Færsluflokkur: Menntun og skóli

Rógur og skrum

LopapeysaFjölmiðlar landa beggja vegna Atlantshafsins hafa síðustu daga reynt að gera efnahagsástandinu á Íslandi einhver skil og oft gripið í því sambandi til orða og hugtaka sem eru afar röng og villandi. Að segja að Ísland sé núna "þróunarland", vegna þess að efnahagur þess var svo samtvinnaður bönkum sem urðu illa úti í efnahagshruninu sem allur heimurinn er að fara í gegn um, er fáránleg fréttamennska, skrum og rógur.

Þróunarlönd eru þau lönd sem ekki hafa náð langt í þróun lýðræðis, frjáls markaðar, iðnvæðingar, velferðakerfis og mannréttinda fyrir þegna sína. Þróun landa er mæld eftir ákveðnum stöðlum sem taka tillit þjóðarframleiðslu og almennra launa í landinu, lífslíka og læsi þegna þess. Ekkert af þessu hefur hnignað á Íslandi á síðustu vikum.

Það er líka fáránlegt að heyra Íslendinga sjálfa, jafnvel þótt þeir séu skelkaðir eða/og reiðir,  líkja landinu við "bananalýðveldi". Orðið bananalýðveldi er orð sem var fundið upp til að lýsa á niðrandi hátt smáþjóðum sem voru/eru afar óstöðugar pólitískt séð og urðu auk þess að reiða afkomu sína á afmörkuðum landbúnaðarvörum eins og banönum. Þeim er venjulega stjórnað af fáum sjálfkjörnum, ríkum og spilltum klíkum eins og voru lengi af við völd í löndum mið-Ameríku eins og El Salvador, Belize, Nicaragua, Honduras, og Guatemala.

 

 


Uppnefningar

6a00d8345233a569e200e54f83d0de8834-800wiÞað hefur alltaf þótt svo lítið svalt á Íslandi að geta svarað fyrir sig með háði og glósum. Málfar okkar og ritmenning er lifandi dæmi um það og ekkert þótti eins snjallt í kveðskap hér áður fyrr eins og vel kveðin níðvísa.

Ég held að íslendingar séu ekki vaxnir upp úr þessum ósóma og að stór þáttur þess sem við köllum "einelti" séu uppnefningar.

Nú hefur talsverðum tíma og fjármunum verið varið í að rannsaka þetta fyrirbæri, þ.e. hvað liggi að baki þörf einstaklinga til að nota uppnefni sem einkennandi samskipta-aðferð og hvernig viðbrögð slíkt vekur hjá þolandanum.

Í fljótu bragði eru þetta niðurstöðurnar;

Uppnefning er bæði rökvilla (logical fallacy)  og skilningsvilla (cognitive bias) og er einkum notuð sem áróðurstækni. Sem slík er henni ætlað að vera aðferð til að vekja ótta og fordóma og að sá ótti og fordómar verði til að mynda meðal þeirra sem lesa heyra eða sjá áróðurinn, neikvæða mynd af einstaklingnum, hópnum, trúnni eða hugmyndakerfinu sem áróðurinn beinist að.

Aðferðinni er ætlað að koma fyrir í hugum viðtakenda niðurstöðum um menn og málefni án þess að rannsókn á staðreyndum fari fram. Uppnefningar koma þannig í stað rökréttrar hugsunar sem grundvölluð er á staðreyndum og koma í veg fyrir að hugmyndin eða trúin séu dæmd á eigin verðleikum. father_like_son

Því er ekki að neita að það hvarfli að mér að uppnefningar hafi fengið endurnýjun lífdaga meðal fullorðins fólks með tilkomu bloggsins. Óvirðingin og munnsöfnuðurinn er slíkur á stundum að maður getur ekki annað en dregið þá ályktun að þarna sé komin bein ástæða fyrir því hvers vegna einelti meðal skólabarna er viðvarandi vandamál. Sé þetta það sem fyrir börnum er haft þarf ekki að spyrja að útkomunni.

PS.

Aftur minni ég á skoðanakönnunina hér til vinstri um jafnréttið.

 


Jafnrétti kynjanna og Íslam

Það er alls ekki ætlun mín í þessum pistli að bera á einn eða annan hátt í bætifláka fyrir kúgun kvenna hvar sem hún finnst eða hvaða myndir sem hún tekur á sig. -

Eitt helsta ámæli sem Íslam verður að þola af hendi gagnrýnenda sinna, er hvernig staða jafnréttis kvenna hefur dregist aftur úr miðað við vesturlönd og þau gildi sem þar ráða. - Hið sjálfsagða en nýfundna frelsi kvenna á vesturlöndum til að ráða sjálfar lífi sínu og limum kallar ósjálfrátt á samanburð við stöðu kvenna annarsstaðar í heiminum og oft án tillits til mismunandi menningarheima sem samt sem áður ættu að vera öllum ljóst að eru til staðar.

bedouinwomanms3Í nánast öllum íslömskum ríkjum þola konur almennt gróft misrétti, miðað við þær hugmyndir um jafnrétti kynjanna sem við vesturlandabúar höfum reynt að tileinka okkur á síðastliðinni öld. Þær hugmyndir sem endurspeglast í löggjöf flestra vesturlanda og í menningu þeirra urðu ekki til af sjálfu sér. Að baki þeirra liggur aldalöng barátta við gamla heimsmynd sem haldið var við m.a. af þeim karllægum trúarskoðunum sem vesturlönd voru og eru enn undir áhrifum af. Með aukinni menntun og þekkingu, sem eins og ætíð er eina ganglega vopnið í baráttunni við fáfræðina og hjátrúna, hefur margt áunnist. En enn í dag, þótt almennt sé talað um að fullt jafnrétti ríki, hafa margir hafi orðið til að benda á að enn loði við samfélögin gömul viðhorf og gildismat sem séu meira í ætt við fortíð okkar en hina nýju tíma. 

Eitt af einkennum þessara "nýju tíma" er að þeir menningarheimar sem áður virtust hafa rúm á jarðarkringlunni til þess að fara sínar eigin leiðir, þrátt fyrir að rekast stundum illþyrmilega á, eru að breiða úr sér bæði landfræðilega og samfélagslega inn á hefðbundin svæði hvors annars. Til dæmis hefði bygging Mosku á Íslandi fyrir 50 árum hefði verið óhugsandi og óþörf. Í dag eru 500 íslendingar múslímar og þeir vilja byggja sitt tilbeiðsluhús. Sem annarsstaðar í Evrópu hefur gripið um sig sá ótti á Íslandi að Múslímum takist að skyggja á eða jafnvel hafa áhrif á íslensk menningargildi ef þeir fái til þess svigrúm. Algengasta dæmið er; afstaða þeirra til jafnréttismála.

Minnug þess hverju til þurfti að kosta til að koma jafnrétti í lög á Íslandi (og það er ekki langt síðan) skulum við aðeins staldra við og skoða stöðu kvenna undir Íslam í ljósi sögunnar. 

Þegar að Múhameð kom fram á Arabíuskaganum á sjöundu öld tókst hann á við að sameina sundraða ættbálka landsins undir einni trú. Trúarboðun hans var komið fyrir í bók sem heitir Kóran. Hún ein hefur að geyma það sem múslímar líta á sem heilagt orð Guðs.

PLATE8CXMunnmæli Múhameðs og arfsagnir er að finna í sérstökum samantektum sem kallast Haddíður. Þau eru mannanna verk og hafa ekki sama gildi og Kóraninn, nema fyrir þá sem sjá sér akk í því að skilgreina þau sem slík, öfgamenn, bæði múslímar og andstæðingar þeirra. - Í Kóraninum er að finna lagaákvæði sem urðu að rammalögum fyrri mjög stóran lagbálk sem kallaður er Saría lög. Sum þeirra laga sem í Saría lagbálknum er að finna, eru hreinar túlkanir manna á lögum Kóransins, önnur viðaukar, aftur mannanna verk. Þetta ber að hafa í huga þegar vitnað er í forsendur múslíma fyrir afstöðu þeirra til margra mála sem orðið hafa að ásteytingasteini milli þeirra og nútíma vesturlandabúa.

Á sínum tíma voru lög Múhameðs mikil réttarbót fyrir þorra kvenna í Arabíu, sérstaklega hvað varðaði hjúskaparstöðu og eignarétt. Konur höfðu þar lítinn eða engan rétt. Þær voru undirgefnar karlmönnum, feðrum, bræðrum og eiginmönnum. Í sumum tilfellum voru þær eins "búgripir", eign karlmannanna. Þær áttu engan rétt til erfða og voru álitnar algjörlega óhæfar til að fara með mannaforráð eða eignir. Þær voru réttdræpar fyrir fjölda saka og alls óhugsandi sem frumburðir. Þess vegna voru meybörn grafin lifandi í sandinn strax eftir fæðingu ef svo bar undir. Þegar að svarf í búi, sérstaklega meðal fátækra fjölskyldna, voru stúlkurnar drepnar til að karlmennirnir fengju að borða. Þrátt fyrir lög Kóransins, einkum í seinni tíð, hefur þessi slæmi "menningararfur" náð að loða við menningu Íslam.

Þótt að það sé sýnt að bæði Haddíðurnar og Saría lagabálkurinn hafi haldið konum og reyndar flestum íslömskum þjóðfélögum í fornaldargreipum og þau séu á engan hátt til þess fallin að stýra nútíma samfélagi, verður að gera greinamun á þeim og boðun Múhameðs á sínum tíma. En jafnvel hrein lög Kóransins mundu aldrei ná að sinna þörfum nútíma alheimslegs samfélags frekar en lagabálkar Biblíunnar eða Zend Avesta (Zóroasterstrú) svo eitthvað sé nefnt til samanburðar.

burka_graduationBúrkuklæðnaður kvenna, sérstaklega blæjan, er ótvírætt tákn þessara gömlu úreltu viðhorfa. Ég ritaði fyrir löngu grein um fyrstu kvennaréttindakonu Austurlanda, skáldkonuna Tahirih, sem að lokum var hengd fyrir skoðanir sínar. Saga hennar finnst mér lýsa betur enn flest annað þeirri áþján sem konur undir járnaga Saría laga, kreddufullra Haddíða og ofstopafullra klerka sem halda fáfróðum þjóðum í heljargreip vankunnáttu, líða. Sjá hér.

 

untitledEn það er fráleitt engu að síður að nálgast Íslam eða múslíma sem eitthvert glæpahyski eins og gerð hefur verið tilraun til að segja fólki að sé réttlætanlegt. Heimurinn á Íslam að þakka, þrátt fyrir hnignun trúarbragðanna á seinni öldum, fjölda mikilvægra framfara og stuðlaði m.a. að þeirri upplýsingu sem við vesturlandabúar stærum okkur af á góðri stundu.

Nauðsyn fræðslu um það sem að baki liggur viðhorfum framandi menninga, hefur aldrei verið augljósari. Viðhorf breytast ekki án hennar, hvorki okkar sjálfra, né þeirra sem við álítum að okkur stafi ógn af. Íslenskar konur (og karlar)  hafa margt fram að bjóða undirokuðum systrum sínum og ættu frekar að líta á það sem tækifæri að hér á meðal okkar skuli búa fólk sem þurfa á reynslu þeirra að halda, heldur en að það sé ógn við öryggi okkar.


Að hata mannkynið og drepa það

Hvernig verður sú tilfinning til? Hvernig ákveður ungur maður að drepa eins marga og hann getur áður enn hann drepur sjálfan sig? Hver svarar svona spurningum? Er ég kannski ekki að spyrja réttra spurninga? Á ég kannski að spyrja; Hm af hverju ekki? Hvaða ástæðu hefur ungt fólk svo sem til að elska mannkynið?

821862Ég þekki ekki sögu þessa unga manns Matti Juhani Saari  sem drap 10 skólasytkini sín í gær.  Ég veit að sjálfsagt er hún jafn einstök og saga drengsins sem gerði það sama í Finnlandi fyrir nokkrum misserum. Og hún er jafn einstök og saga piltanna allra sem gert hafa það sama vítt og breytt um  Bandaríkin og í fjölmörgum öðrum löndum heimsins. Allir eiga þeir sína sérstöku sögu, sitt sérstaka uppeldi, sína sérstöku ástvini og sínar sérstöku tilfinningar. Þeir eiga aðeins það sameiginlegt að hafa viljað enda líf sitt og gera það á þann hátt að þeir tækju eins marga af meðbræðrum sínum með sér og þeir gátu.

Eða er það eitthvað annað sem þeir eiga sameiginlegt?

Að hata eitthvað svo mikið að þú sért tilbúin að fórna eigin lífi til að lýsa yfir þessu hatri er auðvitað ákveðin geðveila, ekki satt. Ég er ekki sammála. Mér finnst, eftir að hafa lesið talsvert um æfi þessara óhamingjusömu drengja, sérstaklega þeirra sem gert hafa háskólafjöldamorð fræg að endemum í Bandaríkjunum, að þeir hafi alveg getað dregið þær ályktanir sem þeir gerðu, án þess að vera veilir á geðheilsu. Alla vega ekkert geðveikari en stjórnvöld marga þjóða heimsins. Aðferðin að drepa fólk "to make a point" er vel viðurkennd aðferð notuð af öllum helstu ríkjum heims. Kína, Rússland, Bretland, Frakkland, Bandaríkin, ásamt flestum þjóðum Asíu, Afríku og Suður Ameríku nota þessa aðferð. Hvervegna ættu þegnar þessara landa ekki að draga sömu ályktanir. Óvinir þeirra er heimurinn, mannkyni allt eins og þeir sjá það. Drepum það.

Vegna þessa heyrist lítið um niðurstöður rannsókna sem leita að svörum um hvers vegna þessi borgarlegu fjöldamorð eiga sér stað. Niðurstöður þeirra eru að einstaklingarnir nota sömu rök til að réttlæta gjörðir sínar og stjórnvöld nota til að halda sínum óvinum í skefjum. Stjórnvöld eru meira en fús til þess að fórna ungum lífum borgara sinna við þá iðju. Hver er geðveilan? Og hver er munurinn?

 


Hjúkka

Sjúkrahús eins og aðrar mannlegar stofnanir hafa ekki ætíð verið til. Í byrjun níttjándu aldar voru aðeins tvö sjúkrahús starfrækt í Bandaríkjunum og árið 1973 voru þau aðeins 178. Ástæðan fyrir því að sjúkrahús voru ekki stofnsett almennt í ríkjum heims fyrr en í byrjun tuttugustu aldar, var að umönnun sjúkra var álitið í verkahring fjölskyldunnar. Hræðsla við sjúkleika ókunnugra, smit og hvers kyns líkamslýti áttu sinn þátt í að koma í veg fyrir þróun líknarstarfa á samfélagslegum grundvelli.

hospitalinteriorwebAssýríumenn og nánast allar siðmenningar í kjölfar þeirra, breiddu út þann boðskap að sjúkleiki væri refsing fyrir syndir manna sem aðeins gæti læknast með iðrun eða með göldrum. Þar af leiðandi var lítil virðing borin fyrir þeim sem reyndu að veita sjúkum líkamlega aðhlynningu og það féll venjulega í hlut ekkna, skækja eða atvinnulauss sveitafólks. Hjúkrun var oftast ekki launað starf og þeir sem hana lögðu fyrir sig gátu í besta falli búist við húsaskjóli að mat að launum og voru ávallt skilgreindir sem þjónar. Í lögum Theodusar Keisara (438 EK) var  hjúkrunarkonum bannað að sækja leikhús vegna "óskammfeilni þeirra, grófleika og ofbeldishneigðar".

Image51Stundum voru líknarstörf stunduð af þeim sem sögðu líkn vera dyggð og vildu mótmæla grimmd heimsins. Rómverska konan Fabíóla var eins slík. Hún var tvískilin og náði að sefa óhamingju sína með því að gerast kristin og setja á stofn sjúkrahús þar sem hún vann sjálf myrkrana á milli við að hjúkra hverjum þeim sem að garði bar. Annar var Basil Hinn Mikli, biskup í Caesarea (300-79 EK) sem lét byggja heilt úthverfi þar sem hann gat líknað sjúkum og hrjáðum, kysst holdsveika til að sýna þeim stuðning og sinnt þörfum þeirra. Öðru fólki þótti þetta líknarstarf vera tilraun til að snúa öllu við á annan endann. Þannig varð til þriðja ástæðan fyrir því að líkn næði að verða samfélagsleg ábyrgð, því flesta langaði alls ekki að verða píslarvottar, munkar eða nunnur, hvers sál skipti meira máli en líkaminn.

Árið 1633 var Líknarsystra-reglan stofnuð í Frakklandi sem varð að fyrirmynd góðhjartaðra kvenna sem stunduðu mannúðarstörf í Evrópu og Ameríku. - Þær bjuggu ekki í klaustrum né sóttust þær eftir heilagleika með íhugun og bænum. Þær ferðuðust um Frakkland og seinna til annarra landa og aðstoðuðu sjúka og hugguðu bæði sorgmædda og fátæka. Samt nálguðust þær starf sitt eins og af yfirbót eða sem píslarvætti.

Stofnendur þessarar líknarreglu voru undraverðir einstaklingar sem sameinuðu krafta sína í sönnum kærleika. Vincent de Paul (1581-1660) var fátækur bóndasonur sem var rænt af sjóræningjum og hnepptur í þrældóm í Túnis í a.m.k. ár þangað til honum tókst að flýja. Louise de Marillac (1591-1660) var ósligetið barn aðalsmanns sem var alin upp sem "bæði kona og maður". Hún hlaut nokkra menntun í heimsspeki og málaralist, giftist konunglegum ritara og þjáðist af þeirri hugsun að hún ætti að skilja við mann sinn og gera eitthvað þarflegra við líf sitt. - Þau trúðu bæði að hver betlari væri Kristur á jörðu og hver sjúklingur væri að upplifa krossfestingu hans. Þess vegna ætti að líkna þeim og þjóna í mikilli auðmýkt. Til að ná sannri auðmýkt ætti hjúkrunarkonan að vinna á ókunnum slóðum. "Það er nauðsynlegt að líkna ókunnugum" sögðu þau. Hamingja til handa þeim sjálfum var ekki markmið heldur að miðla hamingju og ánægju þrátt fyrir erfiðleika og mótlæti. Haft er eftir Louise að ekki hafi dagur liðið á ævi hennar án sársauka.

Allar þær væringar sem urðu á seinni tímum meðal stétta í umönnunarstörfum voru fyrir séðar af þessum tveimur dýrlingum.- Þau voru staðráðin í að koma í veg fyrir valdastreitu meðal reglusystkina sinna með því að láta þær skiptast á um að sjá um skipulagningu og neita öllum um sérréttindi og yfirráð. Fyrirmyndin að sjálflausu hjúkrunarkonunni varð þar með til.

early-nurseEn þessi fyrirmynd var ekki gallalaus. Hjúkrunarstörf voru unnin bæði af bæði körlum og konum sem önnuðust sjúklinga hvert af sínu kyni. Á sautjándu og átjándu öld varð hjúkrun að kvennastarfi eingöngu. Þetta opnaði mikla möguleika fyrir konur en með ófyrirsegjanlegum og hörmulegum tilfinningalegum afleiðingum. Fólk fór að trúa því að að konur einar gætu sinnt hjúkrunarstörfum og að slík störf væru sambærileg við húsmóðurstörf sem auðvitað voru á endanum háð yfirvaldi karlmannsins.

Yfirmaður skurðdeildarinnar við Sjúkrahúsið í New York lét fara frá sér þá yfirlýsingu árið 1860 að; "karlmenn, þótt þeir séu öllum kostum gæddir, geta ekki komið á móts við þarfir hinna sjúku. Þeir hafa ekki tilfinningu fyrir því sem með þarf". Álitið var að konur einar réðu yfir þeirri næmni sem þurfti til að hjúkra sjúkum á fullnægjandi hátt.

Á liðnum öldum heyrði það til undantekninga að læknar störfuðu við sjúkrahús, enda voru þau að mestu geymslur fyrir fátæklinga. Starf hjúkrunarkvenna var að mestu fólgið í að gefa sjúklingunum að borða, enda var það hungrið sem hrjáði fátæklingana mest.  Seint á átjándu öld mótmæltu læknar því að besta leiðin til að lækna sjúka væri alltaf að gefa þeim sem mest að borða og hófu að taka stjórn sjúkrahúsa í sínar hendur. Þeir umbreyttu sjúkrahúsunum smám saman í rannsóknastofnanir þar sem beitt var tæknilegum lausnum til lækninga sjúkdóma í stað þess að einblína á andlega heilsu sjúklingsins. Loks fór svo að sjúkrahús urðu að vísindastofnunum sem hægt var að reka á fjárhagslegum grundvelli og þar með náði tæknin og virðingarsessinn yfirhöndinni. Líknin hvarf ekki en varð að undirsáta framleiðninnar.

Florence Nightingale sagði eitt sinn; "Ég hlakka til þegar öll sjúkrahús verða aflögð". Hún var talsmaður þess að hjúkrun færi fram á heimilum og varaði við því að hjúkrunarkonur myndu verða harðbrjósta af of mikilli læknisfræði. "Þú getur ekki orðið góð hjúkrunarkona án þess að vera góð kona" sagði hún.

Í dag, þegar heimurinn dáist að hjúkrunarfólki hvar sem það er að störfum í heiminum er það undarvert að þeim er gert erfiðara fyrir en nokkru sinni fyrr að stunda starf sitt með ánægju.  Óánægja hjúkrunarfólks er meira en sambærilegar menntastétta. Ástæðan er ekki endilega lágt kaup, sem er samt staðreynd, heldur að því finnst það vera hindrað í að gefa sjúklingum þá umönnun sem það telur sæmilega og sá mikli ágreiningur sem er á milli gilda heilbrigðikerfisins og þeirra. Samhliða þessum ágreiningi þarf fólk í umönnunarstörfum að takast á við streituna sem skapast af því að halda stöðugt utan við umræðuna því sem viðkemur kynlífi, úrgangi og dauða sjúklinga, allt mál sem enn eru tabú meðal almennings.

Heimildir;

An Intimate history of Humanity Theodore Zeldin

A History of Civilizations Fernand Braudel

Society Sketches in the XVlllth Century Norman Pearson

 

 


Gunnuhver, Selmatseljan og Sagan af Hermóði og Háðvöru

Hér koma þrjár þjóðsögur. Hvor um sig er hin skemmtilegasta lesning en þær eru mjög ólíkar. Spurning mín til þeirra sem hafa nennu og hug til að lesa þær allar þrjár er hvort þið komið  auga á ákveðið atriði sem þær eiga sameiginlegt. Hvert er það atriði og tilhvers er það?  

Gunnuhver  

Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður bjó á Kirkjubóli á Rosmhvalanesi; hann dó 1706. Hann átti illt útistandandi við kerlingu eina sem hét Guðrún Önundardóttir, út af potti sem hann átti að hafa tekið af henni, líklega upp í skuld. Kerling tók sér það svo nærri að hún heitaðist við Vilhjálm.

Þegar hún var grafin var Vilhjálmur þar við, en leið hans lá um Skagann sem kallaður er fyrir utan Útskála. Hann fór heimleiðis um kvöldið, en fannst daginn eftir dauður á Skaganum og var þá allur blár og beinbrotinn.

gunnuhverLík hans var flutt í bænhúsið á Kirkjubóli og Gísli prestur á Útskálum fenginn til að vaka yfir því á næturnar, því allir þóktust vita að Gunna hefði drepið hann og væri nú afturgengin. Þóktist prestur eiga fullt í fangi að verja líkið fyrir kerlingu að ei drægi hún það úr höndum sér.

Afturgangan magnaðist síðan mjög og nú dó ekkja Vilhjálms snögglega; var Gunnu það kennt. Fólk sem fór um Skagann villtist sumt, en sumt varð vitstola. Var það allt af völdum Guðrúnar og sáu menn nú óvætt þenna fullum sjónum. Gjörði þá Gunna skaða mikinn svo ekki var viðvært mönnum né málleysingjum.

Þegar í slíkt óefni var komið og enginn gat stemmt stigu fyrir afturgöngunni, þá voru tveir menn nokkuð kunnandi sendir til fundar við séra Eirík í Vogsósum til að biðja hann hjálpar. En með því prestur var ekki alténd vanur að taka slíkum málum greiðlega, þá voru þeir látnir færa honum nokkuð af brennivíni, því allir vissu að honum þókti það gott.

Sendimenn fóru nú á fund Eiríks prests og gjörðu allt eins og fyrir þá var lagt. Tók hann þeim vel, en þegar þeir fóru á stað aftur fékk hann þeim hnoða og sagði að þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á hnoðanu. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún mætti vera að ósekju.

Sneru sendimenn heim við þetta og gjörðu allt sem prestur hafði fyrir þá lagt. En undireins og Gunna hafði tekið í lausa endann á hnoðanu valt það á stað, en hún fór á eftir. Sást það seinast til að hvort tveggja, hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Hefir síðan ekki orðið meint við afturgöngu Gunnu.

Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að Gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverbarminum og trítlar hún þannig einatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfbogin, því hún vill fyrir hvern mun sízt fara ofan í vilpu þessa.

 

Selmatseljan.

222413724_4c800dac06Prestur var eitt sinn fyrir norðan sem hafði upp alið stúlkubarn. Frá prestssetrinu var selstaða langt á fjöllum uppi og hafði prestur þar jafnan fé og kýr á sumrum, ráðskonu og smala. 
   Þegar fósturdóttir hans varð eldri varð hún selráðskona og fór henni það sem annað vel úr hendi því hún var ráðdeildarkvenmaður, fríð sýnum og vel að sér um marga hluti. Urðu því margir efnismenn til að biðja hennar, því hún þótti hinn besti kvenkostur norður þar. En hún hafnaði öllum ráðahag við sig.
   Einu sinni kom prestur að máli við uppeldisdóttur sína og hvatti hana mikillega að giftast og taldi það til að ekki yrði hann ætíð til að sjá henni farborða þar sem hann væri maður gamall. Hún tók því allfjarri og kvaðst engan hug leggja á slíkt og sér þætti vel sem væri og ekki sæktu allir gæfu með gjaforðinu. Skildu þau að svo mæltu um hríð.
   Þegar leið á veturinn þótti mönnum selráðskonan þykkna undir belti og fór þykktinni því meir fram sem lengur leið á. Um vorið kom fóstri hennar aftur að máli við hana og bað hana segja sér frá högum hennar og sagði hún mundi víst vera barnshafandi og að hún mundi ekki í selið fara það sumar.
   Hún neitaði þverlega að hún væri eigi einsömul og kvað sér ekki til meina og selstörf skyldu hún annast eins það sumar og áður.
   Þegar klerkur sá að hann kom engu áleiðis við hana lét hann hana ráða en bað menn þá er voru í selinu að ganga eigi nokkru sinni frá henni einni og hétu þeir honum góðu um það. Síðan var flutt í selið og var ráðskonan hin kátasta. Leið svo fram um hríð að ekki bar til tíðinda. Selmenn höfðu sterkar gætur á ráðskonunni og létu hana aldrei eina. 
   icesheepEitt kvöld bar svo við að smalamanni var vant alls fjárins og kúnna. Fór þá hvert mannsbarn úr selinu nema selráðskonan var ein eftir. Sóttist leitarmönnum seint leitin og fundu eigi féð fyrr en undir morgun með því niðþoka var á.
   Þegar leitarmenn komu heim var matseljan á fótum og venju fremur fljót á fæti og létt á sér. Það sáu menn og þegar frá leið, að þykkt hennar hafði minnkað en ekki vissu menn með hverju móti og þótti mönnum að þykktin hefði verið annars kyns þykkt en barnsþykkt.
   Var svo flutt úr selinu um haustið heim, bæði menn, fénaður og söfnuður. Sá prestur það að matseljan var mjóslegnari um mittið en hún hafði verið veturinn áður.
   Gekk hann þá á hina selmennina og spurði þá hvort þeir hefðu brugðið af boði sínu og gengið allir frá selmatseljunni. En þeir sögðu honum svo sem var að þeir hefðu alls einu sinni frá henni farið að leita því alla málnytuna hefði vantað.
   Klerkur reiddist og bað þá aldrei þrífast sem breytt hefðu boði sínu og kvað sig hafa grunað þetta þegar selmatseljan fór í selið um vorið.
   Veturinn eftir kom maður að biðja fósturdóttur prestsins og tók hún því allfjarri. En prestur sagði hún skyldi ekki undan komast að eiga hann því hann hafði almenningslof á sér og var góðra manna. Hann hafði tekið við búi eftir föður sinn um vorið og var móðir hans fyrir framan hjá honum. Varð svo þessum ráðahag framgengt hvort konunni var það ljúft eða leitt. 
   huldumaðurUm vorið var brullaup þeirra hjá presti. En áður konan klæddist brúðarfötum sínum sagði hún við mannsefnið: "Það skil ég til við þig fyrst þú átt að ná ráðahag við mig að mér nauðugri að þú takir aldrei vetursetumann svo að þú látir mig ekki vita áður því ella mun þér ekki hlýða," og hét bóndi henni því.
   Leið svo af veislan og fór hún heim með bónda sínum og tók til búsforráða en þó með hangandi hendi því aldrei var hún glöð eða með hýrri há þótt bóndi hennar léki við hana á alla vegu og vildi ekki láta hana taka hendi í kalt vatn. Hvert sumar sat hún inni þegar aðrir voru að heyvinnu og tengdamóðir hennar hjá henni til að skemmta henni og annast um matseld með henni. Þess á millum sátu þær og prjónuðu eða spunnu og sagði eldri konan tengdadóttur sinni sögur henni til skemmtunar.
   Eitt sinn þegar gamla konan hafði lokið sögum sínum sagði hún við tengdadóttur sína að nú skyldi hún segja sér sögu. En hún kvaðst engar kunna. Hin gekk því fastar að henni svo hin hét þá að segja henni þá einu sögu sem hún kynni og hóf þannig frásögn sína:
   "Einu sinni var stúlka á bæ. Hún var selmatselja. Skammt frá selinu voru hamrar stórir og gekk hún oft hjá hömrunum. Huldumaður var í hömrunum, fríður og fallegur, og kynntust þau brátt við og varð þeim allkært saman. Hann var svo góður og eftirlátur við stúlkuna að hann synjaði henni einskis hlutar og var henni til vilja í hvívetna. Fóru þá svo leikar þegar fram liðu stundir að selmatseljan var eigi einsömul og gekk húsbóndi hennar á hana með það þegar hún átti að fara í selið sumarið eftir en stúlkan neitaði áburði þessum og fór í selið sem hún var vön. 
   VIG-AzH_6bEn húsbóndinn bað þá er í selinu voru að fara aldrei svo frá henni að hún væri ein eftir og hétu þeir honum góðu um það. Eigi að síður fóru allir frá henni að leita fjárins og þá tók hún léttasóttina. Kom þá maður sá til hennar er hún hafði haft samræði við og sat yfir henni og skildi á milli, laugaði barnið og reifaði. En áður hann fór burtu með sveininn gaf hann henni að drekka af glasi og það var sá sætasti drykkur sem ég hef. . .," í því datt hnoðað úr hendinni á henni, sem hún var að prjóna af, svo hún laut eftir hnoðanu og leiðrétti, -- "sem hún hafði smakkað, vildi ég sagt hafa, svo hún varð á samri stundu alheil allra meina.
   Upp frá þeirri stundu sáust þau ekki, stúlkan og huldumaðurinn, en hún giftist öðrum manni sárnauðug því hún þráði svo mjög hinn fyrri ástmann sinn og sá aldrei upp frá því glaðan dag. Og lýkur hér þessari sögu."
   Tengdamóðir hennar þakkaði henni söguna og setti hana vel á sig.
   Fór svo fram um hríð að ekki bar til tíðinda og konan hélt teknum hætti um ógleði sína en var þó góð við mann sinn.
   Eitt sumar þegar mjög var liðið á slátt komu tveir menn, annar stærri en annar, í teiginn til bónda. Báðir höfðu þeir síða hetti á höfði svo óglöggt sást í andlit þeim. Hinn meiri hattmaður tók til orða og bað bónda veturvistar. Bóndi kvaðst ekki taka nokkurn mann á laun við konu sína og kvaðst hann mundi hitta hana að máli áður en hann héti þeim vistinni.
   Hinn meiri maður bað hann ekki mæla svo óvirðulega að slíkur höfðingi ætti það konuríki að hann væri ekki einráður í slíkum smámunum sem að gefa tveimur mönnum mat einn vetrartíma. Svo það verður að ráði með þeim að bóndi hét mönnum þessum veturvist að konu sinni fornspurðri.
   Um kvöldið fara komumenn heim til bónda og lét hann þá fara í hús nokkurt frammi í bænum og bað þá þar vera. Bóndi gengur til húsfreyju og segir henni hversu nú var komið. Húsfreyja snerist illa við og sagði þetta hina fyrstu bæn sína og að líkindum þá seinustu. En fyrir því að hann hefði einn við mönnunum tekið þá skyldi hann og einn fyrir sjá hvað hlytist af veturvist þeirra og skildu svo talið.
   Var nú allt kyrrt þangað til húsfreyja og húsbóndi ætluðu til altaris um haustið. Það var venja þá, sem enn er sums staðar á Íslandi, að þeir sem ætla sér að vera til altaris ganga fyrir hvern mann á bænum, kyssa þá og biðja þá fyrirgefningar á því sem þeir hafi þá styggða. Húsfreyja hafði allt til þessa forðast vetursetumennina og aldrei látið þá sjá sig og svo var og að þessu sinni að hún kvaddi þá ekki.
   Svo fóru hjónin af stað. En þegar þau voru komin út fyrir túngarðinn sagði bóndi við húsfreyju: "Þú hefur sjálfsagt kvatt vetursetumennina." Hún kvað nei við.
   Hann bað hana ekki gjöra þá óhæfu að fara svo hún kveddi þá ekki.
   "Í flestu sýnir þú að þú metur mig lítils, fyrst í því að þú tókst við mönnum þessum að mér fornspurðri, og nú aftur þar sem þú vilt þröngva mér til að minnast við þá. En ekki fyrir það, ég skal hlýða, en þú skalt fyrir sjá því þar á ríður líf mitt og þitt með að líkindum."
   Hún snýr nú heim og seinkar henni mjög heima. Bóndi fer þá heim og kemur þangað sem hann átti von á vetursetumönnum og finnur þá í herbergi þeirra. Hann sér hvar veturvistarmaður hinn meiri og húsfreyja liggja bæði dauð í faðmlögum á gólfinu og höfðu þau sprungið af harmi. En hinn veturvistarmaðurinn stóð grátandi yfir þeim þegar bóndi kom inn en hvarf í burt litlu síðar svo enginn vissi hvert hann fór.
   Þóttust nú allir vita af sögu þeirri er húsfreyja hafði sagt tengdamóður sinni að hinn meiri komumaður hefði verið huldumaður sá sem húsfreyja hafði kynnst við í selinu og hinn minni sonur þeirra sem á burt hvarf.

SAGAN  AF  HERMÓÐI  OG  HÁÐVÖRU

Það var einu sinni konungur og drottning í ríki sínu; þau áttu eina dóttir er Háðvör hét. Hún var mjög fríð og fögur mær og þar eð konungur og drottning áttu ekki fleiri börn þá var hún borin til ríkis.

king&queen_1_lgKóngur og drottning áttu líka uppeldisson er nefndist Hermóður. Hann var hér um bil jafnaldri Háðvarar, fríður sveinn og vel að sér gjör um alla hluti. Hermóður og Háðvör léku sér tíðum saman meðan þau voru í æsku og kom mjög vel saman svo þau þegar á unga aldri hétu hvert öðru tryggðum heimuglega.

Nú liðu fram stundir þangað til drottning tekur sótt, og þegar hún fékk hugmynd um það að það mundi verða sótt til dauða gjörir hún boð eftir konungi. Þegar hann kemur segir hún að hún muni skammt eiga eftir ólifað og kveðst ætla að biðja hann einnar bónar, og hún sé sú að ef hann gifti sig í annað sinn þá gjöri hann það fyrir sín orð að eiga enga aðra en drottninguna af Hetlandi góða. Konungur lofar þessu og svo deyr drottingin.

En er fram liðu stundir fer konungi að leiðast einlífið, býr skip sitt og leggur í haf. Á ferð þessari kemur mikil þoka yfir hann og kemst því í hafvillur. Eftir langa mæðu hittir hann land og leggur þar að skipi sínu og gengur einn á land. Þegar hann hafði gengið nokkra stund verður fyrir honum skógur; fer hann lítið eitt inn í hann og staðnæmist þar. Heyrir hann þá fagran hljóðfærasöng og gengur á hljóðið þangað til hann er kominn að rjóðri einu; sér hann þá hvar þrjár konur eru í rjóðrinu; situr ein þeirra á gullstól og í ljómandi fögrum búningi; heldur hún á hörpu og er augljóslega sorgbitin. Önnur var mjög tíguglega búin, en unglegri að sjá og sat hún einnig á stóli sem þó var ekki eins kostulegur. Sú þriðja stóð hjá þessum; var hún rétt hreinleg á að líta, en Í grænum möttli var hún ystum fata og var það auðséð á öllu að hún var þerna hinna.

Konnngur gengur til þeirra þegar hann hafði litla stund virt þær fyrir sér og heilsar þeim. Sú sem sat á gullstólnum spyr kónginn hver hann sé og hvað hann ætli að ferðast. Segir hann að hann sé konungur og sé búinn að missa drottningu sína, en hann hafi ætlað að sigla til Hetlands hins góða og biðja þar drottningar sér til handa.

Hún segir þá að forlögin hafi hagað þessu furðanlega; það hafi verið herjað á Hetland, víkingarnir hafi fellt konung sinn og bónda í orustu og þá hafi hún hrygg í huga stokkið úr landi og eftir langa mæðu hafi hún komist hingað, svo hún sé einmitt sú er hann leiti að, en með sér sé dóttir hennar og þerna.

prince&princess_1_lgKonungur lætur þá ekki bið á verða og biður hennar. Tekur hún blíðlega máli hans, verður glöð í bragði og játast honum strax í stað. Eftir stutta dvöl leggja þau öll á stað og nema ekki staðar fyrri en þau koma til skipsins.

Segir ekki af ferðum þeirra fyrr en konungur kemur heim í ríki sitt; stofnar hann þá mikla veislu og gengur að eiga konu þá er hann hafði flutt heim með sér. Er nú allt kyrrt um hríð, en samt gefa Hermóður og Háðvör sig lítið að drottningu eða þeim mæðgum; en þar á móti var Háðvör og sú aðkomna þerna drottningar sem hét Ólöf mjög samrýndar, og kom Ólöf oft í kastala Háðvarar.

Áður langir tímar liðu fer konungur í hernað, og þegar hann eru burtu farinn kemur drottning að máli við Hermóð og segir honum að hún hafi svo til ætlast að hann gengi að eiga dóttur sína. Hermóður segir henni hreint og beint að það muni ekki geta látið sig gjöra. Af þessu verður drottning reið, segir að þau muni ei strax fá að njótast, Hermóður og Háðvör, því nú leggi hún það á hann að hann skuli fara út í eyðieyju, verða ljón á daginn, en maður á nóttum svo hann muni einlægt til Háðvarar og kveljist því meira, og úr þessum álögum skuli hann ekki komast fyrri en Háðvör brenni ljónshaminn sem seint muni verða.

Þegar hún hefur þetta mælt segir Hermóður að hann mæli svo um að þegar hann komist úr sínum álögum þá skuli þær mæðgur verða önnur að rottu, en önnur að mús, og verða að rífast í höllinni þangað til hann drepi þær með sverði sínu. Eftir þetta hverfur Hermóður og veit enginn hvað um hann er orðið. Drottning lætur leita að honum, en hann finnst hvergi.

Einhverju sinni þegar Ólöf var í kastalanum hjá Háðvöru spyr hún kóngsdóttir hvert hún viti hvar Hermóður sé niður kominn. Við þessi orð verður Háðvör hrygg og segir að því sé miður að hún viti það ekki. Ólöf kveðst þá skuli segja henni það þar hún viti allt um það. Hún segir að hann sé burtu farinn fyrir tilstilli drottningar, hún sé tröllskessa og einnig dóttir hennar, en hún hafi þannig breytt útliti þeirra mæðgna og þegar Hermóður eftir burtför konungsins hafi ekki viljað fara að ráðum drottningar að eiga dóttir hennar hafi hún lagt á hann að hann skyldi fara út í eyju eina, verða maður á næturnar, en ljón á daginn og ekki komast úr þeim álögum fyrri en Háðvör brenndi ljónshaminn.

lion_1_lgNú segir hún að Háðvöru sé líka fyrirhugaður ráðahagur, drottning eigi bróðir í undirheimum, þríhöfðaðan þursa; sé áformið að gjöra hann að fögrum kóngssyni og láta hann síðan eiga hana. Segir Ólöf að drottning finni þannig upp á einum brögðunum á fætur öðrum, hún hafi numið sig burt úr húsi foreldra sinna og neytt sig til að þjóna sér, en hún hafi aldrei getað gjört sér mein því að græni möttullinn sem hún hafi yfir sér komi því til leiðar að hana saki ekki þó eitthvað ætti að gjöra henni.

Háðvör verður nú áhyggjufull og hrygg út af þeirri fyrirhuguðu giftingu hennar og biður Ólöfu fyrir alla muni að leggja sér nú góð ráð. Ólöf segist gjöra ráð fyrir að biðillinn muni koma upp um kastalagólfið hjá henni, en þá skuli hún vera viðbúin þegar undirgangurinn fari að koma og gólfið taki að springa í sundur, að hafa við hendina logandi stálbik og hella ótæpt ofan í sprungurnar því það muni vinna á honum.

Um þetta leyti kemur kóngur heim úr stríði sínu, þykir mjög sárt að verða að þola það að vita ekki hvað af Hermóði er orðið. En drottning huggar hann sem best hún getur og er nú ei annars getið en konungur yrði rólegur.

Nú víkur aftur sögunni til Háðvarar að hún er í kastala sínum og hefur nú viðbúnað að taka móti biðli sínum.

Ekki löngu síðar er það eina nótt að mikill undirgangur og skruðningur kemur undir kastalann; veit Háðvör hvað valda muni og biður þjónustumeyjar sínar að vera viðbúnar. Skruðningurinn og dynkirnir fara einlægt vaxandi þangað til gólfið fer að springa; þá lætur Háðvör taka bikkatlana og hella óspart í sprungurnar. Fara þá dunurnar smátt og smátt að minnka og verða loksins engar.

Næsta morgun vaknar drottning snemma og kveðst þurfa að fara á fætur og lætur kóngur það eftir henni. En sem hún er komin á fætur fer hún út fyrir borgarhliðið og er þar þá dauður þursinn bróðir hennar.

Þá segir hún: "Mæli ég um og legg ég á að þú verðir að hinum fríðasta kóngssyni og að Háðvör geti ekki neitt haft á móti þeim ásökunum sem ég gef henni." Verður nú lík þursans að líki hins fríðasta kóngssonar.

Síðan heldur drottning heim aftur og kemur að máli við konung, segir að ekki þyki sér dóttir hans vera það góðkvendi sem vera bæri. Segir hún að bróðir sinn hafi komið og farið að biðja hennar, en hún sé nú búin að drepa hann og hafi hún orðið þess vör að lík hans lægi fyrir utan borgina.

Konungur og drottning ganga nú út til að skoða líkið. Þykir konungi þetta vera mikil furða og kveðst halda að svo fagur sveinn sem þessi hafi verið fullboðinn Háðvöru og að hann mundi hafa samþykkt þvílíka giftingu. Drottning biður nú kónginn að lofa sér að ráða hverja hegningu Háðvör skyldi fá og er konungur fús til þess því hann kveðst ekki geta ákveðið straff dóttur sinnar. Leggur drottning svo ráðin á að hann láti búa haug mikinn að bróður sínum og verði Háðvör látin lifandi í hauginn til hans. Þykir konungi þetta óskaráð og hæfilegur dómsúrskurður. Eftir þetta fara þau heim í borgina.

mouseNú víkur sögunni til Ólafar; hún vissi alla þessa ráðagjörð, fer til kastala kóngsdóttur og segir henni hvað í ráði sé. Biður Háðvör hana að leggja sér einhver ráð. Ólöf segir að það sé það fyrsta sem hún skuli gjöra að hún skuli láta búa sér til mjög víðan stakk sem hún skuli hafa ystan fata þegar hún gangi í hauginn. Þursinn segir hún að muni ganga aftur þegar þau séu komin í hauginn, og þar muni hann hafa tvo hunda hjá sér; þursinn muni biðja hana að skera stykki úr kálfunum á sér til að gefa hundunum, en þetta skuli hún ekki lofa að gjöra nema hann segi henni hvar Hermóður sé niður kominn, og kenni sér ráð til þess að geta fundið hann. En þegar hún ætli að fara og þursinn láti hana fara upp á herðar sér til þess hún komist upp úr haugnum þá muni hann reyna til að svíkja hana og grípa í stakkinn til þess að kippa henni ofan í aftur, en þá skuli hún gæta þess að láta stakkinn vera lausan svo hann haldi eftir einungis stakknum.

Nú er haugurinn tilbúinn, þursinn lagður í hann eða sá dauði konungssonur, og Háðvör hlýtur að fara líka í hauginn án þess að geta komið nokkurri vörn fyrir sig. Það þarf ekki að fjölyrða það að svo fór sem Ólöf gjörði ráð fyrir, kóngssonur gengur aftur og verður þursi; tveir hundar eru hjá honum og hann biður Háðvöru að skera bita úr kálfum sínum handa þeim; en hún kveðst ei muni gjöra það nema hann segi sér hvar Hermóður sé og leggi sér ráð til þess að geta komist til hans. Þursinn segir að Hermóður sé í eyðieyju einni sem hann til tekur, en þangað geti hún ekki komist nema hún flái iljaskinnið af fótum sér og gjöri sér skó úr því, en á þeim geti hún gengið yfir láð og lög.

Eftir þetta gjörði Háðvör það sem þursinn beiddi, sker stykkin, fer síðan að flá iljaskinnið, býr til skó og þegar allt er búið þá segist hún vilja fara. Þursinn segir hún verði þá að fara upp á herðar sér og það gjörir hún, skreppur síðan upp, en þá er óþyrmilega gripið í stakkinn. Hún hafði gætt þess að láta hann vera lausan svo þursinn hélt honum eftir, en Háðvör slapp.

Hélt hún nú leiðar sinnar til sjávar og þangað að sem hún vissi að skemmst var út í eyjuna til Hermóðar. Gekk henni vel yfirferðin yfir sundið því skórnir héldu henni vel á loft.

Þegar hún var komin yfir um sá hún að sandur var með öllum sjónum, en háir hamrar fyrir ofan svo hún sá sér engan veg að komast upp, og bæði vegna þess að hún var orðin hrygg í huga og þreytt af ferðalagi sínu leggur hún sig fyrir og fer að sofa.

Henni þótti nú kona stórvaxin koma til sín og segja: "Ég veit að þú ert Háðvör kóngsdóttir og ert að leita að Hermóði; hann er á eyju þessari, en torvelt mun þér verða að finna hann ef þér er ekki hjálpað; þú getur ekki komist upp á þessa háu hamra af eigin ramleik, og því hef ég lagt festi ofan fyrir björgin sem ei mun bila þó að þú lesir þig eftir henni til að komast upp á eyjuna. Af því eyjan er stór getur vel skeð að þú finnir ekki svo fljótt híbýli Hermóðar. Legg ég þess vegna hérna hjá þér hnoða; skaltu halda í endann á bandinu sem er við það og þá mun það leiðbeina þér að takmarkinu. Ennfremur legg ég hér belti sem þú skalt spenna um mittið þegar þú vaknar, því þá muntu ekki örmagnast af hungri."

Eftir þetta hverfur konan, en Háðvör vaknar og sér að svo er sem hana dreymdi. Festi er komin í hamarinn, hnoða liggur hjá henni og belti líka; spennir hún beltið um mitti sér, gengur að festinni og kemst nú upp á klettana. Síðan tekur hún í endann á tauginni sem lá úr hnoðanu og eftir það tekur hnoðað til ferðar. Fylgir Háðvör hnoðanu þangað til það kom að hellir ekki allstórum. Hún gengur inn í hellirinn, sér þar eitt flet lítilfjörlegt, smýgur hún undir það og leggst þar fyrir.

Þegar kvöld er komið heyrir hún undirgang úti, síðan heyrir hún fótatak og verður vör við að ljón er komið að dyrunum og hristir sig, og eftir það heyrir hún að maður gengur inn og að fletinu. Dylst það þá ekki fyrir henni að þessi maður er Hermóður því hann er að tala við sjálfan sig um ástand sitt, um Háðvöru og fleira er hann endurminntist frá hinum fyrri tímum.

Háðvör lætur ekki neitt á sér bera og bíður þangað til Hermóður er sofnaður. En er hún heldur að hann sé búinn að festa svefninn rís hún á fætur, tekur eld og brennir ljónshaminn sem úti lá. Eftir það fer hún inn, vekur Hermóð og verða þar fagnaðarfundir.

Að morgni fara þau að hugsa til ferðalags og eru þau hugsandi út af því hvernig þau muni geta komist úr eyjunni. Segir Háðvör Hermóði frá draum sínum og segir að sig gruni að það muni einhver vera í eyjunni, sem kynni að geta hjálpað þeim. Hermóður kveðst vita af einni skessu sem sé vænsta skessa, mesta tryggðatröll, og mundi vera gott að finna hana.

Þau fara síðan að leita að hellinum og finna hann. Er þar ógnastór tröllskessa og fimmtán synir hennar ungir; biðja þau hana að hjálpa sér til lands. Hún segir að annað mundi auðveldara því haugbúinn muni ætla sér að verða á vegi fyrir þeim, hann sé orðinn að stórfiski og ætli að ráðast á þau þegar þau fari í land. Hún kveðst skuli ljá þeim skip, en ef að þau verði vör við fiskinn og þeim þyki sér liggja nokkuð á þá megi þau nefna nafn sitt. Þau þakka henni með mörgum fögrum orðum fyrir hjálp sína og góðu loforð og leggja svo á stað.

savanna_seamonsterÁ leiðinni í land sjá þau stórfisk með miklu busli og ólátum sem stefnir að þeim. Þau þykjast vita hvað vera muni, halda að sér muni aldrei liggja meir á að nefna nafn skessunnar og það gjöra þau. Rétt á eftir sjá þau hvar kemur á eftir þeim mjög stór steypireyður og fylgja henni fimmtán smáreyður. Þær renna fram hjá bátnum og á móti illhvelinu. Verður þar hörð aðsókn; sjórinn verður allur ókyrr svo varla var kostur á að verja bátinn í þeim öldugangi. En er bardaginn hafði staðið góða stund sjá þau Hermóður og Háðvör að sjórinn verður blóðugur og eftir það fer stóra reyðurin og hinar fimmtán smáu aftur til baka, en þau sem á bátnum voru komust hindrunarlaust í land.

Nú víkur sögunni til hallar konungsins; þar hafði orðið undarlegur atburður: drottning hvarf og dóttir hennar, en rotta og mús eru einlægt að fljúgast þar á. Margir vilja stökkva burtu þessum ófögnuði, en þess er ekki kostur. Líður þannig góður tími svo að konungur verður svo sem frá sér numinn af sorg bæði vegna missirs drottningar sinnar og af því að ókindur þessar skuli hindra alla gleði í höllinni.

En eitt kvöld þegar allir sátu í höllinni kemur Hermóður inn gyrtur sverði og heilsar konungi. Konungur tekur honum hið blíðasta. En áður Hermóður fengi sér sæti gengur hann þar að sem rottan og músin voru að fljúgast á og höggur hann þær í sundur með sverði sínu. Verða þá allir hissa er þeir sjá að tvö flögð liggja á hallargólfinu og brenna hami þeirra.

Síðan er konungi nú sögð öll sagan og fagnar hann mjög að hann er frelsaður frá þessum óvættum. Líður nú ekki langt um þangað til Hermóður gengur að eiga Háðvöru og þar eð konungurinn var orðinn gamall var hann strax kjörinn konungur. Ólöf fékk tignarlega og góða giftingu.

-- Og lýkur svo þessari sögu.

 

 


Æskan í einum hnút

_40680730_knots_ap203bodyInkar tileinkuðu sér þá tækni að geyma sögu sína í hnútum. Þetta hnútaletur er afar torráðið og enginn skilur það í dag. Til eru mörg hnútaknippi sem geyma sögu Inkanna og bíða þess tíma að einhver snillingur höggvi á gátuna eða finni Rósettastein hnútanna. 

Æska mín er eins og hnútur. Um leið og ég losa um hann rennur sá tími upp fyrir mér eins og þræðir sem liggja í allar áttir og lokast jafn hraðan um leið og ég herði aftur að.

 

bat1bÆskan var alheimur sem stjórnað var af órjúfanlegum lögmálum og konstöntum. Lífið var hrikalega spennandi þrátt fyrir konstantanna því það var verið að þýða rit sem fundust við dauðahafið sem mundu varpa nýju ljósi á allt og þegar höfðu fundist 2000 ára leirker í Bagdad sem voru reyndar rafhlöður sem notaðar voru til að gull og silfurhúða aðra minna verðmætari málma. Að auki var svo til 1500 ára gömul risastór járnsúla í Indlandi sem ekki ryðgaði.

139365169_45a6cc4a7dÍ alheimi æskunnar hafði allt sinn tíma og allir sinn stað. Afi vann í efnalauginni, Amma í Apótekinu (aldrei skorti apótekara eða saltpillur), Mamma van heima og Pabbi í frystihúsinu. Höfnin iðaði af fiski og fólki sem var á leiðinni í Litlu eða Stóru milljón, Jökul, Atlandor, eða HF.  Eyfi var í íþróttahúsinu og heimtaði alltaf að allir tækju kalda, Búkki í musterinu sem kallað var bókasafn, Hermann var skólastjóri sem þú sást bara tvisvar á ári, við setningu og þegar hann kom í stofuna á litlu jólunum til að líta á töfluskreytinguna. Kristján skalli var kennari og Jósafat rak Kyndil þar sem leikarabúntin voru seld og grímurnar fyrir gammárskvöld.

Bubbi rak Nonna og Bubba, Hafsteinn sá um UMFK, Siggi Steindórs um KFK og Helgi S. um skátana. (Því var hvíslað að hann hefði verið Nasisti og við lágum oft í leyni að reyna sjá hann gegnum gluggana heima hjá honum marsera um gólf í Nasista-búninginum en tókst það aldrei)  

Svínó og Mánavöllur voru alltaf uppteknir, á vetrum var skautað upp á vötnum, Kiddi seldi fisk, Sölvi og Kæja í Sölvabúð, Þórður á Dorró og Bjössa og Félagsbíó voru bæði opin á hverjum degi.Heima hjá kanastrákum mátti horfa á sjónvarpið og þar var Vic Morrow úr Combat með beygluðu sígarettuna  svalastur. Næstur á eftir honum var Popeye.

Alþýðubrauðgerðin seldi maltbrauð, Amma Jóns bakaði flatkökur og Diddi bíló var almesti töffarinn. Eitt sinn kom hann inn á Dorra, klæddur rauðum gallajakka og í þröngum hvítum gallabuxum, tók upp litla skammbyssu og miðaði henni á afgreiðslustúlkuna. Einn Palmal, sagði hann skipandi. Stelpan var að míga á sig af hræðslu. Hún setti pakkann á borðið. Diddi , tók hann með annarri hendi, reif hann upp með tönnunum án þess að sleppa miðinu af stelpunni, slóg eina sígarettu upp úr pakkanum og greip hanna með öðru munvikinu. Svo hleypti hann af skammbyssunni og fram úr hlaupinu stóð loginn, sem hann notaði til að kveikja sér í sígarettunni. Hvað er það mikið spurði hann svo.

Roy-Rogers-Trigger-Photograph-C12148201

Pollarnir í bænum voru djúpir og cupachino brúnir, allstaðar risu stillansar upp við við nýbyggingar og allir voru með einhverskonar dellu. Það var leikaradellan, þar sem Bonansa serían var lengst og verðmætust og Logi Þormóðs átti hana alla , hasarblaða della, þar sem Combat blöðin ofan af velli voru vínsælust og Andrés Önd var fyrirlitin, Parísardella þar sem flugbeittum skátadálkum var kastað í stóra-parís, yfir, (stjórnað af stelpum) servéttudella sem bara stelpur höfðu, Cowboy della ala Roy, og skylmingardella ala Prins Valíant og sunddella ala Guðmundur Harðar. Hjóladella,  kassabíladella, kastaladella, trukkadella og brennudella, (saltpétur og sykur). Síðan mátti á milli áhugamálanna stelast upp á flugvélahauga eða völl til að kaupa sugardaddy sleikjóa í sjálfsölunum sem voru náttúrulega toppurinn. Grjótharður karamelluhlunkur sem sem var á við 20 haltu kjafti karamelur.

head4671d72e596e2Fótbolti var ekki della, heldur lífsmáti, þess vegna telst hann ekki með. Á sumrum var spilað frá 10 til 10. Á vetrum var teikað og farið upp á vötn að skauta. Gísli Torfa teikaði víst einu sinni Sandgerðishringinn.

En almesta dellan var hljómsveitardellan. Hún greip um sig eftir að Hljómar urðu frægir. Ég spilað lengi (a.m.k. í tvær vikur) í hljómsveit með Sigga svarta, Jóni bæjó og Bjössa á Sunnubrautinni. Við fengu að æfa, a.m.k. einu sinni á græjurnar hjá Óðmönnum niðrí Ungó og við spiluðum tvisvar opinberlega. Í fyrra sinnið í pásu hjá Bendix á balli upp í Æskulýðsheimili, og seinna hjá Ómönnum sem spiluðu á árshátíð skólans. Í hvorugt skipti tókst okkur að halda lagi en það var í góðu lagi því við vorum í hljómsveit.

Veröldin var í föstum skorðum og allt sem gat, endaði á ó.

 


Hvers virði eru kennarar, svona eftir á að hyggja?

Ef að við viljum sjá og skilja hvort við höfum þroskast eitthvað eftir að við erum orðin fullorðin, ( það er ekkert sjálfgefið að þroski fylgi ára og hrukkufjölda) ættum við að bera saman afstöðu okkar til kennaranna okkar, eins og hún var þegar þeir kenndu okkur og hvernig hún er núna þegar við óskum þess eins að við hefðum verið betri nemendur.

image004Ef þú sérð núna að kennarar eru mikilvægasta starfstétt í heimi á eftir bændum, er þér ekki alls varnað. Ef þú skilur að Þeir einir kunna að láta bókvitið í askana og án þeirra yrði heimurinn aftur miðaldadimmur og án yls, ertu að nálgast þann skilning á kennurum sem eðlilegur getur talist.

Ef þú hvorki sérð eða skilur þetta, skaltu ekki hafa hátt og láta sem ekkert sé. Þetta kemur kannski.

Ég skrifa þessar laufléttu hugrenningar vegna þess að einn af kennurunum mínum kom í heimsókn á bloggsíðuna mína í kvöld.

Mér varð hugsað til hlutskiptis þeirra sem í raun eru ábyrgir fyrir því hvernig við hugsum. Kennararnir mínir komu og fóru, gerðu það sem þeim var falið að gera án þess að ég þakkaði þeim neitt fyrir það sérstaklega. Þeir voru flestir í mínum augum óvinurinn sem stöðugt reyndu að fá þig til að gera það sem þig langaði ekki að gera. Bara að ég hefði farið eftir þeim, en ekki mér. -

Gylfi Guðmundsson var íslenskukennarinn minn í tvo vetur í Gagnfræðaskóla Keflavíkur fyrir margt löngu og ég á honum margt að þakka. Fyrir utan að vera frábær kennari eins og ferill hans ber vitni um, sagði hann mér fyrstur frá Stapadrauginum, útskýrði fyrir mér falið gildi ljóðagerðar, gerði íslensk orð spennandi og felldi mig ekki í málfræði þrátt fyrir slælegan árangur minn á prófunum. Takk fyrir það allt Gylfi. 


Tillögur til umbóta fyrir Alþingi og úrelt flokkakerfi landsmanna

CommunityConsultationOft hef ég velt fyrir mér gagnsleysi flokkapólitíkur og þessari endalausu vitleysu sem skapast af því að stjórnmálflokkar skiptast á um að vera með eða á móti hvor öðrum, eftir því hverjum tekst að komast í stjórn og hverjum ekki. Stjórn og stjórnarandstaða er ríkjandi stjórnarform í flestum lýðræðislöndum heims og mér finnast slíkir  stjórnarhættir vera úreltir og sóun á kröftum þeirra sem vilja vinna samfélaginu heilt en eru hindraðir í því vegna flokkadrátta og pólitísks rígs.

Það væri miklu heilladrýgra fyrir samfélagið að taka upp almennt samráð. Því miður hefur orðið samráð fengið á sig nokkuð slæma merkingu upp á síðkastið hér á landi og er einkum notað um ólöglegt athæfi olíufélaga og gírugra verðbréfabraskara. Það samráð sem ég á við er ákveðin leið eða aðferð til að meðhöndla mál, ná niðurstöðu um þau og sátt um framkvæmd þeirra. 2007-537-consultation-process-24Aug

Ef að til dæmis að  einstaklingar væru kosnir til þings hér á landi, frekar en flokkar,  mundu þingmenn geta tileinkað sér þessa aðferð sem ég er viss um að yrði samfélaginu til mikilla bóta. Þess má geta að hægt er að nota þessar meginreglur samráðs á öllum sviðum þjóðfélagsins, í hjónaböndum og fjölskyldum, félögum og félagasamböndum hverskonar. Allstaðar þar sem tvær eða fleiri skoðanir kunna að koma fram. Kjarninn í samráði er að stuðla að samkomulagi á þann hátt að sameina sjónarmið í stað þess að láta þau valda sundrungu. Það hvetur til ólíkra skoðana, en vinnur gegn valdabrölti sem er svo algengt í þeim kerfum sem annast ákvarðanatöku og við þekkjum best. Reyndar má líta svo á að þar sem skoðununum lýstur saman myndast  oft neisti sannleikans. Grundvallarmarkmið samráðs er einmitt að finna sannleikan, í stað stöðugra málmiðlanna eða hrossakaupa.

Hér kemur samráðsleiðin brotin niður í fjóra megin punkta;

  • Upplýsingum skal safna eins víða og framast er unnt og leita eftir ólíkum sjónarmiðum. Þetta getur falið í sér að leita álits sérfræðinga - svo sem lögfræðinga, lækna eða vísindamanna. En líka getur þetta þýtt að leitað sé upplýsinga utan hefðbundinna sérgreina, eða að reynt sé að gaumgæfa skoðanir einstaklinga í samfélaginu sem eiga sér ólíkan bakgrunn. Mikilvægt er að málsaðilar samþykki að allar fáanlegar upplýsingar liggi fyrir áður en lengra er haldið.

  • Meðan á umræðum stendur, verða þátttakendur að leitast við að vera eins opinskáir og hreinskilnir og mögulegt er, en sýna samtímis fullan áhuga á skoðunum annarra. Persónulegar árásir, úrslitakostir eða fordómafullar staðhæfingar skal forðast.

  • Þegar hugmynd er fram komin,verður hún með það sama eign hópsins. Þó að þessi staðhæfing virðist einföld, þá er þetta þó ef til vill djúptækasta regla samráðs, því að með þessari reglu hætta allar hugmyndir að vera eign einstaklings, hóps eða stuðningsflokks. Þegar þessari reglu er fylgt, eru þær hugmyndir, sem fram koma, af einlægri löngun til að þjóna í mótsögn við hugmyndir sem fram eru bornar af persónulegri metorðagirnd eða flokkadráttum.

  • Hópurinn leitar eftir samhljóða samþykki, en hægt er að taka meiri hluta ákvörðun til þess að fá fram niðurstöðu og taka ákvörðun. Mikilvægt viðhorf til þessarar grunnreglu er sá skilningur að þegar ákvörðun hefur verið tekin, þá er öllum í hópnum skylt að standa í einingu um þá ákvörðun - án tillits til hverjir studdu hana.

CommunityConsultationÍ þessum skilningi getur ekki verið um að ræða neitt „minnihluta“ álit eða viðhorf „andstöðunnar.“  Ef ákvörðun er röng kemur það í ljós í framkvæmdinni - en þó því aðeins að hópurinn, sem ákvörðunina tók, og reyndar samfélagið í heild, standi heilshugar að baki henni.

Fylgið við eininguna tryggir að ef ákvörðun eða áætlun gengur ekki upp, þá er vandinn fólginn í hugmyndinni sjálfri,en ekki í skorti á stuðningi frá samfélaginu eða þrákelnislegu andófi andstæðinga.


Að deyja í Jihad er eins og að vera mettur án þess að hafa borðað

Dscn4763Talað við Talibana í Afganistan.

Það hefur verið stríð í Afganistan nánast stanslaust í tvær aldir. Landið hefur margsinnis verið hernumið á þeim tíma, annað hvort af af Bretum, Rússum eða Bandaríkjamönnum. Orsakir styrjaldanna eru flóknar en staðsetning landsins ein sér á eflaust ríkan þátt í ófriðinum.

Þessar þjóðir eiga landamæri að Afganistan. Pakistan í suðri, Íran í vestri, Turkmensistan, Uzbekistan og Tajikistan í norðri og Kína til norð-austurs. Sem stendur berjast í landinu sveitir Nato ríkja (aðallega Bretlands og Bandaríkjanna) og skæruliðar Talibana og Al-Qaida hreyfingarinnar. Nýlega náði breskur fréttamaður og rithöfundur að nafni James Fergusson tali af nokkrum aðal-vígmönnum Talibana þar sem þeir höfðust við í norður Helmand héraði.

Við skulum gefa James orðið þar sem hann er staddur á meðal þeirra; Abdullah lýsti málstað Talibana svona; "Baráttan gegn innrásarherjunum er okkur trúarleg skylda." - Rétt eins og þeir höfðu á sínum tíma barist við Rússa og feður þeirra og afar þar á undan við Breta. Hann sagðist hafa 700 manns undir vopnum, alla í viðbragðsstöðu til að ráðast á lögreglustöðvar eða lestar bandamanna um allt héraðið, ef skipunin um það kæmi.  Þeir sváfu á daginn og gerðu allt, jafnvel þjálfunina, í skjóli myrkurs. "Nóttin er tími Talibana", sagði hann.

Erfiðast var að eiga við yfirburði Bandaríkjamanna í lofti. "Ef þeir væru ekki til staðar gætum við tekið hálft landið á einum degi," sagði hann montinn. "Það sem við þurfum eru eldflaugar til að skjóta vélarnar niður. En Inshallah (ef Guð lofar) mun svo verða innan skamms."

Talið barst að Helmand héraði og þar sagðist Abdullah digurbarklega ráða yfir 10.000 mönnum og öðrum 2000 sjálfsmorðssprengjumönnum til viðbótar sem "brjóta mundu á bak aftur" Bretana. "Bretar eru ekki slæmir hermenn, þeir eru ekki hugleysingjar. Þeir veina ekki "Ó Guð minn" þegar komið er í fremstu víglínu eins og Ameríkanar gera. En þeir standa heldur ekki kyrrir og berjast."

Afghan-warÍ augum Talibana er það sem er að gerast núna aðeins sagan að endurtaka sig. Þeir höfðu sigrað Breta um miðbik 19. aldar og fyrir þá var þetta stríð "ólokið verkefni".  Þótt það hljómi kannski fáránlega, þá staðfesti þetta viðhorf grun minn um að það væri e.t.v. ekki góð hugmynd að senda hermenn gráa fyrir vopnum til að vinna "hugi og hjörtu" íbúa Helmands héraðs.

Það  kom í ljós að þeir hötuðu Bandaríkjamenn meira en Breta, jafnvel meira en Rússa sem höfðu rústað landinu fyrir 20 árum.  "Rússar börðust einn gegn einum" sagði Abdullah, "en þegar að einn Ameríkani fellur eru heilu þorpin sprengd í loft upp í hefndarskini. Það var auðveldara að bera virðingu fyrir Rússum."

Það ríkir mikil andúð á allri Amerísku hermaskínunni með öll sín langdrægu og fjarstýrðu vopn. Viðhorf Talibana eru forneskjuleg og þeir sjá þá tíma í hillingum þegar orrustur voru unnar af hugrekki og trú frekar en yfirburðum vopnanna. Markmiðið þeirra er ekki endilega að vinna stríðið, heldur að  veita mótspyrnu. "Við erum eiginleg á móti stríði," segir Abdullah. "Það skilar engu nema ekkjum og eyðileggingu. En Jihad er annað. Það er siðferðisleg skylda okkar að berjast gegn hernáminu. Eitt ár, hundrað ár, milljón ár, 10 milljón ár, tíminn breytir engu, við munum aldrei gefast upp. Á dómsdegi mun Guð spyrja; Barðist þú fyrir trú þína?"

taliban7Úr hópnum fyrir aftan mig berst mér önnur rödd;"Það sem við ekki skiljum er hvers vegna þið leyfið ykkur að látast stjórnast eins og strengjabrúður af Bandaríkjunum?" Maðurinn sem spyr er mullah, fræðimaður með nístandi augu sem allir þarna viðstaddir greinilega virtu. "Þið Bretar eru skynsamt fólk", hélt hann áfram, "Það virkar samt ekki skynsamlega að koma hér aftur eftir að hafa verið sigraðir áður eins og þið munið verða sigraðir aftur. Hvers vegna haldið þið að nú verði þetta öðruvísi?"

"Kannski vegna þess að nú erum við betur vopnaðir" svaraði ég. Mennirnir litu hver á annan. "Síðast höfðum við enn minna en þið hlutfallslega" ansaði Abdullah. "Við notuðum sverð og gamla riffla til að vinna ykkur."

"Vitur maður lætur ekki sama snákinn bíta sig tvisvar í sömu holunni" bætti Mullahnn við og allir kinkuðu kolli.

"þetta er ekki sama holan" þráaðist ég við. "Nú horfa hlutirnir öðruvísi við. Við erum ekki hér til að hersetja landið heldur til að hjálpa stjórn landsins og þróa landið efnahagslega."

"Hvers vegna komið þið þá vopnaðir byssum og sprengjum?"

"Ertu að segja að það hefði breytt einhverju ef við hefðum komið óvopnaðir?"

"Auðvitað" svaraði Mullahnn, "þá hefðuð þið verið gestir okkar rétt eins og þú ert gestur okkar núna"

"Hvað með Al-Qaida" spurði ég. Bin Laden réðist á vestrið, hefur það ekki rétt til að leita hans hér?

"Við þekktum Bin Laden þegar hann barðist sem Jihadi gegn Rússum," svaraði mullahnn, "hann er heiðvirður maður."

Var 9.11. heiðvirt?

"Það eru engar sannanir fyrir því að 9.11 hafi verið skipulagt í Afganistan. Píslarvættirnir lærðu ekki að fljúga hér á landi."

afghanistan-woman"Hvers vegna neita Talibanar konum um menntun" spyr ég.

"Það er ekki satt, til eru kvennaskólar reknir af Talibönum"

"En margir kvennaskólar hafa verið brenndir til grunna."

"Sumir skólar hafa verið brenndir" svaraði Mullahnn. "En aðeins þeir sem höfðu vestræna námsskrá þar sem konum var kennt klám."

Þessi staðhæfing hans var fáránleg í ljósi þess að ráðist hafði verið á meira en 1100 skóla eða þeir  brenndir. Það var raunveruleikinn undir stórn Talibana.

Við héldum áfram að tala saman fram undir morgunn eða þangað til að komið var fram undir bænastundina. Mennirnir fóru út og snéru sér í átt til Mekka. Þegar henni var lokið spurði ég Abdullah hvort hann ætti börn.

"Ég á tvo syni, tveggja og fjögra ára," svaraði hann, "en ég sé þá sjaldan. Ég gef þeim ekki föðurást eins og ég gæti því þegar ég verð drepinn verður það auðveldara fyrir þá." Það voru engin svipbrigði að sjá á andliti hans. "Faðir minn, afi minn og lang-afi minn dóu allir fyrir byssukúlu. Ég mun deyja á sama hátt og synir mínir án efa líka. Það er ekkert sorglegt við það. Það er dýrðlegt að deyja í þjónustu Jihad og er það sem allir okkar þrá."

Gapið milli vestræns hugsunarháttar og þeirra var augljóst. Á vesturlöndum er fjölskyldan undirstaða þjóðfélagsins sem við berjumst fyrir að varðveita.  Ekki svo fyrir liðsmanninn Abdullah og hans menn. "Guð gefur okkur börn, þess vegna er skylda okkar að gefa Guði aftur áður enn við gefum fjölskyldu okkar."

"Lífið hefur ekkert bragð án trúar, sama hversu mikið þú etur af því. En að deyja í Jihad er eins og að vera mettur án þess að hafa borðað nokkuð. Það er friður og fullkomnun."

Textinn er að hluta unnin upp úr bókinni A MILLION BULLETS: THE REAL STORY OF THE BRITISH ARMY IN AFHGANISTAN eftir James Fergusson

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband