Færsluflokkur: Menntun og skóli
30.4.2009 | 11:54
Tæknilegt einelti
Það vekur alltaf athygli þegar ofbeldi og hrottaskapur stúlkna gegn stallsystrum sínum kemst í fréttirnar. Það er næsta víst að ofbeldi á borð við það sem átti sér stað upp í Heiðmörk fyrir stuttu, tengist einelti. Reyndar er daglegt einelti meðal unglinga orðið svo hátæknilegt að það er stundum erfitt að átta sig á hvort um raunverulegt einelti er að ræða eða "eðlileg" samskipti unglinga.
Þannig gerðist það fyrir stuttu að Jessie Logan, átján ára skólastúlka í Cincinati í Bandaríkjunum sendi stráknum sem hún var að deita, mynd af sér í dálítið sexý pósu. Slíkt er afar algengt og stundum kallað "sexting". Eftir að þau hættu saman, hóf stráksi að dreifa myndinni meðal félaga sinna og þannig flaug myndin milli nokkur hundruð farsíma á örskammri stundu. Í kjölfarið varð Jessie að þola einelti og stríðni frá skólafélögum sínum og kunningjum sem voru að senda á hana illgjarna texta í tíma og ótíma. Skólayfirvöld reyndu að slá á eineltið með því að láta Jessie koma fram í sjónvarpi og biðjast vægðar. En allt kom fyrir ekki og að lokum hengdi Jessie sig.
Í Bretlandi hefur nýlega verið tekin í gagnið hjálpar-miðstöð sem kallast "Cyber-mentors" fyrir börn og unglinga sem verða fyrir einelti og áreiti í gegnum farsíma og tölvur. Þeir sem á annað borð taka þátt í eineltis-aðgerðum gegn félögum sínum vita að í skólum er reynt að fylgjast með atferli þeirra. Í stað "hefðbundins" eineltis er því meir og meir notast við farsíma, skilaboð og tölvur þar sem hægt er að semda myndefni og rætna texta eftirlitslaust.
23.3.2009 | 21:12
10 áhrifamestu persónur Íslandssögunnar
Margir sem velta fyrir sér hlutunum í sögulegu samhengi hljóta fyrr eða síðar að spyrja sig spurningarinnar; hver er áhrifamesta persóna allra tíma. Á netinu er að finna fjölmarga lista sem gerðir hafa yfir kandídata í þann hóp og margir þeirra eru sammála mati Michaels H. Hart sem skrifaði bókina The 100: A Ranking of the Most Influential Persons in History sem kom fyrst út árið 1978.
Ég ætla ekki að að tjá um þann lista að sinni en þess í stað að þrengja aðeins hringinn. Það væri verulega áhugavert að sjá hverjir íslendingar í dag telja 10 mikilvægustu og áhrifamestu Íslendinga sem hafa lifað hafa frá upphafi Íslandsbyggðar. Nú hvet ég ykkur, lesendur góðir til að leggja höfuðið aðeins í bleyti og láta síðan í ykkur heyra og skrifa niður í röð frá 1-10 nöfn þeirra tíu einstaklinga sem þið teljið að ættu að tilheyra þessum hópi. Það væri gaman ef eins og ein skýringarlína fylgdi hverri tilnefningu. Til að sýna gott fordæmi ríð ég á vaðið og birti minn lista hér að neðan.
(Þeir sem ekki nenna að telja upp tíu telja bara eins marga og þeir vilja)
1. Snorri Sturluson (Fyrir ritverk sín og að varðveita helstu stoðir íslenskrar menningar)
2. Jón Sigurðsson (Fyrir að berjast fyrir sjálfstæði þjóðarinnar)
3. Jónas Hallgrímsson (Fyrir að hafa meira að segja en flestir og segja það betur en allir)
4. Ari Fróði (Fyrir fræði sín og heimilda varðveislu)
5. Guðbrandur Þorláksson Biskup (Fyrir lærdóm sinn og þátt í útgáfu Biblíunnar á Íslandi)
6. Árni Magnússon (Fyrir að bjarga þjóðarverðmætum Íslands frá glötun)
7. Davíð Oddsson (Fyrir að móta mesta velferðartíma landsins fyrr og síðar)
8. Vigdís Finnbogadóttir (Fyrir framlag sitt til aljóðamála og kvenréttindamála)
9. Egget Ólafsson (Fyrir framlag sitt til upplýsingarinnar á Íslandi)
10. Björk Guðmundsdóttir (Fyrir að vera mesta og besta landkynning sem landið hefur átt.)
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.3.2009 | 10:32
Hinn dularfulli William Shakespeare
Besti rithöfundur allra tíma er yfirleitt sagður William Shakespeare. þótt flestir séu sammála um að afrek hans á sviði bókmenntanna óviðjafnanleg er enn umdeilt hver sá maður var í lifanda lífi. William skrifaði þrjátíu og sex leikrit þ.á.m. Hamlet, Macbeth, Lér Konung, Júlíus Sesar og Óþelló.
Að auki reit hann 154 frábærar sonnettur og nokkur lengri ljóð. Þrátt fyrir að Shakespeare hafi verið enskur, er hann fyrir löngu orðin heimspersóna og sá sem hvað oftast er vitnað í af rithöfundum þessa heims sem og leikmönnum. Orðatiltæki og málshættir úr ritum hans eru svo algengir að sumum hverjum er alls ókunnugt um þegar þeir vitna í orð hans.
Hið almenna viðhorf (stundum kallað orthadox) er að höfundurinn William Shakespeare (einnig skrifað Shaxpere, Shakspeyr, Shagspere eða Shaxbere) hafi verið maðurinn sem hét William Shakespere og var fæddur árið 1564 í Stratford á Avon og dó þar árið 1616.
Æviferill hans í stuttu máli var svona; Faðir Shakesperes var um tíma farsæll ullarkaupmaður en lánið lék ekki við hann. William sonur hans ólst því upp við fátækt. Hann gekk í barnaskólann í Stratford og lærði þar latínu og sígildar bókmenntir. Þegar að William varð átján ára gerði hann unga konu, Anne Hathaway, ófríska. Hann gekk að eiga hana og nokkrum mánuðum seinna ól hún fyrsta barn þeirra.
Tveimur og hálfu ári seinna ól Anne tvíbura. Áður en William náði tuttugu og eins árs aldri hafði hann fyrir fimm manna fjölskyldu að sjá. Um næstu sex ár í ævi Williams eru ekki til neinar heimildir. En snemma á árinu 1590 er hann sagður starfa með í leikhópi í London. Honum gekk vel sem leikara og hóf fljótlega að skrifa leikrit og ljóð.
Árið 1559 var hann þegar talinn vera fremstur rithöfunda á Englandi fyrr og síðar. Shakespere dvaldist í London í rúm tuttugu ár og komst fljótlega í álnir þannig að árið 1597 gat hann keypt sér nýtt hús (New Place) í Stratford. Fjölskylda hans dvaldist í Stratford allan þennan tíma og William sá fyrir þeim.
Það þykir einkennilegt að Shakespere gaf ekki sjálfur úr neitt af leikritum sínum en óforskammaðir prentarar sáu að þarna var á ferðinni góð söluvara og stálust til að gefa út verk hans sem oft voru þá ónákvæm og ranglega með farin. Shakespere gerði engar tilraunir til að koma í veg fyrir þennan höfundarstuld.
Árið 1612, fjörutíu og tveggja ára að aldri, hætti Shakespere skyndilega að skrifa, hélt til baka til Stratford þar sem hann bjó í faðmi fjölskyldu sinnar til dauðadags í apríl 1616 og var þá grafinn í kirkjugarði staðarins. Legsteinninn á leiði hans ber ekki nafn hans en nokkrum árum síðar var minnismerki um hann komið fyrir á kirkjuveggnum.
Nokkrum vikum fyrir dauða hans gerði hann erfðaskrá þar sem hann arfleiddi Susönnu dóttur sína að flestum eignum sínum. Hún og afkomendur hennar eftir hennar dag, bjuggu í New Place þar til 1670.
Þess skal gæta að stór hluti af þessum æviágripum sem minnst er á hér að ofan eru byggðar á getgátum þeirra sem aðhyllast "orthadox" útgáfuna um æviferil Shakasperes. Til dæmis eru engar heimildir til um að William hafi nokkru sinni gengið í barnaskólann í Stratford. Engin minnist nokkurn staðar á að hafa verið skólabróðir eða kennari stórskáldsins. Þá ríkir einnig óvissa um leikaraferil hans.
Vandamálið við ævi "þessa" Shakespears, sem margir af "orthadox" ævisöguriturum hans viðurkenna, er að undarlega litlar upplýsingar er að finna um jafn merkan mann. Á tímum Elísabetar drottningar voru til fjölmargir sagnritarar, blaða og bæklingaútgefendur. Segja má að gnótt heimilda sé til yfir tímabilið og milljónir frumrita af ýmsu tagi frá þeim tíma hafi varðveist. Samt hafa aðeins fundist fáeinar heimildir um Sheikspere og engin þeirra lýsir honum sem leik eða ljóðskáldi. Í þau tuttugu ár sem sagt er að hann hafi dvalist í London virðist hann hafa verið næsta ósýnilegur.
Í heimabæ hans Stratford virðist engin hafa vitað neitt um að mesti rithöfundur þeirra tíma bjó á meðal þeirra. Hvorki fjölskylda hans eða aðrir bæjarbúar nefna það að hann skuli hafa verið rithöfundur, hvað þá landþekkt leikritaskáld. Erfðaskrá hans minnist hvergi á ritverk hans eða hefur að geyma nokkur fyrirmæli um meðhöndlun þeirra. Þegar hann lést voru ekki færri en tuttugu leikrita hans enn óbirt.
Það er því ekki nema von að margir hafi komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar séu ekki að finna vegna þess að þeim var viljandi leynt og höfundinum valið nafn sem hjálpaði við að hylja slóð hins raunverulega "Shakespears".
Marga hefur lengi grunað að rithöfundurinn mikili hafi verið einhver allt annar maður sem eingöngu fékk nafn Williams frá Stratford lánað og þeirri blekkingu hafi síðan verið viðhaldið af ættingjum skáldsins þegar að verk þau sem kennd eru við Shakespeare voru fyrst gefin út árið 1623.
Á meðal efasemdamannanna eru afar þekkt nöfn eins og t.d. Mark Twain, Orson Welles, Charlie Chaplin, Sigmund Fraud, Harry A. Blackmun, Charles Dickens, Rlph Waldo Emerson og Walt Whitman.
Margir menn hafa verið kynntir til sögunnar sem mögulegir kandidatar og á meðal þeirra merkismenn eins og heimspekingurinn Francis Bacon.
En líklegastur allra er talin vera Edward de Vere, sjöundi jarlin af Oxford og er í því sambandi talað um Oxford kenninguna. Um ævi þess manns er talvert vitað. Hann var fæddur árið 1550 og var af kunnum og auðugum aðalsættum. Hann hlaut bestu menntun sem völ var á og þjálfun í siðum aðalsins. Hann stundaði útreiðar, veiðar, herlist, hljóðfæraleik og dans. Hann hafði einkakennara sem kenndi honum frönsku og latínu. Hann fékk að lokum gráður bæði frá háskólanum í Cambridge og Oxford.
Engum sem lesið hefur Shakespeare getur dulist að höfundurinn er víðlesinn, vel menntaður og kunnugur vel hirð og hallarsiðum og háttum aðalsins yfirleitt. Edward uppfyllir þær kröfur á mjög sannfærandi hátt.
Edward ferðaðist einnig víða um Evrópu um tíma og dvaldist m.a. í öllum þeim ítölsku borgum sem Shakespeare finnur leikritum sínum stað. Hann var í góðum tengslum við leikhúsin í London og var forsvarsmaður a.m.k. eins þeirra. Hann hafði nægan tíma til að sinna skriftum og góðar tekjur (1000 pund á ári) frá Englandsdrottningu sem reyndar aldrei skýrði fyrir hvað hún greiddi de Vere þau laun.
Shakespeare helgaði nokkur af leikritum sínum þekktum aðalsmönnum sem allir áttu það sameiginlegt að tengjast Edward fjölskylduböndum. Hann lést í plágufaraldrinum sem gekk yfir England árið 1604 og er grafinn í Hackney nálægt þorpinu Stratford sem á þeim tíma var mun stærra en Stratford við Avon.
Einkalíf Edward var með þeim hætti að mörg atvik í lífi hans gætu hæglega veið fyrirmynd af sennum og atburðum sem Shakspeare fléttar inn í leikrit sín.
Svona mætti lengi telja og er það reyndar gert á listilegan hátt í bókinni The Mysterious William Shakspear eftir Charlton Ogburn.
En hvers vegna vildi Edward þá halda því leyndu að hann væri maðurinn á bak við skáldsnafnið? Það kunna að hafa verið margar ástæður fyrir því. Á þessum tíma var það forboðin iðja fyrir aðalsmenn að skrifa ljóð og leikrit ætluð leikhúsunum.
De Vere var þekktur hirðmaður drottningar og fólk hefði vafalaust verið fljótt að draga sínar ályktanir af ýmsu í verkum Shakespeare ef það hefði vitað um tengsl höfundarins við hirðina. þá eru margar af sonnettum skáldsins ortar til ástmeyjar þess. Það mundi hafa orðið eiginkonu jarlsins til mikillar smánar ef nafn höfundar þeirra hefi verið heyrum kunnugt. Að auki voru nokkrar þeirra ortar til elskhuga af karlkyni sem mundi hafa valdið regin hneyksli fyrir jarlinn á þeim tímum.
Hér er ekki kostur á að rekja öll þau rök sem leiða líkur að því að Edward de Vere sé hinn sanni Shakespeare og þessi pistill er líklega þegar orðinn of langur fyrir þennan vettvang. Ég hef sett krækjur við nöfn sumra sem hér koma við sögu og ég hvet áhugasama lesendur til að nýta sér þá til að kynna sér frekar málið um hinn dularfulla William Shakespeare.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.2.2009 | 15:50
Trilljón álfar út úr hól
Hvað er trilljón há tala? Hvernig lítur trilljón af einhverju út, t.d. af álfum út úr hól? ( Sjá mynd)
Íslendingar hafa löngum getað státað sig af því að hér á landi skuli hlutfall þeirra sem geta lesið og skrifað verið með því alhæsta sem gerist í heiminum. En það er eitt að geta kveðið að og dregið til stafs og annað að henda reiður á tölum, sérstaklega nú í seinni tíð þegar að flestar tölur tengdar fréttum, virðast óskiljanlega háar.
Hagfræðingar og stjórnmálamenn leika sér að því að tala í milljónum, milljörðum, biljónum og jafnvel trilljónum eins og að þær tölur eigi að hafa einhverja þýðingu fyrir meðaljóninn og/eða skírskotun til hans reynsluheims. Svo er ekki í flestum tilfellum.
Til að auka enn á ruglinginn er ekki notast við sömu orð um sömu tölur beggja megin Atlantsála því að í Bandaríkjunum er milljarður t.d. nefndur billjón.
Milljón (skammstafað sem mljó) er tölunafnorð sem er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000, sem 106, eða sem þúsund þúsund.
Milljarður (skammstafað sem mlja) er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000, sem 109, eða sem þúsund milljónir.
Í bandarískri ensku er milljarður oftast nefndur billion, sem er einn þúsundasti af billjón.
Billjón er heiti yfir stóra tölu, milljón milljónir, sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000, sem 1012, eða sem þúsund milljarðar.
Í bandarískri ensku þýðir billion milljarður, sem er einn þúsundasti út billjón.
Billjarður er heiti yfir stóra tölu sem má einnig tákna sem 1.000.000.000.000.000, sem 1015, eða sem þúsund billjónir.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.1.2009 | 17:31
Hvað kalla Íslendingar stúlkur sem........
Hvað mundi maður kalla stúlku á Íslandi sem hefði það helst fyrir áhugamál að; drekka sig hauga-fulla af bjór um helgar (eða eins oft og kostur er og helst æla) , öskra, dansa, aka um í hraðskreiðum bílum, segja og hlusta á kjaftasögur, senda skilaboð í síma og láta sér í léttu rúmi liggja hvar hún eyðir nóttunum og í félagsskap við hvern.
Hvað kalla Íslendingar stúlku sem hagar sér, ja, eins og illa upp alinn strákur? Illa upp alda stelpu eða eitthvað annað?
Sín á milli kalla þær hver aðra það sama og strákarnir kalla þær, þ.e. druslur, dræsur, tíkur og tussur. Hér í Bretlandi kallar almenningur þær Ladettes.
Það ber meira á slíkum stúlkum hér enn nokkru sinni fyrr og þær eru að finna í hverju einasta bæjarfélagi. Þær halda ekkert sérstaklega félag við drengina en þær haga sér nákvæmlega eins.
Fjöldi unglinga sem eyðir mestum tíma kvöldsins drekkandi á götum úti hefur aukist svo um munar og mórallinn á meðal þeirra er miklu harðari og metnaðarlausari enn sést hefur. -
Ný yfirriðin kreppa, atvinnuleysi og lánaþurrð, komu eins og staðfestingar fyrir þessa krakka á því að það sem réði framapoti þeirra sem ólust upp á níunda og tíunda áratugnum, sé ekki meira virði en fyllirí og flans.
Strákarnir eru búnir að vera í uppreisn við hugmyndina um "mjúka manninn" all-lengi og stelpurnar nenna ekki lengur að halda einar uppi því sem var eftir af siðmenntaðri hegðun í hópnum.
Strákarnir eru kallaðir Lads (sveina) og stelpurnar Ladettes(sveinkur?) Afar siðmenntuð nöfn yfir frekar lágkúrulega lífsstefnu.
Þeir sem vinna að kynja-jafnréttismálum sjá mikla afturför í hegðun þessara krakka. Dræsutískan er alsráðandi meðal stelpnanna og grín strákanna gengur aðallega út á klúran sexisma. Markmið stelpnanna er ekki miklu hærra en að verða óléttar, komast á bætur og barnabætur og fá bæjaríbúð til umráða, án vinnandi maka til að missa ekki bæturnar.
13.1.2009 | 16:41
Bullað við börnin
Bíum bíum bamba. Hvað er það? Fékk aldrei viðhlítandi skýringu á því svo við krakkarnir bjuggum til okkar eigin. Eftir að teiknimyndin um Bamba frá Disney kom út sungum við hástöfum;
Bíum bíum Bamba út, böðum hann í aur og grút.
Adam átti syni sjö...Hvaðan er sú tala fengin? Í biblíasögunum lærði maður að þeir hefðu verið þrír Kain, Abel og Set og kannski fleiri. En það er hvergi talað um sjö. Kannski kom sú viska frá sama stað og "Jólasveinar einn og átta" þegar allir vita að þeir eru þrettán???
Hún er svo mikil dúlla, var oft sagt um systur mínar. Hvað er dúlla... nákvæmlega? Ég þekkti reyndar konu sem var kölluð Dúlla og hún var ekkert sérstaklega sæt. Alla vega fundust mér systur mínar ekki vera neitt líkar henni.
Fyrst var bara notað "hókus pókus" í öllum galdatrikkum en svo var farið að nota eitthvað miklu skuggalegra eða "fí fa fó"og það var sko alvöru. En hvaðan kemur sá seiður?
Hvers vegna kitlar fólk ungabörn undir hökuna og segir "gúdjí gúdjí"? Hvað er það? Og þegar þeim er lyft upp er sagt "obsasí"???? Stundum hélt maður að fullorðið fólk kynni hreint ekki að tala eins nátttröllin í þjóðsögunum. Það var nógu erfitt að skilja setningar eins og ; "Snör mín en snarpa" , en hvað í ósköpunum er; dillidó og korriró???? Það var aldrei útskýrt.
Og hvernig getur fólk orðið alveg "gaga" og hvers vegna er talað um "húllumhæ" þegar eldra fólk er að skemmta sér en "hopp og hí" hjá krökkum og hvað er eiginlega hvorutveggja?
Svo var fólk alltaf að gera eitthvað með "kurt og pí". Eru það kannski Þýskur leikari og japanskur keisari? Og hvað hefur eiginlega "lon og don" að gera með sjónvarpsgláp?
Hvernig átti að skilja setningu eins og þessa og sögð var af einhleypri frænku minni eitt sinn; "Æ þetta var óttalegt frat. Hann mætti þarna á þetta húllum hæ alveg gaga, tuðaði lon og don í mér að dansa en kvaddi svo bara með kurt og pí og fór".
Þegar talið var saman í leiki og allir voru búnir að reikna út á svipstundu hverjir mundu lenda saman ef notast var við hina einföldu úr-talningarromsu "Ugla sat á kvisti" og sú niðurstaða þótti með öllu óásættanleg, var brugðið á það ráð að nota "Úllen dúllen doff" Allir réttu fram hendurnar og síðan lamdi úrteljarinn á kreppta hnefana og fór með romsuna;
- Úllen dúllen doff
- kikke lane koff
- koffe lane bikke bane
- úllen dúllen doff
- Atte katte nuwa, atte katte nuwa,
- emi sademi sadula misa de.
- Hexa kola misa woate, hexa kola misa woate.
- Atte katte nuwa, atte katte nuwa,
- emi sademi sadula misa de.
- Ake take noa, ake take noa,
- hej missa dej missa dulla missa dej.
- Hexa missa dulla våhda, hexa missa dulla våhda.
- Ake take noa, ake take noa,
- hej missa dej missa dulla missa dej.
Hvaðan þessi ósköp komu var aldrei útskýrt og einhverjar hálfkaraðar kenningar um að hér sé á ferðinni afbökum á latneskri talnaröð finnast mér frekar langsóttar.
Ekki tók betra við þegar manni var kennt það sem kallað var "Gamli Nói" upp á Grænlensku. Ég lærði það svona en þetta er örugglega til í hundrað útgáfum.
Atti katti nóva
atti katti nóva
emisa demisa
dollaramissa dei.
Seta kola missa radó
Seta kolla missa radó
Atti kati nóva
atti katti nóva
Emisa, demisa,
dollaramissa dei.
Það trúðu allir því eins og nýju neti að þetta væri alvöru Grænlenska. Rannveig og Krummi í Stundinni okkar eiga þetta sko á samviskunni, en þau gerðu þetta vinsælt.
Upprunalegi textinn kemur frá Þýskalandi og á að vera saga af Eskimóafjölskyldu sem fer á hvalveiðar. Hann hljómar svona ;
Danska útgáfan er engu minna bull og hljómar svona;
Mér þótti gaman að læra vísur, ekki hvað síst ef þær voru eftir "gaga" kalla eins og æra Tobba.
Þambara vambara þræsingssprettir
því eru hér svo margir kettir?
Agara gagara úra rænum
illt er að hafa þá marga á bænum
En hvað þýða feitletruðu orðin??? Og hvenær varð "Þræsingssprettir" að "þeysingssprettir" og "úra rænum" að "yndisgrænum" eins og margir syngja vísuna í dag og halda það hljómi eitthvað skinsamlegra.
PS: Ég gleymdi alveg; "Upp á stól stendur mín kanna"??? Ekki "Upp á hól stend ég og kanna" sem gæti hljómað nokkurn veginn rökrétt sé einhver að gá til veðurs. Nei, það sem er mikilvægt hér er að uppá stólnum stendur kannann svo litlir guttar eins og ég sem allt af voru á þeytingi gætu haft áhyggjur af því hvað mundi gerast ef hún dytti af stólnum og splundraðist í þúsund mola.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.1.2009 | 16:33
Ókurteisi prinsinn
FYRSTI APRÍL !
SKÁL Í BOÐINU -
EKKI KOMA UPP UM GABBIÐ Í ATHUGASEMDUM FORSÍÐUNNI SAMT . ATHUGASEMDIR VELKOMNAR HÉR FYRIR NEÐAN.
Menntun og skóli | Breytt 31.3.2009 kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
3.1.2009 | 17:03
"Won't somebody please think of the children?"
Það hlýtur að orka tvímælis að bjóða börnum virka þátttöku í mótmælafundum, jafnvel þeim sem ætlað er að vera friðsamlegir.
Engin veit hvenær átök kunna að brjótast út eins og nýleg dæmi sanna.
Þrátt fyrir augljósan ávinning þess að geta sýnt í "verki" að málið varði börnin líka, (sem er þekkt fyrirbæri til samúðar-öflunar í Bandaríkjunum og mörgum ríkjum Evrópu og ein þekktasta klysjan úr þáttunum um Simpson fjölskylduna er einmitt "Won't somebody please think of the children?" ) hefur notkun barna og ungmenna í pólitískum tilgangi á sér afar neikvætt yfirbragð enda hefur það einkum verið stundað í ráðstjórnar og einræðisríkjum.
Meðal þjóða þar sem þjóðfélagslegt róstur hefur orðið að vopnuðum átökum hafa börn, einkum á seinni tímum, verið óspart notuð til átaka.
Enska orðið yfir fótgönguliða "Infantry" er dregið af franska orðinu yfir barn. Tengining varð til vegna þess að yfirmenn vildu að fótgönguliðar þeirra væru undirgefnir og hlýddu boðum yfirmanna líkt og börn. Börn eru vissulega óvanari sjálfstæði og því tilleiðanlegri en fullorðið fólk.
Sameinuðu þjóðirnar áætla að rúmlega 200.000 börn undir fimmtán ára að aldri séu undir vopnum í heiminum í dag. Flest þeirra tilheyra uppreisnarhópum og vígasveitum líkum þeim sem finna má í Eþíópíu, Afganistan og Burma.
Víst er að þrettán ára drengur eða stúlka hefur ekki líkamakrafta á við fullorðin einstakling en þau hafa fullt vald á AK-47 og M-16 léttavopnum.
Það eru sem betur fer engar horfur á því um þessar mundir að þjóðfélagsólgan á Íslandi leiði til svipaðs ástands og gert hefur börn að hermönnum í öðrum löndum heimsins og því hægt að segja að ég máli þessa tengingu við notkun barns á friðsamlegum mótmælafundi, sterkum litum.
En því má svara á móti að í upphafi skyldi endirinn skoða.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
18.12.2008 | 19:45
Sagan af Jósef litla.
Fyrir skömmu birti ég jólasögu fyrir unglinga og nú er komið að börnunum. Sagan er skrifuð fyrir tvær litlar tátur á sínum tíma, en kannski hafa fleiri gaman að henni.
Ysta gistihúsið í bænum iðaði af mannlífi. Ekki bara af kaupmönnum á leið til Jerúsalem, heldur fjölmörgum gestum sem flestir sögðust hafa búið í Betlehem í eina tíð eða aðra.
Það var komið kvöld og Jósef litli sat á tröppunum sem lágu upp á þak hússins og horfði á móður sína bera fram hvert fatið af öðru hlaðið ólífum, döðlum og brauði sem hvarf jafn hraðan ofaní glorsoltna ferðalangana. Í forgarðinum fyrir utan biðu eiginkonurnar í þéttum hóp ásamt börnum sínum og skröfuðu saman. Þær voru nýrisnar upp frá bænum og biðu nú þess óþreyjufullar að eiginmenn þeirra lykju sér af svo að þær gætu líka satt hungur sitt. Börnin stóðu álút og þreytt og einstaka kjökraði um leið og það togaði í yfirhöfn móður sinnar. Jósef hafði aldrei séð jafnmargt fólk á ferðinni fyrr og hann hafði heyrt pabba sinn segja að það ætti að vera í lögum að telja skyldi fólk á hverju ári því þá mundi hann ekki þurfa að kvarta yfir nokkrum sköpuðum hlut. Jósef skildi varla hvað pabbi hans átti við enda aðeins átta ára gamall. En svo hafði málið skýrst talsvert þegar að hann heyrði einn af ferðamönnunum hneykslast á keisaranum í Róm sem hét víst Ágústus og þeirri áráttu hans að vilja vita nákvæmlega hvað margir byggju í heiminum. "Hann gerir þetta bara til að vita betur hve mikið hann getur látið ónytjunginn Heródes skattleggja þjóðina" heyrði hann gestinn segja. Jósef hafði oft heyrt minnst á þennan Heródes. Hann var konungur Gyðinga, en mamma hans hafði samt sagt að Heródes gæti varla verið sannur konungur fyrst hann léti keisarann í Róm ráða yfir sér. Jósef horfði hugfanginn á allt fólkið og velti því fyrir sér hvort hann sjálfur ætti nokkurn tíma eftir að ferðast til ókunnugra staða.
Þegar að leið á kvöldið færðist smá saman ró yfir litla gistiheimilið og gesti þess. Eftir að konurnar og börnin höfðu borðað gekk hver og einn til sinnar úthlutuðu hvílu og matsalurinn var orðinn að risastórri flatsæng þar sem a.m.k. fjórar fjölskyldur sváfu. Jóel faðir Jósefs hafði gott lag á því að koma öllum fyrir og fáir kvörtuðu yfir þrengslunum. Til að nýta allt gistirými til fullnustu hafði hann búið um Jósef litla og móður hans upp á þaki gistihússins. Sjálfur sagðist hann ætla að sofa út við dyr forgarðsins því þannig kæmist enginn hvorki inn né út án þess að hann yrði þess var. Jósef fannst þetta svo spennandi að hann gat varla sofnað.
Stjörnubjartur himininn og svöl kvöldgolan hafði örvandi áhrif á hann. Móðir hans var aftur á móti varla lögst útaf þegar að hún var byrjuð að hrjóta. Jósef horfði upp í himininn og reyndi eftir megni að telja allar stjörnurnar sem hann sá. Allt í einu virtist honum sem ein stjarnan hreyfði sig. Út við sjóndeildarhringinn sá hann hvar ein af stjörnunum virtist sigla hraðbyri í áttina að honum. Gapandi af undrun stóð Jósef á fætur og horfði í forundran á það sem í fyrstu virtist aðeins lítill ljósdepill, verða að skínandi bjartri stjörnu sem honum fannst stöðugt nálgast. Hann var í þann mund að fara að vekja móður sína til að sýna henni þetta merkilega fyrirbæri og leita hjá henni skýringa þegar að hann heyrði að bankað var á dyr forgarðsins. Hann fylgdist með föður sínum rísa úr fletinu við dyrnar og opna. Inn í forgarðinn komu tvær manneskjur, kona sitjandi á asna og maður sem teymdi undir henni. Tal þeirra barst vel í kvöldkyrrðinni til hans;
"Afsakið hversu seint við erum á ferðinni, en við erum búin að leita okkur að gistingu í allt kvöld. Öll gistihús í bænum eru sögð full og þið eruð okkar seinasta von." Sagði maðurinn "Við erum komin alla leið frá Júdeu til að láta skrásetja okkur því hér er ég fæddur."
Jósef horfði á föður sinn klóra sér í höfðinu og horfa vandræðalega á gestina. Skyndilega var eins og hann tæki ákvörðun, byrsti sig og setti hendurnar á mjaðmir sér eins og hann gerði alltaf þegar hann var að þrefa við kaupmennina um vöruverð á markaðstorginu.
"Heitmey þín segirðu, svo þið eruð ekki gift" spurði hann svo með þjósti.
"Hún er heitmey mín" endurtók maðurinn.
"Ja sveiattan" hrópaði faðir hans, "ekki skal mig undra þó ykkur hafi verið vísað á dyr alls staðar annarstaðar. Hvernig dirfist þú að ferðast um með þessa konu í þessu líka ástandi."
Faðir hans benti nú með vandlætingarsvip á konuna sem sat á asnanum. Jósef horfði á konuna og reyndi að gera sér grein fyrir hvað pabbi hans meinti. Hann sá ekkert óeðlilegt við hana annað en hún var svolítið feit.
"Nei" hélt faðir hans áfram, "þið fáið enga gistingu hér". Hann veifaði höndunum og pataði þangað til að gestirnir snéru aftur út um hliðið og lokaði því að baki þeirra.
Jósef fyldist með þeim þar sem hann stóð á þakinu og sá hvar þau stöldruðu við og maðurinn horfði í kringum sig. Konan virtist segja eitthvað við hann og skyndilega snéru þau aftur við og héldu í átt að fjárhúsinu sem byggt hafði verið utaná lítinn helli í fjallshlíðinni skammt frá gistihúsinu. Jósef sá hvar maðurinn leiddi asnann inn í fjárhúsið og skömmu seinna hvar ljósglætu, greinilega frá litlum olíulampa, lagði frá útihúsunum. Jósef velti því fyrir sér hvort hann ætti að fara niður og vekja pabba sinn sem búinn var að hreiðra um sig aftur við forgarðsdyrnar, og segja honum að hinir óvelkomnu gestir væru búnir að koma sér fyrir í fjárhúsinu.
Hann var svo til búinn að ákveða að gera það þegar að hann tók eftir því að stjarnan sem hann hafði séð hreyfast skömmu áður í áttina að sér, var nú komin á fleygiferð og stefndi rakleiðis að honum fannst í átt að sér. Hræðsluópið sem var á leið úr barka hans stoppaði í kokinu á honum því allt í einu staðnæmdist stjarnan, beint fyrir ofan fjárhúsin. Þó að Jósef væri aðeins átta ára og hefði aldrei gengið í skóla vissi hann að svona höguðu stjörnur sér ekki. Ósjálfrátt fylltist hann eftirvæntingu og óseðjandi forvitni og hann vissi að ekkert skipti máli annað en það að komast niður af þakinu og upp að fjárhúsinu því þar væru að gerast undur og stórmerki.
Hann læddist nú niður stigann, niður í dagstofuna, tipplaði á milli umlandi gestanna sem sváfu þar á gólfinu og smeygði sér inn í eldhúsið. Á eldhúsinu var lítill gluggi sem Jósef hafði oft leikið sér að að smjúga í gegnum. Það gerði hann því léttilega og áður en varði var hann kominn að fjárhúsinu. Hann var í þann mund að gægjast innfyrir, á milli gysinna viðarborðanna sem húsið var byggt úr, þegar að hann heyrði mannamál. Jósef snéri sér við og sá sér til mikillar undrunar hvar grillti í nokkra menn sem komu hlaupandi niður fjallshlíðina í myrkrinu. Þeir báru langa stafi og af því vissi Jósef að þeir voru fjárhirðar.
Jósef var viss um að þeir væru þarna komnir til að reka konuna og manninn út úr fjárhúsunum. Þeir höfðu örugglega séð til ferða þeirra og hugsuðu þeim nú þegjandi þörfina. En þegar þeir komu nær sá hann að fjárhirðarnir voru alls ekki reiðir. Þeir voru brosandi og í stað þess að ryðjast inn í fjárhúsið, stóðu þeir eins og varðmenn við hrörlegar dyrnar og töluðust við í hljóði. Þeir virtust engu skeyta um Jósef sem þó var viss um að þeir hefðu séð sig.
Jósef snéri sér því aftur við og kíkti í gegnum rifuna. Í daufri skímunni frá litlum lampa sá hann hvar konan lá á bakinu og maðurinn bograði yfir henni með uppbrettar ermar. Á maganum á konunni var hvítur klútur. Kaldur sviti spratt út á enni Jósefs því honum sýndist maðurinn vera að gera eitthvað hræðilegt og andlit konunnar bar vott um að henni leið ekki vel. Ópið sem staðnæmst hafði í kokinu á honum nokkru fyrr var í þann mund að losna þegar að ennþá fleiri undur og stórmerki gerðust. Í eini svipan hélt maðurinn á barni. Barnið byrjaði að kjökra en þagnaði þegar það var lagt ofaná magann á konunni og hún vafði það í dúkinn sem lá ofaná henni. Gleðisvipur lék nú um andlit konunnar og maðurinn horfði hreykinn á bæði barn og móður. Þegar að hjarðsveinarnir heyrðu barnsgrátinn greip um sig á meðal þeirra mikill fögnuður. Þeir dönsuðu við hvern annan og hlógu. Brátt steig maðurinn út úr fjárhúsinu og bauð þeim að koma inn. Þeir stigu inn í fjárhúsið lotningarfullir og alvarlegir eins og þeir væru að fara inn í bænahús og Jósef sá hvar þeir krupu við jötuna þar sem konan hafði lagt barnið.
Jósef fylgdist með öllu þessu opin eygður og reyndi að átta sig á því sem var að gerast. En hann gat bara ekki fundið neinar sennilegar skýringar á öllu því sem hann hafði séð. Eins og til að rugla hann enn frekar í ríminu fannst honum nú sem hann heyrði bjölluhljóm. Augun ætluðu bókstaflega út úr höfðinu á honum þegar að út úr myrkrinu birtust þrír úlfaldar hver með sína bjöllu um hálsinn.
Reyndar hafði Jósef oft séð úlfalda áður, en aldrei hafði hann séð jafn tígulega búna menn eins og þá sem á baki þessum úlföldum riðu. Jósef varð samstundis ljóst að þetta hlutu að vera ákaflega tignir menn, jafnvel konungar. Um leið og þeir komu að fjárhúsinu létu þeir dýrin leggjast á framfæturna og stigu af baki. Hver um sig tók upp úr farangri sínum einhvern hlut sem var vafinn í dýrindis efni og síðan héldu þeir einn á eftir öðrum inn í fjárhúsið.
Í gegnum rifuna á fjárhúsinu sá Jósef hvar fjárhirðarnir viku fyrir mönnunum þremur sem krupu í þögulli lotningu fyrir framan jötuna og lögðu hlutina sem þeir höfðu tekið með sér til fóta barnsins. Eftir nokkra stund stóðu þeir upp og mæltu nokkur orð til konunnar á máli sem Jósef skildi ekki. Því næst komu þeir út og stigu á bak farskjótum sínum og riðu aftur út í myrkrið.
Jósef stóð agndofa og horfði á eftir þeim. Fljótlega komu fjárhirðarnir líka út og hurfu á braut upp fjallið þaðan sem þeir komu. Stjarnan sem skinið hafði skært yfir höfðum þeirra á, meðan að öllu þessu fór fram dofnaði smásaman og varð ein af óteljandi ljósdeplum á síðnæturhimninum.
Jósef var þess fullviss að eitthvað afar merkilegt var að gerast. Myndi einhver nokkurn tíma geta skýrt öll þessi fyrirbæri fyrir honum. Mundu pabbi hans og mamma trúa einu orði af þessu öllu saman ef hann segði þeim frá því sem fyrir augu hans hafði borið? Jósef sá í gegnum rifuna að maðurinn og konan voru strax farin að búa sig til brottfarar. Mundi hann einhvern tíma komast að því hver þau væru. Og hvað með þetta barn sem Jósef var nú réttilega búinn að álykta að hann hefði séð fæðast. Mundi hann nokkurn tíma heyra frá því aftur.
Jósef snéri sér við og ákvað að halda aftur heim áður enn allir vöknuðu. Hann var varla búin að taka fyrsta skrefið þegar hann heyrði konuna inni í fjárhúsunum segja skýrt og greinilega:
"Jósef minn, geturðu aðeins komið hérna".
Jósef stirðnaði upp. Gat verið að konan hafi vitað af honum allan tímann og ekki bara vitað af honum heldur einnig hvað hann héti? Átti hann að svara.
"Jósef, ertu sofnaður" heyrði hann konuna segja aftur.
Hann var í þann mund að svara þegar að hann heyrði manninn segja:
"Nei María mín ég er ekki sofnaður, ég er bara að horfa á barnið og velta fyrir mér hvað við eigum að nefna hann".
"Hann á að heita Jesús" svaraði konan.
Jósef litla var létt. Nei þau vissu ekkert af honum hugsaði hann. Eins og fætur toguðu hljóp hann til baka að litla gistihúsinu og áður en varði var hann kominn undir brekánið við hlið móður sinna upp á þakinu. Þegar að Jósef vaknaði seint um morguninn var hann ekki viss um hvort atburðir næturinnar hefðu í raun og veru gerst eða hvort hann hafði dreymt þá. Bæði móðir hans og faðir voru svo upptekin við að sinna gestunum sem margir voru á förum, að Jósef fann hvergi tækifæri til að segja þeim neitt um það sem hann taldi sig hafa séð.
Í raun var hann heldur ekki viss hvort hann ætti að segja þeim neitt. Hver mundi trúa að hann hefði séð stjörnu koma fljúgandi og staðnæmast fyrir ofan fjárhúsið, að hann hefði séð fjárhirða dansa af kæti um miðja nótt, að hann hefði séð konu fæða barn og mann taka á móti því, og hver mundi trúa að hann hefði séð þrjá konunga ríðandi á úlföldum koma með gjafir handa barninu. Nei, líklegast var best að þegja. Og svo var þetta kannski bara allt draumur.
Jósef greip brauðhleif úr eldhúsinu og hélt út á götuna fyrir framan litla gistihúsið. Fjöldi fólks streymdi hjá í báðar áttir. Hann settist niður við vatnsbrunninn skammt frá og horfði á iðandi mannfjöldann. Mitt í fjöldanum sá hann þá kunnuglega sjón. Maður kom gangandi í áttina að honum, leiðandi asna og á asnanum sat kona sem hélt á reyfabarni. Jósef stóð upp og beið þar til þau voru komin alveg upp að honum. Jú ekki var um að villast, þetta voru þau. Brosandi gekk hann að konunni sem nú hafði greinilega komið auga á hann líka. Jósef rétti henni brauðhleifinn sinn þegjandi án þess þó að vita hversvegna. Konan tók brauðhleifinn og kinkaði til hans kolli. Og eins og fyrir tilviljun snéri hún barninu í fangi sér þannig að Jósef horfði nú beint í andlit þess. Um leið opnaði barnið augun og geislandi bros þess leið Jósef aldrei úr minni.
12.12.2008 | 13:21
Fjögur spakmæli
Í hvert sinn sem ég heyri spakmæli af einhverju tagi, velti ég því fyrir mér í hvaða samhengi það var fyrst sagt og hvernig það varð síðan fleygt. Það fylgir nefnilega ekki alltaf sögunni en getur jafnvel breytt merkingunni algjörlega. Í enskri tungu eru flest spakmæli eftir rithöfunda og fer William Shakespeare þar fremstur í flokki.
Sum spakmæla hans og orðatiltæki eru orðin svo rótgróin tungunni að margir gera sér ekki grein fyrir að um "spakmæli" er að ræða þegar þeir nota það. Mark Twain er líklega fremsti spakmælahöfundur Bandaríkjanna en spakmæli hans eru nánast auðþekkjanleg á húmornum. Eins er um breska rithöfundinn Oscar Wilde sem skipar annað sæti spakmælahöfunda af bresku bergi.
Hér að neðan eru fjögur spakmæli og lesendur geta spreytt sig á, ef þeir vilja, að giska á hverjir séu höfundar þeirra;
"Hugsunin verður að orðum. Orðin verða að verkum. Verkin verða að vana. Vanin mótar manngerð þína. Gættu því vel að hugsun þinni. Láttu hana spretta af ást sem er fædd af umhyggju fyrir öllum verum."
"Hvert okkar er einvængja engill. Við getum ekki flogið án þess að umfaðma einhvern."
"Ást fær ekki jörðina til að ferðast um geiminn. Ást er það sem gerir ferðlagið þess virði að fara í það."
"Ástin líkt og fljótið mun finna sér nýjan farveg í hvert sinn sem hún mætir fyrirstöðu."