Færsluflokkur: Kjaramál

Froðusnakk um fátækt

Séra Bjarni Karlsson tjáir sig fjálglega um fátækt á Íslandi, og skyldi þá ætla að hann viti hvað hann er að tala um þar sem hann situr í velferðarráði Reykjavíkur, sem er stofnun sem ætti reyndar að endurnefna og kalla Fátæktarráð Reykjavíkur.

Það er orðin hefð á landinu, að í byrjun desember, rétt í þann mund sem hin mikla neysluherferð í tengslum við jólin er að hefjast, stígi á stokk umvandarar og talsmenn góðgerðastofnana til að benda okkur á hversu mikil fátækt er á Íslandi.

Alla hina mánuðina er lítið minnst á fátæka hópinn sem er svo fámennur, að sögn Bjarna, að það væri hæglega hægt að "banka upp á" hjá þeim öllum, hvað sem það þýðir.

Eftir fáeins daga verður örugglega viðtal við fulltrúa Mæðrastyrknefndar sem bendir okkur á að biðraðirnar hafi aldrei verið eins langar eftir aðföngum fyrir jólin og nú. -

Bjarni segir hinsvegar  að hópur fátækra á Íslandi sé ekki stór og að hann samanstandi af sama fólkinu og var fátækt fyrir hrun. Að hans áliti gerði hrunið sem sagt engan fátækan á Íslandi.

Bjarni slær um sig með hugtökum eins og "félagsauði" og "valdeflandi menningu" sem hluta af lausn á málefnum fátækra, ef ég skildi hann rétt. - Hann virðist reyna að nálgast fátæktarmálin frá nýrri hlið. Að litlar tekjur og atvinnuleysi haldist í hendur eru þó ekki ný tíðindi. Og að heilsufar, félagsleg einangrun og lítil menntun komi þar við sögu eru það ekki heldur.

Hann minnist ekkert á að stór hluti fátækra á Íslandi eru öryrkjar og aldraðir og að hið opinbera viðheldur fátækt í landinu með að rýra stöðugt lífeyri þeirra.

Hann minnist ekkert á að orsök atvinnuleysis og fátæktar af þess öldum, er að bankarnir halda að sér höndum við að fjárfesta í atvinnutækifærum vegna of mikillar ávöxtunarkröfu.

Hann minnist ekkert á úrræðaleysið sem linflytjendur standa frammi fyrir í tengslum við aðgengi að menntun og á stóran þátt í að gera þá að undirstétt í landinu.


mbl.is Fátæktin hefur mörg andlit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska undirstéttin

Íslendingar virðast vera á góðri leið með að skapa varanlega undirstétt ákveðinna borgara í landinu. Það er ekki tilviljun að hvar sem maður kemur í fyrirtæki þar sem þrif eru fyrirferðamikill hluti af rekstri, eru það innflytjendur sem sinna þeim störfum. Að sinna láglaunastörfunum hvers konar er hlutskipti þeirra.

Til innflytjenda teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Og á meðal þeirra er skólasókn miklu lægri en meðal annarra Íslendinga. Aðeins rétt um 50% þeirra sækir skóla eftir 18 ára aldur, miðað við 78% annarra landsbúa. Og ef miðað er við 16 ára aldur, er hlutfall  innflytjenda sem sækja skóla, líka talsvert undir meðaltali.

Flestir eru samála um að besta leiðin til að forðast félagslegt misrétti, myndun fátækrastétta og öll þau flóknu vandmál sem því fylgir,  er að tryggja jafna aðstöðu til mennta fyrir alla þjóðfélagsþegnana. Hér virðist pottur brotinn og grípa þarf til ráðstafanna strax áður en ástandið verður enn verra.

Þótt ætíð hafi verið talsvert bil milli fátækra og ríkra í landinu, hefur það bil, eftir að þjóðin komst á legg, ætíð verið temprað af möguleika allra landsmanna til að mennta sig og skapa með menntun sinni mannsæmandi  lífsviðurværi og lífsstíl fyrir sjálfa sig.

Að leyfa undirstéttum að festa sig í sessi á Íslandi væri mikill skaði fyrir þjóð sem grundvölluð var á stéttleysi og jöfnuði.


Leppalúðar allra landa sameinist

Leppalúði við .....Letihaugurinn og mannleysan Leppalúði skrýðir jólaóróa Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra að þessu sinni. Þessi hægláta karltuska sem engan hemil hefur á hrekkjalómunum sonum og fóstursonum sínum, er ekki kunnur af neinu nema að vera þriðji eiginmaður Grýlu, eftir þá Gust og Bola. 

Hann hefur sig lítið í frammi, virðist frekar ósjálfbjarga og verður að sætta sig við það sem frekju-skassið Grýla úthlutar honum.  -

Sægur er til að ljóðum og vísum um Grýlu og samtíningur einhver um jólasveinana sjálfa. Kveðskapurinn lýsir því venjulega, hvernig þeir allir fara á stjá um jólin, ásamt Grýlu, til að hafa í sig og á með gripdeildum og brögðum, nema Leppalúði sem sig hvergi getur hrært.

Lítið sem ekkert er að finna um Leppalúða. Hann situr heima, óásjálegur og fýldur og bíður þess sem verða vill, augljóst olnbogabarn þessarar þjóðsögu.

Þar ætla þær Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir og Ingibjörg Haraldsdóttir að gera á bragarbót, hvort sem sá gjörningur nær að festa sig í sessi og bæta hlut Leppalúða, á eftir að koma í ljós.

Það læðist að manni sá grunur að valið á Leppalúða á óróana þetta árið, hafi ekki alveg verið tilviljun. Sérstaklega í ljósi þess að yfirvofandi er óhóflegur niðurskurður á framlögum ríkisins til lífeyris öryrkja og aldraðra. -

Er verið að minna okkur á að líta ekki  á öryrkja og aldraða sem Leppalúða þessa heims? Eða er aþýðan það kannski öll,  gagnvart þeim sem tekið hafa að sér ráðsmennskuna í þessu landi?


mbl.is Kveikt á jólatré á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsmorðaalda vegna mikillar vinnu

Sjálfsmorðaaldan sem gekk yfir fyrirtækið Foxconn á meðan verið var að koma Ipad á markaðinn var með eindæmum. Fólk kastaði sér út um glugga verksmiðjunnar á fjórðu og fimmtu hæð til að binda endi á langvarandi vinnuþreytu sem tilkomin var vegna bágra kjara.  Foxconn er svo stórtækt í framleiðslu rafmagnstækja að líklegt er að heima hjá þér sé að finna eitt eða tvö tæki úr verksmiðjum þeirra.

Efnahagsleg velgengni Kína byggir á gífurlegri framleiðslugetu þeirra og framleiðslan er ódýr.  Sumstaðar eru daglaunin svo lág að fólk nær ekki að framfleyta sér eða fjölskyldu sinni á þeim. Yfirvinna er svarið. Dæmi eru um að verkamenn hjá Foxconn hafi unnið að meðaltali 80 stundir á viku í marga mánuði.


mbl.is Vona að launahækkun komi í veg fyrir sjálfsvíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar halda þjóðinni í gíslingu

Jim Culleton talar um að Íslendingar séu að endurheimta land sitt. Endurheimta það frá hverjum? Hverjir tóku landið í gíslingu? Því er auðsvarað, það gerðu bankarnir, stjórnendur þeirra. En það er fátt sem bendir til að almenningur og stjórn landsins hafi eða sé að losna undan ánauð þeirra.

celebration400Skjaldborgin sem lofað var fyrir meimili landsins hefur aldrei risið. Þða eina sem gert hefur verið er að það hefur verið lengt í hengingarólinni. Engar afskriftir fyrir einstaklinga eða heimili, heldur aðeins banka og skúffufyrirtæki þeirra.

Bankarnir eru hinir nýju þrælaherrar. Þorri almennings er hnepptur í skuldaklafa þeirra og á líf sitt og viðurværi undir þeim. Þegar að þeir riðuðu til falls fyrir ári síðan,  hrópuðu bankamenn á hjálp. Þeir beittu ríkisstjórn og almenning fjárkúgun og sögðu að ef þeim yrði ekki hjálpað með því að fylla geymslur þeirra aftur af peningunum, mundi allt kerfið hrynja. Og núna þegar þeir eru búnir að fá allt sem til var, beita þeir aftur fjárkúgunum. Þeir hrópa; látið okkur vera, við högum okkur eins og okkur sýnist og ef þið gerið það ekki mun þessi kreppa vara miklu lengur.

Þess vegna hafa engar nýjar reglur verið settar um starfsemi banka. Engin ný stefna um markmið þeirra hefur litið dagsins ljós. Öfgar nýfrjálshyggjunnar sem flestum var ljóst að leiddi til fallsins, ráða enn lögum og lofum innan bankakerfisins og þess vegna munu aðgerðir sem eiga að koma heimilum landsins til hjálpar og stýrt er gegnum bankakerfið, aldrei skila sér. Þeir eru þrælaherrar nútímans sem hefur verið gefinn sá réttur að eiga allt sem þú getur mögulega framleitt og þar með þig.


mbl.is Íslendingar endurheimta landið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar taka gleði sína á ný

article-1081683-02EE7F5100000578-812_468x286Það er alltaf gott að fá góðar fréttir að heiman. Vissulega, svona rétt fyrir og eftir að landið fór á hausinn (eins og útendingar tala um það) voru tíðindin fá sem virkilega glöddu litla stolta íslenska hjartað. Drungi virtist leggjast yfir þjóðina, af fréttum að dæma og sumum var svo misboðið að þeir fóru út að berja búsáhöldin sín í mótmælaskyni.

Nú hafa Íslendingar greinilega heldur rétt betur úr kútunum. 88% þjóðarinnar segist samkvæmt nýjustu könnunum vera mjög ánægt með líf sitt. Margt bendir til að þetta sé satt og landið, þjóðin og þingið sé aftur búin að finna fjölina sína eins og þeir segja í handboltanum. Kunnuglegt karp í þingsölum, dægurhjalið á blogginu og Silfur Egils aftur orðið leiðinlegt.

Spurning hvort nokkuð hafi bjátað á hjá fólki yfirleitt, ég meina svona innast inni þar sem þeir eru mest hamingjusamir, þegar þeir sögðu allt vera að fara fjandans til. Satt að segja efast ég um að hamingjusveiflurnar geti verið svona djúpar og háar á stuttum tíma. Nem að Íslendingar séu svo æðrulausir að þeir halda hamingju sinni sama hvað á gengur. Það er örugglega langlíklegasta skýringin. Já Einmitt.

Lengi lifi Ísland, hamingjusamasta þjóð í heimi


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband