Færsluflokkur: Menntun og skóli
12.7.2008 | 22:18
Fíla blogg
Ef þið hafið áhuga á að sjá eitthvað virkilega ótrúlegt þá ættuð þið að líta á þetta myndband frá Thailandi. Listafíll
Fílar hafa í mörg ár heillað mig og eru án efa mín uppáhalds dýr. Þeir eru líffræðilega afar flóknar verur og sumt í hegðun þeirra hefur aldrei verið að fullu skýrt. Tennur þeirra eru svo verðmætar eins og kunnugt er, að þeir eru í útrýmingarhættu. Þeir eru eina dýrið sem ég veit um sem heilt þjóðland hefur verið nefnd eftir. (Fílabeinsströndin) Þeir hafa verið notaðir sem stríðsvélar og þungavinnuvélar og voru Indverjum og öðrum Asíuþjóðum þarfari þjónn en hesturinn var þeim nokkru sinni.
Ég fann á blog.is blogg frá bloggvinkonu minni henni Steinunni Helgu Sigurðardóttur sem fílaunnendur gefðu gaman af að líta á, þ.e.a.s. þeir sem ekki hafa þegar gert það.
Svo fann ég eftirfarandi fróðleik á vefnum;
Þrátt fyrir ákveðin líkamleg einkenni eru fílar hvorki náskyldir flóðhestum né nashyrningum. Þvert á móti er skyldleika að leita á allt öðrum stöðum í dýraríkinu.
Fílar nútímans lifa einir eftir af fjölda skyldra tegunda sem voru útbreiddar í stórum heimshlutum. Auk afrísku og indversku fílanna eru nú aðeins eftir tveir hópar tegunda þessara dýra. Annars vegar eru sækýrnar, sem skiptast í fjórar tegundir, sem allar hafast við í hitabeltinu í karabíska hafinu og við strendur Afríku og Ástralíu. Sækýr geta orðið allt að tvö tonn. Rétt eins og fílarnir eru sækýrnar hægfara jurtaætur. Skyldleikann má m.a. sjá á afar sérstæðri tannskipan. Karldýr sumra tegunda hafa t.d. stuttar skögultennur, samsvarandi skögultönnum fíla.
Það má sem sagt á sinn hátt skynja skyldleikann milli fíla og sækúa. Hitt kemur meira á óvart að bjóða skuli afrískum kletta- og trjágreifingjum á þetta ættarmót. En aftur er það sérstæð tannskipan sem afhjúpar skyldleikann. Framtennurnar hafa þróast í stuttar skögultennur sem að vísu standa ekki út úr munninum. Jaxlarnir eru stórir og flatir. Ættartengslin hafa líka á síðustu árum verið staðfest með greiningu á erfðaefni, bæði í frumukjörnum og orkukornum. Þær rannsóknir sýna sameiginlega forfeður.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.7.2008 | 22:34
Enn um fimm merkustu konur sögunnar
Menntun og skóli | Breytt 11.7.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2008 | 23:45
Andadansinn og Undað Hné
Eftir 1890 þegar að ljóst var að hvíta manninum hafði tekist að sölsa undir sig lendur Indíána í Norður Ameríku fyrir fullt og allt, flæma þá sjálfa frá lendum sínum í sérlendur eða hreint út drepa þá, varð til skammvinn andspyrnuhreyfing meðal Indíána, einskonar dauðkippur menningar þeirra sem var í þann mund að hverfa. Hreyfingin var kölluð Andadans. (Ghost Dance) Upphafsmaður Andadansins hét Wovoka og var af ættbálki Paiuta Indíána. Hann fékk einhverskonar vitrun eða köllun sem hann birti Indíánaþjóðum samnkomnum á þjóðamóti í Nevada í eftirfarandi bréfi.
Nevada, Ágúst 1891
Þegar þið komið heim verðið þið að dansa stanslaust í fimm daga. Dansið í fjórar nætur og að morgni fimmta dag baðið ykkur í ánni og yfirgefið síðan heimili ykkar. Allir verða að gera það sama.
Ég Jack Wilson (Nafn sem hvítir gáfu Wovoka) elska ykkur öll og hjarta mitt er fullt af gleði vegna gjafanna sem þið gáfuð mér. Þegar þið komið heim mun ég gefa ykkur góð ský sem mun láta ykkur líða vel. Ég mun gefa ykkur góðan anda og ég mun gefa ykkur góðan farða. Ég vil að þið komið til baka eftir þrjá mánuði, einhverjir frá hverjum ættbálki. Þetta árið mun verða talsverður snjór og einhver rigning. Í haust mun verða slík rigning að annað eins hefur aldrei sést.
Afi segir; þegar að vinir þínir deyja, máttu ekki gráta. Þú mátt ekki meiða nokkurn mann eða gera nokkrum mein. Gerið ætíð rétt. Ég mun gefa ykkur fullnægju í lífinu. Þessi ungi maður á góðan föður og góða móður.
Segið ekki hvíta fólkinu frá þessu. Kristur gengur nú á jörðinni. Hann kom líkt og ský. Hinir dauðu hafa risið. Ég veit ekki hvenær þeir verða hér, kannski í haust eða með vorinu. Þegar tíminn kemur munu verða meiri veikindi og allir verða ungir aftur.
Ekki neita að vinna fyrir hina hvítu og ekki valda neinum vandræðum á meðan þú dvelur á meðal þeirra. Þegar jörðina skekur, óttastu ekki. Hún mun ekki skaða þig.
Ég vil að þið dansið á sex vikna fresti. Gjörið ykkur glaðan dag, dansið og gjörið mat svo allir megi matast. Baðið ykkur síðan í vatni. Þetta er allt. Þið munuð fá góð orð frá mér einhvern tíman aftur. Ekki ljúga.
Wovoka.
Þegar að þessi boðskapur fór að breiðast út breyttist hann fljótlega í meðförum Indíána og ekki hvað síst á meðal hvítra. Útkoman var sú að Wokova var álitin boða endalok heimsins, jörðin mundi farast og ný jörð rísa úr sæ ekki ólíkt því sem lýst er í hinni íslensku Völuspá. Hvíti maðurinn mundi farsat undir fimm mannhæða háu aurflóði og Indíánarnir mundu erfa jörðina. Buffalóarnir og Antilópurnar mundu snúa aftur og forgengnir forfeður þeirra mundu ganga jörðin aftur sem yrði frí af sjúkdómum, sulti og ofbeldi. Paradís á jörð eins og margir kristnir sáu hana, nema að í henni voru engir kristnir, aðeins Indíánar.
Sagt var að sýn Wovoka hefði birst honum þegar sólmyrkvi gekk yfir landið og jafnframt þjáðist hann af mikilli hitasótt. Til þess að þessi heimsendi gæti átt sér stað yrðu Indíánar að hreinsa sig af öllu illu, (sérstaklega alkahóli hvíta mannsins) og iðka heiðarleika og frið á milli sín sjálfra innbyrðis og líka gagnvart hvíta manninum.
Þeir sem stjórnuðu sérlendum Indíána vítt og breitt um Bandaríkin stóð ógn af þessum nýfundna eldmóð Indíána. Þrátt fyrir að boðskapur Indíána dansins hafi verið að grunni til friðsamlegur sáu þeir hann sem "villtan og brjálaðan" og kvöddu til hermenn til verndar landnemum í grennd við sérlendurnar. Þegar að Sitjandi Uxi einn af virtustu leiðtogum Indíána og mikil stríðshetja gerðist andadansari, leist hernum ekki á blikuna. Þegar þeir reyndu að handtaka Sitjandi Uxa, nokkru eftir að hann hafði tekið þátt í sínum fyrsta andadans, veitti hann mótspyrnu og var drepinn umsvifalaust. Fylgjendur hans flýðu til Pine Ridge Sérlendunnar undir þaðan sem þeir vörðust hernum undirstjórn Stóra Fótar höfðingja. Þar voru þeir handteknir og færðir til Undaðs Hnés.
Daginn eftir komuna þangað eða 29. Desember 1890 fyrirskipaði herinn að Indíánar skyldu afhenda öll vopn sín til eyðileggingar. Guli Fugl græðari hvatti til andspyrnu og sagði að skyrtur andadans-manna væru nú orðnar skotheldar. Svarti Sléttuhundur og menn hans trúðu þessu og neituðu að afhenda vopn sín. Hleyptu þeir af riffli í gáleysi sem varð til þess að riddaraliðið hóf skothríð á Indíánabúðirnar. Á skömmum tíma feldu þeir 250 Indíána, þar á meðal fjölda kvenna og barna.
Tveimur vikum eftir fjöldamorðin við Undað Hné gáfust allir andadansarar sem eftir voru upp fyrir hernum. Flestir Indíánar sáu þá andadansinn sem síðustu tilraun sína til að bjarga menningu sinni og frelsi. Í dag eru kenningar Afa gamla Wovoka, varðveittar meðal Peyote Indíána.
Þessu greinarkorni fylgja nokkrar myndir, bæði málverk eða teikningar af því hvernig hvíti maðurinn ímyndaði andadansinn og svo ljósmyndir sem sýna hvernig hann fór fram í raun og veru.
Ég rifjaði upp þessa atburði þegar ég horfði á tónleika Bjarkar og Sigurrósar (á netinu) og fannst allt í einu einu að ég skildi vonlausa stöðu náttúrusinna gagnvart auðvaldi og efnishyggju.
18.6.2008 | 16:46
Ísland kristið og löngu numið fyrir landnám...
Þegar að Rómarveldi liðaðist í sundur hófust upplausnartímar í Evrópu. Það var óöld og vargöld og kristni sem hafði verið að festa rætur sínar víðast hvar átti undir högg að sækja. Segja má að eini öruggi gríðarstaður kristinna á þessum tíma í Evrópu hafi verið á Írlandi en þaðan átti kristni eftir að rísa úr öskunni og breiðast aftur út um álfuna. -
Á þessum tíma var algengt að írskir guðsmenn tækju sér bólfestu á eyðieyjum og öðrum stöðum sem ekki voru fjölfarnir. Þeir byggðu sér grjótkofa sem flestir voru með sama sniði og sjá má enn í upprunalegri mynd t.d. á eyjunni Iona. Guðsmenn þessir voru kallaðir Papar á Bretlandseyjum jafnt sem hérlendis. Um það vitna nafngiftir eins Pabbey í Ytri Hebrides, Papa Vestray, ein af afskekktustu eyjum Orkneyja, Papa Stour á Shetlandseyjum og svo auðvitað Papey í Álftafirði.
Fyrir skömmu sá ég rústir svipaðra bigginga í Cornwall og þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði séð teikningar af bústöðum Papa eða Kolla á Kollabúðum í Þorskafirði. Teikningarnar voru í bók eftir Árna Óla og vildi Árni meina að enn væru þessar rústir sjáanlegar að Kollabúðum. Víst er að Papar voru einnig kallaðir Kollar af landnámsmönnum og eru fjölmörg örnefni á Íslandi sem rekja má til þeirra.
(Nú væri fróðlegt vita ef einhver vissi til hvort þessar minjar séu til eða/og hafi verið rannsakaðar.) Meðal þeirra eru;

Má af þessu ætla að kristnir menn (Kollar, Papar) hafi verið hér all-fjölmennir löngu fyrir daga Ingólfs Arnasonar og félaga.
Eitt er víst að Hrafna-Flóki fann ekki landið fyrstur manna eins og gjarnan er kennt í skólabókunum.
Árið 330 fk. sigldi landkönnuður að nafni Pytheas frá Marseilles í Frakklandi í norðurátt til að kanna þau lönd sem þar kynnu að liggja. Hann sigldi í kring um Bretlandseyjar og ritaði um þá ferð í bók sem nú er týnd en hann kallaði "Um hafið". Hann héllt síðan í norðurátt þar sem hann fann eyju sem hann kallaði Thule eða Ultima Thule. Eyjan var í sex daga siglingu frá nirstu strönd Bretlands og einn dag frá "enda heimsins". Það er talið líklegt að þessi eyja hafi verið Ísland.
Þá eru einnig til á Írlandi sagan af heilögum Brendan (Navigatio Brendani), sem fæddur var 484. Hann er sagður hafa siglt með fjölda lærisveina til að heimsækja trúbræður sínar á fjarlægum eyjum. Sagan segir að hann hafi fundið "Paradís" sem gæti hafa verið meginland Ameríku. Ólíklegt er að hann hafi komist þangað án þess að rekast á Ísland á leiðinni.
Í aldarfarsbók þeirri, er Beda prestur heilagur gerði, er getið eylands þess er Thile heitir og á bókum er sagt, að liggi sex dægra sigling í norður frá Bretlandi; þar sagði hann eigi koma dag á vetur og eigi nótt á sumar, þá er dagur er sem lengstur. Til þess ætla vitrir menn það haft, að Ísland sé Thile kallað, að það er víða á landinu, er sól skín um nætur, þá er dagur er sem lengstur, en það er víða um daga, er sól sér eigi, þá er nótt er sem lengst. En Beda prestur andaðist sjö hundruð þrjátigi og fimm árum eftir holdgan dróttins vors, að því er ritað er, og meir en hundraði ára fyrr en Ísland byggðist af Norðmönnum.
Elsta örugga heimildin um tilvist Íslands er landfræðirit (De mensura orbis terrae) eftir Dicuilus, írskan munk, frá árinu 825, þar sem staðháttum hér er lýst þannig að það getur einungis átt við um Ísland. Ari fróði segir frá því í Íslendingabók að hér hafi verið fyrir á Íslandi er það var numið, keltneskir menn, kristnir sem hann kallar papa. Þeir vildu ekki dvelja hér með heiðnum mönnum og fóru því af landinu hið bráðasta. Ari segir þá hafa skilið eftir bækur írskar, bjöllur og bagla og hafi þannig mátt ráða að þeir væru írskir einsetumenn.
Margir hafa bent á að ólíklegt sé að einsetumenn skilji eftir sig það sem þeim þótti helgast, jafnvel þótt þeir hafi haft hraðan á að forða sér, nema að lífi þeirr hafi hreinlega verið ógnað.
Engar fornleifar hafa fundist sem styðja frásögn Ara en nokkuð er um örnefni tengd Pöpum sem óbeint staðfesta tilvist þeirra hér á landi auk örnefnana sem tengjast Kollum.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
7.6.2008 | 00:26
Myndbirtingar af Múhameð eru einelti og háð...
Margir spyrja; hversvegna verða múslímar svona reiðir þótt gert sé smá grín að Spámanni þeirra Múhameð. Það má spyrja á móti, hversu oft má gera grín að því sem einhverjum er heilagt án þess að það verði að einelti og háði sem er reyndar bannað í íslenskum lögum og flestum Evrópuþjóða.
Kannski skilja vesturlandabúar illa viðkvæmni múslíma vegna þess að eftir aldalanga legu í súr efnishyggjunnar, sjá þeir ekki hvernig nokkuð yfirleitt getur verið svo "heilagt" að ekki megi hafa það í flimtingum.
Fæstir vesturlandabúar nenna eða hafa áhuga á að kynna sér málavöxtu. Þeir eru meira og minna ómeðvitaðir um að fyrsta verk Múhameðs eftir að Mekkabúar höfðu að mestu viðurkennt hann, var að ryðja helgidóm þeirra af skurðgoðum. Allar hans gjörðir og allar hans kenningar miðuðu að því að beina athyglinni frá honum sjálfum sem persónu og að Guði. Aðeins Guð er Guð síendurtekur hann. Hann leggst gegn þríeindar kenningu kristinna manna, Því aðeins Guð er Guð. Hann bannar að haldið sé upp á afmæli hans, því ekkert er verðugt að minnast utan Guðs. Hann bannar gerð allra líkneskja og myndgerða af Guði og sjálfum sér, því Guð hefur enga mynd og hann sjálfur er aðeins Spámaður Guðs.
Þessi bönn eru ástæðan fyrir að nánast öll list Íslam er skrautritun eða mynsturgerð. Þau eru ástæða þess að máninn sem þiggur ljós sitt frá sólinni er trúartákn Íslam (máninn einn of sér er ekki uppspretta ljóss heldur endurspeglar ljós sólarinnar). Siðmenning Íslam er gegnsýrð af þessum áherslum Múhameðs og meginkenningu að til sé aðeins einn Guð.
Enn í dag heldur allur hinn Íslamski heimur þessi boðorð Múhameðs og mörgum múslímum finnst undarlegt að finna að á vesturlöndum er ekkert talið svo heilagt að ekki megi grínast með það. Þeir eiga erfitt með að átta sig á því að þrátt fyrir að eitt af boðorðunum 10 sem bæði kristnir og Gyðingar segja lög Guðs, segi skýrt að ekki skuli leggja nafn Guðs við hégóma, er það lagaboð löngu dáið dauða hinna þúsund skurða. -
Aðeins tvennt má ekki grínast með á vesturlöndum. Það vekur með fólki svo mikla sektartilfinningu að hlusta eða horfa á grín gert um helför gyðinga og barnaníð að það er nánast ekki gert. Fólk fyllist enn réttlátri reiði sé það gert þó talsmenn óhefts málfrelsis reyni hvað þeir geta til að höggva úr þeim múr líka.
Þannig mætast austur og vestur, tvíburarnir sem aldrei áttu að hittast, í alþjóðlegum landamæralausum fjölmiðlum og horfa skelfingu losnir framan í hvern annan.
Annar þarf að sanna að málfrelsið er honum mest virði af öllu frelsi og gerir það með að ráðast á það sem hinum er helgast af öllu helgu.
Það verður aldrei sagt um Íslam og múslíma að þeir bregðist við af þroska á þessum skilningskorti okkar. Ástandið menntamálum í hinum stríðshrjáðu og afturhaldsömu landa Íslam þar sem viðbrögðin við áreiti fjölmiðla vesturheims hafa verið hvað hörðust, gefa ekki ástæðu til að hægt sé að búsat við að almenningur þar hugsi sem svo; að sá vægi sem vitið hefur meira. - Nokkur orð klerks um að nú sé nóg komið, vesturlönd vaði um lönd múslíma og ræni þá olíu þeirra og jarðgasi, reyni að innleiða yfir þá ómenningu sína með alþjóðavæðingunni og nú staðfesti þeir fyrirlitningu sína á öllum múslímum með því að birta myndir af Múhameð og vegi um leið að því sem þeim þyki helgast, verða til þess að æstur múgurinn ræðst á næsta sendiráð og efnir til fánabrennu. Eitthvað verður að breytast ef ekki á að fara verulega illa. Ég er að vona að til að byrja með verði það hugsunarháttur minn og þinn.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (118)
20.5.2008 | 23:55
Hversu almenn er kynþátta-andúð á Íslandi?
Fyrir rúmlega 15 árum kom til landsins þekktur bandaríkur rithöfundur sem fjallað hefur mikið um fordóma og kynþáttahatur í bókum sínum. Hann hélt því fram að Ísland væri í faldi fordómaskeflu sem mundi steypa sér innan fárra ára. Ég man að mér fannst þessi ágæti maður gera helst til mikið úr hlutunum.
Eftir að hafa fylgst náið með umræðunni um útlendinga (Pólverja aðallega) á Íslandi og nú síðast umfjölluninni um flóttakonurnar frá Írak, verð ég að viðurkenna að rithöfundurinn kann að hafa haft rétt fyrir sér.
Sé bloggheimur þverskurður af Íslenskri alþýðu, er ekki annað að sjá en að kynþáttaandúð sé almenn og rótföst á Íslandi. Íslendingar hafa lengst af getað frýjað sig öllum ákúrum í þá átt að þeir séu þjóðernissinnar og kynþáttahatarar í skjóli þess að fáir aðrir en hvítir kristnir menn hafa byggt landið eða fengið hér inni. Þessi staðreynd villti um fyrir mér þegar ég stóð á því fastari fótunum að á Íslandi væri kynþáttaandúð lítil og risti grunnt þar sem hún fyndist. - Ég var líka viss um að Íslendingar mundu njóta fjarlægðarinnar frá meginlandinu á þann hátt að þeir mundu læra af mistökum annarra þjóða og getað þannig brugðist rétt við þegar hið óhjákvæmilega gerðist, að Ísland tæki sinn verðuga sess meðal þjóða sem ættu fjölmenningarlegt samfélag. En því miður, svo virðist ekki vera.
Þótt ég sé enn viss um að meiri hluti Íslendinga sé gott og grandvart fólk hefur vofa kynþáttaandúðar náð að glepja nógu marga til þess að rödd hennar heyrist nú oftar og hærra svo jafnvel íslenskar stjórnmálahreyfingar með kosna þingmenn í sínum röðum taka undir þessa rödd.
Ég held að það sé tími til kominn fyrir alla þá sem telja að kynþáttaandúð og fordómar séu ekki eitt af því sem við viljum að börn okkar þurfi að alast upp við að skora á yfirvöld að beita sér fyrir því að alvöru jafnréttisfræðsla fari fram í skólum landsins, þar sem eining mannkynsins er áréttuð og almenn mannréttindi allra manna verði innrætt börnunum.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)