Færsluflokkur: Menntun og skóli
26.1.2011 | 22:54
Vísindamenn í vanda
Vísindi og vísindamenn eiga í vök að verjast. Ástæðurnar eru margvíslegar og miserfitt að ráða á þeim bót.
Netið hefur gert hinar ýmsu upplýsingar sem aðeins vísindamenn höfðu aðgang að, aðgengilegar fyrir almenning og hver og einn getur í dag kynnt sér forsendurnar fyrir niðurstöðum vísindamanna um leið og þær eru settar fram.
Samtímis hefur myndast gjá milli þeirra sem við köllum í daglegu tali vísindamenn og almennings. Það hlutfall almennings sem véfengir hinar ýmsu kenningar vísindamanna er stærra og talsmenn þess öflugri enn nokkru sinni fyrr.
Sérstaklega á þetta við um kenningar þróunarfræðinnar, læknisfræðinnar og veðurfræðinnar.
Í landinu þar sem vísindalegar staðreyndir hafa sama vægi og skoðanir, þ.e. Bandaríkjunum, rengir meira en 40% íbúa landsins að þróun hafi á einn eða annan hátt eitthvað með lífríki jarðar að gera.
Þá ber þess að gæta að meira en 60% íbúa heimsins notast við aðrar skýringar en þróunarkenninguna til að útskýra tilkomu lífsins á jörðinni.
Víða um heiminn rengir fólk niðurstöður mikils meirihluta vísindamanna um að hitnun jarðar sé tengd athöfnum manna. Vísindamenn sjálfir deila einnig um niðurstöður rannsókana á þessu sviði. Þótt yfirgnæfandi meirihluti vísindamanna sé fylgjandi þeirri skoðun að hitnunin sé af mannavöldum, láta sumir sér ekki segjast.
Virtir vísindamenn sem ætíð mundu, ef þeir fengu krabbamein, fara að ráðum sem grundvölluð eru á áliti meirihluta lækna heimsins, hika ekki við að rísa upp gegn meirihlutanum, þegar hitnun jarðar og þáttar mannsins í því ferli, kemur til umræðu.
Flestir vísindamenn eru líka sérstaklega lélegir í að koma skoðunum sínum á framfæri. Þeir kunna til verka í rannsóknarstofunum en þegar kemur að almannatengslum, eru þeir óttalegir stirðbusar. -
Stundum mætti líka halda að sumir þeirra hafi meiri áhyggjur af orðspori sínu en nokkru öðru, því þeir þora ekki að leggja nafn sitt við eitt eða neitt sem gæti talist umdeilanlegt.
Sköpunarsinni fær bætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2011 | 01:21
Arfleifð Árna Johnsen og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar
Árni og félagar hans á þingi sem leggja fram þessa þingsályktunartillögu eru greinilega hræddir við að gildunum sem þeir fengu sem vegarnesti út í lífið úr skólum landsins, sé ógnað.
Ég efast ekki um að þetta mál er þeim persónulega mikilvægt, því Þessi kristnu gildi sem þeir vilja varðveita, fleyttu þeim í gegnum lífið, gerðu þá að gildum stoðum í þjóðfélaginu.
Þeir vita líka betur en margir aðrir, að ekkert er betri sönnun fyrir nauðsyn þess að viðhalda arfleifð kristni í skólastarfinu en gott fordæmi þeirra sem kristilegt menningarstarf hefur náð að móta.
Þetta vita Árni Johnsen og Guðlaugur Þór Þórðarson og þess vegna bjóða þeir nú fram krafta sína til að tryggja að komandi kynslóðir verði örugglega ekki meinað um samskonar siðferðismótun og þeir fengu.
Eða, kannski er þetta alls ekki svona.
Þegar maður lítur yfir nöfn flutningsmanna þessarar tillögu, dettur manni helst í hug að það sem raunverulega vakir fyrir þessu fólki með þessari tillögu sé að gera yfirbót.
Það er vissulega hluti af kristinni arfleifð og gildum, að sjá eftir því sem þú hefur gert rangt og gera síðan yfirbót með einhverju góðverki eða líferni sem Guði er þóknanlegt.
Kannski er það málið að bæði Gulli og Árni reiða sig nú á þau orð Krists að Það verði mikill fögnuður á himnum þegar einhver iðrast þess sem hann hefur gert rangt?
Við skulum vona að þannig sé málið í pottinn búið. Ef ekki gætu þeir félagar verið í slæmum málum, alla vega gagnvart Kristi. Hann segist nefnilega hata hræsnara.
Starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristinni arfleifð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
29.10.2010 | 23:59
Skynsöm afstaða til umdeilds máls
Mikið hefur verið rætt og skrifað um tillögur Mannréttindaráðs og menntaráðs Reykjavíkurborgar um bann við trúarstarfi innan grunn- og leikskóla borgarinnar. Hér að neðan er að finna bréf sem mér finnst sýna skynsama afstöðu til þessa umdeilda máls.
ANDLEGT ÞJÓÐARRÁÐ BAHÁÍA Á ÍSLANDI
THE NATIONAL SPIRITUAL ASSEMBLY OF THE BAHÁÍS OF ICELAND
Öldugata 2 P.O. Box 536 121 Reykjavík
Sími/Telephone: + 354 - 567-0344 Netfang/E-mail: nsa@bahai.is
Mannréttindaráð og Menntaráð
Ráðhús Reykjavíkur
Tjarnargötu 11
101 Reykjavík
Sent í tölvupósti á formenn nefndanna
margret.kristjana.sverrisdottir@reykjavik.is og
oddny.sturludottir@reykjavik.is
Einnig sent til valinna fjölmiðla
27. október 2010
Efni: Fræðum börnin en tryggjum sjálfstæði skólastarfsins
Nýlegar tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur um að banna trúarstarf innan grunn- og leikskóla borgarinnar hafa vakið sterk viðbrögð og heitar umræður. Andlegt þjóðarráð baháía á Íslandi vill af því tilefni koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri fyrir hönd íslenska baháí samfélagsins:
Sjálfstæði skólastarfs í landinu verður að tryggja með öllum ráðum. Það getur engan veginn talist eðlilegt að aðilar utan skólanna eigi sérstaka kröfu á að starfa innan þeirra.
Á hinn bóginn er mikilvægt að skólar njóti óskoraðs frelsis til að styðja við menntun og upplýsingu nemenda sinna, þar á meðal með almennri fræðslu um helstu trúarbrögð og trúarhugmyndir mannkyns.
Í slíkri fræðslu gæti til dæmis falist að bjóða talsmönnum trúar- og lífsskoðunarhópa að kynna trú sína og skoðanir auk vettvangsferða nemenda til þess að kynnast starfi þeirra. Slík fræðsla víkkar ekki aðeins sjóndeildarhring barnanna heldur getur einnig komið í veg fyrir þá fordóma sem fáfræði um fjölbreytilegan andlegan arf mannkynsins elur af sér.
Mikilvægt er að börnum líði vel í skóla og í ýmsum tilvikum getur það orðið til að auka gagnkvæman skilning og umburðarlyndi að nemendurnir fái tækifæri til að kynnast sérstökum aðstæðum einstakra skólafélaga sinna, hvort heldur þær lúta að trú þeirra, þjóðerni eða fötlun, svo dæmi séu tekin. Kynning, heimsóknir eða vettvangsferðir ættu að vera sjálfsagður liður í þeirri viðleitni skólans.
Þekking á trúarbrögðum mannkyns flokkast ótvírætt undir almenna grunnþekkingu á menningarsögu heimsins. Sé vel staðið að kennslu um trúarbrögð, heimspeki og lífsskoðanir almennt ætti hún einnig að vinna gegn fordómum og stuðla að skilningi á ólíkum leiðum til að vinna með lífssýn og þroska. Börn og unglingar ættu að fá að kynnast sem flestum hliðum trúar- og lífsskoðana en skólayfirvöld verða sjálf að setja rammann utan um þá kynningu og eiga frumkvæði að henni.
Með kveðju,
______________________________
Róbert Badí Baldursson
ritari Andlegs þjóðarráðs baháía á Íslandi
Sjálfstæði skólastarfs verði tryggt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt 30.10.2010 kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
7.6.2010 | 13:10
Af hverju er hann svona óhamingjusamur?
Þegar að börn fá ekki það sem þau vilja reyna þau oft foreldra sína með því að grenja og láta illa. Sum jafnvel reyna að skálda upp einhverjar sögur til að réttlæta hegðun sína. Góðir foreldrar eru fljótir að átta sig "heimtufrekjunni" og ef þeir bregðast rétt við eru börnin einnig fljót að venja sig af þessu. Í uppeldinu er þetta nauðsynlegt stig til að börn læri sjálfsaga og tillitssemi.
Það er frekar sjaldgæft að þessi bernskubrek fylgi fólki óheft yfir á fullorðinsárin, en kemur þó fyrir. Þegar það gerist einkennist framkoma fólks af frekju og yfirgangssemi. Ef að viðkomandi nær að koma sér fyrir flokkspólitík þar sem fólki ber skylda til að sýna hollustu við flokkinn, túlka margir þennan ágalla sem festu og röggsemi. -
Fullorðið fólk sem ekki fær það sem það vill og er haldið þeim persónugalla að geta ekki látið neitt á móti sér, er yfirleitt líka óhamingjusamt. Ekki bara vegna mótlætisins sem það verður að þola heldur einnig vegna þess að jafnvel þótt það fái vilja sínum framgengt, finnur það fyrir sama tómleikanum inni í sér og áður.
Þegar að pólitíkusar í pontu alþingis reyna að ná sér niðri á andstæðingi sínum með fölskum áburði sem síðan er rækilega hrakinn en þeir þráast samt við með barnslegri heimtufrekju er það merki um slíkt tómarúm í sálinni.
Vænd um spillingu og lygar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.9.2009 | 00:46
Er hamingjan að vera fögur, gáfuð, fræg og rík?
Allir eru sammála um að hamingja er það eftirsóknarverðasta sem lífið getur haft upp á að bjóða. Íslendingar hafa til margra ára verið sagðir hamingjusamastir þjóða í fjölda fjölþjóðlegra skoðannakannana sem gerðar hafa verið. -
Hvort þetta er enn satt um okkur í ljósi hremminganna sem núna ganga yfir þjóðina veit ég ekki, en jafnvel þeir sem búa við skelfilegar aðstæður í lífi sínu þurfa ekki endilega að missa sjónar af þessu megin markmiði lífsins.
Anna Frank orðaði þetta svo í dagbók sinni; "Við lifum öll með það fyrir augum að verða hamingjusöm; líf okkar eru öll frábrugðin en samt eins."
Í Bandaríkjunum t.d. er rétturinn til að leita að hamingjunni verndaður í stjórnarskránni þótt að hún eða aðrar stjórnaskrár heimsins geti ekki tryggt að fólk finni hana. Flestir hefja leitina að hamingjunni með því að reyna að uppfylla langanir sínar, hverjar sem þær kunna að vera. Þær langanir eru fyrst mótaðar af náttúrulegum hvötum okkar og síðan af uppeldinu og samfélaginu.
Þar sem samfélagið er mettað efnishyggju verður hún megin leitarsvæðið.
Við komumst smá saman upp á lag við að raða saman eins mörgum "ánægjustundum" og mögulegt er og köllum það hamingju. Að verða fögur, gáfuð, fræg og rík eru aðalmarkmið leitarinnar.
En um leið og ánægjustundirnar þrjóta, jafnvel þótt aðeins verði hlé á þeim, finnum við fyrir tómarúminu þar sem raunveruleg varanleg hamingja á að vera. -
Neyslusamfélagið er bein afleiðing þessarar tegundar hamingjuleitar.
Þessi leit tekur venjulega enda þegar eitthvað sem við héldum að væri alger forsenda hamingju okkar er frá okkur tekið.
Í bókmenntum og annarri menningararfleyfð heimsins er að finna fjölda hamingju uppskrifta, enda hefur hamingjan verið stór hluti af viðfangsefnum helstu hugsuða heimsins. Niðurstöður þeirra er jafnan á einn veg, þótt þær séu orðaðar á mismunandi hátt.
Þær kenna að hamingjan sé grundvölluð á andlegri hegðun hvers einstaklings. Með "andlegri" er átt við þær mannlegu dyggðir sem hvert og eitt okkar býr yfir. -
Hvort sem við erum rík eða fátæk og hvert sem starf okkar er eða staða, munum við ekki fanga hamingjuna nema að við leggjum rækt við þessar dyggðir og að gjörðir okkar endurspegli þær.
Hér kemur hluti af hamingju-uppskrift sem mér finnst ein sú besta sem ég hef séð og ber þessum hugrenningum mínum gott vitni.
Vertu örlátur í velgengni og þakklátur í mótlæti. Vertu verðugur trausts náunga þinna og mættu þeim með bjartri og vingjarnlegri ásjónu. Vertu sjóður hinum fátæku, umvandari hinum ríku, sá sem svarar kalli hinna þurfandi og varðveittu helgi heits þíns. Vertu sanngjarn í dómum þínum, varkár í tali þínu. Sýndu engum manni óréttlæti og öllum mönnum auðmýkt.
Í þessum stutta texta koma eftirfarandi dyggðir fyrir;
Örlæti, þakklæti, heiðarleiki, vingjarnleiki, miskunnsemi, hugulsemi, hugrekki, orðheldni, sanngirni, hófsemi, auðmýkt.
Takið eftir hvernig þessar dyggðir eiga vel við þá sem vilja þjóna meðbræðrum sínum og ekki þá sem vilja drottna yfir þeim.
29.9.2009 | 02:04
Kiðlingur með mannshöfuð
Flestir Íslendingar eru með meðvitaðir um að í mörgum Afríkulöndum ríkir mikil fáfræði meðal almennings. fátækt, sjúkdómar, tíðar styrjaldir og samfélagsleg upplausn valda því að sum staðar ríkir jafn mikil fáfræði og algeng var í Evrópu á miðöldum.
Stundum rata inn í heims-pressuna fréttir sem eru svo talandi fyrir menntunarleysið og hindurvitnin sem af henni leiða, að fólk hlýtur að staldra við og spyrja hvort hér sé virkilega alvöru frétt á ferðum.
Í nokkrum dagblöðum heimsins birtist í gær frétt af fæðingu kiðlings í Lower Gweru í Zimbabve, sem sagður hafa mennskt höfuð.
Þorpsbúar sögðu samkvæmt fréttinni að kiðið sem reyndar dó tveimur tímum eftir fæðingu, hafi verið svo hræðilegt að jafnvel hundarnir hafi ekki viljað koma nálægt því. Af því að það leit svo hræðilega út var hræið síðan brennt.
"Þetta er sannkallað kraftaverk",er haft eftir Themba Moyo einum þorpsbúanum.
Eigandi geitarinnar hringdi á lögreglu og myndir voru teknar af dauðum kiðlingnum sem litu út fyrir að vera illa vanskapað kið eða hrein og klár fölsun.
"Þetta er í fyrsta sinn sem geitin mín gerir þetta. Ég á fimmtán geitur og flestar eru afkomendur þessarar geitar. Hún hefur oft fætt tvíbura" er haft eftir eigandanum.
Zimbabwe Guardian fylgir þessari frétt eftir með annarri grein og segir;
Zimbabwe Guardian skýrir frá að landsstjórinn í Midland, Jason Machaya sé þeirrar skoðunar að skepnan sem fæddist sé afleiðing þess að maður og geit höfðu samræði.
"Þetta er mjög alvarlegt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé svo illan hlut. Þetta er mjög skömmustulegt" þusaði í honum.
"Höfuðið er mannshöfuð en restin af líkamanum geit. Það er auðsætt að fullorðin maður er ábyrgur. Ill öfl hafa fengið hann til að missa sjálfstjórnina. Við heyrum oft um tilfelli þar sem maður hefur samræði við dýr en þetta er í fyrsta sinn sem úr verður vera með mennskt útlit"
Og eins og þessi saga sé ekki nógu fáránleg bætir einhver blaðamaðurinn þessu við fréttina;
Hálfur maður, hálf geit, skepnur eins og skógarpúkar og satýrar eru vinsælar í grískri og rómverskri goðafræði. James McAvoy lék hinn fræga skógarpúka herra Tumnus í stórmyndinni sem byggð var á sögu CS Lewis Narnia krónikurnar.
21.9.2009 | 03:16
Hvers vegna eru ekki allir dagar friðardagar?
,Við vitum ekki hvort Talibanar ætla sér að hafa Friðardaginn í heiðri eða ekki. Þessi dagur snýst ekki um stjórnmál heldur mannúð."Þar mælti Aleem Siddique fulltrúi Sameinuðu þjóðanna orð að sönnu. Hann veit sem er að stjórnmál geta ekki snúist um mannúð. Í heimi stjórnmálanna ráða allt önnur gildi og sjónarmið.
Í dag lifir allt mannkynið í skugga styrjalda og það hefur gert það svo lengi að það á erfitt með að ímynda sér hvað friður mundi hafa í för með sér. Flestir gera sér grein fyrir að styrjaldir valda þjáningum og að friður mundi binda endi á þær þjáningar. Sú skilgreining felur í sér að þar sem ekki geisar styrjöld ríki friður. En er það virkilega svo?
Stríð hefur ætíð verið bein afleiðing þess að mannleg samskipti rofna og mannréttindi eru látin lönd og leið. Við erum samt að byrja að gera okkur grein fyrir því að enginn vinnur stríð og að virða mannréttindi felur í sér mun meira en að "þola" hvert annað. Að virða mannréttindi verður að þýða annað og meira en að loka augunum fyrir því sem skilur okkur að. Það verður að skila okkur þeim skilningi að fjölbreytileikinn sé æskilegur og uppspretta bæði styrks og fegurðar.
Og jafnvel þótt okkur lærist að meta fjölbreytileika að verðleikum, er það aðeins áfangi á leið okkar til að koma á fullum mannréttindum í heimi þar sem ekki er að finna minnsta vott af andúð á milli íbúa hans. Að ná því markmiði sem þýðir í raun sameining mannkynsins, verður örugglega ekkert auðveldara en að enda styrjaldir í heiminum.
En fyrst verður að leggja af stað í þessa mikilvægu óvissuferð. Sameining mannkyns verður að vera hið eiginlega markmið friðar. Sú leið mun án efa útheimta raunir og mistök en líka lærdóm. Ef að við komum á friði í þeim tilgangi að ryðja leið nýjum tíma einingar mannkynsins þar sem mannréttindi verða virt að fullu, verður sá friður varanlegur.
Og hvernig einingu á ég þá við? Til að byrja með á ég við einingu í hugsun sem mun leiða til einingar í gjörðum. Það felur í sér að ekki nægir lengur að vera sammála um að vera ósammála.
Samráð verður að leiða til samþykkta sem eru grundvallaðar á sannleika, frekar en málmiðlunum við hann og til þess sem er til heilla fyrir alla fjölskyldu mannskynsins frekar en fáeina meðlimi hennar. Í kjölfar þeirra samþykkta verður að taka ákvarðanir um hvernig þeim skal framfylkt.
Og hver eru fyrstu skrefin á þessari leið?
Þau taka til róttækra breytinga á afstöðu okkar til; skólamála þ.e. kennarastéttarinnar og barna okkar, vistfræðilegrar nýtingar náttúruauðlinda, matvælagerðar og dreifingu matvæla, borgar og dreifbýlis- menningar, Þjóðernis, kynþátta, trúarbragða og kynjanna, upplýsingaöflunar, vísinda og samfélagsfræða.
Um þau mun ég fjalla í næsta pistli.
Enginn hernaður á Friðardaginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.9.2009 | 16:36
Breskir unglingar drekka meira og eignast fleiri börn
Á Bretlandi viðgengst meiri drykkjuskapur á meðal barna og unglinga en víðast hvar annarsstaðar. 33% krakka undir sextán ára aldri viðurkennir í nýlegri alþjóðlegri könnun að hafa dottið í það a.m.k. tvisvar sinnum sem er miklu hærra en meðaltalið í öðrum OECD löndum seme er 20%. Í Bandaríkjunum er hlutfallið undir 12%.
50% af fimmtán ára breskum stúlkum segjast hafa drukkið a.m.k. tvisvar sem er 10% hærra en gengur og gerst meðal drengja.
Barneignir meðal unglingsstúlkna í Bretlandi eru einnig miklar. Aðeins í Tyrklandi, Mexíkó og Bandaríkjunum eru þær algengari. Til breskra barna rennur þó mun stærri hluti af skattfé almennings en víðast hvar annarsstaðar.
Að þessu leiti virðist ekki vera beint samband milli góðrar hegðunar og hamingju barna og hversu mikið er í þau eytt af skattpeningum. Hvert barn í Bretlandi fær rúmlega til sín 90.000 pund sem er 10.000 pundum minna en meðaltalið í OECD löndunum og fjórum sinnum minna en börn í Bandaríkjunum fá af almannafé.
Dawn Primarolo sem er Barnamálaráðherra í Bretlandi að við þessu mundi ríkisstjórnin bregðast og efna til mikillar auglýsingarherferðar á næsta ári, gegn víndrykkju.
1.6.2009 | 23:34
Hafa rétt til að vera jafn óhamingusamar og karlar
Að skoða samtímann í ljósi viðtækra og marktækra skoðanakannana, gefur okkur m.a. tækifæri til þess að sjá hvaða áhrif ný hugmyndafræði hefur á samfélagið.
Fyrir 1970, áður en kveinréttindabaráttan náði hámarki á vesturlöndum, fór fram viðamikil skoðanakönnun sem sýndi að konur álitu sig öllu jafna, umtalsvert hamingjusamari en karlar.
Á síðustu 30 árum hafa tækifæri kvenna til að velja hvort og hvenær þær kjósa að stofan til fjölskyldu og barneigna, til að ganga menntaveginn og til að láta að sér kveða í stjórnmálum og atvinnulífi, aukist til muna. Jafnrétti kynjanna hefur verið lögfest í vel flestum löndum vesturheims.
Niðurstöður nýrrar bandarískrar könnunar sem einnig náði til Evrópulandanna og kynnt hefur verið undir nafninu "Mótsögnin um minnkandi hamingju kvenna" sýnir að hamingja kvenna er nú til jafns við það sem gengur og gerist á meðal karla.
Þeir sem stóðu fyrir könnuninni viðurkenna að konur séu í dag líklegri til að segja hug sinn allan en þær voru þegar viðmiðunarkönnunin var gerð um 1970. Þannig er mögulegt að niðurstöður þeirrar könnunar hafi verið skekktar af tilhneigingu kvenna á þeim tíma, til að látast vera sáttar við sinn hlut, vegna þess að almenn viðhorf styrktu þá ímynd kvenna að þær ættu helst heima í eldhúsinu, uppteknar af barnauppeldi.
Ein af spurningunum sem vakna þegar rýnt er í þessa nýju könnun er hvort þau karllægu gildi sem svo greinilega ráða lögum og lofum í samfélaginu og konum er boðið að tileinka sér, hafi þær áhuga á að neyta jafnréttis síns, séu yfirleitt til þess fallin að auka hamingju fólks.
2.5.2009 | 11:48
Sagan í hausnum
Hausmyndin mín er máluð af tveimur kínverskum listamönnum og gerð í stíl ítalskra endurreisnarmálara. Á henni er a finna 100 frægar persónur úr mannkynssögunni auk listamannanna sjálfra. Til skamms tíma var hausmyndin á blogginu mínu mín tekin innan úr þessari mynd en sett inn í fullri stærð fyrir viku.
Með því að smella á myndina hér fyrir neðan og síðan aftur á myndina sem þá birtist, færðu upp stækkaða mynd þar sem öll smáatriði koma greinilega fram. Þú getur athugað hversu margar persónur þú telur þig þekkja á myndinni.
Ef þær eru færri en 20 er komin tími til að þú rifjir lítillega upp mannkynssöguna. Ef Þú kannast við 20-60 ertu gjaldgengur í hvaða spurningakeppni sem er og ef þú þekkir 61-100 ertu snillingur. Ef þú þekkir nöfn allra þeirra 102 andlita sem á verkinu sjást ertu annar þeirra sem málaðir verkið.
Þegar þú ert búin að spreyta þig á kunnáttu þinni getur þú fengið allar upplýsingar um hverjar þessar persónur eru, með því að færa bendilinn yfir andlit þeirra á myndinni sem er að finna HÉR
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)