólkinu mætti á fundinn og fáir úr hreyfingunni.

Nú er spurning hvort ekki sé orðið einsýnt með að þessi tilraun til nýrra starfshátta á alþingi og þeirra sem standa að framboðum til þess, hefur misheppnast.

Eitt af fáum skýrum stefnumálum hreyfingarinnar var að hún mundi leggja sig niður eftir að tilgangi hennar væri lokið. Er ekki kominn tími til að efna það loforð eða hver er tilgangur hreyfingarinnar og þingfólks hennar í dag?


Hafdís Huld og Bubbi

3afsfgdsfgHún er eins og ferskur blær og hann eins og kletturinn í hafinu. Ég var að koma af tónleikum með Hafdísi Huld og Bubba. Þau sungu og spiluðu fyrir troðfullum sal á Rósenberg. Bubbi hitaði upp fyrir Hafdísi og  tók m.a. nokkur lög sem ég hef ekki heyrt áður. Eitt um 14 ára stúlku sem var nauðgað af fjórum piltum og annað um homma sem verður fyrir ofsóknum á vestfjörðum.

Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er við Hafdísi Huld sem fær mann til að hlusta á hana af svo mikilli einbeitingu að mann verkjar í kjálkanna. Hún er stórskemmtileg á sviði og textarnir hennar (á ensku) eru bráðsmellnir og frumlegir. Alistair, kærastinn hennar, spilar undir öll lögin og það er ljóst að á milli  þeirra ríkir sérstakur andi sem skilar sér á sviðinu.

113705Bubbi og Hafdís tóku saman lagið í lokin. Munurinn á þessum tveimur frábæru tónlistarmönnum getur ekki hafa farið fram hjá neinum. - Bubbi svo gamall í hettunni og svo góður að jafnvel mistökin sem hann gerir eru flott. Hafdís, upprennandi stjarna, óðum að hasla sér völl á erlendri grundu (eitthvað sem Bubba tókst aldrei að fullu) og ein af björtustu vonum Íslands. Textar hennar og lög eru létt og full af græskulausu gamni en lög og textar Bubba eins og hann sé sjálfskipuð samviska þjóðarinnar.

Fárbær skemmtun í alla staði. Takk fyrir það Hafdís Huld, Bubbi og Alistair.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband