Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Ruslpóstur Más

Það var ákveðin reisn í því hjá Þór Saari að henda afritum af tölvupósti Más Seðlabankastjóra til Jóhönnu Sig. í ruslið, ólesnum.

Þór hefur greinilega ekki áhuga á að blanda sér í þessa hreppapólitík eða taka undir getgátur og samsæriskenningarnar.

Hitt er annað að þarna er greinilega komin skýring á hvernig mbl.is náði í tölvupóstinn. Einhver hefur veitt  hann upp úr ruslinu.


mbl.is Heimatilbúinn vandi Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illskeytt en misheppnuð tilraun til að koma höggi á Jóhönnu

Fimmtudaginn 6. Maí varpaði Sigurður Kári Kristjánsson eftirfarandi spurningum til Forsætisráðherra  í þinginu; 

„Samkvæmt heimildum sem fjölmiðlar hafa aflað sér mun loforðið um launahækkunina til seðlabankastjórans hafa verið gefið í forsætisráðuneytinu. Hæstv. forsætisráðherra hefur reyndar verið á harðahlaupum undan þessu máli og virðist ætla að reyna að koma því yfir á einhverja aðra. En engum dylst að tilraunir hennar eigin fulltrúa í bankaráðinu til að hækka laun seðlabankastjóra eru lagðar fram á ábyrgð forsætisráðherra.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi spurninga og fer fram á skýr svör við þeim:

1. Hvenær var þetta loforð gefið? Hver gaf loforðið og hver hafði frumkvæði að því að það var gefið? Í umboði hvers var loforðið gefið og hverjir höfðu vitneskju um það?

2. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að upplýsa líka um eftirfarandi: Hafði formaður bankaráðs Seðlabankans samráð við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra áður en þessi tillaga var lögð fram í bankaráðinu?“

Jóhanna svaraði:

„Svarið við síðustu spurningunni er nei, það var ekki haft samráð við forsætisráðherra eða fjármálaráðherra um þetta mál. Ég hef gefið alveg skýr svör í þessu máli. Það hafa engin loforð eða fyrirheit verið gefin enda ekki á mínu færi að gefa slík loforð. Laun seðlabankastjóra fara eftir lögum og ákvæðum um Seðlabankann og ekki síst niðurstöðu kjararáðs. Ég sé ekki eftir niðurstöðu kjararáðs að það sé eitthvert svigrúm til þess að beita ákvæðum sem eru í seðlabankalögunum í þessu efni til að hækka launin.

Það er tvennt sem liggur fyrir: Að seðlabankastjóri sjálfur hefur sagt að hann mundi ekki taka við slíkri launahækkun þó að hún væri í boði og að formaður bankaráðs hefur sagt að líklega verði niðurstaðan sú að þessi hugmynd og tillagan sem liggur fyrir bankaráðinu verði dregin til baka. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar í forsætisráðuneytinu enda ekki á færi þess né ráðherra um að gefa slík loforð. Það fer eftir lögum um Seðlabanka og niðurstöðu kjararáðs. Niðurstaða kjararáðs liggur fyrir og ég sé ekki annað en að í það stefni að eftir henni verði farið vegna þess að auðvitað á að fara eftir niðurstöðu kjararáðs í þessu efni.“

Nú hefur úrdráttur úr tölvupósti frá Seðlabankastjóra til Forsætisráðherra verið birtur þar sem hann vitnar í samtöl sem hann átti við Forsætisráðherra um starfið.

Athyglisvert er að engar vísbendingar eru um að Forsætisráðherra hafi svarað þessum tölvupósti heldur hafi hún vísað þessu máli í formlega réttan farveg, þ.e. til bankaráðs.

Nú fullyrða sumir eða láta að því liggja að Jóhanna hafi sagt þingheimi ósatt þegar hún svaraði fyrirspurnum Sigurðar Kára. Þeir leiða að því líkur að Jóhanna hafi möndlað til um launin við Má og síðan gefið grænt ljós á að hækka launin við formann bankaráðs seðlabankans.

Af því sem nú liggur fyrir er samt ekkert sem bendir beint eða óbeint til þess að Jóhanna hafi sagt ósatt.

Jafnvel þótt hún hafi rætt við Má um starfið er hvergi staf að finna um einhver loforð eða fyrirheit að hennar hálfu um hækkun launa. 

Aðdróttanir pólitískra andstæðinga hennar um hið gagnstæða geta því í besta falli verið vafasamar vangaveltur en í versta falli fremur illskeytt en um leið misheppnuð tilraun til að koma höggi á Jóhönnu.


mbl.is Már og Jóhanna ræddu launin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú þarft ekki að vera hestur þótt þú fæðist í hesthúsi

Þegar ljóst var að íslenskum auðjöfrum hafði tekist að skuldsetja landið og þjóðina þannig að bankakerfið hrundi, var leitað að bjargvætt sem gæti leitt okkur út úr vandanum. Hún fannst í harðduglegum og strangheiðarlegum verkstjóra Samfylkingar; Jóhönnu Sigurðardóttur. Það var hún sem sem leiða skyldi okkur inn í fyrirheitna landið, hið Nýja Ísland.

Eftir nokkra mánaða setu í ráðherrastóli þótti mörgum, sem treyst höfðu Jóhönnu til verka, ljóst að henni mundi ekki takast flórmoksturinn sem skyldi. Traustið sem hún naut í upphafi kjörtímabils þvarr og með því trú margra á að hefðbundin pólitík gæti yfirleitt hjálpað.

Sú trú endurspeglaðist einkum í úrslitum nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga í tveimur stærstu bæjarfélögum landsins. Á Akureyri hafnaði almenningur hinni hefðbundnu flokkspólitík og kaus þess í stað framboð sem stóð fyrir utan fjórflokkinn svokallaða.

Grínframboð Besta flokksins var kærkomið tækifæri fyrri Reykjavíkurbúa og vonsvikin börn búsáhaldabyltingarinnar til að lýsa frati á pólitíska kerfið. Ný bjargvætt var fundin í gervi Jóns Gnarr.

Jón Gnarr tekur nú við einu valdamesta embætti þjóðarinnar. Hans fyrsta verk var að mynda meirihlutastjórn með hefðbundnum stjórnmálflokk á mjög hefðbundinn hátt. Hann heldur áfram að grínast í orðum, en verk hans bera vott um að hann kunni ekkert annað. "Of erfitt" og "of flókið'" segir hann um að leita eftir þverpólitískri samstöðu í borgarstjórn.

Þeir sem töldu að Jón hefði gefið þeim ástæðu til að halda að vinnubrögð hans yrðu ekki hefðbundin, hafa þegar lýst yfir vonbrigðum sínum. - Að mér læðist sú spurning hvort Jón Gnarr sé ekki bara hefðbundinn pólitíkus í gervi grínista. - Jafnvel þótt hann sé kunnur fyrir skop sitt og grín og það hafi verið ástæðan fyrir að margir kusu hann, getur hann alveg sagt sem svo: þarf maður endilega að vera hestur þótt maður fæðist í hesthúsi?

Það er því óhætt að taka undir orð Ágústar þar sem hann tekir undir orð Njarðar P. Njarðvík um að stofna ætti nýtt lýðveldi enda væri flokkakerfi 20. aldarinnar gjaldþrota.


mbl.is Gagnrýndi stjórnvöld harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland svarar

BBC fjallar um íslenska átakið á netinu til að laða fleiri ferðamenn til landsins. Engin vafi er á að orðspor Íslands beið hnekki eftir efnahagsþrengingarnar og gosið í Eyjafjalajökli og áhrif þess á flugumferð jók síðan á pirringinn út í landið hjá Evrópubúum.

Átakið á netinu er því afar þarft framtak og viðbrögðin við því sem komið er mjög jákvæð. -Landkynningar myndbandið við lag Emilíönu Torrini - Jungle drum t.d. ágætlega unnið og skemmtilegt þrátt fyrir að vera mjög gamaldags og einfalt.  Það var satt að segja eins og gamalt júróvisjón innlegg.

Bestu landkynningar sem hægt er að hugsa sér er einmitt að fá Sigurrós, Björk og Emilíönu til þess að gera ný myndbönd við lög sín í íslensku umhverfi en best er að láta listamennina sjálfa eða fólk á þeirra vegum koma með hugmyndirnar að uppbyggingu mundbandsins.

Besta íslenska landkyninningarmyndband sem ég hef séð er við lagið Glósóli eftir Sigurrós. 

 


mbl.is Ókeypis að hringja út til að kynna Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byssumaður drepur fjölda í Bretlandi

Morgunfréttirnar hér í Bretlandi eru ekki góðar.

Í hinu fagra héraði Cumbríu gengur maður enn laus eftir að hafa skotið til dauða fjölda manns og sært enn fleiri. Nýjustu fréttir herma að ekki færri en 11 manns liggi í valnum.  Lögreglan í þessari friðsömu sveit hefur kallað á sérsveitir landsins sér til aðstoðar en maðurinn ók um á silfur lituðum Picasso frá bæ til bæjar í morgun og skaut á allt og alla og skildi eftir sig slóð fjölda látinna fórnarlamba og enn fleiri særðra. Sagt er að öll fórnarlömbin hafi verið skotin í andlitið.

Talið er að hann hafi nú yfirgefið bílinn og sé fótgangandi. Fólki á svæðinu er ráðlagt að halda sig innan dyra og fara ekki til vinnu sinnar.

Lögreglan heldur að hér sé á ferð maður að nafni Derrick Bird og hefur birt af honum mynd. Annað er ekki vitað um manninn á þessu stigi, en haldið er að hann sé leigubílstjóri.

ps.

Nýjustu fréttir herma nú að maðurinn sé fundinn, látinn í skógarjaðri með byssu við hlið sér.


mbl.is Morðingja leitað í Cumbriu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúðrið um borð í Mavi Marmara

Þá byrjar fjölmiðladansinn fyrir alvöru. Ísraelsmenn vita að árásin var klúður en reyna samt hvað þeir geta til að réttlæta aðgerðir sínar.

En þeir gæta þess um vel leið, til að byrja með a.m.k. að engir fjölmiðlar komist í tæri við þá sem voru um borð í skipinu. Þannig verður það á meðan það versta blæs yfir.

Fjöldi þjóða hefur þegar fordæmt árásina á skipið en um borð voru að mestu leyti Tyrkir en einnig farþegar af öðrum þjóðernum eins og lesa má um hér.


mbl.is Árásin mistókst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Monster raving looney party systurflokkur Besta flokksins

Alan&DavidBrandarakallar hér í Bretlandi kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að því að blanda gríni og þjóðfélags gagnrýni. Monty Python gengið og Sacha Baron Cohen eru nærtækustu dæmin um skemmtikrafta sem hafa náð að hreyfa við samfélaginu með skopi. -

En engin hinna frægu spéfugla Breta hefur nokkru sinni þorað að setja saman pólitískt framboð. En ef hægt er að tala um að Besti flokkurinn eigi sér systurflokk í Bretlandi væri það helst The Monster raving looney party.

Flokkurinn er alvöru grínflokkur, vettvangur fyrir grínara og spaugara sem bjóða fram bæði til alþingiskosninga og sveitarstjórna, þar sem  einhver (hver sem er) vill fara fram. Engin þeirra hefur fram að þessu nokkru sinni hlotið kosningu.

Það er eins og margir haldi að allt í einu hætti grínframboðið að vera grín og einhver alvara taki við. Það mundu vera mikil svik við kjósendur ef það gerðist.

Það er alveg klárt að Besti flokkunin er grín og ætlar að stjórna með gríni. Þannig á það að vera. Grínið er best og það á heima í besta flokknum.

Alvaran er hundleiðinleg og óheiðarleg þar að auki.

Og hver segir að ekki sé hægt að stjórna litlu sveitarfélagi á borð við Reykjavík með gríni? Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að það sem hefur verið að gerast og átti að vera alvara, var bara skoplegt.


mbl.is Sigur Besta flokksins vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantrú mín á Vantrú

Félagsskapurinn vantrú er skrýtin klíka. Reyndar er ærin ástæða til að efast um að félagskapurinn sé félagsskapur. Alla vega virðist sem einhver einn feitur pjakkur hafi umboð til þess að skrifa athugasemdir á bloggi í nafni "félagskaparins" á þann hátt að ekki er hægt að greina hvort einhver munur sé á stefnu samtakana og hans persónulegu túlkun.

Ég hef eins og margir aðrir haft frá upphafi mikla vantrú á Vantrú, enda kannski til þess ætlast miðað við nafngiftina. Það hefur líka komið í ljós að sú vantrú er réttlætanleg því "samtökin" hafa litlu komið í verk af yfirlýstum markmiðum sínum. Þau (eða sá feiti) sprikla dálítið á netsíðunni sinni og gera athugasemdir á bloggsíðum, meira er það ekki. Alla vega hafa þeir ekki náð að vekja mikla athygli á þeim málum sem þeim eru kær, það er sú trú að trú annarra en þeirra sjálfra sé ótrúleg.

Það er svo sem ágætt að þeim hefur ekki verið veitt meiri athygli, enda hafa þeir sem taka málstað félagsskaparins, þá sjaldan það gerist, reynst vera athyglissjúkir kverulantar.

Í örvæntingu sinni hefur Vantrú nú ákveðið að reyna að slá sér upp á umdeildu máli sem hlaut á sínum tíma heimsathygli, þ.e. teikningar Jótlandspósts af Múhameð spámanni Íslam. -

Nú vill Vantrú efna til sérstaks dags sem tileinkaður verði teiknimyndum af Múhameð og í hlægilegri tilraun til að gæta jafnræðis, af örum boðberum Guðs.

Þeir bjóða jafnvel upp á að grín sé gert að manninum sem þeir sjálfir hafa valið sér fyrir spámann, Mr. Dawkins, manni sem hefur skrifað nokkrar lélegar og marghraktar bækur og sem er frægur fyrir að ráðast yfirleitt á garðinn þar sem hann er lægstur í gagnrýni sinni á trú og hjátrú.

Það sem er aulalegast við þetta allt er að Vantrú segist gera þetta í þágu mannréttinda. Það sem Vantrú virðist ekki fatta er að samfélagið hefur komið sér upp lögum og siðum til að vernda einstaklingana frá því að eiga á hættu að vera hæddur og spottaður fyrir skoðanir sínar eða trú. Þessi lög og þessa siði vill Vantrú afnema og undirstrika það með því að hvetja landsmenn til að hæða múslíma og spámann þeirra.

Ég veit að þeir í Vantrú hafa áhyggjur af þessu, enda jaðrar margt af því sem þeir láta frá sér fara við brot á landslögum og háð og spott hefur verið þeirra helsta vopn í stríði þeirra fyrir betri trúlausari heimi.

Sumt af því sem komið hefur frá Vantrú hefur sannarlega verið meiðandi háð, en þetta er bara kjánalegt.


Ísland stöðugt í fréttum

Sjaldan eða aldrei hefur Ísland verið eins mikið á milli tannanna á fólki hér í Bretlandi og um þessar mundir. Aska frá Eyjafjallajökli heldur áfram að raska flugáætlunum flugfélaga víða um Evrópu og erlendir fréttahaukar klæmast stöðugt á nafni eldfjallsins. Síðasta dæmið sem ég rakst á er þetta;

Þá hafa handtökur Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra bankans í Lúxemborg sem og arftaka hans, Banque Havilland, vegna gruns um skjalafals, auðgunarbrot og markaðsmisnotkun vakið talsverða athygli í hérlendum fjölmiðlum.

En ef að Ólafi Haukssyni mistekst að sanna misferli á þá félaga og jafnvel þótt svo fari, er mögulegt að þeir þurfi að svara til saka fyrir breskum dómstólum.

Mál Kaupþings hefur verið til rannsóknar hjá Britain's Serious Fraud Office (Rannsóknardeild alvarlegra fjársvika) í nokkurn tíma, einkum hvernig staðið var að því að laða að innlánsfé með loforðum um háa ávöxtun á Kaupthing Edge.

Mál þeirra Kaupþingsmanna þykir einnig áhugavert meðal almennings fyrir þær sakir að sjálfir hafa Bretar verið verið heldur linir við að sækja "sína menn" til saka, þ.e. þá sem farið hafa illa með fé almennings í breskum bönkum. Í Bretlandi sitja yfirleitt sömu menn við stjórn bankanna og gerðu fyrir hrun og þiggja enn himinháar bónusgreiðslur fyrir ómakið.


Söguþankar

history333Megin efni margra íslenskra blogga eru persónulegar frétta og söguskýringar. Það í sjálfu sér mjög merkilegt hvað margir vita hvað er að gerast á bak við tjöldin og þekkja "hina raunverulegu" sögu vel.  Þetta hljóta að verða ómetanlegar heimildir fyrir framtíðina og eru enn mikilvægari fyrir fortíðina sem er stöðugt þarf að umrita hvort eð er. 

Þótt ég hafi gaman að Því að lesa slíkar sagnfræðitúlkanir, nálgast ég þær með varúð. Ég veit sem er að fátt, ef nokkuð, á meira skilið að vera endurskrifað en einmitt slíkar söguskýringar.

Þannig hugsa margir sér þá dul að geta sagt fyrir um framtíðina af því Þeir þekkja fortíðina.

Að það sé mikilvægt að þekkja söguna til að endurtaka hana ekki, eins og einhver sagði, er í besta falli óskhyggja. Sögulegar ákvarðanir sem reynast happadrjúgar fyrir almenning eru yfirleitt teknar eftir að allt annað hefur verið reynt. 

Sagan, jafnvel þótt hún sé sögð óumdeild, lýtur jafnan í gras fyrir einbeittum vilja þeirra sem vilja komast á spjöld hennar eða skrifa hana upp á nýtt.  Eini vísdómurinn sem má draga af sögunni með vissu, er að það er oftast viturlegt að gera alls ekki neitt og altaf best að segja ekki neitt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband